FRÆÐIMENN UM HEIMSKREPPUNA

 

Á Íslandi er mönnum kennt að allir fínu hagfræðingarnir í hinum helgu Bandaríkjum séu frjálshyggjumenn. En svo er ekki, til dæmis segir nóbelshagfræðingurinn Paul Samuelsson að kreppan sé frjálshyggjunni að kenna og formælir Friedman. Hinn hári öldungur segist ávallt hafa verið miðjumaður, ég er því í góðum félagsskap.

Frjálshyggjuhagfræðingar á Íslandi og annars staðar "upplýsa" menn um að hinn Keynesinnblásna hagstefna Roosevelts hafi gert kreppuna á fjórða tugnum dýpri en ella. En annað segir hinn  nýbakaði  nóbelshagfræðingur Paul Krugman. Roosevelt hafi eiginlega aldrei beitt Keynesstefnunni í peningamálum að neinu gagni. Það ætti aftur á móti Obama að gera, pistill Krugmans heitir "Obama Roosevelt".

Í fyrra mun frjálshyggjuhagfræðingurinn Arthur Laffer hafa gist Ísland og tjáð landsmönnum að allt væri í fína lagi með efnahagslífið í BNA og fimmtugastaogfyrstaríkinu, Íslandi. En fræðimenn sem ekki þjást af frjálshyggju hafa bent á hætturnar á meiriháttar hruni, millinn og hugsuðurinn George Soros spáði kreppu í grein sem hann skrifaði árið 1997. Hann sagði að óstjórnin á hinum alþjóðlega  fjármagnsmarkaði myndi leiða til alvarlegri kreppu en þeirrar sem Roosvelt kljáðist við.  Eina leiðin til að leysa vandann væri alheimsstjórn á fjármagnsstreyminu (hann veit hvað hann syngur, gamli maðurinn, frægur fyrir fjárglæfrastefsemi!) Hinn vinstrisinnaða ATTAC-hreyfing hefur líka varað við hættunum af hinum mjög svo sveiflukennda fjármagnsmarkaði. Hún vill leysa vandann með svonefndum Tobinskatti á slík viðskipti, skatturinn eigi svo að renna til örfátækra landa.

Það fylgir sögunni að þýski heimspekingurinn Jürgen Habermas segir í viðtali við þýska vikuritið Die Zeit að kreppan markaði endalok nýfrjálshyggjunnar. Sennilega er það rétt, burtséð frá því að hún mun tóra á Íslandi vegna þess útsmogna frjálshyggjuáróðurs sem þar hefur verið rekinn um áraraðir.

Þegar Laffer flutti sína mærðarvellu um styrk hinna bandarísku og íslensku hagkerfa spáði franski fræðimaðurinn Emmanuell Todd því að Bandaríkjamenn yrðu innan tíðar að sætta sig við 10-15% lægri tekjur en í dag, ekki gengi endalaust að fjármagna neysluna með lánum eins og Kanar hafa gert um langt skeið. Raunlaun hafa minnkað á undanförnum 30 árum en eins og Krugman segir þola Kanar ekki lakari lífskjör og hafa því hlaðið á sig skuldabyrðum. Þeir þjáist líka af óbilandi bjartsýni, segir Krugman. Þeim er kennt í æsku að þeir muni geta meikað það og halda því að þeir muni geta borgað stórlán í framtíðinni. Kannast einhver við svona imbabjartsýni og bjánagræðgi á ísaköldu landi? Allt er þetta innflutt frá BNA, hernám hugarfarsins hefur ekki bara eyðilagt íslenska menningu heldur efnahagslífið líka. Útrásarbjálfarnir voru belgfullir af frumstæðri amerískri ofurbjartsýni og trúðu á amerískar viðskiptahugmyndir. Því fór sem fór.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Peter Schiff, Jim Rogers og Ron Paul hafa einnig úthrópað ameríska peningastefnu af tindum til fjölda ára en verið aðhláttursefni manna eins og hálfvitans Laffer.(einskonar Amerísk útgáfa af Hannnesi Hólmsteini eða vis versa)   Nú eru þessir menn stjörnur samtímans. Hehe.

Vonandi verða hinir hendir úr hæsta gálga.

Jón Steinar Ragnarsson, 17.11.2008 kl. 13:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband