1984: Frá Orwell til Bowies

Ég las Nineteeneightyfour  eftir George Orwell fjórum sinnum þegar ég var ellefu ára. Í íslenskri þýðingu. Um daginn tók ég mig til og hlustaði á hana á ensku, hafði ekki lesið hana á þvísa máli.

Gagnstætt sögu Orwells, Animal Farm, er Nineteeneightyfour   ekki bein ádeila á Sovétríkin.

Alræðisríkið bókarinnar hefur líka þætti úr Fögruborg Platóns, hugmynd hans um fyrirmyndaríkið. Í því átti valdastéttin að vera heimspekimenntuð en mátti ekkert eiga og ekki stofna fjölskyldu.

Hið sama gilti um næst æðstu stétt, sem átti að sjá um varnir og daglega stjórnun, en átti ekki að vera heimspekimenntuð.

En lægsta stétt mátti eiga eignir, stofna fjölskyldu og stunda viðskipti. Í 1984-ríkinu gildir þetta um prólana, lægstu stéttina. Í þeirra samfélag var meira að segja til frjáls markaður, gagnstætt Sovétríkjunum.

En ekki Þýskalandi nasismans, þar var bæði einkaeign og markaðskerfi þótt flokksbroddarnir réðu mestu og stunduðu takmarkaðan áætlunarbúskap (frjálshyggjumenn gera alltof mikið úr þætti þess búskapar í nasistaveldinu, nánar um það síðar).

Alla vega má hugsa sér að Orwell hafi líka haft nasista í huga þegar hann skrifaði bókina.  

Fleira bendir gegn því að Nineteeneightyfour   sé bein ádeila á Sovétið. O‘Brian, talsmaður kerfisins, talar um alræðisríki fortíðarinnar í útgáfu kommúnista og nasista.

Þeim hafi ekki tekist að heilaþvo fólk nógu rækilega, til að gera illt vera hafi þeir haft hugsjónir sem stjórnarfarið átti að raungera. En 1984-alræðið hefði engar hugsjónir, enga draumsjón, markmið þess væri vald valdsins vegna.

Þýðir þetta að 1984 sé alls ekki ádeila á Sovétkerfið? Auðvitað ekki, þættir í 1984-alræðinu minna  á Sovétríki Stalíns, t.d. andófsmaðurinn Emmanuel Goldstein sem minnir ekki eilítið á Trotskí sem upprunalega hét Bronstein.

1984-alræðisríkið Oceania er einn daginn í stríði við Austurasíu-alræðisríkið, þann næsta við Evrasíska alræðisríkið en alltaf er látið eins og ríkið hafi ávallt verið í stríði við annað þeirra.

Hið sama var upp á teningnum þegar allt í einu var hætt að kalla nasista „aðalóvini Sovétríkjanna“, upp úr þurru urðu þeir hálfgerðir bandamenn þess og Vesturveldunum lýst sem meginféndunum.

Nineteeneightyfour   hefur því víðari skírskotun en margir halda, hún fjallar m.a. um þörf alltof margra fyrir að beygja sig fyrir valdinu, valdagirni sumra o.s.frv.

Einnig mætti tengja hana við kenningar Karls Poppers um að nasismi og kommúnismi eigi sér sameiginlegar rætur í kenningu Platóns um fyrirmyndarsamfélagið (undirritaður hefur litla trú á þeirri kenningu, nánar um það síðar).

Víkur nú sögunni að David Bowie. The Guardian segir að hann hafi verið haldinn flughræðslu og fór þess vegna í lestarferð gegnum Sovétríkin á leiðinni  til Asíu.

Hann hafi orðið fyrir sjokki þegar hann sá sovéska hermenn marséra í takt, það  hafi minnt hann á bók Orwells.

Þá hafi hann tekið til óspilltra málanna að gera plötuna Diamond Dogs sem inniheldur mörg lög sem eru beinlínis innblásin af  Nineteeneightyfour: Lagið með sama heiti (1984), Big Brother, og We are the dead.

Hið síðastnefnda er setning sem andófsmaðurinn Winston Smith segir við ástkonu sína, hina andófssinnuðu Júlíu, hann veit að þau eru dauðadæmd, fyrr eða síðar mun kerfið afhjúpa þau og stúta þeim. Það gekk eftir.

Í dag lýtur lýðurinn stórum bræðrum eins og Pútín, Erdogan og Trump. Í Kína er verið að þróa hið fullkomna, rafræna  eftirlit með þegnunum, það gæti leitt til alræðis sem gerði Sovét og Þýskaland nasismans að frjálsræðisríkjum. 

Stóri bróðir framtíðarinnar gæti verið hann herra Algrím(ur). 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Sumir sósíalistar halda því reyndar fram að í dag sé það samþjöppun auðmagnsins  og samruni ríkisvalds og auðmagns sem drífi samfélög í átt til alræðis. Þetta segir Simon Elmer t.d. fullum fetum.

Hvort það er rétt veit ég ekki, en hitt þykist ég vita að ef ellefu ára barn í nútímanum "næðist" við þá iðju að lesa 1984 fjórum sinnum yrði það sett umsvifalaust á hæli og á lyf.

Þorsteinn Siglaugsson, 31.5.2023 kl. 21:12

2 Smámynd: Stefán Valdemar Snævarr

Vel athugað þetta með lyf og ellefu ára börn! Þyrfti að líta á þennan Elmer, hann gæti haft nokkuð til síns máls. 

Stefán Valdemar Snævarr, 1.6.2023 kl. 10:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband