SAGT VAR, SATT ER. SITTHVAÐ UM STJÓRNMÁL

Marxistar sögðu að Vesturlönd arðrændu þriðja heiminn. Samt er satt að skjólstæðingar Bandaríkjanna, Suður-Kórea og Tævan risu úr örbirgð til allsnægta og hundruð milljónir manna annars staðar í þriðja heiminum hafa orðið bjargálna á síðustu áratugum. Það bendir gegn arðránskenningunni.

Frjálshyggjumenn sögðu að hnattvæðingin myndi leiða til friðar og farsældar, frelsis og lýðræðis hvarvetna á hnettinum. Hin ýmsu lönd myndu sérhæfa sig í þeirri efnahagsvirkni sem þeim hæfði best, öllum til hagsbóta.

Samt er satt að einræðisöflin sækja á og heimsfriðurinn er í hættu. Sérhæfni Rússa og Kínverja eru notuð af einræðisherrum þeirra til að þrýsta á önnur lönd. Þeim einum til hagsbótar. Þetta bendir gegn kenningunni um að hnattvæðingin efli frelsi, frið og lýðræði.

Vinstrimenn sögðu að velferðarkerfið eitt gæti bjargað almúganum frá örbirgð. Samt er satt að í Sviss er harla lítið um örbirgð þótt landið verði seint kallað velferðarríki.

Frjálshyggjumenn sögðu að umfangsmikið lýðræði ógnaði markaðsfrelsinu. Samt er satt að hið markaðsfrjálsa Sviss hefur eitt umfangsmesta lýðræði sem um getur.

Vinstrimenn (ýmsir frjálshyggjumenn líka) sögðu að fjölþjóðasamfélagið væri öllum til hagsbóta. Samt er satt að það er samskiptakostnaður (e. transaction cost) af slíku samfélagi þar eð það kostar fé að samhæfa aðgerðir margvíslegra þjóða. Og hví er svo mikið ofbeldi meðal innflytjenda í Svíþjóð?

Frjálshyggjumenn sögðu að áætlunarbúskapur væri leiðin til fátæktar og alræðis. Samt er satt að Suður-Kórea og Tævan ráku takmarkaðan áætlunarbúskap með mjög góðum efnahagsárangri og tóku upp lýðræði áður en þeir hættu þeim búskap.

Best er að trúa sem fæstu þegar stjórnmál eru annars vegar.Gjalda líka varhug við því sem ég segi satt vera.


Alþjóðaremban og Íslandssagan

Lengi tröllreið þjóðremba íslenskri sagnfræði. Allt illt í sögu þjóðarinnar var útlendingum að kenna, ekki síst Danakóngum. En nú er öldin önnur, aþjóðarembungar hafa tekið yfir alla umfjöllun um söguna.

Allt sem miður fór er íslenskum bændadurgum að kenna, konungurinn í Kaupmannahöfn var göfugmenni sem vildi þjóðinni vel.

Þessi sýn á Íslandssöguna er orðin  að trúarbrögðum þjóðarinnar. Ekki síst vegna sjónvarpsþátta Baldurs Hermannssonar um vistarband og bændur. Nú síðast mun Bogi Ágústsson hafa boðað þessa visku í útvarpsþáttum.

Valdhafar og vistarband

Vandinn er sá að alþjóðarembusagnfræðin er ekki hótinu skárri en þjóðrembuútgáfan. Ein vinsæl alþjóðrembukenning er sú að stórbændur einir hafi borið ábyrgð á hinu illræmda vistarbandi.

En  þeir hefðu  ekki komist langt með að tjóðra almúgann ef dönsk yfirvöld hefðu ekki lagt blessun sína yfir bandið illa.

Vistarbandið kemst á vegna dóms sem danski hirðstjórinn Diðrik Píning kvað upp, að áeggjan íslenskra stórbænda (skv t.d. Eimar Laxness og Pétri Hrafni Árnasyni 2015: 555-557).

Spurt er: Af hverju var  ekkert eiginlegt vistarband á þjóðveldisöld, þótt eitthvað í þá veruna hafi þegar verið til?  Getur verið að stuðning konungsvalds hefði þurft með til að tjóðra landslýð með þessu óþverrabandi?

Hvað um það, með Píningsdómi var erlendum aðilum bönnuð veturseta á Íslandi.

En voru þessir aðilar kaupmenn í nútíma skilningi? Fyrir daga nútíma samfélagshátta voru engin klár skil milli kaupskapar annars vegar, sjórána og annarra gripdeilda hins vegar, kannski var bannið að einhverju leyti tilraun til að koma í veg fyrir slíkt.

Ekki má skilja orð mín þannig að ég neiti því að kaupskapur og fiskveiðar útlendinga á ensku öldinni hafi ekki haft neinar góðar hliðar.

Sjálfsagt hefur þessi nærvera útlendinga verið að mörgu leyti af hinu góða. En án atfylgis konungsvaldsins hefði verið illmöguelgt að hindra vetursetu þeirra.

Athuga ber að Danakonungur var stærsti landeigandi Íslands í byrjun átjándu aldar, hann átti  25% jarðnæðis, 50% ef kirkjujarðir eru teknar með en þá var kirkjan orðin ríkisfyrirtæki.

Hann hafði því mikinn hag af vistarbandinu enda var vistarband í Danmörku til 1854  (ég veit ekki hve stór hluti jarðnæðis á Íslandi voru konungsjarðir á dögum Pínings, ekki má útiloka að hann  hafi haft þær í huga er hann kvað upp dóminn illræmda).

Á þessum tíma (í byrjun sautjándualdar) voru aðeins 5% íslenskra bænda sjálfseignarbændur.

Prófessor Jón Viðar Sigurðsson segir að á þjóðveldisöld hafi tveir af hverjum þremur þeirra verið sjálfseignarbændur, aðeins þriðjungur norska bænda hafi átt eigin jörð (Jón Viðar er líklega sá fræðimaður sem mest veit um íslenska og norska miðaldasögu) (Jón Viðar 2008).

Hvers vegna hverfur íslenska sjálfseignarbændastéttin á tímum hins erlenda konungsvalds?

Mér hefur dottið í hug að spinna ögn við staðhæfingu Jóns Viðars:  Eftir að landið varð norskt skattland hafi íslenskir höfðingjar ekki lengur þurft að öðlast hylli bænda með gjöfum og öðru slíku (Jón Viðar leggur mikla áherslu á þennan þátt þjóðveldisins).

Þá hafi aðalmálið verið annars vegar að öðlast hylli konungs eða standa saman gegn honum, í stað þess að keppa um vinsældir bændadurga.

Ég spinn við þessa staðhæfingu með eftirfarandi hætti: Brögð hafi verið að því að gjafir og stuðningur höfðingja kæmi í veg fyrir  að bændur yrðu að bregða búi, eftir að þær gjafir hurfu hafi líkurnar aukist á því að þeir færu á hausinn.

Í ofan á lag urðu bændur nú að greiða konungi skatt en þeir voru að heita skattfrjálsir á söguöld. Til að gera illt verra hafi afkoma þeirra versnað þegar litla ísöld hófst á fjórtándu öld. 

Hún hefur leikið þá enn verr en bændur í nágrannalöndum þar eð mjög dró úr rekaviði vegna þess að trjám fækkaði víða vegna kuldans. Bændur í öðrum löndum voru ekki háðir rekavið. Skortur á honum og kólnunin almennt kunna að hafa sett fjölda á hausinn. 

Landeyðing hefur gert illt verra, æ meira jarðnæði varð örfoka. Hennar vegna hafa margir smábændur að bregða búi og ráða sig í vist. 

Ekki batnaði ástandið á sveinaöld (15du öldinni) þegar vopnaðir ribbaldar undir stjórn stórbænda réðust á fátæka bændur og rændu þá landi. Það landrán er alfarið á ábyrgð innlendra höfðingja, á sveinaöld var konungsvaldið veikt.

Reyndar var sveinaöldin öld upplausnar og óreiðu m.a. vegna þess að stofnanir þjóðveldisins voru horfnar, stofnanir konungsvaldsins enn veikar. Kannski hefði engin sveinaöld runnið upp ef landið hefði haldið sjálfsstæði sínu.

Þó ber þess að gæta að ástandið var litlu skárra á Sturlungaöld enda voru stofnanir þjóðveldisins við það að leysast upp.

Nefna má að fram að Sturlungaöld voru íslenskir höfðingjar ekki valdameiri en svo að þeir gengu til allra algengra verka á býlum sínum, voru bændur.

Lénshöfðingjum Evrópu hefði þótt það sérkennilegt, þeir gerðu ekkert annað en berjast og kúga ánauðuga bændur.

Öll vötn féllu  að þeim sama Dýrafirði, sum vötn áttu sér uppsprettu í konungsgarði, aðrar í stórbændajörðum, þær þriðju á lendum veðurguða.  Með þessum hætti hafi smám saman kvarnast úr sjálfseignarbændastéttinni.

Ef svo ólíklega hefði viljað til að landið hefði haldið sjálfsstæði sínu, t.d. undir forystu íslensks jarls eða konungs, má velta fyrir sér hvort jafn illa hefði farið fyrir bændum.

Lítum á það þegar Danakonungur lét ræna íslensk klaustur vegna siðskiptanna. Allt góssið var flutt til Danmerkur. Hefði innlendur, lúterskur,  konungur rænt klaustrin má ætla að auðurinn hefði ekki flust úr landi, jafnvel nýst til fjárfestinga sem alþýða manna hefði ef til vill  haft einhvern smáhag af.

Meðan ég man: Í bók sinni um Tormodus Torfæus (Þormóð Torfason) segir Bergsveinn Birgisson að danskir embættismenn í Noregi hafi farið illa með landslýð, rænt og ruplað og flutt þýfið heim til Danmerkur. Hann gefur í skyn að íslenskir embættismenn Danakonungs hafi verið skömminni skárri (Bergsveinn Birgisson 2021).

Spurt er: Ef Danastjórn var svona almennileg við Íslendinga af hverju kom hún á einokunarverslun?

Talið um mildi Danajöfurs verður hlægilegt í ljósi þess að bændaánauð var í Danmörku, þrælahald í nýlendunni í karabíska eyjahafinu og norskir aþýðumenn notaðir sem fallbyssufóður.

Var slíkur kóngur líklegur til að fara Íslendinga mjúkum höndum?

Bæjarmyndun

Mikið hefur verið hjalað um það hvers vegna ekki urðu til bæir á Íslandi og lýsa alþjóðarembungar víginu á hendur stórbænda, þeir hafi hamast gegn bæjarmyndun.

Gallinn við þessa staðhæfingu er sá að þeir, sem henni trúa, vita ekki að á miðöldum og í upphafi nýaldar urðu bæir og borgir yfirleitt aðeins til vegna þess að konungar og öflugir höfðingjar stofnsettu þá/þær.

Líklega m.a. vegna þess að vald þurfti til að koma í veg fyrir að sveitavargurinn eyðilagði þær. Talið er að téður vargur hafi rústað sænska víkingabæinn Birka.

Ósló var stofnsett af Haraldi konungi harðráða, Björgvin af Ólafi konungi kyrra. Enginn íslenskur höfðingi á þjóðveldisöld var nógu öflugur til að stofnsetja bæi, það er því fásinna að kenna höfðingjavaldinu um þéttbýlisskort á Ísland.

Auk þess virðast höfðingjar hafa sætt sig við þá myndun sjávarþorpa sem átti sér stað 1200-1400 (um þessa myndun, sjá Sigurð Snævarr 1993: 15, hann nefnir ekki viðbrögð höfðingja).

En  erfitt hefði orðið að setja stærri  bæi á laggirnar vegna viðarskorts. Miðaldabæir voru að miklu leyti viðarkyns.

Danakonungur stofnsetti fjölda bæja í Noregi, t.d. Fredrikstad, Kristiansand, Kristiansund og Halden. Hann hefði líklega getað sett á laggirnar smábæi á Íslandi og verndað sjávarþorpin hefði hann séð sér hag í því.

Íslenskir stórbændur hefðu aldrei þorað að stugga við bæ eða þorpi sem naut verndar konungsvaldsins. En sem stærsti jarðeigandi landsins hefur Danakonungur haft lítinn hag af bæjarmyndunum.

Eða skyldi það vera tilviljun að einokunarverslunin í boði konungs ýtti undir landbúnað, ekki fiskveiðar? Hvað fiskveiðar varðar þá gleymist oft hve lítinn við Íslendingar höfðu, lítið annað en rekadrumba. 

Eftir miðja elleftu öld eiga þeir ekki lengur skip heldur verða að húkka far til útlanda með norskum kaupmönnum. 

Vegna viðarleysis  var erfitt að smíða báta og þar með örðugt að stunda fiskveiðar, litla ísöldin hefur gert það enn erfiðara en ella.

Það var því ekki bara yfirgangur stórbænda sem veikti stöðu útgerðarinnar heldur líka viðarskortur og mögulegir hagsmunir konungsvaldsins.

Mikilvægt er að hafa í huga að ef konungur hefði lagt það á sig að stuðla að bæjarmyndun þá hefði það veikt vistarbandið því hjú hefðu getað fengið vinnu í bæjunum.

Hvað sem því líður er bæjarmyndun ekki eins heilög og sumir halda. Fyrir daga nútímasamfélaga voru bæir og borgir pestarbæli þar sem fleiri dóu en fæddust. Talað er um þversögn McNeills, bæir héldu íbúafjölda sínum eða uxu þrátt fyrir þetta  (skv Algaze 2018: 23–54).

Alla vega var skoðun  sveitalubbanna á borgarlífi ekki úr lausu lofti gripin, það hafði ýmsa ókosti. En þetta breyttist með nútíma tækni og læknavísindum, tækni og vísindi hafa gert borgir lífvænlegar.  

Velta fyrir sér hvort innlendur konungur hefði séð sér hag í að stuðla að bæjarmyndunum. Hann gæti hafa getað  gert bandalag við bæjarbúa gegn sveitahöfðingjum eins og konungur víða í Evrópu gerðu í byrjun nýaldar.

Alþjóðaremba án alþjóðasögu

Það er sláandi hversu litla þekkingu alþjóðarembungar virðast hafa á alþjóðlegri sögu, alla vega þeir rembungar sem rembast við að jarma  í fjöl- og fámiðlum.

Eða af hverju er aldrei talað um vistarband og bændaánauð í Danmörku, Englandi og fleiri Evrópuríkjum?

Mér vitanlega hefur enginn þeirra rætt sögu bæjarmyndana í Evrópu, að Noregi meðtöldum. Merkilegt nokk tala sumir þeirra (alla vega í fjölmiðlum og á feisbók) eins og hvergi hafi verið höfðingjaveldi nema á Íslandi.

Þeir virðast ekki vita að bókstaflega alls staðar á jarðarkringlunni hafa verið einhverjir hópar sem höfðu mun meiri völd en almúginn.

Undantekningar eru örsmá „frumstæð“ samfélög, mögulega líka fornmenning Indusdalsins.

Í þessu sambandi komst á kreik sá þvættingur  að Noregur, gagnstætt Íslandi hefði aldrei  haft höfðingaveldi. En staðreyndin er sú  miðaldakónungarnir  norsku  voru  valdameiri en öll höfðingjakássan íslenska samanlögð.

Ekki skorti heldur norska jarla, hertoga  og hersa völd. Yfirstéttarmenn norskir voru nefndir „lendir menn“  (menn geta fræðst um norskt miðaldasamfélag í nefndri bók Jóns Viðars 2008).

 

Spurningar og svör

Einhver kann nú að spyrja hvort ég trúi því í fúlustu alvöru að þjóðveldisöld hafi staðið undir nafni, verið lýðræðisöld þar sem smábændur höfðu það þokkalegt.

Nei, auðvitað réðu höfðingjar mestu, vinnuhjú voru réttlaus að kalla, konur valdlitlar.  En gagnstætt vel flestum Evrópulöndum á miðöldum var vísir að lýðræði þar eð menn gátu ekki orðið goðar nema njóta fylgis meðal bænda, alla vega stórbænda.

Það var örlítill lýðræðislegur þáttur í alþingiskerfinu (alltént fram að Sturlungaöld), það þótt aðeins u.þ.b. 10% fullorðinna karlmenn hefðu rétt til þátttöku. Goðar og gildir bændur, þeir síðastnefndu urðu að eiga sem nam tveimur kúgildum til að öðlast þingseturétt.

Í lénsríkjum Evrópu var yfirleitt ekkert slíkt í boði, þar ríkti stigveldi með konung á hátindinum, ánauðugum bændum neðst. Meira að segja í Noregi var vísir að lénsveldi þótt þar hefðu þingin viss völd.

Reyndar voru Sviss og ýmis evrópsk borgríki með einhvern smávísi að  lýðræði, þó tæpast stærri en þjóðveldisvísirinn.

Aðalmálið er að íslensk þing (bæði Alþingi og héraðsþing) skópu örmjóan  vísi að umræðumenningu. Þessi menning hverfur þegar landið kemst undir útlenda kónga. Kannski hefði  pínulitla umræðumenning tórað ef innlendur aðili hefði tekið völdin í lok Sturlungaaldar.

Þá kann lesandi að spyrja hvort ég haldi að Ísland hefði getað varðveitt sjálfsstæði sitt á þessum tímum.

Nei,  ég efast um það, kannski var það lán í óláni að lenda undir Noregs- og Danakonungum sem fóru kannski skár með þjóðina en t.d. enski kóngurinn hefði gert.

Danakonungur lét ekki fremja fjöldamorð á Íslendingum, það var honum til sóma. Og hann hafði ekki fyrir því að herskylda Íslendinga, gagnstætt því máttu norskir búandkarlar berjast í endalausum stríðum hans.

 

Reyndar er ekki víst að herskylda hefði bara verið af hinu illa. Íslenskir karlar í konngsher hefðu kannski kynnst nýjum hugmyndum, jafnvel lært handverk, ekki hefði af veitt.

Eitt aðalmein Danaveldis var að konungsvaldið sýndi Íslendingum passíva árásargirni,   vandinn var oft það sem konungur gerði ekki, t.d. að láta undir höfuð leggjast að stofnsetja  bæi.

Annað dæmi um passíva árásargirni var sú ráðstöfun að afvopna Íslendinga eftir siðskiptin án þess að efla varnir landsins.

Íslendingar voru því varnarlausir þegar sjóræningjarnir frá Algeirsborg gerðu strandhögg og rændu fólki í stórum stíl. 

Enn kann lesandi að spyrja hvort ég telji sjálfstæði æðst allra gæða.  Nei, það fer eftir efnum og aðstæðum hvort það er af hinu góða. Albanía á dögum harðstjórans Enver Hoxhas var alsjálfstætt, líklega hefði það verið íbúunum fyrir bestu að komast undir mannúðlegt, erlent vald.

Kannski er Evrópubúum nauðugur einn kostur að stofna sameiginlegt ríki til að halda Rússunum í skefjum. Eða Norðurlandabúum að endurvekja Kalmarsambandið.

Lesandi er ekki af baki dottinn heldur spyr hvort ég sé ekki fulldjarfur í gegn-sagnfræði (e. counterfactual history) þegar ég velti fyrir mér hvað kynni að hafa gerst ef innlendur konungur hefði tekið völdin.

Er nokkur leið að ráða í þær rúnir? Get ég útilokað að slíkur konungur hefði reynst hinn versti harðstjóri, verri en nokkur Noregs- eða Danakonungur?

Auðvitað ekki en ég held að oft sé nauðsyn að búa til gegn-sagnfræðilegar sviðssetningar (e. scenarios) til að glöggva skilning okkar á því sem í reynd gerðist.

Til að skilja raunveruleikann verðum við að þekkja möguleika, sviðsetningar geta verið tæki til þess arna í sagnfræði en þó kannski helst í bloggfærslum eins og þessari. Í slíkum færslum má leika sér að hugmyndum, t.d. gegn-sagnfræðilegum hugmyndum.

Lesendinn spyr enn og aftur hvort ekki sé satt að á átjándu og nítjándu öld hafi Danastjórn stundum komið með framfaratillögur sem íslenskir ráðamenn höfnuðu. Vissulega, til dæmis munu innlendir ráðamenn hafa komið í veg fyrir að einokunarverslunin yrði lögð niður 1770 (skv Sigurði Snævarr 1993: 19).

 Eins og áður segir legg ég áherslu á að innlendir höfðingjar og stórbændur hafi átt sinn stóra þátt í mörgu af því sem miður fór.

En þess ber að gæta að Danakonungur (passívt aggresívur að vanda) gerði lítið sem ekkert til að nútímavæða landið. Honum hefði verið í lófa lagið að hunsa kröfur íslenskra valdsmanna 1770 og lagt einokunarverslunina niður.

Kannski gerði hann það ekki vegna þess að hann hafði hag af henni, bæði vegna jarðeigna sinna, eins vegna þarfar  fyrir að hafa íslenska yfirstétt góða.

Þetta leiða verslunarfyrirkomulag stuðlaði mjög að því að einangra landið og koma í veg fyrir að ferskar, nýjar umbóta-hugmyndir bærust Íslendingum.

Þetta  kunna  að hafa verið meðal  ástæðna  þess að hugsunarháttur þeirra  var fornlegur, fjarstaða landsins bætti ekki úr skák. Þess utan var fólk  fyrir daga nútímasamfélagshátta almennt íhaldssamt og hrætt við breytingar. 

Það  var kannski þess vegna sem Íslendingar voru ekki ginnkeyptir fyrir umbótatilraunum Jörundar hundadagakonungs. William Morris mun segja í ferðabók sinni að Íslendingar væru skaðlega íhaldssamir.

Ef til vill var það vegna almennrar íhaldssemi sem þeir voru andsnúnir umbótum, ekki bara valdagirni yfirstéttarinnar.

Það kann að vera ein  af skýringum þess að vistarbandið hvarf svo seint á Íslandi.   

Hefði umræðumenning þjóðveldisaldar lifað af þá gæti hugsunarhátturinn hafa orðið annar.

Lokaorð

Alþjóðaremban var á sínum tíma ferskur gustur í íslenskri menningu, ekki veitti af að leiðrétta ýmsar þjóðrembuvillur í sagnfræði. En nú er hún orðin að leiðinlegri kreddu sem andæfa ber.

Margt af því sem miður fór í íslenskri sögu var sök jafnt stórbænda sem erlendra konunga, jafnvel íslensks almúga.

Það er ekki heiglum hent að þjóna Clio, gyðju sagnfræðinnar. Best er að hafa vaðið fyrir neðan sig, forðast formúlukennda mynd af sögunni, hvort sem sú mynd er í anda þjóð- eða alþjóðarembu.

Meðal heimilda:

Algaze, Guillermo 2018: “Entropic Cities: The Pardox of Urbanism in Ancient Mesopotamia”, Current Anthropology Volume 59, Number 1, febrúar, bls. 23–54.

Bergsveinn Birgisoson 2021: Mannen fra middelalderen. Björgvin: Vigmostad og Bjørke.

Einar Laxness og Pérur Hrafn Árnason  2015: Íslandssaga A-Ö. Reykjavík: Vaka-Helgafell.

Jón Viðar Sigurðsson 2008: Det norrøne samfunn. Ósló: Pax forlag.

Sigurður Snævarr 1993: Haglýsing Íslands. Reykjavík: Heimskringla.

 

 


ÁRA-TUGUR

Þann áratug, sem nú er hartnær hálfnaður, má kenna við ára, djöfla, nefna ára-tug. Í upphafi  hans var kóvítið í algleymingi, í blábyrjuninni réðist óður skríll á þinghúsið bandaríska.

 Sá sem eggjaði skrílinn til ódæða var enginn annar en þáverandi Bandaríkjaforseti Donald Trump. Maður sem ógnar lýðræðinu vestanhafs og sem dansar eftir pípu hins zar-fasíska einvalds í Kreml.

Einvaldur sá   lét her sinn ráðast inn í Úkraínu og jók mjög kúgun innanlands í Rússlandi. Hann ógnar heimsfriðnum, það gerir kannski ekki hinn leiði og spillti Netanyahu í Ísrael. Hann  lætur her sinn rústa allt á Gasasvæðinu, drepa íbúana í stórum stíl.

Það réttlætir ekki fólskulega árás Hamasliða á óbreytta ísraelska borgara.

Til að bæta gráu ofan á svart eykst hamfarahlýnunin hressilega. Vistkerfi jarðar eru í mikilli hættu stödd, ekki bara vegna hlýnunar heldur líka allra handa mengunnar.

Fyrir rúmum aldarþriðjungi skrifaði ég pistla í Alþýðublaðið sáluga, einn bar heitið  "Ára-tugur, engla-tugur". Hann fjallaði um níunda tug aldarinnar, byrjun hans mátti kenna við ára, lokin við engla, þ.e. múrhrun og enda kalda stríðsins fyrra.

Vonandi getum við kennt þennan áratug við engla þegar honum loks lýkur.


Sigmundur Ernir sem KANTA

Í  mínu ungdæmi sungu menn „Kanntu brauð að baka?“. Ég syng  annan söng, um það fólk sem ég kenni við KANTA, Krata Að Nafninu Til Aðeins.

Einn þeirra er hinn  ágæti blaðamaður og skáld Sigmundur Ernir Rúnarsson  sem eitt sinn sat á þingi fyrir Samfylkinguna.

En hann er ekki meiri jafnaðarmaður en svo að hann syngur ítrekað lofgerðaróð um Sjálfsstæðisflokk fortíðarinnar og vegsamar hinn ginnhelga frjálsa markað, nú síðast í DV pistli.

Flokkurinn hafi á árum áður barist gegn ríkisafskiptum, fyrir einstaklingsfrelsi og frjálsum viðskiptum.

En á síðari árum hafi hann snúist gegn hinni goðumlíku frjálshyggju, ó vei!  Fyrir vikið hafi  fylgi hans snarminnkað.

Flokkurinn

Að gamni slepptu þá er þessi mynd Sigmundar Ernis af Sjálfsstæðisflokknum vægast sagt furðuleg.

Þorvaldur Gylfason dregur upp allólíka mynd, hann segir að á dögum Ólafs Thors hafi flokkurinn verið hafta- og skömmtunarmegin.

Hann hafi þá sem nú ýtt undir óæðri endann á stórútgerðinni, fyrir utan að njósna um samborgara sína.

Það er mikið til í þessu, þess utan er ósennilegt að flokkurinn hafi misst fylgi vegna þess að hann sé  ekki lengur frjálshyggjunnar megin.

 

Þess utan er einfaldlega ósatt að Sjallar hafi lagt frjálshtyggjuna á hilluna. Því til sannindamerkis má nefna að Þórdís Kolbrún setti nýlega fram þá tillögu að einkavæða ÁTVR og Póstinn.

Og Áslaug vitnaði nýverið fjálglega í Reagan: Ríkið er ávallt vandinn, einkaframtakið lausnin.

Fátt bendir til þess að allur almenningur sé jafn  frjálshyggjusinnaður og þær stöllur. Mig rámar í skoðanakönnun sem sýndi að yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga vildu ríkisrekið heilbrigðiskerfi.

Fylgishrun Sjálfsstæðisflokksins á sér aðrar rætur, í  reiði almennings út af hruninu og óánægju með hrokafulla, auðvaldssinnaða flokksbrodda.

En Sigmundur hélt  því fram í Fréttablaðsleiðara að almenningur vilji minni ríkisafskipti. Sú staðhæfing er ekki sennileg í ljósi þess sem segir hér um skoðanakannanir.

Sitthvað um Sviss

Er ég að halda því fram að velferðarkerfið sé heilagt?

Nei og aftur nei, fátt eitt er heilagt í þeim táradal sem mennirnir byggja.

Nefna má að Sviss hefur mjög takmarkað velferðarkerfi, samt verður enginn var við mikla ofurfátækt þar í landi. Ekki í samræmi við kratakreddur.

Bæta má við að þar í landi er mjög umfangsmikið lýðræði en samkvæmt formúlum frjálshyggjunnar á slíkt lýðræði að vera markaðsfrelsi skeinuhætt. Þrátt fyrir það  er markaðsfrelsi óvíða meira en hjá þessari Alpaþjóð.

Samkvæmt kenningunni eiga flugur ekki að geta flogið, þær geta það samt.

Frjálshyggjan

Sjálfsstæðisflokkurinn var reyndar með hálfgildings frjálshyggjuafstöðu til almenningssamgangna.

Þegar hann réði Reykjavík var borgin skipulögð sem amerísk bílaborg löngu áður bílar urðu almenningseign.

Lítið var gert til að efla almenningssamgöngur með þeim afleiðingum að fólk átti ekki annarra kosta völ en að skaffa sér bíl.

Hvað viðskiptafrelsi varðar er það ekki alltaf hagkvæmt. Nóbelshagfræðingurinn Joseph Stiglitz og fleira stórmenni benda á að iðnvæðing sé illframkvæmanleg nema nýjabrum í iðnaði sé verndað með tollmúrum.

Þannig iðnvæddust Bandaríkin og Suður-Kórea bak við slíka múra. Kóreumenn stunduðu reyndar takmarkaðan áætlunarbúskap sem svínvirkaði, landið iðnvæddist hraðar en nokkuð annað land í sögunni.

Þökk sé áætlunarkerfinu risu risafyrirtæki eins og Samsung, margir Íslendingar njóta góðs af framleiðslu þess merka fyrirtækis.

Ríkis-„afskipti“ eru því ekki alltaf neikvæð (en Suður-Kóreumenn höfðu vit á að hætta áætlunargerð þegar landið var orðið iðnvætt).

Samkvæmt formúlum frjálshyggjunnar er áætlunarkerfi leiðin til fátæktar og alræðis. En Suður-Kórea varð velllauðug og kom á lýðræðisskipan á meðan áætlunarkerfið var enn við lýði.

Formúlur markaðsdýrkenda reyndust rangar hvað Sigmundur Ernir athugi. 

Þess utan verður frjálsum markaði vart á kopp komið.

Stiglitz bendir á að til þess að svo megi verða verði allir gerendur á markaði að hafa fullkomna yfirsýn yfir alla kosti, hafa hnífjafnt aðgengi að öllum upplýsingum o.s.frv.

Útilokað sé að slíkt og þvílíkt raungerist, hönd markaðarins sé ósýnileg af því að hún sé ekki til.

Bæta má við að Milton Friedman segir réttilega að markaðurinn virki ekki vel nema gerendur séu að jafnaði upplýstir og eigingjarnir.

Hann athugaði ekki að upplýstir og eigingjarnir gerendur hafa hag af að draga sem mest úr samkeppni og græða með því sem mest.

Bestu leiðirnar að því marki eru annars vegar leið kartella (samráðs/samsærisleiðin), hins vegar að  beita ríkisvaldinu. Þannig getur markaðsfrelsið sálgað sjálfu sér.

Vart hefur slíka gerendur skort í Sjálfsstæðisflokknum, þeir hafa vafalítið  notað áhrif sín til að fá X-D pólitíkusa til að takmarka samkeppni sér í vil, skapa velferðarkerfi fyrir fyrirtæki.

Um leið hefur flokkurinn ekki ofreynt sig á að efla velferðarkerfi fyrir almenning.

Sigmundur Ernir segir að nú sé hún Valhöll stekkur orðinn. Hún hefur löngum stekkur verið.

Lokaorð

Sigmundi  Erni er margt vel gefið, hann er liðtækt skáld og upp á sitt besta góður  pistlahöfundur.

 En   honum bregst bogalistin þegar hann skrifar í hinum ferkantaða KANTA-stíl sínum.

Markaðurinn hefur ýmsa kosti, Sjálfsstæðisflokkurinn kannski líka, en krötum ber ekki að lofprísa þá. Þeim ber bara að heiðra skálkinn.

P.S. Mest af því sem hér er skrifað um frjálshyggju er ættað úr bók minni Kredda í kreppu. Frjálshyggjan og móteitrið við henni.


LENÍN, HUNDRAÐ ÁRA ÁRTÍÐ

Í dag er liðin ein öld síðan Vladimír Iljits Lenín hrökk upp af. Ekki skal stjórnmálaferill hans ræddur að ráði hér, þess meir um ýmsar kenningar hans með megináherslu á kenningu hans um heimsvaldastefnuna.

Þó skal nefnt að hann lét reka heim lýðræðislega kjörið rússneskt þing í janúar 1918, mánuði eftir að verkföll voru bönnuð (t.d Encyclopedia Britannica).

Hann átti þátt í að koma gúlaginu á laggirnar, stofna morðóða leynilögreglu o.fl. (t.d. Gulag Online).

 

                 Flokkurinn og lýðræðið

 

Skömmu fyrir byltingu setti hann saman ljóðræna lýsingu á hinu altæka lýðræði sósíalismans þar sem jafnvel matseljan taki þátt í stjórnastörfum (Lenín 1917). 

Lenín ofreyndi sig ekki á að koma þessum marxísku lýðræðishugmyndum í framkvæmd, kannski vegna þess að hún var illsamræmanleg hugmyndinni um hinn leníníska byltingarflokk.

Einnig er ekki víst að hægt sé að samrýma áætlunarbúskap og víðfeðmt lýðræði. Líklega yrði áætlunargerð mjög þung í vöfum og vart framkvæmanleg ef fjöldi lýðræðislegra ráða á að hafa hönd í bagga með henni.

En fulltrúalýðræði kann að vera samrýmanlegt áætlunarbúskap, alla vega ef trúa má hagfræðingnum Josef Schumpeter. Hann taldi reyndar að slíkur búskapur væri síður samrýmanlegur lýðræði en markaðskerfið (Schumpeter 1976).

Víkjum aftur að Lenín. Hann  sagði að verkalýðurinn einn og óstuddur gæti aldrei öðlast byltingarvitund, aðeins fagfélagsvitund. Byltingarvitundin yrði að koma frá atvinnubyltingarmönnum.

Enda skyldi byltingaflokkurinn  eingöngu skipaður þeim en þeir þekktu hina sönnu hagsmuni verkalýðsins, betur en hann sjálfur. Stjórnarform flokksins  var  stigveldið.

Einnig átti að vera „lýðræðislega miðstjórnarvald“ þar sem flokksmenn voru skyldaðir til að beygja sig möglunarlaust  fyrir ákvörðun meirihlutans, alls ekki gagnrýna hana (Lenín 1970)(sjá einnig Conquest 1972).

Trotskí sagði með réttu löngu fyrir byltingu  að í slíkum flokki hlyti  miðstjórnin fyrst að taka öll völd í sínar hendur svo tæki einræðisherrann við (Trotskí 1967: 63).

Trotskí gekk síðar til liðs við þennan flokk og tók þátt í að koma einræðisstjórn hans á laggirnar.

Það er kaldhæðni örlaganna að hann skyldi með þeim hætti eiga þátt í að láta eigin spásögn rætast.

Nefna má að Lenín  mun hafa  hvað eftir annað mælt með hryðjuverkum til að ná markmiði byltingarinnar, líka eftir valdatöku sína (samkvæmt Conquest 1972: 98 og víðar).

 

            Kenning Leníns um heimsvaldastefnuna

 

Lenín hafi réttilega  talað  um heimsvaldastefnuna sem æðsta stig kapítalismans. Það væri stig einokunarkapítalismans sem hefði sprottið alskapaður úr höfði hins frjálsa markaðar.

Þetta skeið sé skeið fjármagnskapítalsins,  það  renni saman við iðnaðarauðmagnið og nái tangarhaldi á iðnaðnum.

Alþjóðabankar verði  lífæð kapítalismans, útflutningur fjármagns skiptir nú meira máli en útflutningur á varningi.

Vegna lækkandi gróðahlutfalls yrðu kapítalistarnir að fjárfesta í æ ríkari mæli í nýlendum sem yrðu arðrændar fyrir vikið.

En þetta arðrán sé aðeins gálgafrestur því gróðahlutfallið héldi áfram að lækka. Heimsvaldasinnuðu ríkin hafi  lagt undir sig allan heiminn svo erfitt sé um vik að finna nýjar nýlendur. 

Þrautalendingin væri uppskiptastríð milli nýlenduveldanna, fyrri heimsstyrjöldin hafi verið slík styrjöld um nýlendur og markaði.

Alltént hafi arðrán á nýlendum stuðlað  að bættum kjörum hluta verkalýðsstéttarinnar á Vesturlöndum, þó aðeins til bráðabirgða. Ekki bara lækkandi gróðahlutfall heldur stöðnun vegna einokunar veiki innviði kapítalismans.

Einokunin muni valda því að það hægist á tæknilegri nýsköpun. Fyrr eða síðar hryndi kerfið vegna stórkreppu og byltingar (Lenín 1961).

Lítum  kenningar Leníns gagnrýnum augum: Menn á borð við Robert Conquest  hafa borið brigður á kenning hans um að fjármagn hafi í æ ríkara mæli streymt til nýlendna og hálfnýlendna.

Til dæmis hafi franskar nýlendur flutt meira út en inn, í ofan á lag séu fá dæmi um ofurgróða af fjárfestingum í nýlendum. Iðnframleiðsla iðnríkjanna hafi aukist mikið og útflutningur iðnvarnings aukist mun meira en útflutningur auðmagns (Conquest 1972: 75-76).

Vandinn er sá að Conquest nefnir engar heimildir fyrir máli sínu.

Beinum sjónum okkar  að fyrri heimsstyrjöld og eftirleiknum  að henni: Hvers vegna lögðu hin sigursælu Bandaríki ekki undir sig nýlendur Frakka, Breta og Þjóðverja eftir stríðið?

Þjóðverjar voru sigraðir og Frakkar og Bretar skulduðu Bandaríkjamönnum gífurlegar fúlgur. Af hverju gerðu Bandaríkjamenn Bretland, Frakkland og Þýskland  ekki bara að nýlendum sínum?

Í stað þess drógu þeir sig út úr Evrópu og lögðu  herinn nánast niður  án þess að bandarískur efnahagur biði tjón af.

Hann blómstraði þrátt fyrir smá afturkipp fyrst eftir stríðslokin þegar fyrirtæki sem græddu á stríðinu urðu að draga saman seglin. Eftir síðari heimsstyrjöld stóðu Bandaríkjamenn enn betur að vígi.

Þeim  hefði verið í lófa lagið að gera Vestur-Evrópu, evrópskar nýlendur og Japan að nýlendum sínum. En þeir létu það eiga sig.

Í ofan á lag gáfu Evrópuþjóðirnar nýlendum sínum frelsi en án þess að skaðast efnahagslega á því.

Þvert á móti voru fyrstu áratugirnir eftir stríð efnahagslegt blómaskeið Vesturlanda (sagt hefur verið að Holland hafi orðið auðugra eftir að það missti risanýlendu sína, Indónesíu) (Conquest 1972: 78). 

Það þótt um þriðjungur jarðarbúa hafi þá verið búsettir í kommúnistaríkjum sem voru ekki opin fyrir erlendum fjárfestingum og voru vart hluti af heimsmarkaðskerfinu.

Hefði Lenín haft á réttu að standa þá hefði þessi  “missir” a.m.k. þriðjungs mannkynsins átt að valda alvarlegum efnahagskreppum í kapítalískum ríkjum. 

Ef nýlenduveldin hefðu með arðráni sínu komið  í veg fyrir efnahagsframfarir í hinum þriðja heimi þá hefði mátt ætla að einhverjar efnahagsframfarir hefðu orðið í þeim löndum þriðja heimsins sem ekki urðu nýlenduveldunum að bráð.

En ekki verður séð að stórfelldar framfarir hafi átt sér stað á tímabilinu 1600-1950 í Tyrklandi, Tælandi, Íran, Japan, Kína og Eþíópíu. Ekkert þessara landa iðnvæddist á þessu tímaskeið og héldu þau þó sjálfsstæði sínu.

Hér ber að slá varnagla, sum þessara landa urðu að beygja sig fyrir vestrænum þrýstingi, t.d. Kína eftir ópíumsstríðið (samkvæmt t.d. Ferguson 2003: 166). Lenín sagði að þessi ríki væru  hálfnýlendur eða væru við það að verða það (Lenín 1961: 104). 

En obbann af tímabilinu 1600-1950 voru Kína, Íran og Tyrkland  ekki bara sjálfstæð ríki heldur mikil stórveldi.

Það er ekki víst að nýlendustjórn sé hagkvæm þegar til langs tíma er litið, hagkvæm öðrum en fámennum hópi nýlendustjóra og þeim tengdum viðskiptamönnum.

Reyndar er vel mögulegt að nýlendustefnan hafi aðallega þjónað hagsmunum generála og annarra atvinnuhermanna, ekki auðkýfinga.

Vald og dýrð hersins hefur sjálfssagt aukist  í sigursælum nýlendustríðum, atvinnuhermenn hafa líklega fengið  nóg að sýsla við að stjórna nýlendunum.

Ekki er öruggt að  peningamenn hafi verið í fararbroddi.

Á nítjándu öldinni voru frjálshyggjumenn margir hverjir andsnúnir nýlendustefnu, m.a. vegna þess að þeir töldu hana ekki ábátasama (samkvæmt t.d. Nordin 2012: 117).

Lenín segir að á velmektardögum  frjálsrar samkeppni, 1840-1860,  hafi borgaralegir stjórnmálamenn í Bretlandi verið andsnúnir nýlendustefnu en það hafi breyst þegar skeið einokunar og fjármálaauðvalds hafi hafist (Lenín 1961:  102).

Eitt er fyrir sig að það getur kostað talsvert fé að stjórna nýlendum Lenín nefnir að ýmsir álitsgjafar, þ.á.m. marxistinn Karl Kautsky, hafi talið öflun nýlendna of áhættu- og kostnaðarsama, fullt eins mætti afla hráefna með því að kaupa þau á markaði.

Lenín taldi að tímaskeiði markaðskipta væri lokið og þetta því vond tillaga (Lenín 1961: 108).

Nú kann einhver að spyrja hvort Frakkar og Bretar hafi ekki skipt á milli sín þýskum nýlendum og yfirráðasvæði Tyrkjasoldáns eftir fyrra stríð. Sýnir það ekki að uppskiptaþáttur hafi verið í þeirri styrjöld?

Mitt svar er að hafi uppskipti verið aðalatriði þessa stríðs þá hefðu Frakkar og Bretar farið í stríð við hvor aðra þar eð þeir réðu miklum nýlendum. Eftir litlu var að slægjast hjá Þjóðverjum sem áttu fáar og smáar nýlendur.

En kannski var uppskiptalöngun hreyfiafl Þjóðverja í stríðinu, kannski vildu þeir fjölga nýlendum sínum. Þannig gæti hafa verið uppskiptaþáttur í stríðinu en sönnunarbyrðin hvílir á þeim sem því trúa. 

Kenningar Leníns um heimsvaldastefnuna eru ekki ýkja sannfærandi.

Það  þýðir ekki að allir þeir sem töldu nýlendustefnuna hafa verið af hinu illa  hljóti að hafa á röngu að standa. Þótt margt bendi gegn því  að velsæld Vesturlanda byggi  á nýlenduarðráni þá var nýlendustefnan ekkert teboð.

Minnast má skelfilegrar meðferðar Belga á Kongóbúum, Frakka á Haítímönnum o.s.frv.

Að ógleymdu þrælasölunni miklu sem kostaði milljónir Afríkumanna líf og frelsi (en Vesturlönd áttu ekki einkarétt á þrælabúskap, ríki múslima voru drjúg á því sviði, þrælkuði bæði Afríkumenn og Evrópumenn í milljónatali).

Nýlenduherrarnir komu víða á einrækt, þ.e. landbúnaðarkerfi þar sem aðeins ein jurt er ræktuð að ráði, t.d. baðmull eða gúmmítré.

Þessi einrækt skapar enn vandkvæði víða í þriðja heiminum.

Um leið græddu allmargir þriðjaheimsbúar á uppfinningasemi Vesturlandabúa, t.d. á uppfinningu bensínvélanna sem gerði olíu að mjög dýrmætu hráefni. Einnig var lagning járnbrauta á Indlandi heimamönnum líklega til hagsbóta.

„Drottinn gaf og Drottinn tók“.

 

                     Lokaorð

 

Einhver spekingur sagði að Lenín hefði verið fallöxi sem hugsaði. Orð að sönnu.

 

Heimildir:

Encyclopedia Britannica: “Constituent Assembly”. Sótt 21/1 2023 á https://www.britannica.com/topic/assembly-government

Ferguson, Niall 2003: Empire. How Britain Made the Modern World. Harmondsworth: Penguin.

Gulag Online. Sótt 21/1 2023 á https://gulag.online/articles/historie-gulagu?locale=en

Lenín, Vladimír Iljits 1970: Hvað ber að gera? (þýð. Ásgrímur Albertsson). Reykjavík: Heimskringla.

Lenín, Vladimir Iljits. 1917. “Can the Bolsheviks retain State Power?”, Marxist Archive. Sótt 1/4 2020 á marxists.org/archive/lenin/works/1917/oct/01.htm.

Lenín, Vladimír Iljits. 1961. Heimsvaldastefnan. Hæsta stig auðvaldsins (Þýðandi Eyjólfur R. Árnason). Reykjavík: Mál og menning/Heimskringla.

Nordin, Svante 2014: Filosofene. Vesterlandsk tenkning siden 1900 (þýðandi Lars Nygaard).  Oslo: Dreyer.

Schumpeter, Joseph  1976:  Capitalism, Socialism, and Democracy. London: Allen & Unwin. Company. 

Trotskí, Lev 1967: „Klassens førstefødselsrett“ (þýð. óþekktur),  Jens A. Christophersen (ritstj.) Bolsjevikrevolusjonen 1917. Ósló: Pax forlag, bls. 62–65.

 


Um bók mína Á ekrum spekinnar

Ég er  bara óbreyttur verkamaður á ekrum spekinnar.  Eða garðyrkjumaður  í víngarði viskugyðjunnar, nema hvort tveggja sé. Samt reyni ég af veikum mætti að marka eigin heimspekistefnu en hana kynnti ég í bók minni The Poetic of Reason. Introducing Rational Poetic Experimentalism (Stefán Snævarr 2022). 

Eins og sjá má af undirheiti bókarinnar gaf ég stefnunefnu minni heitið  “Rational Poetic Experimentalism“ (RPE). Á íslensku hyggst ég nefna hana   “póetíska skynsemis- og tilraunahyggju“ (PST).

Skynsemisþátturinn birtist í því að rökvísin skal virt við framkvæmd heimspekilegra hugsanatilrauna. 

Orð á borð við “póetískur“ er notað hér sumpart í merkingunum “það sem er fagurbókmenntakyns“ og  “það sem líkist fagurbókmenntum.”

Þó aðallega í merkingunni  “það sem skilja má eða ber með tækjum póetíkur, þ.e.  fræða um bókmenntir (e. Poetics).” Meðal þeirra fræða eru  bókmenntafræði og bókmennta-heimspeki (e. Literary Aesthetics).

Fjórða merkingin  er hin forngríska  “poeisis“ sem þýðir eitthvað í líkingu við  “það sem skapað er með líkum hætti og listaverk.” Heimsmynd okkar, já það sem við köllum  “heim“,  gæti verið póetísk í forngrísku merkingunni. Til dæmis sköpunarverk hugtakaskema.

Ég er engan veginn fyrstur til að nota póetík í svo víðri merkingu, fyrstur til þess arna var líklega franski heimspekingurinn Gaston Bachelard.

Spurt er: Hvers lags tilraunir skulu gerðar í nafni PST? Markmið tilraunanna er að sjá hvort hið póetíska (bæði í merkingunni póetík og poeisis) er  bundið við listaverk eða hvort það gegnsýrir mannlega tilvist. Þessar tilraunir skulu nefndar “PST-tilraunir“.

Sannleikurinn hefur reynst heimspekingum slyppifengt hnoss  og er ég því feiminn við sönnunarstreð. Ludwig Wittgenstein hélt því fram að gátur heimspekinnar væru gervigátur, mönnum virtist að um raunverulegur gátur væri að ræða vegna þess að tungumálið blekkti þá

Colin McGinn fer aðra leið en  Wittgenstein.   Hann telur sig geta skýrt hvers vegna sönnunarstreð heimspekinnar sé svo erfitt.

Skýringin sé  sú að mannskepnunni sé ekki gefið að ráða gátur heimspekinnar. Hún sé frá náttúrunnar hendi þekkingarlega lukt (e. cognitively closed)  fyrir slíkri ráðningu, rétt eins og hundar eru ófærir um að skilja eðlisfræði.

En jafnvel þótt annað hvort Wittgenstein eða McGinn hefðu á réttu að standa þá kunna að verða til nýjar heimspekigátur í framtíðinni, gátur sem standa undir nafni.  Heimspekigátur eru ekki gefnar stærðir, fyrr á öldum voru  hvorki til gátur vísindaheimspeki né  gervigreindar.

Við getum ekki spáð fyrir um gátur framtíðarinnar og því ekki vitað fyrirfram hvort þær verða ráðanlegar eður ei. Ráðanlegar vel að merkja af mönnum, ef til vill líka af gervigreind eða verum frá öðrum hnöttum.

Kannski eru sumar gátur heimspekinnar gervigátur en  allar aðrar heimspekigátur þess eðlis að mönnum sé  ekki fært að ráða þær.  Eða sumar þeirra ráðanlegar mönnum.

Tilraunaspeki

Hvað sem því líður er best að hafa vaðið fyrir neðan sig og ofreyna sig ekki við heimspekilega  sannleiksleit, án þess að gefa hana alveg upp á bátinn.

Í stað sannleiksleitar  má  stunda heimspekilegar tilraunir. Tilraunaspekingurinn  leitast við að vekja menn af þyrnirósarsvefni, vekja til umhugsunar, hreyfa við þeim. Hann leitar að möguleikum  fremur en sannleika. Í The Poetic of Reason skrifa ég „The forte of philosophy is the proliferation of possibilities“.

Möguleikastaðhæfingar ber að rökstyðja vel. Auk þess  skal sannleikanum ekki alveg úthýst, hver veit nema sannleiksbrot megi finna í möguleikastaðhæfingunum.

Skáld og listamenn leika sér einatt að hugmyndum og leita að spennandi möguleikum, hunsa stundum veruleikann. Franz Kafka lék sér að hugmyndinni um manninn sem breyttist í skorkvikindi, skáldaði  um þessa mögulegu uppákomu sem kannski segir eitthvað satt um mannlífið.

 Líkt og skáldinu er heimspekingnum heimilt að leika sér að hugmyndum en leikreglurnar eru að jafnaði  reglur rökvísinnar. Leikurinn sá arna er leikurinn alvarlegi,  ekki  óskyldur leik ljóðsins en heimspeki samt, leikspeki.  Eitt af markmiðum leiksins er að fjölga fílósófískum kostum.

 Einhver kann að spyrja hvort hugsanatilraunir heimspekinga eru ekki dæmi um tilraunaspeki í reynd.

Svarið er að slíkar tilraunir eru einatt gerðar til að höndla rökleg sannindi, PST-spekingurinn (ég) er ekki bjartsýnn á að það takist. En slíkar tilraunir geta verið innblásandi og umhugsunarvekjandi, þannig hugsanatilraunir vill PST-sinninn gera.

Ég    vil   feta í fótspor  Roberts Nozicks og leggja  áherslu á að raða (e. rank) kenningum eftir meintu ágæti  þeirra fremur en taka beina afstöðu til þeirra. Ofreyna sig ekki við sannleiksleit. 

Hvaða mælikvarða á ágæti ber að leggja áherslu? Til dæmis góðan rökstuðning og skýrigildi en einnig frumleika og það hvort kenningin er uppbyggileg og ögrandi.

All nokkru áður en ég las grein Nozicks boðaði ég tilleiðsluhyggju (e. inductivism) um heimspeki. Mér til mikillar ánægju var Nozick líka tilleiðslusinni og varði heimspekilega tilleiðslu (e. induction) með mun betri rökum en ég.

Mín útgáfa kveður m.a. á um að stundum megi efla kenningu rökum ef sýna megi fram á að nokkur fjöldi mismunandi, en velrökstuddra,  kenninga leiði til sömu niðurstöðu um leið og rökin gegn niðurstöðunni séu ekki nógu góð.

Þá séu niðurstöðurnar tækar (nothæfar) þar til annað sannara reynist. Köllum þetta “PST-tilleiðslu,” henni  beitti ég oft í tilraununum í The Poetic of Reason.

Í þessari bók  er veruleikinn   mitt tilraunadýr, ég fylli hann með ljóðrænu og sé hvað setur. Ég geri mér litlar vonir um að höndla sannleikann en vona að tilraunirnar séu ögrandi, umhugsunarvekjandi, jafnvel uppbyggilega.

Sónarþættirnir

Athugað er í bókinni hvort eitthvert vit er í því að segja að málið, líkön, tilfinningar og fleira  hafi ákveðna póetíska þætti, þeir skulu nefnast “sónarþættir“: Frásögur,  hugsmíðar  (hið skáldaða, e. fictions), myndhvörf og bókmenntagreinar (e. literary genres) af tvennu tagi.

Fyrra bókmenntagreina-hugtakið er flokkunar-hugtak, það varðar flokka bókmennta á borð við skáldsögur, leikrit, og ljóð. Hið síðara varðar eigindir bæði bókmenntaverka, annarra listaverka, og  ýmissa heimssniða (e. slices of reality) annarra: Harmræn, ljóðræn, spaugileg, dramatísk o.s.frv.

Þá kann frómur lesandi  að spyrja af hverju þeir kallist “sónarþættir.” Svarið er að Són var eitt kerjanna sem hinir fornnorrænu guðir fylltu Suttungamiði, það er að segja skáldadrykknum.

Úr kerjunum draup mjöðurinn niður á jörðu og urðu þeir menn skáld að bragði sem fengu dropana á sig.  Hver veit nema dropar falli á heiminn gjörvallan.

 Eitt af mikilvægustu hugtökum PST   “destabing“ og er illþýðanlegt. Það vísar til “destabilzation“ og  “stabbing.” Fyrrnefndi þátturinn tengist því að gera hugtök, sem virðast hafa stöðugt inntak og umfang, óstöðug.

Síðarnefndi þátturinn varðar þá  iðju  að stinga kreddur á hol. “Destabing“ má kalla  “delluvana afbyggingu“ (e. No Bullshit Deconstruction), afbygging af (vonandi!) rökvísu tagi sem sett er fram á mannamáli.

Til að greina mína speki (ef einhver er) enn skýrar  frá hefðbundinni afbyggingu kýs ég að  nota sagnorðið  “að dístaba“ hvarvetna þar sem því verður komið við (ég er málunnandi en ekki hreintungumaður). 

Eftir að bókin kom út var mér bent á að kalla mætti dístöbun "riðlun", það að dístaba "að riðla". Vel athugað!

Tækin til delluvana afbyggingar  eru aðallega sónarþættirnir en þeirra koma hvergi við sögu afbyggingar í anda Jacques Derridas. Hafi hugtak a.m.k. þrjá af sónarþáttunum telst það dístabað (segja má að það sé ljóðvætt).

Af hverju nægja ekki tveir þættir? Það er einfaldlega stípúlering af minni hálfu, til að halda dístöbun  innan marka skynseminnar verður að gera skýrar  lágmarkskröfur til hennar og koma í veg fyrir geðþóttaákvarðanir varðandi hana.

Sjálfsævisaga síleska skáldsins Pablo Neruda Ég játa að hafa lifað er frásaga, full af myndhvörfum og hugsmíðum. Engum dylst hugur um að bókin er póetísk þó hún sé strangt tekið sannfræðileg (e. non-fiction).

Nýlega tók ég mig til og framdi ofureinfalda dístöbun á greiningarspeki. Ekki er hægt að greina hugtak nema að hægt sé að segja sögu þess þannig að skorið verði úr hvort hugtakið er bundið sérstökum menningarheimi eða er algild.

Besta, kannski eina,  leiðin til að greina hugtak er að gera hugsanatilraunir og þær eru skáldaðar frásögur, hugsmíðar. Ef  greiningin  á hugtakinu á að leiða til röklegra sanninda þá verður hún að teljast sönn í öllum mögulegum heimum.

En hugmyndin um mögulega heima er metafórísk, strangt tekið er aðeins til einn heimur þótt frjótt geti verið að ræða um mögulega heima.  Rökgreining að hætti greiningarspeki hefur því sagnþátt, þátt myndhvarfa og hugsmíða, þrjá sónarþætti og telst því dístöbuð þangað til annað sannara reynist.

Afbygging af gerð  Derrida virðist felast í því að brjóta fyrirbæri niður og raða brotunum aftur með nýjum hætti. Svo lítið eins og listamaðurinn Jean Tinguely sem notaði brotajárn úr gömlum vélum til að búa til lista-vélar.

Mín afbygging, ef afbyggingu skyldi kalla, er fremur eins og listaverk Christos sem breiddi yfir mannvirki og gaf þeim með því nýja samsemd án þess að brjóta þau niður.

Delluvana afbygging þar sem sónarþættirnir koma ekki við sögu má kalla  “fagur-dístöbun.“ Í  þess lags  dístöbun verður reynt að sýna fram á að estetískur þáttur (eða þættir) séu í fyrirbærum sem á yfirborðinu virðast öldungis sneyddir slíkum þáttum. 

Fagur-dístöbun . er ekki ljóðvæðing heldur estetísering.  Hana verður að rökstyðja vandlega, sá rökstuðningur verður líka að vera fallvaltur.

Ljóðið og hið lógíska

Nýráðinn starfsbróðir spurði mig hvað ég fengist við. Ég svaraði að bragði „ég fæst við estetíska heimsvaldastefnu,” reyni að leggja nýjar lendur undir estetík og póetík.

Notum aðra líkingu: Ég reyni að sjá vanda heimspekinnar frá estetískum og póetískum sjónarhóli,  það þótt aðrir hólar veiti engu  lakara útsýni.

Sá sem fylgir póetískri hyggju hlýtur að skrifa um hana með ögn ljóðrænum hætti. Martha Nussbaum bendir á að hann myndi lenda í eins konar mótsögn  við sjálfan sig ef hann kynnti hana með þurrpumpulegum, hrein-akademískum hætti (Nussbaum 1990: 7).

Hið ljóðræna má þó ekki ríkja eitt, sameina ber skynsemina og hið skáldlega. Fræðin og kvæðin skulu  ríma!

Eftir margra áratuga efasemdir hefur mér loksins lærst að sameina megi hið lógíska og hið ljóðræna. Með því hef ég læknast af eins konar geðklofa.

Nietzsche lætur Zaraþústra sinn segja söguna um andann sem fyrst holdgervðist sem úlfaldi. Sá var tilbúinn til að bera allar þungar byrðir. Næst holdgervðist hann sem  ljón  er varði hugmyndir með kjafti og klóm. Að lokum holdgaðist hann sem smábarn er gat byrjað upp á nýtt, óháð uppeldi og hefðum.

Ég kýs að snúa ögn út úr sögunni og heimfæra á mig sjálfan: Framan af var ég eins og úlfaldi, hlaðinn þungum byrðum heimspekivandans. Ég velti því stöðugt fyrir því hvaða kenning væri best, vildi finna svar en fann ekki. 

En æsti mig upp til að trúa sumum og réðist sem ljón á þá sem ég taldi fara villur vegar. Þá varð ég fyrir vitrun og sá ljós ljóðspekinnar, PST. Fyrir vikið varð ég  smábarn  á ný, barn  sem leikur sér að hugmyndum og lifir í sátt við Guð og menn.

Þetta eru sprek á eldi spekinnar. Vonandi orna þau einhverjum þótt lítilfjörleg séu.

                                                         

 


ÓTÍMABÆRAR ATHUGASEMDIR 2: UM ÞARFA, HARÐA MIÐJU

 

Fyrir rúmri hálfri öld orti Leonard Cohen orti svo:

 

„I know you heard it‘s over noe and war must surely come

The cities they are broke in half and the middle men are gone“

 

Þessi orð eiga enn betur við í dag en í 1967. Stórstríð virðist yfirvofandi, bæði í Auatur-Asíu og Evrópu. Þankaveita nokkur segir að Rússar búi sig undir stríð við NATÓ innan fimm til tíu ára.

Þeir gætu unnið sigur í  Úkraínu ef hægriöfgaöfl í bandaríska þinginu halda áfram að tefja samþykkt fjárveitinga til Úkraínu.

Eins og það sé ekki nóg eru  Ísraelar  önnum kafnir við að murka lífið úr Gasabúum. Og íslamskir öfgamenn brýna kutana.

Vestanhafs hafa miðjumennirnir horfið, borgirnar klofnir í tvennt, öfgaöfl til hægri og vinstri vaða uppi. Ofstopafullir rétthugsendur og ofstækisfullir þjóðrembungar gera sig gildandi  alls staðar á jarðarkringlunni. Ekki má á mili sjá hvor er umburðarlausari. „Hart er í heimi…“

Skammt er öfganna á milli,  á vissum sviðum eru margir hægri- og vinstriöfgamenn sammála, Pútín á sér fylgismenn meðal beggja.

Vinstripútínistar mega ekki vatni halda af hrifningu yfir andstöðu Pútíns gegn Bandaríkjunum, hægripútínistar elska þjóðrembu hans og fjandskap við samkynhneigða.

Ég lenti einu sinni í feisbókardeilu við frjálshyggjumann sem varði Pútín og hallmælti Úkraínu. Vinurinn lofsöng skattastefnu Rússa, skattar væru þar lágir.

Ég benti honum á að Pútín og aðrir óligarkar skattlegðu Rússa óbeint með því að ræna auðæfum þjóðarinnar og flytja til hinna illu Vesturlanda.

Píp frjálshyggjupútínistans er grátbroslegt, ekki síst í ljósi þess að rússneska kerfið er ríkiskapítalískt.

Engu síður grátbroslegur  er stuðningur vinstriputínista við hinn rússneska rányrkju-kapítalisma, tekjum og eigum er ójafnar skipt austur þar en í hinni illu Ameríku.

Hvað er til ráða? Ekkert annað en að efla skynsamlega, hógværa en harða miðjustefnu. Hin harða miðja sýnir öfgaöflunum í báða heimana en á friðsamlegan og rökvísan máta. Hún verður að tala máli umburðarlyndis. 

Um leið má hún  ekki frjósa ídeólógískt, hún verður að vera opin fyrir hugmyndum úr ýmsum áttum og vera tilbúinn til að viðurkenna villu síns vegar.

Við þurfum harða miðju.


JÓLABÓKARÝNI 5: Ból eftir Steinunni Sigurðardóttur

 

Í Heimsljósi er Ólafur Kárason látinn böggla saman ástarkvæði sem hefst svona:

„Líneik veit ég langt af öðrum bera

létta hryssu í hópi staðra mera“

Aðalpersónan í nýju skáldsögu Steinunnar heitir Líneik en ekki fylgir sögunni hvort hún er afbragð annarra kvenna.

Ástin er Steinunni hugleikin að vanda, í þessari sögu ofurást, ást sem er fólki skaðvænleg. Líneik hefur ofurást á huldumanni, fornvinur hennar á henni, móðir hennar á föðurnum, hann á karlmanni og sá á honum.

Einbjörn togar í tvíbjörn, tvíbjörn í þríbjörn o.s.frv.

Ástarsorgin er kannski í fyrirrúmi, þar með talin sorg Líneikar yfir ótímabæru láti dóttur og besta vinar. Og láti foreldra og eigin krankleika, krabbanum.

Svo sliguð er hún af ást og sorg að hún flyst í hús við sjó (Sælubólið) sem er  skammt frá eldstöðvum og bíður þess að gjósi og hraunið gleypi hana og bólið.

Heiti bókarinnar, Ból, vísar jafnt til bóls þar sem ástarleikir eru framdir og hins byggða bóls.

Líkön og skáldsögur

Vikjum að öðru. Í síðustu tveimur heimspekiskruddum mínum hef ég sett fram þá kenningu að í skáldsögum megi finna líkön af veruleikanum, ekki óskyld vísindalegum líkönum.

Í líkönum er myndin af veruleikanum einfölduð með þeim hætti að  öll áhersla  er lögð á þá þætti, sem varða þá rannsókn sem verið er að stunda. Vægi þeirra er ýkt fyrir sakir raka

Í Bóli er ástin sýnd í sinni ýktustu mynd,  ofuráhersla lögð á hana en horft fram hjá öðrum þáttum. Eins og í góðu líkani.

Líkön eru hvorki sönn né ósönn en misfrjó, hið sama gildir um skáldsögur. Í Bóli má finna líkan sem   gefur lesanda kost á sjá ástina sem hættuspil, sem tortímandi afl. Líkanið er vel hannað og virðist frjótt.

Heimspekingurinn Martha Nussbaum staðhæfir að ást sé ekki altaf blind, hún geti stundum opnað augu manna, veitt þeim innsýn í veruleikann. Ofurástin í bók Steinunnar er ekki þess eðlis, hún blindar og skaðar.

En skáldsaga væri ekki skáldsaga ef ekkert annað en líkanið kemur við sögu, þar skilur með skáldskap og vísindum.

Hversdagslífi er vel lýst í bókinni, persónusköpun er öll hin ágætasta. Í líkani er flest skissukennt, í skáldskap verða persónur helst að vera margþættar.

Náttúran leikur mikilvægt hlutverk, bæði sem frelsandi afl og ógnvaldur. Eldgosið mögulega er bæði tortímandi og frelsandi í senn, getur veitt Líneik líkn, frelsað  frá sorg og ástarsorg.

Rétt eins og ástin sem er náttúruafl, frelsandi og eyðileggjandi. Sem hún er við það að fyrirfara sér uppgötvar hún hálfdautt lamb og kýs að bjarga lífi þess og sínu um leið.

Lambið er dæmi um frelsandi mátt náttúrunnar, eins og tré og blóm eru í lífi Líneikar.

Stíllinn og fleira

Bókin er giska lipurlega skrifuð, á köflum mjög vel stíluð, ekki síst þegar Líneik er látin lýsa því hvernig ofurástin heltók hana.

Sá kafli snart mig djúpt, lokakaflinn er líka frábærlega velskrifaður.

En bókin er ekki fullkomin fremur en önnur mannanna verk. Til dæmis er meginsamtal Líneikar við Eyjó (kærasta föður hennar) stirðbusalegt á köflum, ögn ræðukennt, jafnvel sjálfshjálparbókarkennt.

Og Eyjó birtist í  bókarlok  svo lítið eins og deus ex machina, best að láta það goðmagn hvíla í friði.

Hvað um það, ég fékk allmargar  stjörnur í augun. Bókin er margra verðlauna virði.  

Líneik ber kannski ekki af öðrum en Ból ber af flestum skáldsögum. 


ÓTÍMABÆRAR ATHUGASEMDIR 1: Napóleon var LÍKA umbótamaður!

 

Hér með hefur göngu sína blogg/feisbókar-þáttur en heiti hans er ættað frá Friedrich Nietzsche sem reit kver með heitinu „Unzeitgemäße Betractungen“, útlagt á íslensku: Ótímabærar athugasemdir.

 

Nietzsche vildi með þessu heiti undirstrika að í ritgerðunum væru viðurkennd viðhorf gagnrýnd, t.d. gagnrýndi hann þá  dýrkun á sagnfræði og kenningunni um sögulegar framfarir sem  var mjög áberandi á þessum árum.

Ég hyggst í þessum þáttum gera slíkt hið sama, leikurinn hefst á gagnrýni á vinsælar hugmyndir um Napóleon.

Fyrsta athugasemdin  er skrifuð í tilefni kvikmyndarinnar um Napóleon en í henni er honum aðeins lýst sem herforingja og elskhuga.

Í hlutverki þess síðarnefnda gerir hann það án þess að fara úr buxunum, bara í Hollywood geta menn slíkt.

Í lok myndarinnar er vígi þriggja milljóna manna lýst á hendur honum, rétt eins og andstæðingar hans væru saklausir af mannfallinu.

Ekkert orð um réttarbætur hans, ekki setning um það hvernig hann gaf Gyðingum borgararéttindi og hjó víða að feysknum rótum lénsveldis. Hann svipti m.a. handverksgildin einokunaréttindum sínum og jók með þessu og öðru  markaðsfrelsi.

 Í myndinni  er hann sýndir sem herforingi í Egyptalandi, ekkert sagt um tilraunir hans til að koma á umbótum þar í landi, veita innfæddum borgararéttindi.

 

 Forveri fasista eða frjálslyndur umbótamaður?

 

Þrátt fyrir þetta kalla sumir hann forvera Mussolinis og Hitlers, skynsamari menn leggja áherslu á að hann hafi verið eindreginn fylgismaður upplýsingastefnunnar og stuðlað, þrátt fyrir allt, að framförum.

Til að mynda var hann lagabætir mikill, hann setti sínu mikla veldi lög sem við hann eru kennd. Með því gerði hann Frakkland og allt sitt heimsveldi að réttaríki og þó.

Rétt eins og forverar hans í frönsku byltingunni var hann lítill unnandi kvenréttinda, ef eitthvað var dró úr réttindum kvenna í lögum hans.

Í þessu sjáum við tvíeðli Napóleons, með einni hendinni jók hann mannréttindi, með hinni dró hann úr slíkum réttindum. Tvíeðlið sést líka í herför hans um Ítalíu í lok átjándu aldar, annars vegar opnaði hann gettó Gyðinga og gaf þeim full réttindi, hins vegar rændi hann listaverkum í stórum stíl.

Þegar hann hernam Möltu frelsaði hann innfædda undan oki  musterisriddarana, afnam lénsveldið og veitti Gyðingum og múslimum trúfrelsi.

En hermenn hans svívirtu dómkirkjuna í La Valetta og gerðu hana að hesthúsi. Svo mjög mislíkaði hinum rammkaþólsku Möltubúum framferði þeirra að þeir risu gegn Frökkum og tóku Bretum fagnandi.

Napóleon ætlaði að losa Spánverja úr viðjum rannsóknarréttar og erkikaþólsku, láta sól upplýsingarinnar skína yfir landið. En fór fram með slíkum ofstopa að Spánverjar fengu nóg og gerðu uppreisn gegn Frökkum.

Ekki síst  gegn Joseph Bonaparte, bróður Napóleons sem keisarinn hafði gert að konungi Spánverja. Sá játaði í bréfi til bróður síns að hann nyti einskis stuðnings á Spáni.

Joseph var ekki eini bróðurinn sem Napóleon gerði að konungi og þóttu fæstir þeirrar miklir skörungar.

Hermann Lindkvist segir í ævisögu Napóleons að hann hafi öðrum þræði verið korsískur ættbálkahöfðingi sem taldi sjálfsagt að hygla ættingjum sínum.

Samt talar Lindkvist yfirleitt vel um hann, bendir til dæmis á að Bretar hefði sagt stríð á hendur honum árið 1803 þegar Evrópa hafði notið friðar um nokkurt skeið.

Það er því rangt að Napóleon hafi einn borið ábyrgð á hildarleiknum sem ekki lauk fyrr en við Waterloo tólf árum síðar. En hann lét leyfa þrælahald á ný í nýlendum Frakka, frönsku byltingarmennirnir höfðu afnumið það.

Annað mikið fólskuverk var framkoman við Haitímenn.  Hinn stórmerki leiðtogi blökkumanna þar í landi, hernaðarsnillingurinn Toussaint L‘Ouverture, hafði losað landið við franska nýlendukúgun, afnumið þrælahald og komið á upplýstu stjórnarfari.

En Napóleon sendi her til landsins og lét handataka L‘Ouverture sem veslaðist upp og dó í frönsku fangelsi. Saga Haití hefði kannski orðið önnur ef Napóleon  hefði látið landið  í friði.

Þá kann einhver að  spyrja  hvort enn eitt fólskuverkið hafi verið  það að hann stofnsetti leynilögreglu í félagi við hinn skuggalega lögreglustjóra Fouché. Svarið er að lögregluveldi Napóleons var í mildara lagi, fáir pólitískir fangar.

Napóleon fór jafnan  mildum höndum um andstæðinga og keppinauta. Hin miklu mistök hans var innrásin í Rússlandi, þar missteig hinn snjalli herforingi sig. Af einhverjum ástæðum vildi hann hernema Moskvu en ekki höfuðborgina Pétursborg sem var mun  nærri veldi hans en Moskva.

Hefði hann náð því að sigra Rússakeisara hefði Pólland losnað undan rússnesku oki og þróun Rússlands kannski orðið önnur. Hefðu ánauðgir bændur þar fengið frelsi? Væri einhver Pútín í valdastóli þar eystra nú?

Að meta ferilinn.

Til að meta feril Napóleons verða menn  að hafa í huga hvernig veröldin var á hans dögum. Vart voru til eiginleg lýðræðisríki, vísir var að lýðræði í löndum eins og Sviss og Bretlandi, en þó var hann stærstur í Bandaríkjunum.

En þar nutu blökkumenn, indíánar og konur engra lýðræðisréttinda, flestir blökkumenn voru þrælar og frumbyggjar hundeltir eins og villidýr.

 Í Bretlandi nutu auð- og aðalsmenn einir lýðræðislegra réttinda. Þeir áttu líka einkarétt á frama í embættiskerfi og her, gagnstætt Frakkaveldi þar sem allir karlmenn nutu þessa réttar, þökk sé frönsku byltingunni og lagasetningu Napóleons. 

Hinu verður ekki neitað að Bretar og Bandaríkjamenn höfðu tiltölulega mikið  mál- og prentfrelsi, slíku var ekki til að dreifa í veldi Napóleons.

Lokaorð.

Hvað sem því líður þá er gjörsamlega fáránlegt að líkja Napóleoni við Hitler, Mussolini og Stalín. Þeir káluðu frelsinu, Napóleon jók það sum part, dró sum part úr því.

Hann var margþættari en andskotinn.

PS Í kvikmyndinni er Wellington lávarður látinn árið 1815 tala um Belgíu en það land var ekki til þá. Einnig er téður lávarður látinn ávarpa Naflajón sem „your grace“. Bretar viðurkenndi ekki Napóleon sem keisara, kölluðu hann ávallt „general Bonaparte“, stundum „Bony“.

 

Helstu heimildir:

Jospin, Lionel 2014: Le mal napoléonien. París: Éditions du Seuil.

Jospin bölvar Napóleoni í sand og ösku og telur hann bera ábyrgð á öllu sem miður hefur farið í Frakklandi síðust tvær aldirnar. En þessi fyrrum forsætisráðherra Frakklands ómakar sig ekki á að vísa í heimildir.

 

Lindkvist, Hermann 2004: Napoleon (þýð. Henrik Eriksen). Ósló: Schibsted.

Norma, Pierre 2002: Napoléon. París: Maxi-livres.

Roberts, Andrew, viðtal í Daily Beast


JÓLABÓKARÝNI NR 4: Kletturinn eftir Sverri Norland.

Ég hef verið að glugga í Sverrissögu, söguna um Noregskonunginn Sverri Sigurðsson.

Nafni hans Norland er kannski ekki skáldkonungur en liðtækur rithöfundur samt. Það sést vel í nýju skáldsögunni hans Kletturinn.

Aðalpersónan, Einar Torfason, segir söguna í fyrstu persónu, um útileguna með vinum sínum Ágúst og Brynjari, útilegu sem endaði með hörmungum.  Ágúst féll niður af kletti og dó.

Slysið verður að skugganum í lífi Einars, gefið er í skyn að hann hafi átt einhvern þátt í slysinu, alla vega finnst honum það sjálfur.

Hann verður að eins konar mannkletti, steingervður hið innra, um leið og hann veigrar sér við að klifra klett mannorðanna.

Í lokin nær hann áttum sættir sig við lífið og hlutskipti sitt.

Ágæt bók, persónusköpun er prýðileg, lesandinn verður nákominn Einar og hans nánustu, einnig vinum hans töffaranum Brynjari og gáfnaljósinu Ágústi. 

En ekki er bókin  gallalaus fremur en önnur mannanna verk. Til dæmis eru samtöl Einars við Brynjar og Tinu Birnu, konu þess síðarnefnda, ögn væmin og sjálfshjálparbókarleg.

Miklu minna skiptir að Sverrir notar sögnina „að stika“  óþarflega oft, til er fjöldi annarra orða með svipaða merkingu.

Ekki skiptir heldur miklu það sem segir á blaðsíðu 72 um að annað fólk hafi glatað sannleiksgildi sínu. Heimspekingurinn í mér mótmælir og segir að setningar, kenningar og staðhæfingar geti haft sannleiksgildi, ekki fólk. En líklega á hann við að fólkið hafi misst þýðingu sína.

Allt um það, ég fékk fáeinar stjörnur í augun við lestur þessa kvers.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband