KANAR GEGN RÚSSUM. Fjórði hluti: Kana-Janus á alþjóðavettvangi

Í þessari færslu verður bandarísk utanríkisstefna í brennidepli þó með hliðsjón af hinni rússnesku.

Skammarstrik Kana og bandaríska bremsan

Einhver kann að velta því fyrir sér hvort ég er að fegra utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Nei, ég neita því alls ekki að Kanar hafa framið ýmis skammarstrik. Í byrjun tuttugustu aldar óðu þeir yfir smáríki Mið-Ameríku og réðust hvað eftir annað inn í þau.

Ekki skal ég heldur verja sprengjuregnið yfir Víetnam varið, hvað þá beitingu eiturvopna í því stríði. Eða kjarnorkuárásirnar á Hiroshima og Nagasaki. Eða þátttaka þeirra í valdaránunum  í Íran 1953, Guatemala 1954, Indónesíu 1965, og Chile 1973.

Sýnir þetta ekki að Bandaríkin séu heimsveldisinnuð? Er ekki stefna þeirra skilyrt af efnahagslegum hagsmunum? Svarið við báðum spurningum er bæði já og nei, Bandaríkin eru líka Janus í utanríkismálum sem öðru, bandaríska bremsan virkar oft.

Eins og áður segir bremsaði öldungadeildarþingmaðurinn Frank Church CIA heldur hressilega, ekki hefur það eflt amerískan imperíalisma.

Hvað efnahags-hagsmuni varðar þá eru þess dæmi að þeir hafi haft áhrif á bandaríska utanríkispólitík, t.d. bendir margt til þess að óviðurkvæmileg tengsl Dulles-bræðra við United Fruit Company hafi valdið miklu um þátttöku Kana í valdaráninu í Guatemala 1954.

Einnig kann stuðningur við valdaránið í Íran að hafa skilyrst af olíuhagsmunum. Þess utan bendir sumt til þess að bandarísk  fyrirtæki á borð I.T.& T hafi haft hönd í bagga með valdaráninu í Chile.

En kenningin um áhrif slíkra hagsmuna getur ekki skýrt hvers vegna Bandaríkjamenn lyftu ekki litlafingri árið 1937 þegar Lazaro Cardenas, forseti Mexíkó, lét þjóðnýta bandarísk olíufyrirtæki.

Kannski var ástæðan sú að bandaríski herinn var vanmegnugur, álíka "öflugur" og sá belgíski, m.a. vegna áhrifa einangrunarsinna. Bandaríkin stofnuðu ekki leyniþjónustu fyrr en í síðari heimsstyrjöld. Dálítið erfitt fyrir  ríki með vanmáttugan her og enga leyniþjónustu að vera heimsveldissinnað!

Kenningin skýrir heldur ekki hvers vegna Bandaríkjamenn neyddu ekki Íraka til að einkavæða olíulindir og -fyrirtæki eftir hina svívirðilegu  innrás þeirra árið  2003. Bandarísk fyrirtæki fengu vissulega rétt til að vinna olíu þar en gáfust fljótlega upp vegna hins ótrygga ástands í landinu. Rússnesk og kínversk fyrirtæki komu í staðinn en olían er enn írösk ríkiseign.

Það er því einfaldlega ósatt að  hagsmunir stórfyrirtækja og auðmanna  ráði algerlega bandarískri utanríkisstefnu.Öðru nær, slíkt er líklega fremur undantekningin en reglan í bandarískri utanríkisstefnu. 

Hinn bandaríski Janus sýndi betra andlitið þegar hann lét fara fram frjálsar kosningar i Írak, kosningar sem leiddu til þess að vinir Írans unnu sigur og gerðu landið nánast að írönsku leppríki.

 

Af hverju kom hið illa ameríska heimsveldi ekki í veg fyrir það? Var Auðvaldur sjálfur í fríi? Kannski vegna þess að húmaníski þátturinn tempraði imperíalíska þáttinn, bandaríska bremsan lætur ekki að sér hæða.

Eitt fárra  dæma um slíkt í rússneskri sögu var þegar Gorbasjov lét eiga sig að beita valdi gegn frelsishreyfingum leppríkjanna (fátt fer meira í taugarnar á zar-fasistunum austur þar).

Nefna má að Prígósín sagði á dögunum að ástæðan fyrir innrásinni í Úkraníu hefði verið græðgi rússneskra ólígarka. Þeir vilji ólmir klófesta úkraínskir auðlindir. Hvort þetta er satt skal ósagt látið. 

Fleira bendir gegn því að amerísk utanríkispólitík stjórnist algerlega af annarlegum efnahagslegum hagsmunum. Ef svo væri þá hefðu BNA stutt hinn olíuauðugu arabaríki, ekki litla Ísrael. Meint leppríki Kana á borð við Sádí-Arabíu stóðu fyrir olíuhafnbanninu árið 1973 án þess að þeir fengu rönd við reist.

En einhliða stuðningur Bandaríkjanna við Ísrael er tvímælalaust ámælisverður. 

Þótt margt megi ljótt um bandaríska utanríkisstefnu segja þá er það fremur reglan en undantekninginn að Kanar  séu engu siðferðilega verri, jafnvel skárri, stundum mun betri en andstæðingar þeirra.

Vissulega voru þeir verri en lýðræðisstjórnirnar í Íran, Guatemala og Chile, stjórnir sem þeir áttu þátt í að steypa. En þeir voru siðferðilega  mun betri en nasistarnir, japönsku heimsveldissinnarnir,  ráðamenn í kommúnistaríkjunum, talíbanar, IS og Al Kaída.

Einnig voru þeir engu verri en andstæðingar þeirra í Víetnamstríðinu, Víet Minh lét drepa trotskíista sem unnu sigur í frjálsum kosningum syðst í Víetnam árið 1945. Víet Minh liðar  voru fljótir að koma grimmilegu einræði þegar þeir náðu völdum, fyrst í norðrinu svo í suðrinu.

Hin spillta einræðisstjórn í Saigon var sennilega skömminni skárri en stjórn kommúnista. Eða hvers flúðu hundruð þúsunda manna frá Suður-Víetnam eftir valdatöku kommanna? Engin slíkur flóttamannastraumur átti sér stað á stríðsárunum.

En þetta afsakar ekki sprengjuregn Bandaríkjamanna, morðin í My Lai o.s.frv. Eða staðhæfingu Eisenhowers um að Kanar vildu ekki frjálsar kosningar í Víetnam vegna þess að Víet Minh myndi örugglega vinna.

Honum til afsökunar skal sagt að hann hefur vitað að þetta yrðu síðustu frjálsu kosningarnar í landinu. Hann kann að hafa haft veður af „afrekum“ Víet Minh 1945. Einnig virkaði bandaríska bremsan á endanum í Víetnamstríðinu. Hávær mótmæli og afhjúpun Pentagonskjalanna urðu til þess að Bandaríkjamenn hættu þátttöku í stríðinu.

Í Kóreustríðinu áttu Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra í höggi við hina óhugnanlegu alræðisstjórn Kim-ættarinnar. Það er Könum til mikils sóma að þeir björguðu Suður-Kóreumönnum frá því að lenda í klóm hinna kóresku kommúnista.

En Bandaríkjamenn lögðu Norður-Kóreu algerlega í rúst með loftárásum, sagt er að margir íbúa landsins eigi erfitt með að fyrirgefa þeim það, lái þeim hver sem vill.

Janusinn sýndi bæði fésinn í Kóreu eins og víða annars staðar. 

Þeir eiga reyndar engan einkarétt á að leggja lönd í rúst, Rússar gjöreyðilögðu Tséténu í stríðinu við uppreisnarmenn þar. Blaðakonan Anna Pólitikovskaja ferðaðist um landið á stríðsárunum og lýsti sem helvíti á jörð. Rússnesku hermennirnir hefðu vaðið uppi drepandi, nauðgandi og stelandi (Politkovskaja 2001).

Fyrir þessi skrif og gagnrýni á Pútín galt hún með lífi sínu, þeir sem reynt hafa að bremsa Moskvuvaldið verða oftast að greiða það háu verði.

Bandaríkjumenn björguðu ekki bara Suður-Kóreumönnum heldur líka Bosníumönnum þegar bandaríski loftherinn tók að gera árásir á víghreiður Bosníuserba.

Nú bjarga þeir Úkraínumönnum, ef bandarískrar og vestrænnar aðstoðar hefði ekki notið væru Úkraínumenn nú þrælar hins zar-fasiska einræðisherra. 

Einnig björguðu Bandaríkjamenn konum í Afganistan frá villimannlegri kúgun Talibana. Undir handarjaðri Kana bötnuðu kjör kvenna mikið (skylt er að geta þess að slíkt hið sama gerðist á meðan Sovétríkin hernámu landið, þeim var ekki alls varnað). 

Kanar björguðu líka  heiminum frá nasistum, m.a. með því að dæla vopnum í Sovétherinn. Ekki er heldur útilokað að þeir hafi bjargað Vestur-Ebrópu frá kommmúnísku einræði. 

Einnig komu þeir og NATO í veg fyrir þjóðarbrotshreinsun í Kósovó en deila má ágæti loftárásar NATO. Þær voru vel mögulega brot á alþjóðalögum, þess utan var erfitt að sjá að Serbar ógnuðu varnarbandalaginu NATO. 

Getur verið að þessi uppákoma hafi hrætt Rússa svo mikið að þeir hafi lyft hinum harðdræga Pútín til valda? Hið sama gildir um hin vanhugsaða stuðning NATO  við uppreisnarmenn í Líbíu í mynd loftárása á Gaddafí-liða.

Þær loftárásir kunna  að hafa hrætt Pútín, innrásin í Írak líka, hrætt hann svo mikið að hann snerist gegn Vesturlöndum og hóf innrás í Úkraínu.

Áfram með smjörið: Eftir fyrri heimsstyrjöldina höfðu Bandaríkjamenn ráð Evrópu í hendi sér, til dæmis voru Frakkar og Bretar þeim stórskuldugir.

Samkvæmt formúlum Leníns hefðu þeir átt að leggja undir sig nýlendur þeirra, Lenín hélt að styrjöldin hefði verið uppskiptastríð um landsvæði og nýlendur, stríð sem orsakaðist af hagsmunum auðhringja.

En hvað gerist? Bandaríkin snerta ekki nýlendurnar og láta eiga sig að gera Frakkland, Bretland og Þýskaland að leppríkjum sínum.

Þeir leggja herinn nánast niður og einangra sig á alþjóðavettvangi, voru ekki einu sinni með í Þjóðabandalaginu. Þrátt fyrir allt þetta blómgaðist efnahagur þeirra, það átti ekki að geta gerst samkvæmt marxískum kreddum Leníns (Lenín 1961).

Sama var upp á teningnum eftir síðari heimsstyrjöld en Kanar drógu herlið sitt heim og gerðu þessi lönd ekki að leppríkjum. Þeir létu líka eiga sig að  herja á Sovétmenn  með kjarnorkuvopnum. Enn á ný virkaði bandaríska bremsan.

Nefna má að Íslendingar gerðu viðamikla viðskiptasamninga við Sovétríkin á árunum upp ur 1950, mjög í óþökk Bandaríkjamanna. Einnig var mynduð ríkisstjórn árið 1956 með þátttöku Sovétvina og ætlaði sú stjórn að leggja herstöðina niður.

Spurt er: Ef Bandaríkin eru hreinræktað heimsveldi, af hverju komu þeir ekki í veg fyrir þessar uppákomur í hinu hernaðarlega mikilvæga örríki Íslandi?

Hefðu Sovétmenn leyft fylgiríkjum sínum slíkt? Hvað myndi Pútín gera ef Lúkasenkó reyndi að reka rússneska herinn heim og gera mikla viðskiptasamninga við Bandaríkin?

Það er ekki tilviljun að sagnfræðingurinn Niall Ferguson kallar Bandaríkin „heimsveldið hikandi“ (e. the reluctant empire) (Ferguson 2004). Réttar væri að kalla það „hálfhikandi heimsveldi“, það hefur Janusarandlit eins og annað amerískt, önnur ásjónan húmanísk og hikandi, hin imperíalísk og laus við hik.

Arðrán?

Þá kann einhver að spyrja hvort Kanar lifi ekki á arðráni á þriðja heiminum. Vandinn er sá að sú kenning skýrir ekki hvers vegna lönd eins og Tævan og Suður-Kórea blómguðust undir verndarvæng Bandaríkjanna. Þau iðnvæddust með firnahraða og eru í dag meðal ríkustu þjóða heims, voru fyrir sjötíu árum örfátæk.

Kenningin skýrir heldur ekki hvers vegna olíuþjóðir á borð við Kúvæt og Katar búa við mjög góð kjör, það þótt ráðamenn þar taki til sín all drjúgan hluta af þjóðarauðnum (nefna má líka að ef vestrænir menn hefðu ekki fundið upp bensínknúnar vélar væri olían í þessum löndum lítils virði).

Væri kenningin um arðrán sönn þá væru allar þessar þjóðir örbjarga.

Ekki er víst að fjárfestingar vestrænna fyrirtækja í þriðja heiminum leiði af sér arðrán. Um 1968 fór 60% af bandarískum fjárfestingum til Kanada og Vestur-Evrópu án þess þau yrðu arðrænd fyrir vikið.

Hefðu bandarískar fjárfestingar í þriðja heiminum verið af arðránstagi þá hefði yfirgnæfandi meirihluti bandarísks fjármagns streymt þangað, ekki bara 40%. 

Í mörgum af fátækustu löndum jarðarinnar vill enginn fjárfesta þar eð ástandið er of ótryggt. Hverjir skyldu nú fjárfesta í Sómalíu? Varla nokkur, örbirgðin þar getur því ekki verið sök erlendra fjárfestinga.

Á móti kemur að Eduardo Galeano lagði fram staðtölur sem sýna eiga  að bandarísk fyrirtæki arðræni Suður-Ameríku. Á  tímabilinu 1950-1967 hafi bandarískar fjárfestingar í Suður-Ameríku numið  3921 milljónum dollurum en gróði þeirra numið 12839 milljónum dollara (Galeano 1979: 117–192).

Því er til að svara að staðtölur má túlka og toga. Og jafnvel þótt þetta væri satt (sem er alls ekki víst) þá kunna þessi ríki að græða enn meira á tæknilegum sköpunarmætti Kana. Skyldu þau tapa á uppfinningum á borð við ljósaperuna, einkatölvuna og flugvélina?

Hvers vegna hefur hundruð milljónir þriðjaheimsbúa  orðið bjargálna og vel það á síðustu áratugum? Hefði meint arðrán ekki átt að koma í veg fyrir það?

Hvers vegna urðu mestu hungursneyðir síðustu áratuga í heil- og hálfkommúnsitaríkjum? Ekki bera Kanar ábyrgð á mannfellinum mikla í Kína um 1960, hungursneyðinni í hinni Sovétvinsamlegu Eþíópíu um 1983 eða þeirri í Norður-Kóreu upp úr 1990.

 Bandaríkjamenn lifa fremur á vitinu en stritinu, á tækninýjungum ýmsum sem aðrar þjóðir njóta góðs. Eða hafa þeir kannski stolið hugmyndunum frá þriðja heiminum?

Þurfa þeir alltént  ekki ógnarmikið af hráefnum? Vissulega,  en þeir eru sjálfum sér að allnokkru leyti nógir um þau, nú er þeir aftur orðnir sjálfum sér nógir um olíu.

Ef þeir stunduðu arðrán í miklum mæli þá myndu þeir eiga  viðamikil viðskipti við önnur lönd en utanríkisviðskipti þeirra eru ekki mikil miðað við Vestur-Evrópu og Kína. Einna helst að þeir flytja þeir vörur frá Kína en mér vitanlega hefur engum dottið í hug að halda því fram að þeir arðræni Miðríkið.

En auðvitað má halda því fram að Bandaríki byggi á e.k. frum-arðráni. Þeir hafi rænt landi frá frumbyggjunum og arðrænt þræla í suðrinu. Vandinn er sá að þrælabúskapurinn var ekki arðvænlegri en svo að Suðurríkin stöðnuðu efnahagsega á meðan hin  þrælavana Norðurríki iðnvæddust með glæsibrag.

Annar möguleiki er sá að Kanar njóti arðs af hinni sterku stöðu dollarans. Hann er ekki venjulegur gjaldmiðill heldur grundvöllur heimsviðskipta. Franski fræðimaðurinn Emmanuel Todd segir að þessi staða hans færi Bandaríkjamönnum fé sem þeir hafi ekki unnið fyrir (Todd 2003).

En þetta líkist fremur happdrættisvinningi en arðráni, græðir ekki heimshagkerfið á því að hafa svo öflugan gjaldmiðil?

Velta má fyrir sér hvort Sovétríkin hafa arðrænt leppríki sín, alla vega tróðu þau upp á þessi ríki hinu liðónýta efnahagskerfi sínu.

Rússaher virðist stunda hreinan þjófnað í Úkraínu, bæði  stela einstakir hermenn öllu steini léttara, eins virðist zar-fasistastjórnin læsa klónum í úkraínskar auðlindir.

Sovétherinn fór líka ránshendi um Mið- og Austur-Evrópu í lok síðari heimsstyrjaldar. Ekki má heldur gleyma því að keisarastjórnin var nýlenduveldi sem hugsanlega hefur arðrænt nýlendur sínar.

Allt ber þetta að sama brunni, margt má ljótt um bandaríska utanríkispólitík segja en andstæðingar þeirra eru oft mun verri en þeir. Erfitt er að sjá að Kanar lifi á arðráni á þriðja heiminum, sönnunarbyrðin er þeirra sem því trúa.

Lokaorð

Bandaríkin eru sjaldan siðferðilega verri en andstæðingar þeirra, oft skárri. Hið gagnstæða gildir um Rússland. Ekki verður séð að utanríkisstefna Bandaríkjanna stjórnist fyrst og fremst af efnahagslegum hagsmunum, fremur hið gagnstæða.

Líka virðist ólíklegt að Kanar lifi á arðráni á þriðja heiminum þótt þeir hafi gert sig seka um ýmis skammarstrik. Margt bendir til að Moskvuveldið hafi löngum stundað þjófnað í öðrum löndum eða valdið vanþróun þeirra með því troða upp á þau misheppnuðu efnahagskerfi.

Þrátt fyrir sína mörgu og mikla galla hefur utanríkisstefna Bandaríkjanna að jafnaði verið skárri en stefna Rússlands enda samkeppnin ekki hörð.

Því veldur bandaríska bremsan og skárra andlit hins bandaríska Janusar.

 

Heimildir:

Ferguson, Niall 2004:  „The Reluctant Empire“, The Hoover Digest, https://www.hoover.org/research/reluctant-empire

Galeano, Eduardo  1979: Latinamerikas åpne årer (þýðandi Arne Hem). Ósló: Pax.

Lenín, Vladimír Iljits 1961: Heimsvaldastefnan. Hæsta stig auðvaldsins (þýðandi Eyjólfur R. Árnason). Reykjavík: Mál og menning/Heimskringla.

Politkovskaja, Anna 2001:   En reise i helvete. Rapport fra krigen i Tsjetjenia. Ósló: Pax forlag.

Todd, Emmanuel 2003: Weltmacht USA. Ein Nachruf (þýðendur Ursel Schäfer og Enrico Heinemann). München/Zürich:Piper.

Mexican Expropiration of Oil https://history.state.gov/milestones/1937-1945/mexican-oil

Um United Fruit company og Guatemala https://www.thenation.com/article/economy/united-fruit-guatemala/

Um valdaránið í Íran https://en.wikipedia.org/wiki/1953_Iranian_coup_d%27%C3%A9tat

Um valdaránið í Chile https://en.wikipedia.org/wiki/Military_dictatorship_of_Chile_(1973%E2%80%931990)

 

 

 

 

 


KANAR GEGN RÚSSUM. Þriðji hluti: Samskipti þeirra

Bæði Rússland og Bandaríkin eru fjölþjóðaríki og heimsveldi. Heimsveldisbrölt Rússa einkennist af hreinum yfirgangi og sum part skiljanlegu ofsóknarbrjálæði.

Brölt Bandaríkjamanna  einkennist að sumu leyti af  yfirgangi en sá yfirgangur er oft tempraður af húmanisma og einangrunarhyggju (bandaríska bremsan er ein útgáfa temprunarinnar).

Utanríkisstefna BNA er að nokkru leyti imperíalísk, húmanísk og einangrunarkennd. Þessi þrír þættir vefjast saman með ýmsum hætti.

Hvað um Rússa? Að leggja undir sig nágrannalönd og kúga þjóðir þar hefur löngum einkennt rússneska utanríkisstefnu. Þessi hneigð eflist vegna nojunnar, hún er að því leyti skiljanleg að Rússar hafa oft orðið fórnarlömb innrása. Heimsveldisstefna þeirra eru einatt bremsulaus.

Hér skulu samskipti ríkjanna rædd, í næstu færslu verður sjónum beint að alþjóðabrölti Kana með hliðsjón af því rússneska. 

Samskipti BNA og Rússlands

Áður hefur þáttur Bandaríkjamanna í íhlutunarstríðinu verið nefndur en hann var harla lítilfjörlegur. Spyrja má Vesturlönd hafi haft rétt til að skipta sér af rússneska borgarastríðinu. Því má svara með að benda á að bolsévíkar höfðu tekið völdin með valdaráni og hunsað úrslit lýðræðislegra kosninga. Í ofan á lag höfðu þeir haft í hótunum við vestræna ráðamenn, hvatt til uppreisna gegn þeim. Þeir höfðu rétt til að verja hendur sínar gegn ólögmætri bolsastjórn.

En ekki má gleyma því að andstæðingar bolsévíka, sem Vesturlönd því miður studdu, hvítliðarnir, voru engu skárri en þeir. Meðal annars frömdu þeir fjöldamorð  á Gyðingum, rauðliðarnir voru líka atgangsharðir í manndrápum og kúgun enda höfðu Marx og Engels hvatt til þess.

Í síðari heimsstyrjöldinni sendu Bretar og Bandaríkjamenn Sovétmönnum vopn í stórum stíl, ekki er víst að þeir hefðu staðist áhlaup nasistahersins án þess stuðnings (Steinfeld 2022). Sé varnarbarátta Úkraínumanna gegn zar-fasíska hernum staðgenglastríð þá gildir slíkt hið sama um vörn Sovétmanna gegn  þýska hernum. Engum dettur í hug að kalla hið síðastnefnda „staðgenglastríð“, því ætti enginn að kenna hið fyrrnefnda við slíkt stríð.

Sumir halda að í Jaltasamkomulaginu hafi verið kveðið á um skiptingu Evrópu í áhrifasvæði Vesturvelda og Sovétmanna. Því hafi kúgun þeirra síðastnefndu á fylgiríkjum sínum verið í samræmi við samkomulagið. Vandinn er sá að það stendur ekki stafkrókur í samkomulaginu um þess lags skiptingu (hér er samkomulagið). Þar á móti kemur að sagt er að halda skuli lýðræðislegar kosningar í Póllandi.

Stalín stóð ekki við það ákvæði. Reyndar segja sumir að óformlegt samkomulag hafi verið gert um að nágrannaþjóðir Sovétríkjanna skyldu hafa vinsamlega afstöðu til þeirra. Kannski túlkuðu Sovétmenn það mögulega ákvæði sem boð um skiptingu Evrópu en orðasambandið  „að hafa vinsamlega afstöðu“ merkir ekki það sama og „að verða leppríki“.

En þá má spyrja hvers vegna þeir reyndu að kúga Vestur-Berlín til hlýðni, borgin var á hernámssvæði Vesturveldanna. Vissulega drógu Sovétmenn heri sína út úr Norður-Noregi, Norður-Íran og Bornhólm. Það kann að vera merki þess að þeir hafi trúað á skiptinguna og talið þessi svæði á vestrænu áhrifasvæði. En kannski voru þeir einfaldlega hræddir við bandarísku kjarnorkusprengjuna.

Alla vega drógu Sovétmenn her sinn út úr Austurríki árið 1955 eftir að þeir urðu atómbombu-væddir. Einnig létu þeir hlutlaus Evrópuríki eins og Írland í friði, það bendir gegn því að þeir hafi haft illt í hyggju gagnvart Vestur-Evrópu. Einnig  kann það, sem hér segir, að benda til þess að þeir hafi trúað á skiptinguna.

Kannski héldu Sovétmenn sig á mottunni, ekki bara vegna hræðslu við Bandaríkin, heldur líka vegna trúar á sögulega nauðsyn. Leiðtogar þeirra kunna hafa haldið að fyrr eða síðar myndi sósíalisminn sigra, þess vegna þyrftu þeir ekki að leggja á sig að fara í hasar við Vesturveldin. 

Marxistinn Karl Kautsky andæfði byltingarstefnu á sömu forsendum, engin ástæða væri fyrir gera byltingu með tilheyrandi blóðsúthellingum. Sósíalisminn myndi sigra hvað sem tautaði og raulaði. 

Samt getum við ekki útilokað að Sovétríkin hafi viljað leggja Vestur-Evrópu undir sig. Ráðamenn þeirra trúðu á sigur sósíalismans og útilokuð ekki að Sovétherinn gæti stuðlað að honum.

Þess utan hlýtur auður Vestur-Evrópu að hafa verið freistandi fyir Sovétmenn með sitt misheppnaða efnahagskerfi.

Víkjum aftur að kenningunni um skiptingu álfurnnar. Velta má því  fyrir sér hvort  stórveldin hafi haft einhvern rétt  til að skipa málum í smærri ríkjum, hafi skiptingin átt sér stað sem er fremur ósennilegt.

Minnast má þess að Bandaríkjamenn drógu mestallan herafla sinn frá Evrópu eftir stríð, Sovétmenn ekki. Bandaríkjamenn hefðu mögulega getað beitt kjarnorkuvopnum  gegn Sovétríkjunum áður en þau eignuðustu slík tól, kannski virkaði bandaríska bremsan hér. Þessar staðreyndir benda gegn því að Kanar hafi haft illt í huga gagnvart Sovétríkjunum.

Hvað áhrærir viðveru stórra sovéskra hersveita í Mið- og Austur-Evrópu þá kann sá her að hafa haft það meginhlutverk að halda þessum þjóðum í skefjum. Ekki er gefið að hersveitirnar hafi verið ógn við Vestur-Evrópu.

Samt tel ég að það sem hér hefur verið sagt bendi til þess að Sovétmenn hafi borið meiri ábyrgð á kalda stríðinu en Vesturveldin. Innrás norður-kóreskra bandamanna þeirra í Suður-Kóreu árið 1950 bendir líka til þess.  

Þó má ekki gleyma skiljanlegri rússneskri paranoju, hvað eftir annað hafa stórir herir ráðist inn í Rússland, kannski vildu þeir bara fá stuðpúða milli sín og mögulegra innrásarherja (en vildi Stalín ekki heimsyfirráð kommúnista?).

Nasistar ætluðu sér að leggja landið undir sig, Napóleon ekki, hann  vildi bara neyða Rússakeisara til að halda að sér höndum. Og eins og áður segir frelsaði Napóleon ánauðuga bændur hvarvetna þar sem stórher hans fór um.

Nú virðist nýtt kalt stríð vera í uppsiglingu, enn ber Moskvuvaldið meiri ábyrgð á því en Vesturveldin. Zar-fasistarnir stunda hreinræktaða landvinningastefnu í Úkraínu, Pútín dregur ekki dul á að hann telji Moskvu eiga rétt á að ríkja hvarvetna þar sem keisararnir skvettu úr skinnsokknum (hér um mögulega innlimun Belarús í Moskvuríkið). Senditík hans, Dmitri Medvedvev, segir beinum orðum að Úkraína eigi  engan tilverurétt.

 Þá kann einhver að spyrja hvort innrásin er ekki bara skiljanleg viðbrögð við stækkun NATÓ. Því er til að svara að ekkert bendir til þess að stækkunin ógni Rússlandi. Eða hvers vegna hafa Bandaríkin dregið drjúgan hluta af herafla sínum úr Evrópu á síðustu áratugum? Sem kunnugt er var herstöðin á Keflavíkurflugvelli lögð niður árið 2006 og sjö árum síðar drógu Kanar skriðdrekasveitir sínar út úr Þýskalandi.

Þangað til innrásin hófst var ekki einn einasti bandaríski hermaður í Eystrasaltslöndunum og Póllandi, velflest NATÓ-ríki höfðu dregið stórlega úr útgjöldum til hermála, Þjóðverjar nánast lagt her sinn niður. Þessar staðreyndir benda gegn því að stækkunin hafi verið gerð til að þjarma að Rússum.  

Enda segir fyrrum forsætisráðherra Pútíns, Mikael Kasjanov, að einræðisherrann viti mætavel að NATÓ ógni ekki Rússum.

Ég bæti við: Fyrrum kommúnistaríki sóttu um inngöngu í NATÓ vegna ótta við Rússana, ráðamenn þar vissu að þeir  myndu  fyrr eða síðar fá heimsveldisgrillur á ný.

Fyrir þrjátíu árum sagði hinn pólski Lech Walesa að þegar Rússar undirrituðu samninga þá héldu þeir á penna í annarri hendi, á handsprengju í hinni. Eða hvers vegna drógu Finnar ekki úr vígbúnaði sínum? Kannski vegna þess að þeir höfðu góða og gilda ástæða til að vantreysta Rússum.

 Hefðu Bandaríkin viljað koma Rússlandi á kné má spyrja hvers vegna ráðamenn þeirra dekstruðu Úkraínumenn til að láta kjarnorkuvopn sín af hendi við Rússa. Eða hvers vegna George Bush eldri nánast grátbað Úkraínumenn um að segja sig ekki úr lögum við Sovétríkin. Eða hvers vegna Obama var lengi tregur til að senda þeim vopn.  Hvers vegna Trump lagðist flatur fyrir Pútín?

En því verður ekki neitað að Vesturlönd vanmátu paranoju Rússa. Mary Louise Sarotte hefur lög að mæla er hún segir að fara hefði mátt hægar í stækkun NATÓ og vinna betur úr „partnership for peace“ sem Rússar áttu aðild að. Réttar hefði verið að  leyfa nýjum ríkjum aðild að NATÓ í áföngum, veita þeim aukaaðild fyrst og taka Rússland jafnvel með. Til að gera illt verra  niðurlægðu Vesturlönd Rússa þegar þeim var ekki einu sinni sagt frá áætlunum NATÓ um að hefja loftárásir á Serbíu. Um leið segir Sarotte það hreina firru að NATÓ hafi lofað Rússum að færa ekki út kvíarnar (Sarotte 2021). Hún hafði aðgang að skjölum James Bakers, þáverandi utanríkisráðherra BNA, og segir að hann hafi ekki gefið neinn ádrátt um það.

Bæta má við að þótt  hann hefði kannski gefið slíkt í skyn þá hafði hann ekkert umboð til þess. Ekki er hægt að taka neina ákvörðun um nýja meðlimi NATÓ nema með skjalfestu samþykki allra aðildaríkja en engu slíku var til að dreifa. Þvættingurinn um loforðið  á sér rætur í bullinu um að Bandaríkin ráði öllu í NATÓ, nánar um það hér að neðan.

Margir Rússar trúa loforðaruglinu og halda líka að hrun Rússlands á Jeltsínsárunum hafi verið Vesturveldunum að kenna. En aðalorsök þessa hruns var hið ömurlega efnahagskerfi kommúnistaráranna og sú staðreynd að rússneskir valdaaðilar seldu sjálfum sér fyrirtæki á spottprís og rændu þjóðina.

Vestrænir ráðgjafar Rússa gerðu illt verra með kjánalegri kreddutrú, þeir mæltu með einkavæðingu strax í gær og lyftu ekki litlafingri til að kynna sér sögu og hefðir Rússa. Minnihluti ráðgjafasveitarinnar með nóbelshagfræðinginn Joseph Stiglitz í broddi fylkingar mælti með því að fyrst yrði landið gert að réttaríki en meirihlutinn fór sínu fram (skv Stiglitz 2002: 133-165).

Spyrja má hvers vegna einkavæðingin tókst miklu betur í Póllandi en í Rússlandi. Kann ástæðan að hafa verið sú að vísir að réttaríki hafi verið til í fyrrnefnda landinu, ekki því síðarnefnda?  Engin ástæða er til að trúa því að ráðgjafasveitin hafi verið á mála hjá Bandaríkjastjórn og haft það markmið að leggja Rússland í rúst. Sönnunarbyrðin er þeirra sem því trúa.

Hins vegar má velta því fyrir sér hvort Bandaríkin hefðu átt að veita Rússlandi Marshallaðstoð, Þorvaldur Gylfason heldur því fram að þeir látið það eiga sig til að koma Rússum á kné. En hefði slík aðstoð ekki bara horfið  í spillingarhítina  rússnesku?

Alla vega er ekki útilokað að ýmis mistök Vesturlanda hafi rekið Rússa í faðm Pútíns. Hvað sem því líður virðast margir Rússar trúa geipi hans um að NATÓ sé bara tæki Bandaríkjamanna. Það er sannanlega rangt, ef svo væri þá hefði Merkel ekki getað komið í veg fyrir að Úkraína gengi í NATÓ fyrir rúmum áratug en Bandaríkjamenn börðust fyrir því. Erdogan hefði heldur ekki getað seinkað inngöngu Svía og Finna í bandalagið ef það væri bara tæki Kana.

Hvað um Úkraínu? Sumir halda að Maidanuppreisnin hafi verið liður í valdaráni sem Bandaríkjamenn hafi stjórnað. Auðvitað reyndu Bandaríkjamenn að fiska í gruggugu  vatni uppreisnarinnar en það þýðir ekki að þeir hafi stjórnað henni. Eða mútaði CIA milljónum manna til að taka þátt í mótmælaaðgerðum viku eftir viku?

 Eðlilegasta skýringin er sú að flestir Úkraínumenn hafi fengið sig fullsadda á spillingu, yfirgangi og Rússaþjónkun Janúkevits, forseta. Meirihluti þingsins samþykkti að svipta hann völdum, reyndar var það ekki í samræmi við sjórnarskrá, samkvæmt henni hefði þurft tvo þriðju hluta til þess. En brýtur ekki nauðsyn stundum lög?

Það  hefur alltént orðið lýðræðisvæðing í Úkraínu á árunum eftir Maidan þótt landið sé enn spillt og ólígarkar of valdamiklir. Timothy Snyder telur að Pútín hafi ráðist inn í landið af ótta við að lýðræðisvæðingin smitaði Rússa. Fleira kann að  hafa komið  til, draumur Pútíns um að endurreisa Rússland sem risaveldi og hrein græðgi, löngun til að klófesta náttúruauðlindir Úkraínu. Eða rússneska ofsóknarbrjálæðið.

Lokaorð

Niðurstaðan er sú að Bandaríkin hafa að jafnaði verrið siðferðilega skárri en Rússland á alþjóðavettvangi. Moskvuvaldið bar meiri ábyrgð á kalda stríðinu en Kanar, líka á kalda stríðinu nýja, því sem nú er að hefjast.

Heimildir:

Sarotte, Mary Elise 2021: Not an Inch: The Making of the America Russia Post-Cold War Stalemate. Yale University Press.

Steinfeld, Hans-Wilhelm 2022:  Russland kriger. Stamsund: Orkana.

Stiglitz, Joseph 2002: Globalization and its Discontents. Harmondsworth: Penguin Books.

Texti Jaltasamkomulagsins:

https://digitalarchive.wilsoncenter.org/document/yalta-conference-agreement-declaration-liberated-europe

Um Jaltasamkomulagið: https://www.history.com/topics/world-war-ii/yalta-conference

Kasjanov, viðtal https://www.youtube.com/watch?v=GpWQWk1aWJw.

Snyder viðtal https://www.youtube.com/watch?v=um-SEQDQidM

Medvedev viðtal https://www.youtube.com/watch?v=kNTv4im_Cu8

BNA dró skriðdreka út úr Þýskalandi

https://www.stripes.com/theaters/us-army-s-last-tanks-depart-from-germany-1.214977

Fasismi Rússlands https://filternyheter.no/ett-ar-etter-24-februar-invasjonen-russlands-ferd-mot-fascismen/?fbclid=IwAR1tOiD0MbLpliPCIYvEIWMnKLLLIGGmFrckTWEzp8VZiMgU4ogDdHTLIIY

Borgarastyrjöldin rússneska https://en.wikipedia.org/wiki/Russian_Civil_War

Vilja innlima Belarús

https://www.yahoo.com/news/russia-belarus-strategy-document-230035184.html?guccounter=1

 


Bloggfærslur 14. apríl 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband