BÓK KRUGMANS UM KREPPUNA

 

Ég var að ljúka lestri nýgamallar bókar Paul Krugmans um kreppu, The Return of Depression Economics and the Crisis of 2008. Upprunalega útgáfan kom árið 1999 en svo bætti kappinn við nokkrum köflum um heimskreppuna yfirstandandi. Reyndar er þessi bók nóbelshagfræðingsins ekki ýkja góð því hann vitnar hvergi  í neinar heimildir. Aftanmálsgreinar geta verið hvimleiðar en þær eiga heima í svona riti, þótt alþýðlegt sé. Hvað um það, meginstefið er að hagfræðingar hafi verið full fljótir á sér að telja kreppuhagfræði úrelta, atburðir síðustu mánaða sýni hið gagnstæða. Hann heldur mjög á lofti kenningum John Maynard Keynes um hvernig kreppur eigi að leysa, ríkið á að dæla peningum hagkerfið, t.d. með því að styrkja innviði samfélagsins, legga vegi, smíða brýr o.s.frv. Krugman hæðist að framboðshagfræðinni en samkvæmt henni er allra (efna)meina bót að efla hag hinna ríku því þeir fjárfesti svo mikið. Hann hefðir að ósekju mátt gagnrýna framboðshagfræðina með málefnalegum hætti. Hvað sem því líður þá segir hann að  vandi dagsins sé skortur á eftirspurn, framboði. Ríkið eitt getur aukið eftirspurnina í kreppum. Krugman andæfir kröftuglega þeirri kenningu frjálshyggjumanna að rætur meinsins séu í löggjöf sem þeir telji að hafi nánast neytt banka til að veita  fátæklingum húsnæðislán sem þeir svo voru ekki borgunarmenn fyrir. Hann bendir á að þessi löggjöf hafi komist í gagnið árið 1977, erfitt sé að sjá hvernig hægt sé að kenna henni um kreppu sem skall á þremur áratugum síðar (ég spyr: Af hverju skall ekki á kreppa fyrir 1990 ef þessi löggjöf er sökudólgurinn?). Þess utan náði löggjöfin aðeins til sparibanka sem báru bara ábyrgð á brot undirmálslánana sem tengdust húsnæðisblöðrunni. Einnig sé rangt að kenna Fannie Mae og Freddie Mac um ástandið þó þessir ríkisstyrktu bankar séu ekki án ábyrgðar. Staðreyndin sé sú að vegna ýmissa hneykslismála hafi verið þjarmað svo að þessum bönkum að þau .léku bara minniháttarhlutverk í húsnæðislánaleiknum ljóta sem leikinn var af hvað mestri ákefð frá 2004 til 2006. Meginástæðan fyrir bankahruninu sé að ekkert opinbert eftirlit var með nýjum  bankaígildum, þ.e. stofnunum  sem í reynd voru bankar.

Sem sagt frægasti stjórnmálahagfræðingur samtímans andæfir frjálshyggjugreiningum á kreppunni!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband