Noam Chomsky, hinn ennnýi mandarín

Ég las bækur Noams Chomskys um Víetnamstriðið á unglingsárum og þótti góðar.

Eftirtektarverð þótti mér kenning hans um að stríðsreksturinn hafi markast að nokkru af trú áhrifamikilla menntamanna vestanhafs, hinna nýju mandarína,    á atferlisstefnuna (e. behaviorism) (mandarínar í Kína á fyrri öldum voru menntaðir skrifráðungar sem höfðu allmikil völd).

Samkvæmt þeirri stefnu er tómt mál að tala um viljafrelsi, athafnir manna séu skilyrtar af verðlaunum og refsingum. Þessir atferlistrúuðu mandarínar  hafi átt mikinn þátt í að marka stefnuna í Víetnamstríðinu.  

Þess vegna hafi Bandaríkjamenn reynt að skilyrða Víetnama en hunsað skoðanir þeirra, enda væru skoðanir ekkert annað en afurð skilyrðinga (Chomsky 1969).

Ekki skal dæmt um  ágæti þessarar greiningar en víst er um að hún er frumlegri en dólgamarxískur fúkyrðaflaumur Chomskys á síðustu áratugum.

Hvað sem því líður er Chomsky merkur málvisindamaður og hugfræðingur en eins og sjá má í þessari færslu er hann vægast sagt mistækur álitsgjafi og samfélagsrýnir.

Hann er hinn ennnýi mandarín vinstriöfgastefnu.

Hver er gagnrýnin? Hver vitnar mest í heimildir?

Chomsky á engan einkarétt á samfélagsgagnrýni vestanhafs, til eru mun betri og hógværari vinstrigagnrýnendur, t.d. Paul Krugman, Joseph Stiglitz, Robert Reich, George Lakoff, og jafnvel áróðursmaðurinn skemmtilegi, Michael Moore.

Gagnrýni er sumpart stofnanagerð þar vestra, Frank Church veitti rannsóknarnefnd um CIA forstöðu, nefndin gagnrýndi CIA harkalega og var tekið tillit til þeirrar gagnrýni. Sumir segja að Chufch hafi nánast vængstýft CIA.

William Fulbright, öldungardeildarþingmaður var fremur hægrisinnaður en gagnrýndi bandaríski utanríkisstefnu af nokkurri hind  í bókinni The Arrogance of Power.

Bandaríkin hafi tvær hliðar (sbr kenning mín um Janusinn ameríska), önnur frjálslynd og lýðræðisleg, hin einkennist af valdahroka og hann hafi haft slæm áhrif á utanríkisstefnuna (Fulbright 1967).

Reynslan hlýtur að skera úr hvor sé nærri sannleikanum, Fulbright eða Chomsky, nú eða þeir sem telja bandaríska utanríkisstefnu háheilaga.

Alla vega má spyrja hvort gagnrýni Fulbrights sé  nokkuð verri en stórkarlalegar yfirlýsingar Chomsky og fúkyrðaflaumur hans.

Sem dæmi um þennan leiða flaum má nefna  staðhæfingu hans um að Evrópuríki sem reyndu að fá Grikki til að borga skuldir hafi verið sadísk og að Ísrael pynti Gaza (Chomsky og Polychroniou 2017: 71). Einnig er hann kallar Bandaríkin „terroristaríki“ (Chomsky og Polychroniou 2017: 81)(Chomsky 2016: 198-201).

Hann á engan einkarétt á að vitna grimmt í heimildir, ekki vantar að gagnrýnendur hans í bókinni The Anti-Chomsky Reader geri slíkt (sjá t.d. neðamálsgreinar Anti-Chomsky 2004: 31-34 og miklu víðar).

Þeir bera á hann  „cherry picking“  á heimildum, einnig að tilvísanir hans í heimildir séu oft blekkjandi með þeim hætti að hann vitni í heimild hvers höfundur vitni í rit Chomskys sjálfs (Anti-Chomsky 2004:  48-49).

Ekki skal lagður dómur á síðarnefndu staðhæfinguna en sú fyrri um „cherry picking“ er sönn eins og síðar mun sjást.

Reyndar eru  And-Chomsky-höfundarnir næstum jafn drjúgir í fúkyrðaglamri og hann t.d. þegar þeir bera það á hann að hann sé „fifth-columnist of Islamic fascists“ (Anti-Chomsky 2004:  199).

Höfundar fara mikinn og lofsyngja bandaríska utanríkispóltík með sama ákafa og Chomsky fordæmir hana. Það er alla vega nóg af tilvísunum í heimildir í skrifum fræðilegra álitsgjafa til hægri, vinstri og í miðið.

Í bókinni The Empire vitnar hinn hægrisinnaði sagnfræðingur Niall Ferguson í allra handa  heimildir til að sanna þá staðhæfingu sína að Bretaveldi hafi fremur verið af hinu góða en hitt (Ferguson 2003).

Indverjinn Shashi Tharoor  vitnar í helling af heimildum til að sanna að Bretar hafi arðrænt og eyðilagt Indland (Tharoor 2017). Hvorum á að trúa?

C.J. Polychroniou,  sem tekur viðtalið við Chomsky í viðtalsbókinni Optimism over Despair,  segir að boðskapur hans sé ómótmælanlegur þar eð hann vitni í svo traustar heimildir (Chomsky og Poychroniou 2017: 1). Ó heilaga einfeldni!

Kórvillur Chomskys

Chomsky sagði 1977 að Rauðu khemarnir hefðu ekki framið þjóðarmorð (Chomsky og Herman 1977). Var það ómótmælanlega sönn staðhæfing,  byggð á traustum heilmildum? Þjóðarmorðið var afhjúpað af franska prestinum François Ponchaud eins fram kemur í bók hans Kambódía árið núll (Ponchaud 1978).

Nate nokkur Thayer segir að Chomsky þverskallist við að viðurkenna mistök sín, hann skuldi Kambódíumönnum afsökunarbeiðni (Thayer 2011).

Eins og nær má geta hella   höfundar Anti-Chomsky Reader úr skálum reiði sinnar yfir hann út af Kambódíuskrifunum  enda á hann ekkert annað skilið (Anti-Chomsky 2004: 16-28).

Chomsky segir  að Gorbasjov hafi verið lofað að NATÓ myndi ekki víkka út í austur (ekki nóg með það, útvíkkunin í austur hafi verið glæpur Clintons) (Chomsky og Polychroniou 2017: 16, einnig 36-37)(Chomsky 2016: 151).

Þetta er sannanlega röng staðhæfing, hafi Baker lofað Gorbasjov einhverju þá hefur hann lofað upp í ermina á sér. Hann hafði ekkert umboð til þess, slíkt umboð fæst bara ef öll aðildaríkin samþykkja það. Slík samþykkt um bann við útvíkkun NATÓs var ekki fyrir hendi og þar með ekkert umboð.

Chomsky talar eins og NATÓ sé tæki Kana og Evrópuríkin sitji og standi eins og þeir vilji. Af hverju gat þá Merkel komið í veg fyrir NATÓ aðild Úkraínu og Erdogan lengi hindrað aðild Svía?

Af hverju komast Erdogan og Orban upp með að neita að taka þátt í refsiaðgerðum gegn Rússum? Chomsky virðist ekki skilja það, hann segir að Clinton hafi stækkað NATÓ svo mikið að það hafi öðlast landamæri við Rússland (Chomsky 2016: 152).

En eins og sjá má er Bandaríkjaforseti ekki alvaldur í NATÓ þótt Chomsky og Pútín kunni að telja sér trú um það.

Meginvillur Chomsky varða annars vegar Kambódíu, hins vegar stækkun NATÓ og eðli þess þjóðþrifafélags (undirritaður kallar sig "NATÓ-krata").  Sen að sjálfssögðu er ekki hafið yfir gagnrýni. 

Chomsky og bandarísk utanríkisstefna 

Chomsky fordæmir að sjálfssögðu innrás Bandaríkjamannanna í Afganistan en nefnir ekki að hún leiddi til þess að staða kvenna batnaði mikið og lífskjör almennt bötnuðu.

Sameinuðu þjóðirnar hafa haldið því fram að 75% mannfalls í stríðinu hafi verið Talíban að kenna (heimild mín er frétt í BBC fyrir nokkrum árum).

Hann segir að nú fyrst séu ríki rómönsku Ameríku að losna undan ofurvaldi Kana (Chomsky og Polychroniou 2017: 80) En af hverju þjóðnýtti Mexikó-forseti amerísk olíufyrirtæki 1937 og leyfði Trotskí að setjast að í landinu í blóra við vilja Kana?

Peron var heldur ekki Könum vinsamlegur. Kannski áttu þeir þátt í að fella hann.

Chomsky  hamast gegn Marshallaðstoðinni á þeirri forsendu að hún hafi bara verið tæki hins illa ameríska heimsveldis. Kanar hafi gert sig seka um þá ósvinnu að gera veitingu aðstoðar háða því skilyrði að kommar fengu ekki að sitja í ríkisstjórnum.

Minnugur reynslu Tékka og Slóvaka  má segja að það hafi verið rétt af Könum að gera svo. Nefna má að Moskvukommar sátu í ríkisstjórn hins hernaðarlega mikilvæga Íslands 1944-7 og 1956-8 án þess að Bandaríkjamenn reyndu að hindra það. Voru hinir heimsvaldasinnuðu Kanar sofandi?

Chomsky nefnir ekki að Marshall-aðstoðin var Vestur-Evrópu mikil lyftistöng, einnig að hún var veitt m.a. af þeirri eigingjörnu ástæðu Kana að þeir vildu koma í veg fyrir samdrátt af því tagi sem varð vestanhafs eftir fyrri heimsstyrjöld. En aðstoðin þjónaði hagsmunum beggja aðila.

Hann halelújar um Kúbu Castros án þess að nefna þann mikla fjölda Kúbverja sem flúið hefur land (t.d. Chomsky 2015: 154-155). Í Svartbók kommúnismans segir (með réttu eða röngu) að Kúbukommar hafi stútað 30000 landa sinna (Courtois o.fl. 2009).

Ekki þýðir að segja að efnahagserfiðleikar þeirra stafi bara af hafnbanni Kana.  Rúmenía á dögum Ceausescus fékk stöðu jafna Vesturlöndum í viðskiptum við BNA, samt fór efnahagskerfið sömu leið og hið kúbverska.

Ekki eitt orð um þetta hjá Chomsky, ekki aukatekið  orð um það hvernig Sovét hélt Kúbu lengi gangandi með fjárhagsaðstoð. En það er  vissulega rétt hjá Chomsky að Kúba Castro hefur eitt og annað sér til afbötunar, t.d. gott heilbrigðiskerfi.

Samt má telja furðulegt að anarkistinn Chomsky skuli vera í því að bera blak af miðstýrðum kúgunarríkjum eins og Kúbu og Víetnam.

Hann segir að með utanríkisstefnu sinni grafi Kanar undan lýðræði hvarvetna. En komu þeir ekki á lýðræði í Þýskalandi, Japan og Írak? Af hverju þróuðust meint leppríki þeirra Tævan og Suður-Kórea í lýðræðisátt?

Skylt er að geta þess að Chomsky telur borgaralegt lýðræði ekki standa undir nafni enda vinstri-anarkisti (Chomsky og Polychroniou 2017: 25, 175-183).

Þótt margt ljótt megi segja um bandaríska utanríkisstefnu þá verður því vart móti mælt að þeir björguðu Suður-Kóreumönnum frá þeim ömurlegu örlögum að verða þrælar Kim-fjölskyldunnar í Pyongyang.

Einnig Bosníumúslimum og Kósovóalbönum frá serbneskum yfirgangi.

Og bjarga nú Úkraínumönnum frá þeirri skelfingu  að verða þrælar hins zarfasíska Moskvuvalds.

Væri lýðræði í Tævan núna ef Bandaríkjamenn hefðu ekki verndað landið gegn kínverskri ásælni? Án vopnasendinga frá Bandaríkjunum hefðu Sovétmenn tæpast sigrað innrásarher nasista (skv. Steinfeld 2022).

Heimildarfrömuðurinn mikli, Noam Chomsky, nefnir þetta ekki einu sinni í framhjáhlaupi.

Hins vegar er sannleikskjarni í gagnrýni hans á stuðning Bandaríkjamanna við valdarán í Íran 1953, Guatemala 1954, Indónesíu 1965 og Chíle 1973.

Og á  villimannlegan  stríðsrekstrar þeirra í Víetnam, refsiaðgerðirnar  gegn írökum og innrásina í land þeirra.

Samt fremur Chomsky þá meginvillu að alhæfa út frá þessum valdaráns-stuðningi, stríðsrekstri og öðru slíku  og hunsa aðrar staðreyndir um bandaríska utanríkispólitík. „Cherry-picking“ er hans líf og yndi.

Hann kennir Könum að sjálfsögðu um ISIS og fordæmir stríðið gegn hryðjuverkum (Chomsky og Polychroniou 2017: 18-24, 28-36). En athugar náttúrulega ekki að ráðist hefur verið inn í fjölda landa án þess að þar risi upp hreyfing eins og ISIS sem kom á þrælahaldi og trúarlegri ógnarstjórn.

Einhverjar rætur hlýtur þetta að hafa í menningu Miðausturlanda og vissum túlkunum á trúarbrögðum.

Chomsky gerir meira en að gefa í skyn að hin illa ameríska utanríkisstefna skilyrðist af hagsmunum auðvaldsins  (t.d. Chomsky 2016: 44-54).

En hvernig ber að skýra þá staðreynd að Bandaríkjamenn létu eiga sig að neyða Íraka til að einkavæða olíuiðnaðinn?

Amerísk fyrirtæki fengu vissulega rétt til að vinna olíu en gáfust flest hver upp á því vegna innanlandsástandsins (sem  var innrásinni að miklu leyti að kenna). Kínversk og rússnesk fyrirtæki fylltu í skarðið.

Reyndar segir Chomsky að Bush hafi ætlað Bandaríkjunum yfirráð yfir írösku olíunni en gefist upp á því vegna andstöðu Íraka (Chomsky 2016: 46).

Vandinn er sá að Chomsky virðist ekki skilja að Bandaríkjamenn hefðu brotið þá andstöðu á bak aftur ef sókn í olíu hefði verið aðalástæðan fyrir innrásinni. Þeir höfðu afl til þess arna.

Áður hefur komið fram að Kanar lyftu ekki litlafingri þegar Mexíkóar þjóðnýttu ameríska olíufyrirtæki. Hið alþjóðlega auðvald sætti sig líka við að Gaddafí þjóðnýtti olíuiðnaðinn sem ég held að hafa aðallega verið í höndum Breta.

Skylt er að geta þess sá ólíuiðnaður var ekki mjög þýðingarmikill. 

Hefðu olíuhagsmunir stjórnað utanríkisstefnu Bandaríkjann þá hefðu þeir stutt Araba gegn Ísrael. Ef landið hefði þau hreðjartök á Miðausturlöndum,  sem Chomsky telur það hafa, hefði olíubann Arabaríkjanna árið 1973 aldrei átt sér stað.

Ef heimsvaldasinnar og auðkýfingar réðu Bandaríkjunum algerlega og þar með þeirra utanríkisstefnu má spyrja hvers vegna Church komst upp með að vængstýfa CIA. Var auðvaldið í orlofi?

Chomsky virðist telja að Kanar séu arðræningjar í stríði fátækar þjóðir (skv. Anti-Chomsky 2004:  185)(Chomsky 2016: 153). Hvernig stendur þá á því að meint leppríki BNA Tævan og Suður-Kóreu eru ekki lengur vanþróuð heldur með ríkustu þjóðum? Af hverju er Katar ríkasta land heimsins?

Væri kenning Chomskys sönn  þá væru þessar þjóðir á heljarþröm.

Þýðir þetta að ég útiloki að efnahagshagsmunir geti haft áhrif á bandaríska utanríkisstefnu?

Nei, kannski ýtti  United Fruit Company undir valdaránsmenn  í Guatemala en bandarískir ráðamenn áttu þátt í því.

Kannski skiptu tengsl Dick Cheneys við Halliburton máli þegar Bandaríkjamenn réðust inn í Írak.

En af þessu má ekki draga þá ályktun að slíkir hagsmunir skipti jafnan máli þegar Bandaríkjamenn marka utanríkisstefnu. Ég held að efnahagsmunir séu fremur víkjandi en ríkjandi við þá stefnumörkun. 

Bandarískt samfélag 

Chomsky segir að í BNA sé fákeppni (e. oligopoly) (Chomsky og Polychroniou 2017: 81).  En honum láist að nefna að risafyrirtækin í Kísildal urðu til úr engu, skákuðu hressilega IBM sem hafði 50-80% markaðshlutdeild í tölvuiðnaðnum.

Reyndar er fyllsta ástæða til að vara við ofurveldi Kísildals og fákeppni í netbransanum, ég fæ ekki séð Chomsky geri það.

Kenning Chomskys um skapaðar sættir (e. manufactured consensus) er  ekki sannfærandi í ljósi hinna miklu flokkadrátta vestanhafs.  Hann telur að fjölmiðlar skapi þessar sættir enda sé þeim stjórnað af auðvaldinu.

En hvernig ætlar hann að skýra þá staðreynd að CNN og Fox News eru vart sammála um neitt? Vissi maður ekki betur gæti maður haldið að blaðamennirnir á þessum sjónvarpsstöðum lifðu í ólíkum heimum.

Bæta má við að Chomsky vitnar innfjálgur í skoðanakannanir í Araabaríkjum sem sýna andúð íbúanna á BNA og það án þess að spyrja hvort þær sættir séu skapaðar (e. manufactured)(Chomsky 2016). Án þess að spyrja hvort mikið sé að marka skoðanakannanir í einræðisríkjum.

Í Anti-Chomsky Reader segir að stóru  fjölmiðlafyrirtækin séu í eigu fjölda hlutabréfaeigenda, tæpast geti þeir allir verið millar (Anti-Chomsky 2004: 67-86).   

Hér mættu þessir gagnrýnendur íhuga hvort allur þessi fjöldi smá-hlutabréfaeiganda hafi mikið að segja, vel má vera að lítill hópur atvinnufjárfesta og forstjóra ráði mestu. Alla vega gagnrýnir Anti-Chomsky Reader þá kenningu hans að skemmtanaiðnaðurinn vestanhafs sé hliðhollur atvinnurekendum.

Einhver rannsókn sýni að yfirleitt sé viðskiptamönnum lýst með neikvæðum hætti í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum,  það sé þrisvar sinnum líklegra að þeir séu glæpamenn en venjulegt fólk (Anti-Chomsky 2004:  75).

Vandinn er sá að urmull er af rannsóknum um mannlegt atferli sem benda í mismunandi áttir, sjálfsagt má finna einhverja rannsókn sem bendir í öfuga átt.

Nýlega horfði ég á Simpsonþátt þar sem hæðst var að góðgerðarstarfsemi vestanhafs, henni lýst sem dulbúnu gróðabralli.

Í lok þáttarins segir hr. Burns að kominn sé tími til að skatta auðkýfinga almennilega og nota féð til að efla velferðarkerfið. Er þetta liður í sköpun hægrisátta?

Chuck Norris kann að hafa lagt henni lið. Í glæpaþáttum, sem hann "lék" í, notaði hann tækifærið til að boða trumpskar skoðanir löngu fyrir Trump.

Sýnir þetta ekki bara að allra handa viðhorf eru boðuð í bandarískri afþreyingu, kannski aðallega ekki-viðhorf?

Hvað sem því líður virðist kenning Chomskys undarleg í ljósi vinsælda hans eigin skrifa. Samkvæmt Anti-Chomsky Reader þá heldur aðalpersónan í Hollywoodmyndinni Good Will Hunting ræðu þar sem vitnar er grimmt í Chomsky.

Þess utan lesi rokksveitirnar Pearl Jam og Rage Against the Machine  les upp úr ritum hans á tónleikum (Anti-Chomsky 2004: vii-viii).

Ósköp er auðvaldið slappt að geta ekki komið í veg fyrir að bækur Chomskys komi út og verði vinsælar! Að gamni slepptu þá er  kenningin um skapaðar sættir  illa samþýðanleg kenningum hans um að maðurinn hafi frjálsan vilja.

Ekki sé hægt skýra þá staðreynd að menn geti búið til nýjar setningar,  sem ekki hafi orðið til áður, nema þeim sé gefin sköpunargáfa og viljafrelsi (sjá t.d. Chomsky 1973).

Tæpast er auðvelt að manípúlera viljafrjálsar verur, nánar um það hér að neðan.

Kosningar og auðvald

Hann segir annars vegar að úrslit bandaríska kosninga ráðist að miklu leyti af fjáraustri í frambjóðendur (t.d. Chomsky og Polychroiniou 2017: 6-7)(Chomsky 2016: 52).  

Hins vegar viðurkennir hann að auður sé alls ekki alltaf ávísun á pólitískan sigur, t.d. hafi Jeb Bush haft gífurlegt fjármagn til umráða. Samt beið hann háðulegan ósigur í forkosnningum (Chomsky og Polychroniou 2017:  107).

Polychroinou segir á sömu síðu  að margt bendi til að  Trump hafi notað minna fé í kosningabaráttu en keppinautar hans.

Samkvæmt frétt í Newsweek kemur 82% af því fé sem Trump hefur fengið í kosningabaráttusjóð sinn nú frá aðilum sem borgað hafa minna en 200 dollara í sjóðin. 

Við má bæta að  nýlega kom í ljós að á öðrum ársfjórðungi þessa árs kom 91% af fjárframlögum í kosningasjóð Bidens frá aðilum sem greiddu minna en 200 dollara í sjóðinn.

Ætla má að þessir aðilar séu einstaklingar án mikils fjármagns, jafnvel hreinlega fátækt fólk.

Þetta bendir gegn því að kosningar séu keyptar þótt auður skipti vafalaust töluverðu  máli. 

Newsweek segir í áðurnefndri frétt  að 71% af fénu í kosningasjóði Ron de Santis sé ættað frá aðilum sem borgi meira en 2000 dollara hver.

Kannski fá Trump og Biden meira fé frá auðmagninu en uppgefið er. En sönnunarbyrðin hvílir á þeim sem því trúa. 

Skylt er að geta þess að fræðimennirnir Martin Gilens og Benjamin Page komast að annarri niðurstöðu en þeir hafa gert skipulega úttekt á framlagi til kosninga.

Niðurstaða þeirra er að yfirgnæfandi meirihluti þess fjár sem fellur í skaut frambjóðanda  komi fram fokríkum aðilum. Vægi þess hafi aukist mjög mikið á síðustu áratugum. 

Samt viðurkenna þeir eins og Chomsky að auðurinn sé ekki orðinn alvaldur, Hilary hafi tapað fyrir Trump þótt hún hefði meira fé milli handanna.

Og Bernie Sanders hafi næstum orðið forsetaframbjóðandi Demókrata þótt hann þægi ekki fé frá ríkisbubbum og stórfyrirtækjum.

Gilens og Page telja að orsakir hins aukna valds auðsins sé að leita í aukinni misdrefingu fjár, því að kosningabarátta hafi orðið æ dýrari og dómsuppkvæðningu Hæstarétts sem leyfði ótakmarkaðan fjáraustur í pólitíkusa (Gilens og Page 2017).

Athugið að fréttir í Newsweek eru ekki ritrýndar, skrif Gilens og Page eru það.

Samt er það  konkreta við kosningar  hvernig atkvæði falla, það er síður konkret hvers vegna menn greiða atkvæði með þessum eða hinum hætti.

Það er engan veginn örugglega satt  að menn séu manipúleraðir af auglýsingum, mörg dæmi um auglýsingaherferðir sem mistókust, t.d. ein dýrasta auglýsingaherferð í sögu BNA fyrir Edsel bíl Fords, fyrirtækið fór næstum á hausinn vegna þess hve illa bíllinn seldist.

En athuga ber að tilvist misheppnaðra manipúlasjóna útilokar ekki tilvist velheppnaðra manipúlasjóna, Kannski má finna dæmi um slíkt í pólitískri sögu Bandaríkjanna.

Einhverjar rannsóknir sýna að rússnesku tröllafyrirtækin höfðu ekki teljandi áhrif á kosningarnar 2016, aðaláhrifin hafi verið að tröllastarf Rússanna styrkti þá þegar sannfærðu í trúnni á Trump.

Á móti kemur að ýmsar rannsóknir, sem Chomsky nefnir,  benda til fylgni milli fjárausturs í kosningunum og úrslitum (Chomsky og Polychroniou 2017: 88). 

Gegn því má benda á að  sumir segja að ekki sé byrjað að dæla fé í frambjóðendur fyrr en þeim er tekið að ganga vel í skoðanakönnunum og forkjörum, menn veðja á vinsæla hestinn.

Gilens og Page er á öndverðum meiði, þeir segja að þess séu mörg dæmi að fjársterkir aðilar hafi dælt fé í "tapara" sem töluðu máli þeirra.

Alla vega er tæpast tilviljun að mikið er rætt um aukið vald aursins (í báðum merkingum orðsins!) í bandarískum kosningum.

Trump sagðist vera eini frambjóðandinn sem ekki yrði að þiggja fé frá aðilum sem síðan gætu haft óviðurkvæmileg áhrif á forseta.

Sennilega eru menn stundum manipúleraðir, helst þó  í einræðisríkjum, Hitler og Pútín voru/eru  drjúgir manipúlatorar.

En vandinn er ávallt sá að sá sem heldur því fram að altæk manipúlasjon (t.d. manufactured consensus) eigi sér stað verður að geta sýnt fram á að hann sjálfur sé ekki manipúleraður. Kannski Chomsky sé manipúleraður af óþekktum öflum X.

Abraham Lincoln hitti naglann á höfuðið er hann sagði „you can fool some of the people all of the time, all of the people some of the time but not all of the people all of the time.“

Gervigreind framtíðarinnar gæti manipúlerað okkur með hætti sem gerði samfélagið í Brave New World að byrjanda í faginu.

Ekki er gefið að þeir sem fjármagna kosningar fái hreðjartök á forseta, mér vitanlega eru ekki til neinar sannanir fyrir því.

Þeir reyna sjálfsagt (oft með góðum árangri) að afla sér velvildar og áhrifa með fjármögnun en  velvild og áhrif eru ekki það sama og völd, þótt mikil  áhrif hljóti að vera ávísun á völd.

En talsverður fjöldi aðila fjármagnar sérhvern frambjóðandi, forseti kann að geta teflt þeim gegn hver öðrum. Forsetar eru valdsæknir menn og því ólíklegt að þeir leggist flatir fyrir peningamönnum. 

Þess utan er ekki tilviljun að frambjóðendur rembast við að fá venjulegt fólk til að láta af hendi rakna, verða þeir ekki að taka tillit til þess fólks?

Og þarf forseti á síðara kjörtímabili að þjóna hagsmunum þeirra sem lögðu fé í sjóðinn? Hvernig ætlar auðvaldið að sjá til þess að hann lúti þeim?

En það er tæpast tilviljun að Bandaríkjamenn tala mikið um óviðurkvæmileg áhrif þessara aðila á stjórnmálamenn. 

 Alla vega var stigið óheillaskref þegar Hæstiréttur BNA felldi þann dóm að ekki mætti takmarka fjáraustur manna og fyrirtækja í frambjóðendur enda væri slíkt skerðing á einstaklingsfrelsi.

Vandinn er sá að það að leyfa slíkan fjáraustur án takmarkanna getur bitnað á einstaklingsfrelsi frambjóðenda og kjósenda.

Sannleikskjarninn í boðskap Chomskys

Chomsky er miklu betri þegar hann segir um BNA að það sé við það að verða hreinræktað plútókratí, samt sé umtalsvert einstaklingsfrelsi í landinu (Chomsky og Polychroniou 2017: 109, 116-118).

Þetta tel ég hárrétt. Það er líka rétt hjá honum að misskipting auðs hefur aukist verulega mikið vestanhafs og raunlaun lítið hækkað, m.a. vegna þess að hægriöflin hafa vængstýft verkalýðshreyfinguna (Chomsky 2016: 75) (en þetta hafa aðrir rætt með engu lakara móti en Chomsky, t.d. Krugman 2007).

Þess utan er heilmikið til í þeirri staðhæfingu að auðmenn og stórfyrirtæki hafi of mikil áhrif á bandaríska pólitík. Og ekki er bandarísk utanríkisstefna hafin yfir gagnrýni þótt Chomsky gangi of langt í að fordæma hana.

Chomsky er ágætur líka þegar hann gagnrýnir bandaríska heilbrigðiskerfið en Krugman hefur gert það miklu betur (Chomsky og Polychroniou 2017: 159-166)(Krugman 2007: 214-243).

Chomsky segir líka með talsverðum rétti að stórfyrirtæki vestanhafs séu í reynd mjög háð ríkisvaldinu, gróðinn sé einkavæddur, tapið ríkisvætt (Chomsky og Polychroniou 2017: 67)(Chomsky 2016: 53). Þetta þekkjum við Íslendingar alltof vel.

Frjálshyggjumenn (t.d. Misesstofnunarmenn) munu hafa gagnrýnt þetta ríkishæði fyrirtækjanna en telja  að lausn vandans sé að ríki og markaður verði algerlega aðskilinn. Ég  efast um það sé hægt enda sammála Chomsky um að markaðurinn viti ekki alltaf best (Chomsky 2016: 56).

Lokaorð

Það er heilmikið til í því að Chomsky sé slæmur með að velja þær heimildir sem honum hæfa og hunsa aðrar. Og túlka með sínum hætti, oft notar hann heimildir eins og nagla í naglasúpu.

Alla vega er hann engan veginn meiri heimildarfrömuður en aðrir álitsgjafar, að höfundum Anti-Chomsky Reader meðtöldum.

Þó verður því ekki neitað að Chomsky á sín góðu augnablik sem álitsgjafi eins og reyndar sést af sumu sem hér hefur verið sagt um hann.

Chomsky er fínn þegar hann talar um tungumál og heimspeki. Kannski á hann að halda sig það, hann er ekki besti vinstri-álitsgjafi vestanhafs, öðru nær.

Hann slær næstum aldrei varnagla heldur staðhæfir og staðhæfir. Með fúkyrðaflaumi sínum og dólgamarxísku slagorðaglamri gæti hann afkristnað heilt sólkerfi.

Heimildir:

Chomsky, Noam 1969: American Power and the New Mandarins. New York: Pantheon Books.

Chomsky, Noam 1973: Mál og mannshugur (þýð. Halldór Halldórsson).  Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag. 

Chomsky, Noam og Herman, Edward S. 1977: “Distortions at Fourth Hand“. The Nation, 6 júní https://chomsky.info/19770625/

Chomsky, Noam 2016: Who Rules the World? New York: Metropolitan Books.

Chomsky, Noam og Polychroniou, C.J. 2017: Optimism over Despair. On Capitalism, Empire, and Social Change. Chicago, Ill: Haymarket Books.

Collier, Peter og Horowitz, David (ritstj.) 2004: The Anti-Chomsky Reader. San Franscisco: Encounter Books (þar eð margir höfundar skrifa mismunandi greinar en allar í sama anda verður til hægðarauka vísað til bókarinnar sem Anti-Chomsky).

Courtois, Stéphane o.fl. 2009. Svartbók kommúnismans (þýðandi Hannes H. Gissurarson). Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Ferguson, Niall 2003: Empire. How Britain Made the Modern World. Harmondsworth: Penguin.

Fulbright, William  1967: The Arrogance of Power. New York: Random House.

Gilens, Martin og Page, Benjamin I 2017: Democracy in America? What went wrong and what can we do about it? Chicago og London: The University of Chicago Press. 

Krugman, Paul   2007: The Conscience of a Liberal. London og New York: W.W. Norton & Co.

Ponchaud, François 1978: Cambodia, Year Zero (þýdd úr frönsku). New York: Holt, Rhinehart and Winston.

Steinfeld, Hans-Wilhelm 2022:  Russland kriger. Stamsund: Orkana.

Thayer, Nate 2011: “Khmer Rouge Apologist Noam Chomsky: Unrepentant“ https://natethayer.typepad.com/blog/2011/11/khmer-rouge-apologist-noam-chomsky-unrepentant-.html

Tharoor, Shashi   2017: Inglorious Empire.What the British did to India. Harmondsworth: Penguin.

Þjóðnýting Gaddafís https://countrystudies.us/libya/31.htm


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband