29.7.2023 | 10:39
Hannes um Hayek
Hannes Gissurarson varð sjötugur á dögunum og óska ég honum til hamingju, ég fylgi í humátt á eftir, næ sama áfanga í október.
Við Hannes höfum oft deilt á síðustu áratugum en einatt í góðu. Ég játa að ég hef lært ýmislegt af honum, þegar hann tók að boða markaðsstefnu vissi ég vart hvað markaðskerfi var.
Gallinn er sá að Hannes og frjálshyggjumenn ganga of langt í markaðstrú, þeir hafa þess utan hneigð til persónudýrkunar og bókstafstrúar eins og marxistar.
Þessar veilur koma fram í bók Hannesar Twenty-Four Conservative Liberal Thinkers, ekki síst í umfjölluninni um nóbelshagfræðinginn Friedrich August von Hayek (Hannes 2020: 99-185).
Hannes dylur ekki aðdáun sína á manninum Hayek og virðist ekki hafa neitt út á kenningar hans að setja.
Hayek er kannski frægastur fyrir að þróa áfram kenningu Ludwigs von Mises um að áætlunarbúskapur gæti ekki verið efnahagslega hagkvæmur og væri leiðin til ánauðar.
Skal þessi kenning gaumgæfð og gagnrýnd hér. Hún er ekki eins heilög og Hannes telur þótt viss sannleikskjarni sé í henni.
Hin meinta eymd áætlunarkerfisins
Altækt áætlunarkerfi geti ekki virkað þegar til lengdar lætur, sögðu þeir Mises og Hayek.
Mises hélt því fram að áætlunarkerfið gæti ekki haft neinn mælikvarða fyrir skynsamlegri tilhögun framleiðslu, ráðamenn yrðu að renna blint í sjóinn.
Gagnstætt því virkaði verðkerfið sem upplýsingarmiðill í markaðskerfi, mikil verðlækkun getur t.d. verið merki um offramboð á tiltekinni vöru.
Áætlunarkerfið hafi ekki upp á bjóða neinn viðlíka upplýsingamiðil, ráðamenn þess lags kerfis yrðu að renna blint í sjóinn með efnahagslegar ákvarðanir (Mises 1922: 118-123).
Í markaðskerfi sé verðmyndun eins og mælitækin sem skipstjóri notar til að stýra skipi sínu. Áætlunarkerfið sé eins og skip án mælitækja, skip sem hlýtur að reka stjórnlaust.
Forsenda þess að áætlunarkerfið virki er að þeir sem gera áætlanirnar séu alvitrir, hafi fullkomna yfirsýn yfir alla þætti hagkerfisins.
En enginn er alvitur, þess vegna muni áætlanakerfið eiga við mikinn upplýsingavanda að stríða (t.d. Ólafur 1978: 79-90 og víðar).
Hayek og Harold Robbins bættu við boðskap Mises því að áætlunargerðarmenn yrðu að leysa milljónir af stærðfræðijöfnum til að geta gert áætlun sem virkar en það sé ekki mögulegt (þetta var skrifað fyrir daga tölvunnar) (Hayek 1940: 127-128).
Þeir töluðu um reiknivanda (e. problem of calculation) áætlunarkerfisins. En atferli markaðsgerenda á frjálsum markaði komi fyllilega í staðinn fyrir útreikningana (samkvæmt t.d. Hannesi 1988: 59-67 og Mason 2015: 226).
Gagnstætt þessu muni áætlunarkerfið eiga mjög erfitt með að safna efnahagslegum upplýsingum.
Hayek bætti við að ekki væri hægt að smætta alla hagræna þekkingu í vísindaþekkingu sem nýst gæti áætlunargerð.
Vísindaleg þekking sé þekking á almennum lögmálum en drjúgur hluti hagþekkingar sé þekking á einstökum staðreyndum.
Nánast allir gerendur í hagkerfinu búi yfir þekkingu af því tagi, þekking sem þeir einir búa yfir. Hagræn breytni þeirra grundvallist að miklu leyti á slíkri þekkingu á því einstaka sem einstaklingurinn einn búi yfir.
Verðkerfið sjái til þess að samræma gjörðir þeirra, það án þess að neinn einn aðili búi yfir allri þessari þekkingu (Hayek 1945: 519-530).
Alla vega eru til mýmörg dæmi um að altækur áætlunarbúskapur sé ekki efnahagslega hagkvæmur.
Sovéski áætlunarbúskapurinn var kannski ekki alveg altækur en alla vega mjög umfangsmikill. Sovétríkin lögðu allt kapp á að nota Aralvatnið til að vökva bómullarekrur í hinni sovésku Miðasíu, þetta voru stórfelldar framkvæmdir.
En hinar ófyrirséðu afleiðingar voru að vatnið þurrkaðist nánast upp með skelfilegum afleiðingum fyrir fólkið sem bjó við strendur þess (The History of the Aral Sea).
Frjálshyggjumenn bæta við að erfitt sé að sjá hvernig hið altæka áætlunarkerfi geti verið lýðræðislegt og boðið upp á valddreifingu.
Ekki sé hægt að framkvæma áætlunina nema öllu samfélaginu verði gert að fylgja henni út í ystu æsar, slíkt er ekki samrýmanlegt valddreifingu. Í ofan á lag verði áætlunarráðið að geta gefið fyrirskipanir um hvað framleiða skyldi.
Lýðræðisleg ákvarðanataka yrði mjög þunglamaleg í slíku kerfi, hugsanlega gæti hún leitt til algers öngþveitis.
Af tveimur slæmum kostum hæfi einræði áætlunarkerfinu skár en lýðræði.
Skárra sé að hafa altækt áætlunarkerfi en blöndu af áætlunar- og markaðskerfi. Í nútíma samfélagi séu allar gerðir efnahagsstarfsemi samofnar, þannig að áætlunargerð myndi varla virka ef áætlunarkerfið væri ekki altækt.
Ekki nóg með það, lýðræðislegur meirihluti í kerfi án einkaeignaréttar gæti kúgað minnihlutann allhressilega (sjá t.d. Hayek 1976 og Ólaf 1978: 144-145).
Eins og Lev Trotskí sagði þá getur samfélag, þar sem ríkið er eini vinnuveitandinn, einfaldlega svelt stjórnarandstöðuna í hel. Enda svelti Stalín úkraínska bændur í hel í milljónatali.
Ástæðan fyrir þessum hremmingum áætlunarbúskaparins sé sú að markaðskerfi og einkaeignaréttur séu nauðsynlegar forsendur frelsisréttinda (e. liberties) og lýðræðis, segja frjálshyggjumenn (t.d. Ólafur 1978: 93 og víðar).
Að hyggju frjálshyggjumanna flokkast tjáninga-, félags- , athafna- og búsetufrelsi undir frelsisréttindi og frelsi skilgreina þeir sem fjarveru tálmana, það að enginn hindri menn í að breyta með hætti sem ekki skaði aðra.
Þeir leggja áherslu á að markaðskerfi og einkaeignaréttur séu nauðsynlegar en ekki líka nægjanlegar, forsendur frelsisréttinda og lýðræðis. Það þýðir að markaðssamfélag kann að lúta einræðisstjórn sem takmarkar sum frelsisréttindi.
Veilur kenningarinnar
Hér er margs að gæta: Spyrja má hvort tölvukerfi nútímans geti ekki leyst milljónjöfnuvanda áætlunarkerfisins, þau fara létt með að leysa milljón jöfnur á örskömmum tíma.
Auk þess er kenningin um að frjáls markaður og einkaeignaréttur sé forsenda frelsis og lýðræðis ónæm fyrir afsönnunum, óhrekjanleg.
Ástæðan er sú að þótt það gerist hvað eftir annað í markaðssamfélögum að lýðræði og ýmis frelsisréttindi séu virt að vettugi þá má ævinlega bjarga kenningunni fyrir horn með því að benda á að tilvist markaðssamfélags sé bara nauðsynleg en ekki líka nægjanleg forsenda fyrir þessum réttindum.
Sé hrekjanleiki kennimark góðra kenninga þá er þessi kenning ekki ýkja góð. Frjálshyggjumenn geta huggað sig við þá staðreynd að vísindaheimspekingar deila um það.
Einnig má spyrja hvað átt sé við með nauðsynleg(t). Tæpast er um að ræða röklega nauðsyn því staðhæfingin markaðskerfi er forsenda frelsisréttinda og lýðræðis er ekki röklega sönn.
Henni er hægt að neita án þess að maður lendi í mótsögn við sjálfan sig. Gagnstætt því er mótsagnarkennt að neita því að piparsveinar séu ógiftir menn.
Piparsveinn merkir það sama og ógiftur maður, að segja rangt að piparsveinar séu ógiftir menn er jafngildi þess að segja ógiftir menn eru ekki ógiftir. Það er mótsagnarkennd staðhæfing.
Því má ljóst vera að staðhæfingin piparsveinar eru ógiftir menn er röknauðsynlega sönn. Hún merkir það sama og ógiftir menn eru ógiftir menn.
Segi ég markaðskerfi er ekki nauðsynleg forsenda frelsisréttinda og lýðræðis þá lendi ég ekki mótsögn við sjálfan mig. Ástæðan er sú að markaðskerfi merkir ekki það sama og nauðsynleg forsenda frelsisréttinda og lýðræðis.
Er þá staðhæfingin nauðsynlega sönn í krafti reynslu? Ósköp fátt, ef eitthvað, er nauðsynlega satt í krafti reynslu.
Það eru reynslusannindi að sólin bræðir vax en þau sannindi eru tæpast nauðsyn. Við getum hæglega gert okkur í hugarlund mögulegan heim þar sem sólin herðir vaxið.
Við getum líka ímyndað okkur mögulegan heim þar sem til er sósíalískt lýðræðislegt, altækt, áætlunarkerfi og borgarnir njóta allra frelsisréttinda.
Nauðsyn er það sem hlýtur að gilda í öllum mögulegum heimum en svo er ekki um þá meintu nauðsyn sem hér ræðir. Því er ekki hægt að sjá að markaðskerfi sé nauðsynleg forsenda frelsisréttinda og lýðræðis.
Staðhæfingin markaðskerfi er nauðsynleg forsenda frelsisréttinda og lýðræðis er raunhæfing rétt eins og staðhæfingin sólin bræðir vax (sjá svipuð rök hjá Þorsteini Gylfasyni 1998: 277-310).
Raunhæfingar eru fallvaltar, reynslan ein ræður hvort þær eru sannar eða ósannar og sannleikurinn liggur ekki á lausu.
Nú kann frjálshyggjumaðurinn að malda í móinn og segja að hingað til hefur reynslan bent til þess að staðhæfingin sólin bræðir vax sé sönn.
Hann gæti bætt við að reynslan bendir til þess að þyngdaraflið sé nauðsynleg forsenda þess að menn tolli á jörðinni. Hið sama gildi um markaðskerfið, án þess engin frelsisréttindi og ekkert lýðræði.
Vandinn er sá að frjálshyggju-staðhæfingin getur ekki skýrt hvers vegna Pólverjar gátu haldið frjálsar kosningar árið 1989 þótt ríkið ætti enn obbann af atvinnutækjunum. Ríkið átti enn um 80-90% efnahagskerfisins (um þessar kosningar, sjá Lipton og Sachs 1990: 293-341).
Telja verður tjáningarfrelsi meðal frelsisréttinda. Umbótastjórn Alexanders Dubcek í Tékkóslóvakíu kommúnismans ruddi öllum hindrunum úr vegi fyrir tjáningarfrelsi og skapaði opið samfélag þótt enginn væri markaðurinn og atvinnurekstur nánast algerlega í höndum hins opinbera (um umbætur Dubčeks sjá t.d. Sik 1969: 23-30 og Leif Reynison 2019: 65-79).
Ekki reyndist Gorbasjov heldur erfitt að stórauka tjáningarfrelsi í Sovét þótt ekki breyttist hagkerfið með róttækum hætti.
Auk heldur komu Bretar á eins konar sósíalisma á dögum síðari heimsstyrjaldar án þess að frelsisréttindi yrðu skert að ráði, einvörðungu að því marki sem nauðsynlegt var vegna styrjaldarinnar. Bretlandi hélt áfram að vera réttarríki (t.d. Wootton 1945: 35).
Einkafyrirtæki voru sveigð undir vald ríkisins sem skammtaði nauðsynjavöru.
Bandaríkjamenn gengu ekki alveg eins langt í átt til sósíalisma á stríðsárunum en samt ríkti ríkið yfir hagkerfinu (t.d. Krugman 2007: 51-53). Þrátt fyrir það fóru fram frjálsar kosningar í landinu, það hefði tæpast átt að geta gerst samkvæmt formúlum frjálshyggjunnar.
Barbara Wootton benti á að áætlunarbúskapur þyrfti ekki að vera altækur, gagnstætt því sem frjálshyggjumenn töldu.
Áætlunargerðarmenn geti látið sér nægja að gera rammaáætlanir fyrir hagkerfið. Slíkt áætlunarkerfi væri tæpast ógnvaldur við frelsisréttindi og lýðræði (Wootton 1945).
Skólabókardæmi um takmarkað áætlunarkerfi er kerfi þar sem notast er við bendiáætlanir (e. indicative planning). Valdhafarnir gefa ekki beinar fyrirskipanir um hvað framleiða skuli en gera vissa kosti meira aðlaðandi aðra, dekstra gerendur til að kjósa þá.
Tækin til þess arna er skattastefna, opinber stuðningur o.s.frv. Þessum bendiáætlunum hefur einungis verið beitt í samfélögum þar sem einkaeign og markaðskerfi hafa verið ríkjandi (t.d. Nielsen 2008).
Frakkar og Norðmenn gerðu bendiáætlanir í stórum stíl á fyrstu eftirstríðsárunum án þess að frelsisréttindi yrðu skert að ráði og án þess að lýðræðið færi fjandans til.
Auk þess sýndi þetta takmarkaða áætlanakerfi engin merki um að verða altækt (um norska áætlunarkerfið sjá Bergh 1993: 33-46).
Suður-Kóreumenn stunduðu takmarkaðan áætlunarbúskap frá 1962 til 1996 en gengu mun lengra en Frakkar og Norðmenn.
Til dæmis var smáfyrirtækjum skipað að sameinast og mynda risafyrirtæki þau sem chabol nefnast. Frægust þeirra eru Samsung og Hyundai (t.d. Heo, Jeon, H. Kom og O. Kim 2008). Einnig voru bankar þjóðnýttir (t.d. Harvey 2005: 107).
Samt hafði áætlunarkerfið ekki hneigð til að þenjast yfir allt efnahagskerfið. Og það kom ekki í veg fyrir sigur lýðræðisins austur þar á miðjum níunda áratugnum.
Í ofan á lag iðnvæddist Suður-Kórea hraðar en nokkuð annað land og komst á mettíma í hóp ríkustu þjóða heims.
Svipað gilti um Tævan, sem einnig hafði takmarkað áætlunarkerfi, en varð samt að fokríku lýðræðisríki.
Ekki er lýðræðinu fyrir að fara í Kína, þar hefur um nokkurt skeið verið takmarkaður áætlunarbúskapur sem svínvirkar efnahagslega, ekki hefur skort hagvöxt þar eystra.
En auðvitað gætu frjálshyggjumenn reynt að bjarga kenningu sinni fyrir horn með því að staðhæfa að þessum löndum hefði gengið enn betur hefðu þau ekki burðast með áætlunarkerfi.
Alla vega kæmi mér ekki á óvart þótt takmarkaður áætlunarbúskapur ætti best við í vanþróuðum ríkjum. Hann kann að vera gott tæki til þróunar, þó má ekki gleyma að Hong Kong fór leið markaðsfrelsis með góðum árangri.
Þrautalending frjálshyggjumanna kann að vera sú að segja að áætlanakerfið og ríkiseinokun atvinnutækja hafi valdið alræðisþróun kommúnistaríkjanna.
En það er engan veginn ljóst. Í þessum ríkjum tók flokkurinn sér fyrst alræðisvald, þjóðnýtti svo fyrirtækin og kom að því loknu á áætlanakerfi. Sovéski kommúnistaflokkurinn var orðinn alráða að kalla um 1920 en áætlunarbúskapur var ekki hafinn fyrr en árið 1928 (samkvæmt t.d. Deutscher 1966: 320).
Engin tilraun var gerð til að lýðræðisvæða hann, fremur hið gagnstæða. Staðreyndin er sú að það hefur aldrei verið gerð alvarleg tilraun til að koma á lýðræðislegu, altæku áætlunarkerfi.
Við getum því ekki verið viss um að tilraunin sé dæmd til að misheppnast.
Lokaorð
Frjálshyggjukenningin um að takmarkaður áætlunarbúskapur ógni frelsisréttindum, lýðræði og markaðskerfi er því röng eftir öllum sólarmerkjum að dæma.
Þess utan virðist hann getað virkað ágætlega, alla vega undir vissum kringumstæðum.
Altækur áætlunarbúskapur er samþýðanlegur lýðræði og vissum frelsisréttindum, alla vega á stuttum tímabilum. Um hvort hann er það þegar til lengdar lætur skal ekki dæmt.
En hann getur nánast örugglega ekki verið efnahagslega skilvirkur.
Alla vega er engin ástæða til að taka áhættuna á að innleiða slíkt kerfi.
Ekki skal heldur útilokað að einhvers konar markaðskerfi og kerfi einkaeignaréttar sé betri trygging fyrir frelsi og lýðræði en báðar útgáfurnar af áætlunarbúskap.
Slíkt kerfi (að blönduðum markaðsbúskap meðtöldum) er örugglega skilvirkara en altækur áætlunarbúskapur og hugsanlega skilvirkara en takmarkaður áætlunarbúskapur.
Hvað sem því líður verður ekki séð að áætlunarbúskapur hljóti að vera leiðin til alræðis og skýringin á kúgun í nafni kommúnismans.
Það verður heldur ekki séð að takmarkaður áætlunarbúskapur hljóti að þenjast út og vera leiðin til fátæktar.
Reynsla Austur-Asíuríkjanna bendir til annars.
Hvort sem Hannesi og Hayek líkar það betur eða verra.
Heimildir
Bergh, Trond 1993: Arbeiderpartiet og statens styrende hand, Trond Nordby (ritstjóri): Arbeiderpartiet og planstyret 1945-1965. Oslo: Universitetsforlaget, bls. 3346.
Deutscher, Isaac 1966: Stalin. A Political Biography. Harmondsworth: Penguin.
Hannes H. Gissurarson 1988: Markaðsöfl og miðstýring. Reykjavík: Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar.
Hannes H. Gissurarson 2020: Twenty-Four Conservative Liberal Thinkers. Brussel: New Directions.
Harvey, David 2005: A Brief History of Neoliberalism. Oxford: Oxford University Press.
Hayek, Friedrich August 1940: Socialist Calculation: The Competitive Solution, Economica New Series Vol 7, No. 26, maí. bls. 125149.
Hayek, Friedrich August 1945: The Use of Knowledge in Society, American Economic Review, XXXV, No. 4, september, s. 519530.
Hayek, Friedrich August 1976: The Road to Serfdom. London: Routledge & Kegan Paul.
Heo, Uk; Jeon, Houngcheul; Kim, Hayam; Kim, Okijin 2008: The Political Economy of South Korea Economic Growth, Democratization, and Financial Crisis. Maryland Series in Contemporary Asian Studies, Vol. 2008: No 2, Article 1.
Koenen, Gerd 2018: Kein Plan, Frank Werner (ritstj.): Marx und die Geburt des modernen Kapitalismus. Hamburg: ZEITGeschichte, bls. 5455.
Krugman, Paul 2007: The Conscience of a Liberal. London og New York: W.W. Norton & Co.
Leifur Reynisson 2019: Vorið í Prag, Tímarit máls og menningar, 1 hefti, bls. 6579.
Lipton, David og Sachs, Jeffrey 1990: Privatization in Eastern Europe: The Case of Poland, Brookings Papers on Economic Activity, 2, s. 293341, http://www.brookings.edu/about/projects/bpea/editions/~/media/Projects/BPEA/1990%202/1990b_bpea_lipton_sachs_summers.PDF. Síðast halað niður 1/10 2015.
Mason, Paul 2015: Post-Capitalism: A Guide to Our Future. New York: Farrar, Straus og Giroux.
Mises, Ludwig von 1922: Die Gemeinwirtschaft. Untersuchungen über den Sozialismus. Jena: Verlag von Gustav Fischer. www.mises.de. Síðast halað niður 8/10 2011.
Nielsen, Klaus 2008: Indicative Planning, The New Palgrave Dictionary of Economics. Second Edition. http://www.dictionaryofeconomics.com/article?id=pde2008_I000060. Síðast halað niður 13/8 2015.
Ólafur Björnsson 1978: Frjálshyggja og alræðishyggja. Reykjavík: AB.
Sik, Ota 1969: Plan og marked. Markedsmekanismen i en sosialistisk planøkonomi. Þýð. Per Nestor. Oslo: Aschehoug.
Wootton, Barbara 1945: Freedom under Planning. Chapel Hill: University of North Carolina Press.
Þorsteinn Gylfason 1998: Réttlæti og ranglæti. Reykjavík: Heimskringla.
The History of the Aral Sea, http://orexca.com/aral_sea.shtml. Sótt 4/11 2011.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 30.7.2023 kl. 12:25 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.