FINNLANDÍSERINGU, TAKK!

 

Finnar urðu að taka heldur hressilega tillit til sovéskra sjónarmiða á kaldastríðsárunum og var þróun í þá átt kölluð "Finnlandisering". Nú vilja íslenskir pótintátar ólmir feta í fótspor hins tæknivædda Finnlands Nókíusímans, gæða skólans og hinna háu skatta. Þetta er mér reyndar mikið gleðiefni, Finnar fylgja gætinni, traustri miðjustefnu, forðast frjálshyggjuöfga og róttæknisvillur. Og ég spyr "Suomi-Ísland óskalandið hvenær kemur þú?"

P.S. Tilraunir íslenskra businestossa til að stæla Kanana hefur leitt til ófarnaðar, reyndar gildir það sama um tilraun Kana til að stæla sjálfa sig. Kannski þeir geti líka lært af


KREPPU-ÍSLAND ÁRIÐ 2018

 

Útigangsmenn hafast við í rústum Kringlunnar, berjast við rotturnar um bitana. Vindurinn feykir gömlu rusli á götunum, malbikið sprungið. Málningin flögnuð af á flestum húsum, hlerar fyrir gluggum, mörg húsanna að hruni kominn. Ryðguð bílhræ víða, fáir á ferli, einstaka tíu ára gamall skrjóður skröltir um göturnar.

Ferðalangur vindur sér  að stafkerlingu  sem staulast áfram á því sem einu sinni var gangstétt. Hann spyr: "Hvar er allt unga fólkið?" Sú gamla svarar: "O ætli það sé ekki flutt til útlanda, margir hafa víst fengið fína vinnu í Póllandi. Eða var það Lettlandi?".


GEIR ÁGÚSTSSON OG KREPPAN ÓGURLEGA

 
  • Halldór Laxness sagði eitt sinn að kommúnistar væru feykilegir besserwisserar, þeir héldu sig alvitra. Slíkt hið sama gildir um frjálshyggjumenn, rétt eins og kommúnistar tala þeir við fólk í kennaratóni. Þetta sést í nýlegu bloggi þess annars ágæta frjálshyggjumanns Geirs Ágústssonar.  Hann talar niður til nóbelshagfræðingsins  Paul Krugmans og kennir honum hagfræði. Krugman greyið hafi ekki skilið að orsök kreppunnar sé einokun ríkisins á peningaprentun. Verði hún gefin frjáls munu slíkar kreppur hverfa eins og dögg fyrir sólu. Þessi kenning er reyndar ættuð frá hinum svokallaða austurríska skóla í hagfræði en hann hafði m.a. sér til ágætis að gefa skít í öll reynslurök. Einn helsti forsprakki skólans, Ludwig von Mises, sagði að skilja mætti hagkerfið með því einu að velti því fyrir sér hvernig skynsamur maður myndi hegða sér við skilyrði frjálss markaðar, ekki þyrfti að rannsaka raunverulegt atferli manna. Að svo miklu leyti sem kenningar skólans eru prófanlegar þá fæ ég ekki annað séð en að kenningin um peningaeinokun sé röng. Það urðu stórfelldar fjármagnskreppur í Bandaríkjunum áður en Seðlabankinn þar tók sér einkarétt á prentun peninga. Og hvernig hafa frjálshyggjumenn eins og Geir hugsað sér að skýra þá staðreynd að eina kreppulausa skeiðið í sögu kapítalismans var ríkisafskiptaskeiðið mikla á fyrstu áratugunum eftir stríð?
  •      Winston Churchill sagði réttilega að sá sem ekki er kommúnisti tvítugur hefur ekkert hjarta, sá sem enn er kommi þrítugur hefur engan heila. Ég bæti við: Sá sem ekki er frjálshyggjumaður tvítugur hefur hvorki hjarta né heila, sá sem enn er frjálshyggjumaður þrítugur er líklega á launum hjá auðvaldinu.

EYMD BJARTSÝNINNAR

 

Paul Krugman, nýbakaður nóbelshafi í hagfræði, segir að ofurbjartsýni Bandaríkjamanna sé ein af ástæðunum fyrir efnahagsörðugleikum þeirra. Könum sé kennt í æsku að þeir muni meika það á endanum, alt batni æ. Þess vegna séu þeir óhræddir við að taka lán til að fjármagna neyslu sína. Þessar lántökur hafi skaddað  ameríska efnahaginn og sé ein helsta ástæðan fyrir því að landið sé skuldum vafið (þetta sagði hann löngu áður en bankahrunið mikla varð!).

Lítið land norður við Dumbshaf hefur verið kölluð "litla Ameríka", ég kalla það "fimmtugastaogfyrsta ríkið". Eyjarskeggjar námu ofurbjartsýna af sínum amerísku guðum, voru handvissir um að í himnalagi væri að  skuldsetja sig upp yfir haus. Landið fór á hausinn fyrir vikið.


KRUGMAN FÉKK HAGFRÆÐINÓBELINN

Rétt í þessu bárust þær fréttir að einn minna uppáhaldshagfræðinga, Paul Krugman,hefði fengið nóbelsverðlaunin. Hann meðal þeirra sem blásið hafa nýju lífi í kenningar Keynes en þær eru eitur í beinum frjálshyggjumanna. Enda er Krugman lítill unnandi frjálshyggju og segir að ríkisstjórnir hafi gefist upp á því beita peningamagnskenningum Friedmans. Þær reyndust illa. Hann segir eins og fjöldi fræðimanna að meiri hagvöxtur hafi verið í Bandaríkjunum á ríkis-"afskipta"-skeiðinu 1945-1980 en á frjálshyggjuskeiðinu eftir 1980. Til að gera illt verra hafi tekjur meðalmanna á unna klukkustund minnkað meðan hinir ríku hafa grætt á tá og fingri. Svona talar einn helsti hagfræðingur heimsins á meðan starfssystkini hans á Íslandi liggja flöt fyrir Friedman. PS Lysthafendur geta lesið langan ritdóm minn um bók Krugmans The Conscience of a Liberal í tímaritinu Herðubreið.
mbl.is Krugman fékk Nóbelsverðlaun í hagfræði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

RÚLLANDI STEINN STEINARR (100 ára afmæli í dag!)


Var það ekki blúsarinn Muddy Waters sem kyrjaði “it never grows moss on a rolling stone”? Úr þessum texta sóttu Rolling Stones nafnið en “rolling stone” þýðir “flökkumaður”. Steinn Steinarr átti kannski ekki mikið sameiginlegt með Rollingunum, samdi alltént betri texta en Jagger. En Steinn var örugglega flökkumaður, jafnvel flóttamaður.
Löngu látinn vinur Steins sagði mér að Steinn hafi verið fluggáfaður en enginn eljumaður. Hann hafi ekki nennt að lesa mikið en átt ótrúlega gott með að tileinka sér inntak bóka með hraðlestri, stiklandi á stóru í þeim. Hann hafi vart kynnt sér tilvistarspeki að neinu ráði en margir telja að kveðskapur hans einkennist af þeirri speki. En þótt hann hafi ekki kafað í existeníalisma gæti hann hafa haft sömu lífskennd og fylgjendur hennar. Reyndar er bölsýni hans lík þeirri bölsýni sem margir töldu ranglega vera einkenni tilvistarspeki. En allir helstu forkólfar speki þessarar lögðu áherslu á vonina. Søren Kierkegaard taldi kristnina von mannkynsins og að angistin gæti sýnt okkur að viljinn sé frjáls, við erum ekki þrælar erfða og aðstæðna. Undir það tóku Martin Heidegger og Jean-Paul Sartre en slepptu kristninni. Heidegger taldi að við gætum ljáð lífinu merkingu með því að horfast augu við dauðann, sjá að ævin er takmörkuð og því er sérhvert augnablik verðmætt. Ég man ekki til þess að hafa séð þessi bros gegnum tárin hjá Steini en kannski misminnir mig.
En hvað um kveðskap hans? Satt best að segja finnst mér hann afar misjafn. Tíminn og vatnið er snjöll skissa en eins og vanti herslumunin á það verði fullburða kvæði. Stundum er Steinn ofurljós, sérstaklega í gömlu kommakvæðunum og í hinu andkommúníska Kremlarkvæði. Bestur er Steinn annars vegar í látlausum kvæðum, hins vegar í hinum myrku, írónískum ljóðum. Meðal þeirra látlausu er Barn, einfalt kvæði gætt miklum þokka. Meðal hinna írónísku er “Að sigra heiminn” en þar segir “Að sigra heiminn er eins og að spila á spil...”. Var sú ekki einmitt hugmynd útrásarmanna? Alla vega hrundu spilaborgir þessara heimssigurvegara.
“Allar vildu meyjarnar eiga hann”, íhöld, kommar og existensíalistar. Íhaldið froðufelldi af hrifningu yfir Kremlarkvæðinu og töldu hann eftir það sinn mann. En Steinn var engra, hvað það varðar var hann sannur existensíalisti. Hann komst fljótlega upp á kant við kommana, virðist einna helst hafa átt athvarf hjá krötum. Að minni hyggju var hann pólitískur efahyggjumaður eins og ég og í mörgu hliðhollur því sem ég hef kallað “harða miðju”. Rétt eins og ég var hann gagnrýnininn þjóðernissinni, óhræddur við að gagnrýna þjóðina, vanda um fyrir henni vegna ástar á henni. Svo orti Steinn:

“Sjá hér er minn staður, mitt líf og mitt lán
og ég lýt þér, mín ætt og mín þjóð.
Ó, þú skrínlagða heimska og skrautklædda smán
mín skömm og mín tár og mitt blóð.”

Heimskan skrautklædda var víst að spila á spil...


Að kóa með kapítalistum

Veffari segir réttilega að frjálshyggjumenn reyni nú að koma sök kreppunnar á Davíð Oddsson. Sumir virðast vera í Friedmansleik en Milton Friedman skellti skuldinni af kreppunni 1929 á ameríska seðlabankann. Ekk fylgir sögunni hverjum hann taldi hrunin miklu á árunum fyrir 1912 vera að kenna. Þá var enginn seðlabanki vestra og fjármagsmarkaðurinn öldunigis "frjáls". Samt (?) urðu hrikaleg efnahagshrun hvað eftir annað. En svo leiðis lagað hafði enginn áhrif á Friedman, hann hefur örugglega æst sig upp í að trúa að allt væri ríkinu að kenna, frjálshyggjumenn gefa sér fyrirfram að svo sé.
"Ekki benda á mig, segir varðstjórinn...", söng Bubbi, "ekki benda á mig og ekki benda á hið heilaga útrásarauðvald, segir hinn ofstækisfulli frjálshyggjumaður". Hann kóar með kapítalistunum eins og alltof margir Íslendingar. Áður þjáðust þeir af ríkisdýrkun, ríkið átti öllu að redda, nú þjást þeir af ríkradýrkun, hinir ríku bjarga öllu. En það er von til þess að landin nái áttum, hætti að dýrka þá ríku líka. Mitt boðorð: Dýrkum sem fæst og tökum undir með Bob Dylan er hann kyrjar "Don't follow leaders, watch parking meters".

"AFREK" ÚTRÁSARAUÐVALDSINS

Hugrakkir breskir flugmenn björguðu Bretlandi frá innrás Þjóðverja. Churchill sagði "aldrei hafa jafn margir átt eins fáum jafnmikið að þakka".
Óráðvendni og óráðsíða fáeinna stórkapítalista hefur komið Íslandi á hausinn. Aldrei hafa jafn fáir gert jafn mörgum jafn mikið mein.

KÁLFAR Í BANKALÍKI

Eftir einka(vina)væðinguna voru bankarnir eins og kálfar á vordegi. En eins og öðrum kálfum var þeim slátrað þegar haustaði.
Kálfar eru einkar heimskar skepnur.

MÁLSÓKN GEGN BANKALIÐINU?

Þeir sem nú eiga um sárt að binda vegna fjárglæfrastefnu útrásarbankanna ættu að athuga þann möguleika að fara í mál við busine$$tossana sen eyðilagt hafa íslenskt efnahagslíf með fáránlegri amerískri ofurbjartsýni. Þetta lið hefur sitt á þurru, er flúið og flogið úr landi með töskur fullar af gulli. En þeir geta ekki flúið undan réttvísinni, vel má lögsækja kvikindin og hafa af þeim þýfið. Stund hefndarinnar mun renna upp.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband