MÁLSÓKN GEGN BANKALIÐINU?

Þeir sem nú eiga um sárt að binda vegna fjárglæfrastefnu útrásarbankanna ættu að athuga þann möguleika að fara í mál við busine$$tossana sen eyðilagt hafa íslenskt efnahagslíf með fáránlegri amerískri ofurbjartsýni. Þetta lið hefur sitt á þurru, er flúið og flogið úr landi með töskur fullar af gulli. En þeir geta ekki flúið undan réttvísinni, vel má lögsækja kvikindin og hafa af þeim þýfið. Stund hefndarinnar mun renna upp.

LECLÉZIO, (nóbels)skáld sem lofsyngur efnisheiminn


Nóbelsverðlaun til handa Jean-Marie Gustave LeClézio, góðar fréttir! Ég hef löngum dáð þennan ljóðræna prósahöfund, ekki síst vegna fyrstu skáldsögu hans Skýrslunnar (Le procès-verbal). Hún segir frá Adam Pollo, ungum iðjuleysinga sem þráir að sameinast efnisheiminum. LeClézio leikur tilbrigði við sama stef í smásögu sem gerist á Íslandi. Íslenkur piltur villist í óbyggðum en nær svo að skynja hvernig hann sjálfur tilheyrir náttúrinni og hún honum. Franski nóbelshafinn dásamar efnisheiminn, með sínum frábæra, ljóðræna stíl tekst honum að fá okkur til að upplifa dauða náttúru sem lifandi hluta af okkur sjálfum. Hugurinn leitar til þýska heimspekingsins Ernst Bloch sem var eins konar efnis-dul-hyggjumaður, söng efnisheiminum lof og prís, sagði hann mater-ia, efnis-móður okkar allra.

Ósagt skal látið hvort LeClézio er undir áhrifum frá Bloch en víst er um að báðir hafa sterka, lýríska taug.


LOF SVARTSÝNI

Ég hef löngum verið maður svartsýnn, góðu heilli. Svartsýnin hefur bjargað mér frá barnalegri trúgirni, trú á pólitískar skýjarborgir. Ég reyndi að vera kommi ungur sveinn því það þótti kúl en trúði innst inni ekki á vitleysuna. Mér var um megn að trúa á tilvonandi sæluríki kommúnismans, hugsaði sem svo að líklega væru þetta draumórar. Ef ekki myndi heimurinn eyðast í kjarnorkueldi áður en sósíalisminn kæmist á koppinn. Seinna daðraði ég ögn við frjálshyggju en uppgötvaði fljótlega að hún væri systir kommúnismans. Ég gat ekki trúað því að frjáls markaður gæti reddað öllu eins og frjálshyggjumenn segja. Og hvað gerist? Eftir öllum sólarmerkjum að dæma er aukið markaðsfrelsi ein meginástæða heimsbankakreppunnar. Þess utan má leiða veigamikil rök að því að "frjálsan" markað sé ekki hægt að raungera fremur en lýðræðislegan sósíalisma. Hvað þá með vöggustofu-kratisma? Af honum fékk ég nóg sextán vetra sveinn í Svíaríki, sá í gegnum blöffið það. Ég var náttúrulega allt of svartsýnn til að treysta útrásinni, hef sagt í ræðu og riti að útrásarfyrirtækin reistu sér hurðarás um öxl, fyrr eða síðar myndi allt klammaríið hrynja. En mig óraði ekki fyrir því að íslenska hagkerfið myndi fara á hausinn fyrir vikið. Ég, sjálfur meistari svartsýninnar, var ekki nógu svartsýnn! Því er enginn furða þótt ég taki undir með Dylan þegar hann syngur "It is easy to see with out looking to far that not much really is sacred". Nema svartsýnin, hún er heilög.

Bloggfærslur 10. október 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband