6.2.2024 | 13:57
Sigmundur Ernir sem KANTA
Í mínu ungdæmi sungu menn Kanntu brauð að baka?. Ég syng annan söng, um það fólk sem ég kenni við KANTA, Krata Að Nafninu Til Aðeins.
Einn þeirra er hinn ágæti blaðamaður og skáld Sigmundur Ernir Rúnarsson sem eitt sinn sat á þingi fyrir Samfylkinguna.
En hann er ekki meiri jafnaðarmaður en svo að hann syngur ítrekað lofgerðaróð um Sjálfsstæðisflokk fortíðarinnar og vegsamar hinn ginnhelga frjálsa markað, nú síðast í DV pistli.
Flokkurinn hafi á árum áður barist gegn ríkisafskiptum, fyrir einstaklingsfrelsi og frjálsum viðskiptum.
En á síðari árum hafi hann snúist gegn hinni goðumlíku frjálshyggju, ó vei! Fyrir vikið hafi fylgi hans snarminnkað.
Flokkurinn
Að gamni slepptu þá er þessi mynd Sigmundar Ernis af Sjálfsstæðisflokknum vægast sagt furðuleg.
Þorvaldur Gylfason dregur upp allólíka mynd, hann segir að á dögum Ólafs Thors hafi flokkurinn verið hafta- og skömmtunarmegin.
Hann hafi þá sem nú ýtt undir óæðri endann á stórútgerðinni, fyrir utan að njósna um samborgara sína.
Það er mikið til í þessu, þess utan er ósennilegt að flokkurinn hafi misst fylgi vegna þess að hann sé ekki lengur frjálshyggjunnar megin.
Þess utan er einfaldlega ósatt að Sjallar hafi lagt frjálshtyggjuna á hilluna. Því til sannindamerkis má nefna að Þórdís Kolbrún setti nýlega fram þá tillögu að einkavæða ÁTVR og Póstinn.
Og Áslaug vitnaði nýverið fjálglega í Reagan: Ríkið er ávallt vandinn, einkaframtakið lausnin.
Fátt bendir til þess að allur almenningur sé jafn frjálshyggjusinnaður og þær stöllur. Mig rámar í skoðanakönnun sem sýndi að yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga vildu ríkisrekið heilbrigðiskerfi.
Fylgishrun Sjálfsstæðisflokksins á sér aðrar rætur, í reiði almennings út af hruninu og óánægju með hrokafulla, auðvaldssinnaða flokksbrodda.
En Sigmundur hélt því fram í Fréttablaðsleiðara að almenningur vilji minni ríkisafskipti. Sú staðhæfing er ekki sennileg í ljósi þess sem segir hér um skoðanakannanir.
Sitthvað um Sviss
Er ég að halda því fram að velferðarkerfið sé heilagt?
Nei og aftur nei, fátt eitt er heilagt í þeim táradal sem mennirnir byggja.
Nefna má að Sviss hefur mjög takmarkað velferðarkerfi, samt verður enginn var við mikla ofurfátækt þar í landi. Ekki í samræmi við kratakreddur.
Bæta má við að þar í landi er mjög umfangsmikið lýðræði en samkvæmt formúlum frjálshyggjunnar á slíkt lýðræði að vera markaðsfrelsi skeinuhætt. Þrátt fyrir það er markaðsfrelsi óvíða meira en hjá þessari Alpaþjóð.
Samkvæmt kenningunni eiga flugur ekki að geta flogið, þær geta það samt.
Frjálshyggjan
Sjálfsstæðisflokkurinn var reyndar með hálfgildings frjálshyggjuafstöðu til almenningssamgangna.
Þegar hann réði Reykjavík var borgin skipulögð sem amerísk bílaborg löngu áður bílar urðu almenningseign.
Lítið var gert til að efla almenningssamgöngur með þeim afleiðingum að fólk átti ekki annarra kosta völ en að skaffa sér bíl.
Hvað viðskiptafrelsi varðar er það ekki alltaf hagkvæmt. Nóbelshagfræðingurinn Joseph Stiglitz og fleira stórmenni benda á að iðnvæðing sé illframkvæmanleg nema nýjabrum í iðnaði sé verndað með tollmúrum.
Þannig iðnvæddust Bandaríkin og Suður-Kórea bak við slíka múra. Kóreumenn stunduðu reyndar takmarkaðan áætlunarbúskap sem svínvirkaði, landið iðnvæddist hraðar en nokkuð annað land í sögunni.
Þökk sé áætlunarkerfinu risu risafyrirtæki eins og Samsung, margir Íslendingar njóta góðs af framleiðslu þess merka fyrirtækis.
Ríkis-afskipti eru því ekki alltaf neikvæð (en Suður-Kóreumenn höfðu vit á að hætta áætlunargerð þegar landið var orðið iðnvætt).
Samkvæmt formúlum frjálshyggjunnar er áætlunarkerfi leiðin til fátæktar og alræðis. En Suður-Kórea varð velllauðug og kom á lýðræðisskipan á meðan áætlunarkerfið var enn við lýði.
Formúlur markaðsdýrkenda reyndust rangar hvað Sigmundur Ernir athugi.
Þess utan verður frjálsum markaði vart á kopp komið.
Stiglitz bendir á að til þess að svo megi verða verði allir gerendur á markaði að hafa fullkomna yfirsýn yfir alla kosti, hafa hnífjafnt aðgengi að öllum upplýsingum o.s.frv.
Útilokað sé að slíkt og þvílíkt raungerist, hönd markaðarins sé ósýnileg af því að hún sé ekki til.
Bæta má við að Milton Friedman segir réttilega að markaðurinn virki ekki vel nema gerendur séu að jafnaði upplýstir og eigingjarnir.
Hann athugaði ekki að upplýstir og eigingjarnir gerendur hafa hag af að draga sem mest úr samkeppni og græða með því sem mest.
Bestu leiðirnar að því marki eru annars vegar leið kartella (samráðs/samsærisleiðin), hins vegar að beita ríkisvaldinu. Þannig getur markaðsfrelsið sálgað sjálfu sér.
Vart hefur slíka gerendur skort í Sjálfsstæðisflokknum, þeir hafa vafalítið notað áhrif sín til að fá X-D pólitíkusa til að takmarka samkeppni sér í vil, skapa velferðarkerfi fyrir fyrirtæki.
Um leið hefur flokkurinn ekki ofreynt sig á að efla velferðarkerfi fyrir almenning.
Sigmundur Ernir segir að nú sé hún Valhöll stekkur orðinn. Hún hefur löngum stekkur verið.
Lokaorð
Sigmundi Erni er margt vel gefið, hann er liðtækt skáld og upp á sitt besta góður pistlahöfundur.
En honum bregst bogalistin þegar hann skrifar í hinum ferkantaða KANTA-stíl sínum.
Markaðurinn hefur ýmsa kosti, Sjálfsstæðisflokkurinn kannski líka, en krötum ber ekki að lofprísa þá. Þeim ber bara að heiðra skálkinn.
P.S. Mest af því sem hér er skrifað um frjálshyggju er ættað úr bók minni Kredda í kreppu. Frjálshyggjan og móteitrið við henni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.2.2024 kl. 16:33 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.