Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Goðsögur Moskvuvaldsins (III-VIII)

Í merkri bók um Sovétskipulagið, The Future That Failed, leggur Jóhann Páll Árnason mikla áherslu að Sovétríkin hafi verið enn ein birtingarmynd rússneska heimsveldisins. Það þótt byltingarsinnuð hugmyndafræði hafi líka sett svip sinn á þau (Jóhann Páll Árnason  2005).

Bæta má við að Rússland Pútíns er líka slík birtingarmynd. Þess vegna tel ég í lagi að nota orðið Moskvuveldi um þessar þrjár birtingarmyndir heimsveldisins, þá keisaralegu, kommúnísku, og tsar-fasísku.

(tekið skal fram að ég er engan veginn  viss um að Jóhann Páll sé sammála mér um það sem ég tel vera goðsögur þessa veldis).

  Goðsögurnar (III-VI)

Í fyrsta bloggi kynnti ég þessar goðsögur stuttlega nema þá um Úkraínu sem gerviríki. Ég ræddi hana og leitaðist við að hrekja. Í öðru bloggi hrakti ég bullið um fasisma í Úkraínu og benti á að Rússland Pútíns væri tsar-fasískt.

Nýlendustefnan

Þriðja goðsagan er sú að Rússland sé ekki og hafi aldrei verið nýlenduveldi. Annað segir Lana Pylaeva í nýlegri grein í andófsblaðinu Moscow Times (Pylaeva 2023). Að nafninu til sé landið fjölþjóðlegt en í reynd sé Rússum hampað á kostnað annarra þjóða.

 Hún segist vera af Kómíþjóðinni, í skóla hafa bara verið kennt á rússnesku og menning þjóðarinnar hvergi komið við sögu.

Ástandið hafi versnað á dögum Pútíns, nú lifi Rússar í Moskvu og Pétursborg jafn góðu lífi og Hollendingar en  jaðarþjóðirnar búi við lakari kjör en áður.

Skemmst er að minnast þess að á nítjándu öld gerðu Rússakeisarar „heiðarlega“ tilraun til að útrýma þjóð Sirkassa og troða rússneskum bændum í land þeirra.

Á öldinni átjándu lögðu þeir Krímskaga undir sig og tóku að fylla af Rússum, Krímtatarar urðu annars flokks borgarar.

Nýlenduherrann Stalín lét svo flytja þá nauðungarflutningum burt úr skaganum. Hann gerði stór landflæmi að nýlendum Moskvuvaldsins, Eystrasaltsríkin, Moldavía og stóran hluta austanverðrar Mið-Evrópu.

Keisararnir höfðu áður  gert Mið-Asíu og Kákasuslöndin að nýlendum sínum (um sögu Rússlands, sjá t.d. Hosking 2012).

Sagnfræðingurinn Timothy Snyder  telur  að innrásin í Úkraínu sé nýlendustríð, Moskvuveldið sé að reyna að ná aftur sinni gömlu nýlendu með sama hætti og Hollendingar og Frakkar reyndu að endurreisa nýlenduveldi sín eftir síðari heimsstyrjöld (viðtal við hann á youtube).

Þessu til sannindamerkis má nefna að hinn tsar-fasíski her reyndi að leggja Kænugarð undir sig. Það bendir til þess að markmiðið hafi ekki bara verið að ná tangarhaldi á Donbass.

Snyder segir að mikið harðræði ríki á hernumdu svæðunum í Úkraínu, herraþjóðin reyni að útrýma úkraínsku máli og menningu og hafi flutt eina milljón Úkraínumanna nauðungarflutningum  til Rússlands.

Breska leyniþjónustan segir að áætlun Pútíns hafi verið sú að leggja alla Úkraínu undir sig á fáeinum vikum, halda svo „þjóðaratkvæðagreiðslu“ þar sem Úkraínumenn „samþykktu“ að sameinast Moskvuríkinu.

Nefna má að fyrrum efnahagsráðgjafi Pútíns, Andrei Illiarnov, sagði í viðtali þremur mánuðum fyrir innrásina að markmið Pútíns væri að leggja alla Úkraínu undir sig og endurreisa rússneska heimsveldið eins og það var í lok átjándu aldar.

Í viðtali við hann, sem tekið var eftir að stríðið hófst, gengur hann lengra og segir  að Pútín hyggist ráðast á Evrópuríkin. Boris Pistorius, varnarmálaráðherra Þýskalands, telur líklegt að Rússar hyggi á innrás í Þýskaland. Guð hjálpi Íslandi þá!

Við skulum vona að þeir Illiarnov og Pistorius hafi á röngu að standa.

NATÓ og Rússland

Fjórða  goðsagan er sú að NATÓ  hafi lofað að bæta ekki við sig meðlimaríkjum. Mary Elise Sarotte, sem hafði aðgang að skjölum James Bakers, þáverandi utanríkisráðherra BNA,  segir að hann hafi ekki gefið neinn ádrátt um það (Sarotte 2021). 

Bæta má við að þótt  hann hefði kannski gefið slíkt í skyn þá hafði hann ekkert umboð til þess. Ekki er hægt að taka neina ákvörðun um nýja meðlimi NATÓ nema með skjalfestu samþykki allra aðildaríkja en engu slíku var til að dreifa.

Þar af leiðir að slíkt loforð hefur aldrei verið gefið.

 Ekki þýðir að jarma um að NATÓ  sé eiginlega bara tæki Kana eins og Pútín segir. Bandaríkjamenn vildu hleypa Úkraínu inn í það fyrir allnokkrum árum en Sarkozy og Merkel beittu neitunarvaldi.

Kanar sættu sig við það, illu heilli fyrir Úkraínumenn (æ, hvað Bandaríkin eru heimsveldissinnuð!).

Gömlu kommúnistaríkin sóttu um inngöngu í NATÓ, fullnægðu settum skilyrðum um inngöngu og urðu því meðlimir. Mörg þeirra sóttu um inngöngu vegna skiljanlegs ótta við Moskvuvaldið.

 Lech Walensa, þá forseti Póllands, sagði fyrir þremur áratugum að fyrr eða síðar kæmist til valda í Moskvu heimsveldissinnaður yfirgangsseggur. Walesa reyndist sannspár.

Fimmta  goðsagan er sú    að NATÓ  ógni Rússlandi. Það skýrir ekki hvers vegna Natóríkin drógu mjög úr vígbúnaði sínum í Evrópu frá lokum kalda stríðsins fram til 2022.

 Kanar lögðu jú herstöðina í Keflavík niður og fækkuðu mjög í herliði sínu í Þýskalandi. Ekki var neitt sem minnti á erlenda hermenn í Póllandi og Eystrasaltsríkjunum fyrir innrásina.

Hvers vegna grátbað George Bush eldri Úkraínumenn um að segja sig EKKI úr lögum við Sovétríkin nokkrum mánuðum fyrir fall þeirra ríkja? Hefðu Kanar haft í hyggju að mölva Moskvuveldið hefði forsetinn gert hið gagnstæða (ræðu Bush í þinginu úkraínska má finna á youtube).

Það fylgir sögunni að Prígósín heitinn mun hafa sagt skömmu fyrir dauða sinn að Kremlverjar vissu mætavel að NATÓ ógnaði Rússlandi ekki. Innrásin í Úkraínu hafi stafað af löngun rússneskra ólígarka til að klófesta auðlindir landsins.

Hann hafði unnið með Pútín og þekkti hann vel. Hafi hann á réttu að standa þá eflist fyrir vikið sú tilgáta að innrásin í Úkraínu sé af nýlendutoga spunnin.

Annar fyrrum samstarfsmaður Pútíns, Mikael Kasjanov, sem eitt sinn var forsætisráðherra hans, segir að Kremlardrottinn viti að NATÓ ógni ekki Rússlandi (viðtal við hann hér). 

Sjötta goðsagan er sú að Bandaríkjamenn hafi valdið Maidanuppreisninni. Kenningin er fáránleg þar eð tæpast hefur Könum tekist að véla milljónir manna til að taka þátt í mótmælagerðunum.

Spilling, einræðistílburður og möguleg föðurlandssvik forsetans Janúkóvitsj voru án nokkurs efa aðalorsökin. Janúkóvitsj  bjó í höll og lét útbúa vægast sagt ríkmannlega á kostnað skattgreiðenda og gekk erinda Moskvuvaldsins í mikilvægum málum.

Hvað þá um símasamtal fulltrúa Bandaríkjastjórnar, Victoriu Nuland og þáverandi sendiherra BNA í Kænugarði? Gagnstætt því sem margir halda kemur ekkert fram í samtalinu sem bendir til þess að Bandaríkjastjórn hafi haft ákveðnar hugmyndir um hver ætti að taka við af forsetanum gerspillta.

Nuland og sendiherrann telja kost og löst á ýmsum stjórnarandstæðingum, sú fyrrnefnda segist ekki telja Klitjskó, hnefaleikakappa,  réttan mann til að sitja í ríkisstjórn. Hún segir „I think“, eftir öllum sólarmerkjum að dæma var hún einfaldlega að tjá eigin skoðanir.

Þó margt megi ljótt segja um utanríkisstefnu Bandaríkjanna og annarra  Vesturlanda þá verður ekki séð að þau hafi ógnað Rússlandi eða staðið fyrir uppreisn í Kænugarði.

Síðara heimsstríð og eftirleikur þess

 Sú  sjöunda  er að Jaltasamkomlagið kveði á um skiptingu Evrópu í áhrifasvæði Kana og þáverandi útgáfu af Moskvuveldinu, Sovétríkjunum. Það stendur  ekki stafkrókur um það í  samkomulaginu. Serhii Plokhy segir að Stalín hafi heimtað slíka skiptingu en Roosevelt sagt þvert nei (Plokhy 2023).

 Aftur á móti er í Jaltasamkomulaginu kveðið á um lýðræðislegar kosningar í Póllandi, Stalín stóð ekki við það heiti.

Samkvæmt  Jaltasamkonulaginu (hér)var Þýskalandi skipt í hernámssvæði og var Vestur-Berlín á svæði Vesturveldanna. Samt reyndi Stalín að kúga borgina til hlýðni við sig í trássi við samkomulagið. Eina rétta svarið var stofnun NATÓ.

Hvað sem því líður er eitt og annað sem bendir til þess að Sovétmenn hafi gert ráð fyrir e.k. óformlegri skiptingu Evrópu í áhrifasvæði. Þeir drógu heri sína út úr Finnmörku og frá Bornhólmi, kannski voru það hræðslugæði, ótti við amerísku kjarnorkusprengjuna.

 En 1955 eftir að  þeir voru búnir að verða sér út um kjarnavopn drógu þeir her sinn út úr austurhluta Austurríkis að fengnu loforði um hlutleysi landsins.

Einnig létu þeir eiga sig að hernema hlutlaus lönd á borð við Írland, þetta bendir til þess að þeir hafi aðallega viljað varnarbelti leppríkja. Ekki haft mikil heimsveldisáform, vel mögulega gagnstætt núverandi valdhöfum í Moskvu.

Sá möguleiki er fyrir hendi að hinir kommúnísku Kremlverjar hafi trúað á sögulega nauðsyn. Þeir þyrftu ekki að andskotast á Vestur-Evrópu þar eð þeirra stefna myndi hvort sem er sigra á endaum. 

Sú áttunda og síðasta    er sú að Moskvuríkið hafi nánast eitt og óstutt  unnið sigur á nasistunum. Staðreyndin er sú að Sovétmenn  hefðu ekki getað barist lengi án  aðstoðar Breta og Kana sem sendu þeim gnótt vopna (Plokhy 2017: 270)(Steinfeld 2022).

Í sjónvarpsþætti um Kúrskorrustuna miklu segir að tveir þriðju af farartækjum Sovéthersins hafi verið amerískrar ættar, einnig hafi herinn fengið gífurlegt magn af niðursuðudósum  frá hinum illu Könum. Sjaldan launar kálfur ofeldið.

 Lokaorð

Rússar eiga sér merka menningu, þeir hafa alið frábæra rithöfunda og snjöll tónskáld. En þá skortir frelsishefð, saga þeirra er skuggaleg saga um villimannlega kúgun og heimsveldisstefnu.

Góðu heilli eru sumir þeirra frjálshuga, m.a. hugrökku blaðamennirnir sem starfa fyrir Moscow Times og Meduza. 

Svo lengi sem slíkt fólk er til á Rússland sér von, von um frjálsa framtíð án heimsveldisóra og yfirgangssemi.

Þá eigum við öll  von.

Heimildir utan nets:

 

Hosking, Geoffrey 2012: The History of Russia. A Very Short Introduction. Oxford: Oxford University Press.

Jóhann Páll Árnason 2005: The Future that Failed. Origins and Destinies of the Soviet Model. London: Routledge.

Pylaeva, Lana 2023: „Ignoring Russian Colonialism Has Deadly Consequences“, Moscow Times, 17 október, https://www.themoscowtimes.com/2023/10/17/ignoring-russian-colonialism-has-deadly-consequences-a82795

Plokhy, Serhii 2017: The Lost Kingdom. The Quest for Empire and the Making of the Russian Nation. New York: Basic Books.

Plokhy, Serhii 2023: The Russo-Ukraininan War: The Return of History. New York: W.W. Norton & Company.

Sarotte, Mary Elise 2021: Not One Inch. America, Russia, and the Making of Post-Cold War Stalemate. New Haven og London: Yale University Press.

Steinfeld, Hans-Wilhelm 2022: Russland kriger. Stamsund: Orkana.


Goðsögur Moskvuvaldsins (II)

Áróðursvél Moskvuríkisins heldur því fram að Úkraínu sé stjórnað af nasistum og að afnasistavæða verði landið. Þetta er tóm tjara og afsökun fyrir nýlendustefnu Pútíns, löngun hans til að innlima Úkraínu í veldi sitt.

Staðreyndin er sú að  í síðustu þingkosningum í Úkraínu fékk sameiginlegur listi hægriöfgamanna undir tveimur prósenta atkvæða og náði engum inn á þing. Þeir höfðu einn þingmann á fyrra þingi.

 Þarf að nefna að Zelenskí er rússneskumælandi Gyðingur? Kannski verður að nefna að í forsetatíð fyrirrennara hans var forsætisráðherrann Gyðingur að nafni Volodomyr Groysman. Sérkennilegur nasismi atarna!

Bæta má við að í  Rússlandi eru starfandi ýmis hægriöfgasamtök, t.d. Rússneska heimsveldið en Pútín nennir ekki að afnasistvæða þau, það þótt öfgasamtök séu bönnuð í Rússíá.

Í ofan á lag berst Rusich, sveit rússneskra nasista,   með Moskvuhernum  gegn Úkraínumönnum.

Það er ekki óalgengt að menn líti á fasisma og nasisma sem heildræn hugmyndakerfi, rétt eins og marx-lenínisminn var (og jafnvel enn þá er). En það er misskilningur, nasismi er reyndar nær því að hafa slíkt hugmyndakerfi en ítalski fasisminn.

Þótt Pútín hafi tæpast heildrænt hugmyndakerfi er því ekki útilokað að flokka megi hann með fasistum. Skal reynt að ígrunda þá flokkaskipan hér.

Nasismi og fasismi

Gyðingarhatur, andúð á Rómaþjóðinni,  rasismi, þjóðremba, kvenhatur, heimsvaldastefna, hernaðarhyggja, andlýðræðishyggja, andkommúnismi, hatur á hommum, jafnvel á menntun og menntamönnum,  bændahyggja   og dýrkun á Hitler voru burðarásarnir í hugmyndafræði nasista.

Samt höfðu þeir ekki ákveðna stefnu í efnahags-, heimspeki- og  trúmálum, gagnstætt kommúnistum.

Einnig fengu  tilraunir Alfred Rosenbergs til að skapa nasíska heimspeki lítinn hljómgrunn (Rosenberg 1934). Fræðimaðurinn Martin Kitchen  leggur áherslu á kenningaandúð nasista og segir orðrétt: ”Rosenberg’s unreadable works remained unread” (Kitchen 1976: 28).  

Gagnólíkir heimspekingar fylgdu nasistum að málum, t.d. Martin Heidegger og Ernst Mally en sá síðarnefndi var rökgreiningarheimspekingur og upphafsmaður skyldurökfræði.

Heidegger verður seint kenndur við rökgreiningu (um hann og nasismann, sjá t.d. Bambach 2012: 102-115)(um Mally og nasismann, sjá Hieke og Zecha 2018).

Ítalski fasisminn var enn síður hugmyndafræðilegt kerfi, þrátt fyrir tilraunir til að skapa honum heimspekikenningu með útúrsnúningum úr heimspeki Hegels.

Sú tilraun var ekki framin fyrr en nokkru eftir að fasistar höfðu náð völdum, Mússólíní hafði áhuga á ýmsum heimspekingum  en ekki Hegel (um ítalska fasismann sjá t.d. Kitchen 1976).

Hann taldi að þessi fasíska Hegelshyggja væri sér til framdráttar.

Gagnstætt því fordæmdi Rosenberg  Hegel og taldi heimspeki hans framandi  þýsku blóði (Rosenberg 1934: 525). Aðalatriðið er að fasistar og nasistar höfðu lítinn áhuga á sértækum kennisetningum, gagnstætt kommúnistum.

Pútín er heldur ekki ofþjakaður af ást á sértekningum.  

Hvað varðar ítalska fasismann þá var kjarninn í honum andlýðræðisstefna, þjóðremba og dýrkun á Mússólíní. Allt annað var undirlagt duttlungum einræðisherrans. Framan af vegnaði Gyðingum ágætlega á Ítalíu, nokkrir af forystumönnum fasista voru Gyðingar.

En tækifærissinninn Mússólíní gjörbreytti um stefnu á einni nóttu þegar hann gerði bandalag við Hitler Þá var tekið að þjarma allhressilega að ítölskum Gyðingum.

Einhver kann að spyrja hvort Mússi hafi ekki upprunalega verið sósíalisti, því sé fasisminn sósíalískur.

Svar mitt er að það er jafn fáránlegt að segja þetta eins og að telja frjálshyggjuna kommúníska af því að frjálshyggjumaðurinn Jónas Haralz var Moskvukommi á sínum yngri árum.

Þess utan mun Mússólini á sínu forfasíska skeiði hafa boðað skrítinn sósíalisma, blandaðan hugmyndum Nietzsches en sá var sósíalismanum fjandsamlegur (Snajder 2002: 235–262).

Hvað um nasista? Kenndu þeir sig ekki við þjóðernis-sósíalisma? Vissulega en þeir voru áróðursmenn dauðans-í orðsins fyllstu merkingu. Sósíalíska þætti má finna í stefnuskrá þeirra en þeir gerðu fátt til að koma henni í framkvæmd.

Til dæmis kveður stefnuskráin á um að þjóðnýta skuli stórmarkaði og leigja smákaupmönnum en Hitler lyfti ekki litlafingri til að koma þessu hálfsósíalíska markmiði í framkvæmd.

Það er hins vegar vart rétt að Hitler hafi verið handbendi stórauðvalds. Eitt er fyrir sig að hann þjarmaði hressilega að auðugum Gyðingum, annað er að hann lét handtaka stóriðjumanninn Fritz Thyssen sem hafði dælt fé í flokk nasista (Thyssen 1941).

Hitler hafði byssurnar, stórauðvaldið ekki. Hið sama gildir um Pútín, hann sviptir þá auðmenn, sem ekki lúta honum,  eigum sínum (t.d.. Kódorovskí).

Um leið  gerir hann klíkufélaga sína forríka (t.d. Arkadí Rótenberg). Sjálfan sig sennilega líka.

Nasistaflokkurinn var á vissan hátt fasísk útgáfa af gömlu Framsókn, tækifærissinnaður í flestu, þó ekki í stuðningi við landbúnaðinn. Enda höfðu nasistar meira fylgi meðal bænda en annarra stétta.

Ekki fylgir sögunni hvort rússneskir bændur flatmaga fyrir Pútín, þeim væri trúandi til þess.

Tekið skal fram að ég er EKKI að væna Framsókn um nasisma, Tíminn, málgagn flokksins, tók eindregna afstöðu gegn nasistum frá fyrstu stundu.

Pútín og rússneski fasisminn.

Eitt af því fáa jákvæða sem segja má um Pútín er að hann er ekki Gyðingahatari, enda hefur júdóvini hans, Gyðingnum  Arkadí Rósenberg og fjölskyldu hans,  vegnað vel. Fölskyldan er meðal þeirra ólígarka sem öðluðust auð sinn vegna tengsla við Pútín.  

Fiona Hill og Clifford Gaddy segja í bók sinni um Pútín að hann hafi skorað á rússneska Gyðinga sem flutt hafa Ísraels að snúa heim.

Samt hafi hann leikið á strengi Gyðingahaturs þegar hann vó að þeim óligörkum sem ekki beygðu sig fyrir honum. Nokkrir þeirra voru Gyðingar  (Hill og Gaddy 2015).

Seint verður hann vændur um  skorti   þjóðrembu, heimsveldistefnu  og einræðishyggju, það á  hann sammerkt með  Hitler og Mússólíní. 

Í ofan á lag má Pútín vart ljúka sundur munni án þess að vegsama keisarana rússnesku, einna helst Pétur mikla og Katarínu miklu.

Ekki virðist hann hafa áhyggjur af því að keisararnir voru einræðisherrar sem ríktu yfir þjóð þar sem 80% voru nánast þrælar. Hann afhjúpar sig með því lýðræðisfjandskap og heimsveldishyggju sína.  

Einnig hefur hugmyndafræði Pútíns fasískar hliðar, hann lét flytja jarðneskar leifar fasistans Ivan Iljins til Moskvu og lagði blómsveig á gröf hans. en sá bjó í Þýskalandi árið 1933 og fagnaði valdatöku nasista.

Pútín mun hafa staðið fyrir því að jarðneskar leifar hans yrðu fluttar til Rússlands og lagði blómsveig á gröf hans (samkvæmt t.d.  Snyder 2018: 58–59).

Iljín  boðaði e.k. trúarlegan fasisma sem skipaði rússnesku þjóðinni í hásæti, hún væri útvalin þjóð Rússland væri sérstakt land, handan tímans (!!!).

Því landi skyldi stjórnað af alvöldum, útvöldum,  einstakling, helst konungi (tsar).  Pútin sem jarmar um afnasistavæðingu er hliðhollur manni sem fagnaði valdatöku nasista!

Málpípa  Pútíns, fyllibyttan Dmitri Medvedev, hvetur rússneska æsku að lesa þann  hrylling sem Iljín setti saman. 

Annar meðhjálpari Pútíns, Valerí Súrkov,  mun  hafa nútímavætt “kenningar“ “heimspekingsins“. Til að gera illt verra hafi “úrvals“-rit Iljíns verið gefin öllum meðlimum Pútínflokksins og sérhverjum ríkisstarfsmanni í  landinu (Snyder 2018: 16–35 og víðar). 

Enn einn  „hugsuður“,  sem  tengist Pútín, er Alexander Dúgín en sá mun vera undir áhrifum frá Iljín. Dólgurinn Dúgín boðar rússneskan fasisma segir í grein sem í enskri þýðingu heitir „Fascism-Borderless and Red“ (Dúgín 1997).

Fasistinn elski hið brútala, ofurmannlega og englalega, segir hann. Eðli fasismans sé nýtt stigveldi, nýr aðall. Um leið sé margt í stefnu hans sósíalískt, Hitler og Mússólíní hafi mistekist m.a. vegna þess að þeir voru of vinsamlegir auðhringjum og borgaralegum öflum.

Rússneski fasisminn eigi að forðast þau mistök og aðlaga stjórnarfarið rússneskum aðstæðum. Dúgín er greinilega vinstrifasisti, gagnstætt Iljín sem kalla má „hægrifasista“.

Meðal vinstrifasista má nefna SA foringjann Ernst Röhm en vinstrifasistar biðu ósígur í valdabaráttu innan nasistahreyfingarinnar. Röhm var myrtur árið 1934 að fyrirskipan Hitlers, það var hinn endanlegi ósigur vinstrinasistanna.

Mússólíní stóð fyrir umfangsmikilli einkavæðiungu í upphafi ferils síns (Bel 2011: 937-956).  Hitler fetaði í fótspor hans, það var allur „sósíalisminn“ í Þýskalandi nasismans (Bel 2010: 34-55). Síðar söðluðu báðir við og juku ríkisafskipti verulega mikið  þegar þeir töldu það henta valdakerfi sínu.

Pútín er heldur enginn andstæðingur einkaframtaks og markaðar, Hill og Gaddy segja að hann hafi varið markaðskerfi í rökræðum við kommúnista í þinginu þegar hann var forsætisráðherra (Hill og Gaddy 2015).

Það fylgir sögunni að Hitler lofsöng einkaframtakið  í a.m.k. einni ræðu (Hitler 1936: 11). Pútín hefði getað tekið undir þann söng.

Enn eitt sem hann á sameiginlegt með nasistum er menningaríhaldsmennska, t.d. í mynd andúðar á hommum og öðru LGBT fólki.  Norska blaðið Aftenposten segir frá ofsóknum á hendur þessa fólks sem aukist hafi mjög eftir innrás Moskvuhersins í Úkraínu (Aftenposten 9/11 2024).

Annað er endalaust tuð um að annarleg öfl vilji þjóðina feiga, þeim verði að stúta svo hún megi lifa.

Þriðja atriðið er löngun Pútíns til að sameina allt rússneskumælandi fólk í sama ríki, það líkist löngun Hitlers til að smala öllu þýskumælandi fólki  í sömu ríkisréttina.  

Hið fjórða  er efnahagskerfið þar sem auðhringir og ólígarkar mega þéna fé svo fremi þeir þjóni hagsmunum alvaldsins.

Hið fimmta  er hervæðing þjóðlífsins. Pútín hefur hann sett á laggirnar æskulýðssamtök þar sem ungmennum er kenndur vopnaburður, rétt eins og Hitlersæskunni.

Réttast er að kalla stefnu Pútíns „tsar-fasisma“, fyrri liðurinn vegna keisaradýrkunar alvaldsins (sjá samt hér).

Viðbjóðslegur boðskapur Pútínistans Sergeivitsj.

Ein af  málpípum Pútíns nefnist „Timofei Sergeivitsj“. „Frétta“-stofan RIA Novosti (hluti af aróðursvél Kremlarbóndans) birtir grein eftir hann þar sem hann mælir með hrikalegri kúgun á Úkraínumönnum í nafni afnasistavæðingar.

Drepa verði allan úkraínska herinn, meðhöndla verði úkraínska hermenn sem glæpamenn. Útrýma verði líka allri hinni þjóðernissinnuðu elítu.

Rússar taki alla fjölmiðla yfir og stjórni netinu algerlega. Skólabókum verði að breyta allhressilega og banna allt sem fíflið fasíska kallar „nasistaáróður“ (les: hugmyndir um Úkrainumenn sem sérstaka þjóð).

Yfirgripsmiklar lögreglurannsóknir beri að framkvæma, ofsækja beri  alla sem styðja ríkisstjórnina úkraínsku.

Setja  beri andnasískar (les: Rússófasískar) stofnanir á laggirnar og andnasistavæðing (les: Rússavæðing) fari fram um 25 ára skeið. Fjöldahandtökur og fjöldalíflát, 25 ára afnasistavæðingar-stjórn (les: Rússavæðingarstjórn) o.s.frv.

Greinin hefði aldrei verið birt ef einræðisstjórnin hefði ekki talið hana í lagi, jafnvel verið sammála boðskapnum.

Boðskapurinn sá arna verður ekki kallaður annað en „fasískur“, alveg eins og boðskapur Dúgíns. Þessir menn vaða uppi með öfghagjamm sitt í landi þar sem meintir öfgar eru bannaðir (ekki eru ofstopafullar hótanir  Mededves skárri).

Rússland þarf á afnasistavæðingu að halda.

Lokaorð.

Pútín er fylgjandi þjóðrembu, heimsvaldastefnu, hernaðar- og einræðishyggju rétt eins og fasistar. Hann vitnar líka fjálglega í fasíska „hugsuði“ eins og Iljín. .  

Sú staðreynd að margt er á reiki í hugmyndafræði Pútínismans gerir hann enn líkari ítalska fasismanum. Rétt eins og Mússólíní trúir hann aðallega á mátt sinn og megin.

Þessi stefnu-nefna  Pútíns er að því leyti til ólík nasismanum að hann er ekki Gyðingahatari en Mússólini var það líklega heldur ekki framan af  enda var ástkona hans Gyðingur.

Einnig er andúð Pútíns  á LGTB fólki lík stefnu nasista, sem og móðursýkislegur ótti við meinta óvini þjóðarinnar. Efnahagskerfið hefur líka þætti sem minnir á nasismann.

Niðurstaða mín er sú að vel megi flokka  Pútín með fasistum.

Heimildir utan nets:

Bambach, Charles 2010: “Heidegger, National Socialism and the German People”, Bret W. Davis (ritstj..): Martin Heidegger. Key Concepts. Durham: Acumen, bls.  102-115.

Bel, Germa 2010: “Against the mainstream: Nazi privatization in 1930′s Germany“, Economic History Review, 63 (1), 34-55.

Bel, Germa 2011: “The first privatization: Selling shoes and privatizing public monopolies in fascist Italy (1922-1925)“, Cambridge Journal of Economics, 35 (5), 937-956.

Dugin, Alexander 1997: „Fascism-Borderless and Red“. Sótt 13/11 2024 á  chrome-extension://efaidnbmnnnibpcajpcglclefindmkaj/https://www.stephenhicks.org/wp-content/uploads/2022/03/DuginA-Fascism-Borderless-Red.pdf

Hieke, Alexander and  Zecha, Gerhard 2018: “Ernst Mally“, Stanford Encyclopedia of Philosophy. Sótt 7/11 2024 á https://plato.stanford.edu/entries/mally/   

Hill Fiona og Gaddy, Clifford 2015:  Mr. Putin: The Operative in the Kremlin. The Brooking Institution.

Hitler, Adolf  1935: Lighed giver fred (þýðandi  Clara Hammerich): København: Hasselbalch.

Kitchen, Martin 1976: Fascism. London: MacMillan Press.

Rosenberg, Alfred 1934: Der Mythus des 20. Jahrhunderts. Eine Wertung der seelisch-geistigen Gestaltenkämpfe unserer Zeit. München: Hoheneichen-Verlag, https://archive.org/details/Rosenberg-Alfred-Der-Mythus-Text   Sótt 8/5 2019.

Sznajder, Mario 2002: “Nietzsche, Mussolini, and Italian Fascism”,  Golomb og Robet S Wistrich (ritstj.): Nietzsche, Godfather of Fascism? On the Uses and Abuses of Philosophy. Princeton og  Oxford: Princeton University Press, bls. 235–262.

Thyssen, Fritz  1941: I paid Hitler (þýðandi César Saerchinger). London: Hodder and Stoughton Ltd.


Goðsögur Moskvuvaldsins (I)

Hér hyggst ég taka á beinið ýmsar goðsögur sem Moskvuveldið hefur löngum haldið á lofti (ég nota „Moskvuveldi“ líka um það ríki sem sumir rússneskir  valdhafar stjórnuðu frá Pétursborg).

 Sú fyrsta er að Úkraína sé gerviríki og íbúarnir eiginlega Rússar sem eigi að koma Heim ins Reich, verða aftur undirsátar Moskvuvaldsins. Þessa goðsögu tek ég fyrir í þessum pistli, hinar verða ræddar í seinni pistlum. Hér fá menn reykinn af réttunum, stuttar athugasemdir um  sérhverja goðsögn.

Önnur goðsagan er sú að Rússland hafi aldrei verið nýlenduveldi, sú þriðja að Úkraína sé fasískt, gagnstætt Moskvuveldinu. Margur heldur mig sig, hálfopinber hugmyndafræðingur Pútíns er Ivan Iljín sem fagnaði valdatöku nasista 1933, þá búandi í Þýskalandi (Snyder 2018: 16-35).

Sú fjórða að Nató hafi lofað að bæta ekki við sig meðlimaríkjum. Það er ekki neitt sem heitir loforð Natós nema opinber yfirlýsing,  samþykkt og undirrituð af fulltrúum allra meðlimalandanna, engin slík yfirlýsing var gefin um þetta mál.  Þar af leiðir að slíkt loforð hefur aldrei verið gefið.

Sú fimmta   að Nató ógni Rússlandi. Það skýrir ekki hvers vegna Natóríkin drógu mjög úr vígbúnaði sínum í Evrópu frá lokum kalda stríðsins fram til 2022.  Kanar lögðu jú herstöðina í Keflavík niður og fækkuðu mjög í herliði sínu í Þýskalandi.

 Sú  sjötta  að Jaltasamkomlagið (eða jafnvel það í Potsdam) kveði á um skiptingu Evrópu í áhrifasvæði Kana og þáverandi útgáfu af Moskvuveldinu, Sovétríkjunum. Það stendur  ekki stafkrókur um það í  samkomulaginu.

Sú sjöunda  að Moskvuríkið hafi nánast eitt og sér unnið sigur á nasistunum, staðreyndin er sú að Sovétmenn  hefðu ekki getað barist lengi án  aðstoðar Breta og Kana sem sendu þeim gnótt vopna (Plokhy 2017: 270)(Steinfeld 2022). Sjaldan launar kálfur ofeldið.

Miklu nánar um goðsögu 2-7 í síðari pistlum, nú um fyrstu mýtu.

En áður lengra haldið skal sagt að  frjálshuga Rússar andæfa flestum þessara goðsagna og styðja varnarbaráttu Úkraínumanna. Einn slíkur sagði við mig „Það besta sem getur hent Rússland er að tapa stríðinu“. Vel mælt!

  1. Goðsagan um Úkraínu sem gerviríki.

Skrattinn fór að skapa mann, Pútín að leika sagnfræðing! Hann sauð saman eitthvað sem átti að vera umfjöllun um sögu Rússlands og Úkraínu, án tilvitnana í heimildir. Úkraína væri gerviríki að ekki óverulegu leyti skapað af Lenín. Úkraínumenn væru eiginlega Rússar.

Þó þykist hann bera virðingu fyrir úkraínsku máli og menningu, virða jafnvel sjálfsstæði landsins („We respect Ukrainians desire to see their country free, safe and prosperous“). Spyrja má hvort hann er samkvæmur sjálfum sér, annars vegar er Úkraína gerviríki, hins vegar sérstakt land.

Skemmst er frá að segja að hjalið um Úkraínu sem gerviríki er stórrússneskur þjóðrembuþvættingur.

Einvaldurinn heimsveldissinnaði  virðist halda eins og aðrir Moskvu-þjóðrembungar að hið forna Garðaríki hafi verið alrússneskt (um rætur þessa þvættings, sjá Plokhy 2017: 118 og víðar).

En höfuðborg þess var Kænugarður (Kyiv) og ríkið spannaði norðurhluta Úkraínu, Belarús og einhverja hluta Rússlands. Íbúarnir voru flestir mæltir á austurslafnesku en það mál er formóðir úkraínsku, belarúsmálsins og rússnesku.

Þvæla  rússneskra þjóðrembunga um að Kænugarður sé elst rússneskra borga er ekkert annað menningarheimsvaldastefna. Garðaríkið er líklega fremur úkraínskt en rússneskt enda má ætla að afkomendur gerskra manna búi flestir þar og í Belarús.

Þó skal í nafni sanngirni sagt að Rússland  á   sér líka vissar rætur í Garðaríki, stórfurstar Moskvuríkisins töldu sig afkomendur  Rúriks (Hræreks?)  þess sem á að hafa stofnsett Garðaríki.

Og gerskir menn kenndu sig við Rús, orð sem virðist forveri orðsins Rússi (um sögu Rússlands sjá t.d. Hosking 2012).

 Á rústum Garðaríkis reis ríkið Galisía-Volhynia  (áður fylki í Garðaríki), síðar kallað „konungdæmið Rúþenía“. Það spannaði vesturhluta Úkraínu, hluta af Póllandi og Belarus.

Það komst síðar undir stjórn pólsk-litháska veldisins sem réðu mest allri Úkraínu um allnokkurt skeið.  Þar voru þó hálfsjálfsstæð furstaveldi, eitt þeirra kennt við Kænugarð.

Á sautjándu öld mynduðu kósakkar í Austur-Úkraínu hið svonefnda Hetmanat en það ríki leitaði ásjár hjá Moskvuveldinu og samþykkti að lúta keisaranum þar árið 1654. Ástæðan var ótti við hið volduga  pólsk-litháska ríki.

Kósakkarnir  virðast hafa litið á þetta sem tímabundið bandalag en Moskvuvaldið vildi innlima Hetmanatið í ríki sitt. Þó hélt hið úkraínska Hetmanat  vissu sjálfsstæði  mest alla átjándu öld.

Ekki voru allir kósakkar sáttir við innlimun í Moskvuveldið, hluti þeirra barðist með Karli tólfta, Svíakonungi,    í fólkorrustunni við Poltava árið 1709 þar sem Rússar báru  sigur úr býtum.

Ivan Mazepa, leiðtogi kósakka,  skrifaði: „Moskvuveldið, það er stórrússneska þjóðin, hefur ávallt hatast við vora Litlu rússnesku þjóð (Úkraínumenn), það hefur lengi haft þá illgjörnu ætlun að útrýma þjóð vorri“.

Hann mun einnig hafa talið sig skyldum bundinn við „Hið litla rússneska föðurland“ (samkvæmt Plokhy 2017: 43). Þrjú hundruð árum síðar sitja Kremlverjar enn við sama keip, útrýmingarkeipinn.

Pútín laug þegar hann sagðist ekki ætla að ráðast inn í Úkraínu, líklega laug hann líka þegar hann sagðist virða úkraínsk réttindi: „And what Ukraine will be- it is up to its citizens to decide“.

Honum skal til afbötunar sagt að stundum skrifar hann eins og Úkraínumenn séu að einhverju leyti aðskildir frá Rússum.

Harvardprófessor í úkraínskri sögu,  Serhii  Plokhy,  segir í bók sinni The Lost Kingdom að þótt Úkraína og Belarús hafi komist undir stjórn Moskvu þá hafi elítur þessara landa framan af  skilgreint íbúa þeirra sem þjóðir, aðskildar frá Rússum (samanber ummæli Mazepa).

Þó hafi þeir með tíð og tíma farið að tala í ríkari mæli um eina rússneska þjóð  (Plokhy 2017: 38-41)

Nefna má að á árabilinu 1656 til 1721 var Moskvu-tsarinn kallaður „drottinn stóra, litla (Úkraínu) og hvíta Rússlands (Belarús)“ (Plokhy 2017: 124).

Tsararnir  viðurkenndu sem sagt tilvist Úkraínu hvað sem Pútín kann um það mál að halda. Það fylgir sögunni að það er ekki fyrr en 1721 að valdhafar í Moskvu fara að kenna sig við Rússland, áður var talað um Moskvuríki (e. Muscovy). Þýðir það að Rússland sé gerviríki?

Moskva byggðist ekki fyrr en á tólftu  öld og laut lengi stórkonungum  Mongóla. Enda segir fyrrum Mongólaforseti hæðnislega að nota megi pútínska hundalógík til að réttlæta innlimun Rússlands í Mongólíu.

Plokhy segir í  The Lost Kingdom að Moskvuríkið hafi að nokkru  leyti verið sköpunarverk Mongóla. Þeir hafi gefið valdhöfum Moskvu sæmdarheitið  „stórfurstar“ (e. grand princes) eftir að einn þeirra giftist systur hæstráðanda Gullnu hjarðarinnar mongólsku. Upphefðin kemur að utan.

Auk þess hafa Rússar lagt undir stór landflæmi, sem áður tilheyrðu öðrum ríkjum, t.d. stórt landsvæði þar sem Vladivostok er nú en það tilheyrði Kínaveldi frá alda öðli. Hafa Kínverjar þá ekki rétt  til að ráðast inn og endurheimta svæðið?

Hvað um það, meginhluti Úkraínu komst ekki undir rússneska stjórn fyrr en 1654, vestasti hlutinn,  Galisía, ekki fyrr en 1940.

Ekki má gleyma því að árið 1918 lýsti Úkraína yfir sjálfsstæði en Bolsévíkar lögðu landið undir sig.  Til að friða Úkraínumenn gerði Lenín landið að sambandslýðveldi í Sovétríkjunum, nóta bene bara að nafninu til. Moskvuhyskið réði öllu að vanda.

Í bók sinni The Russo-Ukrainian War andæfir  Serhii  Plokhy geipi Pútíns um að Lenín hafi gefið Úkraínu rússneskt land. Á þessu svæði hafi á þeim árum aðeins 17% íbúanna haft rússnesku að móðurmáli, meirihlutinn úkraínsku.

Það hafi breyst vegna rússavæðingar Moskvuvaldsins sovéska og iðnvæðingarinnar í Donbass en fjöldi rússneskumælandi flutti þangað til að starfi í iðnaði.

Ekki þori ég að dæma um sannleiksgildi þessa en hallast þó að því að þetta sé satt þar eð Moskvuvaldið hamaðist löngum við að rússavæða Úkraínu.

Ekki síst með því að banna mönnum að skrifa á úkraínsku eða berjast gegn máli og menningu Úkraínumanna með öðrum hætti.

Eftirtektarverð er sú staðhæfing Plokhys að rússneskir þjóðrembungar á keisaratímanum hafi talið úkraínsku rússnesku sem Pólverjar hafi meðvitað afbakað. Þeir standi á bak við allar sjálfræðistilraunir Úkraínu  (t.d. Plokhy 2017: 137-152).

Samanber jarmið í Pútín um að vesturlönd afvegaleiði Úkraínumenn og telji þeim trú um að þeir séu ekki Rússar.

                  Kommúnistar og Úkraína

Plokhy segir að bolsévíkar hafi verið tvíbentir í afstöðunni til sjálfstæðis/sjálfræðis Úkraínu en 1917-8 verður  Úkraínuríki til.

Bolsévíkar hernámu Kænugarð í ársbyrjun 1918 og drápu menn sem leyfðu sér þá ósvinnu að tala úkraínsku á opinberum vettvangi (Plokhy 2017: 198). Ári síðar hernámu hvítliðar Kænugarð og tóku að þjarma að úkraínsku máli enda alfarið  á móti sjálfsstæði Úkraínu (Plokhy 2017: 208).

Eftir borgarastyrjöldina hafi Lenín tekið að leggja áherslu á rétt Úkraínumanna til að nota sitt móðurmál og benti réttilega á að keisaraveldið hafi fótumtroðið menningu þeirra (Plokhy 2017: 215).

Í kjölfari þessa tóku bolsévíkar að efla úkraínska menningu og mál all verulega, meira að segja á kostnað rússneskumælandi Úkraínumanna (margir þeirra urðu sjálfsagt rússneskumælandi vegna rússavæðingar keisaranna).

En Plokhy telur að ástæða þessa hafi ekki síst verið sú að bolsévíkar vildu öðlast hylli innfæddra en mjög stór hluti þeirra hafi barist gegn bolsévíkum í borgarastyrjöldinni.  Bæði í herjum hvítliða og úkraínskra sjálfstæðissinna  (Plokhy 2017: 229-232).

Adam var ekki lengi í paradís, Stalín sneri fljótlega við blaðinu og tók að ofsækja úkraínsku elítuna og rússavæða þjóðina. Og ýta undir rússneska þjóðrembu, nú var meira  að segja farið   að tala vel um keisarana (Plokhy 2017: 242-259).

Bolsarnir höfðu þjóðnýtt bændabýlin og smalað bændum í samyrkjubú. Til að fjármagna iðnvæðingu lét Stalín ræna bændur afurðum sínum og selja í útlöndum.

Afleiðingin var gífurleg hungursneyð sem kostaði milljónir bænda lífið, aðallega þá úkraínsku.

Úkraínumenn telja margir að Stalín hafi meðvitað svelt úkraínska bændur til að koma þjóðinni á kné. Þeir líkja þessu við helförina og kalla „Holodomor“.

Minningin um hana er ein af ástæðum þess að mörgum Úkraínumönnum er illa við Rússa.

En hvað segir Pútín? Hann gerir meira en að gefa í skyn að valdhafar í Úkraínu ranglega ásaki Sovétríkin fyrir yfirgang og fjöldamorð á Úkraínumönnum. Afkomendur þeirra sem Stalín lét myrða hljóta að kreppa hnefann.

Plokhy ræðir Holodomor lítið. Skylt er að geta þess að  hann er Úkraínumaður og hefur kannski of mikla hneigð til að draga taum sinnar þjóðar. En hinn hlutdrægi getur rambað á sannleikann, sönnunarbyrðin er þeirra sem telja hann fara með rangt mál.

Þess utan  er hann ófeiminn við að viðurkenna að á löngum tímabilum hafi úkraínskur almenningur samsamað sig rússneska ríkinu, sjálfræðis- og þjóðernissinnar  hafi verið fáir, aðallega menntamenn (Plokhy 2017: 174).

Spyrja má hvort þessi afstaða almennings hafi ekki átt rætur í áróðri Moskvuvaldsins og tilraunum þess til að útrýma úkraínsku máli og menningu. Keisaradæminu var stjórnað á rússnesku, menn komust ekki áfram í samfélaginu nema að tala það mál.

Ástandið í Sovétríkjunum var litlu skárra. Plokhy segir reyndar að skipst hafi á skin og skúrir á dögum þessara ríkja, stundum hafi það þjónað hagsmunum valdhafa að efla úkraínskt mál og menningu en yfirleitt ekki. Að jafnaði hafi valdhafar ófétis Sovétsins stuðlað að mikilli rússavæðingu Úkraínu.

Hvað um það, þegar Úkraína  fékk sjálfsstæði ári 1990 má segja að Garðaríki, Rúþenía, Hetmanatið  og Úkraínuríkið 1918-20. hafi endurfæðst. Minnast má þess að í  kosningum 1990 greiddi 90% úkraínskra kjósenda atkvæði með sjálfsstæði landsins.

Flestir Úkraínumenn hafa úkraínsku að móðurmáli en það tungumál er talsvert ólíkt rússnesku, málin skarast bara að hluta. Ljóst er að yfirgnæfandi meirihluti Úkraínumanna hefur úkraínska þjóðernisvitund, sú staðreynd styrkir  staðhæfinguna um þetta sé  sérstök þjóð.

Sú vitund birtist ekki síst í einbeittum vilja þeirra til að verjast yfirgangi Moskvuríkisins.

              Sitthvað um sögu og Moskvuveldið

Ekki þýðir að segja að þessi þjóðernisvitund sé ekki ýkja gömul, þjóðernisvitund er tiltölulega nýtt fyrirbæri í mannkynssögunni þótt hún eigi sér gamlar rætur (hve gömul er rússnesk þjóðernisvitund? Tvö hundruð ára?).

Moskvumenn segja að Úkraína sé samsuða úr löndum sem ekki hafa átt sér langa sameiginlega sögu.

Þeir athuga ekki að hið sama gildir um Rússland sem upprunalega var bara Moskva og svæði í kringum hana sem laut valdi Mongóla og Tatara.

Á fimmtándu öld rústaði Ivan III, fyrsti Moskvu-tsarinn, hið frjálslynda lýðveldi Hólmgarð og gerði hluta af Moskvuveldinu (ég kalla frjálshuga Rússa „Hólmgarðsfólkið“ eða  "hólmgerska fólkið").

 Á öldinni átjándu lagði Moskvuveldið Krímskaga undir sig en hann var aðallega byggður Töturum. Fljótlega tóku Rússar að flytjast þangað í stórum stíl. Svo lét Stalín flytja Krímtatara nauðungarflutningi burt frá skaganum (eiga þeir þá ekki rétt á að stjórna honum?).

Á nítjándu öld útrýmdu Moskvumenn nánast þjóð Sirkissa (e. Circissians) og létu rússneska bændur taka yfir land þeirra (svo lítið eins og Kanar fóru með indjána).

Sem sagt, rétt eins og Úkraína er Rússland samsuða þjóða og landsvæða, hið sama gildir um fjölda ríkja, t.d. Bandaríkin.

Ítalía var sameinuð án þjóðarmorða. Einn af feðrum þjóðarinnar er sagður hafa sagt  „Nú erum við búin að sameina Ítalíu, nú verðum við að skapa Ítali“. Kannski Frakkar geti notað þetta sem afsökun fyrr innrás í landið!

Væri Pútín samkvæmur sjálfum myndi hann telja eðlilegt að Bretar gerðu innrás í Bandaríkin þar eð þau voru upprunalega hluti af Bretaveldi. Tala ekki báðar þjóðirnar sama tungumál?

Hann ætti líka að telja innrás Breta og Bandaríkjamanna í Írak réttlætanlega þar eð Írak er á vissan hátt gerviríki, skapað af Bretum eftir fyrri heimsstyrjöld.

En siðað fólk andæfir slíkum „rökum“, innrás Breta og Kana í Írak var innrás í fullvalda ríki og hreinræktað fólskuverk, rétt eins og innrás Rússa í Úkraínu. Að meðtalinni innrásinni í Krímskaga.

                  Lokaorð

Niðurstaðan er sú að goðsaga númer 1 er   tóm þvæla, heimsveldissinnuð, rússnesk þjóðrembugoðsögn um Úkraínu. Ríkið á sér gamlar rætur og Úkraínumenn eru sérstök og sjálfsstæð þjóð.

PS: Til að forðast misskilning vil ég taka fram að úkraínskir sjálfsstæðissinnar eru ekki heilagir og hafnir yfir gagnrýni fremur en andstæðingar þeirra, Moskvuvaldsmenn.

Þeir áttu Gyðingahatrið sameiginlegt með Moskvuliðinu, kósakkarnir frömdu fjöldamorð á Gyðingum, einnig sumir sjálfsstæðissinnar um 1918.

Og Stepan Bandera, sem barðist fyrir sjálfsstæði Úkraínu, gerði bandalag við djöfulinn, þýsku nasistana. Þó var Bandera ekki þægari þeim en svo að þeir stungu honum inn, bróðir hans og samstarfsmaður lét lífið í Auschwitz (sjá t.d. Plokhy 2015).

Ekki má gleyma því að rússneski hershöfðinginn Vlassov vann með nasistum og stofnaði her sovéskra stríðsfanga (flestir sennilega Rússar) sem barðist með Þjóðverjum. Samskipti hans við nasista voru reyndar álíka flókin og samskipti hins bannsetta Banderas við þá.

Heimildir utan nets:

Hosking, Geoffrey 2012: The History of Russia. A Very Short Introduction. Oxford: Oxford University Press.

Plokhy, Serhii 2015: The Gates of Europe. A History of Ukraine. Harmondsworth: Penguin.

Plokhy, Serhii 2017: The Lost Kingdom. The Quest for Empire and the Making of the Russian Nation. New York: Basic Books.

Plokhy, Serhii 2023: The Russo-Ukraininan War: The Return of History. New York: W.W. Norton & Company.

Steinfeld, Hans-Wilhelm 2022: Russland kriger. Stamsund: Orkana.


Engar áhyggjur, ég frá frjálshyggjufélaginu“. Áslaugu Örnu svarað.

Ég geri ekki endasleppt við þingkonur fjórtán prósent flokksins, nú hyggst ég svara ádrepu Áslaugar Örnu „Engar  áhyggjur, ég er frá ríkinu“.

Þar gagnrýnir hún þá sem hún telur hafa oftrú á getu hins opinbera til leysa vandamál. En svo virðist sem hún haldi að hinn ginnhelgi markaður og einkaframtakið alvæna  séu fær um bjarga flestu. Skal nú sú skoðun gagnrýnd hér. 

Frjáls markaður ekki framkvæmanlegur

Eitt er fyrir sig að meintum frjálsum markaði verður ekki á kopp komið, það er litlu auðveldar að framkvæma hann en hinn meinta frjálsa sósíalisma.

Nóbelshagfræðingurinn Joseph Stiglitz segir að það sé engin tilviljun að hönd markaðarins sé ósýnileg, hún sé nefnilega ekki til! Frjáls markaður hafi að forsendu að allir markaðsgerendur þekki alla mögulega kosti sem markaðurinn bjóði upp á, hafi fullkomna yfirsýn yfir hann. En slíkt sé ekki mögulegt í raunheimum, enginn er alvitur.

Auk þess hafi frjáls markaður að forsendu að allir markaðsgerendur hafi  jafnmikla þekkingu, jafn góða yfirsýn yfir kosti. En svo sé ekki í hinum napra veruleika handan líkananna velhönnuðu. Þekking markaðsgerenda sé einatt ósamhverf (e. asymmetric), allir eru jafnir en sumir eru jafnari en aðrir þegar markaðsþekking er annars vegar.

Það er munur á Jónu og séra Jóni í markaðsprestakalli, hinir ríku og voldugu hafi meiri aðgang að markaðsþekkingu og eigi betri færi en almúginn. Þess vegna geti frjáls markaður ekki orðið til (Stiglitz 2000 og Stiglitz 2002: 73-74, 254).

Frá markaðsfrelsi til fákeppni

Í því sambandi má velta fyrir sér hvort frjáls markaðsviðskipti stuðli að samþjöppun auðs og fákeppni, grafi þannig undan sjálfum sér. Ýmislegt í þróun síðustu ára bendir til þess að svo sé.

Tökum Microsoft sem dæmi, fyrirtækið er svo gott sem heimseinokunaraðili á forritunarmarkaðnum, sú einokun var ekki sköpuð af ríkisvaldinu. Það kostar firnaháar fjárhæðir að búa til nýja útgáfu af Windows en bókstaflega ekkert að afrita þær. Við þessar aðstæður er stórrekstur mjög hagkvæmur, kostnaðurinn dreifist á urmul afrita en um leið er mjög erfitt fyrir keppinautana að komast inn á markaðinn því ný forrit eru ógnardýr.

Auk heldur er þessi einokun eða einsleitni sumpart hagkvæm fyrir neytandann því hann græðir á því að margir noti sömu forrit. Eitt er fyrir sig að auðvelt er að taka á móti skjölum ef allir nota Word, annað er að auðveldara er að læra á forritunarkerfin ef velflestir nota sama kerfi, þá geta menn hjálpað hver öðrum. Gallinn sé sá að Microsoft eigi alls kostar við neytandann, geti látið gömul forritunarkerfi eyðileggjast og þannig neytt neytandann til að taka í notkun nýtt kerfi annað hvert ár.

Spurningin er hvort þekkingariðnaðurinn hafi innibyggða einokunarhneigð sem sýni sig í stöðu Microsoft. Það segir alltént norski fræðimaðurinn Bent Sofus Tranøy (Tranøy 2006: 52-53).

Hafi hann á réttu að standa má ætla að einokunarhneigð muni aukast á næstu árum því vægi þekkingariðnaðarins mun vafalaust aukast.

Lestir, þekking, markaður

Þá kann einhver að spyrja hvort ekki sé best að reyna að nálgast markaðsfrelsi eins mikið og mögulegt er. Svarið er að það fer eftir efnum og aðstæðum. Stundum er skynsamlegt að reyna slíkt, stundum ekki.

Til dæmis er fyllsta ástæða til að auka markaðsfrelsi í landbúnaðargeiranum og þarf ekki mikið til. 

Gott dæmi um hið gagnstæða eru erfiðleikar sem fylgt hafa einkavæðingu járnbrauta víða um lönd eins og undirritaður hefur orðið heldur betur var við. Einkavæðingin hefur víðast hvar leitt til öngþveitis og dýrari lestarferða.

Fæstum dylst hugur um að grundvallarrannsóknir séu forsendur tæknilegra framfara. En gróðinn af slíkum rannsóknum er ágóði til langs tíma og ábatinn gjarnan óviss.

Engan gat órað fyrir því að rannsóknir í táknrökfræði yrðu ábatasamar, hún hefur reynst  mikilvæg fyrir tölvuiðnaðinn.

Þessi óvissa gerir að verkum að það er auðvelt fyrir einkafyrirtæki að gerast laumufarþegar, uppskera af því sem aðrir hafa sáð (sáðkornin eru grundvallarrannsóknirnar).

Þess vegna er ekki líklegt að einkafyrirtæki í tæknibransanum dæli peningum í grundvallarrannsóknir þótt þær séu nauðsynleg forsenda tækninnar.

Vart verður annað séð en að ríkið verði að standa undir mestum parti kostnaðarins við slíkar rannsóknir þótt líka sé mikilvægt að sjóðir í einkaeign hlaupi undir baggann.

Nú kann einhver að spyrja hvort vísindi þrífist ekki best í tiltölulega markaðsfrjálsu samfélagi. Vandinn er sá að það skýrir ekki hina miklu velgengni kínverskra vísinda á síðustu árum.

Kína er einræðisríki þar sem áætlunargerð er stunduð þótt markaður og einkaframtak hafi allnokkuð svigrúm. Einkafyrirtæki verða að hlýða ríkinu þegar því þóknast að gefa fyrirskipanir, kerfið kínverska er ríkiskapítalískt. 

Í nýlegri grein segir að kínverskir vísindamenn birti nú fleiri vísindagreinar en aðrir og hafi forystu hvað varðar birtingu greina með hnattræn áhrif.

Þeir séu leiðandi hvað varðar tilvitnanir í greinar í eðlisfræði og fleiri fögum. Þeir skrifi 40% birtra greina um gervigreind, Bandrikjamenn 10% og Evrópubúar 15%.

Kínverjar séu fremstir allra í hagnýtum rannsóknum en  ekki grunnrannsóknum og séu ekki flinkir að finna upp alnýja tækni.

Samkvæmt nýjustu fimmáraáætlun kínverska ríkisins ber Kínverjum að auka styrk sinn á sviði skammtatækni, gervigreindar ofl. ("Verdens vitenskapelige stormakt 2024: 40-48). 

 

Lokaorð

Sem sagt, frjálshyggjufélagið og Áslaug Arna hafa ekki pottþétt svör við vanda efnahagslífsins fremur en þeir sem trúa því að ríkið leysi allan vanda. Best er að trúa sem fæstu, treysta helst á upplýsta dómgreind, ekki efnahagsformúlur. Beita happa- og glappaaðferðinni, glappaskotum fækkar fyrir vikið.

PS Það sem hér segir er að mestu ættað úr bók minni Kredda í kreppu. Undantekningin er það sem segir um kínverskt vísindastarf. 

Heimildir:

Stefán Snævarr 2011: Kredda í kreppu. Frjálshyggjan og móteitrið við henni. Reykjavík: Heimskringla.

Stiglitz, Joseph 2000: "What I learned at the World Economic Crisis. The Insider View", The New Republic, 17. apríl, http://www.mindfully.org/WTO/Joseph-Stiglitz-IMF17apr00.htm. Sótt 1/3 2002.

Stiglitz, Joseph 2002: Globalization and its Discontents. Harmondsworth: Penguin Books.

Tranøy, Bent Sofus 2006 : Markedets makt over sinnene. Oslo: Aschehoug.

"Verdens vitenskapelig stormakt", Aftenposten Innsikt nr. 8, bls. 40-48. 


Hildur Sverris og frelsið

Hildur Sverrisdóttir, þingkona, segist vera mikil talskona frelsis og fjargviðrast yfir því að ýmsir þingmenn kalli sig „frjálslynda“ en vilji samt láta ríkið hafa „vit fyrir fólki“.

Skilgreiningarvandinn

 Ekki kemur fram hvernig Hildur skilgreinir frelsið en mikilvægt er að skilja að frelsishugtakið er margrætt og margþætt. Það er í eðli sínu umdeilanlegt hugtak (e. essentially contested concept) (mest af því sem hér segir á rætur í bók minni Kredda í kreppu, blaðsíðu 161 til 189 og víðar).  

Til er ókjör mismunandi skilgreininga á því og  þeim tengdar margvíslegar kenningar um samfélagið. Það er ekki hlaupið að því að skera úr um ágreining manna um þetta hugtak þótt vissulega megi benda á fáránlegar skilgreiningar á því. Við vitum hvað frelsið ekki er, ekki hvað það er! Og þar stendur hnífurinn í kúnni. Þeir þingmenn sem Hildur býsnast yfir gera líklega ráð fyrir öðrum skilgreiningum á hugtakinu en þeirri sem Hildur trúir á. Skilgreiningar sem ekki eru endilega verri en hennar.

Neikvætt frelsi

Líkast til gerir hún ráð fyrir því að frelsi sé það sem heimspekingar kalla „neikvætt frelsi“: Frelsi er fjarvera tálmana og þvingana, sérhver einstaklingur má gera það sem hann vill svo fremi hann skerði ekki frelsi annarra (Berlin 1994: 157-168).

Í ofan á lag má ætla að hún fylgi frjálshyggjuhugmyndinni um neikvætt frelsi: Markaðurinn og einkaeignarétturinn eru  frelsisins meginn, ríkið er því andstætt nema þegar það verndar einkaeignarétt og einstaklinga gegn ofbeldi.

En hér er margs að gæta: Standa frjálsar fóstureyðingar undir nafni eða hefta þær frelsi fóstursins? Kenningin um neikvætt frelsi gefur ekkert svar við þessari spurningu, svarið varðar það hvort litið er á fóstrið sem hluta af líkama konunnar eða sem sjálfstæða mannveru. Þess utan má spyrja hvort bann við fóstureyðingum sé ekki dæmi um að ríkið hafi vit fyrir (kven)fólki, ráði líkama kvenna. Ekki er  auðvelt að leysa þann vanda.

Spyrjum áfram: Voru ráðstafanirnar sem gerðar voru til að hefta útbreiðslu kóvídsins freklegar árásir  á frelsi  manna eða nauðsynlegar ráðstafanir til að vernda frelsi þeirra gegn smiti frá öðrum? Var þetta dæmi um að ríkið hafi haft vit fyrir fólki? Aftur er spurt spurningar sem erfitt er að svara.

Ofurveldi auðsins

Til að gera illt verra er engan veginn ljóst að markaður og einkaeign séu ávallt frelsisins  meginn. Um aldamótin 1900 var vald stórfyrirtækja og auðmanna vestanhafs geigvænlega mikill, ríkis-„afskipti“ afar lítil, ekkert velferðarkerfi og hlutur hins opinbera í þjóðartekjum aðeins 2-3%. Auðvaldið ameríska keypti stjórnmálamenn og dómara og gat jafnvel krukkað í kosningar (samkvæmt t.d. Krugman 2007). Því var engin furða þótt í skáldssögu Jack Londons The Scarlett Plague sé Bandaríkjum framtíðarinnar lýst sem landi þar sem ráð auðmenn réði öllu.

En upp úr aldamótum gerist að ríkisvaldið í líki Teddy Roosevelts forseta rís upp og tekur að vængstýfa stórfyrirtækin. Paul Krugman segir reyndar að sú vængstýfing hafi ekki tekist að öllu leyti vel, gylltu öldinni hafi ekki lokið fyrr en í kreppunni á fjórða áratugnum. Hvað sem því líður þá átti ríkið hið illa mikinn þátt í að tempra vald auðmanna á borð við John Rockefeller og Andrew Carnegie.

Nú tala Krugman og fleiri  um nýja gyllta öld í BNA, Shoshana Zuboff tekur undir og segir að í vændum sé tækniræði stórfyrirtækja í Kísildal sem lifi á upplýsingum um okkur, ekki vinnuafli okkar eins og fyrirtæki fyrri tíma (Zuboff 2019).

Google og Microsoft eru nánast einokunarfyrirtæki, einokun þeirra er sköpunarverk markaðarins, ekki hins illa ríkis (sjá nánar Stefán Snævarr 2011: 71-99). Erfitt er að sjá hvernig draga megi úr valdi tæknifyrirtækjanna nema ríkið grípi í taumana.

Eða draga úr ofurvaldi sægreifanna á Íslandi án þess að stjórnmálamenn breyti kvótakerfinu (ríkið átti reyndar mikinn þátt í að efla vald þeirra, „Drottinn gaf og Drottinn tók“).

Hugsum okkur að skólakerfið yrði algerlega einkavætt en það leiddi til aukinnar stéttskiptingar og minni félagslegs hreyfanleika. 

Börn foreldra, sem hafa ráð á bestu skólunum, hafi stórt forskot fram yfir hina.

Sagt hefur verið að einkaskólar í Bretlandi auki stéttskiptingu.

Sama hefur verið sagt um hina róttæku einkavæðingu skóla í Svíþjóð en hún er afar umdeild. Sé rétt að hún hafi aukið stéttskiptingu má spyrja: 

Eykur  einkavæðing skóla  frelsið eða minnkar það? Um það má deila. 

Ef frelsi auðmanna og stórfyrirtækja til að ausa fé í stjórnmálamenn leiðir til þess eða  veldi auðsins aukist kann það að þýða  frelsisskerðingu fjöldans.

Er þá rangt af ríkinu að hafa vit fyrir auðkýfingum og takmarka rétt þeirra til að dæla fé í pólitíkusa? Eða eykur ríkið kannski frelsið með þeim hætti?

Ábyrgðarkenningin

Sem sagt, ríkið er ekki alltaf óvinur frelsisins, markaðurinn og einkafyrirtækin ekki ávallt  svið frelsisins.  Nóta bene frelsisins í hinni hefðbundu hugmynd um neikvætt frelsi. Síður hefðbundin er sú útgáfa neikvæða frelsisins sem kallast „félagslega ábyrgðarkenningin“ (e. the social responsibility view). en íslenski heimspekingurinn Kristján Kristjánsson átti mikinn þátt í að þróa hana.

Kristján og félagar eru sammála frjálshyggjumönnum um að frelsi hljóti að vera neikvætt en skilgreina ”tálmanir” eða ”frelsishömlur” öllu víðar en frjálshyggjumenn. Hafi foreldrar alið börn sín upp í undirgefni þá hafa þau hindrað börnin í að standa á rétti sínum. Foreldrarnir bera ábyrgð á ófrelsi barnanna en ófrelsið er neikvætt (Kristján  Kristjánsson 1992: 5-18).

Hvítir menn í Norður-Ameríku eru sagðir hafa reynt að gera frumbyggjana háða áfengi í þeim  fróma tilgangi  að veikja viðnámsþrek þeirrar (samkvæmt t.d. Zinn 2003: 125-148). Samkvæmt ábyrgðarkenningunni báru hvítingjar báru ábyrgð á aukinni áfengissýki  frumbyggja sem dró úr frelsi þeirrar. En frjálshyggjumenn segðu annað: Aðeins ef hvítingjar hefðu beinlínis neytt pöpulinn til að neyta vímugjafanna væri hægt að tala um frelsisskerðingu.

Jákvætt frelsi

Sennilega hæfir ábyrgðarkenningin vel vonda frjálslynda fólkinu sem Hildur skammast út í. Líka jákvæða kenningin um frelsið, samkvæmt henni er frelsið máttarhugtak. Það sem máli skiptir er getufrelsi, frelsi  til að framkvæma, ekki frelsi frá hömlum (neikvæða frelsið).

Fólk sé aðeins frjálst ef það hafi mátt til framkvæmda, það hafi ekki þann mátt ef umhverfið veldur því að það sé undirdánugt, beygi sig fyrir valdinu. Þannig er jákvætt frelsi innra frelsi, spurning um sálarástand (það sem er innra með mönnum). Spyrja má hvort stór hluti Rússa sé undirdánugur, þjóðina hefur verið kúguð frá alda öðli, fólkið lært að beygja sig fyrir ofbeldishneigðum valdhöfum.

En hugmyndin um jákvætt frelsi hefur líka “ytri”, efnahagslega hlið. Heimspekingurinn Richard Norman er jákvæðnissinni og segir að menn geta ekki verið frjálsir nema að eiga einhverra kosta völ. Því betri og fleiri sem kostirnir eru og því hæfari sem við erum til að velja, því frjálsari erum við.

Frelsi er því ekki aðeins fjarvera ytri tálmana heldur líka möguleikinn á vali. Frelsi er á vissan hátt vald (og val). Góð efnaleg kjör, menntun og pólitískt vald geta aukið hæfni okkar til að velja og fjölga um leið kostunum sem kjósa má um. Menntun geti t.d. aukið hæfni okkar til að gagnrýna ríkjandi ástand og þannig sjá nýja félagslega kosti. Bætt kjör þýða að kostum okkar fjölgar og sama gildir um aukið pólitískt vald (Norman 1987: 131-154).

Gagnstætt þessu segir frjálshyggjufrömuðurinn Friedrich von Hayek að við getum verið frjáls þótt við eigum engra kosta völ, þótt okkur sé máttar vant. Enginn segði að fjallgöngumaður sem kominn er í ófærur og á engra kosta völ sé ófrjáls nema hann hafi lent í ógöngunum vegna ofríkis annarra manna (Hayek 1960: 12-13).

Frelsi sem forræðisleysa

Ólíkt Hayek myndu hinir frjálslyndu andstæðingar Hildar sjálfsagt  taka undir málflutning Normans. Þeir myndu væntanlega líka hrífast af kenningum  írska heimspekingsins Philip Pettits.  Hann er sammála neikvæðnissinnum um tvennt: Því að frelsi sé frelsi undan forræði og því að sjálfræði (innra frelsi) sé ekki nauðsynleg forsenda frelsis. En hann er jákvæðnissinni að því leyti að hann telur að frelsi sé ekki bara frelsi frá óumbeðnum afskiptum (Pettit 1997: 51). Hann talar um “frelsi sem forræðisleysu” (e. liberty as non-domination).

Menn geti lifað lífi sínu óáreittir og spakir  en samt verið upp á náð annarra manna komnir. Þeir síðastnefndu gætu hafa látið geðþótta sinn ráða er þeir afréðu að láta mennina í friði og gera þá þannig frjálsa að hætti frjálshyggjunnar (frjálshyggjumenn segja menn frjálsa ef enginn treður þeim um tær).

En þessir menn séu ekki raunverulega frjálsir því afskiptaleysið sem þeir búa við sé skilyrt (e. contingent), tilviljunum undirorpið. Það vildi einfaldlega svo til að ákveðnir einstaklingar ákváðu að láta þá í friði. Þeir lúti forræði þessara einstaklinga, þeir séu upp á náð þeirra komnir og frelsi þeirra sé því takmarkað.

Þetta þýðir m.a. að menn geti ekki verið frjálsir í einræðisríki. Þótt einræðisherrann leyfi þegnum sínum allra náðarsamlegast að valsa frjálsir um þá lúta þeir eftir sem áður forræði hans. Gagnstætt þessu segja frjálshyggjumenn að fólk geti hæglega verið frjálst í einræðisríki og að lýðræðið geti ógnað frelsinu (t.d. Friedman 1976: 13).  

Lokaorð

Hverjum á að trúa, hvaða skilgreining er best, hvaða kenning nálgast sannleikann mest? Salomónsdómur minn er sá að best sé að vera hentistefnumaður um frelsi, láta upplýsta dómgreind ráða hvaða skilgreining og kenning eiga  best við í mismunandi samhengjum.

Frjálshyggjukenningar  eiga vel við þegar gagnrýna skal samfélög á borð við hið norðurkóreska (jafnvel velferðarríkin líka), jákvæða frelsishugmyndin þegar Rússland skal gagnrýnt, ábyrgðarkenningin og sú írskættaða  eiga  best við þegar beint skal gagnrýnum sjónum að BNA.

Hvað sem því líður eiga Hildur og félagar engan einkarétt á hugtakinu um frelsi.

Heimildir:

Berlin, Isiaha 1994 "Tvö hugtök um frelsi” (þýðandi Róbert Víðir Gunnarsson), í Einar Logi Vignisson og Ólafur Páll Jónsson: Heimspeki á tuttugustu öld. Heimskringla: Reykjavík, bls. 157-168.

Friedman, Milton 1976: “The Line We Dare Not Cross”, Encounter, Vol. 47, nóvember, bls. 8-14.

Hayek, Friedrich von 1960: The Constitution of Liberty. London og New York: Routledge. 

Kristján Kristjánsson 1992a: “Sendibréf um frelsi”, Hugur, 5 ár, Bls. 5-18.

Krugman, Paul 2007: The Conscience of a Liberal. London og New York: W.W. Norton & Co.

Norman, Richard 1987: Free and Equal. A Philosophical Examination of Political Values. Oxford: Oxford University Press.

Pettit, Philipp 1997: Republicanism. A Theory of Freedom and Government. Oxford: Oxford University Press.

Stefán Snævarr 2011: Kredda í kreppu. Frjálshyggjan og móteitrið við henni. Reykjavík: Heimskringla.

Zinn, Howard 2003: A People’s History of the United States. 1492- present. New York: HarperCollins Publishers.

Zuboff, Shoshana.  2019:  The Age of Surveillance Capitalism. London: Profile Books Ltd.

 


SAGT VAR, SATT ER. SITTHVAÐ UM STJÓRNMÁL

Marxistar sögðu að Vesturlönd arðrændu þriðja heiminn. Samt er satt að skjólstæðingar Bandaríkjanna, Suður-Kórea og Tævan risu úr örbirgð til allsnægta og hundruð milljónir manna annars staðar í þriðja heiminum hafa orðið bjargálna á síðustu áratugum. Það bendir gegn arðránskenningunni.

Frjálshyggjumenn sögðu að hnattvæðingin myndi leiða til friðar og farsældar, frelsis og lýðræðis hvarvetna á hnettinum. Hin ýmsu lönd myndu sérhæfa sig í þeirri efnahagsvirkni sem þeim hæfði best, öllum til hagsbóta.

Samt er satt að einræðisöflin sækja á og heimsfriðurinn er í hættu. Sérhæfni Rússa og Kínverja eru notuð af einræðisherrum þeirra til að þrýsta á önnur lönd. Þeim einum til hagsbótar. Þetta bendir gegn kenningunni um að hnattvæðingin efli frelsi, frið og lýðræði.

Vinstrimenn sögðu að velferðarkerfið eitt gæti bjargað almúganum frá örbirgð. Samt er satt að í Sviss er harla lítið um örbirgð þótt landið verði seint kallað velferðarríki.

Frjálshyggjumenn sögðu að umfangsmikið lýðræði ógnaði markaðsfrelsinu. Samt er satt að hið markaðsfrjálsa Sviss hefur eitt umfangsmesta lýðræði sem um getur.

Vinstrimenn (ýmsir frjálshyggjumenn líka) sögðu að fjölþjóðasamfélagið væri öllum til hagsbóta. Samt er satt að það er samskiptakostnaður (e. transaction cost) af slíku samfélagi þar eð það kostar fé að samhæfa aðgerðir margvíslegra þjóða. Og hví er svo mikið ofbeldi meðal innflytjenda í Svíþjóð?

Frjálshyggjumenn sögðu að áætlunarbúskapur væri leiðin til fátæktar og alræðis. Samt er satt að Suður-Kórea og Tævan ráku takmarkaðan áætlunarbúskap með mjög góðum efnahagsárangri og tóku upp lýðræði áður en þeir hættu þeim búskap.

Best er að trúa sem fæstu þegar stjórnmál eru annars vegar.Gjalda líka varhug við því sem ég segi satt vera.


Alþjóðaremban og Íslandssagan

Lengi tröllreið þjóðremba íslenskri sagnfræði. Allt illt í sögu þjóðarinnar var útlendingum að kenna, ekki síst Danakóngum. En nú er öldin önnur, aþjóðarembungar hafa tekið yfir alla umfjöllun um söguna.

Allt sem miður fór er íslenskum bændadurgum að kenna, konungurinn í Kaupmannahöfn var göfugmenni sem vildi þjóðinni vel.

Þessi sýn á Íslandssöguna er orðin  að trúarbrögðum þjóðarinnar. Ekki síst vegna sjónvarpsþátta Baldurs Hermannssonar um vistarband og bændur. Nú síðast mun Bogi Ágústsson hafa boðað þessa visku í útvarpsþáttum.

Valdhafar og vistarband

Vandinn er sá að alþjóðarembusagnfræðin er ekki hótinu skárri en þjóðrembuútgáfan. Ein vinsæl alþjóðrembukenning er sú að stórbændur einir hafi borið ábyrgð á hinu illræmda vistarbandi.

En  þeir hefðu  ekki komist langt með að tjóðra almúgann ef dönsk yfirvöld hefðu ekki lagt blessun sína yfir bandið illa.

Vistarbandið kemst á vegna dóms sem danski hirðstjórinn Diðrik Píning kvað upp, að áeggjan íslenskra stórbænda (skv t.d. Eimar Laxness og Pétri Hrafni Árnasyni 2015: 555-557).

Spurt er: Af hverju var  ekkert eiginlegt vistarband á þjóðveldisöld, þótt eitthvað í þá veruna hafi þegar verið til?  Getur verið að stuðning konungsvalds hefði þurft með til að tjóðra landslýð með þessu óþverrabandi?

Hvað um það, með Píningsdómi var erlendum aðilum bönnuð veturseta á Íslandi.

En voru þessir aðilar kaupmenn í nútíma skilningi? Fyrir daga nútíma samfélagshátta voru engin klár skil milli kaupskapar annars vegar, sjórána og annarra gripdeilda hins vegar, kannski var bannið að einhverju leyti tilraun til að koma í veg fyrir slíkt.

Ekki má skilja orð mín þannig að ég neiti því að kaupskapur og fiskveiðar útlendinga á ensku öldinni hafi ekki haft neinar góðar hliðar.

Sjálfsagt hefur þessi nærvera útlendinga verið að mörgu leyti af hinu góða. En án atfylgis konungsvaldsins hefði verið illmöguelgt að hindra vetursetu þeirra.

Athuga ber að Danakonungur var stærsti landeigandi Íslands í byrjun átjándu aldar, hann átti  25% jarðnæðis, 50% ef kirkjujarðir eru teknar með en þá var kirkjan orðin ríkisfyrirtæki.

Hann hafði því mikinn hag af vistarbandinu enda var vistarband í Danmörku til 1854  (ég veit ekki hve stór hluti jarðnæðis á Íslandi voru konungsjarðir á dögum Pínings, ekki má útiloka að hann  hafi haft þær í huga er hann kvað upp dóminn illræmda).

Á þessum tíma (í byrjun átjándu aldar) voru aðeins 5% íslenskra bænda sjálfseignarbændur.

Prófessor Jón Viðar Sigurðsson segir að á þjóðveldisöld hafi tveir af hverjum þremur þeirra verið sjálfseignarbændur, aðeins þriðjungur norska bænda hafi átt eigin jörð (Jón Viðar er líklega sá fræðimaður sem mest veit um íslenska og norska miðaldasögu) (Jón Viðar 2008).

Hvers vegna hverfur íslenska sjálfseignarbændastéttin á tímum hins erlenda konungsvalds?

Mér hefur dottið í hug að spinna ögn við staðhæfingu Jóns Viðars:  Eftir að landið varð norskt skattland hafi íslenskir höfðingjar ekki lengur þurft að öðlast hylli bænda með gjöfum og öðru slíku (Jón Viðar leggur mikla áherslu á þennan þátt þjóðveldisins).

Þá hafi aðalmálið verið annars vegar að öðlast hylli konungs eða standa saman gegn honum, í stað þess að keppa um vinsældir bændadurga.

Ég spinn við þessa staðhæfingu með eftirfarandi hætti: Brögð hafi verið að því að gjafir og stuðningur höfðingja kæmi í veg fyrir  að bændur yrðu að bregða búi, eftir að þær gjafir hurfu hafi líkurnar aukist á því að þeir færu á hausinn.

Í ofan á lag urðu bændur nú að greiða konungi skatt en þeir voru að heita skattfrjálsir á söguöld. Til að gera illt verra hafi afkoma þeirra versnað þegar litla ísöld hófst á fjórtándu öld. 

Kólnunin  kann að hafa sett fjölda bænda á hausinn. 

Landeyðing hefur gert illt verra, æ meira jarðnæði varð örfoka. Gagnstætt hefur uppfok ekki verið vandamál bænda í hinum skógsæla Noregi

Landeyðingar og  kólnunar vegna   hafa líkast til margir íslenskir  smábændur að bregða búi og ráða sig í vist. 

Ekki batnaði ástandið á sveinaöld (15du öldinni) þegar vopnaðir ribbaldar undir stjórn stórbænda réðust á fátæka bændur og rændu þá landi. Það landrán er alfarið á ábyrgð innlendra höfðingja, á sveinaöld var konungsvaldið veikt.

Reyndar var sveinaöldin öld upplausnar og óreiðu m.a. vegna þess að stofnanir þjóðveldisins voru horfnar, stofnanir konungsvaldsins enn veikar. Kannski hefði engin sveinaöld runnið upp ef landið hefði haldið sjálfsstæði sínu.

Þó ber þess að gæta að ástandið var litlu skárra á Sturlungaöld enda voru stofnanir þjóðveldisins við það að leysast upp.

Nefna má að fram að Sturlungaöld voru íslenskir höfðingjar ekki valdameiri en svo að þeir gengu til allra algengra verka á býlum sínum, voru bændur.

Lénshöfðingjum Evrópu hefði þótt það sérkennilegt, þeir gerðu ekkert annað en berjast og kúga ánauðuga bændur.

Öll vötn féllu  að þeim sama Dýrafirði, sum vötn áttu sér uppsprettu í konungsgarði, aðrar í stórbændajörðum, þær þriðju á lendum veðurguða.  Með þessum hætti hafi smám saman kvarnast úr sjálfseignarbændastéttinni.

Ef svo ólíklega hefði viljað til að landið hefði haldið sjálfsstæði sínu, t.d. undir forystu íslensks jarls eða konungs, má velta fyrir sér hvort jafn illa hefði farið fyrir bændum.

Lítum á það þegar Danakonungur lét ræna íslensk klaustur vegna siðskiptanna. Allt góssið var flutt til Danmerkur. Hefði innlendur, lúterskur,  konungur rænt klaustrin má ætla að auðurinn hefði ekki flust úr landi, jafnvel nýst til fjárfestinga sem alþýða manna hefði ef til vill  haft einhvern smáhag af.

Meðan ég man: Í bók sinni um Tormodus Torfæus (Þormóð Torfason) segir Bergsveinn Birgisson að danskir embættismenn í Noregi hafi farið illa með landslýð, rænt og ruplað og flutt þýfið heim til Danmerkur. Hann gefur í skyn að íslenskir embættismenn Danakonungs hafi verið skömminni skárri (Bergsveinn Birgisson 2021).

Spurt er: Ef Danastjórn var svona almennileg við Íslendinga af hverju kom hún á einokunarverslun?

Talið um mildi Danajöfurs verður hlægilegt í ljósi þess að bændaánauð var í Danmörku, þrælahald í nýlendunni í karabíska eyjahafinu og norskir aþýðumenn notaðir sem fallbyssufóður.

Var slíkur kóngur líklegur til að fara Íslendinga mjúkum höndum?

Bæjarmyndun

Mikið hefur verið hjalað um það hvers vegna ekki urðu til bæir á Íslandi og lýsa alþjóðarembungar víginu á hendur stórbænda, þeir hafi hamast gegn bæjarmyndun.

Gallinn við þessa staðhæfingu er sá að þeir, sem henni trúa, vita ekki að á miðöldum og í upphafi nýaldar urðu bæir og borgir yfirleitt aðeins til vegna þess að konungar og öflugir höfðingjar stofnsettu þá/þær.

Líklega m.a. vegna þess að vald þurfti til að koma í veg fyrir að sveitavargurinn eyðilagði þær. Talið er að téður vargur hafi rústað sænska víkingabæinn Birka.

Ósló var stofnsett af Haraldi konungi harðráða, Björgvin af Ólafi konungi kyrra. Enginn íslenskur höfðingi á þjóðveldisöld var nógu öflugur til að stofnsetja bæi, það er því fásinna að kenna höfðingjavaldinu um þéttbýlisskort á Ísland.

Auk þess virðast höfðingjar hafa sætt sig við þá myndun sjávarþorpa sem átti sér stað 1200-1400 (um þessa myndun, sjá Sigurð Snævarr 1993: 15, hann nefnir ekki viðbrögð höfðingja).

En  erfitt hefði orðið að setja stærri  bæi á laggirnar vegna viðarskorts. Miðaldabæir voru að miklu leyti viðarkyns.

Danakonungur stofnsetti fjölda bæja í Noregi, t.d. Fredrikstad, Kristiansand, Kristiansund og Halden. Hann hefði líklega getað sett á laggirnar smábæi á Íslandi og verndað sjávarþorpin hefði hann séð sér hag í því.

Íslenskir stórbændur hefðu aldrei þorað að stugga við bæ eða þorpi sem naut verndar konungsvaldsins. En sem stærsti jarðeigandi landsins hefur Danakonungur haft lítinn hag af bæjarmyndunum.

Eða skyldi það vera tilviljun að einokunarverslunin í boði konungs ýtti undir landbúnað, ekki fiskveiðar? Hvað fiskveiðar varðar þá gleymist oft hve lítinn við Íslendingar höfðu, lítið annað en rekadrumba. 

Eftir miðja elleftu öld eiga þeir ekki lengur skip heldur verða að húkka far til útlanda með norskum kaupmönnum. 

Vegna viðarleysis  var erfitt að smíða báta og þar með örðugt að stunda fiskveiðar, litla ísöldin hefur gert það enn erfiðara en ella.

Það var því ekki bara yfirgangur stórbænda sem veikti stöðu útgerðarinnar heldur líka viðarskortur og mögulegir hagsmunir konungsvaldsins.

Mikilvægt er að hafa í huga að ef konungur hefði lagt það á sig að stuðla að bæjarmyndun þá hefði það veikt vistarbandið því hjú hefðu getað fengið vinnu í bæjunum.

Hvað sem því líður er bæjarmyndun ekki eins heilög og sumir halda. Fyrir daga nútímasamfélaga voru bæir og borgir pestarbæli þar sem fleiri dóu en fæddust. Talað er um þversögn McNeills, bæir héldu íbúafjölda sínum eða uxu þrátt fyrir þetta  (skv Algaze 2018: 23–54).

Alla vega var skoðun  sveitalubbanna á borgarlífi ekki úr lausu lofti gripin, það hafði ýmsa ókosti. En þetta breyttist með nútíma tækni og læknavísindum, tækni og vísindi hafa gert borgir lífvænlegar.  

Velta fyrir sér hvort innlendur konungur hefði séð sér hag í að stuðla að bæjarmyndunum. Hann gæti hafa getað  gert bandalag við bæjarbúa gegn sveitahöfðingjum eins og konungur víða í Evrópu gerðu í byrjun nýaldar.

Alþjóðaremba án alþjóðasögu

Það er sláandi hversu litla þekkingu alþjóðarembungar virðast hafa á alþjóðlegri sögu, alla vega þeir rembungar sem rembast við að jarma  í fjöl- og fámiðlum.

Eða af hverju er aldrei talað um vistarband og bændaánauð í Danmörku, Englandi og fleiri Evrópuríkjum?

Mér vitanlega hefur enginn þeirra rætt sögu bæjarmyndana í Evrópu, að Noregi meðtöldum. Merkilegt nokk tala sumir þeirra (alla vega í fjölmiðlum og á feisbók) eins og hvergi hafi verið höfðingjaveldi nema á Íslandi.

Þeir virðast ekki vita að bókstaflega alls staðar á jarðarkringlunni hafa verið einhverjir hópar sem höfðu mun meiri völd en almúginn.

Undantekningar eru örsmá „frumstæð“ samfélög, mögulega líka fornmenning Indusdalsins.

Í þessu sambandi komst á kreik sá þvættingur  að Noregur, gagnstætt Íslandi hefði aldrei  haft höfðingaveldi. En staðreyndin er sú  miðaldakónungarnir  norsku  voru  valdameiri en öll höfðingjakássan íslenska samanlögð.

Ekki skorti heldur norska jarla, hertoga  og hersa völd. Yfirstéttarmenn norskir voru nefndir „lendir menn“  (menn geta fræðst um norskt miðaldasamfélag í nefndri bók Jóns Viðars 2008).

 

Spurningar og svör

Einhver kann nú að spyrja hvort ég trúi því í fúlustu alvöru að þjóðveldisöld hafi staðið undir nafni, verið lýðræðisöld þar sem smábændur höfðu það þokkalegt.

Nei, auðvitað réðu höfðingjar mestu, vinnuhjú voru réttlaus að kalla, konur valdlitlar.  En gagnstætt vel flestum Evrópulöndum á miðöldum var vísir að lýðræði þar eð menn gátu ekki orðið goðar nema njóta fylgis meðal bænda, alla vega stórbænda.

Það var örlítill lýðræðislegur þáttur í alþingiskerfinu (alltént fram að Sturlungaöld), það þótt aðeins u.þ.b. 10% fullorðinna karlmenn hefðu rétt til þátttöku. Goðar og gildir bændur, þeir síðastnefndu urðu að eiga sem nam tveimur kúgildum til að öðlast þingseturétt.

Í lénsríkjum Evrópu var yfirleitt ekkert slíkt í boði, þar ríkti stigveldi með konung á hátindinum, ánauðugum bændum neðst. Meira að segja í Noregi var vísir að lénsveldi þótt þar hefðu þingin viss völd.

Reyndar voru Sviss og ýmis evrópsk borgríki með einhvern smávísi að  lýðræði, þó tæpast stærri en þjóðveldisvísirinn.

Aðalmálið er að íslensk þing (bæði Alþingi og héraðsþing) skópu örmjóan  vísi að umræðumenningu. Þessi menning hverfur þegar landið kemst undir útlenda kónga. Kannski hefði  pínulitla umræðumenning tórað ef innlendur aðili hefði tekið völdin í lok Sturlungaaldar.

Þá kann lesandi að spyrja hvort ég haldi að Ísland hefði getað varðveitt sjálfsstæði sitt á þessum tímum.

Nei,  ég efast um það, kannski var það lán í óláni að lenda undir Noregs- og Danakonungum sem fóru kannski skár með þjóðina en t.d. enski kóngurinn hefði gert.

Danakonungur lét ekki fremja fjöldamorð á Íslendingum, það var honum til sóma. Og hann hafði ekki fyrir því að herskylda Íslendinga, gagnstætt því máttu norskir búandkarlar berjast í endalausum stríðum hans.

 

Reyndar er ekki víst að herskylda hefði bara verið af hinu illa. Íslenskir karlar í konngsher hefðu kannski kynnst nýjum hugmyndum, jafnvel lært handverk, ekki hefði af veitt.

Eitt aðalmein Danaveldis var að konungsvaldið sýndi Íslendingum passíva árásargirni,   vandinn var oft það sem konungur gerði ekki, t.d. að láta undir höfuð leggjast að stofnsetja  bæi.

Annað dæmi um passíva árásargirni var sú ráðstöfun að afvopna Íslendinga eftir siðskiptin án þess að efla varnir landsins.

Íslendingar voru því varnarlausir þegar sjóræningjarnir frá Algeirsborg gerðu strandhögg og rændu fólki í stórum stíl. 

Enn kann lesandi að spyrja hvort ég telji sjálfstæði æðst allra gæða.  Nei, það fer eftir efnum og aðstæðum hvort það er af hinu góða. Albanía á dögum harðstjórans Enver Hoxhas var alsjálfstætt, líklega hefði það verið íbúunum fyrir bestu að komast undir mannúðlegt, erlent vald.

Kannski er Evrópubúum nauðugur einn kostur að stofna sameiginlegt ríki til að halda Rússunum í skefjum. Eða Norðurlandabúum að endurvekja Kalmarsambandið.

Lesandi er ekki af baki dottinn heldur spyr hvort ég sé ekki fulldjarfur í gegn-sagnfræði (e. counterfactual history) þegar ég velti fyrir mér hvað kynni að hafa gerst ef innlendur konungur hefði tekið völdin.

Er nokkur leið að ráða í þær rúnir? Get ég útilokað að slíkur konungur hefði reynst hinn versti harðstjóri, verri en nokkur Noregs- eða Danakonungur?

Auðvitað ekki en ég held að oft sé nauðsyn að búa til gegn-sagnfræðilegar sviðssetningar (e. scenarios) til að glöggva skilning okkar á því sem í reynd gerðist.

Til að skilja raunveruleikann verðum við að þekkja möguleika, sviðsetningar geta verið tæki til þess arna í sagnfræði en þó kannski helst í bloggfærslum eins og þessari. Í slíkum færslum má leika sér að hugmyndum, t.d. gegn-sagnfræðilegum hugmyndum.

Lesendinn spyr enn og aftur hvort ekki sé satt að á átjándu og nítjándu öld hafi Danastjórn stundum komið með framfaratillögur sem íslenskir ráðamenn höfnuðu. Vissulega, til dæmis munu innlendir ráðamenn hafa komið í veg fyrir að einokunarverslunin yrði lögð niður 1770 (skv Sigurði Snævarr 1993: 19). 

Athuga ber að tillagan um einokunarverslunina virðist sett fram í valdatíð Struenses hins frjálslynda sem var nánast alvaldur í Danaveldi 1770-2, kom á tjáningar- og viðskiptafrelsi. 

Það er tæpast tilviljun að tillagan er ekki borin fram síðar, Struense missti öll völd 1772 og var hálshöggvinn. Allt var fært til fyrra stjórnlynds horfs í ríki Danakonungs,

Tillagan um afnám einokunarverslunar var nánast örugglega sett fram í óþökk konungsvaldsins. Hún er því hreint ekki dæmi um góða, göfuga Danakonunginn sem alþjóðarembungar trúa á. Fremur hið gagnstæða.

Ætla má að kóngsi hafi haft hag af einokunarversluninni þar eð hann átti miklar landeignir á Íslandi. Eins og áður segir þjónaði hún hagsmunum landbúnaðar, ekki fiskveiða. 

 

Eins og áður segir legg ég áherslu á að innlendir höfðingjar og stórbændur hafi átt sinn stóra þátt í mörgu af því sem miður fór.

 

Alla vega  stuðlaði einokunarverslunin mjög að því að einangra landið og koma í veg fyrir að ferskar, nýjar umbóta-hugmyndir bærust Íslendingum.

Þetta  kunna  að hafa verið meðal  ástæðna  þess að hugsunarháttur þeirra  var fornlegur, fjarstaða landsins bætti ekki úr skák. Þess utan var fólk  fyrir daga nútímasamfélagshátta almennt íhaldssamt og hrætt við breytingar. 

Það  var kannski þess vegna sem Íslendingar voru ekki ginnkeyptir fyrir umbótatilraunum Jörundar hundadagakonungs. William Morris mun segja í ferðabók sinni að Íslendingar væru skaðlega íhaldssamir.

Ef til vill var það vegna almennrar íhaldssemi sem þeir voru andsnúnir umbótum, ekki bara valdagirni yfirstéttarinnar.

Það kann að vera ein  af skýringum þess að vistarbandið hvarf svo seint á Íslandi.   

Hefði umræðumenning þjóðveldisaldar lifað af þá gæti hugsunarhátturinn hafa orðið annar.

Lokaorð

Alþjóðaremban var á sínum tíma ferskur gustur í íslenskri menningu, ekki veitti af að leiðrétta ýmsar þjóðrembuvillur í sagnfræði. En nú er hún orðin að leiðinlegri kreddu sem andæfa ber.

Margt af því sem miður fór í íslenskri sögu var sök jafnt stórbænda sem erlendra konunga, jafnvel íslensks almúga.

Það er ekki heiglum hent að þjóna Clio, gyðju sagnfræðinnar. Best er að hafa vaðið fyrir neðan sig, forðast formúlukennda mynd af sögunni, hvort sem sú mynd er í anda þjóð- eða alþjóðarembu.

Meðal heimilda:

Algaze, Guillermo 2018: “Entropic Cities: The Pardox of Urbanism in Ancient Mesopotamia”, Current Anthropology Volume 59, Number 1, febrúar, bls. 23–54.

Bergsveinn Birgisoson 2021: Mannen fra middelalderen. Björgvin: Vigmostad og Bjørke.

Einar Laxness og Pérur Hrafn Árnason  2015: Íslandssaga A-Ö. Reykjavík: Vaka-Helgafell.

Jón Viðar Sigurðsson 2008: Det norrøne samfunn. Ósló: Pax forlag.

Sigurður Snævarr 1993: Haglýsing Íslands. Reykjavík: Heimskringla.

 

 


ÁRA-TUGUR

Þann áratug, sem nú er hartnær hálfnaður, má kenna við ára, djöfla, nefna ára-tug. Í upphafi  hans var kóvítið í algleymingi, í blábyrjuninni réðist óður skríll á þinghúsið bandaríska.

 Sá sem eggjaði skrílinn til ódæða var enginn annar en þáverandi Bandaríkjaforseti Donald Trump. Maður sem ógnar lýðræðinu vestanhafs og sem dansar eftir pípu hins zar-fasíska einvalds í Kreml.

Einvaldur sá   lét her sinn ráðast inn í Úkraínu og jók mjög kúgun innanlands í Rússlandi. Hann ógnar heimsfriðnum, það gerir kannski ekki hinn leiði og spillti Netanyahu í Ísrael. Hann  lætur her sinn rústa allt á Gasasvæðinu, drepa íbúana í stórum stíl.

Það réttlætir ekki fólskulega árás Hamasliða á óbreytta ísraelska borgara.

Til að bæta gráu ofan á svart eykst hamfarahlýnunin hressilega. Vistkerfi jarðar eru í mikilli hættu stödd, ekki bara vegna hlýnunar heldur líka allra handa mengunnar.

Fyrir rúmum aldarþriðjungi skrifaði ég pistla í Alþýðublaðið sáluga, einn bar heitið  "Ára-tugur, engla-tugur". Hann fjallaði um níunda tug aldarinnar, byrjun hans mátti kenna við ára, lokin við engla, þ.e. múrhrun og enda kalda stríðsins fyrra.

Vonandi getum við kennt þennan áratug við engla þegar honum loks lýkur.


Sigmundur Ernir sem KANTA

Í  mínu ungdæmi sungu menn „Kanntu brauð að baka?“. Ég syng  annan söng, um það fólk sem ég kenni við KANTA, Krata Að Nafninu Til Aðeins.

Einn þeirra er hinn  ágæti blaðamaður og skáld Sigmundur Ernir Rúnarsson  sem eitt sinn sat á þingi fyrir Samfylkinguna.

En hann er ekki meiri jafnaðarmaður en svo að hann syngur ítrekað lofgerðaróð um Sjálfsstæðisflokk fortíðarinnar og vegsamar hinn ginnhelga frjálsa markað, nú síðast í DV pistli.

Flokkurinn hafi á árum áður barist gegn ríkisafskiptum, fyrir einstaklingsfrelsi og frjálsum viðskiptum.

En á síðari árum hafi hann snúist gegn hinni goðumlíku frjálshyggju, ó vei!  Fyrir vikið hafi  fylgi hans snarminnkað.

Flokkurinn

Að gamni slepptu þá er þessi mynd Sigmundar Ernis af Sjálfsstæðisflokknum vægast sagt furðuleg.

Þorvaldur Gylfason dregur upp allólíka mynd, hann segir að á dögum Ólafs Thors hafi flokkurinn verið hafta- og skömmtunarmegin.

Hann hafi þá sem nú ýtt undir óæðri endann á stórútgerðinni, fyrir utan að njósna um samborgara sína.

Það er mikið til í þessu, þess utan er ósennilegt að flokkurinn hafi misst fylgi vegna þess að hann sé  ekki lengur frjálshyggjunnar megin.

 

Þess utan er einfaldlega ósatt að Sjallar hafi lagt frjálshtyggjuna á hilluna. Því til sannindamerkis má nefna að Þórdís Kolbrún setti nýlega fram þá tillögu að einkavæða ÁTVR og Póstinn.

Og Áslaug vitnaði nýverið fjálglega í Reagan: Ríkið er ávallt vandinn, einkaframtakið lausnin.

Fátt bendir til þess að allur almenningur sé jafn  frjálshyggjusinnaður og þær stöllur. Mig rámar í skoðanakönnun sem sýndi að yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga vildu ríkisrekið heilbrigðiskerfi.

Fylgishrun Sjálfsstæðisflokksins á sér aðrar rætur, í  reiði almennings út af hruninu og óánægju með hrokafulla, auðvaldssinnaða flokksbrodda.

En Sigmundur hélt  því fram í Fréttablaðsleiðara að almenningur vilji minni ríkisafskipti. Sú staðhæfing er ekki sennileg í ljósi þess sem segir hér um skoðanakannanir.

Sitthvað um Sviss

Er ég að halda því fram að velferðarkerfið sé heilagt?

Nei og aftur nei, fátt eitt er heilagt í þeim táradal sem mennirnir byggja.

Nefna má að Sviss hefur mjög takmarkað velferðarkerfi, samt verður enginn var við mikla ofurfátækt þar í landi. Ekki í samræmi við kratakreddur.

Bæta má við að þar í landi er mjög umfangsmikið lýðræði en samkvæmt formúlum frjálshyggjunnar á slíkt lýðræði að vera markaðsfrelsi skeinuhætt. Þrátt fyrir það  er markaðsfrelsi óvíða meira en hjá þessari Alpaþjóð.

Samkvæmt kenningunni eiga flugur ekki að geta flogið, þær geta það samt.

Frjálshyggjan

Sjálfsstæðisflokkurinn var reyndar með hálfgildings frjálshyggjuafstöðu til almenningssamgangna.

Þegar hann réði Reykjavík var borgin skipulögð sem amerísk bílaborg löngu áður bílar urðu almenningseign.

Lítið var gert til að efla almenningssamgöngur með þeim afleiðingum að fólk átti ekki annarra kosta völ en að skaffa sér bíl.

Hvað viðskiptafrelsi varðar er það ekki alltaf hagkvæmt. Nóbelshagfræðingurinn Joseph Stiglitz og fleira stórmenni benda á að iðnvæðing sé illframkvæmanleg nema nýjabrum í iðnaði sé verndað með tollmúrum.

Þannig iðnvæddust Bandaríkin og Suður-Kórea bak við slíka múra. Kóreumenn stunduðu reyndar takmarkaðan áætlunarbúskap sem svínvirkaði, landið iðnvæddist hraðar en nokkuð annað land í sögunni.

Þökk sé áætlunarkerfinu risu risafyrirtæki eins og Samsung, margir Íslendingar njóta góðs af framleiðslu þess merka fyrirtækis.

Ríkis-„afskipti“ eru því ekki alltaf neikvæð (en Suður-Kóreumenn höfðu vit á að hætta áætlunargerð þegar landið var orðið iðnvætt).

Samkvæmt formúlum frjálshyggjunnar er áætlunarkerfi leiðin til fátæktar og alræðis. En Suður-Kórea varð velllauðug og kom á lýðræðisskipan á meðan áætlunarkerfið var enn við lýði.

Formúlur markaðsdýrkenda reyndust rangar hvað Sigmundur Ernir athugi. 

Þess utan verður frjálsum markaði vart á kopp komið.

Stiglitz bendir á að til þess að svo megi verða verði allir gerendur á markaði að hafa fullkomna yfirsýn yfir alla kosti, hafa hnífjafnt aðgengi að öllum upplýsingum o.s.frv.

Útilokað sé að slíkt og þvílíkt raungerist, hönd markaðarins sé ósýnileg af því að hún sé ekki til.

Bæta má við að Milton Friedman segir réttilega að markaðurinn virki ekki vel nema gerendur séu að jafnaði upplýstir og eigingjarnir.

Hann athugaði ekki að upplýstir og eigingjarnir gerendur hafa hag af að draga sem mest úr samkeppni og græða með því sem mest.

Bestu leiðirnar að því marki eru annars vegar leið kartella (samráðs/samsærisleiðin), hins vegar að  beita ríkisvaldinu. Þannig getur markaðsfrelsið sálgað sjálfu sér.

Vart hefur slíka gerendur skort í Sjálfsstæðisflokknum, þeir hafa vafalítið  notað áhrif sín til að fá X-D pólitíkusa til að takmarka samkeppni sér í vil, skapa velferðarkerfi fyrir fyrirtæki.

Um leið hefur flokkurinn ekki ofreynt sig á að efla velferðarkerfi fyrir almenning.

Sigmundur Ernir segir að nú sé hún Valhöll stekkur orðinn. Hún hefur löngum stekkur verið.

Lokaorð

Sigmundi  Erni er margt vel gefið, hann er liðtækt skáld og upp á sitt besta góður  pistlahöfundur.

 En   honum bregst bogalistin þegar hann skrifar í hinum ferkantaða KANTA-stíl sínum.

Markaðurinn hefur ýmsa kosti, Sjálfsstæðisflokkurinn kannski líka, en krötum ber ekki að lofprísa þá. Þeim ber bara að heiðra skálkinn.

P.S. Mest af því sem hér er skrifað um frjálshyggju er ættað úr bók minni Kredda í kreppu. Frjálshyggjan og móteitrið við henni.


LENÍN, HUNDRAÐ ÁRA ÁRTÍÐ

Í dag er liðin ein öld síðan Vladimír Iljits Lenín hrökk upp af. Ekki skal stjórnmálaferill hans ræddur að ráði hér, þess meir um ýmsar kenningar hans með megináherslu á kenningu hans um heimsvaldastefnuna.

Þó skal nefnt að hann lét reka heim lýðræðislega kjörið rússneskt þing í janúar 1918, mánuði eftir að verkföll voru bönnuð (t.d Encyclopedia Britannica).

Hann átti þátt í að koma gúlaginu á laggirnar, stofna morðóða leynilögreglu o.fl. (t.d. Gulag Online).

 

                 Flokkurinn og lýðræðið

 

Skömmu fyrir byltingu setti hann saman ljóðræna lýsingu á hinu altæka lýðræði sósíalismans þar sem jafnvel matseljan taki þátt í stjórnastörfum (Lenín 1917). 

Lenín ofreyndi sig ekki á að koma þessum marxísku lýðræðishugmyndum í framkvæmd, kannski vegna þess að hún var illsamræmanleg hugmyndinni um hinn leníníska byltingarflokk.

Einnig er ekki víst að hægt sé að samrýma áætlunarbúskap og víðfeðmt lýðræði. Líklega yrði áætlunargerð mjög þung í vöfum og vart framkvæmanleg ef fjöldi lýðræðislegra ráða á að hafa hönd í bagga með henni.

En fulltrúalýðræði kann að vera samrýmanlegt áætlunarbúskap, alla vega ef trúa má hagfræðingnum Josef Schumpeter. Hann taldi reyndar að slíkur búskapur væri síður samrýmanlegur lýðræði en markaðskerfið (Schumpeter 1976).

Víkjum aftur að Lenín. Hann  sagði að verkalýðurinn einn og óstuddur gæti aldrei öðlast byltingarvitund, aðeins fagfélagsvitund. Byltingarvitundin yrði að koma frá atvinnubyltingarmönnum.

Enda skyldi byltingaflokkurinn  eingöngu skipaður þeim en þeir þekktu hina sönnu hagsmuni verkalýðsins, betur en hann sjálfur. Stjórnarform flokksins  var  stigveldið.

Einnig átti að vera „lýðræðislega miðstjórnarvald“ þar sem flokksmenn voru skyldaðir til að beygja sig möglunarlaust  fyrir ákvörðun meirihlutans, alls ekki gagnrýna hana (Lenín 1970)(sjá einnig Conquest 1972).

Trotskí sagði með réttu löngu fyrir byltingu  að í slíkum flokki hlyti  miðstjórnin fyrst að taka öll völd í sínar hendur svo tæki einræðisherrann við (Trotskí 1967: 63).

Trotskí gekk síðar til liðs við þennan flokk og tók þátt í að koma einræðisstjórn hans á laggirnar.

Það er kaldhæðni örlaganna að hann skyldi með þeim hætti eiga þátt í að láta eigin spásögn rætast.

Nefna má að Lenín  mun hafa  hvað eftir annað mælt með hryðjuverkum til að ná markmiði byltingarinnar, líka eftir valdatöku sína (samkvæmt Conquest 1972: 98 og víðar).

 

            Kenning Leníns um heimsvaldastefnuna

 

Lenín hafi réttilega  talað  um heimsvaldastefnuna sem æðsta stig kapítalismans. Það væri stig einokunarkapítalismans sem hefði sprottið alskapaður úr höfði hins frjálsa markaðar.

Þetta skeið sé skeið fjármagnskapítalsins,  það  renni saman við iðnaðarauðmagnið og nái tangarhaldi á iðnaðnum.

Alþjóðabankar verði  lífæð kapítalismans, útflutningur fjármagns skiptir nú meira máli en útflutningur á varningi.

Vegna lækkandi gróðahlutfalls yrðu kapítalistarnir að fjárfesta í æ ríkari mæli í nýlendum sem yrðu arðrændar fyrir vikið.

En þetta arðrán sé aðeins gálgafrestur því gróðahlutfallið héldi áfram að lækka. Heimsvaldasinnuðu ríkin hafi  lagt undir sig allan heiminn svo erfitt sé um vik að finna nýjar nýlendur. 

Þrautalendingin væri uppskiptastríð milli nýlenduveldanna, fyrri heimsstyrjöldin hafi verið slík styrjöld um nýlendur og markaði.

Alltént hafi arðrán á nýlendum stuðlað  að bættum kjörum hluta verkalýðsstéttarinnar á Vesturlöndum, þó aðeins til bráðabirgða. Ekki bara lækkandi gróðahlutfall heldur stöðnun vegna einokunar veiki innviði kapítalismans.

Einokunin muni valda því að það hægist á tæknilegri nýsköpun. Fyrr eða síðar hryndi kerfið vegna stórkreppu og byltingar (Lenín 1961).

Lítum  kenningar Leníns gagnrýnum augum: Menn á borð við Robert Conquest  hafa borið brigður á kenning hans um að fjármagn hafi í æ ríkara mæli streymt til nýlendna og hálfnýlendna.

Til dæmis hafi franskar nýlendur flutt meira út en inn, í ofan á lag séu fá dæmi um ofurgróða af fjárfestingum í nýlendum. Iðnframleiðsla iðnríkjanna hafi aukist mikið og útflutningur iðnvarnings aukist mun meira en útflutningur auðmagns (Conquest 1972: 75-76).

Vandinn er sá að Conquest nefnir engar heimildir fyrir máli sínu.

Beinum sjónum okkar  að fyrri heimsstyrjöld og eftirleiknum  að henni: Hvers vegna lögðu hin sigursælu Bandaríki ekki undir sig nýlendur Frakka, Breta og Þjóðverja eftir stríðið?

Þjóðverjar voru sigraðir og Frakkar og Bretar skulduðu Bandaríkjamönnum gífurlegar fúlgur. Af hverju gerðu Bandaríkjamenn Bretland, Frakkland og Þýskland  ekki bara að nýlendum sínum?

Í stað þess drógu þeir sig út úr Evrópu og lögðu  herinn nánast niður  án þess að bandarískur efnahagur biði tjón af.

Hann blómstraði þrátt fyrir smá afturkipp fyrst eftir stríðslokin þegar fyrirtæki sem græddu á stríðinu urðu að draga saman seglin. Eftir síðari heimsstyrjöld stóðu Bandaríkjamenn enn betur að vígi.

Þeim  hefði verið í lófa lagið að gera Vestur-Evrópu, evrópskar nýlendur og Japan að nýlendum sínum. En þeir létu það eiga sig.

Í ofan á lag gáfu Evrópuþjóðirnar nýlendum sínum frelsi en án þess að skaðast efnahagslega á því.

Þvert á móti voru fyrstu áratugirnir eftir stríð efnahagslegt blómaskeið Vesturlanda (sagt hefur verið að Holland hafi orðið auðugra eftir að það missti risanýlendu sína, Indónesíu) (Conquest 1972: 78). 

Það þótt um þriðjungur jarðarbúa hafi þá verið búsettir í kommúnistaríkjum sem voru ekki opin fyrir erlendum fjárfestingum og voru vart hluti af heimsmarkaðskerfinu.

Hefði Lenín haft á réttu að standa þá hefði þessi  “missir” a.m.k. þriðjungs mannkynsins átt að valda alvarlegum efnahagskreppum í kapítalískum ríkjum. 

Ef nýlenduveldin hefðu með arðráni sínu komið  í veg fyrir efnahagsframfarir í hinum þriðja heimi þá hefði mátt ætla að einhverjar efnahagsframfarir hefðu orðið í þeim löndum þriðja heimsins sem ekki urðu nýlenduveldunum að bráð.

En ekki verður séð að stórfelldar framfarir hafi átt sér stað á tímabilinu 1600-1950 í Tyrklandi, Tælandi, Íran, Japan, Kína og Eþíópíu. Ekkert þessara landa iðnvæddist á þessu tímaskeið og héldu þau þó sjálfsstæði sínu.

Hér ber að slá varnagla, sum þessara landa urðu að beygja sig fyrir vestrænum þrýstingi, t.d. Kína eftir ópíumsstríðið (samkvæmt t.d. Ferguson 2003: 166). Lenín sagði að þessi ríki væru  hálfnýlendur eða væru við það að verða það (Lenín 1961: 104). 

En obbann af tímabilinu 1600-1950 voru Kína, Íran og Tyrkland  ekki bara sjálfstæð ríki heldur mikil stórveldi.

Það er ekki víst að nýlendustjórn sé hagkvæm þegar til langs tíma er litið, hagkvæm öðrum en fámennum hópi nýlendustjóra og þeim tengdum viðskiptamönnum.

Reyndar er vel mögulegt að nýlendustefnan hafi aðallega þjónað hagsmunum generála og annarra atvinnuhermanna, ekki auðkýfinga.

Vald og dýrð hersins hefur sjálfssagt aukist  í sigursælum nýlendustríðum, atvinnuhermenn hafa líklega fengið  nóg að sýsla við að stjórna nýlendunum.

Ekki er öruggt að  peningamenn hafi verið í fararbroddi.

Á nítjándu öldinni voru frjálshyggjumenn margir hverjir andsnúnir nýlendustefnu, m.a. vegna þess að þeir töldu hana ekki ábátasama (samkvæmt t.d. Nordin 2012: 117).

Lenín segir að á velmektardögum  frjálsrar samkeppni, 1840-1860,  hafi borgaralegir stjórnmálamenn í Bretlandi verið andsnúnir nýlendustefnu en það hafi breyst þegar skeið einokunar og fjármálaauðvalds hafi hafist (Lenín 1961:  102).

Eitt er fyrir sig að það getur kostað talsvert fé að stjórna nýlendum Lenín nefnir að ýmsir álitsgjafar, þ.á.m. marxistinn Karl Kautsky, hafi talið öflun nýlendna of áhættu- og kostnaðarsama, fullt eins mætti afla hráefna með því að kaupa þau á markaði.

Lenín taldi að tímaskeiði markaðskipta væri lokið og þetta því vond tillaga (Lenín 1961: 108).

Nú kann einhver að spyrja hvort Frakkar og Bretar hafi ekki skipt á milli sín þýskum nýlendum og yfirráðasvæði Tyrkjasoldáns eftir fyrra stríð. Sýnir það ekki að uppskiptaþáttur hafi verið í þeirri styrjöld?

Mitt svar er að hafi uppskipti verið aðalatriði þessa stríðs þá hefðu Frakkar og Bretar farið í stríð við hvor aðra þar eð þeir réðu miklum nýlendum. Eftir litlu var að slægjast hjá Þjóðverjum sem áttu fáar og smáar nýlendur.

En kannski var uppskiptalöngun hreyfiafl Þjóðverja í stríðinu, kannski vildu þeir fjölga nýlendum sínum. Þannig gæti hafa verið uppskiptaþáttur í stríðinu en sönnunarbyrðin hvílir á þeim sem því trúa. 

Kenningar Leníns um heimsvaldastefnuna eru ekki ýkja sannfærandi.

Það  þýðir ekki að allir þeir sem töldu nýlendustefnuna hafa verið af hinu illa  hljóti að hafa á röngu að standa. Þótt margt bendi gegn því  að velsæld Vesturlanda byggi  á nýlenduarðráni þá var nýlendustefnan ekkert teboð.

Minnast má skelfilegrar meðferðar Belga á Kongóbúum, Frakka á Haítímönnum o.s.frv.

Að ógleymdu þrælasölunni miklu sem kostaði milljónir Afríkumanna líf og frelsi (en Vesturlönd áttu ekki einkarétt á þrælabúskap, ríki múslima voru drjúg á því sviði, þrælkuði bæði Afríkumenn og Evrópumenn í milljónatali).

Nýlenduherrarnir komu víða á einrækt, þ.e. landbúnaðarkerfi þar sem aðeins ein jurt er ræktuð að ráði, t.d. baðmull eða gúmmítré.

Þessi einrækt skapar enn vandkvæði víða í þriðja heiminum.

Um leið græddu allmargir þriðjaheimsbúar á uppfinningasemi Vesturlandabúa, t.d. á uppfinningu bensínvélanna sem gerði olíu að mjög dýrmætu hráefni. Einnig var lagning járnbrauta á Indlandi heimamönnum líklega til hagsbóta.

„Drottinn gaf og Drottinn tók“.

 

                     Lokaorð

 

Einhver spekingur sagði að Lenín hefði verið fallöxi sem hugsaði. Orð að sönnu.

 

Heimildir:

Encyclopedia Britannica: “Constituent Assembly”. Sótt 21/1 2023 á https://www.britannica.com/topic/assembly-government

Ferguson, Niall 2003: Empire. How Britain Made the Modern World. Harmondsworth: Penguin.

Gulag Online. Sótt 21/1 2023 á https://gulag.online/articles/historie-gulagu?locale=en

Lenín, Vladimír Iljits 1970: Hvað ber að gera? (þýð. Ásgrímur Albertsson). Reykjavík: Heimskringla.

Lenín, Vladimir Iljits. 1917. “Can the Bolsheviks retain State Power?”, Marxist Archive. Sótt 1/4 2020 á marxists.org/archive/lenin/works/1917/oct/01.htm.

Lenín, Vladimír Iljits. 1961. Heimsvaldastefnan. Hæsta stig auðvaldsins (Þýðandi Eyjólfur R. Árnason). Reykjavík: Mál og menning/Heimskringla.

Nordin, Svante 2014: Filosofene. Vesterlandsk tenkning siden 1900 (þýðandi Lars Nygaard).  Oslo: Dreyer.

Schumpeter, Joseph  1976:  Capitalism, Socialism, and Democracy. London: Allen & Unwin. Company. 

Trotskí, Lev 1967: „Klassens førstefødselsrett“ (þýð. óþekktur),  Jens A. Christophersen (ritstj.) Bolsjevikrevolusjonen 1917. Ósló: Pax forlag, bls. 62–65.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband