6.9.2024 | 20:26
Engar áhyggjur, ég frá frjálshyggjufélaginu. Áslaugu Örnu svarað.
Ég geri ekki endasleppt við þingkonur fjórtán prósent flokksins, nú hyggst ég svara ádrepu Áslaugar Örnu Engar áhyggjur, ég er frá ríkinu.
Þar gagnrýnir hún þá sem hún telur hafa oftrú á getu hins opinbera til leysa vandamál. En svo virðist sem hún haldi að hinn ginnhelgi markaður og einkaframtakið alvæna séu fær um bjarga flestu. Skal nú sú skoðun gagnrýnd hér.
Frjáls markaður ekki framkvæmanlegur
Eitt er fyrir sig að meintum frjálsum markaði verður ekki á kopp komið, það er litlu auðveldar að framkvæma hann en hinn meinta frjálsa sósíalisma.
Nóbelshagfræðingurinn Joseph Stiglitz segir að það sé engin tilviljun að hönd markaðarins sé ósýnileg, hún sé nefnilega ekki til! Frjáls markaður hafi að forsendu að allir markaðsgerendur þekki alla mögulega kosti sem markaðurinn bjóði upp á, hafi fullkomna yfirsýn yfir hann. En slíkt sé ekki mögulegt í raunheimum, enginn er alvitur.
Auk þess hafi frjáls markaður að forsendu að allir markaðsgerendur hafi jafnmikla þekkingu, jafn góða yfirsýn yfir kosti. En svo sé ekki í hinum napra veruleika handan líkananna velhönnuðu. Þekking markaðsgerenda sé einatt ósamhverf (e. asymmetric), allir eru jafnir en sumir eru jafnari en aðrir þegar markaðsþekking er annars vegar.
Það er munur á Jónu og séra Jóni í markaðsprestakalli, hinir ríku og voldugu hafi meiri aðgang að markaðsþekkingu og eigi betri færi en almúginn. Þess vegna geti frjáls markaður ekki orðið til (Stiglitz 2000 og Stiglitz 2002: 73-74, 254).
Frá markaðsfrelsi til fákeppni
Í því sambandi má velta fyrir sér hvort frjáls markaðsviðskipti stuðli að samþjöppun auðs og fákeppni, grafi þannig undan sjálfum sér. Ýmislegt í þróun síðustu ára bendir til þess að svo sé.
Tökum Microsoft sem dæmi, fyrirtækið er svo gott sem heimseinokunaraðili á forritunarmarkaðnum, sú einokun var ekki sköpuð af ríkisvaldinu. Það kostar firnaháar fjárhæðir að búa til nýja útgáfu af Windows en bókstaflega ekkert að afrita þær. Við þessar aðstæður er stórrekstur mjög hagkvæmur, kostnaðurinn dreifist á urmul afrita en um leið er mjög erfitt fyrir keppinautana að komast inn á markaðinn því ný forrit eru ógnardýr.
Auk heldur er þessi einokun eða einsleitni sumpart hagkvæm fyrir neytandann því hann græðir á því að margir noti sömu forrit. Eitt er fyrir sig að auðvelt er að taka á móti skjölum ef allir nota Word, annað er að auðveldara er að læra á forritunarkerfin ef velflestir nota sama kerfi, þá geta menn hjálpað hver öðrum. Gallinn sé sá að Microsoft eigi alls kostar við neytandann, geti látið gömul forritunarkerfi eyðileggjast og þannig neytt neytandann til að taka í notkun nýtt kerfi annað hvert ár.
Spurningin er hvort þekkingariðnaðurinn hafi innibyggða einokunarhneigð sem sýni sig í stöðu Microsoft. Það segir alltént norski fræðimaðurinn Bent Sofus Tranøy (Tranøy 2006: 52-53).
Hafi hann á réttu að standa má ætla að einokunarhneigð muni aukast á næstu árum því vægi þekkingariðnaðarins mun vafalaust aukast.
Lestir, þekking, markaður
Þá kann einhver að spyrja hvort ekki sé best að reyna að nálgast markaðsfrelsi eins mikið og mögulegt er. Svarið er að það fer eftir efnum og aðstæðum. Stundum er skynsamlegt að reyna slíkt, stundum ekki.
Til dæmis er fyllsta ástæða til að auka markaðsfrelsi í landbúnaðargeiranum og þarf ekki mikið til.
Gott dæmi um hið gagnstæða eru erfiðleikar sem fylgt hafa einkavæðingu járnbrauta víða um lönd eins og undirritaður hefur orðið heldur betur var við. Einkavæðingin hefur víðast hvar leitt til öngþveitis og dýrari lestarferða.
Fæstum dylst hugur um að grundvallarrannsóknir séu forsendur tæknilegra framfara. En gróðinn af slíkum rannsóknum er ágóði til langs tíma og ábatinn gjarnan óviss.
Engan gat órað fyrir því að rannsóknir í táknrökfræði yrðu ábatasamar, hún hefur reynst mikilvæg fyrir tölvuiðnaðinn.
Þessi óvissa gerir að verkum að það er auðvelt fyrir einkafyrirtæki að gerast laumufarþegar, uppskera af því sem aðrir hafa sáð (sáðkornin eru grundvallarrannsóknirnar).
Þess vegna er ekki líklegt að einkafyrirtæki í tæknibransanum dæli peningum í grundvallarrannsóknir þótt þær séu nauðsynleg forsenda tækninnar.
Vart verður annað séð en að ríkið verði að standa undir mestum parti kostnaðarins við slíkar rannsóknir þótt líka sé mikilvægt að sjóðir í einkaeign hlaupi undir baggann.
Nú kann einhver að spyrja hvort vísindi þrífist ekki best í tiltölulega markaðsfrjálsu samfélagi. Vandinn er sá að það skýrir ekki hina miklu velgengni kínverskra vísinda á síðustu árum.
Kína er einræðisríki þar sem áætlunargerð er stunduð þótt markaður og einkaframtak hafi allnokkuð svigrúm. Einkafyrirtæki verða að hlýða ríkinu þegar því þóknast að gefa fyrirskipanir, kerfið kínverska er ríkiskapítalískt.
Í nýlegri grein segir að kínverskir vísindamenn birti nú fleiri vísindagreinar en aðrir og hafi forystu hvað varðar birtingu greina með hnattræn áhrif.
Þeir séu leiðandi hvað varðar tilvitnanir í greinar í eðlisfræði og fleiri fögum. Þeir skrifi 40% birtra greina um gervigreind, Bandrikjamenn 10% og Evrópubúar 15%.
Kínverjar séu fremstir allra í hagnýtum rannsóknum en ekki grunnrannsóknum og séu ekki flinkir að finna upp alnýja tækni.
Samkvæmt nýjustu fimmáraáætlun kínverska ríkisins ber Kínverjum að auka styrk sinn á sviði skammtatækni, gervigreindar ofl. ("Verdens vitenskapelige stormakt 2024: 40-48).
Lokaorð
Sem sagt, frjálshyggjufélagið og Áslaug Arna hafa ekki pottþétt svör við vanda efnahagslífsins fremur en þeir sem trúa því að ríkið leysi allan vanda. Best er að trúa sem fæstu, treysta helst á upplýsta dómgreind, ekki efnahagsformúlur. Beita happa- og glappaaðferðinni, glappaskotum fækkar fyrir vikið.
PS Það sem hér segir er að mestu ættað úr bók minni Kredda í kreppu. Undantekningin er það sem segir um kínverskt vísindastarf.
Heimildir:
Stefán Snævarr 2011: Kredda í kreppu. Frjálshyggjan og móteitrið við henni. Reykjavík: Heimskringla.
Stiglitz, Joseph 2000: "What I learned at the World Economic Crisis. The Insider View", The New Republic, 17. apríl, http://www.mindfully.org/WTO/Joseph-Stiglitz-IMF17apr00.htm. Sótt 1/3 2002.
Stiglitz, Joseph 2002: Globalization and its Discontents. Harmondsworth: Penguin Books.
Tranøy, Bent Sofus 2006 : Markedets makt over sinnene. Oslo: Aschehoug.
"Verdens vitenskapelig stormakt", Aftenposten Innsikt nr. 8, bls. 40-48.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.9.2024 kl. 23:15 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.