16.11.2024 | 18:06
Goðsögur Moskvuvaldsins (III-VIII)
Í merkri bók um Sovétskipulagið, The Future That Failed, leggur Jóhann Páll Árnason mikla áherslu að Sovétríkin hafi verið enn ein birtingarmynd rússneska heimsveldisins. Það þótt byltingarsinnuð hugmyndafræði hafi líka sett svip sinn á þau (Jóhann Páll Árnason 2005).
Bæta má við að Rússland Pútíns er líka slík birtingarmynd. Þess vegna tel ég í lagi að nota orðið Moskvuveldi um þessar þrjár birtingarmyndir heimsveldisins, þá keisaralegu, kommúnísku, og tsar-fasísku.
(tekið skal fram að ég er engan veginn viss um að Jóhann Páll sé sammála mér um það sem ég tel vera goðsögur þessa veldis).
Goðsögurnar (III-VI)
Í fyrsta bloggi kynnti ég þessar goðsögur stuttlega nema þá um Úkraínu sem gerviríki. Ég ræddi hana og leitaðist við að hrekja. Í öðru bloggi hrakti ég bullið um fasisma í Úkraínu og benti á að Rússland Pútíns væri tsar-fasískt.
Nýlendustefnan
Þriðja goðsagan er sú að Rússland sé ekki og hafi aldrei verið nýlenduveldi. Annað segir Lana Pylaeva í nýlegri grein í andófsblaðinu Moscow Times (Pylaeva 2023). Að nafninu til sé landið fjölþjóðlegt en í reynd sé Rússum hampað á kostnað annarra þjóða.
Hún segist vera af Kómíþjóðinni, í skóla hafa bara verið kennt á rússnesku og menning þjóðarinnar hvergi komið við sögu.
Ástandið hafi versnað á dögum Pútíns, nú lifi Rússar í Moskvu og Pétursborg jafn góðu lífi og Hollendingar en jaðarþjóðirnar búi við lakari kjör en áður.
Skemmst er að minnast þess að á nítjándu öld gerðu Rússakeisarar heiðarlega tilraun til að útrýma þjóð Sirkassa og troða rússneskum bændum í land þeirra.
Á öldinni átjándu lögðu þeir Krímskaga undir sig og tóku að fylla af Rússum, Krímtatarar urðu annars flokks borgarar.
Nýlenduherrann Stalín lét svo flytja þá nauðungarflutningum burt úr skaganum. Hann gerði stór landflæmi að nýlendum Moskvuvaldsins, Eystrasaltsríkin, Moldavía og stóran hluta austanverðrar Mið-Evrópu.
Keisararnir höfðu áður gert Mið-Asíu og Kákasuslöndin að nýlendum sínum (um sögu Rússlands, sjá t.d. Hosking 2012).
Sagnfræðingurinn Timothy Snyder telur að innrásin í Úkraínu sé nýlendustríð, Moskvuveldið sé að reyna að ná aftur sinni gömlu nýlendu með sama hætti og Hollendingar og Frakkar reyndu að endurreisa nýlenduveldi sín eftir síðari heimsstyrjöld (viðtal við hann á youtube).
Þessu til sannindamerkis má nefna að hinn tsar-fasíski her reyndi að leggja Kænugarð undir sig. Það bendir til þess að markmiðið hafi ekki bara verið að ná tangarhaldi á Donbass.
Snyder segir að mikið harðræði ríki á hernumdu svæðunum í Úkraínu, herraþjóðin reyni að útrýma úkraínsku máli og menningu og hafi flutt eina milljón Úkraínumanna nauðungarflutningum til Rússlands.
Breska leyniþjónustan segir að áætlun Pútíns hafi verið sú að leggja alla Úkraínu undir sig á fáeinum vikum, halda svo þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem Úkraínumenn samþykktu að sameinast Moskvuríkinu.
Nefna má að fyrrum efnahagsráðgjafi Pútíns, Andrei Illiarnov, sagði í viðtali þremur mánuðum fyrir innrásina að markmið Pútíns væri að leggja alla Úkraínu undir sig og endurreisa rússneska heimsveldið eins og það var í lok átjándu aldar.
Í viðtali við hann, sem tekið var eftir að stríðið hófst, gengur hann lengra og segir að Pútín hyggist ráðast á Evrópuríkin. Boris Pistorius, varnarmálaráðherra Þýskalands, telur líklegt að Rússar hyggi á innrás í Þýskaland. Guð hjálpi Íslandi þá!
Við skulum vona að þeir Illiarnov og Pistorius hafi á röngu að standa.
NATÓ og Rússland
Fjórða goðsagan er sú að NATÓ hafi lofað að bæta ekki við sig meðlimaríkjum. Mary Elise Sarotte, sem hafði aðgang að skjölum James Bakers, þáverandi utanríkisráðherra BNA, segir að hann hafi ekki gefið neinn ádrátt um það (Sarotte 2021).
Bæta má við að þótt hann hefði kannski gefið slíkt í skyn þá hafði hann ekkert umboð til þess. Ekki er hægt að taka neina ákvörðun um nýja meðlimi NATÓ nema með skjalfestu samþykki allra aðildaríkja en engu slíku var til að dreifa.
Þar af leiðir að slíkt loforð hefur aldrei verið gefið.
Ekki þýðir að jarma um að NATÓ sé eiginlega bara tæki Kana eins og Pútín segir. Bandaríkjamenn vildu hleypa Úkraínu inn í það fyrir allnokkrum árum en Sarkozy og Merkel beittu neitunarvaldi.
Kanar sættu sig við það, illu heilli fyrir Úkraínumenn (æ, hvað Bandaríkin eru heimsveldissinnuð!).
Gömlu kommúnistaríkin sóttu um inngöngu í NATÓ, fullnægðu settum skilyrðum um inngöngu og urðu því meðlimir. Mörg þeirra sóttu um inngöngu vegna skiljanlegs ótta við Moskvuvaldið.
Lech Walensa, þá forseti Póllands, sagði fyrir þremur áratugum að fyrr eða síðar kæmist til valda í Moskvu heimsveldissinnaður yfirgangsseggur. Walesa reyndist sannspár.
Fimmta goðsagan er sú að NATÓ ógni Rússlandi. Það skýrir ekki hvers vegna Natóríkin drógu mjög úr vígbúnaði sínum í Evrópu frá lokum kalda stríðsins fram til 2022.
Kanar lögðu jú herstöðina í Keflavík niður og fækkuðu mjög í herliði sínu í Þýskalandi. Ekki var neitt sem minnti á erlenda hermenn í Póllandi og Eystrasaltsríkjunum fyrir innrásina.
Hvers vegna grátbað George Bush eldri Úkraínumenn um að segja sig EKKI úr lögum við Sovétríkin nokkrum mánuðum fyrir fall þeirra ríkja? Hefðu Kanar haft í hyggju að mölva Moskvuveldið hefði forsetinn gert hið gagnstæða (ræðu Bush í þinginu úkraínska má finna á youtube).
Það fylgir sögunni að Prígósín heitinn mun hafa sagt skömmu fyrir dauða sinn að Kremlverjar vissu mætavel að NATÓ ógnaði Rússlandi ekki. Innrásin í Úkraínu hafi stafað af löngun rússneskra ólígarka til að klófesta auðlindir landsins.
Hann hafði unnið með Pútín og þekkti hann vel. Hafi hann á réttu að standa þá eflist fyrir vikið sú tilgáta að innrásin í Úkraínu sé af nýlendutoga spunnin.
Annar fyrrum samstarfsmaður Pútíns, Mikael Kasjanov, sem eitt sinn var forsætisráðherra hans, segir að Kremlardrottinn viti að NATÓ ógni ekki Rússlandi (viðtal við hann hér).
Sjötta goðsagan er sú að Bandaríkjamenn hafi valdið Maidanuppreisninni. Kenningin er fáránleg þar eð tæpast hefur Könum tekist að véla milljónir manna til að taka þátt í mótmælagerðunum.
Spilling, einræðistílburður og möguleg föðurlandssvik forsetans Janúkóvitsj voru án nokkurs efa aðalorsökin. Janúkóvitsj bjó í höll og lét útbúa vægast sagt ríkmannlega á kostnað skattgreiðenda og gekk erinda Moskvuvaldsins í mikilvægum málum.
Hvað þá um símasamtal fulltrúa Bandaríkjastjórnar, Victoriu Nuland og þáverandi sendiherra BNA í Kænugarði? Gagnstætt því sem margir halda kemur ekkert fram í samtalinu sem bendir til þess að Bandaríkjastjórn hafi haft ákveðnar hugmyndir um hver ætti að taka við af forsetanum gerspillta.
Nuland og sendiherrann telja kost og löst á ýmsum stjórnarandstæðingum, sú fyrrnefnda segist ekki telja Klitjskó, hnefaleikakappa, réttan mann til að sitja í ríkisstjórn. Hún segir I think, eftir öllum sólarmerkjum að dæma var hún einfaldlega að tjá eigin skoðanir.
Þó margt megi ljótt segja um utanríkisstefnu Bandaríkjanna og annarra Vesturlanda þá verður ekki séð að þau hafi ógnað Rússlandi eða staðið fyrir uppreisn í Kænugarði.
Síðara heimsstríð og eftirleikur þess
Sú sjöunda er að Jaltasamkomlagið kveði á um skiptingu Evrópu í áhrifasvæði Kana og þáverandi útgáfu af Moskvuveldinu, Sovétríkjunum. Það stendur ekki stafkrókur um það í samkomulaginu. Serhii Plokhy segir að Stalín hafi heimtað slíka skiptingu en Roosevelt sagt þvert nei (Plokhy 2023).
Aftur á móti er í Jaltasamkomulaginu kveðið á um lýðræðislegar kosningar í Póllandi, Stalín stóð ekki við það heiti.
Samkvæmt Jaltasamkonulaginu (hér)var Þýskalandi skipt í hernámssvæði og var Vestur-Berlín á svæði Vesturveldanna. Samt reyndi Stalín að kúga borgina til hlýðni við sig í trássi við samkomulagið. Eina rétta svarið var stofnun NATÓ.
Hvað sem því líður er eitt og annað sem bendir til þess að Sovétmenn hafi gert ráð fyrir e.k. óformlegri skiptingu Evrópu í áhrifasvæði. Þeir drógu heri sína út úr Finnmörku og frá Bornhólmi, kannski voru það hræðslugæði, ótti við amerísku kjarnorkusprengjuna.
En 1955 eftir að þeir voru búnir að verða sér út um kjarnavopn drógu þeir her sinn út úr austurhluta Austurríkis að fengnu loforði um hlutleysi landsins.
Einnig létu þeir eiga sig að hernema hlutlaus lönd á borð við Írland, þetta bendir til þess að þeir hafi aðallega viljað varnarbelti leppríkja. Ekki haft mikil heimsveldisáform, vel mögulega gagnstætt núverandi valdhöfum í Moskvu.
Sá möguleiki er fyrir hendi að hinir kommúnísku Kremlverjar hafi trúað á sögulega nauðsyn. Þeir þyrftu ekki að andskotast á Vestur-Evrópu þar eð þeirra stefna myndi hvort sem er sigra á endaum.
Sú áttunda og síðasta er sú að Moskvuríkið hafi nánast eitt og óstutt unnið sigur á nasistunum. Staðreyndin er sú að Sovétmenn hefðu ekki getað barist lengi án aðstoðar Breta og Kana sem sendu þeim gnótt vopna (Plokhy 2017: 270)(Steinfeld 2022).
Í sjónvarpsþætti um Kúrskorrustuna miklu segir að tveir þriðju af farartækjum Sovéthersins hafi verið amerískrar ættar, einnig hafi herinn fengið gífurlegt magn af niðursuðudósum frá hinum illu Könum. Sjaldan launar kálfur ofeldið.
Lokaorð
Rússar eiga sér merka menningu, þeir hafa alið frábæra rithöfunda og snjöll tónskáld. En þá skortir frelsishefð, saga þeirra er skuggaleg saga um villimannlega kúgun og heimsveldisstefnu.
Góðu heilli eru sumir þeirra frjálshuga, m.a. hugrökku blaðamennirnir sem starfa fyrir Moscow Times og Meduza.
Svo lengi sem slíkt fólk er til á Rússland sér von, von um frjálsa framtíð án heimsveldisóra og yfirgangssemi.
Þá eigum við öll von.
Heimildir utan nets:
Hosking, Geoffrey 2012: The History of Russia. A Very Short Introduction. Oxford: Oxford University Press.
Jóhann Páll Árnason 2005: The Future that Failed. Origins and Destinies of the Soviet Model. London: Routledge.
Pylaeva, Lana 2023: Ignoring Russian Colonialism Has Deadly Consequences, Moscow Times, 17 október, https://www.themoscowtimes.com/2023/10/17/ignoring-russian-colonialism-has-deadly-consequences-a82795
Plokhy, Serhii 2017: The Lost Kingdom. The Quest for Empire and the Making of the Russian Nation. New York: Basic Books.
Plokhy, Serhii 2023: The Russo-Ukraininan War: The Return of History. New York: W.W. Norton & Company.
Sarotte, Mary Elise 2021: Not One Inch. America, Russia, and the Making of Post-Cold War Stalemate. New Haven og London: Yale University Press.
Steinfeld, Hans-Wilhelm 2022: Russland kriger. Stamsund: Orkana.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.11.2024 kl. 19:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.11.2024 | 10:29
Goðsögur Moskvuvaldsins (II)
Áróðursvél Moskvuríkisins heldur því fram að Úkraínu sé stjórnað af nasistum og að afnasistavæða verði landið. Þetta er tóm tjara og afsökun fyrir nýlendustefnu Pútíns, löngun hans til að innlima Úkraínu í veldi sitt.
Staðreyndin er sú að í síðustu þingkosningum í Úkraínu fékk sameiginlegur listi hægriöfgamanna undir tveimur prósenta atkvæða og náði engum inn á þing. Þeir höfðu einn þingmann á fyrra þingi.
Þarf að nefna að Zelenskí er rússneskumælandi Gyðingur? Kannski verður að nefna að í forsetatíð fyrirrennara hans var forsætisráðherrann Gyðingur að nafni Volodomyr Groysman. Sérkennilegur nasismi atarna!
Bæta má við að í Rússlandi eru starfandi ýmis hægriöfgasamtök, t.d. Rússneska heimsveldið en Pútín nennir ekki að afnasistvæða þau, það þótt öfgasamtök séu bönnuð í Rússíá.
Í ofan á lag berst Rusich, sveit rússneskra nasista, með Moskvuhernum gegn Úkraínumönnum.
Það er ekki óalgengt að menn líti á fasisma og nasisma sem heildræn hugmyndakerfi, rétt eins og marx-lenínisminn var (og jafnvel enn þá er). En það er misskilningur, nasismi er reyndar nær því að hafa slíkt hugmyndakerfi en ítalski fasisminn.
Þótt Pútín hafi tæpast heildrænt hugmyndakerfi er því ekki útilokað að flokka megi hann með fasistum. Skal reynt að ígrunda þá flokkaskipan hér.
Nasismi og fasismi
Gyðingarhatur, andúð á Rómaþjóðinni, rasismi, þjóðremba, kvenhatur, heimsvaldastefna, hernaðarhyggja, andlýðræðishyggja, andkommúnismi, hatur á hommum, jafnvel á menntun og menntamönnum, bændahyggja og dýrkun á Hitler voru burðarásarnir í hugmyndafræði nasista.
Samt höfðu þeir ekki ákveðna stefnu í efnahags-, heimspeki- og trúmálum, gagnstætt kommúnistum.
Einnig fengu tilraunir Alfred Rosenbergs til að skapa nasíska heimspeki lítinn hljómgrunn (Rosenberg 1934). Fræðimaðurinn Martin Kitchen leggur áherslu á kenningaandúð nasista og segir orðrétt: Rosenbergs unreadable works remained unread (Kitchen 1976: 28).
Gagnólíkir heimspekingar fylgdu nasistum að málum, t.d. Martin Heidegger og Ernst Mally en sá síðarnefndi var rökgreiningarheimspekingur og upphafsmaður skyldurökfræði.
Heidegger verður seint kenndur við rökgreiningu (um hann og nasismann, sjá t.d. Bambach 2012: 102-115)(um Mally og nasismann, sjá Hieke og Zecha 2018).
Ítalski fasisminn var enn síður hugmyndafræðilegt kerfi, þrátt fyrir tilraunir til að skapa honum heimspekikenningu með útúrsnúningum úr heimspeki Hegels.
Sú tilraun var ekki framin fyrr en nokkru eftir að fasistar höfðu náð völdum, Mússólíní hafði áhuga á ýmsum heimspekingum en ekki Hegel (um ítalska fasismann sjá t.d. Kitchen 1976).
Hann taldi að þessi fasíska Hegelshyggja væri sér til framdráttar.
Gagnstætt því fordæmdi Rosenberg Hegel og taldi heimspeki hans framandi þýsku blóði (Rosenberg 1934: 525). Aðalatriðið er að fasistar og nasistar höfðu lítinn áhuga á sértækum kennisetningum, gagnstætt kommúnistum.
Pútín er heldur ekki ofþjakaður af ást á sértekningum.
Hvað varðar ítalska fasismann þá var kjarninn í honum andlýðræðisstefna, þjóðremba og dýrkun á Mússólíní. Allt annað var undirlagt duttlungum einræðisherrans. Framan af vegnaði Gyðingum ágætlega á Ítalíu, nokkrir af forystumönnum fasista voru Gyðingar.
En tækifærissinninn Mússólíní gjörbreytti um stefnu á einni nóttu þegar hann gerði bandalag við Hitler Þá var tekið að þjarma allhressilega að ítölskum Gyðingum.
Einhver kann að spyrja hvort Mússi hafi ekki upprunalega verið sósíalisti, því sé fasisminn sósíalískur.
Svar mitt er að það er jafn fáránlegt að segja þetta eins og að telja frjálshyggjuna kommúníska af því að frjálshyggjumaðurinn Jónas Haralz var Moskvukommi á sínum yngri árum.
Þess utan mun Mússólini á sínu forfasíska skeiði hafa boðað skrítinn sósíalisma, blandaðan hugmyndum Nietzsches en sá var sósíalismanum fjandsamlegur (Snajder 2002: 235262).
Hvað um nasista? Kenndu þeir sig ekki við þjóðernis-sósíalisma? Vissulega en þeir voru áróðursmenn dauðans-í orðsins fyllstu merkingu. Sósíalíska þætti má finna í stefnuskrá þeirra en þeir gerðu fátt til að koma henni í framkvæmd.
Til dæmis kveður stefnuskráin á um að þjóðnýta skuli stórmarkaði og leigja smákaupmönnum en Hitler lyfti ekki litlafingri til að koma þessu hálfsósíalíska markmiði í framkvæmd.
Það er hins vegar vart rétt að Hitler hafi verið handbendi stórauðvalds. Eitt er fyrir sig að hann þjarmaði hressilega að auðugum Gyðingum, annað er að hann lét handtaka stóriðjumanninn Fritz Thyssen sem hafði dælt fé í flokk nasista (Thyssen 1941).
Hitler hafði byssurnar, stórauðvaldið ekki. Hið sama gildir um Pútín, hann sviptir þá auðmenn, sem ekki lúta honum, eigum sínum (t.d.. Kódorovskí).
Um leið gerir hann klíkufélaga sína forríka (t.d. Arkadí Rótenberg). Sjálfan sig sennilega líka.
Nasistaflokkurinn var á vissan hátt fasísk útgáfa af gömlu Framsókn, tækifærissinnaður í flestu, þó ekki í stuðningi við landbúnaðinn. Enda höfðu nasistar meira fylgi meðal bænda en annarra stétta.
Ekki fylgir sögunni hvort rússneskir bændur flatmaga fyrir Pútín, þeim væri trúandi til þess.
Tekið skal fram að ég er EKKI að væna Framsókn um nasisma, Tíminn, málgagn flokksins, tók eindregna afstöðu gegn nasistum frá fyrstu stundu.
Pútín og rússneski fasisminn.
Eitt af því fáa jákvæða sem segja má um Pútín er að hann er ekki Gyðingahatari, enda hefur júdóvini hans, Gyðingnum Arkadí Rósenberg og fjölskyldu hans, vegnað vel. Fölskyldan er meðal þeirra ólígarka sem öðluðust auð sinn vegna tengsla við Pútín.
Fiona Hill og Clifford Gaddy segja í bók sinni um Pútín að hann hafi skorað á rússneska Gyðinga sem flutt hafa Ísraels að snúa heim.
Samt hafi hann leikið á strengi Gyðingahaturs þegar hann vó að þeim óligörkum sem ekki beygðu sig fyrir honum. Nokkrir þeirra voru Gyðingar (Hill og Gaddy 2015).
Seint verður hann vændur um skorti þjóðrembu, heimsveldistefnu og einræðishyggju, það á hann sammerkt með Hitler og Mússólíní.
Í ofan á lag má Pútín vart ljúka sundur munni án þess að vegsama keisarana rússnesku, einna helst Pétur mikla og Katarínu miklu.
Ekki virðist hann hafa áhyggjur af því að keisararnir voru einræðisherrar sem ríktu yfir þjóð þar sem 80% voru nánast þrælar. Hann afhjúpar sig með því lýðræðisfjandskap og heimsveldishyggju sína.
Einnig hefur hugmyndafræði Pútíns fasískar hliðar, hann lét flytja jarðneskar leifar fasistans Ivan Iljins til Moskvu og lagði blómsveig á gröf hans. en sá bjó í Þýskalandi árið 1933 og fagnaði valdatöku nasista.
Pútín mun hafa staðið fyrir því að jarðneskar leifar hans yrðu fluttar til Rússlands og lagði blómsveig á gröf hans (samkvæmt t.d. Snyder 2018: 5859).
Iljín boðaði e.k. trúarlegan fasisma sem skipaði rússnesku þjóðinni í hásæti, hún væri útvalin þjóð Rússland væri sérstakt land, handan tímans (!!!).
Því landi skyldi stjórnað af alvöldum, útvöldum, einstakling, helst konungi (tsar). Pútin sem jarmar um afnasistavæðingu er hliðhollur manni sem fagnaði valdatöku nasista!
Málpípa Pútíns, fyllibyttan Dmitri Medvedev, hvetur rússneska æsku að lesa þann hrylling sem Iljín setti saman.
Annar meðhjálpari Pútíns, Valerí Súrkov, mun hafa nútímavætt kenningar heimspekingsins. Til að gera illt verra hafi úrvals-rit Iljíns verið gefin öllum meðlimum Pútínflokksins og sérhverjum ríkisstarfsmanni í landinu (Snyder 2018: 1635 og víðar).
Enn einn hugsuður, sem tengist Pútín, er Alexander Dúgín en sá mun vera undir áhrifum frá Iljín. Dólgurinn Dúgín boðar rússneskan fasisma segir í grein sem í enskri þýðingu heitir Fascism-Borderless and Red (Dúgín 1997).
Fasistinn elski hið brútala, ofurmannlega og englalega, segir hann. Eðli fasismans sé nýtt stigveldi, nýr aðall. Um leið sé margt í stefnu hans sósíalískt, Hitler og Mússólíní hafi mistekist m.a. vegna þess að þeir voru of vinsamlegir auðhringjum og borgaralegum öflum.
Rússneski fasisminn eigi að forðast þau mistök og aðlaga stjórnarfarið rússneskum aðstæðum. Dúgín er greinilega vinstrifasisti, gagnstætt Iljín sem kalla má hægrifasista.
Meðal vinstrifasista má nefna SA foringjann Ernst Röhm en vinstrifasistar biðu ósígur í valdabaráttu innan nasistahreyfingarinnar. Röhm var myrtur árið 1934 að fyrirskipan Hitlers, það var hinn endanlegi ósigur vinstrinasistanna.
Mússólíní stóð fyrir umfangsmikilli einkavæðiungu í upphafi ferils síns (Bel 2011: 937-956). Hitler fetaði í fótspor hans, það var allur sósíalisminn í Þýskalandi nasismans (Bel 2010: 34-55). Síðar söðluðu báðir við og juku ríkisafskipti verulega mikið þegar þeir töldu það henta valdakerfi sínu.
Pútín er heldur enginn andstæðingur einkaframtaks og markaðar, Hill og Gaddy segja að hann hafi varið markaðskerfi í rökræðum við kommúnista í þinginu þegar hann var forsætisráðherra (Hill og Gaddy 2015).
Það fylgir sögunni að Hitler lofsöng einkaframtakið í a.m.k. einni ræðu (Hitler 1936: 11). Pútín hefði getað tekið undir þann söng.
Enn eitt sem hann á sameiginlegt með nasistum er menningaríhaldsmennska, t.d. í mynd andúðar á hommum og öðru LGBT fólki. Norska blaðið Aftenposten segir frá ofsóknum á hendur þessa fólks sem aukist hafi mjög eftir innrás Moskvuhersins í Úkraínu (Aftenposten 9/11 2024).
Annað er endalaust tuð um að annarleg öfl vilji þjóðina feiga, þeim verði að stúta svo hún megi lifa.
Þriðja atriðið er löngun Pútíns til að sameina allt rússneskumælandi fólk í sama ríki, það líkist löngun Hitlers til að smala öllu þýskumælandi fólki í sömu ríkisréttina.
Hið fjórða er efnahagskerfið þar sem auðhringir og ólígarkar mega þéna fé svo fremi þeir þjóni hagsmunum alvaldsins.
Hið fimmta er hervæðing þjóðlífsins. Pútín hefur hann sett á laggirnar æskulýðssamtök þar sem ungmennum er kenndur vopnaburður, rétt eins og Hitlersæskunni.
Réttast er að kalla stefnu Pútíns tsar-fasisma, fyrri liðurinn vegna keisaradýrkunar alvaldsins (sjá samt hér).
Viðbjóðslegur boðskapur Pútínistans Sergeivitsj.
Ein af málpípum Pútíns nefnist Timofei Sergeivitsj. Frétta-stofan RIA Novosti (hluti af aróðursvél Kremlarbóndans) birtir grein eftir hann þar sem hann mælir með hrikalegri kúgun á Úkraínumönnum í nafni afnasistavæðingar.
Drepa verði allan úkraínska herinn, meðhöndla verði úkraínska hermenn sem glæpamenn. Útrýma verði líka allri hinni þjóðernissinnuðu elítu.
Rússar taki alla fjölmiðla yfir og stjórni netinu algerlega. Skólabókum verði að breyta allhressilega og banna allt sem fíflið fasíska kallar nasistaáróður (les: hugmyndir um Úkrainumenn sem sérstaka þjóð).
Yfirgripsmiklar lögreglurannsóknir beri að framkvæma, ofsækja beri alla sem styðja ríkisstjórnina úkraínsku.
Setja beri andnasískar (les: Rússófasískar) stofnanir á laggirnar og andnasistavæðing (les: Rússavæðing) fari fram um 25 ára skeið. Fjöldahandtökur og fjöldalíflát, 25 ára afnasistavæðingar-stjórn (les: Rússavæðingarstjórn) o.s.frv.
Greinin hefði aldrei verið birt ef einræðisstjórnin hefði ekki talið hana í lagi, jafnvel verið sammála boðskapnum.
Boðskapurinn sá arna verður ekki kallaður annað en fasískur, alveg eins og boðskapur Dúgíns. Þessir menn vaða uppi með öfghagjamm sitt í landi þar sem meintir öfgar eru bannaðir (ekki eru ofstopafullar hótanir Mededves skárri).
Rússland þarf á afnasistavæðingu að halda.
Lokaorð.
Pútín er fylgjandi þjóðrembu, heimsvaldastefnu, hernaðar- og einræðishyggju rétt eins og fasistar. Hann vitnar líka fjálglega í fasíska hugsuði eins og Iljín. .
Sú staðreynd að margt er á reiki í hugmyndafræði Pútínismans gerir hann enn líkari ítalska fasismanum. Rétt eins og Mússólíní trúir hann aðallega á mátt sinn og megin.
Þessi stefnu-nefna Pútíns er að því leyti til ólík nasismanum að hann er ekki Gyðingahatari en Mússólini var það líklega heldur ekki framan af enda var ástkona hans Gyðingur.
Einnig er andúð Pútíns á LGTB fólki lík stefnu nasista, sem og móðursýkislegur ótti við meinta óvini þjóðarinnar. Efnahagskerfið hefur líka þætti sem minnir á nasismann.
Niðurstaða mín er sú að vel megi flokka Pútín með fasistum.
Heimildir utan nets:
Bambach, Charles 2010: Heidegger, National Socialism and the German People, Bret W. Davis (ritstj..): Martin Heidegger. Key Concepts. Durham: Acumen, bls. 102-115.
Bel, Germa 2010: Against the mainstream: Nazi privatization in 1930′s Germany, Economic History Review, 63 (1), 34-55.
Bel, Germa 2011: The first privatization: Selling shoes and privatizing public monopolies in fascist Italy (1922-1925), Cambridge Journal of Economics, 35 (5), 937-956.
Dugin, Alexander 1997: Fascism-Borderless and Red. Sótt 13/11 2024 á chrome-extension://efaidnbmnnnibpcajpcglclefindmkaj/https://www.stephenhicks.org/wp-content/uploads/2022/03/DuginA-Fascism-Borderless-Red.pdf
Hieke, Alexander and Zecha, Gerhard 2018: Ernst Mally, Stanford Encyclopedia of Philosophy. Sótt 7/11 2024 á https://plato.stanford.edu/entries/mally/
Hill Fiona og Gaddy, Clifford 2015: Mr. Putin: The Operative in the Kremlin. The Brooking Institution.
Hitler, Adolf 1935: Lighed giver fred (þýðandi Clara Hammerich): København: Hasselbalch.
Kitchen, Martin 1976: Fascism. London: MacMillan Press.
Rosenberg, Alfred 1934: Der Mythus des 20. Jahrhunderts. Eine Wertung der seelisch-geistigen Gestaltenkämpfe unserer Zeit. München: Hoheneichen-Verlag, https://archive.org/details/Rosenberg-Alfred-Der-Mythus-Text Sótt 8/5 2019.
Sznajder, Mario 2002: Nietzsche, Mussolini, and Italian Fascism, Golomb og Robet S Wistrich (ritstj.): Nietzsche, Godfather of Fascism? On the Uses and Abuses of Philosophy. Princeton og Oxford: Princeton University Press, bls. 235262.
Thyssen, Fritz 1941: I paid Hitler (þýðandi César Saerchinger). London: Hodder and Stoughton Ltd.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)