2.1.2009 | 18:17
VILLA SVARAÐ
Sæll Villi og þakka þér fyrir síðast! Svo ég vindi mér beint að efninu þá held ég ekki að markaðurinn sé vél heldur gagnrýni ég frjálshyggjumenn fyrir að tala eins og markaðurinn sé heilög vél sem öllu reddi svo fremi ríkið sé ekki að hella sandi í gangvirkið. Hvað BNA og Norðurlönd varðar þá er það einföld staðreynd að hagvöxtur hefur verið minni í BNA frá 1980 en hann var 1945-1980. Paul Krugman er einn fjölmarga fræðimanna sem bent hafa á þetta. Vissulega hefur hagvöxtur verið meiri í BNA en í ESB á þessum árum en eins og ég hef áður sagt stafar það m.a. af því að Evrópumenn vinna minna en framleiða jafn mikið á unna klukkustund og Kanarnir (skal senda þér tölur um þetta allt við tækifæri). Michael Dunford segir að önnur ástæða fyrir því að Evrópubúar njóta minni hagvaxtar sé feykilegur kostnaður af sameiningu Þýskalands, í þá hít fari 6-8% af þjóðarframleiðslu þessa efnahagsstórveldis Evrópu. Vegna mikilvægis Þýskaland veldur þessi hrikakostnaður því að önnur Evrópulönd bíða efnahagstjón. Hvað Ameríku varðar þá vita allir sem dvalið þar vestra á síðustu árum (ég var þar haustið 1996) að Bandaríkjamenn eru aftarlega á merinni í mörgum málum, lítt farsímavæddir og borga enn með tékkum, svo eitthvað sé nefnt. Símarstaurarnir amerísku eru eins og bautasteinar yfir ameríska efnahagsveldinu, löngu eftir að slíkir staurar hurfu í Evrópu norðvestanverðri eru þeir enn notaðir í Ameríku. Í lok síðustu aldar voru Bandaríkjamenn síður nettengdir en Norðurlandabúar og auðugustu þjóðir Austur-Asíu, norska blaðið Aftenposten sagði árið 2000 að einungis 55% Bandaríkjamanna væru nettengdir, 70% Norðurlandabúa. Helsta útflutningsvara Bandaríkjanna í dag er dollarinn, landið lifir á seðlaprentun. Og ef ástand mála er svona slæmt í Svíþjóð eins og þú og Hannes H. haldið, af hverju var landið þá kjörið fremsta tækninýjungaland veraldarinnar árið 2003? Tíðni ungbarnadauða er af mörgum talinn einn besti mælikvarðinn sem völ er á um lífskjör manna. Er skemmst frá því að segja að sú tíðni er miklu minni Svíþjóð en BNA. Dánartíðnin í BNA er 6.37 af hverjum 1000 nýfæddum börnum, 2.76 í Svíþjóð (http://en.wikipedia.org/wiki/List of countries by infant mortality rate (2005)). Nefna má að hið frjálshyggjusinnaða tímarit The Economist viðurkennir að Svíþjóð blómstri þótt hlutur ríkisins í vergri þjóðarframleiðslu sé meiri en í löndum þar sem efnahagurinn sé í mun verri málum. Sænska ríkið hirðir 57% af vergri þjóðarframleiðslu, hið franska 53%, hið þýska 47% og hið spænska 37%. Samt blómstrar Svíþjóð en hinn þrjú ríkin eru á hausnum og það þótt Spánverjar vinni mikið, meira en Frakkar og Þjóðverjar og þarf ekki mikið til.
Þú segir að lífskjör manna hafi batnað allmikið á Viktoríutímanum. Ekki eru allir sammála því, t.d. segir nóbelshagfræðingurinn Joseph Stiglitz annað í bók sinni Globalization and its Discontents. Hvað kreppuna varðar þá endurtekur þú bara eins og mantra að hún sé ríkinu að kenna. Þú staðhæfir án raka að í himnalagi hafiu verið að láta afleiðurnar afskiptalausar þótt Greenspan viðurkenni að rétt hafi verið að hafa opinbert eftirlit með þeim. Hvernig ætlarðu að skýra að nú skellur þessi mikla kreppa á en ekki á tímum þegar ríkið hafði mun meira eftirlit með fjármálamarkaðnum en nú? Af hverju urðu ekki stórkreppur á blómaskeiði ríkisþátttöku í vestrænu efnahagslífi (1945-1980)? Af hverju dundi hver stórkreppan á fætur annarri yfir vesrutlönd á 19du öldinni þegar ekki einu sinni var seðlabanki í BNA? Líklegast er að kreppan sé að mestum hluta markaðnum að kenna en ríkið hafi gert ilt verra, t.d. með íbúðalánunum.
Bkv
S
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll Stefán
Það er rangfærsla að halda því fram að frjálshyggjumenn líti á markaðinn sem einhvers konar vél sem leysi öll vandamál. Nú er ég Frjálshyggjumaður og hef aldrei litið á markaðinn sem einhverjar töfravél og hef enn ekki hitt þann frjálshyggjumann sem telur að markaðurinn sé það. Það sem ég hef þó sagt og aðrir frjálshyggjumenn er að frjáls markaður hefur sýnt sig sem lang skilvirkasti mátinn til að dreifa verðmætum og gerir það á sanngjarnasta mátann. Ég var búinn að útskýra frjálsan markað og ég hef enn ekki séð nein rök gegn því að það eigi ekki að vera frjáls markaður.
GDP tekur tillit til vinnu á ákveðnum tíma svo það er ekki hægt að fela sig á bakvið það að evrópa framleiði meira á hverja unna klukkustund en USA. Evrópa vinnur minna og framleiðir minna en USA sama hvernig litið er á dæmið. Þú nefnir einhverja símastaura í USA og það er vissulega rétt ég ferðaðist um USA í haust og þetta kom mér nokkuð sérkennilega fyrir sjónir en þrátt fyrir það eru USA það land sem hefur mesta útbreiðslu ljósleiðara og annarra háhraðatenginga. Talandi um Internet þá ætti þetta að svara efasemdum þínum um það http://en.wikipedia.org/wiki/List_of_countries_by_number_of_Internet_users
Nú ef þú vilt samanburð á Evrópu og USA þá er þessi skýrsla nokkuð góð og tekur einnig á „draumalandinu“ Svíþjóð. http://www.timbro.se/bokhandel/pdf/9175665646.pdf
Ég get líka bent þér á ágætis þátt frá ABC http://www.youtube.com/watch?v=PZpDjxIPpFc&eurl=http://video.google.com/videosearch?q=is+america+number+one&emb=0&aq=0&oq=is+america+nu
Það er af nægu að taka að það er sama hvert þú ferð þar sem frelsi er aukið þar blómstra hagkerfi.
Ég vil fá tölur frá þér um þetta tímabil frá 1945 til 1980 og eftir það því samkvæmt OECD var hagvöxtur á frá 1945 til 1980 að meðaltali 6,83 prósent í USA en hefur eftir það verið 7,96 prósent. Ég vil líka sjá hver valdi Svíþjóð sem helsta tækninýjungaland í heimi 2003 því ég hef heyrt marga góða brandara en þessi er sá besti. Það þarf ekki nema fara yfir vörulista helstu tæknifyrirtækja í USA eða Japan árið 2003 til að sjá að Svíþjóð stendur þeim ekki snúninginn.
Það væri líka gaman að fá að vita hvað rökfærslu menn nota til að fá það fram að lífskjör hafi ekki batnað til muna á Viktoríutímabilinu? Tækniframfarir voru gífurlegar á þessum tíma og hlutfarslega meiri en á nokkru öðru skeiði í sögunni og það er ekki fyrr en nú með tilkomu netsins að við erum að sjá sama vöxt. Tækniframfarir eru óumdeilt helstu forsendur bættra lífskjara og því fróðlegt að sjá menn halda öðru fram. Það má við þetta bæta að mestu framfarir í dag eru á netinu en það er algjörlega frjálst og má með sanni segja að þar ríki nokkurs konar frjálshyggja. Það er líka merkileg staðreynd að helstu tækninýjungar í heiminum koma frá frjálsustu ríkjunum, ef það er ekki vísbending þá um ágæti frelsis þá veit ég ekki hvað er.
Stefán ekki halda því fram að ekki hafi verið kreppur á „ríkistímabilinu“ í USA, af hverju heldurðu að skipt hafi verið í fita money? Kreppan sem kom í kjölfarið á Víetnamstríðinu var engu betri en sú sem við erum að fara í gegnum núna og var að mörgu leiti svipuð þ.e. peningakreppa. Það má líka benda þér á að það var aldrei kreppa í USSR eða í Norður Kóreu nú eða á Kúbu. Það er hins vegar spurning hvort þú viljir skipta við þá? Annars rökstuddi ég nokkuð vel ástæður kreppunnar núna og ég sé engin rök gegn því frá þér svo ég geri ráð fyrir að það standi sem ég sagði.
Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 15:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.