Goðsögur Moskvuvaldsins (I)

Hér hyggst ég taka á beinið ýmsar goðsögur sem Moskvuveldið hefur löngum haldið á lofti (ég nota „Moskvuveldi“ líka um það ríki sem sumir rússneskir  valdhafar stjórnuðu frá Pétursborg).

 Sú fyrsta er að Úkraína sé gerviríki og íbúarnir eiginlega Rússar sem eigi að koma Heim ins Reich, verða aftur undirsátar Moskvuvaldsins. Þessa goðsögu tek ég fyrir í þessum pistli, hinar verða ræddar í seinni pistlum. Hér fá menn reykinn af réttunum, stuttar athugasemdir um  sérhverja goðsögn.

Önnur goðsagan er sú að Rússland hafi aldrei verið nýlenduveldi, sú þriðja að Úkraína sé fasískt, gagnstætt Moskvuveldinu. Margur heldur mig sig, hálfopinber hugmyndafræðingur Pútíns er Ivan Iljín sem fagnaði valdatöku nasista 1933, þá búandi í Þýskalandi (Snyder 2018: 16-35).

Sú fjórða að Nató hafi lofað að bæta ekki við sig meðlimaríkjum. Það er ekki neitt sem heitir loforð Natós nema opinber yfirlýsing,  samþykkt og undirrituð af fulltrúum allra meðlimalandanna, engin slík yfirlýsing var gefin um þetta mál.  Þar af leiðir að slíkt loforð hefur aldrei verið gefið.

Sú fimmta   að Nató ógni Rússlandi. Það skýrir ekki hvers vegna Natóríkin drógu mjög úr vígbúnaði sínum í Evrópu frá lokum kalda stríðsins fram til 2022.  Kanar lögðu jú herstöðina í Keflavík niður og fækkuðu mjög í herliði sínu í Þýskalandi.

 Sú  sjötta  að Jaltasamkomlagið (eða jafnvel það í Potsdam) kveði á um skiptingu Evrópu í áhrifasvæði Kana og þáverandi útgáfu af Moskvuveldinu, Sovétríkjunum. Það stendur  ekki stafkrókur um það í  samkomulaginu.

Sú sjöunda  að Moskvuríkið hafi nánast eitt og sér unnið sigur á nasistunum, staðreyndin er sú að Sovétmenn  hefðu ekki getað barist lengi án  aðstoðar Breta og Kana sem sendu þeim gnótt vopna (Plokhy 2017: 270)(Steinfeld 2022). Sjaldan launar kálfur ofeldið.

Miklu nánar um goðsögu 2-7 í síðari pistlum, nú um fyrstu mýtu.

En áður lengra haldið skal sagt að  frjálshuga Rússar andæfa flestum þessara goðsagna og styðja varnarbaráttu Úkraínumanna. Einn slíkur sagði við mig „Það besta sem getur hent Rússland er að tapa stríðinu“. Vel mælt!

  1. Goðsagan um Úkraínu sem gerviríki.

Skrattinn fór að skapa mann, Pútín að leika sagnfræðing! Hann sauð saman eitthvað sem átti að vera umfjöllun um sögu Rússlands og Úkraínu, án tilvitnana í heimildir. Úkraína væri gerviríki að ekki óverulegu leyti skapað af Lenín. Úkraínumenn væru eiginlega Rússar.

Þó þykist hann bera virðingu fyrir úkraínsku máli og menningu, virða jafnvel sjálfsstæði landsins („We respect Ukrainians desire to see their country free, safe and prosperous“). Spyrja má hvort hann er samkvæmur sjálfum sér, annars vegar er Úkraína gerviríki, hins vegar sérstakt land.

Skemmst er frá að segja að hjalið um Úkraínu sem gerviríki er stórrússneskur þjóðrembuþvættingur.

Einvaldurinn heimsveldissinnaði  virðist halda eins og aðrir Moskvu-þjóðrembungar að hið forna Garðaríki hafi verið alrússneskt (um rætur þessa þvættings, sjá Plokhy 2017: 118 og víðar).

En höfuðborg þess var Kænugarður (Kyiv) og ríkið spannaði norðurhluta Úkraínu, Belarús og einhverja hluta Rússlands. Íbúarnir voru flestir mæltir á austurslafnesku en það mál er formóðir úkraínsku, belarúsmálsins og rússnesku.

Þvæla  rússneskra þjóðrembunga um að Kænugarður sé elst rússneskra borga er ekkert annað menningarheimsvaldastefna. Garðaríkið er líklega fremur úkraínskt en rússneskt enda má ætla að afkomendur gerskra manna búi flestir þar og í Belarús.

Þó skal í nafni sanngirni sagt að Rússland  á   sér líka vissar rætur í Garðaríki, stórfurstar Moskvuríkisins töldu sig afkomendur  Rúriks (Hræreks?)  þess sem á að hafa stofnsett Garðaríki.

Og gerskir menn kenndu sig við Rús, orð sem virðist forveri orðsins Rússi (um sögu Rússlands sjá t.d. Hosking 2012).

 Á rústum Garðaríkis reis ríkið Galisía-Volhynia  (áður fylki í Garðaríki), síðar kallað „konungdæmið Rúþenía“. Það spannaði vesturhluta Úkraínu, hluta af Póllandi og Belarus.

Það komst síðar undir stjórn pólsk-litháska veldisins sem réðu mest allri Úkraínu um allnokkurt skeið.  Þar voru þó hálfsjálfsstæð furstaveldi, eitt þeirra kennt við Kænugarð.

Á sautjándu öld mynduðu kósakkar í Austur-Úkraínu hið svonefnda Hetmanat en það ríki leitaði ásjár hjá Moskvuveldinu og samþykkti að lúta keisaranum þar árið 1654. Ástæðan var ótti við hið volduga  pólsk-litháska ríki.

Kósakkarnir  virðast hafa litið á þetta sem tímabundið bandalag en Moskvuvaldið vildi innlima Hetmanatið í ríki sitt. Þó hélt hið úkraínska Hetmanat  vissu sjálfsstæði  mest alla átjándu öld.

Ekki voru allir kósakkar sáttir við innlimun í Moskvuveldið, hluti þeirra barðist með Karli tólfta, Svíakonungi,    í fólkorrustunni við Poltava árið 1709 þar sem Rússar báru  sigur úr býtum.

Ivan Mazepa, leiðtogi kósakka,  skrifaði: „Moskvuveldið, það er stórrússneska þjóðin, hefur ávallt hatast við vora Litlu rússnesku þjóð (Úkraínumenn), það hefur lengi haft þá illgjörnu ætlun að útrýma þjóð vorri“.

Hann mun einnig hafa talið sig skyldum bundinn við „Hið litla rússneska föðurland“ (samkvæmt Plokhy 2017: 43). Þrjú hundruð árum síðar sitja Kremlverjar enn við sama keip, útrýmingarkeipinn.

Pútín laug þegar hann sagðist ekki ætla að ráðast inn í Úkraínu, líklega laug hann líka þegar hann sagðist virða úkraínsk réttindi: „And what Ukraine will be- it is up to its citizens to decide“.

Honum skal til afbötunar sagt að stundum skrifar hann eins og Úkraínumenn séu að einhverju leyti aðskildir frá Rússum.

Harvardprófessor í úkraínskri sögu,  Serhii  Plokhy,  segir í bók sinni The Lost Kingdom að þótt Úkraína og Belarús hafi komist undir stjórn Moskvu þá hafi elítur þessara landa framan af  skilgreint íbúa þeirra sem þjóðir, aðskildar frá Rússum (samanber ummæli Mazepa).

Þó hafi þeir með tíð og tíma farið að tala í ríkari mæli um eina rússneska þjóð  (Plokhy 2017: 38-41)

Nefna má að á árabilinu 1656 til 1721 var Moskvu-tsarinn kallaður „drottinn stóra, litla (Úkraínu) og hvíta Rússlands (Belarús)“ (Plokhy 2017: 124).

Tsararnir  viðurkenndu sem sagt tilvist Úkraínu hvað sem Pútín kann um það mál að halda. Það fylgir sögunni að það er ekki fyrr en 1721 að valdhafar í Moskvu fara að kenna sig við Rússland, áður var talað um Moskvuríki (e. Muscovy). Þýðir það að Rússland sé gerviríki?

Moskva byggðist ekki fyrr en á tólftu  öld og laut lengi stórkonungum  Mongóla. Enda segir fyrrum Mongólaforseti hæðnislega að nota megi pútínska hundalógík til að réttlæta innlimun Rússlands í Mongólíu.

Plokhy segir í  The Lost Kingdom að Moskvuríkið hafi að nokkru  leyti verið sköpunarverk Mongóla. Þeir hafi gefið valdhöfum Moskvu sæmdarheitið  „stórfurstar“ (e. grand princes) eftir að einn þeirra giftist systur hæstráðanda Gullnu hjarðarinnar mongólsku. Upphefðin kemur að utan.

Auk þess hafa Rússar lagt undir stór landflæmi, sem áður tilheyrðu öðrum ríkjum, t.d. stórt landsvæði þar sem Vladivostok er nú en það tilheyrði Kínaveldi frá alda öðli. Hafa Kínverjar þá ekki rétt  til að ráðast inn og endurheimta svæðið?

Hvað um það, meginhluti Úkraínu komst ekki undir rússneska stjórn fyrr en 1654, vestasti hlutinn,  Galisía, ekki fyrr en 1940.

Ekki má gleyma því að árið 1918 lýsti Úkraína yfir sjálfsstæði en Bolsévíkar lögðu landið undir sig.  Til að friða Úkraínumenn gerði Lenín landið að sambandslýðveldi í Sovétríkjunum, nóta bene bara að nafninu til. Moskvuhyskið réði öllu að vanda.

Í bók sinni The Russo-Ukrainian War andæfir  Serhii  Plokhy geipi Pútíns um að Lenín hafi gefið Úkraínu rússneskt land. Á þessu svæði hafi á þeim árum aðeins 17% íbúanna haft rússnesku að móðurmáli, meirihlutinn úkraínsku.

Það hafi breyst vegna rússavæðingar Moskvuvaldsins sovéska og iðnvæðingarinnar í Donbass en fjöldi rússneskumælandi flutti þangað til að starfi í iðnaði.

Ekki þori ég að dæma um sannleiksgildi þessa en hallast þó að því að þetta sé satt þar eð Moskvuvaldið hamaðist löngum við að rússavæða Úkraínu.

Ekki síst með því að banna mönnum að skrifa á úkraínsku eða berjast gegn máli og menningu Úkraínumanna með öðrum hætti.

Eftirtektarverð er sú staðhæfing Plokhys að rússneskir þjóðrembungar á keisaratímanum hafi talið úkraínsku rússnesku sem Pólverjar hafi meðvitað afbakað. Þeir standi á bak við allar sjálfræðistilraunir Úkraínu  (t.d. Plokhy 2017: 137-152).

Samanber jarmið í Pútín um að vesturlönd afvegaleiði Úkraínumenn og telji þeim trú um að þeir séu ekki Rússar.

                  Kommúnistar og Úkraína

Plokhy segir að bolsévíkar hafi verið tvíbentir í afstöðunni til sjálfstæðis/sjálfræðis Úkraínu en 1917-8 verður  Úkraínuríki til.

Bolsévíkar hernámu Kænugarð í ársbyrjun 1918 og drápu menn sem leyfðu sér þá ósvinnu að tala úkraínsku á opinberum vettvangi (Plokhy 2017: 198). Ári síðar hernámu hvítliðar Kænugarð og tóku að þjarma að úkraínsku máli enda alfarið  á móti sjálfsstæði Úkraínu (Plokhy 2017: 208).

Eftir borgarastyrjöldina hafi Lenín tekið að leggja áherslu á rétt Úkraínumanna til að nota sitt móðurmál og benti réttilega á að keisaraveldið hafi fótumtroðið menningu þeirra (Plokhy 2017: 215).

Í kjölfari þessa tóku bolsévíkar að efla úkraínska menningu og mál all verulega, meira að segja á kostnað rússneskumælandi Úkraínumanna (margir þeirra urðu sjálfsagt rússneskumælandi vegna rússavæðingar keisaranna).

En Plokhy telur að ástæða þessa hafi ekki síst verið sú að bolsévíkar vildu öðlast hylli innfæddra en mjög stór hluti þeirra hafi barist gegn bolsévíkum í borgarastyrjöldinni.  Bæði í herjum hvítliða og úkraínskra sjálfstæðissinna  (Plokhy 2017: 229-232).

Adam var ekki lengi í paradís, Stalín sneri fljótlega við blaðinu og tók að ofsækja úkraínsku elítuna og rússavæða þjóðina. Og ýta undir rússneska þjóðrembu, nú var meira  að segja farið   að tala vel um keisarana (Plokhy 2017: 242-259).

Bolsarnir höfðu þjóðnýtt bændabýlin og smalað bændum í samyrkjubú. Til að fjármagna iðnvæðingu lét Stalín ræna bændur afurðum sínum og selja í útlöndum.

Afleiðingin var gífurleg hungursneyð sem kostaði milljónir bænda lífið, aðallega þá úkraínsku.

Úkraínumenn telja margir að Stalín hafi meðvitað svelt úkraínska bændur til að koma þjóðinni á kné. Þeir líkja þessu við helförina og kalla „Holodomor“.

Minningin um hana er ein af ástæðum þess að mörgum Úkraínumönnum er illa við Rússa.

En hvað segir Pútín? Hann gerir meira en að gefa í skyn að valdhafar í Úkraínu ranglega ásaki Sovétríkin fyrir yfirgang og fjöldamorð á Úkraínumönnum. Afkomendur þeirra sem Stalín lét myrða hljóta að kreppa hnefann.

Plokhy ræðir Holodomor lítið. Skylt er að geta þess að  hann er Úkraínumaður og hefur kannski of mikla hneigð til að draga taum sinnar þjóðar. En hinn hlutdrægi getur rambað á sannleikann, sönnunarbyrðin er þeirra sem telja hann fara með rangt mál.

Þess utan  er hann ófeiminn við að viðurkenna að á löngum tímabilum hafi úkraínskur almenningur samsamað sig rússneska ríkinu, sjálfræðis- og þjóðernissinnar  hafi verið fáir, aðallega menntamenn (Plokhy 2017: 174).

Spyrja má hvort þessi afstaða almennings hafi ekki átt rætur í áróðri Moskvuvaldsins og tilraunum þess til að útrýma úkraínsku máli og menningu. Keisaradæminu var stjórnað á rússnesku, menn komust ekki áfram í samfélaginu nema að tala það mál.

Ástandið í Sovétríkjunum var litlu skárra. Plokhy segir reyndar að skipst hafi á skin og skúrir á dögum þessara ríkja, stundum hafi það þjónað hagsmunum valdhafa að efla úkraínskt mál og menningu en yfirleitt ekki. Að jafnaði hafi valdhafar ófétis Sovétsins stuðlað að mikilli rússavæðingu Úkraínu.

Hvað um það, þegar Úkraína  fékk sjálfsstæði ári 1990 má segja að Garðaríki, Rúþenía, Hetmanatið  og Úkraínuríkið 1918-20. hafi endurfæðst. Minnast má þess að í  kosningum 1990 greiddi 90% úkraínskra kjósenda atkvæði með sjálfsstæði landsins.

Flestir Úkraínumenn hafa úkraínsku að móðurmáli en það tungumál er talsvert ólíkt rússnesku, málin skarast bara að hluta. Ljóst er að yfirgnæfandi meirihluti Úkraínumanna hefur úkraínska þjóðernisvitund, sú staðreynd styrkir  staðhæfinguna um þetta sé  sérstök þjóð.

Sú vitund birtist ekki síst í einbeittum vilja þeirra til að verjast yfirgangi Moskvuríkisins.

              Sitthvað um sögu og Moskvuveldið

Ekki þýðir að segja að þessi þjóðernisvitund sé ekki ýkja gömul, þjóðernisvitund er tiltölulega nýtt fyrirbæri í mannkynssögunni þótt hún eigi sér gamlar rætur (hve gömul er rússnesk þjóðernisvitund? Tvö hundruð ára?).

Moskvumenn segja að Úkraína sé samsuða úr löndum sem ekki hafa átt sér langa sameiginlega sögu.

Þeir athuga ekki að hið sama gildir um Rússland sem upprunalega var bara Moskva og svæði í kringum hana sem laut valdi Mongóla og Tatara.

Á fimmtándu öld rústaði Ivan III, fyrsti Moskvu-tsarinn, hið frjálslynda lýðveldi Hólmgarð og gerði hluta af Moskvuveldinu (ég kalla frjálshuga Rússa „Hólmgarðsfólkið“ eða  "hólmgerska fólkið").

 Á öldinni átjándu lagði Moskvuveldið Krímskaga undir sig en hann var aðallega byggður Töturum. Fljótlega tóku Rússar að flytjast þangað í stórum stíl. Svo lét Stalín flytja Krímtatara nauðungarflutningi burt frá skaganum (eiga þeir þá ekki rétt á að stjórna honum?).

Á nítjándu öld útrýmdu Moskvumenn nánast þjóð Sirkissa (e. Circissians) og létu rússneska bændur taka yfir land þeirra (svo lítið eins og Kanar fóru með indjána).

Sem sagt, rétt eins og Úkraína er Rússland samsuða þjóða og landsvæða, hið sama gildir um fjölda ríkja, t.d. Bandaríkin.

Ítalía var sameinuð án þjóðarmorða. Einn af feðrum þjóðarinnar er sagður hafa sagt  „Nú erum við búin að sameina Ítalíu, nú verðum við að skapa Ítali“. Kannski Frakkar geti notað þetta sem afsökun fyrr innrás í landið!

Væri Pútín samkvæmur sjálfum myndi hann telja eðlilegt að Bretar gerðu innrás í Bandaríkin þar eð þau voru upprunalega hluti af Bretaveldi. Tala ekki báðar þjóðirnar sama tungumál?

Hann ætti líka að telja innrás Breta og Bandaríkjamanna í Írak réttlætanlega þar eð Írak er á vissan hátt gerviríki, skapað af Bretum eftir fyrri heimsstyrjöld.

En siðað fólk andæfir slíkum „rökum“, innrás Breta og Kana í Írak var innrás í fullvalda ríki og hreinræktað fólskuverk, rétt eins og innrás Rússa í Úkraínu. Að meðtalinni innrásinni í Krímskaga.

                  Lokaorð

Niðurstaðan er sú að goðsaga númer 1 er   tóm þvæla, heimsveldissinnuð, rússnesk þjóðrembugoðsögn um Úkraínu. Ríkið á sér gamlar rætur og Úkraínumenn eru sérstök og sjálfsstæð þjóð.

PS: Til að forðast misskilning vil ég taka fram að úkraínskir sjálfsstæðissinnar eru ekki heilagir og hafnir yfir gagnrýni fremur en andstæðingar þeirra, Moskvuvaldsmenn.

Þeir áttu Gyðingahatrið sameiginlegt með Moskvuliðinu, kósakkarnir frömdu fjöldamorð á Gyðingum, einnig sumir sjálfsstæðissinnar um 1918.

Og Stepan Bandera, sem barðist fyrir sjálfsstæði Úkraínu, gerði bandalag við djöfulinn, þýsku nasistana. Þó var Bandera ekki þægari þeim en svo að þeir stungu honum inn, bróðir hans og samstarfsmaður lét lífið í Auschwitz (sjá t.d. Plokhy 2015).

Ekki má gleyma því að rússneski hershöfðinginn Vlassov vann með nasistum og stofnaði her sovéskra stríðsfanga (flestir sennilega Rússar) sem barðist með Þjóðverjum. Samskipti hans við nasista voru reyndar álíka flókin og samskipti hins bannsetta Banderas við þá.

Heimildir utan nets:

Hosking, Geoffrey 2012: The History of Russia. A Very Short Introduction. Oxford: Oxford University Press.

Plokhy, Serhii 2015: The Gates of Europe. A History of Ukraine. Harmondsworth: Penguin.

Plokhy, Serhii 2017: The Lost Kingdom. The Quest for Empire and the Making of the Russian Nation. New York: Basic Books.

Plokhy, Serhii 2023: The Russo-Ukraininan War: The Return of History. New York: W.W. Norton & Company.

Steinfeld, Hans-Wilhelm 2022: Russland kriger. Stamsund: Orkana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Sveinn Hálfdánarson

Sæll

Fjölda rússneskumælandi manna í Austur-Úkraínu má líka skýra með Holodomor. Milljónir manna, átta eða fleiri, voru dreppnar. Rússar fluttu til Austur-Úkraínu í stórum stíl eftir það. - Hvenær verða Pólverjar orðnir nógu margir í einhverjum hlutum Íslands til að geta krafist sjálfstæðis og almennrar notkunar pólsku í stað íslensku?

Svo má bæta við að Pútín telur upplausn Sovétríkjanna hafa verið ólöglega. Það er ástæða fyrir að Kína ábyrgðist landamæri Kazakstans með opinberri yfirlýsingu.

Einar Sveinn Hálfdánarson, 28.10.2024 kl. 18:54

2 identicon

Sælir; Valdemar og Einar Sveinn !

Mjög góðar og skarpar; útskýringar ykkar beggja, á hinni raunverulegu stöðu í Austur- Evrópu.

Hafið beztu þakkir fyrir / og með beztu kveðjum, af Suðurlandi /

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 28.10.2024 kl. 22:13

3 Smámynd: Stefán Valdemar Snævarr

Takk Einar Sveinn, sennilega rétt þetta með Austur-Úkraínu. Dæmið um Pólverja er gott. Takk líka Óskar Helgi.

Stefán Valdemar Snævarr, 28.10.2024 kl. 22:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband