MAÐUR ÁRSINS: FRÚ KREPPA!

 

Nýlega lauk stöð mín kjöri manns ársins sem var enginn annar en hún Kreppa Útrásardóttir! Enginn mótmælandi truflaði kjörið af einhverjum undarlegum ástæðum.


ENN UM VILHJÁLM ANDRA

 

Á ummælasíðu hefur geysað deila milli mín og ungs eldhuga, Vilhjálms Andra Kjartanssonar en hann er frjálshyggjusinnaðri en góðu hófi gegnir. Ég svaraði ekki almennilega staðhæfingum hans um að markaðsverð væri náttúrulegt verð en þá staðhæfingu rökstyður hann ekki. Ég hafði snuprað Geir Ágústsson fyrir þessa trú á náttúrulegt verð sem er ekkert annað en dæmi um að frjálshyggjumenn dýrka markaðinn eins og Guð. Það sem gerist á markaðnum er heilagt og náttúrulegt, halelúja!! Að gamni slepptu þá svífa hagfræðikenningar einatt í lausu lofti, eru lítt prófanlegar. Það gildir sérstaklega um skýrikenningar og kenningar sem varða grundvöll fræðanna. Kenningin um að markaðsverð sé náttúrulegt verð er ein slík kenning, mér er gjörsamlega hulið hvernig eigi að sannreyna þessa tilgátu. Hún er sennilega óprófanleg, áróðurs-kenning, ekki fræðikenning.

Vilhjálmur Andri gefur sér að frelsisskilningur frjálshyggjunnar sé sá eini rétti. En fræðimenn greinir mjög á um eðli frelsins. Hin frægi heimspekingur Gerry Cohen segir að markaðskerfið hefti frelsi manna, annar  enn frægari heimspekingur Charles Taylor að nafni segir að frelsisskilningur frjálshyggjunnar sé altof þröngur. Frjálshyggjumenn myndu neita því að barn sem alið hefur verið skpulega upp í tiltekinni stjórnmálaskoðun sé fórnarlamb kúgunnar, Taylor myndi janka því. Kristján Kristjánsson myndu gjalda jáyrði við þessu líka en á allt öðrum forsendum en Taylor. Ég ráðlegg ofurhuganum unga að kynna sér kenningar þessara manna, það sakar engan að víkka út sjóndeildarhring sinn.

 


DAVÍÐSKLÍKAN, HIÐ NÝJA ALÞÝÐUBANDALAG?

 

Eins og fram kom í síðasta bloggi hef ég verið að lesa nýjasta hefti tímarits Davíðsmanna, Þjóðmál. Í þessu tímariti er auðvaldið gagnrýnt all harkalega, öðru vísi mér áður brá. Einnig er hamast gegn ESB og þjóðleg verðmæti vegsömuð. Þessi boðskapur minnir ekki eilítið á málfluting Alþýðubandalagsins sáluga. Svo stofni Davíð flokk mætti kalla hann....getið tvisvar..jú Alþýðubandalagið!


GEIR ÁGÚSTSSON OG MISES UM HEIMSKREPPUNA

Í nýlegri grein í Þjóðmálum segir Geir Ágústsson að markaðurinn sé stikkfrí þegar heimskreppan er annars vegar, eins og Bubbi syngur "ekki benda á mig, segir varðstjórinn". Varðstjórinn hefur líklegar verið í frjálshyggjufélaginu og sungið með Geir sönginn um að undirrót vandans hafi verið einokun ríkisins á peningaprentun. Heimild Geirs fyrir þessu er frjálshyggjupáfinn og hagfræðingurinn  Ludwig von Mises. En Mises þessi var þeirrar skoðunar að hagfræði væri hrein hugvísindi og að reynslurök skiptu hana engu máli. Sé  kenning hans um að ríkiseinokun á peningaprentun valdi kreppum ekkert annað en hans hugarsmíð er ég ekki viss um að hana beri að taka alvarlega. Enda vitnar Geir ekki í neina "empiríu" máli sínu til stuðnings, aðeins í hugarsmíðar þar sem rakið er hvernig upplýstir og eigingjarnir gerendur myndu hegða sér við tiltekin skilyrði. Í ofan á lag þá hef ég ástæðu til að ætla að kreppur hafi átt sér stað áður en ríkið fékk einokun á peningaprentun. Til að gera illt verra segja þeir Mises og Geir að vextir sem skapast við frjáls viðskipti séu náttúrulegir vextir. En hvernig vita þeir það? Er hugtakið um náttúrulega vexti ekki jafn inntakslaust og hugtak marxismans um vinnugildi? Gefa þeir Geir og Mises sér ekki einfaldlega fyrirfram að hið góða og náttúrulega sé markaðskynja, hið illa og þar með kreppur séu ríkiskynja?


JÓLASVEINATAL

 

Athugasemdum  mínum um ósmekklegar jólaskreytingar var svarað á ummælasíðu með hefðbundnum skætingi fólks sem ekki veit hvað málefnaleg umræða er. Skammast er út höfund bloggsins (mig)  en staðhæfingum hans er ekki svarað. Þetta heitir á fræðamáli ad hominem rök, "rök" sem beinast að manninum, ekki rökum hans. Ég eyði ekki tíma mínum í að svara svona útúrsnúningum.


Um mjaðmadillandi Kana-jólasveina

Mín vegna mætti freta á svona amerískan viðbjóð, skammast mín altaf þegar ég kem heim til Íslands í jólafrí og sé amerísku fjöllita kúlurnar í æpandi, ógeðslegum litum. Svo ættu menn að sjá sóma sinn í að spara í kreppu, þessi mjaðmadillandi Kana-Sankti-Klás hlýtur að kosta talsvert fé.
mbl.is Jólasveinar valda deilum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

FRÉTTAFLUTNINGUR

 

Netmogginn birtir frétt um gagnrýni dansks blaðamanns á útrásarhöfingjana, sérstaklega Jón Ásgeir, Fréttablaðið ekki. Það birtir aftur á móti frétt um að Davíð hafi hótað að kljúfa Flokkinn yrði hann rekinn, Mogginn ekki. En eigendur blaðanna hafa náttúrulega engin áhrif á fréttaflutningin. Einkaframtakið er nú svo heilagt.


ÞURFA ÍSLENDINGAR OXÍTÓXÍNSPRAUTU?

 

Nýlegar rannsóknir sýna að hormónið oxítoxín eykur traust manna á öðru fólki. Aðrar rannsóknir sýna að Íslendingar treysta öðru fólki miklu síður en nágrannaþjóðirnar, trauststigið íslenska er u.þ.b. það sama og í BNA (þetta hlýtur að gleðja Kanasleikjurnar sem helst vilja gera Ísland að 51 ríkinu). Vandinn er sá að vantraust er dýrt, Adam Smith lagði þunga áherslu á að traust væri nauðsyn í viðskiptum. Í sama streng tekur Paul Zak sem stundar þá merku fræðigrein taugahagfræði (!!) en sú fræðigrein rannsakar samband heilastarfsemi og hagrænnar hegðunnar.  Hann hefur einmitt athugað samband oxítóxíns og slíkrar hegðunar. Þriðji fræðimaðurinn landahagfræðingurinn Mick Dunford segir að minna traust Kana á öðru fólki en ESB-búa skaði amerískt efnahagslíf en styrki hið evrópska. Og þá vaknar spurningin: Hefur ekki dregið verulega úr trausti Íslendinga á fólki á hinu helga framfaraskeiði útrásarinnar? Hve mikið kostar vantraust landsmanna þá mælt í beinhörðum peningum? Er lausn kreppunnar drjúgur skammtur af oxítoxín?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband