21.10.2008 | 14:34
MARTRAÐARLANDIÐ. Leiðarvísir handa skelfdri þjóð (2. leiðarhnoða)
Væri ekki ráð að þjóðin bílóða losaði sig við eitthvað af bílaflotanum ógnarstóra, seldi drjúgann slatta til útlanda og styrkti gjaldeyrisstöðuna fyrir vikið? Bílæðið íslensk-ameríska hefur steypt stórum hluta þjóðarinnar í skuldapytt og ógnar heilsu manna. Íslendingar ganga margir hverjir vart lengur en sitja í bílum lon og don. Verði ekki breyting á mun heilsufar Íslendinga versna til muna og mun það kosta þá stórfé í framtíðinni.
Svo leiðarhnoða númer tvö er: Losið ykkur við bílana, allir í strætó nema þeir sem vilja ganga!!
21.10.2008 | 12:27
FRJÁLSHYGGJAN ER DAUÐ, LIFI HIN HARÐA MIÐJA!
Gagnstætt því sem Íslendingar virðast halda tók sól frjálshyggjunnar að lækka á lofti fyrir u.þ.b. áratug. Það varð æ ljósara að markaðsvæðing Reagans og Thatchers skilaði sér ekki í meiri hagvexti. Þess utan skapaði hún aukna stéttskiptingu, þeir ríku urðu miklu ríkari en almenningur þénaði minna á unna klukkustund en fyrir valdadaga þessara þokkahjúa. Til að gera illt verra urðu Ný Sjálendingar ekki feitir af einhverri róttækustu frjálshyggjutilraunin gerð hefur verið. Um leið komu hin vondu norðurevrópsku velferðaríki aftur, Finnland með 50% skattbyrði skákaði öðrum þjóðum í tæknivæðingu og Svíþjóð stóð sig litlu lakar. Ég hef bent á þetta í ræðu og riti árum saman og hef boðað hina hörðu miðju og mjúku hentistefnu sem móteitur við frjálshyggju. Engin formúla er til fyrir góðri stjórnmálastefnu en yfirleitt best að halda sig á miðjunni. Meta verður frá máli til máls hvort ríkið eða markaðurinn sé lausnin.
![]() |
Er tími frjálshyggjunnar liðinn? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.10.2008 | 08:38
Todd: Spáði falli Sovét og BNA.
Franski lýðfræðingurinn (demograph) Emmanuell Todd fall Sovétríkjanna fyrir árið 1976. Sextán árum síðar spáði falli bandaríska heimsveldisins í bókinni Eftir heimsveldið (àpres l'empire). Eina af ástæðunum fyrir því að BNA er á fallandi fæti er sú að efnahagurinn er ekki ýkja góður, sagði hann þá. Í ofan á lag megi vel vera að auður Bandaríkjanna sé ofmetin. Enron-fyrirtækið þóttist eiga ansi miklu meira en það átti í reynd. "Ofmatið" nam 1% af vergri þjóðarframleiðslu vestanhafs. Todd spyr (árið 2002) hvort falsanir Enrons séu einsdæmi, ef fjöldi fyrirtækja geri annað eins þá má ætla að þjóðarframleiðslan bandaríska sé öllu lægri en opinberar tölur segja. Nær má geta hvort fjármagnskreppan vestanhafs hafi veikt trú Todds á eigin spásagnir.
Hann lét sér fátt um finnast þegar Bush hegðaði sér eins og hann ætti heiminn. Í viðtali við franskt Nettrímarit fyrir 3-4 árum sagði hann að Bush berði sér á brjóst og endurtæki "ég er sterkur, ég er sterkur" því hann vissi inni að svo væri ekki. Í fyrra sagði hann í viðtali að fall Svétríkjanna hafi m.a. stafað af ofurtrú á ríkið og heildina, en ofurtrú Kana á einstakling og markað gæti orðið banabiti hins ameríska heimsveldsins. Þetta hljómar sannfærandi í mínum eyrum en minnumst þess að Bandaríkin hafa oft sýnt verulegan endurkomumátt. Afskrifum aldrei BNA!