13.11.2008 | 17:44
KANAMELLUDÓLGAR
Í umræðum um framtíð Íslands heyrast nú raddir (hjáróma að vísu) um að Ísland ætti að ganga í BNA. En kanamelludólgarnir virðast ekki einu sinni vita að BNA er ekki í því að taka við nýjum ríkjum, ólíkt ESB sem er allt önnur Ella, ríkjasamband fullvalda ríkja, ekki land eins og BNA. Eiunhvern tímann hefðu skrif kanamelludólganna flokkast undir landráð en því er ekki lengur að heilsa eftir tíu ára útrásarfimbulfamb og hrikalega ameríkaniseringu. Auk þess er mynd BNA fegruð all hressilega í hinum hægrisinnuðu íslensku fjölmiðlum. Nánar um það síðar.
13.11.2008 | 11:57
Kap-ANON, félagsskapur meðvirkra aðstandenda kapítalista
Hér með tilkynnist stofnun Kap-ANON, félagsskaps meðvirkra aðstandenda kapítalista. Meðvirkni birtist meðal annars í viljaleysi til að horfast í augu við staðreyndir, t.d. þá staðreynd að Hringadrottinn og Bjargvargarnir einoka nú blaðamarkaðinn, Moggi og Fréttablað eru gengin í eina auðvaldssæng. Hinir meðvirku neita að horfast í augu við þá staðreynd að fokríkir fjárglæframenn eyðilögðu íslenskan efnahag, í stað þess er klifað á vonsku Davíðs, krónunnar og tilfinnanlegum skorti á ESB-aðild. Auk þess birtist meðvirknin í beinni aðstoð við einkafyrirtæki, t.d. þegar tugþúsundir manna skrifa undir áskorun um að hrekja RÚV af auglýsingamarkaðnum svo Skjár einn geti fengið að drekka í friði, ég meina svo Skjár einn fari ekki á hausinn.
Líklega þyrfti að smala stórum hluta þjóðarinnar á Kap-ANON fundi.
13.11.2008 | 10:01
AÐ KÓA MEÐ KAPÍTALISTUM. Skjár einn, RÚV og auglýsingamarkaðurinn
Þótt fjárglæframenn hafi komið Klakanum á kaldann klaka halda hinir frjálshyggjnu Íslendingar áfram með að kóa með kapítalistunum. Nú hafa þrjátíu til fjörutíu þúsund manns skrifað undir áskorun þess efnis að RÚV hypji sig af auglýsingamarkaðnum. Illar tungur segja að þetta stafi af samúð með Sjá einum. Sjálfur hef ég óþökk á þeirri sjónvarpsstöð, m.a. vegna þess að henni tókst að útrýma orðinu "piparsveinn" úr málinu, það var svo kúl að kalla piparsveinaþáttinn "íslenska bachelorinn". Aðspurður sagði talsmaður stöðvarinnar að piparsveinn væri svona gæi sem vildi ekki giftast. Nú má ætla að fólk af þessu tagi opni ekki bók en í orðabókum er piparsveinn einfaldlega skilgreindur sem "ógiftur maður".
Kapítalistarnir láta sér ekki nægja að eyðileggja efnahaginn, þeir vilja líka eyðilegga tungumálið. Enda finnst þeim íslenska ekki nógu kúl, fyrirtækin sem rústuðu íslenska efnahaginn notuðu ensku sem vinnumál. Þeir sögðu að enskan væri svo arðvænlega. Voðalega var það satt.