Um bók mína Á ekrum spekinnar

Ég er  bara óbreyttur verkamaður á ekrum spekinnar.  Eða garðyrkjumaður  í víngarði viskugyðjunnar, nema hvort tveggja sé. Samt reyni ég af veikum mætti að marka eigin heimspekistefnu en hana kynnti ég í bók minni The Poetic of Reason. Introducing Rational Poetic Experimentalism (Stefán Snævarr 2022). 

Eins og sjá má af undirheiti bókarinnar gaf ég stefnunefnu minni heitið  “Rational Poetic Experimentalism“ (RPE). Á íslensku hyggst ég nefna hana   “póetíska skynsemis- og tilraunahyggju“ (PST).

Skynsemisþátturinn birtist í því að rökvísin skal virt við framkvæmd heimspekilegra hugsanatilrauna. 

Orð á borð við “póetískur“ er notað hér sumpart í merkingunum “það sem er fagurbókmenntakyns“ og  “það sem líkist fagurbókmenntum.”

Þó aðallega í merkingunni  “það sem skilja má eða ber með tækjum póetíkur, þ.e.  fræða um bókmenntir (e. Poetics).” Meðal þeirra fræða eru  bókmenntafræði og bókmennta-heimspeki (e. Literary Aesthetics).

Fjórða merkingin  er hin forngríska  “poeisis“ sem þýðir eitthvað í líkingu við  “það sem skapað er með líkum hætti og listaverk.” Heimsmynd okkar, já það sem við köllum  “heim“,  gæti verið póetísk í forngrísku merkingunni. Til dæmis sköpunarverk hugtakaskema.

Ég er engan veginn fyrstur til að nota póetík í svo víðri merkingu, fyrstur til þess arna var líklega franski heimspekingurinn Gaston Bachelard.

Spurt er: Hvers lags tilraunir skulu gerðar í nafni PST? Markmið tilraunanna er að sjá hvort hið póetíska (bæði í merkingunni póetík og poeisis) er  bundið við listaverk eða hvort það gegnsýrir mannlega tilvist. Þessar tilraunir skulu nefndar “PST-tilraunir“.

Sannleikurinn hefur reynst heimspekingum slyppifengt hnoss  og er ég því feiminn við sönnunarstreð. Ludwig Wittgenstein hélt því fram að gátur heimspekinnar væru gervigátur, mönnum virtist að um raunverulegur gátur væri að ræða vegna þess að tungumálið blekkti þá

Colin McGinn fer aðra leið en  Wittgenstein.   Hann telur sig geta skýrt hvers vegna sönnunarstreð heimspekinnar sé svo erfitt.

Skýringin sé  sú að mannskepnunni sé ekki gefið að ráða gátur heimspekinnar. Hún sé frá náttúrunnar hendi þekkingarlega lukt (e. cognitively closed)  fyrir slíkri ráðningu, rétt eins og hundar eru ófærir um að skilja eðlisfræði.

En jafnvel þótt annað hvort Wittgenstein eða McGinn hefðu á réttu að standa þá kunna að verða til nýjar heimspekigátur í framtíðinni, gátur sem standa undir nafni.  Heimspekigátur eru ekki gefnar stærðir, fyrr á öldum voru  hvorki til gátur vísindaheimspeki né  gervigreindar.

Við getum ekki spáð fyrir um gátur framtíðarinnar og því ekki vitað fyrirfram hvort þær verða ráðanlegar eður ei. Ráðanlegar vel að merkja af mönnum, ef til vill líka af gervigreind eða verum frá öðrum hnöttum.

Kannski eru sumar gátur heimspekinnar gervigátur en  allar aðrar heimspekigátur þess eðlis að mönnum sé  ekki fært að ráða þær.  Eða sumar þeirra ráðanlegar mönnum.

Tilraunaspeki

Hvað sem því líður er best að hafa vaðið fyrir neðan sig og ofreyna sig ekki við heimspekilega  sannleiksleit, án þess að gefa hana alveg upp á bátinn.

Í stað sannleiksleitar  má  stunda heimspekilegar tilraunir. Tilraunaspekingurinn  leitast við að vekja menn af þyrnirósarsvefni, vekja til umhugsunar, hreyfa við þeim. Hann leitar að möguleikum  fremur en sannleika. Í The Poetic of Reason skrifa ég „The forte of philosophy is the proliferation of possibilities“.

Möguleikastaðhæfingar ber að rökstyðja vel. Auk þess  skal sannleikanum ekki alveg úthýst, hver veit nema sannleiksbrot megi finna í möguleikastaðhæfingunum.

Skáld og listamenn leika sér einatt að hugmyndum og leita að spennandi möguleikum, hunsa stundum veruleikann. Franz Kafka lék sér að hugmyndinni um manninn sem breyttist í skorkvikindi, skáldaði  um þessa mögulegu uppákomu sem kannski segir eitthvað satt um mannlífið.

 Líkt og skáldinu er heimspekingnum heimilt að leika sér að hugmyndum en leikreglurnar eru að jafnaði  reglur rökvísinnar. Leikurinn sá arna er leikurinn alvarlegi,  ekki  óskyldur leik ljóðsins en heimspeki samt, leikspeki.  Eitt af markmiðum leiksins er að fjölga fílósófískum kostum.

 Einhver kann að spyrja hvort hugsanatilraunir heimspekinga eru ekki dæmi um tilraunaspeki í reynd.

Svarið er að slíkar tilraunir eru einatt gerðar til að höndla rökleg sannindi, PST-spekingurinn (ég) er ekki bjartsýnn á að það takist. En slíkar tilraunir geta verið innblásandi og umhugsunarvekjandi, þannig hugsanatilraunir vill PST-sinninn gera.

Ég    vil   feta í fótspor  Roberts Nozicks og leggja  áherslu á að raða (e. rank) kenningum eftir meintu ágæti  þeirra fremur en taka beina afstöðu til þeirra. Ofreyna sig ekki við sannleiksleit. 

Hvaða mælikvarða á ágæti ber að leggja áherslu? Til dæmis góðan rökstuðning og skýrigildi en einnig frumleika og það hvort kenningin er uppbyggileg og ögrandi.

All nokkru áður en ég las grein Nozicks boðaði ég tilleiðsluhyggju (e. inductivism) um heimspeki. Mér til mikillar ánægju var Nozick líka tilleiðslusinni og varði heimspekilega tilleiðslu (e. induction) með mun betri rökum en ég.

Mín útgáfa kveður m.a. á um að stundum megi efla kenningu rökum ef sýna megi fram á að nokkur fjöldi mismunandi, en velrökstuddra,  kenninga leiði til sömu niðurstöðu um leið og rökin gegn niðurstöðunni séu ekki nógu góð.

Þá séu niðurstöðurnar tækar (nothæfar) þar til annað sannara reynist. Köllum þetta “PST-tilleiðslu,” henni  beitti ég oft í tilraununum í The Poetic of Reason.

Í þessari bók  er veruleikinn   mitt tilraunadýr, ég fylli hann með ljóðrænu og sé hvað setur. Ég geri mér litlar vonir um að höndla sannleikann en vona að tilraunirnar séu ögrandi, umhugsunarvekjandi, jafnvel uppbyggilega.

Sónarþættirnir

Athugað er í bókinni hvort eitthvert vit er í því að segja að málið, líkön, tilfinningar og fleira  hafi ákveðna póetíska þætti, þeir skulu nefnast “sónarþættir“: Frásögur,  hugsmíðar  (hið skáldaða, e. fictions), myndhvörf og bókmenntagreinar (e. literary genres) af tvennu tagi.

Fyrra bókmenntagreina-hugtakið er flokkunar-hugtak, það varðar flokka bókmennta á borð við skáldsögur, leikrit, og ljóð. Hið síðara varðar eigindir bæði bókmenntaverka, annarra listaverka, og  ýmissa heimssniða (e. slices of reality) annarra: Harmræn, ljóðræn, spaugileg, dramatísk o.s.frv.

Þá kann frómur lesandi  að spyrja af hverju þeir kallist “sónarþættir.” Svarið er að Són var eitt kerjanna sem hinir fornnorrænu guðir fylltu Suttungamiði, það er að segja skáldadrykknum.

Úr kerjunum draup mjöðurinn niður á jörðu og urðu þeir menn skáld að bragði sem fengu dropana á sig.  Hver veit nema dropar falli á heiminn gjörvallan.

 Eitt af mikilvægustu hugtökum PST   “destabing“ og er illþýðanlegt. Það vísar til “destabilzation“ og  “stabbing.” Fyrrnefndi þátturinn tengist því að gera hugtök, sem virðast hafa stöðugt inntak og umfang, óstöðug.

Síðarnefndi þátturinn varðar þá  iðju  að stinga kreddur á hol. “Destabing“ má kalla  “delluvana afbyggingu“ (e. No Bullshit Deconstruction), afbygging af (vonandi!) rökvísu tagi sem sett er fram á mannamáli.

Til að greina mína speki (ef einhver er) enn skýrar  frá hefðbundinni afbyggingu kýs ég að  nota sagnorðið  “að dístaba“ hvarvetna þar sem því verður komið við (ég er málunnandi en ekki hreintungumaður). 

Eftir að bókin kom út var mér bent á að kalla mætti dístöbun "riðlun", það að dístaba "að riðla". Vel athugað!

Tækin til delluvana afbyggingar  eru aðallega sónarþættirnir en þeirra koma hvergi við sögu afbyggingar í anda Jacques Derridas. Hafi hugtak a.m.k. þrjá af sónarþáttunum telst það dístabað (segja má að það sé ljóðvætt).

Af hverju nægja ekki tveir þættir? Það er einfaldlega stípúlering af minni hálfu, til að halda dístöbun  innan marka skynseminnar verður að gera skýrar  lágmarkskröfur til hennar og koma í veg fyrir geðþóttaákvarðanir varðandi hana.

Sjálfsævisaga síleska skáldsins Pablo Neruda Ég játa að hafa lifað er frásaga, full af myndhvörfum og hugsmíðum. Engum dylst hugur um að bókin er póetísk þó hún sé strangt tekið sannfræðileg (e. non-fiction).

Nýlega tók ég mig til og framdi ofureinfalda dístöbun á greiningarspeki. Ekki er hægt að greina hugtak nema að hægt sé að segja sögu þess þannig að skorið verði úr hvort hugtakið er bundið sérstökum menningarheimi eða er algild.

Besta, kannski eina,  leiðin til að greina hugtak er að gera hugsanatilraunir og þær eru skáldaðar frásögur, hugsmíðar. Ef  greiningin  á hugtakinu á að leiða til röklegra sanninda þá verður hún að teljast sönn í öllum mögulegum heimum.

En hugmyndin um mögulega heima er metafórísk, strangt tekið er aðeins til einn heimur þótt frjótt geti verið að ræða um mögulega heima.  Rökgreining að hætti greiningarspeki hefur því sagnþátt, þátt myndhvarfa og hugsmíða, þrjá sónarþætti og telst því dístöbuð þangað til annað sannara reynist.

Afbygging af gerð  Derrida virðist felast í því að brjóta fyrirbæri niður og raða brotunum aftur með nýjum hætti. Svo lítið eins og listamaðurinn Jean Tinguely sem notaði brotajárn úr gömlum vélum til að búa til lista-vélar.

Mín afbygging, ef afbyggingu skyldi kalla, er fremur eins og listaverk Christos sem breiddi yfir mannvirki og gaf þeim með því nýja samsemd án þess að brjóta þau niður.

Delluvana afbygging þar sem sónarþættirnir koma ekki við sögu má kalla  “fagur-dístöbun.“ Í  þess lags  dístöbun verður reynt að sýna fram á að estetískur þáttur (eða þættir) séu í fyrirbærum sem á yfirborðinu virðast öldungis sneyddir slíkum þáttum. 

Fagur-dístöbun . er ekki ljóðvæðing heldur estetísering.  Hana verður að rökstyðja vandlega, sá rökstuðningur verður líka að vera fallvaltur.

Ljóðið og hið lógíska

Nýráðinn starfsbróðir spurði mig hvað ég fengist við. Ég svaraði að bragði „ég fæst við estetíska heimsvaldastefnu,” reyni að leggja nýjar lendur undir estetík og póetík.

Notum aðra líkingu: Ég reyni að sjá vanda heimspekinnar frá estetískum og póetískum sjónarhóli,  það þótt aðrir hólar veiti engu  lakara útsýni.

Sá sem fylgir póetískri hyggju hlýtur að skrifa um hana með ögn ljóðrænum hætti. Martha Nussbaum bendir á að hann myndi lenda í eins konar mótsögn  við sjálfan sig ef hann kynnti hana með þurrpumpulegum, hrein-akademískum hætti (Nussbaum 1990: 7).

Hið ljóðræna má þó ekki ríkja eitt, sameina ber skynsemina og hið skáldlega. Fræðin og kvæðin skulu  ríma!

Eftir margra áratuga efasemdir hefur mér loksins lærst að sameina megi hið lógíska og hið ljóðræna. Með því hef ég læknast af eins konar geðklofa.

Nietzsche lætur Zaraþústra sinn segja söguna um andann sem fyrst holdgervðist sem úlfaldi. Sá var tilbúinn til að bera allar þungar byrðir. Næst holdgervðist hann sem  ljón  er varði hugmyndir með kjafti og klóm. Að lokum holdgaðist hann sem smábarn er gat byrjað upp á nýtt, óháð uppeldi og hefðum.

Ég kýs að snúa ögn út úr sögunni og heimfæra á mig sjálfan: Framan af var ég eins og úlfaldi, hlaðinn þungum byrðum heimspekivandans. Ég velti því stöðugt fyrir því hvaða kenning væri best, vildi finna svar en fann ekki. 

En æsti mig upp til að trúa sumum og réðist sem ljón á þá sem ég taldi fara villur vegar. Þá varð ég fyrir vitrun og sá ljós ljóðspekinnar, PST. Fyrir vikið varð ég  smábarn  á ný, barn  sem leikur sér að hugmyndum og lifir í sátt við Guð og menn.

Þetta eru sprek á eldi spekinnar. Vonandi orna þau einhverjum þótt lítilfjörleg séu.

                                                         

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband