12.4.2023 | 21:45
KANAR GEGN RÚSSUM. Annar hluti: Hinn bandaríski Janus
Bandaríkin eru undarlegt sambland af frosti og funa, sum part ríki frjálslyndis og lýðræðis, sum part ríki rasisma og auðvalds, að nokkru marki ríki húmanisma, að öðru leyti imperíalisma. Bandarískt samfélag er eins og guðinn Janus, með tvö andlit, annað myrkt, hitt bjart.
Evrópskir innflytjendur á nítjándu öldinni öðluðust meira frelsi en þeir höfðu áður haft, Gyðingar sem fluttust frá rússneska keisaraveldinu voru frelsinu fegnir.
Þeir voru kúgaðir með villimannlegum hætti af keisaraveldinu, hvað eftir annað voru framinn fjöldamorð á þeim með velþóknun Moskvuvaldsins. Þeir máttu heldur ekki versla annars staðar en á því takmarkaða svæði þar sem þeim var leyft að búa.
Í Bandaríkjunum varð þeim kleift að stunda hnattræn viðskipti, það þrátt fyrir að steinar væru lagðir í götu þeirra þar vestra.
Sum staðar í Bandaríkjunum var þeim bannað að kaupa land og húsnæði, háskólar vildu lengi helst ekki hafa Gyðinga meðal kennara. En þá stofnuðu þeir sína eigin háskóla.
Þeir voru að því leyti til heppnir að hvítir Kanar voru vanir að fyrirlíta og hata annan kynþátt, hina svörtu. Þrælahald var lengi við líði í Bandaríkjunum og þurfti heila borgarastyrjöld til að afnema það. Hannes Gissurarson neitar því og heldur því ranglega fram að Lincoln hafi árið 1860 ætlað sér að banna þrælahald (hann segir þetta á feisbók).
Nei og aftur nei, er hann var kosinn forseti þá vildi hann banna nýjum ríkjum Bandaríkjanna að leyfa þrælahald. Það þoldu þrælahaldararnir í suðrinu ekki og vöktu upp her og réðust á Suntervirkið, sögðu sig úr lögum við Bandaríkin. Þegar þrælahaldaraherinn réðist inn í Pennsylvaníu hóf hann veiðar á brotthlaupnum þrælum. Það er ekki fyrr en 1863 að Lincoln og þingið láta banna þrælahald.
Blessunarlega lauk stríðinu með sigri Norðanmanna en fljótlega fundu kynþáttahatararnir upp aðferðir til að halda blökkumönnum í skefjum. Þeir voru í reynd sviptir kosningarétti og 5000 hengdir án dóms og laga, oft í viðurvist venjulegra Suðurríkjahvítingja. Ekki gekk að fá morðingjana dæmda, alhvítir kviðdómendur sáu um það.
Bandaríkin voru sköpunarverk byltingar. Hún tókst að því leyti vel að komið var á kerfi þar sem vald var temprað með skýrri þrígreiningu valds og því dreift á hin einstöku ríki.
En Janusinn ameríski sýndi sig að vanda, um þriðjungur þjóðarinnar voru mansmenn og frumbyggjar voru réttlausir á meðan hinir hvítu (alla vega karlmenn) nutu meira frelsis en fólk víðast annars staðar á jarðarkringlunni.
Samsæri auðvaldsins?
Það er til marks um hinar mikla andstæður í bandarísku samfélagi að á meðan blökkumenn og indíánar voru réttlausir þá var lýðræði allvíðfeðmt í Bandaríkjunum, enn þann dag í dag eru dómarar og jafnvel lögreglustjórar kosnir lýðræðislegum kosningum.
Þá kann einhver að segja að þetta lýðræði sé mest á yfirborðinu, bak við tjöldin togi auðmenn og stórfyrirtæki í spottana. Bandaríkjamaðurinn haldi að hann sé frjáls en hann sé kúgaður af auðvaldinu.
Nú er út af fyrir sig rétt að auðurinn hefur of mikið að segja í bandarísku samfélagi en vandinn er sá að það handfasta við kosningaúrslit þar og annars staðar er það hvernig atkvæði féllu. Ekki það sem olli því að menn greiddu atkvæði með þessum eða hinum hættinum.
Við getum tæpast vitað með vissu hvort fokdýrt auglýsingaskrum ráði miklu um það hvernig menn kjósa, það handfasta er að þeir kusu.
Það er meira að segja alls ekki víst að rússnesku tölvu-tröllin hafi haft mikið að segja um úrslit kosninganna 2016. Fræðimaður nokkur segir í viðtali að áróður tölvu-tröllana hafi aðallega styrkt þá sannfærðu í sinni sannfæringu um ágæti Trumps en haft lítil áhrif á aðra.
Hér ber þó að nefna að tæpast er það tilviljun að mikið er rætt um aukin áhrif auðs á kosningar vestanhafs, það er sjaldan reykur án elds. Meira að segja Trump lagði áherslu á það og taldi lausnina vera að kjósa auðmenn eins og sig, þeir væru ekki háðir fjárgjöfum frá stórfyrirtækjum og peningamönnum.
Hvað sem því líður held ég að Úkraína sé nær því að vera auðvaldsríki en BNA, einnig Rússland á dögum Jeltsíns (í dag er ríkiskapítalismi í Rússlandi, auði er meira misdreift þar í landi en í Bandaríkjunum).
Nýlega sagði Prígósin að hin eiginlega ástæða fyrir innrásinni í Úkraínu hafi verið löngum rússneskra óligarka að hremma auðlindir landsins. Ekki skal dæmt um það.
En hin dólgamarxíska kenning um hið falda vald stendur á leirfótum. Ekki þýðir að vitna í bók Jóhannesar Björns um falið vald þar eð hún var nánast örugglega ekki ritrýnd, þess vegna vitum við ekkert um gæði þeirra heimilda sem hann vitnar í (Jóhannes Björn 1979).
Mistúlkaði hann þær? Voru þær tilbúningur? Ef heiminum er stjórnað af samsærum eins og Jóhannes Björn virðist hafa haldið getum við ekki útilokað að hann hafi verið fórnarlamb samsæris manna (t.d. KGB manna) sem búið hafi heimildirnar til. Auðvitað gæti hann hafa rambað á sannleikann en ég tel það ólíklegt vegna þess að ýmsar mikilvægar staðreyndir benda í aðra átt, alla vega hvað Bandaríkin varðar.
Um aldamótin 1900, á gylltu öldinni, voru auðhringir orðnir feiknvaldamiklir vestanhafs. Standard Oil réði 90% olíumarkaðarins, US Steel sama hluta stálmarkaðarins. Nóbelshagfræðingurinn Paul Krugman segir að fyrirtækin hafi keypt dómara og stjórnmálamenn, jafnvel haft óviðurkvæmileg áhrif á kosningar.
Þá gerist að forsetinn, Theodore Roosevelt, tekur sig til og dregur stærstu vígtennurnar úr auðhringjunum, neyðir þá til að skipta sér í smærri félög. Hefði auðvaldið ráðið öllu þá hefði Roosevelt verið þjónn þeirra en það var hann ekki!
Paul Krugman segir reyndar að það hafi ekki að öllu leyti verið vel heppnað, sum fyrirtækin hafi skriðið saman bak við tjöldin. Gylltu öldinni hafi ekki lokið fyrr en með kreppunni 1929 (Krugman 2007).
Margt bendir til þess að drjúgur hluti bandarískra ríkisbubba hafi verið andsnúnir Franklin Roosevelt, samt vann hann forsetakosningar fjórum sinnum.
Nefna má að hinn ofurríki Henry Ford hamaðist gegn forsetanum. Og ríkisbubbar, með annan auðkýfing, J.P. Morgan, í broddi fylkingar, brugguðu launráð gegn honum. Veltu fyrir sér í fúlustur alvöru að fremja valdarán.
Fleiri staðreyndir benda gegn hinni dólgamarxísku kenningu um hið falda vald vestanhafs. Hvar er snjórinn sem féll í fyrra?, aðeins eitt þeirra fyrirtækja sem voru meðal hinna tíu stærstu í BNA árið 1997 fyllir nú þann flokk. Ekkert þeirra fyrirtækja sem stærst voru árið 1960 kemst nú á topp tíu-listann.
Ef auðhringar og -menn hefðu stjórnað öllu bak við tjöldin þá hefðu þeir komið í veg fyrir að splunkuný stórfyrirtæki ryddu hefðgrónum stórfyrirtækjum úr vegi.
Kenning um hið falda vald skýrir heldur ekki hvers vegna mikil nýliðun hefur átt sér stað meðal hinna alríkustu, Jeff Bezos, Bill Gates, Elon Musk, Sergei Brijn o.fl. komu úr þjóðar- og alþjóðadjúpinu.
Gat hið falda vald ekki komið í veg fyrir að þeir veltu meintum ofurvaldamiklum auðkýfingum úr sessi sem ríkustu mönnum BNA? Af hverju fór stórfyrirtækið Enron á hausinn og af hverju var forstjóra þess stungið í fangelsi, manni sem var vinur forsetans?
Þess utan er drjúgur hluti af bandarískum milljónamæringum popparar, Hollywoodleikarar og ofdekruð afkvæmi milla af Kardashintaginu. Litlar líkur eru á því að þetta lið sé í því að toga í spotta valdsins eða skyldu Kim Kardashin og Bruce Springsteen skipa Bandaríkjaforseta fyrir?
Auk þess eru rannsóknarblaðamenn og gagnrýnið fólk á hverri hundaþúfu í Bandaríkjunum. Rannsóknarblaðamenn afhjúpuðu fjöldamorðin í My Lai, Watergatehneykslið o.s.frv. Góð dæmi um það sem ég kalla bandarísku bremsuna, hún bremsar oft hneigðir valdhafa þar vestra til yfirgangs (Rússa skortir slíka bremsu).
Bremsan virkaði líka þegar CIA var tekið á beinið af rannsóknarnefnd öldungadeildarinnar undir forystu þingmannsins Frank Church. Afleiðingin mun hafa verið sú að CIA var í mörg ár að ná sér aftur.
Af hverju kom Auðvaldur sjálfur ekki í veg fyrir það? Var ekki CIA mikilvægt tæki í valdatafli hans? Er ekki líklegt að rannsóknarblaðamenn og nefndir hefðu fyrr eða síðar afhjúpað hið meinta falda vald?
Heimspekingurinn Karl Popper segir að samsæriskenningasmiðir trúi því að mannkynssagan sé saga samsæra, Gyðingar eða yfirstéttir ráði gangi mála bak við tjöldin. En gallinn sé sá að veröldin er of flókinn til að líklegt sé að hægt sé að breyta gangi hennar róttækt með samsærum.
Nasistarnir hafi reynt það en þeim mistókst. Í ofan á lag séu litlar líkur á að hægt sé halda stórfelldum samsærum leyndum í opnu, frjálsu og lýðræðislegu samfélagi (Popper 1971: 94-96).
Hvers vegna er erfitt að stjórna gangi sögu og samfélaga? Svar Poppers er að athafnir manna einatt óætlaðar afleiðingar, því víðfeðmari sem athafnirnar séu, því meiri líkur á óætluðum afleiðingum.
Napóleon ætlaði að verða herra Evrópu en óætluðu afleiðing gjörða hans var sú að með franska hernum fylgdu frelsishugmyndir byltingarinnar 1789. Hafandi uppgötvað ágæti frelsisins höfnuðu Evrópubúar forræði Napóleons (honum til afbötunar skal sagt að stórher hans leysti rússneska bændur úr ánauð, hefði Rússland skánað ef hann hefði borið sigurorð af zarnum?).
Bæta má við að óligarkar réðu miklu í Rússlandi um stutt skeið, þeir stóðu á bak við kosningasigur Jeltsíns 1996. En misstu svo völdin þegar Pútín skóp nýja stétt ólígarka sem lutu honum, hann er aðalólígarkinn. Rússar fóru úr öskunni í eldinn.
Hvað sem því líður þá hafa stjórnmálamenn og ríkisstarfsmenn sinna hagsmuna að gæta og þeir ekki endilega þeir sömu og hagsmunir peningamanna.
Ríkið hefur sínar ástæður sem auðvaldið veit ekkert um, valdið kemur fremur upp úr byssuhlaupum en seðlaveskjunum. "Vald er þat, eigi fé" segir í Grágás að mig minnir.
Bandarískir forsetar eru venjulega mjög valdsæknir menn og því ólíklegt að þeir beygi sig umyrðalaust undir auðmenn, þeir hljóta að reyna að efla eigið vald eins mikið og kostur er á. Þeir hafa jú byssurnar, auðmenn ekki.
Ekki má heldur gleyma því að þeir eru líka háðir fjárgjöfum frá almenningi, ef tíu milljón Kanar með meðaltekjur borga hver sinn 100 dollar í kosningasjóð stjórnmálamanns getur hann náð langt, Sanders þiggur ekki fé frá auðmönnum og -fyrirtækjum.
Eitthvert tillit verður forseti að taka til almúgans sem á þátt í að fjármagna kosningar hans. Þess utan eru forsetar lausir allra mála á öðru kjörtímabili, þá þurfa þeir ekki að hugsa um endurkjör og geta gefið auðmönnum og stórfyrirtækjum langt nef.
Mér vitanlega eru ekki til neinar sannanir fyrir því að Bandaríkjaforseti hafi látið auðmenn segja sér fyrir verkum.
Enda er ekki ósennilegt að auðmenn og -fyrirtæki kaupi sér fremur áhrif og velvild en völd þegar þeir dæla fé í frambjóðendur. Ekki síst vegna þess að ekki er hlaupið að því að kaupa sér völd, þó má alls ekki útiloka þann möguleika að mikil áhrif hverfist í völd.
Því má ekki gleyma að þessir aðilar eru áhættusæknir og reikna með því að nokkur hluti fjárfestinga þeirra tapist. Alls ekki er ósennilegt að slíkt gildi stundum um "fjárfestingar" þeirra í forsetum. Stundum tapist sú fjárfesting, forseti "svíki" þá í tryggðum. Játað skal að fyrir þessari staðhæfingu hef ég engar sannanir.
Víkjum aftur að því sagt var um að ríkið ætti byssurnar, auðmenn ekki.
Þessu til sannindamerkis skal sögð sagan af þýska auðjöfrinum Fritz Thyssen. Hann hafði stutt nasista með ráðum og dáð en tók svo að gagnrýna kerfið og var stungið inn (Thyssen 1941).
Ekki þýðir að segja að auðmenn framleiði byssurnar því ríkið getur hæglega þjóðnýtt framleiðsluna. Ef auðmenn réðu öllu í kapítalískum samfélögum þá hefði Thyssen stungið Hitler inn, ekki öfugt.
Hvað um her-iðnaðar samsteypuna (e. the military industrial complex) sem Eisenhower varaði við? Vissulega er hún valdamikil vestanhafs en á móti kemur að fyrir hvern aur sem rennur til hennar tapa önnur, valdamikil stórfyrirtæki, t.d. kjörbúðakeðjur.
Ekki er ósennilegt að slík fyrirtæki tempri að einhverju leyti vald samsteypunnar. Vald atkvæða líka, einnig gagnrýnir blaðamenn og aðrir bremsumenn.
Allt þetta bendir gegn því að Bandaríkin séu hreinræktað auðvaldsríki og stjórnað af földu valdi. En þróunin þar á síðustu áratugum er uggvænlega, raunlaun á unna klukkustund staðið lengi í stað, misdreifing auðs hefur vaxið mikið og auðmenn og stórfyrirtæki orðið mjög valdamikil, svo virðist sem ný gyllt öld sé hafinn í Bandaríkjunum.
Bandaríkin er ekki lengur það land þar sem félagslegur hreyfanleiki er mestur, ameríski draumurinn er að hverfast í martröð (sjá t.d. Cawhill og Morton 2008). Á móti kemur að kjör blökkumanna hafa skánað talsvert.
Athugið líka að sú staðreynd að félagslegur hreyfanleiki var mestur þar vestra mjög lengi mælir gegn kenningunni um alveldi auðsins.
Auðvaldið hlýtur að hafa hag af því að draga úr hreyfanleika svo ekki rísi ný fyrirtæki og auðmenn sem keppi við það. Það gerðist ekki um langt skeið, svo alla vega á því tímabili var auðurinn fjarri því að vera alvaldur vestanhafs.
Skásta kenningin um vestræn samfélög er hin svonefnda fjölelítu kenning. Samkvæmt henni er vissulega munur á Jóni og séra Jóni í þessum samfélögun, valdi er misdreift í þeim. En það sé huggun harmi gegn að til séu ýmsar elítur sem kljást um völd og áhrif, barátta þeirra kemur í veg fyrir að vald safnist í hendur einnar elítu (t.d. Schumpeter 1976).
Til dæmis ráða stjórnmálamenn, verkalýðsleiðtogar, jafnvel menntamenn og ýmis fyrirtæki hvert sínum geira samfélagsins um leið og alþýða manna hefur umtalsverð völd bæði vegna kosningaréttar og eins atkvæðisréttar sem neytendur (vilji þeir ekki tiltekna vöru geta þeir sett heilu stórfyrirtækin á hausinn).
Hin ýmsu stórfyrirtæki hafa ekki endilega sameiginlega hagsmuni, ef vopnaframleiðsla er aukin þá tapa fyrirtæki sem framleiða neysluvarning (og öfugt). Þetta veldur stöðugri togstreitu milli fyrirtækjanna, hún dregur mjög úr líkum þess að til verði auðvald allsherjar.
En eins og áður segir hefur vald auðsins aukist vestanhafs, bandarísku fræðimennirnir Martin Gilens og Benjamin I. Page gerðu empiríska úttekt á ýmsum kenningum um vald í amerísku samfélagi.
Sú kenning sem kom best út úr rannsókninni var kenningin um hlutdrægt fjölmiðjukerfi (e. biased pluralism). Samkvæmt henni er bandarískt samfélag vissulega fjölmiðjusamfélag en kerfið sé samt tekið að draga taum ríkisbubba og stórfyrirtækja í mun ríkari mæli en almennings. Því valdi aukinn ójöfnuður síðustu áratuga (Gilens og Page 2014: 564-581).
Sumir fræðimenn, t.d. Josef Schumpeter, telja að tilvist úrvalshópa, sem keppa við hver aðra, komi í veg fyrir skrílræði. Ég held hins vegar að til séu fá dæmi um skrílræði og því vafasamt að staðhæfa mikið um hættur af því.
Það gæti verið stjórnhugmynd lýðræðisríkja að valdi sé dreift eins mikið og kostur er, að tempra vald úrvalshópa eins mikið og mögulegt sé.
Ein meginveila Bandaríkjanna er hið fremur veikburða velferðarríki, önnur hið mikla ofbeldi. Á móti kemur hinn mikli sköpunarkraftur Kana, ekki síst í vísindum, heimspeki og á tæknisviðinu. Þeir fundu upp ljósaperuna, flugvélina og einkatölvuna svo nokkuð sé nefnt.
Hvaða tæknilegar nýjungar hafa komið frá Rússlandi? Gervihnettir? Kjarnorkuver? Tækni þeirra síðastnefndu var ættuð frá Bandaríkjunum, sovéskir njósnarar stálu henni.
Lokaorð
Bandaríkin eru tvíbent, land mikilla öfga, annars vegar frjálslyndis og mannúðar, hins vegar rasisma, ofbeldis og auðræðis. Samt er landið alls ekki hreinræktað auðvaldsríki en hefur á síðustu árum vanþróast í áttina að hlutdrægu fjölmiðjukerfi.
Niðurstaðan í þessari færslu er sú að þrátt fyrir sína mörgu og miklu galla sé bandarískt samfélag mun skárra en hið rússneska. Samkeppnin er ekki hörð.
Í þriðja og síðasta hluta mun ég bera saman utanríkisstefnu þeirra.
Heimildaskrá:
Cawhill, Isabell og Morton, John E. 2008: Economic Mobility: Is the American Dream Alive and Well? http://www.economicmobility.org/ Sótt 10/9 2009.
Flake, Lincoln 2019: Nonsense from the beginning o.s.frv. The Journal of Slavic Military Studies, Vol. 32, Issue 4, bls. 549-552, https://www.tandfonline.com/doi/full/10.1080/13518046.2019.1690189
Gilens, Martin og Page, Benjamin I. 2014: Testing Theories of American Politics: Elites, Interest Groups, and Average Citizens, Perspectives on Politics, September Vol. 12, No. 3, bls. 564-581.
Popper, Karl 1971: The Open Society and its Enemies. Volume II: Hegel and Marx. Princeton, New Jersey: Princeton University Press.
Schumpeter, Josef 1976: Capitalism, Socialism, and Democracy. London: Unwin.
Thyssen, Fritz 1941: I paid Hitler. (þýðandi César Saerchinger). London: Hodder and Stoughton Ltd.
Um Frank Church og CIA https://www.levin-center.org/frank-church-and-the-church-committee/
Um forsetakosningar 1936 https://about.proquest.com/en/blog/2016/That-Time-the-Literary-Digest-Poll-Got-1936-Election-Wrong/
Um stórfyrirtæki 1997-2023 https://en.wikipedia.org/wiki/List_of_public_corporations_by_market_capitalization
Um stórfyrirtæki 1960 https://money.cnn.com/magazines/fortune/fortune500_archive/full/1960/
Um bandarísku borgarastyrjöldina https://en.wikipedia.org/wiki/American_Civil_War
Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.9.2023 kl. 11:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
12.4.2023 | 21:05
KANAR GEGN RÚSSUM. Fyrsti hluti: Rússland, saga og samfélag.
Í lok síðustu aldar starfaði kona nokkur í tengslum við rússnesk-bandarísk tónlistarsamstarf. Það gekk ekki nema miðlungi vel, konan tjáði mér að Rússar og Kanar væru eins og hundar og kettir. Rússar væru algerir stigveldismenn og skildu ekkert annað, Kanar hið gagnstæða og botnuðu ekkert í rússneska stigveldinu.
Enda er sagan um tengsl þessara þjóða fremur saga um átök en samvinnu, nú síðast vegna Úkraínustríðsins. Skulu þessi tengsl rædd í þarnæstu færslu. Í þessari færslu mun ég ræða sögu og samfélag Rússa, í næstu færslu sögu og samfélag Bandaríkjamanna. Í þarnæstu færslu beini ég sjónum mínum að utanríkisstefnu þeirra í tímans rás.
Hér að neðan mun ég fyrst ræða sögu hins rússneska kúgunarsamfélags frá Ívani grimma til Pútíns og zar-fasisma hans.
Þá beini ég sjónum mínum að Sovétríkjunum og segi Karl Marx ekki alsaklausan af hinni sovésku eymd og kúgun. Marxisminn hafi skorað sjálfsmark.
Hið rússneska kúgunarsamfélag
Moskvuríkið varð til í lok miðalda, á sextándu öld hefur Ívan grimmi mikla útþenslu og leggur m.a. undir sig hið fremur frjálslynda borgríki Hólmgarð (Novgorod) og lét fremja skelfileg fjöldamorð á íbúunum. Þar dó hinn mjói vísir að frjálslyndu Rússlandi.
Á sautjándu öld varð austurhluti Úkraínu hluti af Moskvuveldinu þegar Kósakkaríkið þar kaus að beygja sig undir keisarann, í von um að hann verði það gegn pólsk-litáíska veldinu (Plokhy 2016).
Enn þenst ríkið á átjándu öld út fyrir atbeina Péturs mikla og Katrínar miklu, á þeirri nítjándu leggja Rússar undir sig Mið-Asíu og nokkurn hluta af Kínaveldi, t.d. svæðið þar sem nú er Vladivostok. Minnast má þess að þeir gleyptu stóran hluta af Póllandi, alla Georgíu og Finnland.
Einnig má nefna að Rússakeisara tókst að útrýma Sirkasissaþjóðinni sem byggði lönd við Svartahafið. Sirkasissar voru strádrepnir og restinni vísað úr landi, rússneskir bændur komu í staðinn. Einhver staðar las ég að enginn keisari hafi verið talinn standa sig í stykkinu nema hann yki yfirráðasvæði Rússlands.
Rússland varð til vegna útþenslustefnu og hið sama gildir um Bandaríkin. Þau þöndu sig yfir meginþorra Norður-Ameríku á kostnað indíánanna sem voru strádrepnir eða reknir inn á afmörkuð svæði. Einnig háðu Bandaríkjamenn stríð við Mexíkóana og lögðu undir sig mikið landflæmi sem áður var hluti af Mexíkó.
Til að skilja Moskvuríkið verða menn þekkja forsögu þess (um rússneska sögu, sjá t.d. Hoskins 2012). Rússland og drjúgur hluti Úkraínu voru lengi hluti af yfirráðasvæði Mongóla og þeirra tatörsku fylgiþjóðar. Þó með þeim hætti að furstar hinna ýmsu austur-slafnesku ríkja voru skattskyldir Mongólum en höfðu visst sjálfsstæði.
Alltént minnkaði stjórnlyndi Rússa ekki fyrir vikið, þess utan fór endurreisnin með sitt frjálsræði fram hjá Rússum. Í stað þess fengu furstar Moskvuríkisins þá grillu í höfuðið eftir fall Konstantínópels að Moskva væri hin þriðja Rómarborg, Moskvufursti einn hafði gifst frænku síðasta Býsanskeisara. Heimsfrelsunardella Rússa virðist eiga sér rætur í þessari grillu (Bandaríkjamenn hafa líka slíkar grillur).
Ekki frelsuðust ánauðugir bændur fyrir vikið, um 80% rússneskra bænda voru ánauðugir og mátti selja heilu þorpin eins og kvikfénað (napra og skemmtilega lýsingu á þeirri sölumennsku má finna í skáldsögu Gógols, Dauðar sálir).
Reyndar segir a.m.k. einn sagnfræðingur að innan ramma þorpanna hafi verið vísir að lýðræði og þau hafi notið vissrar sjálfsstjórnar (Hoskins 2012)(mig minnir að Marx segi eitthvað svipað).
Sami sagnfræðingur leggur áherslu á að aðallinn hafi haft umtalsverð völd á meðan Fiona Hill og Glifford Gaddy segja að hann hafi verið mun háðari keisaranum en aðallinn í Evrópu vestanverðri. Þau segja að kerfi Pútíns sé í samræmi við það, hann úthluti vildarvinum miklum gæðum, eins og keisararnir forðum (Gaddy og Hill 2015).
Rétttrúnaðarkirkjan rússneska flatmagar fyrir honum enda vön slíku atferli. Í löndum rétttrúnaðarins er hefð fyrir því að ríkið ríki yfir kirkjunni, þannig voru býsanskeisarar yfirmenn kirkjunnar á meðan kaþólikkar guldu páfanum það sem páfans var, keisaranum það sem hans var.
Þannig var kirkjulegt og veraldlegt vald aðskilið á Vesturlöndum, ekki í Rússlandi þar sem kirkjan var hluti af veldi keisaranna. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að frjálsræði hefur búið við betri kjör í Evrópu vestanverðri en í Rússlandi.
Norskur prófessor í rússnesku, Ingunn Lunde að nafni, segir að menning hafi löngum verið tæki sem rússneska heimsveldið hafi notað til að efla vald sitt (Lunde 2023).
Þegar á átjándu öld höfðu Rússakeisarar hirðskáld sem lofuðu þá. Og gagnstætt sem margir halda hafi hinir miklu rithöfundar nítjándu aldarinnar verið fremur valdsins megin en hitt. Þjóðskáldið Alexander Púskín hafi vissulega oft verið gagnrýninn á samfélagið og þurft að berjast við ritskoðunina. En hann hafi ekki gagnrýnt hið rússneska heimsveldi, er Rússar lögðu undir Kákasus hafi þeir færst íbúunum siðmenningu (ég spyr: Í líki bændaánauðar?).
Lunde bætir við að í kvæði um orrustuna við Poltava lofi hann heimsveldið og fordæmi úkraínska kósakkahöfðingjann Ivan Mazepa sem barðist með Svíum gegn Pétri mikla, Rússajöfri. Til að gera illt verra hafi Púskín ort kvæði þar sem hann verji það hvernig Rússaher braut á bak aftur uppreisn Pólverja árið 1831 en þeir voru kúgaðir af Moskvuvaldinu.
Hvað um Dostójevskí? Sat hann ekki í fangabúðum vegna andófsstarfsemi? Vissulega, svarar Lunde, en hann breytti um skoðun, tók að aðhyllast trúar-mýstík og rússneska þjóðrembu. Lunde segir að ekki sé óalgengt meðal rússneskra menntamanna að þeir berjist fyrir auknu einstaklingsfrelsi en verji um leið heimsveldið rússneska.
Gott dæmi sé nóbelshafinn Josef Brodskí sem lenti illa í Sovétvaldinu og flutti til Bandaríkjanna. Hann hafi ort níðkvæði um Úkraínu þegar landið öðlaðist sjálfsstæði. Eftir að hafa hellt svívirðingum yfir Úkraínumenn hafi hann lokið kvæðinu á að segja að á dauðastund muni Úkraínumaðurinn vitna í Púskín, ekki í lygar Taras Sévstenkós, þjóðskálds Úkraínumanna. Pútín hefði ekki getað gert betur.
Lunde segir að ekki megi gleyma því að Rússaher stundi menningarstríð á hernumdu svæðunum í Úkraínu. Úkraínskar bókum sé hent út úr bókasöfnum, samanber bókabrennur nasista. Einungis sé kennt á rússnesku í skólum, söfn eyðilögð og menningarverðmætum stolið.
Í Maríupol, sem rússnesku yfirgangsseggirnir eyðilögðu, sé komið stórum skiltum með myndum af rússneskum rithöfundum. Hún gefur í skyn að úkraínskuvæðing Kænugarðsstjórnar sé skiljanlegt viðbragð við rússneskri menningarheimsvaldastefnu.
Ég er ekki dómbær á boðskap Lundes en vil þó minna á að ýmsir andans menn rússneskir hafa andæft valdsmönnum og kerfi þar. Nefna má Lev Tolstoj, anarkistann Mikael Bakúnín, og Andrei Sakharov. Alexandr Solsénitsin andæfði vissulega sovétvaldinu en hafði afturhaldssamar, stjórnlyndar, þjóðrembu- og réttrúnaðarskoðanir.
Hvað um rússneskan almenning? Kunningi minn sem giftur er rússneskri konu og kann rússnesku, segir mér að æðimargir Rússar séu tilbúnir til að herða sultarólina ef það verður til þess að vald og dýrð Rússlands aukist.
Rússneski rithöfundurinn Ludmila Ulitskaja segir í viðtali við norskan fjölmiðil að hinn undirlægjusami homo sovieticus lifi enn góðu lífi í Rússland. Hafi Ulitskaja og kunningi minn á réttu að standa þá kunna þau að hafa skýringuna á því hve margir Rússar flatmaga fyrir Pútín og styðja heimsveldisbrölt hans (margt má ljótt um Bandaríkjamenn segja en undirlægjusemi er ekki meðal ókosta þeirra).
En því má ekki gleyma að fjöldi Rússa er á móti Pútín og stríðsrekstri hans, hundruð þúsunda hafa yfirgefið Rússland eftir að árásarstríð hans hófst.
Stuðningurinn við Pútín var skiljanlegur fyrstu árin sem hann var við völd. Hann kom á stöðugleika eftir umrót og hrun Jeltsínsáranna.
Vandinn er sá að spillingin er engu minni í Rússlandi Pútíns en á Jeltsíntímanum og misdreifing auðs hefur ekki minnkað. Auk þess er Pútín orðinn einræðisherra án þess að það stuði meirihluta Rússa.
Þeir virðist margir hverjir hæstánægðir með hina kristilegu, heimsveldissinnuðu zar-fasísku hugmyndafræði hins pútínska einræðis.
Pútín vitnar stundum í Ivan Iljín sem var e.k. fasisti. Sá bjó í Þýskalandi um langt skeið og fagnaði valdatöku nasista í grein sem hann mun hafa skrifað 1933. Hann mun hafa haldið áfram að verja fasískar skoðanir eftir stríð en var um leið konungssinni. Það fylgir sögunni að Pútín lét flytja jarðneskar leifar Iljíns til Rússlands (Snyder 2018).
Maður sem jarmar um afnasistavæðingu er hliðhollur manni sem fagnaði valdatöku nasista! Annar hugsuður sem tengist Pútín er Alexander Dúgín en sá mun vera undir áhrifum frá illanum Iljín.
Dólgurinn Dúgín boðar rússneskan fasisma segir í grein sem í enskri þýðingu heitir Fascism-Borderless and Red (Dúgín 1997). Fasistinn elski hið brútala, ofurmannlega og englalega. Eðli fasismans sé nýtt stigveldi, nýr aðall. Um leið sé margt í stefnu hans sósíalískt, Hitler og Mússólíní hafi mistekist m.a. vegna þess að þeir voru of vinsamlegir auðhringjum og borgaralegum öflum. Rússneski fasisminn eigi að forðast þau mistök og aðlaga stjórnarfarið rússneskum aðstæðum.
Svo segir í enskri þýðingu á grein hans: In distinction to rigid Marxist-Leninist dogmas, Russian national socialism proceeds from an understanding of social justice which is characteristic exactly for our nation, for our historical traditions, our economic ethics (Dúgín 1997).
Pútín hefði ekki skrifað undir þetta þar eð hann varði markaðskerfið í rökræðum við kommúnista þegar hann var forsætisráðherra (skv Hill og Gaddy 2015). Hans zar-fasismi er hægriútgáfan með áherslu á andúð á kynhverfum, jákvæðri mynd af keisarastjórninni og rétttrúnaðarkirkjunni.
Rússneska byltingin og sjálfsmark marxismans
Á zar-fasisminn sér einhverjar rætur í Sovétkommúnismanum? Pútín var alltént KGB-maður.
Sovétkommúnismann má telja eina birtingarmynd Moskvuríkisins. Hann var afurð byltingar, réttar sagt valdaráns atvinnubyltingarmanna.
En ekki náði hún þeim markmiðum sínum að gera menn frjálsa, færa alþýðunni völd og allsnægtir. Öðru nær, hún leiddi til villimannlegrar kúgunar og efnahagslegrar eymdar.
Karl Marx er ekki saklaus af þessu, hin sovéska kúgun var sjálfsmark marxismans. Hann og Engels segja í Kommúnistaávarpinu að í sósíalismanum yrði að stofna landbúnaðar- og iðnaðarheri, miðstýra hagkerfinu og koma á vinnuþvingun (þ. Arbeitszwang, rangþýtt á íslensku sem vinnuskylda) (Marx og Engels 2008, Marx 1969).
Spurt er: Hver á að sjá um heragann og vinnuþvingunina? Getur miðstýring ekki leitt til alveldis?
Í öðru riti segir Marx að í sósíalismanum eigi menn að fá kvittun fyrir vinnustundum, gegn framvísun hennar eigi þeir að fá úthlutað vörum sem kostað hefur álíka vinnustundir að framleiða (Marx 1968).
Spyrja má hvort kerfi þetta getur virkað án viðamikils skrifræðis (sjá miklu nánar Stefán Snævarr 2021: 186-235).
Af þessu má sjá að Karl Popper hafði á röngu standa er hann taldi að Marx hefði ekki haft tiltölulega skýrar hugmyndir um hvernig sósíalisminn myndi arta sig (Popper 1971).
Til að gera illt verra hvöttu þeir Marx og Engels í öðru riti byltingarmenn til að stunda hryðjuverk (Marx og Engels 1850). Engels talaði innfjálgur um glæsiárið 1793 í frönsku byltingunni ( des glorreichen Jahres 1793) (Engels 1959). Það var ár ógnarstjórnarinnar, er svo að skilja að hann hafi talið hana til fyrirmyndar? (sjá nánar Stefán Snævarr 2013: 39-49).
Marxískir byltingarmenn voru miklir bókstafstrúarmenn og virðast hreinlega hafa farið eftir bókstafnum í Kommúnistaávarpinu og Byltingarávarpinu. Í desember 1917 bönnuðu bolsévíkar verkföll, í janúar 1918 ráku þeir lýðræðislega kjörið þing heim.
Þá kann einhver að segja að Sovétríkin hafi verið fórnarlamb vestræns samsæris, eins og Steinn Steinarr orti Og þótt þú tapir, það gerir ekkert til/því það var nefnilega vitlaust gefið (Steinn Steinarr 1991: 164).
Þetta er ekki sennileg tilgáta, m.a. vegna þess að þátttaka Vesturveldanna í borgarastyrjöldinni (íhlutunarstríðið) var fálmkennd og illa skipulögð. Hefði verið um samsæri ræða þá hefði þátttaka þeirra ekki verið svo fálmkennd.
Auk þess bendir flest til að hinar fámennu vestrænu hersveitir hafi ekki ofreynt sig á þátttöku í átökunum (samkvæmt t.d. Flake 2019: 549-552). Í einu tilviki munu bolsévíkar í tiltekinni rússneskri borg hafa beðið bandamenn um aðstoð.
Í ofan á lag bárust Evrópuríkin á banaspjótum og gátu ekki aðstoðað andbyltingarmenn mikið þótt þau hefðu fegin viljað (Þjóðverjarnir voru sennilega hæst ánægðir með Bolsévíkastjórnina þar eð hún hafði dregið Rússland út úr stríðinu).
Þessi ríki voru örmagna eftir fyrri heimsstyrjöld og í Bandaríkjunum óx einangrunarsinnum ásmeginn. Kanar ofreyndu sig ekki á þátttöku í íhlutunarstríðinu enda önnum kafnar við að fækka mjög í herliði sínu.
Bæta má við að marxistinn Rosa Lúxembúrg kvartaði yfir skorti á tjáningarfrelsi í Rússlandi þegar haustið 1918 og ári seinna fordæmdi annar marxisti, Karl Kautsky, bolsévíka fyrir kúgun og yfirgang. Þeim láðist að nefna hið meinta vestræna samsæri, kannski af því að ekkert slíkt hafi verið framið (Lúxembúrg 1967: 108114)(Kautsky 1967: 118123).
Nefna má að anarkistinn Mikael Bakúnín spáði því árið 1872 að marxísk bylting myndi leiða til valdatöku menntamanna og hrikalegrar kúgunar (Bakúnín 1872). Engu líkara er en að sagnarandi hafi komið yfir hann.
Auðvitað kom fleira til en sjálfsmark marxismans. Lenín taldi að verkamenn gætu aldrei öðlast meira en fagfélagsvitund, atvinnubyltingarmenn yrðu að hafa vit fyrir þeim og veita þeim forystu. Í byltingarflokknum skyldi ríkja stigveldi.
Þegar í byrjun tuttugustu aldar gagnrýndi Lev Trotskí flokksskipun Leníns harkalega (Trotskí 1967: 6265). Fyrst myndi miðstjórnin taka völdin í flokknum, þá aðalritarinn völdin yfir henni og samfélaginu öllu. Hann reyndist sannspár.
Deila má um hvort flokkshugmyndir Leníns hafi verið marxískrar ættar. Voru þær kannski fremur í anda hins rússneska stjórnlyndis? En hafi Bakúnín á réttu að standa má ætla að Marx hafi sáð fræjum flokkshugmyndanna. Alltént hefur skortur Rússa á frjálslyndum hefðum gert illt verra í Sovétríkjunum sálugu.
Öll vötn féllu að sama firðinum.
Lokaorð
Bændur voru enn kúgaðri í Rússlandi en víðast í Evrópu, landið miðstýrðara, ósnortið af endurreisninni, heimsveldisþættir í hugsun margra andans manna og valdsmenn haldnir heimsfrelsunardellu.
Slíkt og þvílíkt veit ekki á gott, það kann að hafa átt þátt í kúgun kommúnistaáranna þótt veilur marxismans og lenínismans hafi valdið miklu um hana.
Nýjasta birtingarmynd rússnesku kúgunarhefðarinnar er hinn heimsveldissinnaði zar-fasismi Pútíns.
Heimildaskrá:
Bakúnín, Mikael 1872: On the International Workingmens Association and Karl Marx, https://www.marxists.org/reference/archive/bakunin/works/1872/karl-marx.htm. Sótt 11/4 2023.
Dúgín, Alexander 1997: Fascism-Borderless and Red https://www.linkedin.com/pulse/syrizas-moscow-connection-fascism-borderless-red-dugin-umland Sótt 9/4 2022.
Engels, Friedrich 1959: Der magyarische Kamp, Neue rheinische Zeitung, Nr 194, 13/1 1849, í Karl Marx-Friedrich Engels: Werke. Band 6. Berlin/DDR: Dietz Verlag, bls. 165173.
Flake, Lincoln 2019: Nonsense from the beginning o.s.frv. The Journal of Slavic Military Studies, Vol. 32, Issue 4, bls. 549-552, https://www.tandfonline.com/doi/full/10.1080/13518046.2019.1690189
Hill Fiona og Gaddy, Clifford 2015: Mr. Putin: The Operative in the Kremlin. The Brooking Institution.
Hoskins, Geoffrey 2012: Russian History: A Very Short Introductionþ Oxford: Oxford University Press.
Jóhannes Björn Lúðvíksson 1979: Falið vald. Reykjavík: Örn og Örlygur.
Kautsky, Karl 1967: Kommunisme og terror (þýð. óþekktur), Jens A. Christophersen (ritstj.) Bolsjevikrevolusjonen 1917. Ósló: Pax forlag, bls. 118123.
Lunde, Ingunn 2023: Imperiets diktere, Morgenbladet, Nr. 1, 6-12 janúar.
Lúxembúrg, Rósa 1967: Den russiske revolusjon (þýð. óþekktur), Jens A. Christophersen (ritstj.) Bolsjevikrevolusjonen 1917. Ósló: Pax forlag, bls. 108114. ´
Marx, Karl og Engels, Friedrich 1850: Address of the Central Commitee to the Communist League, http//www.marxists.org/archive/marx/works/1847/communistleague/1850-ad 1.htm. Sótt 25/2 2011.
Marx, Karl 1968: Athugasemdir við stefnuskrá þýzka verkamannflokksins. Þýðandi Brynjólfur Bjarnason. Úrvalsrit. 2 bindi. Reykjavík: Heimskringla, bls. 314331.
Marx, Karl 1969: Manifest der kommunistischen Partei. München Wilhelm Fink Verlag (af einhverjum ástæðum er þessi útgáfa eignuð Marx einum) (upprunalega gefin út 1850/1851).
Marx, Karl og Engels, Friedrich 2008: Kommúnistaávarpið (þýðandi Sverrir Kristjánsson) Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag (upprunalega gefin út 1948).
Plokhy, Serhii 2016: The Gates of Europe. A History of Ukraine. Harmondsworth: Penguin.
Popper, Karl 1971: The Open Society and its Enemies. Volume II: Hegel and Marx. Princeton, New Jersey: Princeton University Press.
Snyder, Timothy 2018: The Road to Unfreedom. Russia. Europe. America. New York: Duggan Books.
Stefán Snævarr 2013: Marx og Engels: Þjóðir og alþjóðaremba, Þjóðmál nr. 2, 9. árg., bls. 39-49.
Stefán Snævarr 2021: Bivrøst. Funderinger og grublerier. Oslo: Kolofonforlaget.
Steinn Steinarr 1991: Að sigra heiminn, í Ljóðasafni. Reykjavík: Vaka-Helgafell.
Trotskí, Lev 1967: Klassens førstefødselsrett (þýð. óþekktur), Jens A. Christophersen (ritstj.) Bolsjevikrevolusjonen 1917. Ósló: Pax forlag, bls. 6265.
Um íhlutunarstríðið https://en.wikipedia.org/wiki/Allied_intervention_in_the_Russian_Civil_War
Um circassian þjóðina https://en.wikipedia.org/wiki/Circassian_genocide
Um Ivan Iljín https://en.wikipedia.org/wiki/Ivan_Ilyin
Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.10.2023 kl. 11:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)