LOF SVARTSÝNI

Ég hef löngum verið maður svartsýnn, góðu heilli. Svartsýnin hefur bjargað mér frá barnalegri trúgirni, trú á pólitískar skýjarborgir. Ég reyndi að vera kommi ungur sveinn því það þótti kúl en trúði innst inni ekki á vitleysuna. Mér var um megn að trúa á tilvonandi sæluríki kommúnismans, hugsaði sem svo að líklega væru þetta draumórar. Ef ekki myndi heimurinn eyðast í kjarnorkueldi áður en sósíalisminn kæmist á koppinn. Seinna daðraði ég ögn við frjálshyggju en uppgötvaði fljótlega að hún væri systir kommúnismans. Ég gat ekki trúað því að frjáls markaður gæti reddað öllu eins og frjálshyggjumenn segja. Og hvað gerist? Eftir öllum sólarmerkjum að dæma er aukið markaðsfrelsi ein meginástæða heimsbankakreppunnar. Þess utan má leiða veigamikil rök að því að "frjálsan" markað sé ekki hægt að raungera fremur en lýðræðislegan sósíalisma. Hvað þá með vöggustofu-kratisma? Af honum fékk ég nóg sextán vetra sveinn í Svíaríki, sá í gegnum blöffið það. Ég var náttúrulega allt of svartsýnn til að treysta útrásinni, hef sagt í ræðu og riti að útrásarfyrirtækin reistu sér hurðarás um öxl, fyrr eða síðar myndi allt klammaríið hrynja. En mig óraði ekki fyrir því að íslenska hagkerfið myndi fara á hausinn fyrir vikið. Ég, sjálfur meistari svartsýninnar, var ekki nógu svartsýnn! Því er enginn furða þótt ég taki undir með Dylan þegar hann syngur "It is easy to see with out looking to far that not much really is sacred". Nema svartsýnin, hún er heilög.

Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Loksins finn ég sálufélaga! Ég er algjör svartsýnismaður. Allt mun fara beina leið til helvítis!

Sigurður Þór Guðjónsson, 12.10.2008 kl. 12:52

2 Smámynd: Stefán Valdemar Snævarr

Heyr, heyr!

Stefán Valdemar Snævarr, 13.10.2008 kl. 10:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband