16.11.2024 | 18:06
Goðsögur Moskvuvaldsins (III-VIII)
Í merkri bók um Sovétskipulagið, The Future That Failed, leggur Jóhann Páll Árnason mikla áherslu að Sovétríkin hafi verið enn ein birtingarmynd rússneska heimsveldisins. Það þótt byltingarsinnuð hugmyndafræði hafi líka sett svip sinn á þau (Jóhann Páll Árnason 2005).
Bæta má við að Rússland Pútíns er líka slík birtingarmynd. Þess vegna tel ég í lagi að nota orðið Moskvuveldi um þessar þrjár birtingarmyndir heimsveldisins, þá keisaralegu, kommúnísku, og tsar-fasísku.
(tekið skal fram að ég er engan veginn viss um að Jóhann Páll sé sammála mér um það sem ég tel vera goðsögur þessa veldis).
Goðsögurnar (III-VI)
Í fyrsta bloggi kynnti ég þessar goðsögur stuttlega nema þá um Úkraínu sem gerviríki. Ég ræddi hana og leitaðist við að hrekja. Í öðru bloggi hrakti ég bullið um fasisma í Úkraínu og benti á að Rússland Pútíns væri tsar-fasískt.
Nýlendustefnan
Þriðja goðsagan er sú að Rússland sé ekki og hafi aldrei verið nýlenduveldi. Annað segir Lana Pylaeva í nýlegri grein í andófsblaðinu Moscow Times (Pylaeva 2023). Að nafninu til sé landið fjölþjóðlegt en í reynd sé Rússum hampað á kostnað annarra þjóða.
Hún segist vera af Kómíþjóðinni, í skóla hafa bara verið kennt á rússnesku og menning þjóðarinnar hvergi komið við sögu.
Ástandið hafi versnað á dögum Pútíns, nú lifi Rússar í Moskvu og Pétursborg jafn góðu lífi og Hollendingar en jaðarþjóðirnar búi við lakari kjör en áður.
Skemmst er að minnast þess að á nítjándu öld gerðu Rússakeisarar heiðarlega tilraun til að útrýma þjóð Sirkassa og troða rússneskum bændum í land þeirra.
Á öldinni átjándu lögðu þeir Krímskaga undir sig og tóku að fylla af Rússum, Krímtatarar urðu annars flokks borgarar.
Nýlenduherrann Stalín lét svo flytja þá nauðungarflutningum burt úr skaganum. Hann gerði stór landflæmi að nýlendum Moskvuvaldsins, Eystrasaltsríkin, Moldavía og stóran hluta austanverðrar Mið-Evrópu.
Keisararnir höfðu áður gert Mið-Asíu og Kákasuslöndin að nýlendum sínum (um sögu Rússlands, sjá t.d. Hosking 2012).
Sagnfræðingurinn Timothy Snyder telur að innrásin í Úkraínu sé nýlendustríð, Moskvuveldið sé að reyna að ná aftur sinni gömlu nýlendu með sama hætti og Hollendingar og Frakkar reyndu að endurreisa nýlenduveldi sín eftir síðari heimsstyrjöld (viðtal við hann á youtube).
Þessu til sannindamerkis má nefna að hinn tsar-fasíski her reyndi að leggja Kænugarð undir sig. Það bendir til þess að markmiðið hafi ekki bara verið að ná tangarhaldi á Donbass.
Snyder segir að mikið harðræði ríki á hernumdu svæðunum í Úkraínu, herraþjóðin reyni að útrýma úkraínsku máli og menningu og hafi flutt eina milljón Úkraínumanna nauðungarflutningum til Rússlands.
Breska leyniþjónustan segir að áætlun Pútíns hafi verið sú að leggja alla Úkraínu undir sig á fáeinum vikum, halda svo þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem Úkraínumenn samþykktu að sameinast Moskvuríkinu.
Nefna má að fyrrum efnahagsráðgjafi Pútíns, Andrei Illiarnov, sagði í viðtali þremur mánuðum fyrir innrásina að markmið Pútíns væri að leggja alla Úkraínu undir sig og endurreisa rússneska heimsveldið eins og það var í lok átjándu aldar.
Í viðtali við hann, sem tekið var eftir að stríðið hófst, gengur hann lengra og segir að Pútín hyggist ráðast á Evrópuríkin. Boris Pistorius, varnarmálaráðherra Þýskalands, telur líklegt að Rússar hyggi á innrás í Þýskaland. Guð hjálpi Íslandi þá!
Við skulum vona að þeir Illiarnov og Pistorius hafi á röngu að standa.
NATÓ og Rússland
Fjórða goðsagan er sú að NATÓ hafi lofað að bæta ekki við sig meðlimaríkjum. Mary Elise Sarotte, sem hafði aðgang að skjölum James Bakers, þáverandi utanríkisráðherra BNA, segir að hann hafi ekki gefið neinn ádrátt um það (Sarotte 2021).
Bæta má við að þótt hann hefði kannski gefið slíkt í skyn þá hafði hann ekkert umboð til þess. Ekki er hægt að taka neina ákvörðun um nýja meðlimi NATÓ nema með skjalfestu samþykki allra aðildaríkja en engu slíku var til að dreifa.
Þar af leiðir að slíkt loforð hefur aldrei verið gefið.
Ekki þýðir að jarma um að NATÓ sé eiginlega bara tæki Kana eins og Pútín segir. Bandaríkjamenn vildu hleypa Úkraínu inn í það fyrir allnokkrum árum en Sarkozy og Merkel beittu neitunarvaldi.
Kanar sættu sig við það, illu heilli fyrir Úkraínumenn (æ, hvað Bandaríkin eru heimsveldissinnuð!).
Gömlu kommúnistaríkin sóttu um inngöngu í NATÓ, fullnægðu settum skilyrðum um inngöngu og urðu því meðlimir. Mörg þeirra sóttu um inngöngu vegna skiljanlegs ótta við Moskvuvaldið.
Lech Walensa, þá forseti Póllands, sagði fyrir þremur áratugum að fyrr eða síðar kæmist til valda í Moskvu heimsveldissinnaður yfirgangsseggur. Walesa reyndist sannspár.
Fimmta goðsagan er sú að NATÓ ógni Rússlandi. Það skýrir ekki hvers vegna Natóríkin drógu mjög úr vígbúnaði sínum í Evrópu frá lokum kalda stríðsins fram til 2022.
Kanar lögðu jú herstöðina í Keflavík niður og fækkuðu mjög í herliði sínu í Þýskalandi. Ekki var neitt sem minnti á erlenda hermenn í Póllandi og Eystrasaltsríkjunum fyrir innrásina.
Hvers vegna grátbað George Bush eldri Úkraínumenn um að segja sig EKKI úr lögum við Sovétríkin nokkrum mánuðum fyrir fall þeirra ríkja? Hefðu Kanar haft í hyggju að mölva Moskvuveldið hefði forsetinn gert hið gagnstæða (ræðu Bush í þinginu úkraínska má finna á youtube).
Það fylgir sögunni að Prígósín heitinn mun hafa sagt skömmu fyrir dauða sinn að Kremlverjar vissu mætavel að NATÓ ógnaði Rússlandi ekki. Innrásin í Úkraínu hafi stafað af löngun rússneskra ólígarka til að klófesta auðlindir landsins.
Hann hafði unnið með Pútín og þekkti hann vel. Hafi hann á réttu að standa þá eflist fyrir vikið sú tilgáta að innrásin í Úkraínu sé af nýlendutoga spunnin.
Annar fyrrum samstarfsmaður Pútíns, Mikael Kasjanov, sem eitt sinn var forsætisráðherra hans, segir að Kremlardrottinn viti að NATÓ ógni ekki Rússlandi (viðtal við hann hér).
Sjötta goðsagan er sú að Bandaríkjamenn hafi valdið Maidanuppreisninni. Kenningin er fáránleg þar eð tæpast hefur Könum tekist að véla milljónir manna til að taka þátt í mótmælagerðunum.
Spilling, einræðistílburður og möguleg föðurlandssvik forsetans Janúkóvitsj voru án nokkurs efa aðalorsökin. Janúkóvitsj bjó í höll og lét útbúa vægast sagt ríkmannlega á kostnað skattgreiðenda og gekk erinda Moskvuvaldsins í mikilvægum málum.
Hvað þá um símasamtal fulltrúa Bandaríkjastjórnar, Victoriu Nuland og þáverandi sendiherra BNA í Kænugarði? Gagnstætt því sem margir halda kemur ekkert fram í samtalinu sem bendir til þess að Bandaríkjastjórn hafi haft ákveðnar hugmyndir um hver ætti að taka við af forsetanum gerspillta.
Nuland og sendiherrann telja kost og löst á ýmsum stjórnarandstæðingum, sú fyrrnefnda segist ekki telja Klitjskó, hnefaleikakappa, réttan mann til að sitja í ríkisstjórn. Hún segir I think, eftir öllum sólarmerkjum að dæma var hún einfaldlega að tjá eigin skoðanir.
Þó margt megi ljótt segja um utanríkisstefnu Bandaríkjanna og annarra Vesturlanda þá verður ekki séð að þau hafi ógnað Rússlandi eða staðið fyrir uppreisn í Kænugarði.
Síðara heimsstríð og eftirleikur þess
Sú sjöunda er að Jaltasamkomlagið kveði á um skiptingu Evrópu í áhrifasvæði Kana og þáverandi útgáfu af Moskvuveldinu, Sovétríkjunum. Það stendur ekki stafkrókur um það í samkomulaginu. Serhii Plokhy segir að Stalín hafi heimtað slíka skiptingu en Roosevelt sagt þvert nei (Plokhy 2023).
Aftur á móti er í Jaltasamkomulaginu kveðið á um lýðræðislegar kosningar í Póllandi, Stalín stóð ekki við það heiti.
Samkvæmt Jaltasamkonulaginu (hér)var Þýskalandi skipt í hernámssvæði og var Vestur-Berlín á svæði Vesturveldanna. Samt reyndi Stalín að kúga borgina til hlýðni við sig í trássi við samkomulagið. Eina rétta svarið var stofnun NATÓ.
Hvað sem því líður er eitt og annað sem bendir til þess að Sovétmenn hafi gert ráð fyrir e.k. óformlegri skiptingu Evrópu í áhrifasvæði. Þeir drógu heri sína út úr Finnmörku og frá Bornhólmi, kannski voru það hræðslugæði, ótti við amerísku kjarnorkusprengjuna.
En 1955 eftir að þeir voru búnir að verða sér út um kjarnavopn drógu þeir her sinn út úr austurhluta Austurríkis að fengnu loforði um hlutleysi landsins.
Einnig létu þeir eiga sig að hernema hlutlaus lönd á borð við Írland, þetta bendir til þess að þeir hafi aðallega viljað varnarbelti leppríkja. Ekki haft mikil heimsveldisáform, vel mögulega gagnstætt núverandi valdhöfum í Moskvu.
Sá möguleiki er fyrir hendi að hinir kommúnísku Kremlverjar hafi trúað á sögulega nauðsyn. Þeir þyrftu ekki að andskotast á Vestur-Evrópu þar eð þeirra stefna myndi hvort sem er sigra á endaum.
Sú áttunda og síðasta er sú að Moskvuríkið hafi nánast eitt og óstutt unnið sigur á nasistunum. Staðreyndin er sú að Sovétmenn hefðu ekki getað barist lengi án aðstoðar Breta og Kana sem sendu þeim gnótt vopna (Plokhy 2017: 270)(Steinfeld 2022).
Í sjónvarpsþætti um Kúrskorrustuna miklu segir að tveir þriðju af farartækjum Sovéthersins hafi verið amerískrar ættar, einnig hafi herinn fengið gífurlegt magn af niðursuðudósum frá hinum illu Könum. Sjaldan launar kálfur ofeldið.
Lokaorð
Rússar eiga sér merka menningu, þeir hafa alið frábæra rithöfunda og snjöll tónskáld. En þá skortir frelsishefð, saga þeirra er skuggaleg saga um villimannlega kúgun og heimsveldisstefnu.
Góðu heilli eru sumir þeirra frjálshuga, m.a. hugrökku blaðamennirnir sem starfa fyrir Moscow Times og Meduza.
Svo lengi sem slíkt fólk er til á Rússland sér von, von um frjálsa framtíð án heimsveldisóra og yfirgangssemi.
Þá eigum við öll von.
Heimildir utan nets:
Hosking, Geoffrey 2012: The History of Russia. A Very Short Introduction. Oxford: Oxford University Press.
Jóhann Páll Árnason 2005: The Future that Failed. Origins and Destinies of the Soviet Model. London: Routledge.
Pylaeva, Lana 2023: Ignoring Russian Colonialism Has Deadly Consequences, Moscow Times, 17 október, https://www.themoscowtimes.com/2023/10/17/ignoring-russian-colonialism-has-deadly-consequences-a82795
Plokhy, Serhii 2017: The Lost Kingdom. The Quest for Empire and the Making of the Russian Nation. New York: Basic Books.
Plokhy, Serhii 2023: The Russo-Ukraininan War: The Return of History. New York: W.W. Norton & Company.
Sarotte, Mary Elise 2021: Not One Inch. America, Russia, and the Making of Post-Cold War Stalemate. New Haven og London: Yale University Press.
Steinfeld, Hans-Wilhelm 2022: Russland kriger. Stamsund: Orkana.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.11.2024 kl. 19:09 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Stefán
Flest sem þú segir er kórrétt. Ég geri fáeinar athugasemdir. Það er rétt að Rússar falsa söguna.
Valdimar mikli var auðvitað ekki slavi, sbr Snorra og Árna Bergmann.
Rússar unnu seinni heimsstyrjöldina, enda með yfirburðaskriðdreka. Til að framleiða þá notuðu þeir m.a. þýska íhluti. Þeir sáu heldur betur við Þjóðverjum í griðasáttmálanum, sbr lista um það sem þeir fengu. Svo tóku BNA við.
Stalín hugði á 3. styrjöldina. Þess vegna ákváðu félagar hans að eitra fyrir honum, enda ekki seinna vænna.
Pútin kveður upplausn Sovétríkjanna hafa verið ólöglega. Þess vegna ábyrgist Kína opinberlega sjálfstæði Aserbaídsjans (sem Pútín kveður "ekkiland").
Arfleifð mongólanna er módelið. Og reyndar eru Lenín, Stalín og Pútín ekki Rússar, hvort sem það skiptir máli eða ekki.
EINAR S HÁLFDÁNARSON (IP-tala skráð) 16.11.2024 kl. 23:49
Takk Einar, athyglisverðar athugasemdir. Vissulega skópu Sovétmenn öfluga skriðdreka en var það án vestrænnar aðstoðar?
Þýskur sagnfræðingur sagði í sjónvarpsþætti að Sovétmenn hefðu af eigin rammleika getað varist Þjóðverjum en aldrei komist alla leið til Berlínar án vestræns vopnastuðnings.
Hvað griðarsáttmálann varðar þá seldi Stalín Þjóðverjum olíu og hveiti í stórun stíl og efldi því hermátt þeirra.
Ekki má gleyma svikum Vesturveldanna við Tékkó sen líka efldi nasista mjög, þeir gátu klófest iðnaðinn tékkneska.
Aldrei heyrt þessa kenningu um að eitrað hafi verið fyrir Stalín.
Volodomír hinn mikli var sjálfsagt með norrænt blóð í æðum en mæltur á austurslafnesku,
Þótt Stalín væri Georgíumaður þá var hann kaþólskari en páfinn dýrkaði rússneska menningu og ýtti undir rass hennar. Enda þjónar það hagsmunum alvaldsins að hafa eitt tungumál eina menningu.
Eru Lenín og Pútín ekki Rússar? Lenín mun reyndar hafa haft margs konar blóð í æðum en rússneskur að máli og menningu.
Sennilega rétt að arfurinn frá Mongólunum skipti miklu. Serhii Plokhy segir að vald þeirrA hafi verið mun meira í Rússlandi en Úkraínu. Sú staðreynd að Galisía kemst ekki undir Moskvustjórn fyrr en 1940 kann að vera ein ástæða þess að Úkrainumenn, sérstaklega frá vesturhlutanum, eru fremur frjálshuga en Rússar.
Margt bendir til að ósóminn í Rússlandi nútímans sé ekki bara sköpunarverk elítu heldur að almenningur eigi sinn þátt því.
Ertu sá Einar sem lengi dvaldi í Úkraínu og skrifaðir greinar Úkráinumönnum til stuðnings?
Stefán Valdemar Snævarr, 17.11.2024 kl. 10:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.