19.10.2023 | 23:21
STJÓRNMÁL SKROKKSINS
Í mínu ungdæmi snerist hugmyndafræðileg umræða um kerfi, þá helst efnahagskerfi. En á þessari öld snýst ídeólógísk umræða í miklum mæli um líkamann.
Litarháttur líkamans er mikilvægari en framleiðsluhættirnir, kynferði hans skiptir meira mál en eignadreifing.
Þótt raunlaun standi í stað vestanhafs og millistéttin sé í hættu eru vinstrimenn þar aðallega í því að stunda meinta kynþáttavakningu.
Í stað þess að stofna verkalýðsfélög en Reagan tókst að stúta þeim með skelfilegum afleiðingum fyrir launþega.
Þeir fjargviðrast yfir meintri kynferðismismun í stað þess að beina sjónum sínum að tekjumismun.
Ekki eru hægrimenn skárri, þeir berjast eins og ljón gegn rétti kvenna til að ráða eigin skrokk. Auk heldur vilja þeir helst banna bækur þar sem talað er um aðrar kynhvatir og -samsemdir en þær sem til skamms tíma voru þær einu viðurkenndu.
Í stað þess að berjast fyrir markaðsfrelsi en slíkt frelsi er ekki án kosta þótt ofmetið sé í vissum kreðsum.
Nú kann einhver að segja að ég sé aðeins að tala um bandarísk stjórnmál, ástandið sé öðruvísi annars staðar á hnettinum.
Ekki mikið öðruvísi, alþjóðlegt aðdráttarafl Pútíns er ekki síst fólgið í herferð hans gegn samkynhneigðum skrokkum.
Og ISIS skveraði slíkum skrokkum út um glugga á háhýsum (Pútín lætur sér nægja að veita pólitískum andstæðingum þess lags meðferð).
Í Afganistan er mannverum með kvenlíkama meinuð skólaganga, ástandið í Íran og Sádí-Arabíu er litlu skárra. Um kjör samkynhneigðra í þessum löndum þarf vart að fjölyrða.
Svo vikið sé norður á bóginn þá snerust kosningarnar í Póllandi að verulegu leyti um líkamann, fóstureyðingar, samkynhneigð o.s.frv.
Ekki dettur mér í hug að neita því að skrokkurinn sé hápólitískt fyrirbæri og mikilvægt sé að stunda skynsamleg skrokksstjórnmál. En öllu má ofgera.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 20.10.2023 kl. 09:41 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.