GEIR ÁGÚSTSSON OG MISES UM HEIMSKREPPUNA

Í nýlegri grein í Þjóðmálum segir Geir Ágústsson að markaðurinn sé stikkfrí þegar heimskreppan er annars vegar, eins og Bubbi syngur "ekki benda á mig, segir varðstjórinn". Varðstjórinn hefur líklegar verið í frjálshyggjufélaginu og sungið með Geir sönginn um að undirrót vandans hafi verið einokun ríkisins á peningaprentun. Heimild Geirs fyrir þessu er frjálshyggjupáfinn og hagfræðingurinn  Ludwig von Mises. En Mises þessi var þeirrar skoðunar að hagfræði væri hrein hugvísindi og að reynslurök skiptu hana engu máli. Sé  kenning hans um að ríkiseinokun á peningaprentun valdi kreppum ekkert annað en hans hugarsmíð er ég ekki viss um að hana beri að taka alvarlega. Enda vitnar Geir ekki í neina "empiríu" máli sínu til stuðnings, aðeins í hugarsmíðar þar sem rakið er hvernig upplýstir og eigingjarnir gerendur myndu hegða sér við tiltekin skilyrði. Í ofan á lag þá hef ég ástæðu til að ætla að kreppur hafi átt sér stað áður en ríkið fékk einokun á peningaprentun. Til að gera illt verra segja þeir Mises og Geir að vextir sem skapast við frjáls viðskipti séu náttúrulegir vextir. En hvernig vita þeir það? Er hugtakið um náttúrulega vexti ekki jafn inntakslaust og hugtak marxismans um vinnugildi? Gefa þeir Geir og Mises sér ekki einfaldlega fyrirfram að hið góða og náttúrulega sé markaðskynja, hið illa og þar með kreppur séu ríkiskynja?


Bloggfærslur 29. desember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband