Færsluflokkur: Menning og listir

BÓK KRUGMANS UM KREPPUNA

 

Ég var að ljúka lestri nýgamallar bókar Paul Krugmans um kreppu, The Return of Depression Economics and the Crisis of 2008. Upprunalega útgáfan kom árið 1999 en svo bætti kappinn við nokkrum köflum um heimskreppuna yfirstandandi. Reyndar er þessi bók nóbelshagfræðingsins ekki ýkja góð því hann vitnar hvergi  í neinar heimildir. Aftanmálsgreinar geta verið hvimleiðar en þær eiga heima í svona riti, þótt alþýðlegt sé. Hvað um það, meginstefið er að hagfræðingar hafi verið full fljótir á sér að telja kreppuhagfræði úrelta, atburðir síðustu mánaða sýni hið gagnstæða. Hann heldur mjög á lofti kenningum John Maynard Keynes um hvernig kreppur eigi að leysa, ríkið á að dæla peningum hagkerfið, t.d. með því að styrkja innviði samfélagsins, legga vegi, smíða brýr o.s.frv. Krugman hæðist að framboðshagfræðinni en samkvæmt henni er allra (efna)meina bót að efla hag hinna ríku því þeir fjárfesti svo mikið. Hann hefðir að ósekju mátt gagnrýna framboðshagfræðina með málefnalegum hætti. Hvað sem því líður þá segir hann að  vandi dagsins sé skortur á eftirspurn, framboði. Ríkið eitt getur aukið eftirspurnina í kreppum. Krugman andæfir kröftuglega þeirri kenningu frjálshyggjumanna að rætur meinsins séu í löggjöf sem þeir telji að hafi nánast neytt banka til að veita  fátæklingum húsnæðislán sem þeir svo voru ekki borgunarmenn fyrir. Hann bendir á að þessi löggjöf hafi komist í gagnið árið 1977, erfitt sé að sjá hvernig hægt sé að kenna henni um kreppu sem skall á þremur áratugum síðar (ég spyr: Af hverju skall ekki á kreppa fyrir 1990 ef þessi löggjöf er sökudólgurinn?). Þess utan náði löggjöfin aðeins til sparibanka sem báru bara ábyrgð á brot undirmálslánana sem tengdust húsnæðisblöðrunni. Einnig sé rangt að kenna Fannie Mae og Freddie Mac um ástandið þó þessir ríkisstyrktu bankar séu ekki án ábyrgðar. Staðreyndin sé sú að vegna ýmissa hneykslismála hafi verið þjarmað svo að þessum bönkum að þau .léku bara minniháttarhlutverk í húsnæðislánaleiknum ljóta sem leikinn var af hvað mestri ákefð frá 2004 til 2006. Meginástæðan fyrir bankahruninu sé að ekkert opinbert eftirlit var með nýjum  bankaígildum, þ.e. stofnunum  sem í reynd voru bankar.

Sem sagt frægasti stjórnmálahagfræðingur samtímans andæfir frjálshyggjugreiningum á kreppunni!


Todd: Spáði falli Sovét og BNA.

 

Franski lýðfræðingurinn (demograph) Emmanuell Todd fall Sovétríkjanna fyrir árið 1976. Sextán árum síðar  spáði falli bandaríska heimsveldisins í bókinni Eftir heimsveldið (àpres l'empire). Eina af ástæðunum fyrir því að BNA er á fallandi fæti er sú að efnahagurinn er ekki ýkja góður, sagði hann þá. Í ofan á lag megi vel vera að auður Bandaríkjanna sé ofmetin. Enron-fyrirtækið  þóttist eiga ansi miklu meira en það átti í reynd. "Ofmatið" nam 1% af vergri þjóðarframleiðslu vestanhafs. Todd spyr (árið 2002) hvort falsanir Enrons séu einsdæmi, ef fjöldi fyrirtækja geri annað eins þá má ætla að þjóðarframleiðslan bandaríska sé öllu lægri en opinberar tölur segja. Nær má geta hvort fjármagnskreppan vestanhafs hafi veikt trú Todds á eigin spásagnir.

Hann  lét sér fátt um finnast þegar Bush hegðaði sér eins og hann ætti heiminn. Í viðtali við franskt Nettrímarit fyrir 3-4 árum sagði hann að Bush berði sér á brjóst og endurtæki "ég er sterkur, ég er sterkur" því hann vissi inni að svo væri ekki. Í fyrra sagði hann í viðtali að fall Svétríkjanna hafi m.a. stafað af ofurtrú á ríkið og heildina, en ofurtrú Kana á einstakling og markað gæti orðið banabiti hins ameríska heimsveldsins. Þetta hljómar sannfærandi í mínum eyrum en minnumst þess að Bandaríkin hafa oft sýnt verulegan endurkomumátt. Afskrifum aldrei BNA!

 


RÚLLANDI STEINN STEINARR (100 ára afmæli í dag!)


Var það ekki blúsarinn Muddy Waters sem kyrjaði “it never grows moss on a rolling stone”? Úr þessum texta sóttu Rolling Stones nafnið en “rolling stone” þýðir “flökkumaður”. Steinn Steinarr átti kannski ekki mikið sameiginlegt með Rollingunum, samdi alltént betri texta en Jagger. En Steinn var örugglega flökkumaður, jafnvel flóttamaður.
Löngu látinn vinur Steins sagði mér að Steinn hafi verið fluggáfaður en enginn eljumaður. Hann hafi ekki nennt að lesa mikið en átt ótrúlega gott með að tileinka sér inntak bóka með hraðlestri, stiklandi á stóru í þeim. Hann hafi vart kynnt sér tilvistarspeki að neinu ráði en margir telja að kveðskapur hans einkennist af þeirri speki. En þótt hann hafi ekki kafað í existeníalisma gæti hann hafa haft sömu lífskennd og fylgjendur hennar. Reyndar er bölsýni hans lík þeirri bölsýni sem margir töldu ranglega vera einkenni tilvistarspeki. En allir helstu forkólfar speki þessarar lögðu áherslu á vonina. Søren Kierkegaard taldi kristnina von mannkynsins og að angistin gæti sýnt okkur að viljinn sé frjáls, við erum ekki þrælar erfða og aðstæðna. Undir það tóku Martin Heidegger og Jean-Paul Sartre en slepptu kristninni. Heidegger taldi að við gætum ljáð lífinu merkingu með því að horfast augu við dauðann, sjá að ævin er takmörkuð og því er sérhvert augnablik verðmætt. Ég man ekki til þess að hafa séð þessi bros gegnum tárin hjá Steini en kannski misminnir mig.
En hvað um kveðskap hans? Satt best að segja finnst mér hann afar misjafn. Tíminn og vatnið er snjöll skissa en eins og vanti herslumunin á það verði fullburða kvæði. Stundum er Steinn ofurljós, sérstaklega í gömlu kommakvæðunum og í hinu andkommúníska Kremlarkvæði. Bestur er Steinn annars vegar í látlausum kvæðum, hins vegar í hinum myrku, írónískum ljóðum. Meðal þeirra látlausu er Barn, einfalt kvæði gætt miklum þokka. Meðal hinna írónísku er “Að sigra heiminn” en þar segir “Að sigra heiminn er eins og að spila á spil...”. Var sú ekki einmitt hugmynd útrásarmanna? Alla vega hrundu spilaborgir þessara heimssigurvegara.
“Allar vildu meyjarnar eiga hann”, íhöld, kommar og existensíalistar. Íhaldið froðufelldi af hrifningu yfir Kremlarkvæðinu og töldu hann eftir það sinn mann. En Steinn var engra, hvað það varðar var hann sannur existensíalisti. Hann komst fljótlega upp á kant við kommana, virðist einna helst hafa átt athvarf hjá krötum. Að minni hyggju var hann pólitískur efahyggjumaður eins og ég og í mörgu hliðhollur því sem ég hef kallað “harða miðju”. Rétt eins og ég var hann gagnrýnininn þjóðernissinni, óhræddur við að gagnrýna þjóðina, vanda um fyrir henni vegna ástar á henni. Svo orti Steinn:

“Sjá hér er minn staður, mitt líf og mitt lán
og ég lýt þér, mín ætt og mín þjóð.
Ó, þú skrínlagða heimska og skrautklædda smán
mín skömm og mín tár og mitt blóð.”

Heimskan skrautklædda var víst að spila á spil...


LECLÉZIO, (nóbels)skáld sem lofsyngur efnisheiminn


Nóbelsverðlaun til handa Jean-Marie Gustave LeClézio, góðar fréttir! Ég hef löngum dáð þennan ljóðræna prósahöfund, ekki síst vegna fyrstu skáldsögu hans Skýrslunnar (Le procès-verbal). Hún segir frá Adam Pollo, ungum iðjuleysinga sem þráir að sameinast efnisheiminum. LeClézio leikur tilbrigði við sama stef í smásögu sem gerist á Íslandi. Íslenkur piltur villist í óbyggðum en nær svo að skynja hvernig hann sjálfur tilheyrir náttúrinni og hún honum. Franski nóbelshafinn dásamar efnisheiminn, með sínum frábæra, ljóðræna stíl tekst honum að fá okkur til að upplifa dauða náttúru sem lifandi hluta af okkur sjálfum. Hugurinn leitar til þýska heimspekingsins Ernst Bloch sem var eins konar efnis-dul-hyggjumaður, söng efnisheiminum lof og prís, sagði hann mater-ia, efnis-móður okkar allra.

Ósagt skal látið hvort LeClézio er undir áhrifum frá Bloch en víst er um að báðir hafa sterka, lýríska taug.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband