LENÍN, HUNDRAÐ ÁRA ÁRTÍÐ

Í dag er liðin ein öld síðan Vladimír Iljits Lenín hrökk upp af. Ekki skal stjórnmálaferill hans ræddur að ráði hér, þess meir um ýmsar kenningar hans með megináherslu á kenningu hans um heimsvaldastefnuna.

Þó skal nefnt að hann lét reka heim lýðræðislega kjörið rússneskt þing í janúar 1918, mánuði eftir að verkföll voru bönnuð (t.d Encyclopedia Britannica).

Hann átti þátt í að koma gúlaginu á laggirnar, stofna morðóða leynilögreglu o.fl. (t.d. Gulag Online).

 

                 Flokkurinn og lýðræðið

 

Skömmu fyrir byltingu setti hann saman ljóðræna lýsingu á hinu altæka lýðræði sósíalismans þar sem jafnvel matseljan taki þátt í stjórnastörfum (Lenín 1917). 

Lenín ofreyndi sig ekki á að koma þessum marxísku lýðræðishugmyndum í framkvæmd, kannski vegna þess að hún var illsamræmanleg hugmyndinni um hinn leníníska byltingarflokk.

Einnig er ekki víst að hægt sé að samrýma áætlunarbúskap og víðfeðmt lýðræði. Líklega yrði áætlunargerð mjög þung í vöfum og vart framkvæmanleg ef fjöldi lýðræðislegra ráða á að hafa hönd í bagga með henni.

En fulltrúalýðræði kann að vera samrýmanlegt áætlunarbúskap, alla vega ef trúa má hagfræðingnum Josef Schumpeter. Hann taldi reyndar að slíkur búskapur væri síður samrýmanlegur lýðræði en markaðskerfið (Schumpeter 1976).

Víkjum aftur að Lenín. Hann  sagði að verkalýðurinn einn og óstuddur gæti aldrei öðlast byltingarvitund, aðeins fagfélagsvitund. Byltingarvitundin yrði að koma frá atvinnubyltingarmönnum.

Enda skyldi byltingaflokkurinn  eingöngu skipaður þeim en þeir þekktu hina sönnu hagsmuni verkalýðsins, betur en hann sjálfur. Stjórnarform flokksins  var  stigveldið.

Einnig átti að vera „lýðræðislega miðstjórnarvald“ þar sem flokksmenn voru skyldaðir til að beygja sig möglunarlaust  fyrir ákvörðun meirihlutans, alls ekki gagnrýna hana (Lenín 1970)(sjá einnig Conquest 1972).

Trotskí sagði með réttu löngu fyrir byltingu  að í slíkum flokki hlyti  miðstjórnin fyrst að taka öll völd í sínar hendur svo tæki einræðisherrann við (Trotskí 1967: 63).

Trotskí gekk síðar til liðs við þennan flokk og tók þátt í að koma einræðisstjórn hans á laggirnar.

Það er kaldhæðni örlaganna að hann skyldi með þeim hætti eiga þátt í að láta eigin spásögn rætast.

Nefna má að Lenín  mun hafa  hvað eftir annað mælt með hryðjuverkum til að ná markmiði byltingarinnar, líka eftir valdatöku sína (samkvæmt Conquest 1972: 98 og víðar).

 

            Kenning Leníns um heimsvaldastefnuna

 

Lenín hafi réttilega  talað  um heimsvaldastefnuna sem æðsta stig kapítalismans. Það væri stig einokunarkapítalismans sem hefði sprottið alskapaður úr höfði hins frjálsa markaðar.

Þetta skeið sé skeið fjármagnskapítalsins,  það  renni saman við iðnaðarauðmagnið og nái tangarhaldi á iðnaðnum.

Alþjóðabankar verði  lífæð kapítalismans, útflutningur fjármagns skiptir nú meira máli en útflutningur á varningi.

Vegna lækkandi gróðahlutfalls yrðu kapítalistarnir að fjárfesta í æ ríkari mæli í nýlendum sem yrðu arðrændar fyrir vikið.

En þetta arðrán sé aðeins gálgafrestur því gróðahlutfallið héldi áfram að lækka. Heimsvaldasinnuðu ríkin hafi  lagt undir sig allan heiminn svo erfitt sé um vik að finna nýjar nýlendur. 

Þrautalendingin væri uppskiptastríð milli nýlenduveldanna, fyrri heimsstyrjöldin hafi verið slík styrjöld um nýlendur og markaði.

Alltént hafi arðrán á nýlendum stuðlað  að bættum kjörum hluta verkalýðsstéttarinnar á Vesturlöndum, þó aðeins til bráðabirgða. Ekki bara lækkandi gróðahlutfall heldur stöðnun vegna einokunar veiki innviði kapítalismans.

Einokunin muni valda því að það hægist á tæknilegri nýsköpun. Fyrr eða síðar hryndi kerfið vegna stórkreppu og byltingar (Lenín 1961).

Lítum  kenningar Leníns gagnrýnum augum: Menn á borð við Robert Conquest  hafa borið brigður á kenning hans um að fjármagn hafi í æ ríkara mæli streymt til nýlendna og hálfnýlendna.

Til dæmis hafi franskar nýlendur flutt meira út en inn, í ofan á lag séu fá dæmi um ofurgróða af fjárfestingum í nýlendum. Iðnframleiðsla iðnríkjanna hafi aukist mikið og útflutningur iðnvarnings aukist mun meira en útflutningur auðmagns (Conquest 1972: 75-76).

Vandinn er sá að Conquest nefnir engar heimildir fyrir máli sínu.

Beinum sjónum okkar  að fyrri heimsstyrjöld og eftirleiknum  að henni: Hvers vegna lögðu hin sigursælu Bandaríki ekki undir sig nýlendur Frakka, Breta og Þjóðverja eftir stríðið?

Þjóðverjar voru sigraðir og Frakkar og Bretar skulduðu Bandaríkjamönnum gífurlegar fúlgur. Af hverju gerðu Bandaríkjamenn Bretland, Frakkland og Þýskland  ekki bara að nýlendum sínum?

Í stað þess drógu þeir sig út úr Evrópu og lögðu  herinn nánast niður  án þess að bandarískur efnahagur biði tjón af.

Hann blómstraði þrátt fyrir smá afturkipp fyrst eftir stríðslokin þegar fyrirtæki sem græddu á stríðinu urðu að draga saman seglin. Eftir síðari heimsstyrjöld stóðu Bandaríkjamenn enn betur að vígi.

Þeim  hefði verið í lófa lagið að gera Vestur-Evrópu, evrópskar nýlendur og Japan að nýlendum sínum. En þeir létu það eiga sig.

Í ofan á lag gáfu Evrópuþjóðirnar nýlendum sínum frelsi en án þess að skaðast efnahagslega á því.

Þvert á móti voru fyrstu áratugirnir eftir stríð efnahagslegt blómaskeið Vesturlanda (sagt hefur verið að Holland hafi orðið auðugra eftir að það missti risanýlendu sína, Indónesíu) (Conquest 1972: 78). 

Það þótt um þriðjungur jarðarbúa hafi þá verið búsettir í kommúnistaríkjum sem voru ekki opin fyrir erlendum fjárfestingum og voru vart hluti af heimsmarkaðskerfinu.

Hefði Lenín haft á réttu að standa þá hefði þessi  “missir” a.m.k. þriðjungs mannkynsins átt að valda alvarlegum efnahagskreppum í kapítalískum ríkjum. 

Ef nýlenduveldin hefðu með arðráni sínu komið  í veg fyrir efnahagsframfarir í hinum þriðja heimi þá hefði mátt ætla að einhverjar efnahagsframfarir hefðu orðið í þeim löndum þriðja heimsins sem ekki urðu nýlenduveldunum að bráð.

En ekki verður séð að stórfelldar framfarir hafi átt sér stað á tímabilinu 1600-1950 í Tyrklandi, Tælandi, Íran, Japan, Kína og Eþíópíu. Ekkert þessara landa iðnvæddist á þessu tímaskeið og héldu þau þó sjálfsstæði sínu.

Hér ber að slá varnagla, sum þessara landa urðu að beygja sig fyrir vestrænum þrýstingi, t.d. Kína eftir ópíumsstríðið (samkvæmt t.d. Ferguson 2003: 166). Lenín sagði að þessi ríki væru  hálfnýlendur eða væru við það að verða það (Lenín 1961: 104). 

En obbann af tímabilinu 1600-1950 voru Kína, Íran og Tyrkland  ekki bara sjálfstæð ríki heldur mikil stórveldi.

Það er ekki víst að nýlendustjórn sé hagkvæm þegar til langs tíma er litið, hagkvæm öðrum en fámennum hópi nýlendustjóra og þeim tengdum viðskiptamönnum.

Reyndar er vel mögulegt að nýlendustefnan hafi aðallega þjónað hagsmunum generála og annarra atvinnuhermanna, ekki auðkýfinga.

Vald og dýrð hersins hefur sjálfssagt aukist  í sigursælum nýlendustríðum, atvinnuhermenn hafa líklega fengið  nóg að sýsla við að stjórna nýlendunum.

Ekki er öruggt að  peningamenn hafi verið í fararbroddi.

Á nítjándu öldinni voru frjálshyggjumenn margir hverjir andsnúnir nýlendustefnu, m.a. vegna þess að þeir töldu hana ekki ábátasama (samkvæmt t.d. Nordin 2012: 117).

Lenín segir að á velmektardögum  frjálsrar samkeppni, 1840-1860,  hafi borgaralegir stjórnmálamenn í Bretlandi verið andsnúnir nýlendustefnu en það hafi breyst þegar skeið einokunar og fjármálaauðvalds hafi hafist (Lenín 1961:  102).

Eitt er fyrir sig að það getur kostað talsvert fé að stjórna nýlendum Lenín nefnir að ýmsir álitsgjafar, þ.á.m. marxistinn Karl Kautsky, hafi talið öflun nýlendna of áhættu- og kostnaðarsama, fullt eins mætti afla hráefna með því að kaupa þau á markaði.

Lenín taldi að tímaskeiði markaðskipta væri lokið og þetta því vond tillaga (Lenín 1961: 108).

Nú kann einhver að spyrja hvort Frakkar og Bretar hafi ekki skipt á milli sín þýskum nýlendum og yfirráðasvæði Tyrkjasoldáns eftir fyrra stríð. Sýnir það ekki að uppskiptaþáttur hafi verið í þeirri styrjöld?

Mitt svar er að hafi uppskipti verið aðalatriði þessa stríðs þá hefðu Frakkar og Bretar farið í stríð við hvor aðra þar eð þeir réðu miklum nýlendum. Eftir litlu var að slægjast hjá Þjóðverjum sem áttu fáar og smáar nýlendur.

En kannski var uppskiptalöngun hreyfiafl Þjóðverja í stríðinu, kannski vildu þeir fjölga nýlendum sínum. Þannig gæti hafa verið uppskiptaþáttur í stríðinu en sönnunarbyrðin hvílir á þeim sem því trúa. 

Kenningar Leníns um heimsvaldastefnuna eru ekki ýkja sannfærandi.

Það  þýðir ekki að allir þeir sem töldu nýlendustefnuna hafa verið af hinu illa  hljóti að hafa á röngu að standa. Þótt margt bendi gegn því  að velsæld Vesturlanda byggi  á nýlenduarðráni þá var nýlendustefnan ekkert teboð.

Minnast má skelfilegrar meðferðar Belga á Kongóbúum, Frakka á Haítímönnum o.s.frv.

Að ógleymdu þrælasölunni miklu sem kostaði milljónir Afríkumanna líf og frelsi (en Vesturlönd áttu ekki einkarétt á þrælabúskap, ríki múslima voru drjúg á því sviði, þrælkuði bæði Afríkumenn og Evrópumenn í milljónatali).

Nýlenduherrarnir komu víða á einrækt, þ.e. landbúnaðarkerfi þar sem aðeins ein jurt er ræktuð að ráði, t.d. baðmull eða gúmmítré.

Þessi einrækt skapar enn vandkvæði víða í þriðja heiminum.

Um leið græddu allmargir þriðjaheimsbúar á uppfinningasemi Vesturlandabúa, t.d. á uppfinningu bensínvélanna sem gerði olíu að mjög dýrmætu hráefni. Einnig var lagning járnbrauta á Indlandi heimamönnum líklega til hagsbóta.

„Drottinn gaf og Drottinn tók“.

 

                     Lokaorð

 

Einhver spekingur sagði að Lenín hefði verið fallöxi sem hugsaði. Orð að sönnu.

 

Heimildir:

Encyclopedia Britannica: “Constituent Assembly”. Sótt 21/1 2023 á https://www.britannica.com/topic/assembly-government

Ferguson, Niall 2003: Empire. How Britain Made the Modern World. Harmondsworth: Penguin.

Gulag Online. Sótt 21/1 2023 á https://gulag.online/articles/historie-gulagu?locale=en

Lenín, Vladimír Iljits 1970: Hvað ber að gera? (þýð. Ásgrímur Albertsson). Reykjavík: Heimskringla.

Lenín, Vladimir Iljits. 1917. “Can the Bolsheviks retain State Power?”, Marxist Archive. Sótt 1/4 2020 á marxists.org/archive/lenin/works/1917/oct/01.htm.

Lenín, Vladimír Iljits. 1961. Heimsvaldastefnan. Hæsta stig auðvaldsins (Þýðandi Eyjólfur R. Árnason). Reykjavík: Mál og menning/Heimskringla.

Nordin, Svante 2014: Filosofene. Vesterlandsk tenkning siden 1900 (þýðandi Lars Nygaard).  Oslo: Dreyer.

Schumpeter, Joseph  1976:  Capitalism, Socialism, and Democracy. London: Allen & Unwin. Company. 

Trotskí, Lev 1967: „Klassens førstefødselsrett“ (þýð. óþekktur),  Jens A. Christophersen (ritstj.) Bolsjevikrevolusjonen 1917. Ósló: Pax forlag, bls. 62–65.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband