Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
30.11.2008 | 15:34
KREPPULÚÐI, GRÝLA OG NÝJÓLASVEINARNIR
Það gerðist hér á dögunum að hún Grýla gamla skildi við hann Leppalúða og giftist honum Kreppulúða. Áttu þau saman 9 syni í einum grænum hvelli og stukku þeir alskapaðir út úr höfði Grýlu (var hún ekki kölluð Útrás þegar hún var ung og fögur?). Synirnir eru nefndir "nýjólasveinar" og hafa tekið við störfum hinna fyrri jólasveina. Einn nefnist Lánasníkir og verður sendur til höfuðstöðva IMF, gott ef ekki til Rússlands líka. Annar nefnist Auðvaldssleikir og gengur honum illa að finna auðvaldið, það er víst stokkið úr landi með útrásargullið. Sá þriðji heitir Gáttaði Þefur og er hann algerlega gáttaður á hinum póltitíska og efnahagslega ódaun sem fyllir vit landsmanna. Hinir sex eru víst óskírðir enn og má gera ráð fyrir fréttum um nöfn þeirra innan tíðar. Mun ég blogga um þau þegar þar að kemur.
29.11.2008 | 09:18
ÚTIFUNDUR Í BOÐI FJÁRGLÆFRAMANNA?
Á útifundinum í dag á að krefjast kosninga, afsagnar Seðlabankastjórnar o.s.frv. En eins og venjulega sleppa fjárglæframennirinir við gagnrýni, hinir frjálshyggnu Íslendingar vilja ekki skilja ábyrgð þessara manna á ástandinu. Einkaframtakið er heilagt, halelúja! Það fylgir sögunni að norska ríkissjónvarpið sagði að Jón Ásgeir skuldaði þúsund miljarða króna, skuld sem nú fellur á skattgreiðendur. En hann er náttúrulega saklaus, samanber það að mótmælandi nokkur hafði Bónusfánann með sér er hann klifraði upp á þak Alþingishússins. "Die Fahne hoch..." sungu nasistar, "dragið fánann að húni".
![]() |
Útifundur á Austurvelli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.11.2008 | 12:29
EYKUR MARKAÐSFRELSI HAGVÖXT? Um efasemdir Dani Rodrik.
Á Íslandi veit maður hvað það er voðalega satt að markaðsfrelsi orsaki hagvöxt. Enda mega íslenskir álitshafar vart ljúka sundur munni án þess að boða þennan dásamlega sannleika. Til dæmis vegsömuðu þeir Hannes Gissurarson og Birgir Tjörvi Pétursson rannsóknir William Easterlys og samstarfsmanna hans sem áttu að sýna að því frjálsari sem markaðurinn væri, því meiri væri hagvöxturinn. En hinn frægi hagfræðingur Dani Rodrik komst að annarri niðurstöðu. Hann dró þær ályktanir af hagsögulegum rannsóknum sínum að ekkert samband væri milli tollfrelsis og hagvaxtar. Svo gerði hann úttekt á þeim rannsóknum sem áttu að sýna að meiri hagvöxtur væri í opnum hagkerfum en öðrum. Niðurstaða hans var sú að svo miklar veilur væru á þeim mælingaraðferðum sem notaðar voru í þessum rannsóknum að ekkert væri að marka niðurstöður þeirra.
Hvorum eigum við að trúa, Rodrik eða Easterly? Sá síðarnefndi gerði rannsóknina á vegum frjálshyggjuáróðursstofnunarinnar Fraser Institute, Roderik er prófessor við Harvard. Líklegt er að Fraserstofnunin þrýsti á um að niðurstöður rannsóknanna verði frjálshyggjunni í vil, ráðamenn á Harvard hafa ekki slíkra hagsmuna að gæta. Því treysti ég Rodrik betur þar til annað sannarra reynist.
26.11.2008 | 11:31
NORSKA RÍKISSJÓNVARPIÐ UM JÓN ÁSGEIR
Í gær var sýndur stuttur þáttur í norska ríkissjónvarpinu um "afrek" Jóns Ásgeirs og hann sagður skulda eitt þúsund miljarða króna. Viðtal var við Jón Gerald Sullenberger sem staðhæfði að Hringadrottinn hafi stefnt fjölda auðherra til Miami árið 1999 og þar lagt drögin að yfirtöku bankakerfisins innan frá. Á heimasíðu ríkissjónvarpsins birtist svo yfirlýsing Jóns Ásgeirs þar sem hann sagði þáttinn gera Davíð Oddson og félaga að sannleiksvitni. Það er nokkuð til í því, í þættinum var talað eins og Jón Ásgeir hefði nánast keypt sig lausan úr skattsvikamálinu. Hann hafi getað notað margfalt meira fé við vörn sína en ákæruvaldið hafði undir höndum. Það er grábölvað og sýnir auðvaldsmennsku útrásarinnar en það breytir engu um þá staðreynd að margt bendir til þess að skattamálið hafi verið blásið upp af Davíð. Hann notaði sömu brellur og Pútin þegar hann felldi Kodorovskí með meira eða minna lognum skattsvikaákærum. Ofurveldi Jóns Ásgeirs og útrásarherranna var einnig til umræðu og sagði fyrrum ritstjóri Séð og heyrt ekki farir sýnar sléttar, Hann hafi verið rekinn þegar nýir eigendur tóku blaðið yfir en þeim þótti hann ekki nógu fylgispakur Jón Ásgeiri. Sá herramaður lét á sínum tíma reka sjónvarpsfréttamann sem neitaði að fylgja fyrirskipunum hans um að skattamál hans yrðu ekki rædd í fréttum. En þessi svívirðilega framkoma gerir þátt Davíðs ekki hætishót betri. Í þættinum býsnaðist Óli Björn Kárason yfir yfirgangi Jóns Ásgeirs. En ef lýsingarnar í grein í Tímariti máls og menningar á ritsjórnarferli Óla Björns á DV eru réttar er hann kannski ekki rétti maðurinn til að hneykslast á öðrum. Í þeirri grein var staðhæft að auðmenn tengdir Davíð hafi þá tekið DV yfir og meðhöndlað blaðamennina eins og skepnur. Þeir tóku líka Dag yfir og lögðu niður að bragði. Mín spurning er: Var það fjandsamlega yfirtaka, var ekki hægt að bjarga Degi frá gjaldþroti? Eða vildi þetta hyski ekki eina vinstrablaðið á Íslandi feigt? Kannski þetta fólk eigi meira sameiginlegt með Hringadrottni en það vill viðurkenna.
25.11.2008 | 16:56
VARNARRÆÐUR SÓKRATESAR OG DAVÍÐS
Ekki verður af Davíð Oddsyni skafið að hann er mælskur vel og ágætlega skrifandi, það kemur klárlega fram í Varnarræðu hans hjá Verslunar(ó)ráði. Heimspekingurinn Sókrates var ekki síður mælskur, það kom klárlega fram í Varnarræðu hans hjá þingi Aþeninga. Báðir eru með storminn í fangið, einir á móti næstum öllum. Og þó, Platon stóð með Sókratesi, Hannes með Davíð! Báðir eru einkar staðfastir, hvika hvergi. Sókrates gekk heldur í dauðann en að hvika frá sannfæringu sinni, líklega verður að bera Davíð með tærnar upp úr úr Seðlabankanum.
24.11.2008 | 15:47
WILLOCH UM HEIMSKREPPUNA
Íslenskir hægrimenn róa lífróður og telja sér trú um að ríkið eiga alla sök á heimskreppunni. En hægrimaðurinn og fyrrum forsætisætisráðherra Noregs Kåre Willoch rær með öðrum hætti. Hann segir að þótt ríkið ameríska eigi allnokkra sök á undirmálslánunum þá sé það aðeins lítill hluti vandans. Aðalorsakavaldurinn sé stjórnleysi hins alþjóðlega fjármagnsmarkaðar. Þetta stjórnleysi olli því að sum fjármagnsfyrirtækin juku útlán sín sem nam þrítugföldu eigin fjármagni. Það þýddi að þau gátu ekki þolað nema fárra prósenta tap á útlánum sínum án þess að allt eigin fjármagn þeirra tapaðist. Auk þess gátu fyrirtækin flutt stóran hluta af starfsemi sinni til stjórnlausa geira viðskiptalífsins, hinum alþjóðlega geira, handan alls ríkisvalds. Vegna þess varð kreppan fljótlega hnattræn. Það fylgir sögunni að Willoch skrifaði prýðilega grein um aldamótin þar sem hann varaði við stjórnleysi fjármagnsins og benti á kreppuhættur af þess völdum. Hann er á svipaðri línu og þeir George Soros og Daniel Korten sem áður hafa komið við sögur minna blogga. Alla vega gætu kreddu-hægrimenn Íslands lært ýmislegt af þessum aldna vitringi.
22.11.2008 | 10:08
EMG, GSE, HHG, ASÍ. Til varnar verkaýðshreyfingunni
Fyrir nokkru skrifaði Einar Már Guðmundsson einkar ástríðufulla grein í Lesbók þar sem hann sagði að ungmenni héldu að ASÍ væri ferðaskrifstofa. Svo lítill hefur vegur verkalýðshreyfingarinnar verið á frjálshyggjuöld. Frjálshyggjumenn mega vart ljúka sundur munni án þess að syngja sönginn um að verkalýðshreyfingin sé einungis til óþurftar. Til dæmis "upplýsti" Gunnar Smári Egilsson alþjóð eitt sinn um að Hagkaup hefði bætt kjör launamanna meir en verkalýðshreyfingin og bergmálar hér Hannes H. Gissurarson (Gunnar þessum Smára finnst gaman að bergmála, eitt sinn bergmálaði hann Vilmund Gylfason í Helgarpóstsgrein og er sagður bergmála ónefnda auðmenn í dag). Téður Hannes sagði í ritdeilu að frjálshyggjustjórnin í Nýja Sjálandi hefði aukið frelsi verkamanna með því að gera vinnusamninga að einkamáli einstaklinga, gera verkalýðshreyfinguna áhrifalausa. En hinn velþekkti stjórnspekingur John Gray bendir á að þessi skipan mála hafi leitt til þess að til varð ný, örfátæk undirstétt í Nýja Sjálandi. Samkvæmt mínum hugmyndum um frelsi er hér á ferðinni frelsissvipting (ég tel skilgreiningar frjálshyggjumanna á frelsi rangar eins og kemur fram í bók minni Ástarspekt). Nefna má að bandaríska fræðikonan Barbara Ehrenreich brá sér í líki verkakonu eitt ár og komst að þeirri niðurstöðu að fátækt verkafólk vestra sé orðið hálfgildings þrælar almáttugra atvinnurekenda. Launin eru skömmtuð úr hnefa og starfsfólki sagt upp fyrir minnstu yfirsjónir. Þess séu jafnvel dæmi að menn í fullri vinnu eigi hvergi höfði sínu að halla, sofi á götunni. Fyrirtæki eins og Wal-Mart vill ekki sjá meðlimi verkalýðsfélaga í sínum starfsmannahóp og meðhöndlar búðarlokurnar eins og þræla. Þær eru oft neyddar til að vinna yfirvinnu kauplaust. Ekki ástandið skárra hjá ræstifyrirtækum, sum þeirra banna starfsfólki sínu að neyta vökva meðan það púlar. Ástæðurnar fyrir þessari bágu stöðu láglaunafólks eru margar. Ein er stórminnkuð áhrif verkalýðsfélaganna enda hafi ríkisstjórn Bush barist með ráðum og dáðum gegn verkalýðsfélögum í McStarfsgreinum með hræðilegum afleiðingum fyrir fátækt verkafólk.
Hinn nýbakaði nóbelshagfræðingur Paul Krugman segir að efling verkalýðshreyfingarinnar ein helsta ástæðan fyrir velgengni erfiðisvinnumanna (blue-collar workers) á tímabilinu 1933-1980. Ástæðan fyrir lækkandi hlutfalli verkalýðsfélagsmeðlimi meðal verksmiðjuverkafólks er pólitísk, gagnsókn hægrimanna gegn nýju gjöfinni (New Deal) og hennar afleiðingum. Sú gagnsókn birtist m.a. í þeirri staðreynd að á áttunda og níunda áratugnum var tuttugusta hver verkamaður vestanhafs rekinn með ólöglegum hætti fyrir að vera í verkalýðsfélagi. Krugman bendir líka á að tekjumunur hafi ekki aukist nándar nær eins mikið í Kanada og í Bandaríkjunum. Skýringanna sé ekki síst að leita í þeirri staðreynd að stéttarfélögin standa miklu sterkar í Kanada en í Bandaríkjunum.
Kanavinir á Íslandi mættu íhuga þessar stðareyndir, yrði landið 51 ríkið má búast við því að ástandið yrði svipað og í hinum 50 ríkjunum. Hvað um það, svo nefnt frelsi einstaklinga til samninga við atvinnurekendur hafa gert fátæka nýsjálendinga að undirstétt, "frelsi" þetta dregur úr heildarfrelsi þeirra. Hið sama gildir um bandarískt verkafólk. Ég vara ykkur við, verði ekkert að gert mun hið sama gerast á Íslandi.
Bækur sem stuðst er við:
Barbara Ehrenreich (2001): Nickled and Dimed. How (not) to get by in America
Paul Krugman (2007): The Conscience of a Liberal.
20.11.2008 | 10:59
TÖPUÐU VÍETNAMSTRÍÐINU. Um "afrek" íslenskra skákmanna.
Eihvern tímann hefði það þótt saga til næsta bæjar að Íslendingar töpuðu 1-3 fyrir Víetnömum á skákolympíuleikum. En það fyrir daga útrásarinnar, stórlega dró úr skákáhuga á Íslandi á útrásarskeiðinu enda skák ekki kúl og kötting edsj. Flottu amerísku guðirnir tefla jú varla, þeirra lífstíll er hinn eini sanni lífsstíll. Liðinn er sá tími þegar breski taflmaðurinn Golombek gat skrifað í skáklexíkon sitt að íslenskur skákáhugi væri hluti af þjóðarblóði Íslendinga. Nú stefnir allt í að Norðmaðurinn Magnus Carlsen verði hinn nýi Kasparov/Fischer. Á meðan tapa Íslendingar Víetnamstríði sínu rétt eins og Kanaguðinn forðum.
18.11.2008 | 13:52
EF ÍSLAND GENGI Í BANDARÍKIN
Þá yrði allt svo svaka kú maður. Kaunum slegnir betlarar lægju á torgum og svæfu í pappakössum.Íbúar "the great state of Iceland" yrðu enn feitari og ljótari en í dag. Þeir myndu missa trúnna á þróunarkenninguna og fara að trúa á Biblíuna (veitir nokkuð af trúarvakningu?). Þeir myndu losa sig við landafræðiþekkingu og halda að Afríka sé land eins og Sarah Palin. Biblían segir jú að sá sem auki þekkingu sína auk sorgir sínar líka, þá hljóta menn að verða því lífsglaðari því meiri þekkingu sem þeir losa sig við.
Í fullri alvöru: Landið (fylkið) yrði skotmark terrorista, ungbarnadauði yrði á þriðjaheimsstigi eins og hún er í BNA í dag, og heilbrigðisþjónustan versna mjög. Í dag njóta bestu heilsugæslu í heimi, sú ameríska er í 36da sæti. Þarf að segja meira? Jú gera yrði Íslendinga enskumælandi sem myndi kosta offjár. Það þyrfti að að þýða lög og lagasetningar, öll opinber skjöl, og skjöl einkafyrirtækja á ensku, nota stórfé til að kenna öllu hyskinu skammlausa ensku, breyta um öll götuheiti og örnefni. Það myndi þýða að allar götur yrðu að fá ný götuskilti. Svo yrði kínverska kannski alþjóðamál og allt unnið fyrir gýg. Þess utan hefur BNA verið að hnigna efnahagslega síðan 1973, meira um það síðar. Franski fræðimaðurinn Emmanuel Todd sem sá fall Sovétríkjanna fyrir sagði í fyrra að innan tíðar myndu Kanar þurfa að sætta sig við 10-15 % lakari lífskjör. Allt kvakið í kanavinum um að Kanar muni ná sér fljótlega af kreppunni er hlægilegt, nánar um það síðar.
17.11.2008 | 13:33
FRÆÐIMENN UM HEIMSKREPPUNA
Á Íslandi er mönnum kennt að allir fínu hagfræðingarnir í hinum helgu Bandaríkjum séu frjálshyggjumenn. En svo er ekki, til dæmis segir nóbelshagfræðingurinn Paul Samuelsson að kreppan sé frjálshyggjunni að kenna og formælir Friedman. Hinn hári öldungur segist ávallt hafa verið miðjumaður, ég er því í góðum félagsskap.
Frjálshyggjuhagfræðingar á Íslandi og annars staðar "upplýsa" menn um að hinn Keynesinnblásna hagstefna Roosevelts hafi gert kreppuna á fjórða tugnum dýpri en ella. En annað segir hinn nýbakaði nóbelshagfræðingur Paul Krugman. Roosevelt hafi eiginlega aldrei beitt Keynesstefnunni í peningamálum að neinu gagni. Það ætti aftur á móti Obama að gera, pistill Krugmans heitir "Obama Roosevelt".
Í fyrra mun frjálshyggjuhagfræðingurinn Arthur Laffer hafa gist Ísland og tjáð landsmönnum að allt væri í fína lagi með efnahagslífið í BNA og fimmtugastaogfyrstaríkinu, Íslandi. En fræðimenn sem ekki þjást af frjálshyggju hafa bent á hætturnar á meiriháttar hruni, millinn og hugsuðurinn George Soros spáði kreppu í grein sem hann skrifaði árið 1997. Hann sagði að óstjórnin á hinum alþjóðlega fjármagnsmarkaði myndi leiða til alvarlegri kreppu en þeirrar sem Roosvelt kljáðist við. Eina leiðin til að leysa vandann væri alheimsstjórn á fjármagnsstreyminu (hann veit hvað hann syngur, gamli maðurinn, frægur fyrir fjárglæfrastefsemi!) Hinn vinstrisinnaða ATTAC-hreyfing hefur líka varað við hættunum af hinum mjög svo sveiflukennda fjármagnsmarkaði. Hún vill leysa vandann með svonefndum Tobinskatti á slík viðskipti, skatturinn eigi svo að renna til örfátækra landa.
Það fylgir sögunni að þýski heimspekingurinn Jürgen Habermas segir í viðtali við þýska vikuritið Die Zeit að kreppan markaði endalok nýfrjálshyggjunnar. Sennilega er það rétt, burtséð frá því að hún mun tóra á Íslandi vegna þess útsmogna frjálshyggjuáróðurs sem þar hefur verið rekinn um áraraðir.
Þegar Laffer flutti sína mærðarvellu um styrk hinna bandarísku og íslensku hagkerfa spáði franski fræðimaðurinn Emmanuell Todd því að Bandaríkjamenn yrðu innan tíðar að sætta sig við 10-15% lægri tekjur en í dag, ekki gengi endalaust að fjármagna neysluna með lánum eins og Kanar hafa gert um langt skeið. Raunlaun hafa minnkað á undanförnum 30 árum en eins og Krugman segir þola Kanar ekki lakari lífskjör og hafa því hlaðið á sig skuldabyrðum. Þeir þjáist líka af óbilandi bjartsýni, segir Krugman. Þeim er kennt í æsku að þeir muni geta meikað það og halda því að þeir muni geta borgað stórlán í framtíðinni. Kannast einhver við svona imbabjartsýni og bjánagræðgi á ísaköldu landi? Allt er þetta innflutt frá BNA, hernám hugarfarsins hefur ekki bara eyðilagt íslenska menningu heldur efnahagslífið líka. Útrásarbjálfarnir voru belgfullir af frumstæðri amerískri ofurbjartsýni og trúðu á amerískar viðskiptahugmyndir. Því fór sem fór.