29.4.2023 | 09:58
Gáfur og greindarpróf
Einhvern tímann var vinsælt að segja að greind væri einfaldlega það sem mælist á greindarprófum (köllum þetta mælingarrökin). En þessi rök eru meingölluð.
Í fyrsta lagi eru eru til alls konar greindarpróf og þau hafa breyst síðan á sokkabandsárum þeirra. Ef greindarpróf eru verulega ólík innbyrðis þá er ekkert vit í mælingarrökunum.
Skera verður úr um hvaða greindarpróf sé best fallið til mælinga en þá verða menn að gera a.m.k afstæðan greinarmun á milli greindar sem slíkrar og árangurs á greindarprófum (með afstæðum greinarmuni á ég við greinarmunur sem gerður fyrir sakir raka).
Í öðru lagi er vart hægt að segja að greindarpróf mæli sköpunargáfu enda er hún illmælanleg (skv Kaufman 2015: 5572).
Sé svo þá standa þau ekki undir nafni því heilbrigð skynsemi segir að sköpunargáfu sé jafnmikilvæg og stærðfræði- og málgreind.
Í þriðja lagi kann bandaríski sálfræðingurinn Keith Stanovich að hafa nokkuð til síns máls er hann segir að greindarpróf mæli ekki skynsemi (e. rationality).
Meintir gáfumenn séu ekki endilega skynsamir. Hann kemur með ýmis dæmi um slíkt, trú ofurgáfaðra einstaklinga á fáránlegar kreddur. Einnig nefnir hann til sögunnar nóbelshafa í efnafræði, sem trúað hafi því að sér hafi verið rænt af geimverum, og að HIV veiran valdi ekki alnæmi.
Auk þess vísar hann til ýmissa tilrauna sem hann og samstarfsmenn hans hafa gert. Ástæðan fyrir þessu sé m.a. sú að flest okkar séum þekkingarlegir nískupúkar (e. cognitive misers).
Við hneigjumst til að gera okkur leikinn léttan, ekki hugsa málin niður í kjölinn. Auk þess trufli fordómar skynsemina. Niðurstaða hans er sú að greind sé ekki það sama og skynsemi enda mældu greindarmælingar ekki hið síðastnefnda (Stanovich 2009: 3539).
Í fjórða lagi telja sumir sálfræðingar að ekki sé til ein allsherjar greind heldur margar gerðir greindar sem séu ósammælanlegar.
Einn þeirra, Howard Gardner að nafni, segir að margs konar greind sé til og því ófrjótt að draga alla greind upp á sömu seil og mæla meinta vísitölu hennar. Til sé tilfinningagreind, félagsgrein o.s.frv.
Andstæðingar segja þetta rangt, til sé ákveðinn þáttur, g-þátturinn sem sé grundvöllur þess er virðist margháttuð greind.
Þess utan sé hættan sú að allt milli himins og jarðar geti talist greind og þá glati hugtök um greind inntaki sínu (skv Marenus 2020). Ekki er auðvelt að skera úr um þennan ágreiningi.
Hvað sem því líður kann kenning Stanovich að vera vatn á myllu Gardners og félaga. Má ekki segja að skynsemi sé sérstök tegund greindar sem tengist lítið öðrum greindargerðum?
Að minni hyggju er aðalvandi greindarprófa sá að þau mæla ekki sköpunargáfu. Það þýðir einfaldlega að mælingarrökin eru út í hött.
Greindarpróf mæla sjálfsagt einhverja andlega getu, t.d. skólaþroska.
En auðvitað er ekki hægt að útiloka að mönnum takist að mæla sköpunargáfu einhvern tímann í framtíðin, annað hvort sem lið í greindarmælingum eða sem mælingu á sérstökum hæfileika, óháðum greind.
Kannski ber að greina milli greindar og gáfna, greindarpróf mæli hið fyrrnefnda en ekki gáfurnar. Ef til eru hvorki greind né gáfur mælanlegar.
Heimildir
Kaufman, James C. 2015: Why Creativity isnt in IQ Tests, Why it Matters, and Why it will not Change Anytime Soon Probably, Journal of Intelligence, 3, bls. 5572. Sótt 28/5 2022 á file:///C:/Users/700215/Downloads/jintelligence-03-00059.pdf
Marenus, Michele 2020: Gardners Theory of Multiple Intelligences, Simply Psychology. Sótt 20/3 2022 á https://www.simplypsychology.org/multiple-intelligences.html
Stanovich, Keith E. 2009: Rational and Irrational Thought: The Thinking that IQ Tests Miss, Scientific American Mind, nóvember/desember, bls. 3539.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)