DREIFBÝLI GEGN ÞÉTTBÝLI

Ég ætla ekki að ræða íslenska hreppapólitík í þessum pistli. Í stað þess hyggst ég beina sjónum mínum að sögu mannkynsins á síðustu tæpu hundrað árum.

Ég ætla að  kynna kenningu mína um að spenna milli sveita og borga hafi leikið stærra hlutverk í sögunni en menn halda.

Þessu til sannindamerkis skal nefnt að nasistar voru að mörgu leyti dreifbýlisflokkur, þeir dásömuðu bændur og búalið enda nutu þeir mikils fylgis í sveitum Þýskalands.

Þýskir bændur væru heilbrigðir synir jarðarinnar, tengdir henni blóðböndum. Gagnstætt þeim voru borgir í hugum nasista úrkynjuð,  gyðingleg lastabæli okrara, krata og kommúnista.

Reyndar voru sumir kommúnistar sveitanna megin, Maó Zedong var einn þeirra og fylgismenn hans flestir bændur. Æði margir þeirra sultu í hel eftir stóra stökkið hans Maós um 1960, sjaldan launar kálfur ofeldið, hann beitir fremur ofbeldi.

Einhver skyldleik var milli maóista og rauðu khemerana í Kambódíu en þeir voru haldnir hatri á borgarbúum.

Fyrsta verk þeirra eftir valdatökuna 1975 var að tæma bæi og borgir, slátra öllum menntamönnum (þeir voru borgarbörn), og neyða fólk til að þræla á ökrunum. Milljónir manna voru myrtir af khemurunum rauðu, hendur þeirra roðnar blóði.

Víetnamstríðið var líka að mörgu leyti stríð milli dreif- og þéttbýlis. Hin svonefnda Þjóðfrelsisfylking hafði töluvert fylgi á landsbyggðinni. Með harkalegum hernaði sínum ráku Bandaríkjamenn marga sveitamenn í faðm kommúnista.

En borgarbúar virðast fremur hafa stutt hina spilltu  og stjórnlyndu Saigonstjórn eða verið alla vega andsnúnir hinum meintu þjóðfrelsismönnum og þeirra norður-víetnömsku „vinum“.  Þeir sýndu sitt sanna andlit þegar stríðinu lauk.

Hér ber að nefna að kommúnistar hafa yfirleitt fremur verið borganna megin, alla vega í Evrópu. Í rússnesku byltingunni studdu borgarbúar fremur bolsévíka en andstæðinga þeirra sem sóttu sitt fylgi til sveitanna.

 

Meðal þeirra var sá af herjum borgarastyrjaldarinnar sem telja má her lýðræðissinna, Alþýðuher Komuch, her hins lýðræðiskjörna þings sem  bolsevíkar ráku heim.

Hann var aðallega skipaður stuðningsmönnum Félagsbyltingarflokksins sem var róttækur umbótaflokkur er hafði mest af sínu fylgi á landsbyggðinni.

Í Afganistan var ástandið svipað þegar kommúnistar réðu þar ríkjum, það litla fylgi sem þeir höfðu var aðallega meðal borgarbúa.

Fyrr á árum voru borgir og bæir í Afganistan  fremur vestrænir meðan sveitaalþýðan lifði í miðaldaheimi.

Borgarastyrjaldirnar þar í landi voru að ekki óverulegu leyti stríð milli dreif- og þéttbýlis.

Víkjum að vesturlöndum. Þjóðrembu-íhaldsöflin, sem nú stjórna Póllandi, sækja fylgi sitt til  sveita, borgarbúar eru frjálslyndir og alþjóðlegir hugsun.

Hið sama gildir um Ungverjaland, Tyrkland, Bretland  og ekki síst Bandaríkin. Þar vestra er dreifbýlisliðið hákristilegt  afturhaldsfólk sem flatmagar fyrir Donald Trump. Þéttbýlisfólkið er einatt annarrar hyggju og kýs demókrata.

Ekki verður annað séð en að dreifbýlið ógni frelsi og lýðræði víða á hnettinum þótt þéttbýlismenn séu hreint ekki saklausir af því heldur.

„Stadtluft macht frei“, sögðu Þjóðverjar á miðöldum, borgarloftið gerir menn frjálsa.

Það er vissulega orðum aukið en eins og stendur er þéttbýlið fremur frelsisins megin en dreifbýlið.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband