KJARNORKUVÁ FYRIR FJÖRUTÍU ÁRUM

Í umræðunni um kjarnorkuvá í kjölfari  Úkraínustríðsins er einatt talað eins og heimurinn hafi aðeins einu sinni áður  staðið á barmi kjarnorkustríðs, á tímum Kúbudeilunnar.

Fólk gleymir ástandinu fyrir fjörutíu árum þegar kalda stríðið var með kaldasta móti og margir óttuðust að heimsstyrjöld brytist út þá og þegar.

Í þýska tímaritinu Kursbuch skrifaði einhver hæðnislega að best hefði verið að kjarnorkustríðið hefði átt sér stað 1962, þá værum við búin með pakkann!

Vinsældalistar voru fullir af lögum um stríðshættu, nægir að nefna „Dancing With Tears In My Eyes“ með Ultravox, „I  Won‘t  Let The Sun Go Down On Me“ með Nik Kershaw og „Two Tribes“ með Frankie goes to Hollywood.

Einnig var gerð a.m.k. ein kjarnorkustríðsmynd í Hollywood, „The Day After“.

Hví kólnaði kalda stríðið svo mjög? Ein ástæðan var innrás Sovétmanna í Afganistan, önnur, því ekki ótengd ástæða, var sigur Ronalds Reagans í bandarísku forsetakosningunum.

Hann hóf mikla hervæðingu m.a. sem svar við auknum vígbúnaði austan tjalds. Einnig hamaðist hann gegn Sovétríkjunum, kallaði þau  „heimsveldi hins illa“ og boðaði nýja stefnu, „roll back“ í stað „containment“.

Nú var ekki lengur nóg að halda aftur að Sovétríkjunum („containment“) heldur yrði að  þrýsta þeim burt („roll back“).

Þá gerðist að rússneski njósnarinn Oleg Gordievskí, sem var á mála hjá Bretum, hafði samband við þá og varaði við.

Hamagangur Reagans (sem var sum part skiljanlegur) hefði hrætt Sovétleiðtogana svo mjög að þeir óttuðust að hann myndi láta her sinn ráðast á Sovétríkin.

Þeir hafi talið  líklegt að NATÓ-hernaðaræfingin Able Archer væri undirbúningur innrásar. Þeir hafi velt því fyrir sér hvort ekki væri best að verða fyrri til.

Bretar komu skilaboðum á framfæri við Reagan sem skildi að hann yrði að friðmælast við Sovétmenn.

Sé þetta satt kann Gordievskí að hafa bjargað mannkyninu frá tortímingu, hann kann að vera einn helsti velgjörðarmaður þess.

Á hann ekki skilið friðarverðlaun Nóbels?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er ekki hægt að segja að njósnari sé ákveðin útgáfa af diplómatíu?

Dæmi Gordievskís ætti þá að minna á að ekki sé gott að slíta öllum samskiptum. 

Bjarni Bjarnason (IP-tala skráð) 16.6.2023 kl. 18:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband