11.2.2024 | 13:03
ÁRA-TUGUR
Þann áratug, sem nú er hartnær hálfnaður, má kenna við ára, djöfla, nefna ára-tug. Í upphafi hans var kóvítið í algleymingi, í blábyrjuninni réðist óður skríll á þinghúsið bandaríska.
Sá sem eggjaði skrílinn til ódæða var enginn annar en þáverandi Bandaríkjaforseti Donald Trump. Maður sem ógnar lýðræðinu vestanhafs og sem dansar eftir pípu hins zar-fasíska einvalds í Kreml.
Einvaldur sá lét her sinn ráðast inn í Úkraínu og jók mjög kúgun innanlands í Rússlandi. Hann ógnar heimsfriðnum, það gerir kannski ekki hinn leiði og spillti Netanyahu í Ísrael. Hann lætur her sinn rústa allt á Gasasvæðinu, drepa íbúana í stórum stíl.
Það réttlætir ekki fólskulega árás Hamasliða á óbreytta ísraelska borgara.
Til að bæta gráu ofan á svart eykst hamfarahlýnunin hressilega. Vistkerfi jarðar eru í mikilli hættu stödd, ekki bara vegna hlýnunar heldur líka allra handa mengunnar.
Fyrir rúmum aldarþriðjungi skrifaði ég pistla í Alþýðublaðið sáluga, einn bar heitið "Ára-tugur, engla-tugur". Hann fjallaði um níunda tug aldarinnar, byrjun hans mátti kenna við ára, lokin við engla, þ.e. múrhrun og enda kalda stríðsins fyrra.
Vonandi getum við kennt þennan áratug við engla þegar honum loks lýkur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:20 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.