13.10.2008 | 11:35
RÚLLANDI STEINN STEINARR (100 ára afmæli í dag!)
Var það ekki blúsarinn Muddy Waters sem kyrjaði it never grows moss on a rolling stone? Úr þessum texta sóttu Rolling Stones nafnið en rolling stone þýðir flökkumaður. Steinn Steinarr átti kannski ekki mikið sameiginlegt með Rollingunum, samdi alltént betri texta en Jagger. En Steinn var örugglega flökkumaður, jafnvel flóttamaður.
Löngu látinn vinur Steins sagði mér að Steinn hafi verið fluggáfaður en enginn eljumaður. Hann hafi ekki nennt að lesa mikið en átt ótrúlega gott með að tileinka sér inntak bóka með hraðlestri, stiklandi á stóru í þeim. Hann hafi vart kynnt sér tilvistarspeki að neinu ráði en margir telja að kveðskapur hans einkennist af þeirri speki. En þótt hann hafi ekki kafað í existeníalisma gæti hann hafa haft sömu lífskennd og fylgjendur hennar. Reyndar er bölsýni hans lík þeirri bölsýni sem margir töldu ranglega vera einkenni tilvistarspeki. En allir helstu forkólfar speki þessarar lögðu áherslu á vonina. Søren Kierkegaard taldi kristnina von mannkynsins og að angistin gæti sýnt okkur að viljinn sé frjáls, við erum ekki þrælar erfða og aðstæðna. Undir það tóku Martin Heidegger og Jean-Paul Sartre en slepptu kristninni. Heidegger taldi að við gætum ljáð lífinu merkingu með því að horfast augu við dauðann, sjá að ævin er takmörkuð og því er sérhvert augnablik verðmætt. Ég man ekki til þess að hafa séð þessi bros gegnum tárin hjá Steini en kannski misminnir mig.
En hvað um kveðskap hans? Satt best að segja finnst mér hann afar misjafn. Tíminn og vatnið er snjöll skissa en eins og vanti herslumunin á það verði fullburða kvæði. Stundum er Steinn ofurljós, sérstaklega í gömlu kommakvæðunum og í hinu andkommúníska Kremlarkvæði. Bestur er Steinn annars vegar í látlausum kvæðum, hins vegar í hinum myrku, írónískum ljóðum. Meðal þeirra látlausu er Barn, einfalt kvæði gætt miklum þokka. Meðal hinna írónísku er Að sigra heiminn en þar segir Að sigra heiminn er eins og að spila á spil.... Var sú ekki einmitt hugmynd útrásarmanna? Alla vega hrundu spilaborgir þessara heimssigurvegara.
Allar vildu meyjarnar eiga hann, íhöld, kommar og existensíalistar. Íhaldið froðufelldi af hrifningu yfir Kremlarkvæðinu og töldu hann eftir það sinn mann. En Steinn var engra, hvað það varðar var hann sannur existensíalisti. Hann komst fljótlega upp á kant við kommana, virðist einna helst hafa átt athvarf hjá krötum. Að minni hyggju var hann pólitískur efahyggjumaður eins og ég og í mörgu hliðhollur því sem ég hef kallað harða miðju. Rétt eins og ég var hann gagnrýnininn þjóðernissinni, óhræddur við að gagnrýna þjóðina, vanda um fyrir henni vegna ástar á henni. Svo orti Steinn:
Sjá hér er minn staður, mitt líf og mitt lán
og ég lýt þér, mín ætt og mín þjóð.
Ó, þú skrínlagða heimska og skrautklædda smán
mín skömm og mín tár og mitt blóð.
Heimskan skrautklædda var víst að spila á spil...
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.