KANAR GEGN RÚSSUM. Annar hluti: Hinn bandaríski Janus

 

Bandaríkin eru „undarlegt sambland af frosti og funa“, sum  part ríki frjálslyndis og lýðræðis, sum part ríki rasisma og auðvalds, að nokkru marki  ríki húmanisma, að öðru leyti   imperíalisma. Bandarískt samfélag er eins og guðinn Janus, með tvö andlit, annað myrkt, hitt bjart.

Evrópskir innflytjendur á nítjándu öldinni öðluðust meira frelsi en þeir höfðu áður haft, Gyðingar sem fluttust frá rússneska keisaraveldinu voru frelsinu fegnir.

Þeir voru kúgaðir með villimannlegum hætti af keisaraveldinu, hvað eftir annað voru framinn  fjöldamorð á þeim með velþóknun Moskvuvaldsins. Þeir máttu heldur ekki versla annars staðar en á því takmarkaða svæði þar sem þeim var leyft að búa.

Í Bandaríkjunum  varð þeim kleift að stunda hnattræn viðskipti, það þrátt fyrir að steinar væru lagðir í götu þeirra þar vestra.

Sum staðar í Bandaríkjunum var þeim bannað að kaupa land og húsnæði, háskólar vildu lengi helst ekki hafa Gyðinga meðal kennara. En þá stofnuðu þeir sína eigin háskóla.

Þeir voru að því leyti til heppnir að hvítir  Kanar voru vanir að fyrirlíta og hata annan kynþátt, hina svörtu. Þrælahald var lengi við líði í Bandaríkjunum og þurfti heila borgarastyrjöld til að afnema það. Hannes Gissurarson neitar því og heldur því ranglega fram að Lincoln hafi árið 1860 ætlað sér að banna þrælahald (hann segir þetta á feisbók).

Nei og aftur nei, er hann var kosinn forseti þá vildi hann banna nýjum ríkjum Bandaríkjanna að leyfa þrælahald. Það þoldu þrælahaldararnir í suðrinu ekki og vöktu upp her og réðust á Suntervirkið, sögðu sig úr lögum við Bandaríkin. Þegar þrælahaldaraherinn réðist inn í Pennsylvaníu hóf hann veiðar á brotthlaupnum þrælum. Það er ekki fyrr en 1863  að Lincoln og þingið láta banna þrælahald.

Blessunarlega lauk stríðinu með sigri Norðanmanna en fljótlega fundu kynþáttahatararnir upp aðferðir til að halda blökkumönnum í skefjum. Þeir voru í reynd sviptir kosningarétti og 5000 hengdir án dóms og laga, oft í viðurvist venjulegra Suðurríkjahvítingja. Ekki gekk að fá morðingjana dæmda, alhvítir kviðdómendur sáu um það.

Bandaríkin voru sköpunarverk byltingar. Hún tókst að því leyti vel að komið var á kerfi þar sem vald var temprað með skýrri þrígreiningu valds og því  dreift á hin einstöku ríki.

En Janusinn ameríski sýndi sig að vanda, um þriðjungur þjóðarinnar voru mansmenn og frumbyggjar voru réttlausir á meðan hinir hvítu (alla vega karlmenn) nutu meira frelsis en fólk víðast annars staðar á jarðarkringlunni.

Samsæri auðvaldsins?

Það er til marks um hinar mikla andstæður í bandarísku samfélagi að á meðan blökkumenn og indíánar voru réttlausir þá var lýðræði allvíðfeðmt í Bandaríkjunum, enn þann dag í dag eru dómarar og jafnvel lögreglustjórar kosnir lýðræðislegum kosningum. 

 

Þá kann einhver að segja að þetta lýðræði sé mest á yfirborðinu, bak við tjöldin togi auðmenn og stórfyrirtæki í spottana. Bandaríkjamaðurinn haldi að hann sé frjáls en hann sé kúgaður af auðvaldinu.

 

Nú er út af fyrir sig rétt að auðurinn hefur of mikið að segja í bandarísku samfélagi en vandinn er sá að það handfasta við kosningaúrslit þar og annars staðar er það hvernig atkvæði féllu. Ekki það sem olli því að menn greiddu atkvæði með þessum eða hinum hættinum.

Við getum tæpast vitað með vissu hvort fokdýrt auglýsingaskrum ráði miklu um það hvernig menn kjósa, það handfasta er að þeir kusu.

Það er meira að segja alls ekki víst að rússnesku tölvu-tröllin hafi haft mikið að segja um úrslit kosninganna 2016. Fræðimaður nokkur segir í viðtali að áróður tölvu-tröllana hafi aðallega styrkt þá sannfærðu í sinni sannfæringu um ágæti Trumps en haft lítil áhrif á aðra.

Hér ber þó að nefna að tæpast er það tilviljun að mikið er rætt um aukin áhrif auðs á kosningar vestanhafs, það er sjaldan reykur án elds. Meira að segja Trump lagði áherslu á það og taldi lausnina vera að kjósa auðmenn eins og sig, þeir væru ekki háðir fjárgjöfum frá stórfyrirtækjum og peningamönnum. 

Hvað sem því líður held ég að Úkraína sé nær því að vera auðvaldsríki en BNA, einnig Rússland á dögum Jeltsíns (í dag er ríkiskapítalismi í Rússlandi, auði er meira misdreift þar í landi en í Bandaríkjunum).

Nýlega sagði Prígósin að hin eiginlega ástæða fyrir innrásinni í Úkraínu hafi verið löngum rússneskra óligarka að hremma auðlindir landsins. Ekki skal dæmt um það. 

En hin dólgamarxíska kenning  um hið falda vald stendur  á leirfótum. Ekki þýðir að vitna í bók Jóhannesar Björns um falið vald þar eð hún var nánast örugglega ekki ritrýnd, þess vegna vitum við ekkert um gæði þeirra heimilda sem hann vitnar í (Jóhannes Björn 1979).

Mistúlkaði hann þær? Voru þær tilbúningur?  Ef heiminum er stjórnað af samsærum eins og Jóhannes Björn virðist hafa haldið getum við ekki útilokað að hann hafi verið  fórnarlamb samsæris manna (t.d. KGB manna) sem búið hafi  „heimildirnar“ til. Auðvitað gæti hann hafa rambað á sannleikann en ég tel það ólíklegt vegna þess að ýmsar mikilvægar staðreyndir benda í aðra átt, alla vega hvað Bandaríkin varðar.

 

Um aldamótin 1900, á gylltu öldinni,  voru auðhringir orðnir feiknvaldamiklir vestanhafs. Standard Oil réði 90% olíumarkaðarins, US Steel sama hluta stálmarkaðarins. Nóbelshagfræðingurinn Paul Krugman segir að fyrirtækin hafi keypt dómara og stjórnmálamenn, jafnvel haft óviðurkvæmileg áhrif á kosningar.

Þá gerist að forsetinn, Theodore Roosevelt, tekur sig til og dregur stærstu vígtennurnar úr auðhringjunum, neyðir þá til að skipta sér í smærri félög. Hefði auðvaldið ráðið öllu þá hefði Roosevelt verið þjónn þeirra en það var hann ekki!

Paul Krugman segir reyndar að það hafi ekki að öllu leyti verið vel heppnað, sum fyrirtækin hafi skriðið saman bak við tjöldin. Gylltu öldinni hafi ekki lokið fyrr en með kreppunni 1929 (Krugman 2007).

Margt bendir til þess að drjúgur hluti bandarískra ríkisbubba hafi verið andsnúnir  Franklin Roosevelt, samt vann hann forsetakosningar fjórum sinnum.

 

Nefna má að hinn  ofurríki Henry Ford hamaðist gegn forsetanum. Og ríkisbubbar, með annan auðkýfing, J.P. Morgan, í broddi fylkingar, brugguðu launráð gegn honum. Veltu fyrir sér í fúlustur alvöru að fremja valdarán

Fleiri staðreyndir benda gegn hinni dólgamarxísku kenningu um hið falda vald vestanhafs. „Hvar er snjórinn sem féll í fyrra?“, aðeins eitt þeirra fyrirtækja sem voru meðal hinna tíu stærstu í BNA árið 1997 fyllir nú þann flokk. Ekkert þeirra fyrirtækja sem stærst voru árið 1960 kemst nú á topp tíu-listann.

Ef auðhringar og -menn hefðu stjórnað öllu bak við tjöldin þá hefðu þeir komið í veg fyrir að splunkuný stórfyrirtæki ryddu hefðgrónum stórfyrirtækjum úr vegi.

Kenning um hið falda vald skýrir heldur ekki hvers vegna mikil nýliðun hefur átt sér stað meðal hinna alríkustu, Jeff Bezos, Bill Gates, Elon Musk, Sergei Brijn o.fl. komu úr þjóðar- og alþjóðadjúpinu.

Gat hið falda vald ekki komið í veg fyrir að þeir veltu meintum ofurvaldamiklum auðkýfingum úr sessi sem ríkustu mönnum BNA? Af hverju fór stórfyrirtækið Enron á hausinn og af hverju var forstjóra þess stungið í fangelsi, manni sem var vinur forsetans?

Þess utan er drjúgur hluti af bandarískum milljónamæringum popparar, Hollywoodleikarar og ofdekruð afkvæmi milla af Kardashintaginu. Litlar líkur eru á því að þetta lið sé í því að toga í spotta valdsins eða skyldu Kim Kardashin og Bruce Springsteen  skipa Bandaríkjaforseta fyrir?

Auk þess eru rannsóknarblaðamenn og gagnrýnið fólk á hverri hundaþúfu í Bandaríkjunum. Rannsóknarblaðamenn afhjúpuðu fjöldamorðin í My Lai, Watergatehneykslið o.s.frv. Góð dæmi um það sem ég kalla „bandarísku bremsuna“, hún bremsar oft hneigðir valdhafa þar vestra til  yfirgangs (Rússa skortir slíka bremsu).

Bremsan virkaði líka  þegar  CIA var tekið á beinið af rannsóknarnefnd öldungadeildarinnar undir forystu þingmannsins Frank Church. Afleiðingin mun hafa verið sú að  CIA var í mörg ár að ná sér aftur.

Af hverju kom Auðvaldur sjálfur ekki í veg fyrir það? Var ekki CIA mikilvægt tæki í valdatafli hans? Er ekki líklegt að rannsóknarblaðamenn og nefndir hefðu fyrr eða síðar afhjúpað hið meinta falda vald?

Heimspekingurinn Karl Popper segir að samsæriskenningasmiðir trúi því að mannkynssagan  sé saga samsæra, Gyðingar eða yfirstéttir ráði gangi mála bak við tjöldin. En gallinn sé sá að veröldin er of flókinn til að líklegt sé að hægt sé að breyta gangi hennar róttækt með samsærum.

Nasistarnir hafi reynt það en þeim mistókst.  Í ofan á lag séu litlar líkur á að hægt sé halda stórfelldum samsærum leyndum í opnu, frjálsu og lýðræðislegu  samfélagi (Popper 1971: 94-96). 

Hvers vegna er erfitt að stjórna gangi sögu og samfélaga? Svar Poppers er að athafnir manna einatt óætlaðar afleiðingar, því víðfeðmari sem athafnirnar séu, því meiri líkur á óætluðum afleiðingum.

Napóleon ætlaði að verða herra Evrópu en óætluðu afleiðing gjörða hans var sú að með franska hernum fylgdu frelsishugmyndir byltingarinnar 1789. Hafandi uppgötvað ágæti frelsisins höfnuðu Evrópubúar forræði Napóleons (honum til afbötunar skal sagt að stórher hans leysti rússneska bændur úr ánauð, hefði Rússland skánað ef hann hefði borið sigurorð af zarnum?).

Bæta má við að óligarkar réðu miklu í Rússlandi um stutt skeið, þeir stóðu á bak við „kosningasigur“ Jeltsíns 1996. En misstu svo völdin þegar Pútín skóp nýja stétt ólígarka sem lutu honum, hann er aðalólígarkinn. Rússar fóru úr öskunni í eldinn.

Hvað sem því líður þá  hafa stjórnmálamenn og ríkisstarfsmenn  sinna hagsmuna að gæta og þeir ekki endilega þeir sömu og hagsmunir peningamanna.

Ríkið hefur sínar ástæður sem auðvaldið veit ekkert um, valdið kemur fremur upp úr byssuhlaupum en seðlaveskjunum. "Vald er þat, eigi fé" segir í Grágás að mig minnir.

Bandarískir forsetar eru venjulega mjög valdsæknir menn og því ólíklegt að þeir beygi sig umyrðalaust undir  auðmenn, þeir hljóta að reyna að efla eigið vald eins mikið og kostur er á. Þeir hafa jú byssurnar, auðmenn ekki. 

Ekki má heldur gleyma því að þeir eru líka háðir fjárgjöfum frá almenningi, ef tíu milljón Kanar með meðaltekjur  borga hver sinn 100 dollar í kosningasjóð stjórnmálamanns getur hann náð langt, Sanders þiggur ekki fé frá auðmönnum og -fyrirtækjum.

Eitthvert tillit verður forseti að taka til almúgans sem á þátt í að fjármagna kosningar hans. Þess utan eru forsetar lausir allra mála á öðru kjörtímabili, þá þurfa þeir ekki að hugsa um endurkjör og geta gefið auðmönnum og stórfyrirtækjum langt nef.

Mér vitanlega eru ekki til neinar sannanir fyrir því að Bandaríkjaforseti hafi látið auðmenn segja sér fyrir verkum.

Enda er ekki ósennilegt að auðmenn og -fyrirtæki kaupi sér fremur áhrif og velvild en völd þegar þeir dæla fé í frambjóðendur. Ekki síst vegna þess að ekki er hlaupið að því að kaupa sér völd, þó má alls ekki útiloka þann möguleika að mikil áhrif hverfist í völd.

Því má ekki gleyma að þessir aðilar eru áhættusæknir og reikna með því að nokkur hluti fjárfestinga þeirra tapist. Alls ekki er ósennilegt að slíkt gildi stundum um "fjárfestingar" þeirra í forsetum. Stundum tapist sú fjárfesting, forseti "svíki" þá í tryggðum. Játað skal að fyrir þessari staðhæfingu hef ég engar sannanir. 

Víkjum aftur að því sagt var um að ríkið ætti byssurnar, auðmenn ekki.

Þessu til sannindamerkis skal sögð sagan af þýska auðjöfrinum  Fritz Thyssen. Hann  hafði stutt nasista með ráðum og dáð en tók svo að gagnrýna kerfið og var stungið inn (Thyssen 1941).

Ekki þýðir að segja að auðmenn framleiði byssurnar því ríkið getur hæglega þjóðnýtt framleiðsluna. Ef auðmenn réðu öllu í kapítalískum samfélögum þá hefði Thyssen stungið Hitler inn, ekki öfugt.

 

Hvað um her-iðnaðar samsteypuna (e. the military industrial complex) sem Eisenhower varaði við? Vissulega er hún valdamikil vestanhafs en á móti kemur að fyrir hvern aur sem rennur til hennar tapa önnur, valdamikil stórfyrirtæki, t.d. kjörbúðakeðjur. 

Ekki er ósennilegt að slík fyrirtæki tempri að einhverju leyti vald samsteypunnar. Vald atkvæða líka,  einnig  gagnrýnir blaðamenn og aðrir bremsumenn. 

Allt þetta bendir gegn því að Bandaríkin séu hreinræktað auðvaldsríki og stjórnað af földu valdi. En þróunin þar á síðustu áratugum er uggvænlega, raunlaun á unna klukkustund staðið lengi í stað, misdreifing auðs hefur vaxið mikið og auðmenn og stórfyrirtæki orðið mjög valdamikil, svo virðist sem ný gyllt öld sé hafinn í Bandaríkjunum.

Bandaríkin er ekki lengur það land þar sem félagslegur hreyfanleiki er mestur, ameríski draumurinn er að hverfast í martröð (sjá t.d. Cawhill og Morton 2008). Á móti kemur að kjör blökkumanna hafa skánað talsvert. 

Athugið líka að sú staðreynd að félagslegur hreyfanleiki var mestur þar vestra mjög lengi mælir gegn kenningunni um alveldi auðsins.

Auðvaldið hlýtur að hafa hag af því að draga úr hreyfanleika svo ekki rísi ný fyrirtæki og auðmenn sem keppi við það. Það gerðist ekki um langt skeið, svo alla vega á því tímabili var auðurinn fjarri því að vera alvaldur vestanhafs. 

Skásta kenningin um vestræn samfélög  er hin svonefnda fjölelítu kenning. Samkvæmt henni er vissulega munur á Jóni og séra Jóni í þessum samfélögun,  valdi er misdreift í þeim. En það sé huggun harmi gegn að  til séu ýmsar elítur sem kljást um völd og áhrif, barátta þeirra kemur í veg fyrir að vald safnist í hendur einnar elítu (t.d. Schumpeter 1976).

Til dæmis ráða stjórnmálamenn, verkalýðsleiðtogar, jafnvel menntamenn  og ýmis fyrirtæki hvert sínum geira samfélagsins um leið og alþýða manna hefur umtalsverð völd bæði vegna kosningaréttar og eins „atkvæðisréttar“ sem neytendur (vilji þeir ekki tiltekna vöru geta þeir sett heilu stórfyrirtækin á hausinn).

Hin ýmsu stórfyrirtæki hafa ekki endilega sameiginlega hagsmuni, ef vopnaframleiðsla er aukin þá tapa fyrirtæki sem framleiða neysluvarning (og öfugt). Þetta veldur stöðugri togstreitu milli fyrirtækjanna, hún dregur mjög úr líkum þess að til verði auðvald allsherjar.

En eins og áður segir hefur vald auðsins aukist vestanhafs, bandarísku fræðimennirnir Martin Gilens og Benjamin I. Page gerðu empiríska úttekt á ýmsum kenningum um vald í amerísku samfélagi.

Sú kenning sem kom best út úr rannsókninni  var kenningin um hlutdrægt fjölmiðjukerfi (e. biased pluralism). Samkvæmt henni er bandarískt samfélag vissulega fjölmiðjusamfélag en kerfið sé  samt tekið að draga  taum ríkisbubba og stórfyrirtækja í mun ríkari mæli en almennings. Því valdi aukinn ójöfnuður síðustu áratuga  (Gilens og Page  2014: 564-581).

Sumir fræðimenn, t.d. Josef Schumpeter,  telja að tilvist úrvalshópa, sem keppa við hver aðra, komi í veg fyrir skrílræði. Ég held hins vegar að til séu fá dæmi um skrílræði og því vafasamt að staðhæfa mikið um hættur af því.

Það gæti verið  stjórnhugmynd lýðræðisríkja að valdi sé dreift eins mikið og kostur er, að tempra vald úrvalshópa eins mikið og mögulegt sé.

Ein meginveila Bandaríkjanna er hið fremur veikburða velferðarríki, önnur hið mikla ofbeldi. Á móti kemur hinn mikli sköpunarkraftur Kana, ekki síst í vísindum, heimspeki og á tæknisviðinu. Þeir fundu upp ljósaperuna, flugvélina  og einkatölvuna svo nokkuð sé nefnt.  

Hvaða tæknilegar nýjungar hafa komið frá Rússlandi? Gervihnettir? Kjarnorkuver? Tækni þeirra síðastnefndu var ættuð frá Bandaríkjunum, sovéskir  njósnarar stálu henni.

Lokaorð

Bandaríkin eru tvíbent, land mikilla öfga, annars vegar frjálslyndis og mannúðar, hins vegar rasisma, ofbeldis og auðræðis. Samt er landið alls ekki hreinræktað auðvaldsríki en hefur á síðustu árum vanþróast í áttina að hlutdrægu fjölmiðjukerfi.

Niðurstaðan í þessari færslu er sú að þrátt fyrir sína mörgu og miklu galla sé bandarískt samfélag  mun skárra en hið rússneska. Samkeppnin er ekki hörð.

Í þriðja og síðasta hluta mun ég bera saman utanríkisstefnu þeirra.

Heimildaskrá:

Cawhill,  Isabell og Morton, John E.  2008: Economic Mobility: Is the American Dream Alive and Well? http://www.economicmobility.org/ Sótt 10/9 2009.

Flake, Lincoln  2019: Nonsense from the beginning o.s.frv.“ The Journal of Slavic Military Studies, Vol. 32, Issue 4, bls. 549-552, https://www.tandfonline.com/doi/full/10.1080/13518046.2019.1690189

Gilens, Martin og Page, Benjamin I.   2014: “Testing Theories of American Politics: Elites, Interest Groups, and Average Citizens”, Perspectives on Politics, September Vol. 12, No. 3, bls. 564-581.

Popper, Karl  1971:  The Open Society and its Enemies. Volume II: Hegel and Marx. Princeton, New Jersey: Princeton University Press.

Schumpeter, Josef 1976: Capitalism, Socialism, and Democracy. London: Unwin.

Thyssen, Fritz  1941: I paid Hitler. (þýðandi César Saerchinger). London: Hodder and Stoughton Ltd.

Um Frank Church og CIA https://www.levin-center.org/frank-church-and-the-church-committee/

Um forsetakosningar 1936 https://about.proquest.com/en/blog/2016/That-Time-the-Literary-Digest-Poll-Got-1936-Election-Wrong/

Um stórfyrirtæki 1997-2023 https://en.wikipedia.org/wiki/List_of_public_corporations_by_market_capitalization

Um stórfyrirtæki 1960 https://money.cnn.com/magazines/fortune/fortune500_archive/full/1960/

 

 Um bandarísku borgarastyrjöldina https://en.wikipedia.org/wiki/American_Civil_War


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Ánægjulegt að þú sért snúinn aftur hingað. Ég las öðru hvoru pistla eftir þig á Stundinni og fannst þeir bæði fræðilegri og hlutlausari en fjölmargt þar - og þó finnst mér einnig áhugavert að lesa stundum það sem ég er alls ekki sammála, ef það er vel rökstutt og á erindi við alla. Ég vona að þú takir því ekki illa þótt ég líki þér við Arnar Sverrison. Eitt eigið þið sameiginlegt, báðir fræðilegir og komið með góða tilvitnanaskrá.

Raunar er ég oft sammála þeim sem skrifa á Heimildinni þegar kemur að umfjöllun um fátæka.

Ég er ósammála þér um að samsæri séu ósennileg, en bíð með það að sinni að rökræða frekar um það. Vil helzt ekki tjá mig um slíkt nema ég sé sæmilega viss og geti fundið sæmileg rök. Þetta er fremur almennur pistill og Bandaríkin telja sumir móðurskip samsæriskenninganna.

Býsna gott að nota Janusarlíkinguna. Það er mín kenning að hið algenga mannsnafn á Íslandi, Jón, sé fremur dregið af Janus en Jóhannes, og þá af ævafornum heiðnum rótum, en Ásgeir Blöndal var ekki sammála því. Enda fannst mér hann draga taum kristninnar á kostnað annarra trúarbragða.

Ingólfur Sigurðsson, 13.4.2023 kl. 00:46

2 Smámynd: Birgir Loftsson

Góð grein.

Birgir Loftsson, 13.4.2023 kl. 09:14

3 Smámynd: Stefán Valdemar Snævarr

Ingólfur, þakka athugasemd. Gagnrýnin á samsæriskenningar snýst ekki um að samsæri eigi sér ekki stað, vissulega eru samsæri framin í stórum stíl. En líkurnar á því að hægt sé að sjórna himinum eða stórum ríkjum áratugum saman án þess neinn annar en íslenskur sérvitringur uppgötvi það er afar ósennilegt. 

Stefán Valdemar Snævarr, 13.4.2023 kl. 10:48

4 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Takk fyrir greinina Stefán.

"Hvaða tæknilegar nýjungar hafa komið frá Rússlandi"??, spyr Stefán

Þar sem ég þekki af eigin raun og úr eigin barmi svona vanþekkingarfordóma um Rússland þá er mér ljúft að benda á eftirfarandi.

Hvað með laser, sjónvarp, olíubor og olíuborpall, geimferðir, stjörnufræði, eðlisfræði? Hér er listi: Rússneskar uppfinningar. Það tekur töluverðan tíma að koma sér í gegnum bara lið-A. Þarna var margt sem kom mér á óvart þegar ég setti endurmat á Rússlandi í gang hjá sjálfum mér síðasta vor.

Bandaríkin eru t.d. ekki enn klár með tækni til að granda langdrægum eldflaugum sem fara út í geim (e. Intercontinental) => (þ.e. anti-ballistic flaugar).

Síðan er eðli þessara mála þannig að sú tækni sem kemst í umferð og nær útbreiðslu (viðskiptalega séð) er oft ekki besta tæknin. Sem dæmi má nefna VHS og marga þá x86 örgjörva sem náð hafa útbreiðslu í tölvunartækni um allan heim, plús t.d. MS-Windows. Um er þá að ræða viðskiptalegar torfærur fyrir keppinauta, en ekki endilega tæknilegar uppfinningar, nýsköpun og hugvit.

Takið eftir rússneska Elbrus-2000 örgjörvanum sem er 512 bita örgjörvi með 20-skipana klukkuslátt og þolir mikinn hita og mikinn kulda. Athyglisvert.

Þessa dagana halda Rússar upp á 62-ára afmæli fyrstu geimferðar Mannsins, sem var rússneskur, þ.e. Yury Gagarin. Elísabet Englandsdrottning bauð honum náttúrlega í heimsókn í höll sína. Slíkt þætti sennilega glæpsamlegt um borð í skipsflakinu af Bretlandi í dag.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 13.4.2023 kl. 20:11

5 Smámynd: Stefán Valdemar Snævarr

Athyglisvert Gunnar. Takk fyrir þetta.

Stefán Valdemar Snævarr, 14.4.2023 kl. 07:57

6 identicon

Góðar pælingar!

Erum við ekki farin að sjá dæmi um skrílræði í útilokunarmenningu samfélagsmiðlanna?  

Varðandi síðasta pistil þar sem aðskilnaður ríkis og kirkju var talinn skýra grundvallarmun á stjórnarfari í Evrópu og Rússlandi, þá sýnist mér England og síðar Bretland hafa gleymst. 

Það er greinilegt að Englendingar byrja að feta sig í átt til framfara þegar hjónabandsvandamál Hinriks 8 leiða til stofnunar ensku biskupakirkjunnar. Eftir það feta þeir smátt og smátt leið sína til meira sjálfstæðis  og að lokum heimsveldis 19 aldar.

Varðandi Breta er sú kenning áhugaverð að vegna landfræðilegrar stöðu hafi þeir ekki þurft að hafa stóran landher, sem A. jók lýðræðisleg völd pólitíkusa og B. sparaði fé til að leggja enn meiri kraft í sjóherinn.  

Bjarni Bjarnason (IP-tala skráð) 15.4.2023 kl. 05:43

7 Smámynd: Stefán Valdemar Snævarr

Takk, Bjarni, athyglisvert það sem þú segir um breska sögu. 

Stefán Valdemar Snævarr, 15.4.2023 kl. 07:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband