7.10.2023 | 15:07
Haukar í horni Pútíns, fálkar í ranni hans
Það er einkennilegur andskoti að tveir þeirra Íslendinga sem verja Pútín og innrás hans bera nafnið Haukur.
Þeir eru réttnefndir haukar í horni rússneska einvaldsins. Haukur nokkur Jóhannsson upplýsir lesendur Morgunblaðsins um að Úkraínuher hafa á árunum 2014-2022 drepið 14000 óbreytta íbúa á Donbasssvæðinu.
En hvað segja Sameinuðu þjóðirnar? Þær segja að hér sé á ferðinni heildartala allra þeirra sem féllu á átökunum á þessu svæði. Af þeim hafi 4100 verið úkraínskir hermenn, 5650 rússneskir hermenn, 3350 óbreyttir borgarar.
Ætli Rússarnir beri minni ábyrgð á mannfallinu meðal óbreyttra borgara en Úkraínumenn?
Heimild Hauks þessa er eftir öllum sólarmerkjum að dæma rússneska áróðursvélin. Rússar hafa notað þessa staðhæfingu um mannfall óbreyttra borgara sem rök fyrir því að Úkraínumenn fremji þjóðarmorð í Donbass. Ég kýs að trúa Sameinuðu þjóðunun þar til annað sannara reynist.
Annar haukanna er Haukur Hauksson sem í Moskvu býr og kokgleypir áróðri Kremlverja en afgreiðir allt sem honum er óþægilegt sem falsfréttir og blekkingar.
Hann fór í ferð um hernumdu svæðin og lofsöng rússneska hernámið en afgreiddi fréttir um fjöldamorð í Búrtsja sem lið í samsæri gegn sannleikanum.
En ef samsæri eru svona algeng af hverju skyldu rúSSnesku hernámsyfirvöld ekki hafi framið samsæri til að blekkja útlendinga sem ferðast um hernumdu svæðin? Blekkt þá til að trúa því að engin fjöldamorð hafi verið framin í Búrtsja.
NATÓ og Rússland
Prigósín heitinn sagði að innrásin í Úkraínu hafi alls ekki verið gerð vegna einhverja ógna frá NATÓ og Úkraínu, Rússlandi hafi ekki stafað neitt af þessum aðilum.
Hún hafi verið gerð vegna þess að ólígarkar í Moskvu hafi viljað klófesta auðlindir
Þetta virkar sannfærandi í ljósi þess sem ég tel mig vita um Pútín og félaga, fyrrum samstarfsmaður hans, Sergei Púgasjov segir hann gjörspilltan. Kannski Prígósín hafi undirritað dauðadóm sinn með þessari yfirlýsingu.
Sé stækkun NATÓ ógn við Rússland má spyrja hvers vegna Pútín talaði vel um Norðuratlantshafsbandalagið í byrjun aldarinnar og nefndi möguleikann á að Rússland gengi í NATÓ.
Bandalagið stækkaði vegna þess að fyrrum leppríki Sovétríkjanna báðu um inngöngu vegna skiljanlegs ótta við Moskvuvaldið. Finnar drógu ekki úr herstyrk sínum því þeir þekktu Moskvuherrana og valdagirni þeirra.
Margar staðreyndir benda sterklega gegn því að NATÓ-stækkunin sé ógn við Rússlandi: Í fyrsta lagi voru engir erlendir hermenn í nýju NATÓ-ríkjunum á árunum fyrir innrás. Í öðru lagi lögðu Bandaríkin niður allmargar herstöðvar í Evrópu og drógu stórlega úr herstyrk þar. Í þriðja lagi afvopnuðust Evrópuríkin nánast.
Af þessu verður aðeins dregin sú ályktun að NATÓ stækkunin hafi ekki verið nein ógn við Rússland.
Enda segir Mikael Kasjanov, fyrrrum forsætisráðherra Pútíns, að hann viti mæta vel að NATÓ ógni ekki Rússlandi.
Við má bæta að hafi Vesturveldin ætlað Rússum illt má spyrja hvers vegna George Bush eldri nánast grátbað Úkraínumenn um að segja sig ekki úr lögum við Sovétríkin.
Og hvers vegna Bill Clinton dekstraði þá til að láta kjarnorkuvopn sín af hendi og gefa Rússum þau.
Niðurstaðan er sú að Vesturveldin hafi aldrei ógnað Rússlandi.
Fálkarnir pútínsku
Nú víkur sögunni að öðrum pútínistum en haukunum tveimur, köllum þá fálkana samanber orðið fálki í merkingunni kjáni. Einn þeirra kann að spyrja hvort ekki sé mikið um vonda fasista í liði Úkraínumanna.
Svarið er að því miður sé eitthvað um það en hið sama gildi í hæsta máta um Rússaliðið. Til dæmis berst hinn nýnasíska hreyfing Rusich með rússneska hernum.
Einnig hefur hugmyndafræði Pútíns fasískar hliðar, hann lét flytja jarðneskar leifar fasistans Ivan Iljíns til Moskvu og lagði blómsveig á gröf hans. Sá bjó í Þýskalandi árið 1933 og fagnaði valdatöku nasista. (samkvæmt t.d. Snyder 2018: 5859).
Iljín boðaði e.k. trúarlegan fasisma sem skipaði rússnesku þjóðinni í hásæti, hún væri útvalin þjóð. Rússland væri sérstakt land, handan tímans (!!!), því landi skyldi stjórnað af alvöldum, útvöldum, einstakling.
Það var því tæpast tilviljun að Iljín fagnaði valdatöku nasista í Þýskalandi. Samt hvetur samstarfsmaður Pútíns, Dmitri Medvedev, rússneska æsku að lesa þennan hrylling.
Annar meðhjálpari sama manns, Valerí Súrkov, mun hafa nútímavætt kenningar heimspekingsins" (Súrkov þessi mun hafa haldið því fram að "leiðrétta" þyrfti landamæri Eystrasaltsríkjanna, Rússum í vil).
Til að gera illt verra hafi úrvals-rit Iljíns verið gefin öllum meðlimum Pútínflokksins og sérhverjum ríkisstarfsmanni í landinu (Snyder 2018: 1635 og víðar).
Bæta má við að sérfræðingur í pútínsku, dr. Jade McGlyn, skrifar grein í andófsritið rússneska, Moscow Times, um ásakanir Kremlverja um nasisma í Úkraínu á dögum síðara heimsstríðs.
Hún segir að aðeins 250000 þeirra hafi barist með nasistum í stríðinu, sjö milljónir þeirra í Sovéthernum.
Einnig hafi um milljón Rússa barist í her Vlasovs herforingja en sá her barðist með Þjóðverjum. Pútínistar, bæði fálkar og haukar, ættu að tala lægra um nasisma í Úkraínu.
Fálkinn gefst ekki upp heldur staðhæfir að stríðið sé staðgenglastríð, Úkrainuher sé staðgengill NATÓ-herjanna. Vandinn er sá að ekki eru til neinar sannanir mér vitanlega fyrir því að Úkraínumenn hlýði fyrirskipunum NATÓ og Bandaríkjanna.
Með sömu rökum mætti halda því fram að Sovétherinn hafi verið staðgengill Vesturveldanna á fyrsta skeiði viðureignarinnar við nasista.
Hann var nefnilega mjög háður vopnasendingum frá Bretlandi og Bandaríkjunum og hefði líklega tapað stríðinu án þessa stuðnings (samkvæmt Steinfeld 2022: 45-46 og víðar).
Samt dettur engum í hug að Stalín hafi verið leppur Vesturveldanna.
Hvað um Minsksamkomulagið? Fálkarnir segja að Úkraínumenn hafi rofið samkomulagið, það sé ein af ástæðunum fyrir sérstöku hernaðaraðgerðinni.
Því hefur verið haldið fram að Rússar hafi aldrei haldið samkomulagið, þeir hafi gagnstætt samkomulaginu ekki gefið eftirlitsnefnd tækifæri til að fylgjast með hreyfingu herafla sína.
Einnig hafi þeir þegar í febrúar 2015 aðstoðað leppa sína í Donbass við leggja undir sig úkraínskan bæ.
Það kæmi mér ekki á óvart þótt þetta sé satt. Pútín rauf gerða samninga um að virða landamæri Úkraínu þegar 2014. Þess utan laug hann rétt fyrir innrásina, staðhæfði her hans væri bara að stunda heræfingar.
Maður sem hegðar sér svona er ekki líklegur til að halda gerða samninga, hvorki þá sem kenndir eru við Minsk né aðra.
Fálkarnir fordæma Maidan-uppreisnina enda Pútín henni andsnúinn. Ekki eitt orð um að Janúkovitsj hafi verið gjörspilltur valdníðingur sem hafði fyrirgert trausti þjóðarinnar.
Líklega hefði hann komið á einræði og gert landið að rússnesku leppríki ef alþýðan hefði ekki risið gegn honum. Milljónir Úkrainumanna tóku þátt í uppreisninni, tæpast hefur CIA mútað þeim öllum.
Fálkinn er ekki af baki dottinn heldur bendir á að bandarískur ráðherra hafi margheimsótt Úkraínu á meðan á Maidan-uppreisninni stóð og dælt fé í uppreisnarmenn. Þetta telur hann sönnun um heimsveldasinnuð áform Kana.
En getur hann sannað það? Getur verið að Bandaríkin hafi einfaldlega viljað styðja lýðræðisöflin? Nú eða verið sumpart lýðræðisins megin, sumpart viljað efla eigin völd. Bandaríkin eru engan vegin heilög og hafin yfir gagnrýni.
Ýmsir, ekki bara pútinistar, telja rétt að halda kosningar á hernumdu svæðum um hvort þau eigi að tilheyra Rússlandi eða Úkraínu skemmta skrattanum.
Þeim gengur mörgum sjálfsagt gott eitt til en réttlæta óbeint innrásina með því að tala eins og áhöld séu um hvoru ríkin svæðin eigi að tilheyra.
Þetta fólk skilur ekki að markmið Pútíns er ekki aðeins að ná suður-austur hluta Úkraínu undir sig heldur allri Úkraínu.
Breska leyniþjónustan segir að áætlunin hafi verið að leggja landið undir sig á fáeinum vikum og halda svo þjóðar-atkvæðagreiðslu í júlí 2022, innlima landið í Rússlandi eftir hana.
Ég ræð af líkum að þetta sé satt. Eða af hverju skrifaði Pútín langa og leiðinlega grein þar sem hann staðhæfði að Rússar og Úkraínumenn væru sama þjóðin?
Af hverju reyndi her hans að hertaka Kænugarð ef markmiðið var bara að losa Donbass úr úkraínskum greipum?
Spurningin er hvort það nægi Pútín að leggja Úkraínu undir sig. Rússneskur hershöfðingi mun hafa sagt að innrásin í Úkraínu sé bara byrjunin, markmiðið sé innrás í Evrópu.
Sennilega sagði hann þetta til að hræða Vesturlandabúa en hver veit? Kannski þetta sé markmið hins zar-fasiska einræðisherra, minnast verður líka yfirlýsinga Súrkovs um landamæri og endalausra hótanna Pútínleppa um kjarnorkuárásir á Evrópuríki.
Vestrænt fólk verður að halda vöku sinni og styðja Úkraínu af fremsta megn, hlusta ekki á kvak hauka og fálka.
Vængstýft hef ég hér hauka tvo og fálka ýmsa, reyndar eru áhöld um hvort þeir voru nokkurn tímann fleygir.
Ívitnaðar bækur:
Snyder, Timothy 2018: The Road to Unfreedom. Russia. Europe. America. New York: Duggan Books.
Steinfeld, Hans-Wilhelm 2022: Russland kriger. Ósló: Cirkana.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.10.2023 kl. 21:12 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Stefán Valdemar; jafnan !
Snilldarlega; fram sett frásaga af þinni hálfu,
sem vænta mátti - og myndræn vel, í leiðinni.
Með beztu kveðjum; af Suðurlandi /
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 7.10.2023 kl. 21:03
Kærar þakkir, Óskar!
Stefán Valdemar Snævarr, 7.10.2023 kl. 21:16
Sæll Stefán Snævarr. Ein besta bloggfærsla sem ég hef lesið um styrjaldir Rússa. Vitnað í heimildir. Þið sem búið í Noregi eruð í mikilli nánd við stærsta ríki veraldar sem stjórnað er af Kreml ráðamönnum. Stjórnmálamönnum sem hafa bannað alla gagnrýni á innrás Rússa í Úkraínu sem hófst 2014. Fólkið í Rússlandi styður ekki almennt útþenslu Rússa eins og þú undirstrikar. Fangelsi eða ferð til Síberíu, ef talað mót skoðunum valdhafa?
Í mörgum ferðum til Rússlands, bæði nyrst og syðst var alltaf að finna elskulegt fólk sem var stolt af menningu sinni og arfleið. Í Leningrad nú Pétursborg náðum við aldrei að tala við venjulegt fólk vegna tungumálaerfiðleika, eða að KGB hélt því frá okkur. Hér er eins og margir bloggarar þekki ekki söguna og tala máli hauka.
Kærar kveðjur til Suður Noregs
Sigurður Antonsson, 8.10.2023 kl. 15:52
Þakka þér fyrir þetta Sigurður. Því miður er ég ekki viss um að Rússar almennt séu andsnúnir stríðinu. Eitt er fyrir sig massívur áróður stjórnvalda, annað er hugslunarháttur alltof margra Rússa. Maður sem ég þekki bjó um nokkurt skeið í Russlandi, talar málið og á rússneksa konu. Hann segir að almenningur styðji stríðið enda séu margir Rússar tilbúnir til að líða skort ef það verði til að auka dýrð móðurlandsins. Vonandi er þetta rangt hjá honum. Alla vega styð ég mig mikið við rússneskar andófsheimildlir (Moscow Times og Meduza), hinir hugrökku rússneksu blaðamenn þessara fréttaveitna eru óragir að gagnrýna innrásina. Ég varð líka vitni að mótmælastöðu frjálsra Rússa fyrir utan sendiráð Rússlands, þeir sungu ukraínska þjóðsönginn. Þetta fólk er von Rússlands og heimsins alls.
Stefán Valdemar Snævarr, 9.10.2023 kl. 10:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.