EMG, GSE, HHG, ASÍ. Til varnar verkaýðshreyfingunni

 

Fyrir nokkru skrifaði Einar Már Guðmundsson einkar ástríðufulla grein í Lesbók þar sem hann sagði að ungmenni héldu að ASÍ væri ferðaskrifstofa. Svo lítill hefur vegur verkalýðshreyfingarinnar verið á frjálshyggjuöld. Frjálshyggjumenn mega vart ljúka sundur munni án þess að syngja sönginn um  að verkalýðshreyfingin sé einungis til óþurftar. Til dæmis "upplýsti" Gunnar Smári Egilsson alþjóð eitt sinn um að Hagkaup hefði bætt kjör launamanna meir en verkalýðshreyfingin og bergmálar hér Hannes H. Gissurarson (Gunnar þessum Smára finnst gaman að bergmála, eitt sinn bergmálaði hann Vilmund Gylfason í Helgarpóstsgrein og er sagður bergmála ónefnda auðmenn í dag). Téður Hannes sagði í ritdeilu að frjálshyggjustjórnin í Nýja Sjálandi hefði aukið frelsi verkamanna með því að gera vinnusamninga að einkamáli einstaklinga, gera verkalýðshreyfinguna áhrifalausa. En hinn velþekkti stjórnspekingur John Gray bendir á að þessi skipan mála hafi leitt til þess að til varð ný, örfátæk undirstétt í Nýja Sjálandi. Samkvæmt mínum hugmyndum um frelsi er hér á ferðinni frelsissvipting (ég tel skilgreiningar frjálshyggjumanna á frelsi rangar eins og kemur fram í bók minni Ástarspekt). Nefna má að bandaríska fræðikonan Barbara Ehrenreich brá sér í líki verkakonu eitt ár og komst að þeirri niðurstöðu  að fátækt verkafólk vestra sé orðið hálfgildings þrælar almáttugra atvinnurekenda. Launin eru skömmtuð úr hnefa og starfsfólki sagt upp fyrir minnstu yfirsjónir. Þess séu jafnvel dæmi að menn  í fullri vinnu eigi hvergi höfði sínu að halla, sofi á götunni. Fyrirtæki eins og Wal-Mart vill ekki sjá meðlimi verkalýðsfélaga í sínum starfsmannahóp og meðhöndlar búðarlokurnar eins og þræla. Þær eru oft neyddar til að vinna yfirvinnu kauplaust. Ekki ástandið skárra hjá ræstifyrirtækum, sum þeirra banna starfsfólki sínu að neyta vökva meðan það púlar.  Ástæðurnar fyrir þessari bágu stöðu láglaunafólks eru margar. Ein er stórminnkuð áhrif verkalýðsfélaganna enda hafi ríkisstjórn Bush barist með ráðum og dáðum gegn verkalýðsfélögum í McStarfsgreinum með hræðilegum afleiðingum fyrir fátækt verkafólk.

Hinn nýbakaði nóbelshagfræðingur Paul Krugman segir að efling verkalýðshreyfingarinnar ein helsta ástæðan fyrir velgengni erfiðisvinnumanna (blue-collar workers) á tímabilinu 1933-1980. Ástæðan fyrir lækkandi hlutfalli verkalýðsfélagsmeðlimi meðal verksmiðjuverkafólks  er pólitísk, gagnsókn hægrimanna gegn nýju gjöfinni (New Deal) og  hennar afleiðingum. Sú gagnsókn birtist m.a. í þeirri staðreynd að á áttunda og níunda áratugnum var tuttugusta hver verkamaður vestanhafs rekinn með ólöglegum hætti fyrir að vera í verkalýðsfélagi. Krugman bendir líka á að tekjumunur hafi ekki aukist nándar nær eins mikið í Kanada og í Bandaríkjunum. Skýringanna sé ekki síst að leita í þeirri staðreynd að stéttarfélögin standa miklu sterkar í Kanada en í Bandaríkjunum.

Kanavinir á Íslandi mættu íhuga þessar stðareyndir, yrði landið 51 ríkið má búast við því að ástandið yrði svipað og í hinum 50 ríkjunum. Hvað um það, svo nefnt frelsi einstaklinga til samninga við atvinnurekendur hafa gert fátæka nýsjálendinga að undirstétt, "frelsi" þetta dregur úr heildarfrelsi þeirra. Hið sama gildir um bandarískt verkafólk. Ég vara ykkur við, verði ekkert að gert mun hið sama gerast á Íslandi.

 

Bækur sem stuðst er við:

Barbara Ehrenreich (2001): Nickled and Dimed. How (not) to get by in America

Paul Krugman (2007): The Conscience of a Liberal.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Stefán.

Enn og aftur góð grein sem fer í geymslu.  Ég hef oft verið að spá í launafólk á Íslandi sem hefur kosið fulltrúa þessa Ameríka frjálshyggjutrúboðs á þing.  Sérstaklega í ljósi þess að venjulegur launamaður nýtur mjög lakrar heilsugæslu vegna fjárskorts og raunlaun verkafólks hafa lækkað frá árinu 1974 í þessu draumakerfi þeirra.  Vildi fólk virkilega þetta ástand líka á Íslandi?

En ertu búinn að lesa síðustu réttlætinguna sem frjálshyggjudrengirnir hafa sannmælst um, núna síðast í grein Þórlinds.  Þeir eru búnir að gefast uppá að kenna draumi fátæklingana um eigið húsnæði um ófarir bankakerfisins.  Eftir miklil fundahöld og ljós langt fram á nætur í SUS húsinu þá komu þeir sér niður á strategíu sem á að snúa ósigri uppí nýja sókn.  Efnislega eru þeir að segja að bankamenn hafi verið svona áhættusæknir útaf óbeinni ríkisábyrgð og eiga þá við innlánstryggingu og svo bein inngrip ríkisstjórna  til að forða hruni bankanna.  Hafi sem sagt ekki hið vonda ríkisvald verið að skipta sér að þessu þá hefði allt verið í góðu og engin fjármálakreppa orðið.  Ennþá minni ríkisafskipti í hinum nýja heimi er þeirra boðskapur.

Ég hló mig máttlausann þegar ég las grein Þórlinds en svo hætti ég því þegar ég hugsaði að þessir drengir eru flestir velmenntaðir lögfræðingar.  Ég meina hugsaðu þér vesalings fólkið sem fær þessa dómgreind til að verja sína hagsmuni.

En hvað skyldu allir bankamennirnir og eigendur þeirra sem eru búnir að tapa  vinnu og auðæfum á hruni bankanna segja?.  Gleymdu þeir að taka með í reikninginn að ríkið bjargar ekki þeirra eigum þegar það grípur inní?   Eitthvað hefur samkomulagið við ríkisvaldið klikkað hvað þeirra hagsmuni varðar.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 23.11.2008 kl. 02:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband