BÓK KRUGMANS UM KREPPUNA

 

Ég var að ljúka lestri nýgamallar bókar Paul Krugmans um kreppu, The Return of Depression Economics and the Crisis of 2008. Upprunalega útgáfan kom árið 1999 en svo bætti kappinn við nokkrum köflum um heimskreppuna yfirstandandi. Reyndar er þessi bók nóbelshagfræðingsins ekki ýkja góð því hann vitnar hvergi  í neinar heimildir. Aftanmálsgreinar geta verið hvimleiðar en þær eiga heima í svona riti, þótt alþýðlegt sé. Hvað um það, meginstefið er að hagfræðingar hafi verið full fljótir á sér að telja kreppuhagfræði úrelta, atburðir síðustu mánaða sýni hið gagnstæða. Hann heldur mjög á lofti kenningum John Maynard Keynes um hvernig kreppur eigi að leysa, ríkið á að dæla peningum hagkerfið, t.d. með því að styrkja innviði samfélagsins, legga vegi, smíða brýr o.s.frv. Krugman hæðist að framboðshagfræðinni en samkvæmt henni er allra (efna)meina bót að efla hag hinna ríku því þeir fjárfesti svo mikið. Hann hefðir að ósekju mátt gagnrýna framboðshagfræðina með málefnalegum hætti. Hvað sem því líður þá segir hann að  vandi dagsins sé skortur á eftirspurn, framboði. Ríkið eitt getur aukið eftirspurnina í kreppum. Krugman andæfir kröftuglega þeirri kenningu frjálshyggjumanna að rætur meinsins séu í löggjöf sem þeir telji að hafi nánast neytt banka til að veita  fátæklingum húsnæðislán sem þeir svo voru ekki borgunarmenn fyrir. Hann bendir á að þessi löggjöf hafi komist í gagnið árið 1977, erfitt sé að sjá hvernig hægt sé að kenna henni um kreppu sem skall á þremur áratugum síðar (ég spyr: Af hverju skall ekki á kreppa fyrir 1990 ef þessi löggjöf er sökudólgurinn?). Þess utan náði löggjöfin aðeins til sparibanka sem báru bara ábyrgð á brot undirmálslánana sem tengdust húsnæðisblöðrunni. Einnig sé rangt að kenna Fannie Mae og Freddie Mac um ástandið þó þessir ríkisstyrktu bankar séu ekki án ábyrgðar. Staðreyndin sé sú að vegna ýmissa hneykslismála hafi verið þjarmað svo að þessum bönkum að þau .léku bara minniháttarhlutverk í húsnæðislánaleiknum ljóta sem leikinn var af hvað mestri ákefð frá 2004 til 2006. Meginástæðan fyrir bankahruninu sé að ekkert opinbert eftirlit var með nýjum  bankaígildum, þ.e. stofnunum  sem í reynd voru bankar.

Sem sagt frægasti stjórnmálahagfræðingur samtímans andæfir frjálshyggjugreiningum á kreppunni!


VILLA SVARAÐ

 

Sæll Villi og þakka þér fyrir síðast! Svo ég vindi mér beint að efninu þá held ég ekki að markaðurinn sé vél heldur gagnrýni ég frjálshyggjumenn fyrir að tala eins og markaðurinn sé heilög vél sem öllu reddi svo fremi ríkið sé ekki að hella sandi í gangvirkið. Hvað BNA og Norðurlönd varðar þá er það einföld staðreynd að hagvöxtur hefur verið minni í BNA frá 1980 en hann var 1945-1980. Paul Krugman er einn fjölmarga fræðimanna sem bent hafa á þetta. Vissulega hefur hagvöxtur verið meiri í BNA en í ESB á þessum árum en eins og ég hef áður sagt stafar það m.a. af því að Evrópumenn vinna minna en framleiða jafn mikið á unna klukkustund og Kanarnir (skal senda þér tölur um þetta allt við tækifæri). Michael Dunford segir að önnur ástæða fyrir því að Evrópubúar njóta minni hagvaxtar sé feykilegur kostnaður af sameiningu Þýskalands, í þá hít fari 6-8% af þjóðarframleiðslu þessa efnahagsstórveldis Evrópu. Vegna mikilvægis Þýskaland veldur þessi hrikakostnaður því að önnur Evrópulönd bíða efnahagstjón. Hvað Ameríku varðar þá vita allir sem dvalið þar vestra á síðustu árum (ég var þar haustið 1996) að Bandaríkjamenn eru aftarlega á merinni í mörgum málum, lítt farsímavæddir og borga enn með tékkum, svo eitthvað sé nefnt. Símarstaurarnir amerísku eru eins og bautasteinar yfir ameríska efnahagsveldinu, löngu eftir að slíkir staurar hurfu í Evrópu norðvestanverðri eru þeir enn notaðir í Ameríku.  Í lok síðustu aldar voru Bandaríkjamenn síður nettengdir en Norðurlandabúar og auðugustu þjóðir Austur-Asíu, norska blaðið Aftenposten sagði árið  2000 að einungis 55% Bandaríkjamanna væru nettengdir, 70% Norðurlandabúa. Helsta útflutningsvara Bandaríkjanna í dag er dollarinn, landið lifir á seðlaprentun. Og ef ástand mála er svona slæmt í Svíþjóð eins og þú og Hannes H. haldið, af hverju var landið þá kjörið fremsta tækninýjungaland veraldarinnar árið 2003? Tíðni ungbarnadauða  er af mörgum talinn einn besti mælikvarðinn sem völ er á um lífskjör manna. Er skemmst frá því að segja að sú tíðni er miklu minni Svíþjóð en BNA. Dánartíðnin í BNA er 6.37 af hverjum 1000 nýfæddum börnum, 2.76 í Svíþjóð  (http://en.wikipedia.org/wiki/List of countries by infant mortality rate (2005)). Nefna má að hið frjálshyggjusinnaða tímarit The Economist viðurkennir að Svíþjóð blómstri þótt hlutur ríkisins  í vergri þjóðarframleiðslu sé meiri en í löndum þar sem efnahagurinn sé í mun verri málum. Sænska ríkið hirðir 57% af vergri þjóðarframleiðslu, hið franska 53%, hið þýska 47% og hið spænska 37%. Samt blómstrar Svíþjóð en hinn þrjú ríkin eru á hausnum og það þótt Spánverjar vinni mikið, meira en Frakkar og Þjóðverjar og þarf ekki mikið til.

Þú segir að lífskjör manna hafi batnað allmikið á Viktoríutímanum. Ekki eru allir sammála því, t.d. segir nóbelshagfræðingurinn Joseph Stiglitz annað í bók sinni Globalization and its Discontents. Hvað kreppuna varðar þá endurtekur þú bara eins og mantra að hún sé ríkinu að kenna. Þú staðhæfir án raka að í himnalagi hafiu verið að láta afleiðurnar afskiptalausar þótt Greenspan viðurkenni að rétt hafi verið að hafa opinbert eftirlit með þeim. Hvernig ætlarðu að skýra að nú skellur þessi mikla kreppa á en ekki á tímum þegar ríkið hafði mun meira eftirlit með fjármálamarkaðnum en nú? Af hverju urðu ekki stórkreppur á blómaskeiði ríkisþátttöku í vestrænu efnahagslífi (1945-1980)? Af hverju dundi hver stórkreppan á fætur annarri yfir vesrutlönd á 19du öldinni þegar ekki einu sinni var seðlabanki í BNA? Líklegast er að kreppan sé að mestum hluta markaðnum að kenna en ríkið hafi gert ilt verra, t.d. með íbúðalánunum.

Bkv

S


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband