VÍKJANDI RÍKRADÝRKUN?

 

Sú var tíðin að Íslendingar voru haldnir ríkisdýrkun af verri gerðinni, ríkið átti að redda öllu. En svo turnuðst þeir til trúar á hina ríku, margir Íslendingar þjást  enn af ríkradýrkun, þótt kreppan hafi veikt stoðið þessara trúarbragða. Á velmektardögum útrásarkónganna töldu ríkradýrkendur  hina ríku vera heilaga, þeir áttu að bjarga velflestu. Þessi ríkradýrkun kom fram í viðbrögðum frjálshyggjuarms Samfylkingarinnar og Geirsarms Flokksins við nýju ríkisstjórninni. Loksins, loksins, gátu allir orðið ríkir, ekki bara vinir Kolkrabbans!

   Eins og gefið var í skyn hefur ríkradýrkun sett ofan vegna kreppunnar. Sumt fólk hefur farið út í hinar öfgarnar, kennt ríkisbubbunum um allt sem miður fór. En enn lifir í glæðum ríkradýrkunnar, ríkradýrkendur skella skuldinni á alla mögulega aðra en hina vellauðugu útrásarkónga, Davíð, krónan og kreppan í BNA eru lömbin sem eiga að bera syndir kónganna vellríku. Davíð vondi hafi ekki verið sannur frjálshyggjumaður og komið veg fyrir að hinn frjálsi markaður sæi til þess að allir gætu orðið ríkir. En ríkradýrkendur skilja ekki að frjálsari markaðshættir auka ekki endilega möguleika meðalmannsins á að verða ríkur. Rannsókn eftir rannsókn bendir til þess að nú sé minni félagslegur hreyfanleiki í Bandaríkjunum, Bretlandi og Nýja Sjálandi en í hinum vondu velferðaríkjum (sé mikill félagslegur hreyfanleiki þá eiga menn auðvelt með að komast áfram í samfélaginu). Þessi þrjú lönd hafa gengið lengra í frjálshyggjuátt en önnur ríki Vesturlanda. En það var meiri félagslegur hreyfanleiki og því minni stéttskipting í þessum löndum fyrir markaðsvæðingu en nú. Fyrir þrjátíu árum, á ríkisafskiptaskeiðinu vestanhafs, var meiri félagslegur hreyfanleiki þar en í Vestur-Evrópu, því er ekki lengur að heilsa. Það var sem sagt auðveldara fyrir meðalmanninn ameríska að efnast þá en nú, nú er auðveldara fyrir borgara í velferðarríkjunum vondu að komast áfram en borgara í frjálshyggju-ríkjunum þremur. Í þessum löndum hafa hinir ríku orðið mun ríkari, um leið hafa  tekjur millistéttafólks og hinna fátæku staðið í stað eða minnkað. Nú þénar bandarískur meðaljón minna á unna klukkustund en fyrir þrjátíu árum þrátt fyrir nokkurn hagvöxt. Eftir öllum sólarmerkjum að dæma hefur aukin tekjumunur manna í BNA, Bretlandi og Nýja Sjálandi aukið stéttskiptingu, dregið úr möguleikum manna að príla upp samfélagsstigann, "meika það". Markaðsvæðingin virðist koma í veg fyrir að allir geti orðið ríkir, þannig grefur frjálshyggjan undan sjálfri sér, hún stendur ekki undir nafni fremur en lýðræðislegur sósíalismi.

Aukin stéttskipting þýðir einfaldlega að vald hinna ríku hafi aukist, engin ástæða er til að ætla annað en hið sama muni gerast á Íslandi ef reynt verði að framkvæma draumsjónir frjálshyggjunnar hér. Nú þegar eru auðmenn orðnir feykivoldugir á Fróni, þeir eru með fjölda stjórnmálamanna og álitshafa í rassvasanum og hafa hreðjartök á efnahagslífinu. En ríkradýrkendur  skilja ekki að gjalda ber varhug við öllu valdi, auðvald er ekki hætishót betra en ríkisvald (eigum við ekki bara að segja eins og þýskir anarkistar "ekkert vald handa neinum". .

Ríkradýrkendum láta sér kannski fátt um þetta finnast en vekja máls á öðru. Þeir segja kannski að fyrr eða síðar muni allir þéna á auðsöfnun hinna ríka. En nóbelshagfræðinguinn Joseph Stiglitz segir n að molakenning (trickle down theory) frjálshyggjunnar standist ekki. Molakenningarsinnar segja einatt að hinir ríku spari meira en hinir fátæku, sparnaðnanum sé fjárfest og allir hagnist á fjárfestingunum. En í Austur-Asíuríkjunum er mikill sparnaður þótt tekjum sé frekar jafn dreift. Þessi ríki haft reynt að koma í veg fyrir mikinn ójöfnuð og jafnframt auka hagvöxt. Það hefur tekist,  hrakspár molakenningarsinna rættust ekki. Auk þess spyr Stiglitz  hvernig hyggjast molakenningarsinnar hyggist  skýra þá staðreynd að lífskjör almennings versnuðu á blómaskeiði frjálshyggjunnar í Bretlandi Viktóríutímans? Hvers vegna versnuðu kjör hinna verst stæðu vestanhafs á níunda áratug síðustu aldar, áratug mikillar markaðsvæðingar? Molakenningin skýrir þetta ekki (Stiglitz (2002): Globalization and its Discontents, bls.  78-80). Aukin ójöfnuður síðustu áratuga hafi hreinlega ekki leitt til þess að molar falli af borðum hinna ríku og bæti kjör hinna fátækustu.

Í ofan á lag virðist hin útbreidda ríkradýrkun í BNA beinlínis skaða efnahagslífið. Einhvers staðar las ég að erfitt væri að fá Kana til að stunda vísindarannsóknir  því þeir vildu allir verða ríkir. En um leið eru vísindarannsóknir einn helsti burðarás efnahagslífsins. Hingað til hafa Bandaríkjamenn leyst vandamálið með því að flytja inn vísindamenn frá öðrum löndum. En á síðustu árum hefur það orðið æ algengara að vísindamennirnir snúi heim.

Reyndar held ég að græðgi af amerísku tagi sé ein af ástæðunum fyrir því að tiltölulega fáir Íslendingar ljúka stúdentsprófi. Það eru líka fremur fáir Íslendingar sem fara í framhaldsnám, lífs-"gæða"-græðgin er slík að menn fá sér vinnu eins fljótt þeir geta. Svo hefur ótölulegur fjöldi ríkradýrkenda farið í alls konar viðskiptanám til þess að geta "meikað það". Betra væri fyrir efnahagslífið ef fleiri lærðu verk- og tæknifræði. Við þurfum ekki fleiri Björgólfa Thóra. Við þurfum hvorki ríkis- né ríkradýrkun, við þurfum aðhald og yfirvegun, menntun og hugsun. Og hugsjónir.

Vonandi er ríkradýrkunin víkjandi.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband