Alþjóðaremban og Íslandssagan

Lengi tröllreið þjóðremba íslenskri sagnfræði. Allt illt í sögu þjóðarinnar var útlendingum að kenna, ekki síst Danakóngum. En nú er öldin önnur, aþjóðarembungar hafa tekið yfir alla umfjöllun um söguna.

Allt sem miður fór er íslenskum bændadurgum að kenna, konungurinn í Kaupmannahöfn var göfugmenni sem vildi þjóðinni vel.

Þessi sýn á Íslandssöguna er orðin  að trúarbrögðum þjóðarinnar. Ekki síst vegna sjónvarpsþátta Baldurs Hermannssonar um vistarband og bændur. Nú síðast mun Bogi Ágústsson hafa boðað þessa visku í útvarpsþáttum.

Valdhafar og vistarband

Vandinn er sá að alþjóðarembusagnfræðin er ekki hótinu skárri en þjóðrembuútgáfan. Ein vinsæl alþjóðrembukenning er sú að stórbændur einir hafi borið ábyrgð á hinu illræmda vistarbandi.

En  þeir hefðu  ekki komist langt með að tjóðra almúgann ef dönsk yfirvöld hefðu ekki lagt blessun sína yfir bandið illa.

Vistarbandið kemst á vegna dóms sem danski hirðstjórinn Diðrik Píning kvað upp, að áeggjan íslenskra stórbænda (skv t.d. Eimar Laxness og Pétri Hrafni Árnasyni 2015: 555-557).

Spurt er: Af hverju var  ekkert eiginlegt vistarband á þjóðveldisöld, þótt eitthvað í þá veruna hafi þegar verið til?  Getur verið að stuðning konungsvalds hefði þurft með til að tjóðra landslýð með þessu óþverrabandi?

Hvað um það, með Píningsdómi var erlendum aðilum bönnuð veturseta á Íslandi.

En voru þessir aðilar kaupmenn í nútíma skilningi? Fyrir daga nútíma samfélagshátta voru engin klár skil milli kaupskapar annars vegar, sjórána og annarra gripdeilda hins vegar, kannski var bannið að einhverju leyti tilraun til að koma í veg fyrir slíkt.

Ekki má skilja orð mín þannig að ég neiti því að kaupskapur og fiskveiðar útlendinga á ensku öldinni hafi ekki haft neinar góðar hliðar.

Sjálfsagt hefur þessi nærvera útlendinga verið að mörgu leyti af hinu góða. En án atfylgis konungsvaldsins hefði verið illmöguelgt að hindra vetursetu þeirra.

Athuga ber að Danakonungur var stærsti landeigandi Íslands í byrjun átjándu aldar, hann átti  25% jarðnæðis, 50% ef kirkjujarðir eru teknar með en þá var kirkjan orðin ríkisfyrirtæki.

Hann hafði því mikinn hag af vistarbandinu enda var vistarband í Danmörku til 1854  (ég veit ekki hve stór hluti jarðnæðis á Íslandi voru konungsjarðir á dögum Pínings, ekki má útiloka að hann  hafi haft þær í huga er hann kvað upp dóminn illræmda).

Á þessum tíma (í byrjun átjándu aldar) voru aðeins 5% íslenskra bænda sjálfseignarbændur.

Prófessor Jón Viðar Sigurðsson segir að á þjóðveldisöld hafi tveir af hverjum þremur þeirra verið sjálfseignarbændur, aðeins þriðjungur norska bænda hafi átt eigin jörð (Jón Viðar er líklega sá fræðimaður sem mest veit um íslenska og norska miðaldasögu) (Jón Viðar 2008).

Hvers vegna hverfur íslenska sjálfseignarbændastéttin á tímum hins erlenda konungsvalds?

Mér hefur dottið í hug að spinna ögn við staðhæfingu Jóns Viðars:  Eftir að landið varð norskt skattland hafi íslenskir höfðingjar ekki lengur þurft að öðlast hylli bænda með gjöfum og öðru slíku (Jón Viðar leggur mikla áherslu á þennan þátt þjóðveldisins).

Þá hafi aðalmálið verið annars vegar að öðlast hylli konungs eða standa saman gegn honum, í stað þess að keppa um vinsældir bændadurga.

Ég spinn við þessa staðhæfingu með eftirfarandi hætti: Brögð hafi verið að því að gjafir og stuðningur höfðingja kæmi í veg fyrir  að bændur yrðu að bregða búi, eftir að þær gjafir hurfu hafi líkurnar aukist á því að þeir færu á hausinn.

Í ofan á lag urðu bændur nú að greiða konungi skatt en þeir voru að heita skattfrjálsir á söguöld. Til að gera illt verra hafi afkoma þeirra versnað þegar litla ísöld hófst á fjórtándu öld. 

Kólnunin  kann að hafa sett fjölda bænda á hausinn. 

Landeyðing hefur gert illt verra, æ meira jarðnæði varð örfoka. Gagnstætt hefur uppfok ekki verið vandamál bænda í hinum skógsæla Noregi

Landeyðingar og  kólnunar vegna   hafa líkast til margir íslenskir  smábændur að bregða búi og ráða sig í vist. 

Ekki batnaði ástandið á sveinaöld (15du öldinni) þegar vopnaðir ribbaldar undir stjórn stórbænda réðust á fátæka bændur og rændu þá landi. Það landrán er alfarið á ábyrgð innlendra höfðingja, á sveinaöld var konungsvaldið veikt.

Reyndar var sveinaöldin öld upplausnar og óreiðu m.a. vegna þess að stofnanir þjóðveldisins voru horfnar, stofnanir konungsvaldsins enn veikar. Kannski hefði engin sveinaöld runnið upp ef landið hefði haldið sjálfsstæði sínu.

Þó ber þess að gæta að ástandið var litlu skárra á Sturlungaöld enda voru stofnanir þjóðveldisins við það að leysast upp.

Nefna má að fram að Sturlungaöld voru íslenskir höfðingjar ekki valdameiri en svo að þeir gengu til allra algengra verka á býlum sínum, voru bændur.

Lénshöfðingjum Evrópu hefði þótt það sérkennilegt, þeir gerðu ekkert annað en berjast og kúga ánauðuga bændur.

Öll vötn féllu  að þeim sama Dýrafirði, sum vötn áttu sér uppsprettu í konungsgarði, aðrar í stórbændajörðum, þær þriðju á lendum veðurguða.  Með þessum hætti hafi smám saman kvarnast úr sjálfseignarbændastéttinni.

Ef svo ólíklega hefði viljað til að landið hefði haldið sjálfsstæði sínu, t.d. undir forystu íslensks jarls eða konungs, má velta fyrir sér hvort jafn illa hefði farið fyrir bændum.

Lítum á það þegar Danakonungur lét ræna íslensk klaustur vegna siðskiptanna. Allt góssið var flutt til Danmerkur. Hefði innlendur, lúterskur,  konungur rænt klaustrin má ætla að auðurinn hefði ekki flust úr landi, jafnvel nýst til fjárfestinga sem alþýða manna hefði ef til vill  haft einhvern smáhag af.

Meðan ég man: Í bók sinni um Tormodus Torfæus (Þormóð Torfason) segir Bergsveinn Birgisson að danskir embættismenn í Noregi hafi farið illa með landslýð, rænt og ruplað og flutt þýfið heim til Danmerkur. Hann gefur í skyn að íslenskir embættismenn Danakonungs hafi verið skömminni skárri (Bergsveinn Birgisson 2021).

Spurt er: Ef Danastjórn var svona almennileg við Íslendinga af hverju kom hún á einokunarverslun?

Talið um mildi Danajöfurs verður hlægilegt í ljósi þess að bændaánauð var í Danmörku, þrælahald í nýlendunni í karabíska eyjahafinu og norskir aþýðumenn notaðir sem fallbyssufóður.

Var slíkur kóngur líklegur til að fara Íslendinga mjúkum höndum?

Bæjarmyndun

Mikið hefur verið hjalað um það hvers vegna ekki urðu til bæir á Íslandi og lýsa alþjóðarembungar víginu á hendur stórbænda, þeir hafi hamast gegn bæjarmyndun.

Gallinn við þessa staðhæfingu er sá að þeir, sem henni trúa, vita ekki að á miðöldum og í upphafi nýaldar urðu bæir og borgir yfirleitt aðeins til vegna þess að konungar og öflugir höfðingjar stofnsettu þá/þær.

Líklega m.a. vegna þess að vald þurfti til að koma í veg fyrir að sveitavargurinn eyðilagði þær. Talið er að téður vargur hafi rústað sænska víkingabæinn Birka.

Ósló var stofnsett af Haraldi konungi harðráða, Björgvin af Ólafi konungi kyrra. Enginn íslenskur höfðingi á þjóðveldisöld var nógu öflugur til að stofnsetja bæi, það er því fásinna að kenna höfðingjavaldinu um þéttbýlisskort á Ísland.

Auk þess virðast höfðingjar hafa sætt sig við þá myndun sjávarþorpa sem átti sér stað 1200-1400 (um þessa myndun, sjá Sigurð Snævarr 1993: 15, hann nefnir ekki viðbrögð höfðingja).

En  erfitt hefði orðið að setja stærri  bæi á laggirnar vegna viðarskorts. Miðaldabæir voru að miklu leyti viðarkyns.

Danakonungur stofnsetti fjölda bæja í Noregi, t.d. Fredrikstad, Kristiansand, Kristiansund og Halden. Hann hefði líklega getað sett á laggirnar smábæi á Íslandi og verndað sjávarþorpin hefði hann séð sér hag í því.

Íslenskir stórbændur hefðu aldrei þorað að stugga við bæ eða þorpi sem naut verndar konungsvaldsins. En sem stærsti jarðeigandi landsins hefur Danakonungur haft lítinn hag af bæjarmyndunum.

Eða skyldi það vera tilviljun að einokunarverslunin í boði konungs ýtti undir landbúnað, ekki fiskveiðar? Hvað fiskveiðar varðar þá gleymist oft hve lítinn við Íslendingar höfðu, lítið annað en rekadrumba. 

Eftir miðja elleftu öld eiga þeir ekki lengur skip heldur verða að húkka far til útlanda með norskum kaupmönnum. 

Vegna viðarleysis  var erfitt að smíða báta og þar með örðugt að stunda fiskveiðar, litla ísöldin hefur gert það enn erfiðara en ella.

Það var því ekki bara yfirgangur stórbænda sem veikti stöðu útgerðarinnar heldur líka viðarskortur og mögulegir hagsmunir konungsvaldsins.

Mikilvægt er að hafa í huga að ef konungur hefði lagt það á sig að stuðla að bæjarmyndun þá hefði það veikt vistarbandið því hjú hefðu getað fengið vinnu í bæjunum.

Hvað sem því líður er bæjarmyndun ekki eins heilög og sumir halda. Fyrir daga nútímasamfélaga voru bæir og borgir pestarbæli þar sem fleiri dóu en fæddust. Talað er um þversögn McNeills, bæir héldu íbúafjölda sínum eða uxu þrátt fyrir þetta  (skv Algaze 2018: 23–54).

Alla vega var skoðun  sveitalubbanna á borgarlífi ekki úr lausu lofti gripin, það hafði ýmsa ókosti. En þetta breyttist með nútíma tækni og læknavísindum, tækni og vísindi hafa gert borgir lífvænlegar.  

Velta fyrir sér hvort innlendur konungur hefði séð sér hag í að stuðla að bæjarmyndunum. Hann gæti hafa getað  gert bandalag við bæjarbúa gegn sveitahöfðingjum eins og konungur víða í Evrópu gerðu í byrjun nýaldar.

Alþjóðaremba án alþjóðasögu

Það er sláandi hversu litla þekkingu alþjóðarembungar virðast hafa á alþjóðlegri sögu, alla vega þeir rembungar sem rembast við að jarma  í fjöl- og fámiðlum.

Eða af hverju er aldrei talað um vistarband og bændaánauð í Danmörku, Englandi og fleiri Evrópuríkjum?

Mér vitanlega hefur enginn þeirra rætt sögu bæjarmyndana í Evrópu, að Noregi meðtöldum. Merkilegt nokk tala sumir þeirra (alla vega í fjölmiðlum og á feisbók) eins og hvergi hafi verið höfðingjaveldi nema á Íslandi.

Þeir virðast ekki vita að bókstaflega alls staðar á jarðarkringlunni hafa verið einhverjir hópar sem höfðu mun meiri völd en almúginn.

Undantekningar eru örsmá „frumstæð“ samfélög, mögulega líka fornmenning Indusdalsins.

Í þessu sambandi komst á kreik sá þvættingur  að Noregur, gagnstætt Íslandi hefði aldrei  haft höfðingaveldi. En staðreyndin er sú  miðaldakónungarnir  norsku  voru  valdameiri en öll höfðingjakássan íslenska samanlögð.

Ekki skorti heldur norska jarla, hertoga  og hersa völd. Yfirstéttarmenn norskir voru nefndir „lendir menn“  (menn geta fræðst um norskt miðaldasamfélag í nefndri bók Jóns Viðars 2008).

 

Spurningar og svör

Einhver kann nú að spyrja hvort ég trúi því í fúlustu alvöru að þjóðveldisöld hafi staðið undir nafni, verið lýðræðisöld þar sem smábændur höfðu það þokkalegt.

Nei, auðvitað réðu höfðingjar mestu, vinnuhjú voru réttlaus að kalla, konur valdlitlar.  En gagnstætt vel flestum Evrópulöndum á miðöldum var vísir að lýðræði þar eð menn gátu ekki orðið goðar nema njóta fylgis meðal bænda, alla vega stórbænda.

Það var örlítill lýðræðislegur þáttur í alþingiskerfinu (alltént fram að Sturlungaöld), það þótt aðeins u.þ.b. 10% fullorðinna karlmenn hefðu rétt til þátttöku. Goðar og gildir bændur, þeir síðastnefndu urðu að eiga sem nam tveimur kúgildum til að öðlast þingseturétt.

Í lénsríkjum Evrópu var yfirleitt ekkert slíkt í boði, þar ríkti stigveldi með konung á hátindinum, ánauðugum bændum neðst. Meira að segja í Noregi var vísir að lénsveldi þótt þar hefðu þingin viss völd.

Reyndar voru Sviss og ýmis evrópsk borgríki með einhvern smávísi að  lýðræði, þó tæpast stærri en þjóðveldisvísirinn.

Aðalmálið er að íslensk þing (bæði Alþingi og héraðsþing) skópu örmjóan  vísi að umræðumenningu. Þessi menning hverfur þegar landið kemst undir útlenda kónga. Kannski hefði  pínulitla umræðumenning tórað ef innlendur aðili hefði tekið völdin í lok Sturlungaaldar.

Þá kann lesandi að spyrja hvort ég haldi að Ísland hefði getað varðveitt sjálfsstæði sitt á þessum tímum.

Nei,  ég efast um það, kannski var það lán í óláni að lenda undir Noregs- og Danakonungum sem fóru kannski skár með þjóðina en t.d. enski kóngurinn hefði gert.

Danakonungur lét ekki fremja fjöldamorð á Íslendingum, það var honum til sóma. Og hann hafði ekki fyrir því að herskylda Íslendinga, gagnstætt því máttu norskir búandkarlar berjast í endalausum stríðum hans.

 

Reyndar er ekki víst að herskylda hefði bara verið af hinu illa. Íslenskir karlar í konngsher hefðu kannski kynnst nýjum hugmyndum, jafnvel lært handverk, ekki hefði af veitt.

Eitt aðalmein Danaveldis var að konungsvaldið sýndi Íslendingum passíva árásargirni,   vandinn var oft það sem konungur gerði ekki, t.d. að láta undir höfuð leggjast að stofnsetja  bæi.

Annað dæmi um passíva árásargirni var sú ráðstöfun að afvopna Íslendinga eftir siðskiptin án þess að efla varnir landsins.

Íslendingar voru því varnarlausir þegar sjóræningjarnir frá Algeirsborg gerðu strandhögg og rændu fólki í stórum stíl. 

Enn kann lesandi að spyrja hvort ég telji sjálfstæði æðst allra gæða.  Nei, það fer eftir efnum og aðstæðum hvort það er af hinu góða. Albanía á dögum harðstjórans Enver Hoxhas var alsjálfstætt, líklega hefði það verið íbúunum fyrir bestu að komast undir mannúðlegt, erlent vald.

Kannski er Evrópubúum nauðugur einn kostur að stofna sameiginlegt ríki til að halda Rússunum í skefjum. Eða Norðurlandabúum að endurvekja Kalmarsambandið.

Lesandi er ekki af baki dottinn heldur spyr hvort ég sé ekki fulldjarfur í gegn-sagnfræði (e. counterfactual history) þegar ég velti fyrir mér hvað kynni að hafa gerst ef innlendur konungur hefði tekið völdin.

Er nokkur leið að ráða í þær rúnir? Get ég útilokað að slíkur konungur hefði reynst hinn versti harðstjóri, verri en nokkur Noregs- eða Danakonungur?

Auðvitað ekki en ég held að oft sé nauðsyn að búa til gegn-sagnfræðilegar sviðssetningar (e. scenarios) til að glöggva skilning okkar á því sem í reynd gerðist.

Til að skilja raunveruleikann verðum við að þekkja möguleika, sviðsetningar geta verið tæki til þess arna í sagnfræði en þó kannski helst í bloggfærslum eins og þessari. Í slíkum færslum má leika sér að hugmyndum, t.d. gegn-sagnfræðilegum hugmyndum.

Lesendinn spyr enn og aftur hvort ekki sé satt að á átjándu og nítjándu öld hafi Danastjórn stundum komið með framfaratillögur sem íslenskir ráðamenn höfnuðu. Vissulega, til dæmis munu innlendir ráðamenn hafa komið í veg fyrir að einokunarverslunin yrði lögð niður 1770 (skv Sigurði Snævarr 1993: 19). 

Athuga ber að tillagan um einokunarverslunina virðist sett fram í valdatíð Struenses hins frjálslynda sem var nánast alvaldur í Danaveldi 1770-2, kom á tjáningar- og viðskiptafrelsi. 

Það er tæpast tilviljun að tillagan er ekki borin fram síðar, Struense missti öll völd 1772 og var hálshöggvinn. Allt var fært til fyrra stjórnlynds horfs í ríki Danakonungs,

Tillagan um afnám einokunarverslunar var nánast örugglega sett fram í óþökk konungsvaldsins. Hún er því hreint ekki dæmi um góða, göfuga Danakonunginn sem alþjóðarembungar trúa á. Fremur hið gagnstæða.

Ætla má að kóngsi hafi haft hag af einokunarversluninni þar eð hann átti miklar landeignir á Íslandi. Eins og áður segir þjónaði hún hagsmunum landbúnaðar, ekki fiskveiða. 

 

Eins og áður segir legg ég áherslu á að innlendir höfðingjar og stórbændur hafi átt sinn stóra þátt í mörgu af því sem miður fór.

 

Alla vega  stuðlaði einokunarverslunin mjög að því að einangra landið og koma í veg fyrir að ferskar, nýjar umbóta-hugmyndir bærust Íslendingum.

Þetta  kunna  að hafa verið meðal  ástæðna  þess að hugsunarháttur þeirra  var fornlegur, fjarstaða landsins bætti ekki úr skák. Þess utan var fólk  fyrir daga nútímasamfélagshátta almennt íhaldssamt og hrætt við breytingar. 

Það  var kannski þess vegna sem Íslendingar voru ekki ginnkeyptir fyrir umbótatilraunum Jörundar hundadagakonungs. William Morris mun segja í ferðabók sinni að Íslendingar væru skaðlega íhaldssamir.

Ef til vill var það vegna almennrar íhaldssemi sem þeir voru andsnúnir umbótum, ekki bara valdagirni yfirstéttarinnar.

Það kann að vera ein  af skýringum þess að vistarbandið hvarf svo seint á Íslandi.   

Hefði umræðumenning þjóðveldisaldar lifað af þá gæti hugsunarhátturinn hafa orðið annar.

Lokaorð

Alþjóðaremban var á sínum tíma ferskur gustur í íslenskri menningu, ekki veitti af að leiðrétta ýmsar þjóðrembuvillur í sagnfræði. En nú er hún orðin að leiðinlegri kreddu sem andæfa ber.

Margt af því sem miður fór í íslenskri sögu var sök jafnt stórbænda sem erlendra konunga, jafnvel íslensks almúga.

Það er ekki heiglum hent að þjóna Clio, gyðju sagnfræðinnar. Best er að hafa vaðið fyrir neðan sig, forðast formúlukennda mynd af sögunni, hvort sem sú mynd er í anda þjóð- eða alþjóðarembu.

Meðal heimilda:

Algaze, Guillermo 2018: “Entropic Cities: The Pardox of Urbanism in Ancient Mesopotamia”, Current Anthropology Volume 59, Number 1, febrúar, bls. 23–54.

Bergsveinn Birgisoson 2021: Mannen fra middelalderen. Björgvin: Vigmostad og Bjørke.

Einar Laxness og Pérur Hrafn Árnason  2015: Íslandssaga A-Ö. Reykjavík: Vaka-Helgafell.

Jón Viðar Sigurðsson 2008: Det norrøne samfunn. Ósló: Pax forlag.

Sigurður Snævarr 1993: Haglýsing Íslands. Reykjavík: Heimskringla.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birgir Loftsson

Góð grein og fróðleg. Það er ein spurning sem enginn virðist vita, hvað fór mikið fé úr landinu við siðbreytingu til Danakonungs? Hinrik 8 Englandskonungur varð forríkur af að ræna klaustur og kirkjustofnanir á svipuðum tíma.  Danir reyndu oft að láta Íslendinga borga herkostnað og fá íslenska dáta. Íslenskir höfðingjar vildu ekki missa vinnuafl og sögðu nei en annars voru þeir hlýðnir rakkar Danakonungs almennt.

En eitt er ljóst að öll mannvirki sem við sjáum í dag, hafa risið eftir að Alþingi fékk löggjafavaldið í sínar hendur 1874. Smá sjálfsstjórn og allt breyttist.  Ekkert var gert fyrir þann tíma, bara fáein steinhús byggð fyrir elítuna.

Skattfé rann úr landi öldum saman og ekkert fór í uppbyggingu íslenskt þjóðfélag. Ekkert. Það segir okkur að það var okkar ógæfa að erlendur konungur hafi ráðið yfir landinu. Sjálfstæði skapar sjálfstætt fólk sem þorir og breytir. Rétt hjá þér að konungur og höfðingjar komu í veg fyrir þéttbýlismynd öldum saman. Ekkert skrítið að sjávarþorp mynduðust eftir 1874 og iðnaður hófst með innlendri stjórn. 

Segja má að stjórn Danakonungs hafi verið glæpsamleg vanræksla og algjört skeytingaleysi um hagi Íslendinga. Þetta gat hann með hjálp innlendra meðhjálpara sem voru svo vitlausir að þeir kunnu ekki að græða pening og byggja sér sómasamleg hús. Maður í efri millistétt Bretlands bjó betur en íslenskur höfðingi. 

Birgir Loftsson, 9.3.2024 kl. 14:55

2 Smámynd: Stefán Valdemar Snævarr

Takk Birgir, já það er einmitt vanræksla Danakonungs sem var kannski mesti skaðvaldurinn. 

Stefán Valdemar Snævarr, 9.3.2024 kl. 15:15

3 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Þetta er mjög vel athugað og ég er þessu sammála, að alþjóðaremban tók við af þjóðrembunni. 

Nú væri óskandi að fleiri í háskólasamfélaginu færu að líta á gallana við alþjóðarembinginn. En þetta er mjög gott og í takt við endurskoðun á svo mörgu.

 

Góður og áhugaverður pistill.

Ingólfur Sigurðsson, 9.3.2024 kl. 15:56

4 Smámynd: Birgir Loftsson

P.S. Ég aldrei getað skilið þá íslenska valdsmenn og menntamenn sem fóru til Danmerkur í gegnum aldir, séð borgarmenninguna og almenna velmegun, en farið svo heim og ekki spurt sig, af hverju er Ísland svona mikið afdalaland? Getum við ekki gert eitthvað? Ef horft var yfir menningarlandslagið, sást ekkert nema nátttúran og einstaka grasbalar sem við nánari skoðun reyndust vera torfbæir. Hýbýlin voru bókstaflega jarðhús. Frelsið er undirstaða íslenskt samfélag. Frelsið til að stofna kaupstaði, frelsið til að versla, frelsið til að stjórna sköttum og innlend valdastétt sem sat á Íslandi án afskipta danska embættismannakerfisins. Allt varð að Íslands böli eins og sagt var. Læt þetta gott heita.

Birgir Loftsson, 9.3.2024 kl. 16:25

5 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

En mikið af þeirri eymd sem okkar fólk þoldi í gegnum aldirnar var ekki eins mikið Dönum að kenna og maður lærði. Fyrir það fyrsta er Ísland kaldara en Danmörk. Hættara er við meiri eymd á slíkum stað. Ef læknalistin hefði orðið vísindalegri fyrr á Vesturlöndum, og frumstæður aðferðir lagðar niður sem drápu sjúklingana og veiktu einsog blóðtaka og fleira, þá hefði okkar þjóð haft það betra. Einnig hefði einhverskonar ríkisbákn utan við kirkju og stóreignamenn kannski gert gagn, og regluverk til hjálpar fátækum.

Þegar maður les um frumstæðar hugmyndir fyrr á tímum og það sem kölluð voru vísindi, þá er maður hissa á að nokkur lifði af. Það var á tímum kirkjunnar, og hún var argasta afturhald sem ekki hjálpaði, eða varla.

En ég er sammála þér Birgir með það að frelsi hefði hjálpað mikið til að bæta lífskjörin, og verzlun og viðskipti kannski mest.

Ingólfur Sigurðsson, 9.3.2024 kl. 16:37

6 Smámynd: Stefán Valdemar Snævarr

Takk Ingólur og Birgir. Ég bætti við áhrifum landeyðingar, æ meira jarðnæði varð örfoka og þess vegna hljóta margir bændur að hafa orðið að bregða búi. Hvað spurninguna um hvers vegna Íslendingum sem lærthöfðu í Dabmörku datt ekki í hug að fara að fordæmi Dana og reisa borgir verður að hafa í huga að fyrir daga nútímasamfélags var fólk almennt þrælíhaldssamt. Því datt sjaldan í hug að hægt væri að breyta ríkjandi ástandi.

Stefán Valdemar Snævarr, 9.3.2024 kl. 17:34

7 Smámynd: Birgir Loftsson

Nóta bene, ætlaði ekki að segja meira en þetta er bara svo skemmtilegt viðfangsefni. Ég sé að ég skrifaði blogggrein um framfara leysið á tímabilinu 1550-1750. Gísli Gunnarsson prófessor, lærifaðir minn, kom með góða skýringu, sjá slóð:

 https://biggilofts.blog.is/blog/biggilofts/entry/2296211/

Birgir Loftsson, 9.3.2024 kl. 22:00

8 Smámynd: Stefán Valdemar Snævarr

Takk, Birgir, líst vel á þetta, les við tækifæri. Gísli var merkur fræðimaður. Þí segir að frelsi sé lausnarorðið, geri ráð fyrir að þú eigir við markaðsfrelsi, að það sé besta leiðin til efnahagsframfara. Ég held að þú einfaldir fullmikið. Stjórn Pinochets jók markaðsfrelsi í Chile æðimikið, samt varð mikið efnahagshrun 1982, hagkerfið dróst saman um 14% og fimmti hver maður varð atvinnulaus. Ekkert slíkt hefur gerst í vestrænum velferðaríkjum með blandað hagkerfi. Suður-Kórea kom á takmörkuðu áætlunarkerfi um 1964 og neyddi lítil fyrirtæki til að sameinast í risafyrirtæki á borð við Samsung og Huyundai. Stefnan svínvirkaði, landið iðnvæddist hraðar en önnur lönd og afnam áætlunarkerfið þegar það hafði náð tilgangi sínum. Markaðsfrelsi er ekki alltaf frelsi í reynd, sagnfræðingurinn Hugh Thomas segir að þrælaverslun vestrænna manna í byrjun nýaldar hafi verið að mestu leyti einkarekinn og þrælamarkaðurinn þrælfrjáls. Hann kostaði milljónir manna lífið. Stundum er markaðsfrelsi raunfrelsi, stundum ekki, stundum er slíkt frelsi efnahagslega hagkvæmt stundum ekki. Varast skal formúlur, jafnt um íslenska hagsögu sem efnahagsstefnu almennt. En sem sagt, hlakka til að lesa færslu þína.

Stefán Valdemar Snævarr, 10.3.2024 kl. 11:41

9 Smámynd: Birgir Loftsson

Nei, ég á við einstaklingsfrelsið sem finnst aðeins í lýðræðisríkjum.  Allt annað frelsið kemur svo í kjölfarið.

Birgir Loftsson, 10.3.2024 kl. 11:45

10 Smámynd: Stefán Valdemar Snævarr

Takk Birgir, líkleha erum við sammála.

Stefán Valdemar Snævarr, 10.3.2024 kl. 12:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband