Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
14.11.2008 | 14:04
ÓLAFUR HINN HELGI ENDURBORINN?
Ólafur nokkur Haraldsson virðist einhvers konar sjókappi sem á í útistöðum við Dani. Hann er í góðum félagsskap við alnafna sinn, Ólaf Noregskonung hinn helga eða digra eins sumir nefndu hann. Hann var víkingur hinn mesti og eru af honum miklar sögur. Þá mestu skráði Snorri Sturluson. Nú geta íslenskir rithöfundar sett saman Ólafs sögu Haraldssonar hina nýju.
![]() |
Lögregla ber sögu Íslendings til baka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.11.2008 | 17:44
KANAMELLUDÓLGAR
Í umræðum um framtíð Íslands heyrast nú raddir (hjáróma að vísu) um að Ísland ætti að ganga í BNA. En kanamelludólgarnir virðast ekki einu sinni vita að BNA er ekki í því að taka við nýjum ríkjum, ólíkt ESB sem er allt önnur Ella, ríkjasamband fullvalda ríkja, ekki land eins og BNA. Eiunhvern tímann hefðu skrif kanamelludólganna flokkast undir landráð en því er ekki lengur að heilsa eftir tíu ára útrásarfimbulfamb og hrikalega ameríkaniseringu. Auk þess er mynd BNA fegruð all hressilega í hinum hægrisinnuðu íslensku fjölmiðlum. Nánar um það síðar.
13.11.2008 | 11:57
Kap-ANON, félagsskapur meðvirkra aðstandenda kapítalista
Hér með tilkynnist stofnun Kap-ANON, félagsskaps meðvirkra aðstandenda kapítalista. Meðvirkni birtist meðal annars í viljaleysi til að horfast í augu við staðreyndir, t.d. þá staðreynd að Hringadrottinn og Bjargvargarnir einoka nú blaðamarkaðinn, Moggi og Fréttablað eru gengin í eina auðvaldssæng. Hinir meðvirku neita að horfast í augu við þá staðreynd að fokríkir fjárglæframenn eyðilögðu íslenskan efnahag, í stað þess er klifað á vonsku Davíðs, krónunnar og tilfinnanlegum skorti á ESB-aðild. Auk þess birtist meðvirknin í beinni aðstoð við einkafyrirtæki, t.d. þegar tugþúsundir manna skrifa undir áskorun um að hrekja RÚV af auglýsingamarkaðnum svo Skjár einn geti fengið að drekka í friði, ég meina svo Skjár einn fari ekki á hausinn.
Líklega þyrfti að smala stórum hluta þjóðarinnar á Kap-ANON fundi.
13.11.2008 | 10:01
AÐ KÓA MEÐ KAPÍTALISTUM. Skjár einn, RÚV og auglýsingamarkaðurinn
Þótt fjárglæframenn hafi komið Klakanum á kaldann klaka halda hinir frjálshyggjnu Íslendingar áfram með að kóa með kapítalistunum. Nú hafa þrjátíu til fjörutíu þúsund manns skrifað undir áskorun þess efnis að RÚV hypji sig af auglýsingamarkaðnum. Illar tungur segja að þetta stafi af samúð með Sjá einum. Sjálfur hef ég óþökk á þeirri sjónvarpsstöð, m.a. vegna þess að henni tókst að útrýma orðinu "piparsveinn" úr málinu, það var svo kúl að kalla piparsveinaþáttinn "íslenska bachelorinn". Aðspurður sagði talsmaður stöðvarinnar að piparsveinn væri svona gæi sem vildi ekki giftast. Nú má ætla að fólk af þessu tagi opni ekki bók en í orðabókum er piparsveinn einfaldlega skilgreindur sem "ógiftur maður".
Kapítalistarnir láta sér ekki nægja að eyðileggja efnahaginn, þeir vilja líka eyðilegga tungumálið. Enda finnst þeim íslenska ekki nógu kúl, fyrirtækin sem rústuðu íslenska efnahaginn notuðu ensku sem vinnumál. Þeir sögðu að enskan væri svo arðvænlega. Voðalega var það satt.
12.11.2008 | 18:31
SEKTARLAMB Í SEÐLABANKANUM
Davíð er lambið sem ber syndir landsins. Útrásarkóngarnir eru stikkfrí, stjórnmálamennirnir sem kóuðu með þeim líka. Allt er þessum Belsebúb í bankanum að kenna, sennilega vonda veðrir líka.
7.11.2008 | 11:26
ÚTRÁSARVÆL
Í íslenskum þjóðsögum er talað um útburðarvæl. Konur báru nýfædd börn út og börnin gengu aftur, vældu hátt og skerandi. Fræg er sagan um útburðinn sem koma á ljóra hjá móður sinni og tryllti hana með því að kveða "móðir mín í kví, kví..." Kreppa kerling hefur nú borið útrásina út og er ekki stundarfriður fyrir útrásarvælinu "þetta er ekki okkur að kenna, þetta er Greenspan, Davíð, krónunnni, ESB-leysunni, samverkandi þáttum að kenna".
Mér liggur við sturlun eins og móður útburðarins forðum.
6.11.2008 | 09:39
VÍKJANDI RÍKRADÝRKUN?
Sú var tíðin að Íslendingar voru haldnir ríkisdýrkun af verri gerðinni, ríkið átti að redda öllu. En svo turnuðst þeir til trúar á hina ríku, margir Íslendingar þjást enn af ríkradýrkun, þótt kreppan hafi veikt stoðið þessara trúarbragða. Á velmektardögum útrásarkónganna töldu ríkradýrkendur hina ríku vera heilaga, þeir áttu að bjarga velflestu. Þessi ríkradýrkun kom fram í viðbrögðum frjálshyggjuarms Samfylkingarinnar og Geirsarms Flokksins við nýju ríkisstjórninni. Loksins, loksins, gátu allir orðið ríkir, ekki bara vinir Kolkrabbans!
Eins og gefið var í skyn hefur ríkradýrkun sett ofan vegna kreppunnar. Sumt fólk hefur farið út í hinar öfgarnar, kennt ríkisbubbunum um allt sem miður fór. En enn lifir í glæðum ríkradýrkunnar, ríkradýrkendur skella skuldinni á alla mögulega aðra en hina vellauðugu útrásarkónga, Davíð, krónan og kreppan í BNA eru lömbin sem eiga að bera syndir kónganna vellríku. Davíð vondi hafi ekki verið sannur frjálshyggjumaður og komið veg fyrir að hinn frjálsi markaður sæi til þess að allir gætu orðið ríkir. En ríkradýrkendur skilja ekki að frjálsari markaðshættir auka ekki endilega möguleika meðalmannsins á að verða ríkur. Rannsókn eftir rannsókn bendir til þess að nú sé minni félagslegur hreyfanleiki í Bandaríkjunum, Bretlandi og Nýja Sjálandi en í hinum vondu velferðaríkjum (sé mikill félagslegur hreyfanleiki þá eiga menn auðvelt með að komast áfram í samfélaginu). Þessi þrjú lönd hafa gengið lengra í frjálshyggjuátt en önnur ríki Vesturlanda. En það var meiri félagslegur hreyfanleiki og því minni stéttskipting í þessum löndum fyrir markaðsvæðingu en nú. Fyrir þrjátíu árum, á ríkisafskiptaskeiðinu vestanhafs, var meiri félagslegur hreyfanleiki þar en í Vestur-Evrópu, því er ekki lengur að heilsa. Það var sem sagt auðveldara fyrir meðalmanninn ameríska að efnast þá en nú, nú er auðveldara fyrir borgara í velferðarríkjunum vondu að komast áfram en borgara í frjálshyggju-ríkjunum þremur. Í þessum löndum hafa hinir ríku orðið mun ríkari, um leið hafa tekjur millistéttafólks og hinna fátæku staðið í stað eða minnkað. Nú þénar bandarískur meðaljón minna á unna klukkustund en fyrir þrjátíu árum þrátt fyrir nokkurn hagvöxt. Eftir öllum sólarmerkjum að dæma hefur aukin tekjumunur manna í BNA, Bretlandi og Nýja Sjálandi aukið stéttskiptingu, dregið úr möguleikum manna að príla upp samfélagsstigann, "meika það". Markaðsvæðingin virðist koma í veg fyrir að allir geti orðið ríkir, þannig grefur frjálshyggjan undan sjálfri sér, hún stendur ekki undir nafni fremur en lýðræðislegur sósíalismi.
Aukin stéttskipting þýðir einfaldlega að vald hinna ríku hafi aukist, engin ástæða er til að ætla annað en hið sama muni gerast á Íslandi ef reynt verði að framkvæma draumsjónir frjálshyggjunnar hér. Nú þegar eru auðmenn orðnir feykivoldugir á Fróni, þeir eru með fjölda stjórnmálamanna og álitshafa í rassvasanum og hafa hreðjartök á efnahagslífinu. En ríkradýrkendur skilja ekki að gjalda ber varhug við öllu valdi, auðvald er ekki hætishót betra en ríkisvald (eigum við ekki bara að segja eins og þýskir anarkistar "ekkert vald handa neinum". .
Ríkradýrkendum láta sér kannski fátt um þetta finnast en vekja máls á öðru. Þeir segja kannski að fyrr eða síðar muni allir þéna á auðsöfnun hinna ríka. En nóbelshagfræðinguinn Joseph Stiglitz segir n að molakenning (trickle down theory) frjálshyggjunnar standist ekki. Molakenningarsinnar segja einatt að hinir ríku spari meira en hinir fátæku, sparnaðnanum sé fjárfest og allir hagnist á fjárfestingunum. En í Austur-Asíuríkjunum er mikill sparnaður þótt tekjum sé frekar jafn dreift. Þessi ríki haft reynt að koma í veg fyrir mikinn ójöfnuð og jafnframt auka hagvöxt. Það hefur tekist, hrakspár molakenningarsinna rættust ekki. Auk þess spyr Stiglitz hvernig hyggjast molakenningarsinnar hyggist skýra þá staðreynd að lífskjör almennings versnuðu á blómaskeiði frjálshyggjunnar í Bretlandi Viktóríutímans? Hvers vegna versnuðu kjör hinna verst stæðu vestanhafs á níunda áratug síðustu aldar, áratug mikillar markaðsvæðingar? Molakenningin skýrir þetta ekki (Stiglitz (2002): Globalization and its Discontents, bls. 78-80). Aukin ójöfnuður síðustu áratuga hafi hreinlega ekki leitt til þess að molar falli af borðum hinna ríku og bæti kjör hinna fátækustu.
Í ofan á lag virðist hin útbreidda ríkradýrkun í BNA beinlínis skaða efnahagslífið. Einhvers staðar las ég að erfitt væri að fá Kana til að stunda vísindarannsóknir því þeir vildu allir verða ríkir. En um leið eru vísindarannsóknir einn helsti burðarás efnahagslífsins. Hingað til hafa Bandaríkjamenn leyst vandamálið með því að flytja inn vísindamenn frá öðrum löndum. En á síðustu árum hefur það orðið æ algengara að vísindamennirnir snúi heim.
Reyndar held ég að græðgi af amerísku tagi sé ein af ástæðunum fyrir því að tiltölulega fáir Íslendingar ljúka stúdentsprófi. Það eru líka fremur fáir Íslendingar sem fara í framhaldsnám, lífs-"gæða"-græðgin er slík að menn fá sér vinnu eins fljótt þeir geta. Svo hefur ótölulegur fjöldi ríkradýrkenda farið í alls konar viðskiptanám til þess að geta "meikað það". Betra væri fyrir efnahagslífið ef fleiri lærðu verk- og tæknifræði. Við þurfum ekki fleiri Björgólfa Thóra. Við þurfum hvorki ríkis- né ríkradýrkun, við þurfum aðhald og yfirvegun, menntun og hugsun. Og hugsjónir.
Vonandi er ríkradýrkunin víkjandi.
5.11.2008 | 13:54
OBAMA, MAÐURINN FRÁ KANSAS OG KENÍA
Ég hélt mér vakandi í nótt til að fylgjast með forsetakjörinu. Og þegar ljóst varð að Obama hefði unnið varð ég hrærður. Þá sýndi sjónvarpið Jesse Jackson með tárvota hvarma. Ég minntist orða hans "We have gone from the outhouse to the main house, we can go from the main house to the White House". En maðurinn frá Kansas og Kenía er ekki fyrst og fremst svertingi heldur heimsborgari, maður gæddur mikilli stjórnmálagáfu. Ég óska honum allra heilla.
4.11.2008 | 16:59
OBAMA GEGN MCCAIN: HIÐ PÓSTMÓDERNA GEGN HINU MÓDERNA
Oft er sagt að tímaskeið hins móderna hafi einkennst af að sjálf manna voru gefnar stærðir, menn kappkostuðu við að vera sjálfstæðir, þéttlyndir og sjálfum sér samkvæmir. En öðru máli gegni um það tímabil sem kennt er við hið póstmóderna. Á þessu tímaskeiði (sem nú stendur yfir) verði sjálfsemd manna æ síður traust, æ meira fljótandi, menn skipti um ham eins og ekkert sé. Aðalmálið er að vera kúl og slá í gegn hjá öðrum. Ekki skortir Obama kúlheit og sjálf hans hefur aldrei verið gefin stærð. Hann elst upp hjá móðurforeldrum sínum í hvítu umhverfi og er lengi vel hvítur maður með svarta húð, auk þess að mótast af múslimskri menningu í Indónesíu. En svo skiptir hann um ham, tekur að leita að sínum svörtu rótum og verður nánast svertingi. Þó altaf maður milli vita eins og sannri póstmóderni persónu sæmir. McCain aftur á móti er gefin, móderni stærð enda eldri maður, fæddur og uppalinn á tíma hins móderna, gagnstætt Obama. Hann klárlega sjálfstæður og var lengi þéttlyndur en fórnaði þeirri dyggð fyrir völd. Slíkar fórnir hafa menn fært á öllum tímaskeiðum mannkynssögunnar. Valdið blífur.
3.11.2008 | 08:53
KREPPAN OG TÍÐARANDINN
Tíðarandinn, sá skrítni fjandi, lætur ekki að sér hæða fremur en endranær. Nú bregður hann sér í líki búktalara og talar gegnum fjölda álitshafa víða um lönd. Hann lætur þá segja í kór "kreppan gefur líka möguleika, nú getum við losað okkur við gildismat efnishyggju". Einn kórfélaga, hinn frægi bókmenntafræðingur Harold Bloom, skrifaði grein nýlega í New York Times. Þar ræðir hann viðbrögð bandaríska rithöfundarins Ralph Waldo Emerson við kreppunni 1837. Emerson sagði að kreppan ætti að kenna Könum sjálfsþurftarbúskap, kenna þeim að treysta á sjálfa sig, ekki þau verðmæti sem mölur og ryð fá grandað. Kannski landar vorir geti lært eitthvað af þeim Bloom og Emerson.