29.9.2023 | 00:48
DREIFBÝLI GEGN ÞÉTTBÝLI
Ég ætla ekki að ræða íslenska hreppapólitík í þessum pistli. Í stað þess hyggst ég beina sjónum mínum að sögu mannkynsins á síðustu tæpu hundrað árum.
Ég ætla að kynna kenningu mína um að spenna milli sveita og borga hafi leikið stærra hlutverk í sögunni en menn halda.
Þessu til sannindamerkis skal nefnt að nasistar voru að mörgu leyti dreifbýlisflokkur, þeir dásömuðu bændur og búalið enda nutu þeir mikils fylgis í sveitum Þýskalands.
Þýskir bændur væru heilbrigðir synir jarðarinnar, tengdir henni blóðböndum. Gagnstætt þeim voru borgir í hugum nasista úrkynjuð, gyðingleg lastabæli okrara, krata og kommúnista.
Reyndar voru sumir kommúnistar sveitanna megin, Maó Zedong var einn þeirra og fylgismenn hans flestir bændur. Æði margir þeirra sultu í hel eftir stóra stökkið hans Maós um 1960, sjaldan launar kálfur ofeldið, hann beitir fremur ofbeldi.
Einhver skyldleik var milli maóista og rauðu khemerana í Kambódíu en þeir voru haldnir hatri á borgarbúum.
Fyrsta verk þeirra eftir valdatökuna 1975 var að tæma bæi og borgir, slátra öllum menntamönnum (þeir voru borgarbörn), og neyða fólk til að þræla á ökrunum. Milljónir manna voru myrtir af khemurunum rauðu, hendur þeirra roðnar blóði.
Víetnamstríðið var líka að mörgu leyti stríð milli dreif- og þéttbýlis. Hin svonefnda Þjóðfrelsisfylking hafði töluvert fylgi á landsbyggðinni. Með harkalegum hernaði sínum ráku Bandaríkjamenn marga sveitamenn í faðm kommúnista.
En borgarbúar virðast fremur hafa stutt hina spilltu og stjórnlyndu Saigonstjórn eða verið alla vega andsnúnir hinum meintu þjóðfrelsismönnum og þeirra norður-víetnömsku vinum. Þeir sýndu sitt sanna andlit þegar stríðinu lauk.
Hér ber að nefna að kommúnistar hafa yfirleitt fremur verið borganna megin, alla vega í Evrópu. Í rússnesku byltingunni studdu borgarbúar fremur bolsévíka en andstæðinga þeirra sem sóttu sitt fylgi til sveitanna.
Meðal þeirra var sá af herjum borgarastyrjaldarinnar sem telja má her lýðræðissinna, Alþýðuher Komuch, her hins lýðræðiskjörna þings sem bolsevíkar ráku heim.
Hann var aðallega skipaður stuðningsmönnum Félagsbyltingarflokksins sem var róttækur umbótaflokkur er hafði mest af sínu fylgi á landsbyggðinni.
Í Afganistan var ástandið svipað þegar kommúnistar réðu þar ríkjum, það litla fylgi sem þeir höfðu var aðallega meðal borgarbúa.
Fyrr á árum voru borgir og bæir í Afganistan fremur vestrænir meðan sveitaalþýðan lifði í miðaldaheimi.
Borgarastyrjaldirnar þar í landi voru að ekki óverulegu leyti stríð milli dreif- og þéttbýlis.
Víkjum að vesturlöndum. Þjóðrembu-íhaldsöflin, sem nú stjórna Póllandi, sækja fylgi sitt til sveita, borgarbúar eru frjálslyndir og alþjóðlegir hugsun.
Hið sama gildir um Ungverjaland, Tyrkland, Bretland og ekki síst Bandaríkin. Þar vestra er dreifbýlisliðið hákristilegt afturhaldsfólk sem flatmagar fyrir Donald Trump. Þéttbýlisfólkið er einatt annarrar hyggju og kýs demókrata.
Ekki verður annað séð en að dreifbýlið ógni frelsi og lýðræði víða á hnettinum þótt þéttbýlismenn séu hreint ekki saklausir af því heldur.
Stadtluft macht frei, sögðu Þjóðverjar á miðöldum, borgarloftið gerir menn frjálsa.
Það er vissulega orðum aukið en eins og stendur er þéttbýlið fremur frelsisins megin en dreifbýlið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 30.9.2023 kl. 12:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.9.2023 | 18:16
VALDARÁNIÐ Í CHÍLE OG EFTIRLEIKUR ÞESS
Þann ellefta september verður hálf öld liðin síðan herinn í Chíle steypti lýðræðisstjórn Salvadors Allende, forseta.
Hann kom á einræðisstjórn herforingja sem markaði stefnu í anda markaðshygggju.
Enginn vafi á að Bandaríkin og ekki síst CIA áttu þátt í valdaráninu og því að veikja stoðir Allendestjórnarinnar, m.a. með því að grafa undan efnahag landsins.
Enda viðurkenndi CIA að hafa vitað af valdaráninu áður en það átti sér stað en neitar að hafa átt þátt í því.
Bandarísk þingnefnd komst að þeirri niðurstöðu að fátt benti til að CIA hafi tekið þátt valdaráninu en víst væri um að Bandaríkin hefðu reynt að grafa undan Allende-stjórninni.
Hver veit nema þetta sé rangt og CIA hafi átt þátt í að skipuleggja valdaránið.
Stjórn Allendes
En Allende og fylgjendur hans voru ekki hafnir yfir gagnrýni. Hann reyndi að breyta samfélaginu allróttækt án þess að hafa meirihluta þjóðarinnar að bakhjarli.
Hann fékk jú aðeins 36% atkvæða í forsetakosningunum árið 1970. Alþýðufylking hans fékk mest 44% atkvæða í þingkosningunum vorið 1973.
Hægrimenn og bandarískir vinir þeirra héldu að Allende yrði svo óvinsæll að hann hlyti tapa næstu kosningum.
En sú staðreynd að flokkur hans bætti talsvert við sig í þingkosningunum 1973 gæti hafa valdið því að þeir fóru að efast um það og tóku í stað þess að skipuleggja valdarán.
Það án þess að neitt benti til þess að Allende hygðist koma á kommúnísku einræði þótt þannig hugsandi menn hafi líklega mátt finna meðal stuðningsmanna hans.
Forsetinn var fremur róttækur krati en kommúnisti, eina hættan á kommúnísku einræði í Chile var sú að kommúnistar fremdu valdarán.
En mér vitanlega er ekkert sem bendir til að þeir hafi haft slíkt í hyggju.
Stjórn Pinochets og efnahagsstefna hennar
Hvað um stjórnarfarið í tíð valdaránsmanna? Frjálshyggjumenn hafi haldið efnahagsstefnu Augusto Pinochets mjög á lofti enda fór hann í flestu eftir forskriftum Miltons Friedmans og annarra frjálshyggjupostula (lét þó eiga sig að einkavæða koparnámurnar ábatasömu).
Því er til að svara að virtur norskur hagfræðingur, Kalle Moene, segir að hagvöxtur á valdaskeiði Pinochets hafi aðeins verið um 2% að jafnaði á ári (Moene 2007).
Nóbelshagfræðingurinn Joseph Stiglitz bendir á að eftir sjö ára friedmennsku hrundi efnahagurinn chíleski næstum árið 1982, hagkerfið dróst saman um 13.7% (!!) og fimmti hver verkamaður varð atvinnulaus (Stiglitz 2002: 114) (aðrir nefna hærri tölur, 14.3% og 23%) (sjá einnig Stefán Snævarr 2011, 4 kafla).
Milton Friedman afsakaði það með meintum mistökum í peningmálum, þar hafi Chílestjórn breytt gagnstætt formúlum frjálshyggjunnar.
Eins og Steinn Steinarr orti:
Og þótt þú tapir, það gerir ekkert til,
því það er nefnilega vitlaust gefið (Steinn Steinarr 1991: 164)
Spurt er: Hvers vegna hefur aldrei orðið viðlíka samdráttur í velferðarríkjunum á árunum eftir stríð? Hvers vegna hefur svo mikið atvinnuleysi ekki þekkst í þeirra ranni?
Getur þetta verið ábending um að tiltölulega frjáls markaður sé ávísun á miklar sveiflur í efnahagslífinu en blandað hagkerfi stuðli að stöðugri efnahag? Spyr sá sem ekki veit.
Stiglitz segir að eftir hrunið hafi Pinochet söðlað um og aukið ríkisumsvif í efnahagslífinu. Þá loksins hafi efnahagurinn tekið við sér og verið fremur blómlegur á síðustu sjö árum herforingjastjórnarinnar.
Naomi Klein segir að jafnvel á síðustu og bestu efnahagsárum Pinochets hafi hartnær annar hver Chílebúi verið undir fátæktarmörkum á meðan þeir ríku rökuðu saman fé.
Nú (árið 2007) sé svo komið að óvíða á jarðarkringlunni sé auði jafn misskipt og í Chíle, aðeins sjö þjóðir búi við ójafnari skiptingu (Klein 2007: 86).
Nær má geta hvort þessi misskipting hafi dregið úr valdi auðmanna og stórfyrirtækja.
Hinn frjálshyggjusinnaði Friedrich von Hayek sagði í viðtali við chíleska blaðið El Mercurio að stundum væri einræði nauðsynlegt til bráðabirgða.
Hann vildi fremur búa í frjálslyndu einræðisríki (les: Chíle Pinochets) en ófrjálslyndu lýðræðisríki enda séu engin rakatengsl milli hugtakanna um frelsi og lýðræði (samkvæmt t.d. Sallas 1981).
Lýðræði, einræði, frelsi
Frjálshyggjumenn hafa löngum talið að einræði væri ekki endilega andstætt einstaklingsfrelsi. Lýðræðið geti ógnað því, t.d. ef meirihlutinn kysi að kúga minnihlutann eða ef það leiddi smám saman til aukinna ríkisafskipta.
Vandinn er sá að írski heimspekingurinn Philip Pettit teflir fram máttugum rökum gegn þessu viðhorfi. Frelsi er að hans mati forræðisleysa (e. non-domination) (Pettit 1997: 51 og víðar).
Menn geti lifað lífi sínu óáreittir en samt verið háðir náð annarra manna.
Þeir síðastnefndu gætu hafa látið geðþótta sinn ráða er þeir afréðu að láta mennina í friði og gera þá þannig frjálsa að hætti frjálshyggjunnar (frjálshyggjumenn segja menn frjálsa ef enginn treður þeim um tær).
En þessir menn séu ekki raunverulega frjálsir því afskiptaleysið sem þeir búa við sé skilyrt (e. contingent), tilviljunum undirorpið. Það vildi einfaldlega svo til að ákveðnir einstaklingar ákváðu að láta þá í friði.
Þeir lúti forræði þessara einstaklinga, þeir séu upp á náð þeirra komnir og frelsi þeirra sé því takmarkað.
Þetta þýðir m.a. að menn geti ekki verið frjálsir í einræðisríki. Þótt einræðisherrann leyfi þegnum sínum allra náðarsamlegast að valsa frjálsir um þá lúti þeir eftir sem áður forræði hans.
Hugsum okkur mann sem býr í hverfi þar sem rustamenni nokkurt er forráða. En maðurinn hefur fengið að vera í friði fyrir rustanum, kannski af hreinni heppni.
Ef til vill er maðurinn slík gufa að ruddinn tekur ekki eftir honum. Eða hann er einfaldlega slægur og smjaðrar fyrir hverfis-Rambónum hvenær sem þeir hittast (sjá einnig Stefán Snævarr 2011, 8 kafli).
Sé þetta rétt þá voru íbúar Chíle ekki frjálsir um daga Pinochets þar eð herforingjastjórnin var forráða og frelsi þeirra því skilyrt.
Hver drap flesta miðað við höfðatölu?
Sál felldi sín þúsund, Davíð sín tíu þúsund segir á helgri bók.
Frjálshyggjumenn hafa löngum haldið því á lofti að herforingjastjórnin í Chíle hafi bara stútað um þrjú þúsund manns, kommúnistastjórn Kúbu tífalt fleiri (samkvæmt Svartbók kommúnismans, sú bók er ekki heilög fremur en önnur rit).
Þetta eigi að sýna að hægrieinræðisstjórnir séu jafnan síður ómannúðlegar en þær til vinstri.
En þeir gleyma afrekum hægrieinræðisstjórnarinnar í Argentínu sem bar ábyrgð á dauða níu þúsund til þrjátíu þúsund manns á aðeins níu árum.
Það þýðir að sú hægristjórn hafi verið jafn atgangshörð í manndrápum og kommúnistastjórnin á Kúbu.
Hið sama gildir um hægrieinræði Rafael Trujillo í Dóminíkanska lýðveldinu. Sú stjórn er sögð hafa borið ábyrgð á dauða fimmtíu þúsund manns.
Enn verra var hægrieinræði Súhartós í Indónesíu sem framdi valdarán með stuðningi Bandaríkjanna. Þessi stjórn slátraði 500000 til 1.2 milljónum meintra kommúnista á einu ári.
Þess utan má vel kenna nasismann við hægristefnu, nasistar þjóðnýttu ekki naglaspýtu, einkafyrirtæki á borð við I.G. Farben stórgræddu á vinnuafli þræla sem SS leigði þeim (sjá t.d. Kitchen 1976).
Hitler átti það til að vegsama einkarekstur þegar sá gállinn var á honum, nánar tiltekið hið eilíft skapandi einkaframtak ( det evigt skabende, private Enkeltinitiativer) (Hitler 1935: 11). Um morðæði nasista þarf ekki að fjölyrða.
Stjórn Pinochets kann að hafa verið skárri en sú argentínska, og örugglega skárri en sú nasíska.
En Pinochet virðist hafa verið þrælspilltur og auðgast með ólögmætum hætti á valdaskeiði sínu.
Alla vega má sjá að hægrimenn eru engir eftirbátar kommúnista hvað blóðþorsta varðar. Eins og Mercutio segir í Rómeó og Júlíu Shakespeares "A plague on both your houses!"
Lokaorð
Þótt stjórn Allendes væri engan veginn hafin yfir gagnrýni réttlætir það ekki afskipti Kana, valdaránið og kúgunina i kjölfari þess.
Tilraun frjálshyggjumanna til að skjóta skildi fyrir Pinochet misheppnast, örvar sannleikans fljúga í gegn.
Heimildir:
Biblían, Fyrri Samúelsbók 18 kafli https://biblian.is/biblian/fyrri-samuelsbok-18-kafli/
Hitler, Adolf 1935: Lighed giver fred (þýðandi Clara Hammerich): København: Hasselbalch.
Kitchen, Martin 1976: Fascism. London: MacMillan Press.
Klein, Naomi 2007: The Shock Doctrine. Harmondsworth: Penguin.
Moene, Kalle 2007: Ubrukelige utopier, Morgenbladet, 5 október.
Pettit, Philipp 1997: Republicanism. A Theory of Freedom and Government. Oxford: Oxford University Press.
Sallas, Renee 1981: Friedrich von Haeyk, Leader and Master of Liberalism, El Mercurio, 12. apríl, http://www.fahayek.org/index.php?option=com_content&task=view&id=121&Itemid=0. Sótt 3/9 2010.
Stefán Snævarr 2011: Kredda í kreppu. Frjálshyggjan og móteitrið við henni. Reykjavík: Heimskringla.
Steinn Steinarr 1991: Að sigra heiminn, Ljóðasafn. Vaka-Helgafell: Reykjavík, bls. 164.
Stiglitz, Joseph 2002: Globalization and its Discontents. Harmondsworth: Penguin Books.
Opinber bandarísk gögnhttps://nsarchive2.gwu.edu/NSAEBB/NSAEBB8/nsaebb8i.htm
Opinber bandarísk gögnII: https://history.state.gov/milestones/1969-1976/allende
https://en.wikipedia.org/wiki/Crisis_of_1982
https://abcnews.go.com/International/story?id=82588&page=1
https://en.wikipedia.org/wiki/Presidency_of_Salvador_Allende
https://en.wikipedia.org/wiki/Dirty_War
https://www.hrw.org/news/2005/03/16/chile-pinochet-money-laundering-exposed
https://en.wikipedia.org/wiki/Rafael_Trujillo
Stjórnmál og samfélag | Breytt 12.9.2023 kl. 09:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)