4.7.2023 | 17:33
BJÖRN JÓN OG VINSTRIHLIÐIN SEM VANTAR
Björn Jón Bragason skrifar betur en flestir aðrir álitsgjafar. Hann er sannmenntaður og kann að tengja tilvísanir í heimsmenninguna við atburði dagsins í dag með sérlega frumlegum hætti. Og rökstyður mál sitt vel.
Hann er blessunarlega evrópskur í hugsun, vitnar grimmt í þýskar og franskar bókmenntir og álitsgjafa. Laus við enskumennsku nútímans þar sem allt snýst í kringum ensku og enskumælandi heim.
Ég segi: Fjöltyngi er fjölkynngi!
En hann er of hægrisinnaður fyrir minn smekk án þess þó að vera öfgamaður. Gallinn er sá að hann vantar vinstrihliðina.
Bresk saga
Þessu til sannindamerkis mætti nefna margt, t.d. pistil þar sem hann lofsyngur frjálslyndi Breta og þá meintu staðreynd að samfélagið hafi þróast vel án blóðugra byltinga, kannski gagnstætt Frakklandi (Björn Jón 2022: 287-288).
Eitt er fyrir sig að spyrja má hvort hin blóðuga uppreisn þingsins undir forystu Oliver Cromwells hafi ekki verið bylting sem gerði síðari framfarir mögulegar.
Einnig hvort nýlenduarðrán hafi auðgað Breta (samskipti nýlendna og nýlenduherra voru reyndar flókin, sumt bendir til þess að báðir aðilar hafi tapað þegar til lengdar lét, nánar um það síðar).
Í þriðja lagi hafði hið meinta, frjálslynda Bretland um aldamótin 1800 einhverja grimmilegustu refsilöggjöf sem um getur.
Smábörn voru hengd fyrir smáþjófnað, allt var gert til að vernda hinn ginnhelga eignarrétt auðstéttarinnar.
Nefna má að heimspekingurinn Hegel snupraði Breta fyrir þetta og fleira, ég ræði gagnrýni hans í grein minni Hegel og hégiljan sem finna má í greinasafni mínu Ástarspekt.
Hvað um það, kannski var minni ríkiskúgun í Bretlandi en víða annars staðar en meiri auðkúgun.
Móðurmálið, einkaframtakið, ríkið
Meinið er að Björn Jón einblínir á meint ríkisofbeldi en hunsar mögulega auðkúgun þegar hann ræðir íslensk málefni. Hann hefur meiri áhyggjur af Samfylkingunni en Samherja, meiri af ríkisafskiptum en mögulegum yfirgangi auðmanna.
Mér til óblandinnar ánægju hann skýtur skildi fyrir móðurmálið en átelur bara ríkisstjórn og verkalýðshreyfinguna fyrir sofandahátt varðandi það, einkaframtakið er stikkfrí.
Hann segir með rétti að ótrúlegt megi þykja að ríkisstjórnin skuli láta enskuvæðingu Leifsstöðvar viðgangast í blóra við lög um að íslenska sé ríkistunga vor. En ekki eitt orð um einkaaðilana sem reka stöðina og hafa látið enskuvæða hana.
Ekki stafkrókur um stöðugar enskuvæðingartillögur viðskiptaráðs, ég minnist þess að þáverandi forstöðumaður þess, Bogi Pálsson, hvatti á sínum íslensk fyrirtæki til að gera ensku að ríkismáli.
Hvað þá um enskuvæðinguna í Háskólanum í Reykjavík, stofnun sem (Ó)ráðið setti á laggirnar en Björn Jón mun kenna þar.
Ekki stafur um að viðskiptamaðurinn og þáverandi Sjalli Benedikt Jóhannsson mælti með því þegar árið 1999 að íslenska yrði lögð niður og enska tekinn upp í staðinn (ég svaraði geipi hans víða á netinu, einnig í greininni Úlfahjörð vinda sem finna má í Ástarspekt).
En hið opinbera er alls ekki saklaust af enskumennsku, á Hverfisgötu er ritað á malbikið Bus only, ekkert á íslensku (má sækja borgaryfirvöld til saka fyrir lögbrot?).
Ekkert auðvald? Sjallar heilagir menn?
Synd væri að segja að Björn Jón ofreyni sig á að gagnrýna Sjálfstæðismenn en segir þó í einum pistli að kannski sé komið nóg af stjórnarsetu þeirra. Þeir nái ekki því markmiði að draga úr opinberum útgjöldum, öðru nær.
En hefur Birni Jóni aldrei hugkvæmst að stjórnarseta Sjalla sé hagsmunagæslu-atriði, ekki hugsjóna-atriði? Mér finnst nóg komið af stjórnsetu þeirra en ekki af sömu ástæðum og Björn Jón.
Hann vitnar fjálglega í skýrslur Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins um óstjórn í fjármálum rétt eins og hér væru á ferðinni skýrslur samdar af hlutlausum aðilum (við getum deilt um hvort hlutleysi sé mögulegt).
Datt honum ekki í hug að hagmunir ráðs og samtaka gætu litað skýrsluskrifin? Er einkaframtakið heilagt í hans augum? Hann bendir réttilega á að þess séu dæmi að fullfrískt fólk sé á opinberu framfæri.
Vandinn er sá að rannsóknir í Noregi, sem ég las um fyrir margt löngu, bendir til þess að fjöldi fólks, sem á undir högg að sækja, fái ekki þær greiðslur sem það á rétt á vegna þess að það þekki ekki löggjöfina (ég sel þetta ekki dýrara en ég keypti það).
Strangt tekið hefur Björn Jón líka á réttu að standa er hann segir að það sé til vansa að stjórnmálamenn og -flokkar séu nánast á framfæri skattgreiðenda (Björn Jón 2022: 147-150).
En hann nefnir hvergi að margt bendir þess að sumir þeirra séu líka á framfæri stórauðvaldsins, ekki síst kvótagreifa. Hér vantar vinstrihliðina, skilning á því að auðvald er vandamál.
Óeirðir í Frakklandi, rasismi
Annað dæmi um þennan skort á vinstrihlið er nýlegur pistill þar sem hann leggur út af gagnrýni franska heimspekingsins Pascal Bruckners á óeirðaseggi í Frakklandi.
Margt vel athugað í þeirri gagnrýni en Birni Jóni láist að nefna þann möguleika að óeirðirnar stafi að einhverju leyti af rasisma (það má teljast sérkennilegt í ljósi þess að Björn Jón hefur gagnrýnt slæma meðferð á innflytjendum hér á landi.)
Í ofan á lag er franska lögreglan fræg að endemum fyrir hrottaskap (sjá t.d. Morgenbladet 7/7 2023). Á móti kemur að öfgaíslamistar, glæpagengi og ólátabelgir gera illt verra, stuðla að árásum á stjórnmálamenn, gripdeildum og skemmdarverkum.
Einhvern tímann las ég um rannsókn sem gerð var í Frakklandi og fleiri löndum. Sendar voru umsóknir um vinnu til tiltekinna fyrirtækja og var umsækjendum skipt þannig í lið að nokkurn veginn sama ferilskrá var send í nafni tveggja umsækjanda, annar með evrópskt nafn, hinn hét nafni frá Miðausturlöndum.
Í ljós kom að þeir með evrópsku nöfnin fengu stöðurnar í mun ríkari mæli en þeir með austrænu nöfnin. Tekið skal fram að ég vitna í þetta eftir minni, minni okkar allra er brigðult. Og rannsóknir misvel framkvæmdar.
Ögn um agaleysi og borgaralegar dyggðir
Björn Jón bendir réttilega á að agaleysi, tillitsleysi og ókurteisi Íslendinga valdi samfélaginu stórtjóni. Hann segr með vissum rétti að þjóðina skorti borgaralegar dyggðir (Björn Jón 2022: 266-269.
Nefna má að norsk kona, sem búið hefur lengi á Íslandi og talar reiprennandi íslensku, sagði mér að Íslendingar tækju ekki tillit til annarra.
Því miður alltof satt. En lausnin er ekki bara efling borgaralegra dyggða heldur samstaða í anda jafnaðarstefnu. Slíka samstöðu má finna í Noregi og segja sumir hagfræðingar að hún sé lykillinn að velsæld þjóðarinnar.
Forsenda slíkrar samstöðu er m.a. tiltölulega mikill tekjujöfnuður. Þannig stuðlar vinstridyggðin jöfnuður að samstöðu og virkar gegn þeirri ofureinstaklingshyggju sem getur af sér tillitsleysi og yfirgang.
Best er að finna kjörvægi milli einstaklingshyggju og samhyggju.
Lokaorð
Er ég að mæla með einhverri allsherjar vinstrivæðingu hugans? Öðru nær, ekki skortir álitsgjafa sem vantar hægri- og miðhliðina, ég er að andæfa kerfis- og formúluhugsun.
Björn Jón er góður fulltrúi mið-hægri-stefnu en mætti hyggja betur að vinstrihlið málanna.
Heimildir:
Björn Jón Bragason 2022: Þjóðfélag í skuggsjá. Greinasafn. Reykjavík.
Stefán Snævarr 2004: Ástarspekt. Greinar um heimspeki. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag.
"Det er enten for lite eller mye intervensjon", Morgenbladet 7/7 2023.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.7.2023 kl. 12:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)