JÓLABÓKARÝNI NR 4: Kletturinn eftir Sverri Norland.

Ég hef verið að glugga í Sverrissögu, söguna um Noregskonunginn Sverri Sigurðsson.

Nafni hans Norland er kannski ekki skáldkonungur en liðtækur rithöfundur samt. Það sést vel í nýju skáldsögunni hans Kletturinn.

Aðalpersónan, Einar Torfason, segir söguna í fyrstu persónu, um útileguna með vinum sínum Ágúst og Brynjari, útilegu sem endaði með hörmungum.  Ágúst féll niður af kletti og dó.

Slysið verður að skugganum í lífi Einars, gefið er í skyn að hann hafi átt einhvern þátt í slysinu, alla vega finnst honum það sjálfur.

Hann verður að eins konar mannkletti, steingervður hið innra, um leið og hann veigrar sér við að klifra klett mannorðanna.

Í lokin nær hann áttum sættir sig við lífið og hlutskipti sitt.

Ágæt bók, persónusköpun er prýðileg, lesandinn verður nákominn Einar og hans nánustu, einnig vinum hans töffaranum Brynjari og gáfnaljósinu Ágústi. 

En ekki er bókin  gallalaus fremur en önnur mannanna verk. Til dæmis eru samtöl Einars við Brynjar og Tinu Birnu, konu þess síðarnefnda, ögn væmin og sjálfshjálparbókarleg.

Miklu minna skiptir að Sverrir notar sögnina „að stika“  óþarflega oft, til er fjöldi annarra orða með svipaða merkingu.

Ekki skiptir heldur miklu það sem segir á blaðsíðu 72 um að annað fólk hafi glatað sannleiksgildi sínu. Heimspekingurinn í mér mótmælir og segir að setningar, kenningar og staðhæfingar geti haft sannleiksgildi, ekki fólk. En líklega á hann við að fólkið hafi misst þýðingu sína.

Allt um það, ég fékk fáeinar stjörnur í augun við lestur þessa kvers.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband