26.8.2023 | 11:00
Hús íslenskunnar brennur! Hvar er brunaliðið?
Hús íslenskunnar brennur, brennuvargarnir standa hlæjandi hjá. Skammt frá getur að líta smávaxna, netta konu sem sargar fiðlu af ákafa.
Hver skyldi hún vera? Auðvitað Katrín Jakobsdóttir, íslenskufræðingur og forsætisráðherra, sem ekki lyftir litlafingri til að slökkva eldinn. Leikur á fiðlu í stað þess að stofna brunalið.
Tölum tæpitungulaust: Hún lætur það viðgangast að flugstöðin í Keflavík sé alenskuvædd þótt íslenska sé samkvæmt lögum ríkistunga Íslands.
Eins og það væri ekki nóg hafði sendráðið í Ósló eingöngu leiðbeiningar um kosningar á ensku, síðast þegar ég kaus þar árið 2016.
Þetta er ekkert annað en enskuheimska, skilningsleysi á því að aðeins örfáir kjósenda skilja ekki íslensku og er þess utan lögbrot. Það skrifast tæplega á reikning Katrínar enda var hún ekki forsætisráðherra þá.
Enda á hún ekki einkarétt á andvaraleysi og virðingarleysi fyrir lögum, borgarstjórn lætur það viðgangast að á Hverfisgötu sé skrifað Bus only, ekki stafur á ástkæra, ylhýra.
Utanríkisráðherra sættir sig við að honum sé sent bréf á ensku frá samtökum atvinulífsins, undirrituðu af Andrési nokkrum Magnússyni.
Ráðherrann átti auðvitað að senda sorabréf þetta tilbaka og krefjast tilskrifs á íslensku. Þýða þessar bréfaskriftir að samtök atvinnurekenda skipi sér í sveit brennuvarganna, mállandráðamannanna?
Viðskiptaráð hefur alltént löngum verið enskumennskunnar megin, sett t.d. á laggirnar svo til alenskuvæddan háskóla. Og businesstossum í hópi veitingahúsaeigenda þykir ekkert sjálfsagðara en að hafa fólk í vinnu sem ekki skilur bofs í íslensku og jarmar á einhverri gerviensku.
Setja ber í lög að enginn fái að starfa á veitingahúsi nema geta a.m.k. afgreitt einfaldar pantanir á íslensku.
En ósanngjarnt væri að segja að allir atvinnurekendur og fjárfestar séu brennuvargar, Heiðar Guðjónsson, viðskiptamaður, talar máli íslenskunnar í viðtali. Hafi hann þökk fyrir.
Annað dæmi um enskumennsku er sú ráðstöfun hins árlega Opna Reykjavíkurskákmótsins að hafa heimasíðuna bara á ensku. Annars staðar í heiminum þykir sjálfsagt að heimasíða skákmóta sé líka á móðurmálinu.
Sama er uppi á teningnum hvað varðar íslensk skákfélög og þátttöku þeirra í alþjóðamótum. Þar þýða þau nöfn sín á ensku, Víkingaklúbburinn kallar sig Vking Chess Club og Taflfélag Akureyar Akureyri Chess Club.
Af hverju ekki þýða "Akureyri" og kalla félagið Field Peninsula Chess Club?
Af hverju þýða skákmennirnir ekki nöfn sín? Íslensk nöfn eru ekkert smávegis erfið fyrir útlendinga, Helgi Áss gæti kallað sig Holy Hill.
Að gamni slepptu þá þýða engin önnur skákfélög í heiminum heiti sín. Norskt félag kallar sig Offerspill og þýðir ekki heiti sitt, þýsku félögin kallast Schachvereine og þau slafnesku halda sínum slafnesku nöfnum, t.d. hið sigursæla Novy Bor.
Þetta er ekkert annað en sveitamennska og enskusnobb hjá íslenskum skákmönnum. Njóti starfsemi þeirra ríkisstyrkja ber að afnema þá nema þeir bæti ráð sitt.
Halló var það, heillin!
En vandinn er djúptækari en svo að hann verði leystur með lagasetningu. Sagt er að sannleikann heyri menn helst úr munni barna.
Þessu til sannindamerkis skal sagt að tólf vetra drengstauli mun hafa sagt í fjölmiðlum að íslenska væri hallærisleg og enginn tæki hana alvarlega. Halló var það heillin!
Stubbur vill verða stór, gjamma á ensku eins og kúla liðið í Hollywood, má ég ekki mamma með í leikinn þramma.
Með þessu afhjúpað strákskömmin hið sanna eðli mállandráðastefnunnar, óttinn við að vera halló er ástæða þess að galað er um nauðsyn þess að leggja móðurmálið niður (af hverju hugsa ég hlýlega til flenginga?).
Nefna má að sama er upp á teningnum í Noregi og sjálfsagt víða um lönd. Í grein í norska blaðinu Aftenposten var sagt að norsk börn lifðu í heimi sem væri að miklu leyti enskumælandi. Mörg þeirra væru jafnvel betri í ensku en norsku. Sælt er sameiginlegt skipbrot.
En Norðmenn eru ekki eins mikið fyrir að hlaupa á eftir tískunni og Íslendingar, ekki eins hræddir við að vera hallærislegir.
Fáar þjóðir eru haldnar annarri eins tískugræðgi og Íslendingar, samanber það sem áður um hallóóttann.
Tískuhyskinu finnst ekkert sjálfsagðara en að fórna öllu fyrir tískuna, þ.á.m. stórmerku, meira en þúsund ára gömlu máli.
Takist mállandráðamönnum að farga íslenskunni verður það í fyrsta sinn í sögunni sem tungumál líður undir lok vegna þess að mælendur þess óttast að vera hallærislegir.
Taki þjóðin að gjamma ensku þá mun hún aldeilis tolla í tískunni, hugsar mállandráðahyskið.
Sitthvað um ensku og efnahag
Þessi ótti er dulbúinn með græðgisrökum, blaðri um að dýrt sé að tala ástkæra ylhýra (ég hef áður hrakið rökin fyrir þessu og nenni ekki að endurtaka þau hér).
Mállandráðafólin halda að Íslendingar geti án erfiðleika breyst úr ljótum íslenskumælandi andarunga í fagran enskugjammandi svan.
Það er tóm tjara, það myndi kosta ógnarmikið að enskuvæða landið, t.d. yrði að flytja inn kennara í stórum stíl frá enskumælandi löndum þar eð fæstir íslenskir kennarar eru nógu gsleipir í ensku til að kenna á þeirri tískuflottu tungu.
Einnig yrði að moka íslenskum bókum á haugana í stórum stíl, o.s.frv.
Þess utan gerir tækniþróunin að verkum að enska er ekki eins mikilvæg og hún var fyrir fáeinum áratugum. Nú geta menn talað saman með þeim hætti að báðir nota sitt eigið tungumál en tölvuforrit þýða jafnharðan það sem þeir segja.
Hið sama gildir um skýrslur og reglugerðir, þýða má þær á hvaða mál sem vera skuli með fulltingi forritanna.
Því má heldur ekki gleyma að hið eiginlega alþjóðamál er ekki alvöruenska heldur glópamál (e. Globish) e.k. einfölduð viðskipta-enska sem vart stendur undir nafni.
Til að standa sig vel á alþjóðamarkaði nægir að kunna glópamálið, alvöruenska er óþörf.
Í ofan á lag bendir margt til þess að það hægist á hnattvæðingunni, hún sé jafnvel að stöðvast, m.a. vegna þess að einræðisherrar hafa nýtt sér alheimsverkaskiptingu með því að nota það sem þeir stjórna af hráefnum og öðru til að þrýsta á aðrar þjóðir.
Nægir að nefna olíuvald rússneska einræðisherrans og það hvernig hinn kínverski starfsbróðir hans hótar þjóðum með efnahagsþvingunum.
Nú er talað um vinavistun (e. friendsourcing), ekki útivistun þar eð hættulegt kann að vera að útivista til fjandsamlegra ríkja.
Enskan hefur hingað til verið mál hnattvæðingar, stöðvist hún verður goðtungan ekki eins mikilvæg og áður.
Þess utan gæti annað tungumál tekið yfir sem mál hnattvæðingar, haldi hún áfram.
Ekki skal útiloka að Kínverjar verði forystuþjóð í efnahagslífi heimsins, þrátt fyrir margháttuð vandkvæði í kínversku efnahagslífi þá mun landið hafa tekið forystu á 37 af 44 megintæknisviðum.
Sviðum þar sem Bandaríkin voru áður ríkjandi. Það gæti skipt sköpum, leitt til þess að kínverska verði alþjóðatunga og taki við af enskunni. Á þá að kínverskuvæða Ísland?
Nefna má að eitt norskt rafeindafyrirtæki ber heitið Freyr, annað Loke (Loki), bæði fornnorræn heiti. Samt (eða þess vegna) gera þau það gott alþjóðlega.
En sveitalubbarnir íslensku halda að ekki sé hægt að ná alþjóðlegum árangri nema að skíra fyrirtæki sín enskum nöfnum, samanber sveita-ensku-mennska skákmannanna.
Ekki syngur Sigur Rós á ensku en nýtur samt alþjóðlegrar frægðar. Og stundum skrifar Björk á íslensku á plötuumslög, syngur jafnvel á því lummulega máli.
Hún er tuttuguþúsundsinnum frægari en enskusnobbhænsnin meðal íslenskra poppara.
Enska er því ekki sú mikla ávísun á frægð og frama sem ensku-heimskingjarnir halda.
Bæta má við að væri enska ávísun á efnahagsárangur þá væru enskumælandi lönd á borð við Jamaíku og ýmis lönd í Afríku þrælrík. En þau eru bláfátæk.
Ekki má gleyma efnahagserfiðleikum Breta og Bandaríkjamanna, vestanhafs hafa raunlaun á unna klukkustund staðið í stað um alllangt skeið. Um vandkvæði Breta þarf ekki að fjölyrða.
Enska er augljóslega ekki konungsleiðin að góðum kjörum hvað sem mállandráðahyskið kann um það mál að halda.
Vandinn og tillögur til úrbóta
Annar meginvandi er athafnaleysi hinna málhollu og meintra þjóðernissinna.
Þeir síðarnefndu hamast gegn Litháum og lituðu fólki en virðast ekki hafa neinar áhyggjur af framtíð tungunnar.
Þeir fyrrnefndu láta sér nægja að stunda harmtölur um bága stöðu íslenskunnar en gera ekkert til að bæta hana, stofna ekki brunalið.
Don Kíkotar í hópi málvöndunarsinna heyja stríð við vindmyllur þágufallssýki meðan hús málsins fuðrar upp.
Þessu verður að breyta, setja ber brunalið á laggirnar. Liðsmenn þess verða að vera óhræddir við að bjóða brennuvörgunum byrginn. Skipuleggja ber sniðgengi við fyrirtæki í eigu þeirra, pólitíkusum sem ekki standa sig í stykkinu skal refsað í kjörklefa.
Beita má slaufun og skítastormi ef ekkert betra býðst.
Kæra ber opinberar stofnanir sem ekki virða mállandhelgina, lögin um ríkistunguna. Berjast verður fyrir skýrri löggjöf og fyrir því að farið verði að lögum.
Eins og áður segir ber helst að lögfesta að erlent starfsfólk kunni nóg í íslensku til að afgreiða pantanir og annað slíkt.
Ríkinu ber að sjá um námskeiðahald í slíkri lágmarks-íslensku. Setja ber í lög að matseðlar skuli líka vera á íslensku.
Starfsemi sem aðeins fer fram á ensku skal ekki fá eyri af almannafé, samanber það sem segir um enskuheimsku skákheimsins íslenska.
En umfram allt verður að efla íslenskukennslu í skólum, málhollir foreldrar, afar og ömmur verða líka að gera sitt.
Lokaorð
Að lokum: Niður með brennuvargana! Burt með mállandráðapakkið, tískuhyskið og enskusnobbhænsnin! Slökkvið eldana nú, annars mun hús íslenskunnar fuðra upp! Meðan ég man: Katrín, hættu að sarga andskotans fiðluna!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:38 | Facebook
Athugasemdir
Ég á fötu, tilbúinn í fötuboðhlaup.
Guðjón E. Hreinberg, 26.8.2023 kl. 11:52
Takk en hvað áttu við?
Stefán Valdemar Snævarr, 26.8.2023 kl. 12:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.