Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

JÓLABÓKARÝNI NR 3: Vegamyndir eftir Óskar Árna Óskarsson

Eru ekki bókmenntir bestar í háloftunum? Ég las bók Óskars Árna Óskarssonar Vegamyndir í flugvél og varð fyrir flug-hug-ljómun, skildi Skara betur en áður.

En fyrst ögn um kverið. Hér er á ferðinni úrval smáprósa og ljóða frá 1990-2015, velflestir textarnir tengjast ferðalögum um landið, aðallega útkjálka þess.

Ein sagan fjallar um ímynduð þorp, kallast kannski á við hina dásamlegu bók Italo Calvinos Borgirnar ósýnilegu. Þær eru ósýnilegar því þær eru strangt tekið ekki  til, hið sama gildir um þorpin ímynduðu. En samt til á vissan hátt, ofurraunveruleg.

Óskar er maður minimalisma, beinir sjónum sínum að hinu smáa og hversdagslega sem við nánari aðgæslu er hvorki smátt né hversdagslegt.

Sérstaklega ekki þegar Óskar lætur fantastíska viðburði gerast í hvunndeginum, lætur t.d. Jónas Hallgrímsson birtast á nútímakaffihúsi úti á landi.

 Mér hafa þótt bækur Óskars dálítið misjafnar að gæðum, stundum tekst honum ekki að gera hvunndaginn spennandi.

En í þessari bók má finna margt af því besta úr bókum hans. Ég fékk nokkrar stjörnur í augun.


JÓLABÓKARÝNI 2: Heimsmeistari eftir Einar Kárason

Í lok aldarinnar síðustu var Robert James  Fischer týndur. Þá kynntist ég bandarískum Gyðing sem sagðist vita hvar hann héldi sig. Hann hefði átt vingott við frænku skákmeistarans sem þá bjó á leyndum stað í Los Angeles. Fischer hafi sagt við hann „þú ert nú alveg ágætur, af Gyðingi  að vera“. Hann var sjálfur sem kunnugt er af Gyðingakyni.

Einar Kárason byggir skáldsögu sína Heimsmeistari  á ævi Fischers. Ekki verður séð að hann skáldi mikið í hinar mörgu eyður í sögu skákmeistarans snjalla. Reyndar hefði hann mátt nota veruleikann meira, t.d. hin furðulegu kvennamál Fischers. Stundum er veruleikinn skáldlegri en skáldskapurinn.

Því miður er dálítið um stílhnökra í bókinni. Athugið eftirfarandi setningarbút: „Hann var að vísu brynjaður með réttmætum fjandskap í garð stjórnvalda…“ (bls. 7).

Maður getur verið brynjaður gegn einhverju tilteknu en það er rökleysa að tala um að vera brynjaður í garð einhvers. Þess utan er ekki smekklegt að nota líkingu við eitthvað handfast, brynju, í tengslum við eitthvað miður handfast eins og stjórnmál.

Betra hefði verið að segja hann brynjaðan gegn örvahríð eða spjótalögum stjórnvalda. Örvar og spjót eru handföst rétt eins og brynja.

Aðra  hnökra má finna á blaðsíðu 10. Þar segir að hvítir landnemar í Vesturheimi „…ristu heimahaga frumbyggjanna á hol…“ Þetta er smekkleysa af svipuðum toga og sú fyrri.

Það ber að hafa allt líkingarmálið á sama tilverustigi, brynjur og spjót eru á sama tilverustigi, ekki heimahagar og það sem rista má á hol.

Kannski hefði mátt segja að hvítingjar hafi rist búk frumbyggjasamfélagsins á hol, búkar eru ristir á hol og ekkert gegn því að líkja samfélagi við skrokk. Á blaðsíðu 26 stendur: „Hugur hans var biksvartur…“, svipað á blaðsíðu 29.

Nú er vissulega oft talað um myrkan eða þungan huga, samt kann ég ekki vel við þessa líkingu, kannski er um að ræða smekksatriði.  

Á blaðsíðu 59 er hugmynd Fischers um nýsköpun í skák kölluð „Random-kerfið“. Það er venjulega kallað „slembiskák“ á íslensku, í slíkri skák er taflmönnum raðað á byrjunarreitum með nánast tilviljunakenndum hætti.

Styrkur Einars hefur löngum verið mikil frásagnagleði og sagnahæfni. Mér finnst hvortveggja vanta í þessari bók, það er eins og honum leiðist að skrifa hana. Hann getur miklu betur.

Feisbókarvinur spurði af hverju ég gæfi ekki stjörnur í jólabókadómum. Ég sagðist hafa ímugust á stjörnugjöf en fengi stundum stjörnur í augum er ég læsi  frábærar bækur.

Engar stjörnur í mínum augum nú.


Börn og stríð

Eitt hið skelfilegasta við stríðin milli Rússa og Úkrainumanna, Ísraela og Hamas, er sú staðreynd að saklaus börn eru fórnarlömb þeirra.

Á hverjum degi sjáum við í sjónvarpi sárþjáð andlit palestínskra barna, ef marka má tölur frá Gasasvæðinu hafa þúsundir þeirra fallið í árásum Ísraela.

Eins og það sé ekki nóg  eru  Hamasliðar  sagðir hafa drepið smábörn með bestu lyst og rænt nokkrum þeirra, sumum án foreldra sem þeir höfðu myrt.

Og Rússar eru ásakaðir um að hafa rænt tugþúsundum, ef ekki hundruð þúsundum,  úkraínskra barna.

Þýski Gyðingurinn og nóbelshafinn  Nelly Sachs orti áhrifamikinn kvæðabálk um helförina, hluti hans fjallar um örlög barnanna í gereyðingarbúðunum:

„Ó nótt hinna grátandi barna!

Nótt barnanna sem merkt eru dauðanum!

Svefninn  hefur ekkert opið hlið lengur.

Skelfilegar varðkonur hafa

tekið stöðu mæðranna,

þær hafa spennt hin svikula dauða í vöðvum sér,

sá honum í veggi og bjálka-

alls staðar klekjast egg út í hreiðri hins illa

smábörnin sjúga angist í stað móðurmjólkur.“

 

Heimsbyggðin verður að krefjast þess að börnunum verði hlíft!

 


JÓLABÓKARÝNI 1: Högni eftir Auði Jónsdóttur

Hér með hefst jólabókarýni undirritaðs og verður fyrst rýnt í Högna hennar Auðar Jónsdóttur. Bókin fjallar um vistsinnaðan  framtíðarfræðing  (Högna) sem virðist alger hrakfallabálkur þar til rofa tekur í lífi hans í bókarlok.

Hann er fórnarlamb netofsókna rétthugsenda en þegar hann iðrast opinberlega er hann tekinn í sátt af hinu almáttka neti. 

Kvennamál hans leika mikið hlutverk, honum er lýst sem harla ómyndarlegum manni en með góðan húmor.

Ég held að löggild kvennagull gætu grátið af öfund yfir þeim séns sem þessi leppalúði hefur.

Ekki fannst mér meint kímnigáfa hans góð, ég verð að játa að hann fór ögn í taugarnar á mér.

Læra má af heimspekingnum Stanley Cavell að listdómar krefjist sjálfsskilnings dómara. Hann verði að gera sér grein fyrir hvað í honum sjálfum liti dóminn, til að ná því marki verði hann að líta í launkofa hjarta síns og reyna að skilja sig sjálfan.

Ef til vill  læri ég eitthvað um mig sjálfan í krafti þess að láta Högna ræfilinn pirra mig, sérstaklega svonefnda kímnigáfu hans (kannski öfunda ég hann af kynþokkanum!).

Aristóteles benti á að sitthvað væri sannleikur og trúverðugleiki í bókmenntaverki. Slíkt verk getur verið ósatt en trúverðugt, trúverðugleiki væri aðalatriðið. En skarast ekki sannleikur og trúverðugleiki, alltént í skálduðum sögum hvers heimur er mjög líkur raunheimum (jafnvel rauna-heimum)?

Mér finnst ofurséns Högna ótrúverðugur, bæði vegna þess hversu lummó hann er í útliti og hve óspennandi húmor hans er.

Í hinum napra veruleika (sviði sannleikans) er ólíklegt að slíkur gaur slái í gegn hjá konum.

Hvað um það, bókin byrjar ekki ýkja vel en batnar smám saman, sérstaklega er síðasti hlutinn þokkalega góður. Í þeim hluta er Högni sjálfur sögumaður.

Ef finna má einhvern boðskap í bókinni þá er það helst  gagnrýni á pólitíska rétthugsun og hjarðmennsku á netinu.

Þetta er sæmilega góð  skáldsaga en tæpast neitt meistaraverk.

 

 


VEI YÐUR FRÆÐIMENN OG FARISEAR, HRÆSNARAR!

  

Ömurlegt er að fylgjast með málflutningi alltof margra einstaklinga um atburðina fyrir botni Miðjarðarhafs.

Vinstrimenn fordæma bara Ísrael, nefna ekki morðæði Hamas, hægrimenn einblína á illgjörðir Hamasliða en verja yfirgang Ísraela og fjöldamorð þeirra á Gasabúum.

Vinstrimenn nefna ekki kúgun Hamas á konum og samkynhneigðum, harðstjórn þeirra og spillingu PLO.

Hægrimenn láta hjá líða að ræða yfirgang landnema á Vesturbakkanum og þá staðreynd að hreinræktaðir fasistar sitja nú í stjórn Ísraels.

Samkvæmt skjölum, sem lekið var í fjölmiðla, ræða ráðamenn þann möguleika að hrekja alla íbúa Gasasvæðisins til Egyptalands. Það heitir „þjóðarbrotshreinsun“ á venjulegu máli.

En ekki má gleyma „afrekum“ Hamasliða, þeir  eru slík varmenni að vel má vera að þeir geri sér vígahreiður í sjúkrahúsum og einkaíbúðum.

Hvað sem því líður þá hafa hvorki hægri- né vinstrimenn mikla samúð með Palestínumönnum og Ísraelum.

Þeir hafa aðallega samúð með sjálfum sér, með sínum pólitísku kreddum. Deilan snýst í reynd um Bandaríkin, vinstrimenn eru á móti Ísrael af því að BNA styður það, hægrimenn halda með Ísrael af sömu sökum.

Í Rómeó og Júlíu Shakespeares segir Mercutio um Capulet og Montague  ættirnar sem börðust um völdin  í Verónu: „A plague o‘ both your houses!“


ÖLD ELLISMELLANNA

Kynslóðin  sem óx úr grasi á sjöunda tug síðustu aldar hélt æsku sinni mjög á lofti og vantreysti eldra fólki.

Þessi kynslóð veður enn uppi, vestanhafs bítast tveir öldungar um völdin og sjötugir karlar ráða Rússlandi og Kína.

Rokkarar af þessari kynslóð láta ekki deigan síga, nýverið gaf Rolling Stones út nýja plötu. Finna má ýmsa góða rokk-smelli á henni.

Við lifum á öld ellismellanna.


STJÓRNMÁL SKROKKSINS

Í mínu ungdæmi snerist hugmyndafræðileg umræða um kerfi, þá helst efnahagskerfi. En á þessari öld snýst ídeólógísk umræða í miklum mæli um líkamann.

Litarháttur líkamans er mikilvægari en framleiðsluhættirnir, kynferði hans skiptir meira mál en eignadreifing.

Þótt raunlaun standi í stað vestanhafs og millistéttin sé í hættu eru vinstrimenn þar aðallega í því að stunda meinta kynþáttavakningu.

Í stað þess að stofna verkalýðsfélög en Reagan tókst að stúta þeim með skelfilegum afleiðingum fyrir launþega.

Þeir fjargviðrast yfir meintri kynferðismismun í stað þess að beina sjónum sínum að tekjumismun.

Ekki eru hægrimenn skárri, þeir berjast eins og ljón gegn rétti kvenna til að ráða eigin skrokk. Auk heldur  vilja þeir helst banna bækur þar sem talað er um aðrar kynhvatir og -samsemdir en þær sem til skamms tíma voru þær einu viðurkenndu.

Í stað þess að berjast fyrir markaðsfrelsi en slíkt frelsi er ekki án kosta þótt ofmetið sé í vissum kreðsum.

Nú kann einhver að segja að ég sé aðeins að tala um bandarísk stjórnmál, ástandið sé öðruvísi annars staðar á hnettinum.

Ekki mikið öðruvísi, alþjóðlegt aðdráttarafl Pútíns er ekki síst fólgið í herferð hans gegn samkynhneigðum skrokkum.

Og ISIS skveraði slíkum skrokkum út um glugga á háhýsum (Pútín lætur sér nægja að veita  pólitískum  andstæðingum þess lags meðferð).

Í Afganistan er mannverum með kvenlíkama meinuð skólaganga, ástandið í Íran og Sádí-Arabíu er litlu skárra. Um kjör samkynhneigðra í þessum löndum þarf vart að fjölyrða.

Svo vikið sé norður á bóginn þá  snerust kosningarnar í Póllandi að verulegu leyti um líkamann, fóstureyðingar, samkynhneigð o.s.frv.

Ekki dettur mér í hug að neita því að skrokkurinn sé hápólitískt fyrirbæri og mikilvægt sé að stunda skynsamleg skrokksstjórnmál. En öllu má ofgera.


Samræða um Ísrael og Palestínu

 

Hér getur að líta samræðu milli þeirra  Stefáns Ísraelssinna og Stefáns Palestínusinna.

Stefán Ísraelssinni: Hamas hamast við að myrða kornabörn. Þetta eru aldeilis hugrakkar hetjur sem berjast við hvítvoðunga!

Í ofan á lag drápu morðhundarnir 40 araba og talsvert af fólki frá rómönsku Ameríku og Asía. Sagt var á CNN að Hamasmorðingjarnar létu ísraelsk börn, hverra foreldrar voru myrtir af þeim, ganga um stræti Gaza þar sem skyrpt sé á þau og þau barin með prikum.

Heyra megi morðingjana hlægja að þeim. Þetta er sagt byggja á myndböndum sem morðhundarnir  hafa sett á félagsmiðla. Ég hef ekki fundið þau sjálfur en fann óhugnanlegt myndband sem sýnir ísraelska fjölskyldu í höndum Hamas-níðingana, þeir myrða eitt barnanna.

Jón Trausti Reynisson bendir á að fjöldamorð Hamasliða á friðsömum ungmennum á tónlistarhátíð minni á fjöldamorð Anders Behring Breiviks en sá er yfirlýstur fasisti.

Hann lét alla vega eiga sig að drepa varnarlaus smábörn. Ég vona að Ísraelunum takist að góma hvern einasta þeirra sem ábyrgð bera á þessum  fjöldamorðum, slátra þeim eða fá þá dæmda fyrir glæpi gegn mannkyninu.

Ekki má gleyma því að Hamas kúgar Palestínumenn á Gasasvæðinu til að gera illt verra er stefnuskrá þeirra gegnsýrð af Gyðingahatri.

Vitnað er fjálglega í Skrá öldunga  Síons, falsriti sem leynilögregla Rússakeisara setti saman en þar eru  þessir Gyðinglegu öldungar látnir segja að þeir stefni að heimsyfirráðum.  

Í stefnuskránni  er borið á Gyðinga að þeir eigi sök á frönsku byltingunni, valdatöku Bolsévíka í Rússlandi, báðum heimsstyrjöldunum  og- haltu þér fast-Rotary og Lions.

Þessir klúbbar eru að þeirra mati hluti af síónísku samsæri og stuðla að auknum alkóhólisma og dóptöku.

Karlinn faðir minn hafði ekki únsu af Gyðingablóði í æðum og var gagnrýninn á margt í stefnu Ísraelsríkis en samt virkur Rotary-félagi! Ekki kannast ég við að hann hafi barist fyrir auknum dóp- og alkóhólisma.

Stefán Palestínusinni: Stilltu þig, gæðingur. Mundu  að ísraelski flugherinn er  ansi drjúgur við að drepa börn á Gazasvæðinu.

Þeir herja á borgara þar og eru því ekki hótinu skárri en Hamas, núverandi herferð þeirra þar kostar mun fleiri mannslíf en árás Hamasliða.Þeir eru komnir góða leið með að rústa allri Gasaborg, hrekja milljónir manna á flótta og drepa í stórum stíl. 

Hvað stefnuskrá Hamas varðar þá drógu Hamasliðar talsvert í land í útgáfunni frá 2017. Einnig segir í fyrstu skránni að í múslimsku Palestínuríki myndu múslimar, kristnir og Gyðingar lifa saman í friði.

Stefán Ísraelssinni:  Ísraelsher  til afbötunar skal sagt að ásetningur hans hefur vart verið að deyða börn.

Þess utan varar herinn  óbreytta borgara einatt við áður hann hefur loftárasir.

Hamas-morðhundarnir myndu fremur fara út og hengja sig en vara einn eða neinn við einu eða neinu.

Drógu þeir í land? Er kannski nýja útgáfan af stefnuskránni tilraun til að varpa ryki í augu heimsbyggðarinnar? Gildir það sama um ákvæðin í fyrri stefnuskrá þar sem kveðið er á um vernd trúarbragða?

Stefán Palestínusinni:   Barnadauðinn (barnfallið?) á Gaza er afleiðing af varasamri stefnu Ísraels.

Liður í henni er sá ósómi að neyða íbúa Gasa til að búa við slíkt þéttbýli að erfitt er að forðast sprengjuárásir þótt sprengjunum sé varpað að á hernaðarleg skotmörk.

Stefán Ísraelssinni:   Barnavinafélagið Hamas gæti vel mögulega  átt sökina, hreyfingin notar  skóla og sjúkrahús sem vígahreiður og vopnabúr.

Stefán Palestínusinni: Það segja Ísraelsmenn en hver segir að það sé satt? Háttsemi  Hamasliða er að einhverju leyti skiljanleg í ljósi þess hve bág staða fólksins á Gasasvæðinu er.

Fólkið býr þar eins og síld í tunnu, má vart  veiða fisk í sjónum og hefur mjög takmarkað ferðafrelsi. Í rauninni býr fólkið þar í fangabúðum, þeim stærstu í heimi. 

Ekki er betur farið með Palestínumenn á Vesturbakkanum, þeir verða að lúta herlögum meðan landnemar, sem ekki einu sinni búa í Ísrael, lúta ísraelskum lögum.

Stefán Ísraelssinni:  Gyðingum í Rússlandi keisarans var aðeins leyft að búa á takmörkuðum svæðum, í ofan á lag voru þeir kerfisbundið ofsóttir af kósökkum og keisaraveldinu, reglulega framin fjöldamorð á þeim.

Samt stunduðu þeir ekki hryðjuverkastarfsemi.

Þeir sem halda að íslömsk hryðjuverk í Evrópu  stafi af því að illa sé farið með múslima þar ættu að athuga að mun verr var farið með Gyðinga og Rómaþjóðina víða í Evrópu.

Man einhver eftir hryðjuverkum, frömdum af þeim? 

Stefán Palestínusinni: Hver segir að Gyðingar og Rómafólk hefðu ekki getað bætt stöðu sína með því að beita vopnum?

Gagnrýninn Ísraeli mun hafa sagt að ein af ástæðum þess að Hamasliðum  tókst að ráðist inn í landið hafi verið sú að stór hluti hersins var á Vesturbakkanum að hrella óvopnaða Palestínumenn.

Ísraelinn kallaði framferði þeirra „pogrom“ en það orð er notað um skipulegt ofbeldi gegn Gyðingum. Kannski á framferði Ísraela mikinn þátt í því að reka Palestínumenn í faðm morðingja og hryðjuverkamanna.

Ísraelar gera margir hverjir allt sem þeir geta til að gera Palestínumönnum lífið leitt eða hreinlega drepa þá.

Stefán Ísraelssinni: Kannski orsakast framferði Ísraela  af óbilgirni Palestínumanna.

Palestínumenn hefðu átt að sætta sig við skiptingu landsins árið 1947? Hefði nagba (harmleikur þeirra) þá átt sér stað í stríðinu 1949 þegar Ísraelarnir hröktu þá af landinu?

Stefán Palestínusinni: Það var skiljanlegt að þeir sættu sig ekki við hana. Gyðingunum var ætluð 55% af landinu (hluti af því var besta landbúnaðarlandið9  þótt þær væru aðeins 30% íbúanna og réðu varla meir ein 10% landsins.

Palestínuríkið hefði ekki verið lífvænlegt, jafnvel liðið fljótlega undir lok, Ísraelar hefðu hæglega getað tekið það yfir.

Ísraelski fræðimaðurinn Benny Morris segir að  Ísraelarnir hafi tuttuguogþrisvarsinnum framið   fjöldamorð á Palestínumönnum í stríðinu 1947-9. Slíkt athæfi hafi liður í því að hrekja þá burt, það tókst.

Stefán Ísraelssinni:  Þú gleymir því að Morris talar líka um fjöldamorð Palestínumanna á Gyðingum.

Þú hunsar líka þá staðreynd að Palestínumenn frömdu fjöldamorð á Gyðingum þegar á þriðja áratug síðustu aldar. Ofbeldisaldan reis fyrst í þeirra hafi, Gyðingarnir höfðu enga ástæðu til að treysta þeim og ráku þá þess vegna burt.

Hvað sem öðru líður hefði staða Palestínumanna verið mun betri hefðu þeir sætt sig við skiptinguna, það er engan veginn ljóst að ríkið hefði ekki getað lafað með alþjóðlegri aðstoð.

Af hverju börðust Palestínumenn ekki fyrir ríkisstofnun á Vesturbakkanum og  í Gasa á meðan þessi svæði lutu Jórdaníu og Egyptalandi? 

Þessum ríkjum var  í lófa lagið að stofna Palestínuríki þar.

Stefán Palestínusinni: Hefði, hefði, „hefði ég betur hana þekkt sem harma ég alla daga“.

Við verðum að beina sjónum okkar að ástandinu eins og það er ekki, ekki eins og það hefði getað orðið.

Gott, nú skal ég koma með hefði, hefði dæmi: Kannski hefðu þeir, sem stóðu að Versalasamningunum, átt að gefa grænt ljós fyrir jiddískumælandi ríki Gyðinga í Galisíu sem nú er að mestu hluti Úkraínu.

Ef slíkt ríki hefði komist á laggirnar þá má spyrja hvort þá hefði  orðið nokkur helför.  Hefði þá verið þörf fyrir Gyðingaríki fyrir botni Miðjarðarhafs? Spyr sá sem ekki veit.

Stefán Ísraelssinni: Nasistar hefðu gert það að meginmarkmiði sínu að eyðileggja þetta ríki og drepa alla íbúana. Og hefðu farið létt með það.

Í því sem nú er Ísrael voru Gyðingarnir alltént í vari fyrir nasistum.

Stefán Palestínusinni: Gott og vel en höfðu Gyðingarnir rétt til að stofna sérstakt riki þar?

Stefán Ísraelssinni: Það var ekkert ríki þar og tæpast nokkur palestínsk þjóð heldur fjöldi lítilla samfélaga múslimskra araba, drúsa, kristinna Armenna og Grikkja o.s.frv.

Þess utan hefur slangur af Gyðingum búið þarna frá alda öðli. Gervi-messíasinn Sabatei Zevi, sem uppi var á sautjándu öld, bjó um nokkurt skeið í Jerúsalem og átti aðkomu að efnahagsmálum Gyðinganna þar en þeir áttu erfitt með að greiða firnaháa skatta.

Það er ekki Gyðingunum að kenna að þeim hafi verið vísað úr landi af Rómverjum, þeir eiga fullt eins mikið tilkall til lands þar eins og Palestínumenn. Nefna má að á sjöunda öld urðu Gyðingar aftur meirihluti íbúana þar á stuttu tímabili.

Stefán Palestínusinni: Var til nokkur Ísraelsþjóð fyrir 1949? Palestínuarabar voru meirihluti íbúanna þarna og höfðu því rétt til að stofna eigið ríki.

Hver hafi búið þar   fyrir tvö þúsund árum skiptir ekki máli, fyrir 1500 árum var stór hluti Þýskalands byggður slafneskumælandi þjóðum.

Þýðir það að arfar þeirri eigi rétt á löndum þar?

Stefán Ísraelssinni: Þeir hafa enga tilfinningu fyrir þessum svæðum sem heimalandi sínu. Hugmyndin um Ísrael sem heimaland hefur frá örófi alda verið liður í sjálfssemd þeirra.

Stefán Palestínusinni: Gaf það þeim leyfi til að hrekja hundruð þúsunda Palestínumanna frá heimilum sínum og ræna eigum þeirra?

Stefán Ísraelssinni: Hvað gaf hinum arabaríkjunum leyfi til að hrekja hundruð þúsunda Gyðinga úr landi, ræna eigum þeirra, myrða og nauðga? Þeir flúðu til Ísraels í hrönnum, afkomendur þeirra eru bitrir út í arabana og lítt gefnir fyrir samninga við þá.

Lái þeim hver sem vill. Þegar þýskumælandi menn  voru hraktir frá austanverðri Evrópu eftir síðari heimsstyrjöld settust þeir að í Þýskalandi og Austurríki og samlöguðust þjóðunum þar.

Arabaríkin hafa mörg hver farið illa með palestínska flóttamenn og neitað þeim möguleika á að samlagast íbúum sínum þótt þeir tali sama tungumál og séu sömu trúar flestir.

Stefán Palestínusinni: Þú gefur þér að það hafi verið siðferðilega rétt að hrekja þýskumælandi fólk úr landi. A.m.k. tvær  milljónir  flóttamanna dó fyrir vikið.

Stefán Ísraelssinni: Skiljanlegt, ef ekki réttlætanlegt í ljósi þess hvernig Þjóðverjar hegðuðu sér á stríðsárunum.

Stefán Palestínusinni: Við skulum ræða þau mál við annað tækifæri. Lítum áfram á Palestínu og Ísrael.

Einstaklingur sem er að fjórðu Gyðingur hefur rétt til að flytja til Ísraels, ekki palestínskur flóttamaður hvers forfeður hafa búið þarna um aldaraðir. Finnst þér það í lagi?

Stefán Ísraelssinni: Nei, en vegna óbilgirni Palestínumanna er skiljanlegt að Ísraelar vilji stemma stigu við innflutningi þeirra. Hvað ef flóttamaðurinn er Hamaslega þenkjandi?

Stefán Palestínusinni: Hvað ef, hvað ef, kannski, kannski. Lítum á staðreyndir: Það er  apartheid í Ísrael. Palestínumenn hafa ekki kosningarétt og kjörgengi, á Vesturbakkanum hafa þeir takmarkaðan rétt til að hreyfa sig rétt eins og blökkumenn í Suður-Afríku.

Ísraelsmenn hafa sölsað undir sig um 80% af vatninu þar og ræna stöðugt meira landi.

Stefán Ísraelssinni: Þú gleymir því að ísraelskir arabar hafa kosningarétt og eiga þingmenn í Knesset, blökkumenn höfðu ekki slík réttindi í Suður-Afríku.

Arabíska er löggilt sem opinbert mál í Ísrael, engin af tungum blökkumanna hafði slíka stöðu í Suður-Afríku apartheidsins.

Nefna má að hinir arabísku drúsar gegna herþjónustu í Ísrael  drúsar eru sérstakur trúflokkur sem múslimum mörgum er illa við. Þeir hafa verið ofsóttir af þeim. 

Nýlega var arabískur drúsi sendiherra Ísraels í Noregi. 

Meðan ég man, það er þrátt fyrir allt lýðræði og tjáningarfrelsi í Ísrael, ekki á svæðum sem Palestínumenn stjórna.

Á Gasa ríkir harðræði og villimannleg kúgun eins og annars staðar þar sem róttækir íslamistar stjórna. Þarf að nefna Íran, Sádí-Arabíu, Afganistan og svæðin sem lutu ÍSIS?

Ég tel rétt að stofna sérstakt ríki Palestínumanna en með því skilyrði að gulltryggt verði að Hamas og þeirra líkar nái ekki völdum þar.

Stefán Palestínusinni: Engum dettur í hug að kalla Suður-Afríku apartheidsins lýðræðisríki þótt þar væri lýðræði fyrir hvítingja.

Með sama hætti er ekki hægt að kalla Ísrael lýðræðisríki þar eð það ríkir yfir milljónum manna sem hvorki hafa kosningarétt né kjörgengi.

Auk þess hljóta Palestínumenn sjálfir að mega ráða því hverja þeir kjósa til að stjórna sér.

Stefán Ísraelssinni: Þín skoðun, ekki mín. Viðurkennir þú að Hamas sé alræðissinnuð ofbeldissamtök sem hafi  framið stríðsglæpi?

Stefán Palestínusinni: Já, ég viðurkenni það. En viðurkennir þú að öfgasíonista, þ.á.m. ráðherrar í núverandi ríkisstjórn Ísraels, séu yfirgangsseggir?

Viðurkennir þú  að Ísraelsher vanvirði alþjóðalög um stríðsrekstur í árás sinni á Gaza?

Stefán Ísraelssinni: Ég get viðurkennt það.

Stefán Palestínusinni: Viðurkennir þú rétt Palestínumanna til eigin ríkis?

Stefán Ísraelssinni: Já,  en viðurkennir þú tilvistarrétt Ísraels?

Stefán Palestínusinni: Já.

Báðir: Við erum ekki að öllu leyti ósammála! Líklega reynum  við báðir eftir fremstu megn að vera mannúðarsinnar.

Heimildir meðal annars:

Cohn-Sherbok, Dan og El-Alami, Darwoud 2002: Israel-Palestina. Konflikten sett fra begge sider (þýð. Bjarte Kaldhol). Ósló: Spektrum forlag.

Jensehaugen, Jørgen 2023: En kort introduksjon til Israel-Palestina konflikten. Ósló: Cappelen Damm (Storytell).

Morris, Benny 2004: The Birth of the Palestinian Refugee Problem. Cambridge: Cambridge University Press.

Á netinu:

Stefnuskrá Hamas frá 1988:

https://avalon.law.yale.edu/20th_century/hamas.asp

Stefnuskráin frá 2017

chrome-extension://efaidnbmnnnibpcajpcglclefindmkaj/https://palwatch.org/storage/documents/hamas%20new%20policy%20document%20010517.pdf

Myndband ísraelsk fjölskylda í haldi Hamas.

https://www.youtube.com/watch?v=_kA1cyOESAA

Ofbeldi Ísralelsmanna á  vesturbakkanum https://www.btselem.org/press_releases/20230621_wave_of_settlers_riots_across_the_west_bank

Ofbeldi palestinumanna

https://en.wikipedia.org/wiki/Palestinian_political_violence

Skipting Palestínu

https://en.wikipedia.org/wiki/United_Nations_Partition_Plan_for_Palestine

Sabatei Zevi

https://en.wikipedia.org/wiki/Sabbatai_Zevi

 

 


Haukar í horni Pútíns, fálkar í ranni hans

Það er einkennilegur andskoti að tveir þeirra Íslendinga sem verja Pútín og innrás hans bera nafnið Haukur.

Þeir eru réttnefndir haukar í horni rússneska einvaldsins. Haukur nokkur Jóhannsson „upplýsir“ lesendur Morgunblaðsins um að Úkraínuher hafa á árunum 2014-2022 drepið 14000 óbreytta íbúa á Donbasssvæðinu.

En hvað segja Sameinuðu þjóðirnar? Þær segja að hér sé á ferðinni heildartala allra þeirra sem féllu á átökunum á þessu svæði. Af þeim hafi 4100 verið úkraínskir hermenn, 5650 rússneskir hermenn, 3350 óbreyttir borgarar.

Ætli Rússarnir beri minni ábyrgð á mannfallinu meðal óbreyttra borgara en Úkraínumenn?

Heimild Hauks þessa er eftir öllum sólarmerkjum að dæma rússneska áróðursvélin. Rússar hafa notað þessa staðhæfingu um mannfall óbreyttra borgara sem rök fyrir því að Úkraínumenn fremji þjóðarmorð í Donbass. Ég kýs að trúa Sameinuðu þjóðunun þar til annað sannara reynist.

Annar  haukanna er Haukur  Hauksson sem í Moskvu býr og kokgleypir áróðri Kremlverja en afgreiðir allt sem honum er óþægilegt sem falsfréttir og blekkingar. 

Hann fór í ferð um hernumdu svæðin og lofsöng rússneska hernámið en afgreiddi fréttir um fjöldamorð í Búrtsja sem lið í samsæri gegn sannleikanum.

En ef  samsæri eru svona algeng af hverju skyldu rúSSnesku hernámsyfirvöld ekki hafi framið samsæri til að blekkja útlendinga sem ferðast um hernumdu svæðin? Blekkt þá til að trúa því að engin fjöldamorð hafi verið framin í Búrtsja.

NATÓ og Rússland

Prigósín heitinn sagði  að innrásin í Úkraínu hafi  alls ekki verið gerð vegna einhverja ógna frá NATÓ og Úkraínu, Rússlandi hafi ekki stafað neitt af þessum aðilum.

Hún hafi verið gerð vegna þess að ólígarkar í Moskvu hafi viljað klófesta auðlindir

Þetta virkar sannfærandi í ljósi þess sem ég tel mig vita um Pútín og félaga, fyrrum samstarfsmaður hans, Sergei Púgasjov  segir hann gjörspilltan. Kannski Prígósín hafi undirritað dauðadóm sinn með þessari yfirlýsingu.

Sé stækkun NATÓ ógn við Rússland má spyrja hvers vegna Pútín talaði vel um Norðuratlantshafsbandalagið í byrjun aldarinnar og nefndi möguleikann á að Rússland gengi í NATÓ.

 Bandalagið  stækkaði vegna þess að fyrrum leppríki Sovétríkjanna báðu um inngöngu vegna skiljanlegs ótta við Moskvuvaldið. Finnar drógu ekki úr herstyrk sínum því þeir þekktu Moskvuherrana  og valdagirni þeirra.

Margar staðreyndir benda sterklega gegn því að NATÓ-stækkunin sé ógn við Rússlandi: Í fyrsta lagi voru  engir erlendir hermenn í nýju NATÓ-ríkjunum á árunum fyrir innrás. Í öðru lagi lögðu  Bandaríkin  niður allmargar herstöðvar í Evrópu og drógu stórlega úr herstyrk þar. Í þriðja lagi afvopnuðust  Evrópuríkin nánast.

Af þessu verður aðeins dregin sú ályktun að NATÓ stækkunin hafi ekki verið nein ógn við Rússland.

Enda segir Mikael Kasjanov,  fyrrrum forsætisráðherra Pútíns, að hann viti mæta vel að NATÓ ógni ekki Rússlandi

Við má bæta að hafi Vesturveldin ætlað Rússum illt má spyrja hvers vegna George Bush eldri nánast grátbað Úkraínumenn um að segja sig ekki úr lögum við Sovétríkin.

Og hvers vegna Bill Clinton dekstraði þá til að láta kjarnorkuvopn sín af hendi og gefa Rússum þau.

Niðurstaðan er sú að Vesturveldin hafi aldrei ógnað Rússlandi.

Fálkarnir pútínsku

Nú  víkur sögunni að öðrum pútínistum en haukunum tveimur, köllum þá „fálkana“ samanber orðið fálki í merkingunni kjáni. Einn þeirra kann  að spyrja hvort  ekki sé mikið um vonda fasista í liði Úkraínumanna.

Svarið er að því miður sé eitthvað um það en hið sama gildi í hæsta máta um Rússaliðið. Til dæmis berst hinn nýnasíska hreyfing Rusich með rússneska hernum.

Einnig hefur hugmyndafræði Pútíns fasískar hliðar, hann lét flytja jarðneskar leifar fasistans Ivan Iljíns til Moskvu og lagði blómsveig á gröf hans. Sá bjó í Þýskalandi árið 1933 og fagnaði valdatöku nasista. (samkvæmt t.d.  Snyder 2018: 58–59).

Iljín  boðaði e.k. trúarlegan fasisma sem skipaði rússnesku þjóðinni í hásæti, hún væri útvalin þjóð. Rússland væri sérstakt land, handan tímans (!!!), því landi skyldi stjórnað af alvöldum, útvöldum,  einstakling.

Það var því tæpast tilviljun að Iljín    fagnaði valdatöku nasista í Þýskalandi. Samt hvetur samstarfsmaður Pútíns, Dmitri Medvedev, rússneska æsku að lesa þennan hrylling. 

Annar meðhjálpari sama manns, Valerí Súrkov,  mun  hafa nútímavætt “kenningar“ “heimspekingsins" (Súrkov þessi mun hafa haldið því fram að "leiðrétta" þyrfti landamæri Eystrasaltsríkjanna, Rússum í vil).

Til að gera illt verra hafi “úrvals“-rit Iljíns verið gefin öllum meðlimum Pútínflokksins og sérhverjum ríkisstarfsmanni í  landinu (Snyder 2018: 16–35 og víðar). 

Bæta má við að sérfræðingur í pútínsku, dr. Jade McGlyn, skrifar grein í andófsritið rússneska, Moscow Times, um  ásakanir Kremlverja um nasisma í Úkraínu á dögum síðara heimsstríðs.

Hún segir að aðeins 250000 þeirra hafi barist með nasistum í stríðinu, sjö milljónir þeirra í Sovéthernum.

Einnig hafi um milljón Rússa barist í her Vlasovs herforingja en sá her barðist með Þjóðverjum. Pútínistar, bæði fálkar og haukar, ættu að tala lægra um nasisma í Úkraínu. 

Fálkinn  gefst ekki upp heldur staðhæfir að stríðið sé staðgenglastríð, Úkrainuher sé staðgengill NATÓ-herjanna. Vandinn er sá að ekki eru til neinar sannanir mér vitanlega fyrir því að Úkraínumenn hlýði fyrirskipunum NATÓ og Bandaríkjanna.

Með sömu „rökum“ mætti halda því fram að Sovétherinn hafi verið staðgengill Vesturveldanna á fyrsta skeiði viðureignarinnar við nasista.

Hann var nefnilega mjög háður vopnasendingum frá Bretlandi og Bandaríkjunum og hefði líklega tapað stríðinu án þessa stuðnings (samkvæmt Steinfeld 2022: 45-46 og víðar).

Samt dettur engum í hug að Stalín hafi verið leppur Vesturveldanna.

Hvað um Minsksamkomulagið? Fálkarnir segja að Úkraínumenn hafi rofið samkomulagið, það sé ein af ástæðunum fyrir „sérstöku hernaðaraðgerðinni“.

Því hefur verið haldið fram að Rússar hafi aldrei haldið samkomulagið, þeir hafi gagnstætt samkomulaginu ekki gefið eftirlitsnefnd tækifæri til að fylgjast með hreyfingu herafla sína.

Einnig hafi þeir þegar í febrúar 2015 aðstoðað leppa sína í Donbass við leggja undir sig úkraínskan bæ.

Það kæmi mér ekki á óvart þótt þetta sé satt. Pútín rauf gerða samninga um að virða landamæri Úkraínu þegar 2014. Þess utan laug hann rétt fyrir innrásina, staðhæfði her hans væri bara að stunda heræfingar.

Maður sem hegðar sér svona er ekki líklegur til að halda gerða samninga, hvorki þá sem kenndir eru við Minsk né aðra. 

Fálkarnir  fordæma  Maidan-uppreisnina enda Pútín henni andsnúinn. Ekki eitt orð um að Janúkovitsj hafi verið  gjörspilltur valdníðingur sem hafði fyrirgert trausti þjóðarinnar.

Líklega hefði hann komið á einræði og gert landið að rússnesku leppríki ef alþýðan hefði ekki risið gegn honum. Milljónir Úkrainumanna tóku  þátt í uppreisninni, tæpast hefur CIA mútað þeim öllum.

Fálkinn er ekki af baki dottinn heldur bendir á að bandarískur ráðherra hafi margheimsótt Úkraínu á meðan á Maidan-uppreisninni stóð og dælt fé í uppreisnarmenn. Þetta telur hann sönnun um heimsveldasinnuð áform Kana.

En getur hann sannað það? Getur verið að Bandaríkin hafi einfaldlega viljað styðja lýðræðisöflin? Nú eða verið sumpart lýðræðisins megin, sumpart viljað efla eigin völd. Bandaríkin eru engan vegin heilög og hafin yfir gagnrýni.

Ýmsir, ekki bara pútinistar, telja rétt að  halda kosningar á hernumdu svæðum um hvort þau eigi að tilheyra Rússlandi eða Úkraínu skemmta skrattanum.

Þeim gengur mörgum sjálfsagt gott eitt til en réttlæta óbeint innrásina með því að tala eins og áhöld séu um hvoru ríkin svæðin eigi að tilheyra.

Þetta fólk skilur ekki að markmið Pútíns er ekki aðeins að ná suður-austur hluta Úkraínu undir sig heldur allri Úkraínu.

Breska leyniþjónustan segir að áætlunin hafi verið að leggja landið undir sig á fáeinum vikum og halda svo þjóðar-„atkvæðagreiðslu“ í júlí 2022, innlima landið í Rússlandi eftir hana.

Ég ræð af líkum að þetta sé satt. Eða af hverju skrifaði  Pútín langa og leiðinlega grein  þar sem hann staðhæfði að Rússar og Úkraínumenn væru sama þjóðin?

Af hverju reyndi her hans að hertaka Kænugarð ef markmiðið var bara að losa Donbass úr úkraínskum greipum? 

Spurningin er hvort það nægi Pútín að leggja Úkraínu undir sig. Rússneskur hershöfðingi mun hafa sagt að innrásin í Úkraínu sé bara byrjunin, markmiðið sé innrás í Evrópu. 

Sennilega sagði hann þetta til að hræða Vesturlandabúa en hver veit? Kannski þetta sé markmið hins zar-fasiska einræðisherra, minnast verður líka yfirlýsinga Súrkovs um landamæri og endalausra hótanna Pútínleppa um kjarnorkuárásir á Evrópuríki. 

Vestrænt fólk  verður að halda vöku sinni og styðja Úkraínu af  fremsta megn, hlusta ekki á kvak hauka og fálka. 

Lokaorð

Vængstýft hef ég hér hauka tvo og fálka ýmsa, reyndar eru áhöld um hvort þeir voru nokkurn tímann fleygir.

 

Ívitnaðar bækur:

Snyder, Timothy 2018: The Road to Unfreedom. Russia. Europe. America. New York: Duggan Books. 

Steinfeld, Hans-Wilhelm 2022: Russland kriger. Ósló: Cirkana.


Sameining Evrópu eina lausnin?

Ég er ekki einn þessara harðsoðnu ESB-sinna, ekki einn þeirra sem telur ESB-aðild allra íslenskra og norskra meina bót.

En: „Hart er í heimi…“ Rússar ógna Vesturlöndum á nýjan leik, Kínverjar bíta í skjaldarrendur, Bandaríkin gætu orðið einangrunarstefnu að bráð vinni Trump forsetakosningarnar.

Fyrrum ráðgjafi hans, John Bolton, segir ekki ólíklegt að hann muni segja Bandaríkin úr NATÓ.

Það mundi þýða að Rússar legðu Úkraínu undir sig, Evrópa yrði að miklu leyti varnarlaus. Rússneski einvaldurinn myndi eiga alls kosti  við álfuna.

Nema hún taki á sig rögg og myndi sambandsríki með sameiginlegum her Evrópuþjóða, búinn kjarnorkuvopnum.

Kannski ekki góður kostur en hugsanlega ill nauðsyn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband