DREIFBÝLI GEGN ÞÉTTBÝLI

Ég ætla ekki að ræða íslenska hreppapólitík í þessum pistli. Í stað þess hyggst ég beina sjónum mínum að sögu mannkynsins á síðustu tæpu hundrað árum.

Ég ætla að  kynna kenningu mína um að spenna milli sveita og borga hafi leikið stærra hlutverk í sögunni en menn halda.

Þessu til sannindamerkis skal nefnt að nasistar voru að mörgu leyti dreifbýlisflokkur, þeir dásömuðu bændur og búalið enda nutu þeir mikils fylgis í sveitum Þýskalands.

Þýskir bændur væru heilbrigðir synir jarðarinnar, tengdir henni blóðböndum. Gagnstætt þeim voru borgir í hugum nasista úrkynjuð,  gyðingleg lastabæli okrara, krata og kommúnista.

Reyndar voru sumir kommúnistar sveitanna megin, Maó Zedong var einn þeirra og fylgismenn hans flestir bændur. Æði margir þeirra sultu í hel eftir stóra stökkið hans Maós um 1960, sjaldan launar kálfur ofeldið, hann beitir fremur ofbeldi.

Einhver skyldleik var milli maóista og rauðu khemerana í Kambódíu en þeir voru haldnir hatri á borgarbúum.

Fyrsta verk þeirra eftir valdatökuna 1975 var að tæma bæi og borgir, slátra öllum menntamönnum (þeir voru borgarbörn), og neyða fólk til að þræla á ökrunum. Milljónir manna voru myrtir af khemurunum rauðu, hendur þeirra roðnar blóði.

Víetnamstríðið var líka að mörgu leyti stríð milli dreif- og þéttbýlis. Hin svonefnda Þjóðfrelsisfylking hafði töluvert fylgi á landsbyggðinni. Með harkalegum hernaði sínum ráku Bandaríkjamenn marga sveitamenn í faðm kommúnista.

En borgarbúar virðast fremur hafa stutt hina spilltu  og stjórnlyndu Saigonstjórn eða verið alla vega andsnúnir hinum meintu þjóðfrelsismönnum og þeirra norður-víetnömsku „vinum“.  Þeir sýndu sitt sanna andlit þegar stríðinu lauk.

Hér ber að nefna að kommúnistar hafa yfirleitt fremur verið borganna megin, alla vega í Evrópu. Í rússnesku byltingunni studdu borgarbúar fremur bolsévíka en andstæðinga þeirra sem sóttu sitt fylgi til sveitanna.

 

Meðal þeirra var sá af herjum borgarastyrjaldarinnar sem telja má her lýðræðissinna, Alþýðuher Komuch, her hins lýðræðiskjörna þings sem  bolsevíkar ráku heim.

Hann var aðallega skipaður stuðningsmönnum Félagsbyltingarflokksins sem var róttækur umbótaflokkur er hafði mest af sínu fylgi á landsbyggðinni.

Í Afganistan var ástandið svipað þegar kommúnistar réðu þar ríkjum, það litla fylgi sem þeir höfðu var aðallega meðal borgarbúa.

Fyrr á árum voru borgir og bæir í Afganistan  fremur vestrænir meðan sveitaalþýðan lifði í miðaldaheimi.

Borgarastyrjaldirnar þar í landi voru að ekki óverulegu leyti stríð milli dreif- og þéttbýlis.

Víkjum að vesturlöndum. Þjóðrembu-íhaldsöflin, sem nú stjórna Póllandi, sækja fylgi sitt til  sveita, borgarbúar eru frjálslyndir og alþjóðlegir hugsun.

Hið sama gildir um Ungverjaland, Tyrkland, Bretland  og ekki síst Bandaríkin. Þar vestra er dreifbýlisliðið hákristilegt  afturhaldsfólk sem flatmagar fyrir Donald Trump. Þéttbýlisfólkið er einatt annarrar hyggju og kýs demókrata.

Ekki verður annað séð en að dreifbýlið ógni frelsi og lýðræði víða á hnettinum þótt þéttbýlismenn séu hreint ekki saklausir af því heldur.

„Stadtluft macht frei“, sögðu Þjóðverjar á miðöldum, borgarloftið gerir menn frjálsa.

Það er vissulega orðum aukið en eins og stendur er þéttbýlið fremur frelsisins megin en dreifbýlið.

 


VALDARÁNIÐ Í CHÍLE OG EFTIRLEIKUR ÞESS

Þann ellefta september verður hálf öld  liðin síðan herinn í Chíle steypti lýðræðisstjórn Salvadors Allende, forseta.

Hann  kom á einræðisstjórn herforingja sem markaði stefnu í anda markaðshygggju.  

Enginn vafi á að Bandaríkin og ekki síst CIA áttu þátt í valdaráninu og því að veikja stoðir Allendestjórnarinnar, m.a. með því að grafa undan efnahag landsins.

Enda viðurkenndi CIA að hafa vitað af  valdaráninu áður en það átti sér stað en neitar að hafa átt þátt í því.

Bandarísk þingnefnd komst að þeirri niðurstöðu að fátt benti til að CIA hafi tekið þátt  valdaráninu en víst væri um að Bandaríkin hefðu reynt að grafa undan Allende-stjórninni.

Hver veit nema þetta sé rangt og CIA hafi átt þátt í að skipuleggja valdaránið. 

Stjórn Allendes

En Allende og fylgjendur hans voru ekki hafnir  yfir gagnrýni. Hann reyndi að breyta samfélaginu allróttækt án þess að hafa meirihluta þjóðarinnar að bakhjarli.

Hann fékk jú aðeins 36% atkvæða í forsetakosningunum árið 1970. Alþýðufylking hans fékk mest 44% atkvæða í þingkosningunum vorið 1973.

Hægrimenn og bandarískir vinir þeirra héldu að Allende yrði svo óvinsæll að hann hlyti tapa næstu kosningum.

En sú staðreynd að flokkur hans bætti talsvert við sig í þingkosningunum 1973 gæti  hafa valdið því að þeir fóru að efast um það og tóku í stað þess að skipuleggja valdarán.

Það án þess að neitt benti til þess að Allende hygðist koma á kommúnísku einræði þótt þannig hugsandi menn hafi líklega mátt finna meðal stuðningsmanna hans.

Forsetinn var fremur róttækur krati en kommúnisti, eina hættan á kommúnísku einræði í Chile var sú að kommúnistar fremdu valdarán.

En mér vitanlega er ekkert sem bendir til að þeir hafi haft slíkt í hyggju.

Stjórn Pinochets og efnahagsstefna hennar

Hvað um stjórnarfarið í tíð valdaránsmanna? Frjálshyggjumenn hafi haldið efnahagsstefnu Augusto  Pinochets mjög á lofti enda fór hann í flestu eftir forskriftum Miltons Friedmans og annarra frjálshyggjupostula (lét þó eiga sig að einkavæða koparnámurnar ábatasömu).

Því er til að svara að virtur norskur hagfræðingur, Kalle Moene, segir að hagvöxtur á valdaskeiði Pinochets hafi aðeins verið um 2% að jafnaði á ári (Moene 2007).

Nóbelshagfræðingurinn  Joseph Stiglitz bendir á að eftir sjö ára friedmennsku hrundi efnahagurinn chíleski næstum árið 1982, hagkerfið dróst saman um 13.7% (!!) og fimmti hver verkamaður varð atvinnulaus (Stiglitz 2002: 114) (aðrir nefna hærri tölur, 14.3% og 23%) (sjá einnig Stefán Snævarr 2011, 4 kafla).

Milton  Friedman afsakaði  það með meintum mistökum í peningmálum, þar hafi Chílestjórn  breytt gagnstætt formúlum frjálshyggjunnar.

Eins og Steinn Steinarr orti:

       Og þótt þú tapir, það gerir ekkert til,

       því það er nefnilega vitlaust gefið (Steinn Steinarr           1991: 164)

 

Spurt er: Hvers vegna hefur aldrei orðið viðlíka samdráttur í velferðarríkjunum á árunum eftir stríð? Hvers vegna hefur svo mikið atvinnuleysi ekki þekkst í þeirra ranni?

Getur þetta verið ábending um að tiltölulega frjáls markaður sé ávísun á miklar sveiflur í efnahagslífinu en  blandað hagkerfi stuðli að stöðugri efnahag? Spyr sá sem ekki veit.

Stiglitz segir að eftir hrunið hafi Pinochet söðlað um og   aukið  ríkisumsvif í efnahagslífinu. Þá loksins hafi  efnahagurinn tekið við sér og verið  fremur blómlegur á síðustu sjö árum herforingjastjórnarinnar.

Naomi Klein segir að jafnvel á síðustu og bestu efnahagsárum Pinochets hafi hartnær annar hver Chílebúi verið undir fátæktarmörkum á meðan þeir ríku rökuðu saman fé.

Nú (árið 2007) sé svo komið að óvíða á jarðarkringlunni sé auði jafn misskipt og í Chíle, aðeins sjö þjóðir búi við ójafnari skiptingu (Klein 2007: 86).

Nær má geta hvort þessi misskipting hafi dregið úr valdi auðmanna og stórfyrirtækja.

Hinn frjálshyggjusinnaði Friedrich von Hayek sagði  í viðtali við chíleska blaðið El Mercurio að stundum væri einræði nauðsynlegt til bráðabirgða.

Hann vildi fremur búa í frjálslyndu einræðisríki (les: Chíle Pinochets) en ófrjálslyndu lýðræðisríki enda séu engin rakatengsl milli hugtakanna um frelsi og lýðræði (samkvæmt t.d. Sallas 1981).

 

Lýðræði, einræði, frelsi

Frjálshyggjumenn hafa löngum talið að einræði væri ekki endilega andstætt einstaklingsfrelsi. Lýðræðið geti ógnað því, t.d. ef meirihlutinn kysi að kúga minnihlutann eða ef það leiddi smám saman til aukinna ríkisafskipta.

Vandinn er sá að írski heimspekingurinn Philip Pettit teflir fram máttugum rökum gegn þessu viðhorfi. Frelsi er að hans mati forræðisleysa  (e. non-domination) (Pettit 1997: 51 og víðar).

Menn geti lifað lífi sínu óáreittir  en samt verið háðir  náð annarra manna.

Þeir síðastnefndu gætu hafa látið geðþótta sinn ráða er þeir afréðu að láta mennina í friði og gera þá þannig frjálsa að hætti frjálshyggjunnar (frjálshyggjumenn segja menn frjálsa ef enginn treður þeim um tær).

En þessir menn séu ekki raunverulega frjálsir því afskiptaleysið sem þeir búa við sé skilyrt (e. contingent), tilviljunum undirorpið. Það vildi einfaldlega svo til að ákveðnir einstaklingar ákváðu að láta þá í friði.

Þeir lúti forræði þessara einstaklinga, þeir séu upp á náð þeirra komnir og frelsi þeirra sé því takmarkað.

Þetta þýðir m.a. að menn geti ekki verið frjálsir í einræðisríki. Þótt einræðisherrann leyfi þegnum sínum allra náðarsamlegast að valsa frjálsir um þá lúti þeir eftir sem áður forræði hans.

Hugsum okkur mann sem býr í hverfi þar sem rustamenni nokkurt er forráða. En maðurinn hefur fengið að vera í friði fyrir rustanum, kannski af hreinni heppni.

Ef til vill er maðurinn slík gufa að ruddinn tekur ekki eftir honum. Eða hann er einfaldlega slægur og smjaðrar fyrir hverfis-Rambónum hvenær sem þeir hittast (sjá einnig Stefán Snævarr 2011, 8 kafli).

Sé þetta rétt þá voru íbúar Chíle ekki frjálsir um daga Pinochets þar eð herforingjastjórnin var forráða og frelsi þeirra því skilyrt.

 

Hver drap flesta miðað við höfðatölu?

„Sál felldi sín þúsund, Davíð sín  tíu þúsund“ segir á helgri bók.  

Frjálshyggjumenn hafa löngum haldið því á lofti að herforingjastjórnin í Chíle hafi „bara“  stútað um þrjú þúsund manns, kommúnistastjórn Kúbu tífalt fleiri (samkvæmt Svartbók kommúnismans, sú  bók er ekki heilög fremur en önnur rit).

Þetta eigi að sýna að hægrieinræðisstjórnir séu jafnan síður ómannúðlegar en þær til vinstri.

En þeir gleyma „afrekum“ hægrieinræðisstjórnarinnar í Argentínu sem bar ábyrgð á dauða níu þúsund til þrjátíu þúsund manns á aðeins níu árum.

Það þýðir að sú hægristjórn hafi verið jafn atgangshörð í manndrápum og kommúnistastjórnin á Kúbu.  

Hið sama gildir um  hægrieinræði Rafael Trujillo í Dóminíkanska lýðveldinu. Sú stjórn er sögð  hafa borið ábyrgð á dauða fimmtíu þúsund manns.  

Enn verra var hægrieinræði Súhartós í Indónesíu sem framdi valdarán með stuðningi Bandaríkjanna. Þessi stjórn slátraði 500000 til 1.2 milljónum meintra kommúnista á einu ári. 

Þess utan má vel kenna nasismann við hægristefnu, nasistar þjóðnýttu ekki naglaspýtu, einkafyrirtæki á borð við I.G. Farben stórgræddu á vinnuafli þræla sem SS leigði þeim (sjá t.d. Kitchen 1976).

Hitler átti það til að vegsama einkarekstur   þegar sá gállinn var á honum, nánar tiltekið „hið eilíft skapandi einkaframtak“ („…det evigt skabende, private Enkeltinitiativer“) (Hitler 1935: 11). Um morðæði nasista þarf ekki að fjölyrða.

Stjórn Pinochets kann að hafa verið skárri en sú argentínska,  og örugglega skárri en sú nasíska.

En Pinochet virðist hafa verið  þrælspilltur og auðgast með ólögmætum hætti á valdaskeiði sínu.

Alla vega má sjá að hægrimenn eru engir eftirbátar kommúnista hvað blóðþorsta varðar. Eins og Mercutio segir í Rómeó og Júlíu Shakespeares "A plague on both your houses!"

Lokaorð

Þótt stjórn Allendes væri engan veginn hafin yfir gagnrýni réttlætir það ekki afskipti Kana, valdaránið og kúgunina i kjölfari þess.

Tilraun frjálshyggjumanna til að skjóta skildi fyrir Pinochet misheppnast, örvar sannleikans fljúga í gegn.

 

Heimildir:

 

Biblían, Fyrri Samúelsbók 18 kafli https://biblian.is/biblian/fyrri-samuelsbok-18-kafli/

Hitler, Adolf  1935: Lighed giver fred (þýðandi  Clara Hammerich): København: Hasselbalch.

Kitchen, Martin 1976: Fascism. London: MacMillan Press.

Klein, Naomi 2007: The Shock Doctrine. Harmondsworth: Penguin.

Moene, Kalle 2007: ”Ubrukelige utopier”, Morgenbladet, 5 október.

Pettit, Philipp 1997: Republicanism. A Theory of Freedom and Government. Oxford: Oxford University Press.

Sallas, Renee 1981: “Friedrich von Haeyk, Leader and Master of Liberalism”, El Mercurio, 12. apríl, http://www.fahayek.org/index.php?option=com_content&task=view&id=121&Itemid=0. Sótt 3/9 2010.

Stefán Snævarr 2011: Kredda í kreppu. Frjálshyggjan og móteitrið við henni. Reykjavík: Heimskringla.

Steinn Steinarr  1991: “Að sigra heiminn”, Ljóðasafn. Vaka-Helgafell: Reykjavík, bls. 164.

Stiglitz, Joseph 2002: Globalization and its Discontents. Harmondsworth: Penguin Books.

Opinber bandarísk gögnhttps://nsarchive2.gwu.edu/NSAEBB/NSAEBB8/nsaebb8i.htm

Opinber bandarísk gögnII: https://history.state.gov/milestones/1969-1976/allende

https://en.wikipedia.org/wiki/Crisis_of_1982

https://abcnews.go.com/International/story?id=82588&page=1

https://en.wikipedia.org/wiki/Presidency_of_Salvador_Allende

https://en.wikipedia.org/wiki/Dirty_War

https://www.hrw.org/news/2005/03/16/chile-pinochet-money-laundering-exposed

https://en.wikipedia.org/wiki/Rafael_Trujillo

 


Hús íslenskunnar brennur! Hvar er brunaliðið?

Hús íslenskunnar brennur, brennuvargarnir standa hlæjandi hjá. Skammt frá getur að líta smávaxna, netta konu sem sargar fiðlu af ákafa.

Hver skyldi hún vera? Auðvitað Katrín Jakobsdóttir, íslenskufræðingur og forsætisráðherra,  sem ekki lyftir litlafingri til að slökkva eldinn. Leikur á fiðlu í stað þess að stofna brunalið.

Tölum tæpitungulaust: Hún lætur það viðgangast að flugstöðin í Keflavík sé alenskuvædd þótt íslenska sé samkvæmt lögum ríkistunga Íslands.

Eins og það væri ekki nóg hafði sendráðið í Ósló eingöngu leiðbeiningar um kosningar á ensku, síðast þegar ég kaus þar árið 2016.  

Þetta er ekkert annað en enskuheimska, skilningsleysi á því að aðeins örfáir kjósenda skilja ekki íslensku  og er þess utan lögbrot. Það skrifast tæplega á reikning Katrínar enda var hún ekki forsætisráðherra þá.

Enda  á hún ekki einkarétt á andvaraleysi og virðingarleysi fyrir lögum, borgarstjórn lætur það viðgangast að á Hverfisgötu sé skrifað „Bus only“, ekki stafur á ástkæra, ylhýra.

Utanríkisráðherra  sættir sig við að honum  sé sent bréf á ensku frá samtökum atvinulífsins, undirrituðu af Andrési nokkrum Magnússyni.

Ráðherrann  átti auðvitað að senda sorabréf þetta tilbaka og krefjast tilskrifs á íslensku. Þýða þessar  bréfaskriftir  að samtök  atvinnurekenda  skipi sér í sveit brennuvarganna, mállandráðamannanna?

Viðskiptaráð hefur alltént löngum verið enskumennskunnar megin, sett t.d. á laggirnar svo til alenskuvæddan háskóla. Og businesstossum  í hópi veitingahúsaeigenda   þykir ekkert sjálfsagðara en að hafa fólk í vinnu sem ekki skilur bofs í íslensku og jarmar á einhverri gerviensku.

Setja ber í lög að enginn fái að starfa á veitingahúsi nema geta a.m.k. afgreitt einfaldar pantanir á íslensku.

En ósanngjarnt væri að segja að allir atvinnurekendur og fjárfestar séu brennuvargar, Heiðar Guðjónsson, viðskiptamaður,  talar máli íslenskunnar í viðtali. Hafi hann þökk fyrir.

Annað dæmi um enskumennsku er sú ráðstöfun hins árlega  Opna Reykjavíkurskákmótsins að hafa heimasíðuna bara á ensku. Annars staðar í heiminum þykir sjálfsagt að heimasíða skákmóta sé líka á móðurmálinu.

Sama er uppi á teningnum hvað varðar íslensk skákfélög og þátttöku þeirra í alþjóðamótum. Þar þýða þau nöfn sín á ensku, Víkingaklúbburinn kallar sig „Vking Chess Club“ og Taflfélag Akureyar „Akureyri Chess Club“.

Af hverju ekki þýða "Akureyri"  og kalla félagið „Field Peninsula Chess Club“?

Af hverju þýða skákmennirnir ekki nöfn sín? Íslensk nöfn eru ekkert smávegis erfið fyrir útlendinga, Helgi Áss gæti kallað sig „Holy Hill“.

Að gamni slepptu þá þýða engin önnur skákfélög í heiminum heiti sín.  Norskt félag kallar sig Offerspill og þýðir ekki heiti sitt, þýsku félögin kallast Schachvereine og þau slafnesku halda sínum slafnesku nöfnum, t.d. hið sigursæla Novy Bor.

Þetta er ekkert annað en sveitamennska og enskusnobb hjá íslenskum skákmönnum. Njóti starfsemi þeirra ríkisstyrkja ber að afnema þá nema þeir bæti ráð sitt.

Halló var það, heillin!

En vandinn er djúptækari en svo að hann verði leystur með lagasetningu. Sagt er að sannleikann heyri menn helst  úr munni barna.

Þessu til sannindamerkis skal sagt að tólf vetra drengstauli mun hafa sagt í fjölmiðlum að íslenska væri hallærisleg og enginn tæki hana alvarlega. Halló var það heillin!

Stubbur vill verða stór, gjamma á ensku eins og kúla liðið í Hollywood, „má ég ekki mamma með í leikinn þramma“.

Með þessu afhjúpað strákskömmin hið sanna eðli mállandráðastefnunnar, óttinn við að vera halló er ástæða þess að galað er um nauðsyn þess að leggja móðurmálið niður (af hverju hugsa ég hlýlega til flenginga?).

Nefna má að sama er upp á teningnum í Noregi og sjálfsagt víða um lönd. Í grein í norska blaðinu Aftenposten var sagt að norsk börn lifðu í heimi sem væri að miklu leyti enskumælandi. Mörg þeirra væru jafnvel betri í ensku en norsku. Sælt er sameiginlegt skipbrot.

En Norðmenn eru ekki eins mikið fyrir að hlaupa á eftir tískunni og Íslendingar, ekki eins hræddir við að vera hallærislegir.

Fáar þjóðir eru haldnar annarri eins tískugræðgi og Íslendingar, samanber það sem áður um hallóóttann.

  Tískuhyskinu finnst ekkert sjálfsagðara en að  fórna öllu  fyrir tískuna, þ.á.m. stórmerku, meira en þúsund ára gömlu máli.

Takist mállandráðamönnum að farga íslenskunni verður það í fyrsta sinn í sögunni sem tungumál líður undir lok vegna þess að mælendur þess óttast að vera hallærislegir.

Taki þjóðin að gjamma ensku þá mun hún aldeilis tolla í tískunni, „hugsar“ mállandráðahyskið.  

Sitthvað um ensku og efnahag

Þessi ótti er dulbúinn með græðgisrökum, blaðri um að dýrt sé að tala ástkæra ylhýra (ég hef áður hrakið  „rökin“ fyrir þessu og nenni ekki að endurtaka þau hér).

Mállandráðafólin halda að Íslendingar geti án erfiðleika breyst úr ljótum íslenskumælandi andarunga í fagran enskugjammandi svan.

Það er tóm tjara, það myndi kosta ógnarmikið að enskuvæða landið, t.d. yrði að flytja inn kennara í stórum stíl frá enskumælandi löndum þar eð fæstir íslenskir kennarar eru nógu gsleipir  í ensku til að kenna á þeirri tískuflottu tungu.

Einnig yrði að moka íslenskum bókum á haugana í stórum stíl, o.s.frv.

Þess utan gerir tækniþróunin að verkum að enska er ekki eins mikilvæg og hún var fyrir fáeinum áratugum. Nú geta menn talað saman með þeim hætti að báðir nota sitt eigið tungumál en tölvuforrit þýða jafnharðan það sem þeir segja.

Hið sama gildir um skýrslur og reglugerðir, þýða má þær á hvaða mál sem vera skuli með fulltingi forritanna.

Því má heldur ekki gleyma að hið eiginlega alþjóðamál er ekki  alvöruenska heldur glópamál (e. Globish) e.k. einfölduð viðskipta-enska sem vart stendur undir nafni.

Til að standa sig vel á alþjóðamarkaði nægir að kunna glópamálið, alvöruenska er óþörf.

Í ofan á lag bendir margt til þess að það hægist á hnattvæðingunni, hún  sé jafnvel að stöðvast, m.a. vegna þess að einræðisherrar hafa nýtt sér alheimsverkaskiptingu með því að nota það sem þeir stjórna af hráefnum og öðru til að þrýsta á aðrar þjóðir.

Nægir að nefna olíuvald rússneska einræðisherrans og það hvernig hinn kínverski starfsbróðir hans hótar þjóðum með efnahagsþvingunum.

Nú er talað um „vinavistun“ (e. friendsourcing), ekki útivistun þar eð hættulegt kann að vera að útivista til fjandsamlegra ríkja.

Enskan hefur hingað til verið mál hnattvæðingar, stöðvist hún verður goðtungan ekki eins mikilvæg og  áður.

Þess utan gæti annað tungumál tekið yfir sem mál hnattvæðingar, haldi hún áfram. 

Ekki skal útiloka að Kínverjar  verði forystuþjóð í efnahagslífi heimsins, þrátt fyrir margháttuð vandkvæði í kínversku efnahagslífi  þá mun landið hafa tekið forystu á 37 af 44 megintæknisviðum.

Sviðum þar sem Bandaríkin voru áður ríkjandi.  Það gæti skipt sköpum, leitt til þess að kínverska verði alþjóðatunga og taki við af enskunni. Á þá að kínverskuvæða Ísland?

Nefna má að eitt norskt rafeindafyrirtæki ber heitið Freyr, annað Loke (Loki), bæði fornnorræn heiti. Samt (eða þess vegna) gera þau það gott alþjóðlega.

En sveitalubbarnir íslensku halda að ekki sé hægt að ná alþjóðlegum árangri nema að skíra fyrirtæki sín enskum nöfnum, samanber sveita-ensku-mennska  skákmannanna.

Ekki syngur Sigur Rós á ensku en nýtur samt alþjóðlegrar frægðar. Og stundum skrifar Björk á íslensku á plötuumslög, syngur jafnvel á því lummulega máli.

Hún er tuttuguþúsundsinnum frægari en enskusnobbhænsnin meðal íslenskra poppara.

Enska er því ekki sú  mikla ávísun á frægð og frama sem ensku-heimskingjarnir halda.

Bæta má við að væri enska ávísun á efnahagsárangur þá væru enskumælandi lönd á borð við Jamaíku og ýmis lönd í Afríku þrælrík. En þau eru bláfátæk.

Ekki má gleyma efnahagserfiðleikum Breta og Bandaríkjamanna, vestanhafs hafa raunlaun á unna klukkustund staðið í stað um alllangt skeið. Um vandkvæði Breta þarf ekki að fjölyrða.

Enska er augljóslega ekki konungsleiðin að góðum kjörum hvað sem mállandráðahyskið kann um það mál að halda.

Vandinn og tillögur til úrbóta

Annar meginvandi er athafnaleysi hinna málhollu og meintra þjóðernissinna.

Þeir síðarnefndu hamast gegn Litháum og lituðu fólki en virðast ekki hafa neinar áhyggjur af  framtíð tungunnar.

Þeir  fyrrnefndu láta sér nægja að stunda harmtölur um bága stöðu íslenskunnar en gera ekkert til að bæta hana, stofna ekki brunalið.

Don Kíkotar í hópi málvöndunarsinna heyja stríð við vindmyllur þágufallssýki  meðan hús málsins fuðrar upp.

Þessu  verður að breyta,  setja ber  brunalið á laggirnar. Liðsmenn þess verða að vera óhræddir við að bjóða brennuvörgunum byrginn.  Skipuleggja ber sniðgengi við fyrirtæki í eigu þeirra, pólitíkusum  sem ekki standa sig í stykkinu skal refsað í kjörklefa.

Beita má slaufun og skítastormi ef ekkert betra býðst.

Kæra ber opinberar stofnanir sem ekki virða mállandhelgina, lögin um ríkistunguna. Berjast verður fyrir skýrri löggjöf og fyrir því að farið verði að lögum.

Eins og áður segir ber helst að lögfesta að erlent starfsfólk kunni nóg í íslensku til að afgreiða pantanir og annað slíkt.

Ríkinu ber að sjá um námskeiðahald í slíkri lágmarks-íslensku. Setja ber í lög að matseðlar skuli líka vera á íslensku.

Starfsemi sem aðeins fer fram á ensku skal ekki fá eyri af almannafé, samanber það sem segir um enskuheimsku skákheimsins „íslenska“.  

En umfram allt verður að efla íslenskukennslu í skólum, málhollir foreldrar, afar og ömmur verða líka að gera sitt.

Lokaorð

Að lokum: Niður með brennuvargana! Burt með mállandráðapakkið,  tískuhyskið og enskusnobbhænsnin! Slökkvið eldana nú, annars mun hús íslenskunnar fuðra upp! Meðan ég man: Katrín, hættu að sarga andskotans fiðluna!


Er þróunaraðstoð af hinu illa?

Frjálshyggjumenn bölva þróunaraðstoð og segja hana hafa ill áhrif á efnahagslíf viðtakenda, hversu göfug sem markmið hennar kunni að vera.

Ástæðan sé sú að hún auki spillingu og dragi úr vilja viðtakanda til að bæta kjör sín.

Þeir benda á að land eins og Tansanía hafi fengið mikla þróunaraðstoð en standi samt efnahagslega í stað.

En hvernig hyggjast þeir skýra þá staðreynd að Marshallaðstoðin við Evrópuríkin svínvirkaði? Hún var ekkert annað en þróunaraðstoð.

Eða aðstoð Bandaríkjamanna við uppbyggingu Japans eftir stríðið? Eða aðstoð þeirra við Pólverja eftir lok kaldastríðsins fyrra?

 Nú kann einhver að segja að þessi lönd hafi ekki verið vanþróuð og því sé aðstoð við þau ekki réttnefnd þróunaraðstoð.

Tævan og Suður-Kórea

En Tævan og Suður-Kórea voru í hæsta máta vanþróuð,  fengu mikla þróunaraðstoð og iðn- og nútímavæddust ógnarhratt.

Það þrátt fyrir eða vegna þess að þau ráku takmarkaðan áætlunarbúskap um alllangt skeið, þvert gegn forskriftum frjálshyggjunnar. 

Hannes  Gissurarson fékk þá flugu í höfuðið að þessi lönd hafi ekki notið þróunaraðstoðar (Hannes 1997: 294). 

Það er rangt, Tævan naut  talsverðrar aðstoðar til 1965 þegar landið „útskrifaðist“ úr þróunarskólanum. Landið er sagt hafa  fengið einn og hálfan milljarð Bandaríkjadala í aðstoð frá BNA (Cullather 1996: 1-26).

Breska dagblaðið The Guardian segir að Suður-Kórea  hafi á árunum 1946 til 1978 þegið 60 milljarða bandaríkjadala frá Bandaríkjunum, ýmist mynd beinnar aðstoðar eða lána.

Á sama tíma hafi þróunaraðstoð BNA við Afríku numið 68 milljörðum dala.

Blaðið segir að Suður-Kóreumenn hafi kunnað með féð að  fara, þeir hafi notað það skynsamlega (The Guardian 28/11 2011).  Suðurkóreskur fræðimaður tekur í sama streng (Lee 2017).

Einræðisherrann suðurkóreski, Park Chung-Hee, var harður í horn að taka en öldungis óspilltur. Hann notaði því þróunarstoðina skynsamlega, til að þróa efnahagslífið. Í dag er landið eitt af ríkustu þjóðum heims. 

Gagnstætt fyrirrennara sínum, Syngman Ree, en sá var gjörspilltur, þróunaraðstoðin lenti í vösum hans og fylgiliðs, landið dróst aftur úr Norður-Kóreu.

Lokaorð

Sem sagt, þróunaraðstoð virkar illa sé viðtakandi spilltur en getur haft jákvæðar  afleiðingar sé hann óspilltur.

Alla vega má sjá hér að þessi kredda frjálshyggjunnar á ekki við rök að styðjast.

Heimildir:

Cullather, Nick 1996: „Fuel for the Good Dragon“: The United States and Industrial Policy in Taiwan, 1950-1965“, Diplomatic History, Volume 20, Issue 1, janúar, bls. 1–26.

Hannes H. Gissurarson 1997: Hádegisverðurinn er aldrei ókeypis. Reykjavík: AB.

Lee, Sung 2017: „From Aid to Trade: How US Aid to South Korea is a Model for Foreign Assistance“, US Global Leadership Coalition.

https://www.usglc.org/blog/from-aid-to-trade-how-south-korea-is-a-model-for-u-s-foreign-assistance/   Sótt 29/12 2022.

 


Hannes um Hayek

Hannes Gissurarson varð sjötugur á dögunum og óska ég honum til hamingju, ég fylgi í humátt á eftir, næ sama áfanga í október.

Við Hannes höfum oft deilt á síðustu áratugum en einatt í góðu. Ég játa að ég hef lært ýmislegt af honum, þegar hann tók að boða markaðsstefnu vissi ég vart hvað markaðskerfi var.

Gallinn er sá að Hannes og frjálshyggjumenn ganga of langt í markaðstrú, þeir hafa þess utan hneigð til persónudýrkunar og bókstafstrúar eins og marxistar.

Þessar veilur koma fram í bók Hannesar Twenty-Four Conservative Liberal Thinkers, ekki síst í umfjölluninni um nóbelshagfræðinginn Friedrich August von Hayek (Hannes 2020: 99-185).

Hannes dylur ekki aðdáun sína á manninum Hayek og virðist ekki hafa neitt út á kenningar hans að setja.

Hayek er kannski frægastur fyrir að þróa áfram kenningu Ludwigs von Mises um að áætlunarbúskapur gæti ekki verið efnahagslega hagkvæmur og væri leiðin til ánauðar.

Skal þessi kenning gaumgæfð og gagnrýnd hér. Hún er ekki eins heilög og Hannes telur þótt viss sannleikskjarni sé í henni.

                                            

Hin meinta eymd áætlunarkerfisins

 

Altækt áætlunarkerfi geti ekki virkað þegar til lengdar lætur, sögðu þeir Mises og Hayek.

Mises hélt því fram að áætlunarkerfið gæti ekki haft neinn mælikvarða fyrir skynsamlegri tilhögun framleiðslu, ráðamenn yrðu að renna blint í sjóinn.

Gagnstætt því virkaði verðkerfið sem upplýsingarmiðill í markaðskerfi, mikil verðlækkun getur t.d. verið merki um offramboð á tiltekinni vöru.

Áætlunarkerfið hafi  ekki upp á bjóða neinn viðlíka upplýsingamiðil, ráðamenn þess lags kerfis yrðu að renna blint í sjóinn með efnahagslegar ákvarðanir (Mises 1922: 118-123).

Í markaðskerfi sé  verðmyndun eins og mælitækin sem skipstjóri notar til að stýra skipi sínu. Áætlunarkerfið sé eins og skip án mælitækja, skip sem hlýtur að reka stjórnlaust.    

Forsenda þess að áætlunarkerfið virki er að þeir sem gera áætlanirnar séu alvitrir, hafi fullkomna yfirsýn yfir alla þætti hagkerfisins.

En enginn er alvitur,  þess vegna muni áætlanakerfið eiga við mikinn upplýsingavanda að stríða (t.d. Ólafur 1978: 79-90 og víðar).

Hayek og Harold Robbins bættu við boðskap Mises því  að áætlunargerðarmenn  yrðu að leysa milljónir af stærðfræðijöfnum til að geta gert áætlun sem virkar en það sé ekki mögulegt (þetta var skrifað fyrir daga tölvunnar) (Hayek 1940: 127-128).

Þeir  töluðu um „reiknivanda“ (e. problem of calculation) áætlunarkerfisins. En atferli markaðsgerenda á frjálsum markaði komi  fyllilega í staðinn fyrir útreikningana (samkvæmt t.d. Hannesi 1988: 59-67 og Mason 2015: 226).

Gagnstætt þessu muni áætlunarkerfið eiga mjög erfitt með að safna efnahagslegum upplýsingum.

Hayek bætti við að ekki væri hægt að smætta alla hagræna þekkingu í vísindaþekkingu sem nýst gæti áætlunargerð.

Vísindaleg þekking sé  þekking á almennum lögmálum en drjúgur hluti hagþekkingar sé þekking á einstökum staðreyndum.

Nánast allir gerendur í hagkerfinu búi  yfir þekkingu af því tagi, þekking sem þeir einir búa yfir. Hagræn breytni þeirra grundvallist að miklu leyti á slíkri þekkingu á því einstaka sem einstaklingurinn einn búi yfir.

Verðkerfið sjái til þess að samræma gjörðir þeirra, það án þess að neinn einn aðili búi yfir allri þessari þekkingu  (Hayek 1945: 519-530).

Alla vega eru til mýmörg dæmi um að altækur áætlunarbúskapur sé ekki efnahagslega hagkvæmur.

Sovéski áætlunarbúskapurinn var kannski ekki alveg altækur en alla vega mjög umfangsmikill. Sovétríkin lögðu allt kapp á að nota Aralvatnið til að vökva bómullarekrur í hinni sovésku Miðasíu, þetta voru stórfelldar framkvæmdir.

En hinar ófyrirséðu afleiðingar voru að vatnið þurrkaðist nánast upp með skelfilegum afleiðingum fyrir fólkið sem bjó við strendur þess („The History of the Aral Sea“).

Frjálshyggjumenn  bæta við að erfitt sé að sjá hvernig hið altæka áætlunarkerfi geti verið lýðræðislegt og boðið upp á valddreifingu.   

Ekki sé hægt að framkvæma áætlunina nema öllu samfélaginu verði gert að fylgja henni út í ystu æsar, slíkt er ekki samrýmanlegt valddreifingu. Í ofan á lag verði áætlunarráðið að geta gefið fyrirskipanir um hvað framleiða skyldi.

Lýðræðisleg ákvarðanataka yrði mjög þunglamaleg í slíku kerfi, hugsanlega gæti hún leitt til algers öngþveitis.

Af tveimur slæmum kostum hæfi einræði áætlunarkerfinu skár en lýðræði.

Skárra sé að hafa altækt áætlunarkerfi en blöndu af áætlunar- og markaðskerfi. Í nútíma samfélagi séu  allar gerðir efnahagsstarfsemi samofnar, þannig að áætlunargerð myndi varla virka ef áætlunarkerfið væri ekki altækt.

Ekki nóg með það, lýðræðislegur meirihluti í kerfi án einkaeignaréttar gæti kúgað minnihlutann allhressilega (sjá t.d. Hayek 1976 og Ólaf 1978: 144-145).  

Eins og  Lev Trotskí sagði þá getur samfélag, þar sem ríkið er eini vinnuveitandinn, einfaldlega svelt stjórnarandstöðuna í hel. Enda svelti Stalín úkraínska bændur í hel í milljónatali.

Ástæðan fyrir þessum hremmingum áætlunarbúskaparins sé sú að markaðskerfi og einkaeignaréttur séu nauðsynlegar  forsendur  frelsisréttinda (e. liberties) og lýðræðis, segja frjálshyggjumenn  (t.d. Ólafur 1978: 93 og víðar).

Að hyggju frjálshyggjumanna flokkast tjáninga-, félags- , athafna- og búsetufrelsi undir frelsisréttindi og frelsi skilgreina þeir sem fjarveru tálmana, það að enginn hindri menn í að breyta með hætti sem ekki skaði aðra.

Þeir leggja áherslu á að markaðskerfi og einkaeignaréttur séu nauðsynlegar  en ekki líka nægjanlegar,  forsendur frelsisréttinda og lýðræðis. Það þýðir að markaðssamfélag kann að lúta einræðisstjórn sem takmarkar sum frelsisréttindi.

 

                  Veilur kenningarinnar

 

Hér er margs að gæta: Spyrja má hvort tölvukerfi nútímans geti ekki leyst milljónjöfnuvanda áætlunarkerfisins, þau fara létt með að leysa milljón jöfnur á örskömmum tíma.

Auk þess er kenningin um að frjáls markaður og einkaeignaréttur sé forsenda frelsis og lýðræðis  ónæm fyrir afsönnunum, óhrekjanleg. 

Ástæðan er sú að þótt það gerist hvað eftir annað í markaðssamfélögum  að lýðræði og ýmis frelsisréttindi séu virt að vettugi þá má ævinlega bjarga kenningunni fyrir horn með því að benda á að tilvist markaðssamfélags sé bara nauðsynleg en ekki líka nægjanleg forsenda fyrir þessum réttindum.

Sé hrekjanleiki kennimark góðra kenninga þá er þessi kenning ekki ýkja góð. Frjálshyggjumenn geta huggað sig við þá staðreynd að vísindaheimspekingar deila um það.

Einnig má spyrja  hvað átt sé við með  „nauðsynleg(t)“. Tæpast er um að ræða röklega nauðsyn því staðhæfingin „markaðskerfi er forsenda frelsisréttinda og lýðræðis“ er ekki röklega sönn.

Henni er hægt að neita án þess að maður lendi í mótsögn við sjálfan sig. Gagnstætt því er mótsagnarkennt að neita því að piparsveinar séu ógiftir menn.

„Piparsveinn“ merkir það sama og „ógiftur maður“, að segja rangt að piparsveinar séu ógiftir menn er jafngildi þess að segja „ógiftir menn eru ekki ógiftir“. Það er mótsagnarkennd staðhæfing.

Því  má ljóst vera að staðhæfingin „piparsveinar eru ógiftir menn“ er röknauðsynlega sönn. Hún merkir það sama og „ógiftir menn eru ógiftir menn“.

Segi ég „markaðskerfi er ekki nauðsynleg forsenda frelsisréttinda og lýðræðis“ þá lendi ég ekki mótsögn við sjálfan mig. Ástæðan er sú að „markaðskerfi“ merkir ekki það sama og „nauðsynleg forsenda frelsisréttinda og lýðræðis“.

Er þá staðhæfingin nauðsynlega sönn í krafti reynslu? Ósköp fátt, ef eitthvað, er nauðsynlega satt í krafti reynslu.

Það eru reynslusannindi að sólin bræðir vax en þau sannindi eru tæpast nauðsyn. Við getum hæglega gert okkur í hugarlund mögulegan heim þar sem sólin herðir vaxið.

Við getum líka ímyndað okkur mögulegan heim þar sem til er sósíalískt lýðræðislegt,  altækt, áætlunarkerfi og borgarnir njóta allra frelsisréttinda.

Nauðsyn er það sem hlýtur að gilda í öllum mögulegum heimum en svo er ekki um þá meintu nauðsyn sem hér ræðir. Því er ekki hægt að sjá að markaðskerfi sé nauðsynleg forsenda frelsisréttinda og lýðræðis.

Staðhæfingin “markaðskerfi er nauðsynleg forsenda frelsisréttinda og lýðræðis” er raunhæfing rétt eins og staðhæfingin ”sólin bræðir vax” (sjá svipuð rök hjá   Þorsteini Gylfasyni  1998: 277-310).

Raunhæfingar eru fallvaltar, reynslan ein ræður hvort þær eru sannar eða ósannar og sannleikurinn liggur ekki á lausu.

Nú kann frjálshyggjumaðurinn að malda í móinn og segja að hingað til hefur reynslan bent til þess að staðhæfingin “sólin bræðir vax” sé sönn.

Hann gæti bætt við að reynslan bendir til þess að þyngdaraflið sé nauðsynleg forsenda þess að menn tolli á jörðinni. Hið sama gildi um markaðskerfið, án þess  engin  frelsisréttindi  og ekkert lýðræði.

Vandinn er sá að frjálshyggju-staðhæfingin getur ekki skýrt hvers vegna Pólverjar gátu haldið frjálsar kosningar árið 1989 þótt ríkið ætti enn obbann af atvinnutækjunum. Ríkið átti enn um 80-90% efnahagskerfisins (um þessar kosningar, sjá Lipton og Sachs 1990: 293-341).

Telja verður tjáningarfrelsi meðal frelsisréttinda. Umbótastjórn Alexanders Dubcek í Tékkóslóvakíu kommúnismans ruddi  öllum hindrunum úr vegi fyrir tjáningarfrelsi og skapaði  opið samfélag þótt enginn væri markaðurinn og atvinnurekstur nánast algerlega í höndum hins opinbera (um  umbætur Dubčeks sjá t.d. Sik 1969: 23-30 og Leif  Reynison 2019: 65-79).

Ekki reyndist Gorbasjov heldur erfitt að stórauka tjáningarfrelsi í Sovét þótt ekki breyttist hagkerfið með róttækum hætti.

Auk heldur komu Bretar á eins konar  sósíalisma á dögum síðari heimsstyrjaldar án þess að frelsisréttindi yrðu skert að ráði, einvörðungu að því marki sem nauðsynlegt var vegna styrjaldarinnar. Bretlandi hélt áfram að vera réttarríki  (t.d. Wootton 1945: 35).

Einkafyrirtæki voru sveigð undir vald ríkisins sem skammtaði nauðsynjavöru.

Bandaríkjamenn gengu ekki alveg eins langt í átt til sósíalisma á stríðsárunum en samt ríkti ríkið yfir hagkerfinu (t.d. Krugman 2007: 51-53). Þrátt fyrir það fóru fram frjálsar kosningar í landinu, það hefði tæpast átt að geta gerst samkvæmt formúlum frjálshyggjunnar.

Barbara Wootton benti á að áætlunarbúskapur þyrfti ekki að vera altækur, gagnstætt því sem frjálshyggjumenn töldu.

Áætlunargerðarmenn geti látið sér nægja að gera rammaáætlanir fyrir hagkerfið. Slíkt áætlunarkerfi væri tæpast ógnvaldur við frelsisréttindi og lýðræði (Wootton 1945). 

Skólabókardæmi um takmarkað áætlunarkerfi er  kerfi þar sem notast er við bendiáætlanir (e. indicative planning). Valdhafarnir gefa ekki beinar fyrirskipanir um hvað framleiða skuli en gera vissa kosti meira aðlaðandi aðra, dekstra gerendur til að kjósa þá.

Tækin til þess arna er skattastefna, opinber stuðningur o.s.frv. Þessum bendiáætlunum hefur einungis verið beitt í samfélögum þar sem einkaeign og markaðskerfi hafa verið ríkjandi (t.d.  Nielsen 2008).   

Frakkar og Norðmenn gerðu  bendiáætlanir í stórum stíl  á fyrstu eftirstríðsárunum án þess að frelsisréttindi yrðu skert að ráði og án þess að lýðræðið færi fjandans til.

Auk þess sýndi þetta takmarkaða áætlanakerfi engin  merki um að verða altækt (um norska áætlunarkerfið sjá Bergh 1993: 33-46). 

Suður-Kóreumenn stunduðu  takmarkaðan áætlunarbúskap frá 1962 til 1996  en gengu mun lengra en Frakkar og Norðmenn.

Til dæmis var smáfyrirtækjum skipað að sameinast og mynda risafyrirtæki þau sem chabol nefnast. Frægust þeirra eru Samsung og Hyundai (t.d. Heo, Jeon, H. Kom og O. Kim 2008). Einnig voru bankar þjóðnýttir (t.d. Harvey 2005: 107).

Samt hafði áætlunarkerfið ekki hneigð til að þenjast yfir allt efnahagskerfið. Og það kom ekki í veg fyrir sigur lýðræðisins austur þar á miðjum níunda áratugnum.

Í ofan á lag iðnvæddist Suður-Kórea hraðar en nokkuð annað land og komst á mettíma í hóp ríkustu þjóða heims.

Svipað gilti um Tævan, sem einnig hafði takmarkað áætlunarkerfi, en varð samt að fokríku lýðræðisríki.

Ekki er lýðræðinu fyrir að fara í Kína, þar hefur um nokkurt skeið verið takmarkaður áætlunarbúskapur sem svínvirkar efnahagslega, ekki hefur skort hagvöxt þar eystra.

En auðvitað gætu frjálshyggjumenn reynt að bjarga kenningu sinni fyrir horn með því að staðhæfa að þessum löndum hefði gengið enn betur hefðu þau ekki burðast með áætlunarkerfi.

Alla vega kæmi mér ekki á óvart þótt takmarkaður áætlunarbúskapur ætti best við í vanþróuðum ríkjum. Hann kann að vera gott tæki til þróunar, þó má ekki gleyma að Hong Kong fór leið markaðsfrelsis með góðum árangri.

Þrautalending frjálshyggjumanna kann að vera sú að segja að áætlanakerfið og ríkiseinokun atvinnutækja hafi valdið alræðisþróun kommúnistaríkjanna.

En það er engan veginn ljóst. Í  þessum ríkjum tók flokkurinn sér fyrst alræðisvald, þjóðnýtti svo fyrirtækin og kom að því loknu á áætlanakerfi. Sovéski kommúnistaflokkurinn  var orðinn alráða að kalla um 1920 en áætlunarbúskapur var ekki hafinn fyrr en árið 1928 (samkvæmt t.d. Deutscher 1966: 320). 

Engin tilraun var gerð til að lýðræðisvæða hann, fremur hið gagnstæða. Staðreyndin er sú að það hefur aldrei verið gerð alvarleg tilraun til að koma á lýðræðislegu, altæku  áætlunarkerfi.

Við getum því ekki verið viss um að  tilraunin sé dæmd til að misheppnast. 

 

                    Lokaorð

 

Frjálshyggjukenningin um að takmarkaður áætlunarbúskapur ógni frelsisréttindum, lýðræði og markaðskerfi er því röng  eftir öllum sólarmerkjum að dæma.

Þess utan virðist hann getað virkað ágætlega, alla vega undir vissum kringumstæðum.

Altækur áætlunarbúskapur er samþýðanlegur lýðræði og vissum frelsisréttindum, alla vega á stuttum tímabilum. Um hvort hann er það þegar til lengdar lætur skal ekki dæmt.

En hann getur nánast örugglega ekki verið efnahagslega skilvirkur.

Alla vega er engin ástæða til að taka áhættuna á að innleiða slíkt kerfi.

Ekki skal heldur útilokað að einhvers konar markaðskerfi og kerfi einkaeignaréttar sé betri trygging fyrir frelsi og lýðræði en báðar útgáfurnar af áætlunarbúskap.

Slíkt kerfi (að blönduðum markaðsbúskap meðtöldum) er örugglega skilvirkara en altækur áætlunarbúskapur og hugsanlega skilvirkara en takmarkaður áætlunarbúskapur.   

Hvað sem því líður verður ekki séð að áætlunarbúskapur hljóti að vera leiðin til alræðis og skýringin á kúgun í nafni kommúnismans. 

Það verður heldur ekki séð að takmarkaður áætlunarbúskapur hljóti að þenjast út og vera leiðin til fátæktar.

Reynsla Austur-Asíuríkjanna bendir til annars.

Hvort sem Hannesi og Hayek líkar það betur eða verra.

 

Heimildir

 

Bergh, Trond 1993: “Arbeiderpartiet og statens styrende hand”, Trond Nordby (ritstjóri): Arbeiderpartiet og planstyret 1945-1965. Oslo: Universitetsforlaget, bls. 33–46.

Deutscher, Isaac 1966: Stalin. A Political Biography. Harmondsworth: Penguin. 

Hannes H. Gissurarson 1988: Markaðsöfl og miðstýring. Reykjavík: Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar.

Hannes H. Gissurarson 2020: Twenty-Four Conservative Liberal Thinkers. Brussel: New Directions.

Harvey, David  2005: A Brief History of Neoliberalism. Oxford: Oxford University Press.

Hayek, Friedrich August 1940: “Socialist Calculation: The Competitive ‘Solution‘”, Economica New Series Vol 7, No. 26, maí. bls. 125–149.

Hayek, Friedrich August  1945: ”The Use of Knowledge in Society”, American Economic Review, XXXV, No. 4, september, s. 519–530.

Hayek, Friedrich August 1976:  The Road to Serfdom. London: Routledge & Kegan Paul.

Heo, Uk; Jeon, Houngcheul; Kim, Hayam; Kim, Okijin 2008: “The Political Economy of South Korea Economic Growth, Democratization, and Financial Crisis”. Maryland Series in Contemporary Asian Studies, Vol. 2008: No 2, Article 1.

Koenen, Gerd 2018: “Kein Plan“, Frank Werner (ritstj.): Marx und die Geburt des modernen Kapitalismus. Hamburg: ZEITGeschichte, bls. 54–55.

Krugman, Paul  2007:  The Conscience of a Liberal. London og New York: W.W. Norton & Co.

Leifur Reynisson  2019: „Vorið í Prag“, Tímarit máls og menningar, 1 hefti, bls. 65–79.

Lipton, David og Sachs, Jeffrey  1990: “Privatization in Eastern Europe: The Case of Poland”, Brookings Papers on Economic Activity, 2, s. 293–341, http://www.brookings.edu/about/projects/bpea/editions/~/media/Projects/BPEA/1990%202/1990b_bpea_lipton_sachs_summers.PDF. Síðast halað niður 1/10 2015.

Mason, Paul 2015: Post-Capitalism: A Guide to Our Future. New York: Farrar, Straus og Giroux.

Mises, Ludwig von  1922:  Die Gemeinwirtschaft. Untersuchungen über den Sozialismus. Jena: Verlag von Gustav Fischer. www.mises.de. Síðast halað niður  8/10 2011.

Nielsen, Klaus  2008:   “Indicative Planning”, The New Palgrave Dictionary of Economics. Second Edition. http://www.dictionaryofeconomics.com/article?id=pde2008_I000060. Síðast halað niður 13/8 2015.

Ólafur Björnsson  1978: Frjálshyggja og alræðishyggja. Reykjavík: AB.

Sik, Ota 1969:  Plan og marked. Markedsmekanismen i en sosialistisk planøkonomi. Þýð. Per Nestor. Oslo: Aschehoug.

Wootton, Barbara 1945:  Freedom under Planning. Chapel Hill: University of North Carolina Press.

Þorsteinn Gylfason 1998: Réttlæti og ranglæti. Reykjavík: Heimskringla. 

 

 „The History of the Aral Sea“, http://orexca.com/aral_sea.shtml. Sótt 4/11 2011.

 


Noam Chomsky, hinn ennnýi mandarín

Ég las bækur Noams Chomskys um Víetnamstriðið á unglingsárum og þótti góðar.

Eftirtektarverð þótti mér kenning hans um að stríðsreksturinn hafi markast að nokkru af trú áhrifamikilla menntamanna vestanhafs, hinna nýju mandarína,    á atferlisstefnuna (e. behaviorism) (mandarínar í Kína á fyrri öldum voru menntaðir skrifráðungar sem höfðu allmikil völd).

Samkvæmt þeirri stefnu er tómt mál að tala um viljafrelsi, athafnir manna séu skilyrtar af verðlaunum og refsingum. Þessir atferlistrúuðu mandarínar  hafi átt mikinn þátt í að marka stefnuna í Víetnamstríðinu.  

Þess vegna hafi Bandaríkjamenn reynt að skilyrða Víetnama en hunsað skoðanir þeirra, enda væru skoðanir ekkert annað en afurð skilyrðinga (Chomsky 1969).

Ekki skal dæmt um  ágæti þessarar greiningar en víst er um að hún er frumlegri en dólgamarxískur fúkyrðaflaumur Chomskys á síðustu áratugum.

Hvað sem því líður er Chomsky merkur málvisindamaður og hugfræðingur en eins og sjá má í þessari færslu er hann vægast sagt mistækur álitsgjafi og samfélagsrýnir.

Hann er hinn ennnýi mandarín vinstriöfgastefnu.

Hver er gagnrýnin? Hver vitnar mest í heimildir?

Chomsky á engan einkarétt á samfélagsgagnrýni vestanhafs, til eru mun betri og hógværari vinstrigagnrýnendur, t.d. Paul Krugman, Joseph Stiglitz, Robert Reich, George Lakoff, og jafnvel áróðursmaðurinn skemmtilegi, Michael Moore.

Gagnrýni er sumpart stofnanagerð þar vestra, Frank Church veitti rannsóknarnefnd um CIA forstöðu, nefndin gagnrýndi CIA harkalega og var tekið tillit til þeirrar gagnrýni. Sumir segja að Chufch hafi nánast vængstýft CIA.

William Fulbright, öldungardeildarþingmaður var fremur hægrisinnaður en gagnrýndi bandaríski utanríkisstefnu af nokkurri hind  í bókinni The Arrogance of Power.

Bandaríkin hafi tvær hliðar (sbr kenning mín um Janusinn ameríska), önnur frjálslynd og lýðræðisleg, hin einkennist af valdahroka og hann hafi haft slæm áhrif á utanríkisstefnuna (Fulbright 1967).

Reynslan hlýtur að skera úr hvor sé nærri sannleikanum, Fulbright eða Chomsky, nú eða þeir sem telja bandaríska utanríkisstefnu háheilaga.

Alla vega má spyrja hvort gagnrýni Fulbrights sé  nokkuð verri en stórkarlalegar yfirlýsingar Chomsky og fúkyrðaflaumur hans.

Sem dæmi um þennan leiða flaum má nefna  staðhæfingu hans um að Evrópuríki sem reyndu að fá Grikki til að borga skuldir hafi verið sadísk og að Ísrael pynti Gaza (Chomsky og Polychroniou 2017: 71). Einnig er hann kallar Bandaríkin „terroristaríki“ (Chomsky og Polychroniou 2017: 81)(Chomsky 2016: 198-201).

Hann á engan einkarétt á að vitna grimmt í heimildir, ekki vantar að gagnrýnendur hans í bókinni The Anti-Chomsky Reader geri slíkt (sjá t.d. neðamálsgreinar Anti-Chomsky 2004: 31-34 og miklu víðar).

Þeir bera á hann  „cherry picking“  á heimildum, einnig að tilvísanir hans í heimildir séu oft blekkjandi með þeim hætti að hann vitni í heimild hvers höfundur vitni í rit Chomskys sjálfs (Anti-Chomsky 2004:  48-49).

Ekki skal lagður dómur á síðarnefndu staðhæfinguna en sú fyrri um „cherry picking“ er sönn eins og síðar mun sjást.

Reyndar eru  And-Chomsky-höfundarnir næstum jafn drjúgir í fúkyrðaglamri og hann t.d. þegar þeir bera það á hann að hann sé „fifth-columnist of Islamic fascists“ (Anti-Chomsky 2004:  199).

Höfundar fara mikinn og lofsyngja bandaríska utanríkispóltík með sama ákafa og Chomsky fordæmir hana. Það er alla vega nóg af tilvísunum í heimildir í skrifum fræðilegra álitsgjafa til hægri, vinstri og í miðið.

Í bókinni The Empire vitnar hinn hægrisinnaði sagnfræðingur Niall Ferguson í allra handa  heimildir til að sanna þá staðhæfingu sína að Bretaveldi hafi fremur verið af hinu góða en hitt (Ferguson 2003).

Indverjinn Shashi Tharoor  vitnar í helling af heimildum til að sanna að Bretar hafi arðrænt og eyðilagt Indland (Tharoor 2017). Hvorum á að trúa?

C.J. Polychroniou,  sem tekur viðtalið við Chomsky í viðtalsbókinni Optimism over Despair,  segir að boðskapur hans sé ómótmælanlegur þar eð hann vitni í svo traustar heimildir (Chomsky og Poychroniou 2017: 1). Ó heilaga einfeldni!

Kórvillur Chomskys

Chomsky sagði 1977 að Rauðu khemarnir hefðu ekki framið þjóðarmorð (Chomsky og Herman 1977). Var það ómótmælanlega sönn staðhæfing,  byggð á traustum heilmildum? Þjóðarmorðið var afhjúpað af franska prestinum François Ponchaud eins fram kemur í bók hans Kambódía árið núll (Ponchaud 1978).

Nate nokkur Thayer segir að Chomsky þverskallist við að viðurkenna mistök sín, hann skuldi Kambódíumönnum afsökunarbeiðni (Thayer 2011).

Eins og nær má geta hella   höfundar Anti-Chomsky Reader úr skálum reiði sinnar yfir hann út af Kambódíuskrifunum  enda á hann ekkert annað skilið (Anti-Chomsky 2004: 16-28).

Chomsky segir  að Gorbasjov hafi verið lofað að NATÓ myndi ekki víkka út í austur (ekki nóg með það, útvíkkunin í austur hafi verið glæpur Clintons) (Chomsky og Polychroniou 2017: 16, einnig 36-37)(Chomsky 2016: 151).

Þetta er sannanlega röng staðhæfing, hafi Baker lofað Gorbasjov einhverju þá hefur hann lofað upp í ermina á sér. Hann hafði ekkert umboð til þess, slíkt umboð fæst bara ef öll aðildaríkin samþykkja það. Slík samþykkt um bann við útvíkkun NATÓs var ekki fyrir hendi og þar með ekkert umboð.

Chomsky talar eins og NATÓ sé tæki Kana og Evrópuríkin sitji og standi eins og þeir vilji. Af hverju gat þá Merkel komið í veg fyrir NATÓ aðild Úkraínu og Erdogan lengi hindrað aðild Svía?

Af hverju komast Erdogan og Orban upp með að neita að taka þátt í refsiaðgerðum gegn Rússum? Chomsky virðist ekki skilja það, hann segir að Clinton hafi stækkað NATÓ svo mikið að það hafi öðlast landamæri við Rússland (Chomsky 2016: 152).

En eins og sjá má er Bandaríkjaforseti ekki alvaldur í NATÓ þótt Chomsky og Pútín kunni að telja sér trú um það.

Meginvillur Chomsky varða annars vegar Kambódíu, hins vegar stækkun NATÓ og eðli þess þjóðþrifafélags (undirritaður kallar sig "NATÓ-krata").  Sen að sjálfssögðu er ekki hafið yfir gagnrýni. 

Chomsky og bandarísk utanríkisstefna 

Chomsky fordæmir að sjálfssögðu innrás Bandaríkjamannanna í Afganistan en nefnir ekki að hún leiddi til þess að staða kvenna batnaði mikið og lífskjör almennt bötnuðu.

Sameinuðu þjóðirnar hafa haldið því fram að 75% mannfalls í stríðinu hafi verið Talíban að kenna (heimild mín er frétt í BBC fyrir nokkrum árum).

Hann segir að nú fyrst séu ríki rómönsku Ameríku að losna undan ofurvaldi Kana (Chomsky og Polychroniou 2017: 80) En af hverju þjóðnýtti Mexikó-forseti amerísk olíufyrirtæki 1937 og leyfði Trotskí að setjast að í landinu í blóra við vilja Kana?

Peron var heldur ekki Könum vinsamlegur. Kannski áttu þeir þátt í að fella hann.

Chomsky  hamast gegn Marshallaðstoðinni á þeirri forsendu að hún hafi bara verið tæki hins illa ameríska heimsveldis. Kanar hafi gert sig seka um þá ósvinnu að gera veitingu aðstoðar háða því skilyrði að kommar fengu ekki að sitja í ríkisstjórnum.

Minnugur reynslu Tékka og Slóvaka  má segja að það hafi verið rétt af Könum að gera svo. Nefna má að Moskvukommar sátu í ríkisstjórn hins hernaðarlega mikilvæga Íslands 1944-7 og 1956-8 án þess að Bandaríkjamenn reyndu að hindra það. Voru hinir heimsvaldasinnuðu Kanar sofandi?

Chomsky nefnir ekki að Marshall-aðstoðin var Vestur-Evrópu mikil lyftistöng, einnig að hún var veitt m.a. af þeirri eigingjörnu ástæðu Kana að þeir vildu koma í veg fyrir samdrátt af því tagi sem varð vestanhafs eftir fyrri heimsstyrjöld. En aðstoðin þjónaði hagsmunum beggja aðila.

Hann halelújar um Kúbu Castros án þess að nefna þann mikla fjölda Kúbverja sem flúið hefur land (t.d. Chomsky 2015: 154-155). Í Svartbók kommúnismans segir (með réttu eða röngu) að Kúbukommar hafi stútað 30000 landa sinna (Courtois o.fl. 2009).

Ekki þýðir að segja að efnahagserfiðleikar þeirra stafi bara af hafnbanni Kana.  Rúmenía á dögum Ceausescus fékk stöðu jafna Vesturlöndum í viðskiptum við BNA, samt fór efnahagskerfið sömu leið og hið kúbverska.

Ekki eitt orð um þetta hjá Chomsky, ekki aukatekið  orð um það hvernig Sovét hélt Kúbu lengi gangandi með fjárhagsaðstoð. En það er  vissulega rétt hjá Chomsky að Kúba Castro hefur eitt og annað sér til afbötunar, t.d. gott heilbrigðiskerfi.

Samt má telja furðulegt að anarkistinn Chomsky skuli vera í því að bera blak af miðstýrðum kúgunarríkjum eins og Kúbu og Víetnam.

Hann segir að með utanríkisstefnu sinni grafi Kanar undan lýðræði hvarvetna. En komu þeir ekki á lýðræði í Þýskalandi, Japan og Írak? Af hverju þróuðust meint leppríki þeirra Tævan og Suður-Kórea í lýðræðisátt?

Skylt er að geta þess að Chomsky telur borgaralegt lýðræði ekki standa undir nafni enda vinstri-anarkisti (Chomsky og Polychroniou 2017: 25, 175-183).

Þótt margt ljótt megi segja um bandaríska utanríkisstefnu þá verður því vart móti mælt að þeir björguðu Suður-Kóreumönnum frá þeim ömurlegu örlögum að verða þrælar Kim-fjölskyldunnar í Pyongyang.

Einnig Bosníumúslimum og Kósovóalbönum frá serbneskum yfirgangi.

Og bjarga nú Úkraínumönnum frá þeirri skelfingu  að verða þrælar hins zarfasíska Moskvuvalds.

Væri lýðræði í Tævan núna ef Bandaríkjamenn hefðu ekki verndað landið gegn kínverskri ásælni? Án vopnasendinga frá Bandaríkjunum hefðu Sovétmenn tæpast sigrað innrásarher nasista (skv. Steinfeld 2022).

Heimildarfrömuðurinn mikli, Noam Chomsky, nefnir þetta ekki einu sinni í framhjáhlaupi.

Hins vegar er sannleikskjarni í gagnrýni hans á stuðning Bandaríkjamanna við valdarán í Íran 1953, Guatemala 1954, Indónesíu 1965 og Chíle 1973.

Og á  villimannlegan  stríðsrekstrar þeirra í Víetnam, refsiaðgerðirnar  gegn írökum og innrásina í land þeirra.

Samt fremur Chomsky þá meginvillu að alhæfa út frá þessum valdaráns-stuðningi, stríðsrekstri og öðru slíku  og hunsa aðrar staðreyndir um bandaríska utanríkispólitík. „Cherry-picking“ er hans líf og yndi.

Hann kennir Könum að sjálfsögðu um ISIS og fordæmir stríðið gegn hryðjuverkum (Chomsky og Polychroniou 2017: 18-24, 28-36). En athugar náttúrulega ekki að ráðist hefur verið inn í fjölda landa án þess að þar risi upp hreyfing eins og ISIS sem kom á þrælahaldi og trúarlegri ógnarstjórn.

Einhverjar rætur hlýtur þetta að hafa í menningu Miðausturlanda og vissum túlkunum á trúarbrögðum.

Chomsky gerir meira en að gefa í skyn að hin illa ameríska utanríkisstefna skilyrðist af hagsmunum auðvaldsins  (t.d. Chomsky 2016: 44-54).

En hvernig ber að skýra þá staðreynd að Bandaríkjamenn létu eiga sig að neyða Íraka til að einkavæða olíuiðnaðinn?

Amerísk fyrirtæki fengu vissulega rétt til að vinna olíu en gáfust flest hver upp á því vegna innanlandsástandsins (sem  var innrásinni að miklu leyti að kenna). Kínversk og rússnesk fyrirtæki fylltu í skarðið.

Reyndar segir Chomsky að Bush hafi ætlað Bandaríkjunum yfirráð yfir írösku olíunni en gefist upp á því vegna andstöðu Íraka (Chomsky 2016: 46).

Vandinn er sá að Chomsky virðist ekki skilja að Bandaríkjamenn hefðu brotið þá andstöðu á bak aftur ef sókn í olíu hefði verið aðalástæðan fyrir innrásinni. Þeir höfðu afl til þess arna.

Áður hefur komið fram að Kanar lyftu ekki litlafingri þegar Mexíkóar þjóðnýttu ameríska olíufyrirtæki. Hið alþjóðlega auðvald sætti sig líka við að Gaddafí þjóðnýtti olíuiðnaðinn sem ég held að hafa aðallega verið í höndum Breta.

Skylt er að geta þess sá ólíuiðnaður var ekki mjög þýðingarmikill. 

Hefðu olíuhagsmunir stjórnað utanríkisstefnu Bandaríkjann þá hefðu þeir stutt Araba gegn Ísrael. Ef landið hefði þau hreðjartök á Miðausturlöndum,  sem Chomsky telur það hafa, hefði olíubann Arabaríkjanna árið 1973 aldrei átt sér stað.

Ef heimsvaldasinnar og auðkýfingar réðu Bandaríkjunum algerlega og þar með þeirra utanríkisstefnu má spyrja hvers vegna Church komst upp með að vængstýfa CIA. Var auðvaldið í orlofi?

Chomsky virðist telja að Kanar séu arðræningjar í stríði fátækar þjóðir (skv. Anti-Chomsky 2004:  185)(Chomsky 2016: 153). Hvernig stendur þá á því að meint leppríki BNA Tævan og Suður-Kóreu eru ekki lengur vanþróuð heldur með ríkustu þjóðum? Af hverju er Katar ríkasta land heimsins?

Væri kenning Chomskys sönn  þá væru þessar þjóðir á heljarþröm.

Þýðir þetta að ég útiloki að efnahagshagsmunir geti haft áhrif á bandaríska utanríkisstefnu?

Nei, kannski ýtti  United Fruit Company undir valdaránsmenn  í Guatemala en bandarískir ráðamenn áttu þátt í því.

Kannski skiptu tengsl Dick Cheneys við Halliburton máli þegar Bandaríkjamenn réðust inn í Írak.

En af þessu má ekki draga þá ályktun að slíkir hagsmunir skipti jafnan máli þegar Bandaríkjamenn marka utanríkisstefnu. Ég held að efnahagsmunir séu fremur víkjandi en ríkjandi við þá stefnumörkun. 

Bandarískt samfélag 

Chomsky segir að í BNA sé fákeppni (e. oligopoly) (Chomsky og Polychroniou 2017: 81).  En honum láist að nefna að risafyrirtækin í Kísildal urðu til úr engu, skákuðu hressilega IBM sem hafði 50-80% markaðshlutdeild í tölvuiðnaðnum.

Reyndar er fyllsta ástæða til að vara við ofurveldi Kísildals og fákeppni í netbransanum, ég fæ ekki séð Chomsky geri það.

Kenning Chomskys um skapaðar sættir (e. manufactured consensus) er  ekki sannfærandi í ljósi hinna miklu flokkadrátta vestanhafs.  Hann telur að fjölmiðlar skapi þessar sættir enda sé þeim stjórnað af auðvaldinu.

En hvernig ætlar hann að skýra þá staðreynd að CNN og Fox News eru vart sammála um neitt? Vissi maður ekki betur gæti maður haldið að blaðamennirnir á þessum sjónvarpsstöðum lifðu í ólíkum heimum.

Bæta má við að Chomsky vitnar innfjálgur í skoðanakannanir í Araabaríkjum sem sýna andúð íbúanna á BNA og það án þess að spyrja hvort þær sættir séu skapaðar (e. manufactured)(Chomsky 2016). Án þess að spyrja hvort mikið sé að marka skoðanakannanir í einræðisríkjum.

Í Anti-Chomsky Reader segir að stóru  fjölmiðlafyrirtækin séu í eigu fjölda hlutabréfaeigenda, tæpast geti þeir allir verið millar (Anti-Chomsky 2004: 67-86).   

Hér mættu þessir gagnrýnendur íhuga hvort allur þessi fjöldi smá-hlutabréfaeiganda hafi mikið að segja, vel má vera að lítill hópur atvinnufjárfesta og forstjóra ráði mestu. Alla vega gagnrýnir Anti-Chomsky Reader þá kenningu hans að skemmtanaiðnaðurinn vestanhafs sé hliðhollur atvinnurekendum.

Einhver rannsókn sýni að yfirleitt sé viðskiptamönnum lýst með neikvæðum hætti í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum,  það sé þrisvar sinnum líklegra að þeir séu glæpamenn en venjulegt fólk (Anti-Chomsky 2004:  75).

Vandinn er sá að urmull er af rannsóknum um mannlegt atferli sem benda í mismunandi áttir, sjálfsagt má finna einhverja rannsókn sem bendir í öfuga átt.

Nýlega horfði ég á Simpsonþátt þar sem hæðst var að góðgerðarstarfsemi vestanhafs, henni lýst sem dulbúnu gróðabralli.

Í lok þáttarins segir hr. Burns að kominn sé tími til að skatta auðkýfinga almennilega og nota féð til að efla velferðarkerfið. Er þetta liður í sköpun hægrisátta?

Chuck Norris kann að hafa lagt henni lið. Í glæpaþáttum, sem hann "lék" í, notaði hann tækifærið til að boða trumpskar skoðanir löngu fyrir Trump.

Sýnir þetta ekki bara að allra handa viðhorf eru boðuð í bandarískri afþreyingu, kannski aðallega ekki-viðhorf?

Hvað sem því líður virðist kenning Chomskys undarleg í ljósi vinsælda hans eigin skrifa. Samkvæmt Anti-Chomsky Reader þá heldur aðalpersónan í Hollywoodmyndinni Good Will Hunting ræðu þar sem vitnar er grimmt í Chomsky.

Þess utan lesi rokksveitirnar Pearl Jam og Rage Against the Machine  les upp úr ritum hans á tónleikum (Anti-Chomsky 2004: vii-viii).

Ósköp er auðvaldið slappt að geta ekki komið í veg fyrir að bækur Chomskys komi út og verði vinsælar! Að gamni slepptu þá er  kenningin um skapaðar sættir  illa samþýðanleg kenningum hans um að maðurinn hafi frjálsan vilja.

Ekki sé hægt skýra þá staðreynd að menn geti búið til nýjar setningar,  sem ekki hafi orðið til áður, nema þeim sé gefin sköpunargáfa og viljafrelsi (sjá t.d. Chomsky 1973).

Tæpast er auðvelt að manípúlera viljafrjálsar verur, nánar um það hér að neðan.

Kosningar og auðvald

Hann segir annars vegar að úrslit bandaríska kosninga ráðist að miklu leyti af fjáraustri í frambjóðendur (t.d. Chomsky og Polychroiniou 2017: 6-7)(Chomsky 2016: 52).  

Hins vegar viðurkennir hann að auður sé alls ekki alltaf ávísun á pólitískan sigur, t.d. hafi Jeb Bush haft gífurlegt fjármagn til umráða. Samt beið hann háðulegan ósigur í forkosnningum (Chomsky og Polychroniou 2017:  107).

Polychroinou segir á sömu síðu  að margt bendi til að  Trump hafi notað minna fé í kosningabaráttu en keppinautar hans.

Samkvæmt frétt í Newsweek kemur 82% af því fé sem Trump hefur fengið í kosningabaráttusjóð sinn nú frá aðilum sem borgað hafa minna en 200 dollara í sjóðin. 

Við má bæta að  nýlega kom í ljós að á öðrum ársfjórðungi þessa árs kom 91% af fjárframlögum í kosningasjóð Bidens frá aðilum sem greiddu minna en 200 dollara í sjóðinn.

Ætla má að þessir aðilar séu einstaklingar án mikils fjármagns, jafnvel hreinlega fátækt fólk.

Þetta bendir gegn því að kosningar séu keyptar þótt auður skipti vafalaust töluverðu  máli. 

Newsweek segir í áðurnefndri frétt  að 71% af fénu í kosningasjóði Ron de Santis sé ættað frá aðilum sem borgi meira en 2000 dollara hver.

Kannski fá Trump og Biden meira fé frá auðmagninu en uppgefið er. En sönnunarbyrðin hvílir á þeim sem því trúa. 

Skylt er að geta þess að fræðimennirnir Martin Gilens og Benjamin Page komast að annarri niðurstöðu en þeir hafa gert skipulega úttekt á framlagi til kosninga.

Niðurstaða þeirra er að yfirgnæfandi meirihluti þess fjár sem fellur í skaut frambjóðanda  komi fram fokríkum aðilum. Vægi þess hafi aukist mjög mikið á síðustu áratugum. 

Samt viðurkenna þeir eins og Chomsky að auðurinn sé ekki orðinn alvaldur, Hilary hafi tapað fyrir Trump þótt hún hefði meira fé milli handanna.

Og Bernie Sanders hafi næstum orðið forsetaframbjóðandi Demókrata þótt hann þægi ekki fé frá ríkisbubbum og stórfyrirtækjum.

Gilens og Page telja að orsakir hins aukna valds auðsins sé að leita í aukinni misdrefingu fjár, því að kosningabarátta hafi orðið æ dýrari og dómsuppkvæðningu Hæstarétts sem leyfði ótakmarkaðan fjáraustur í pólitíkusa (Gilens og Page 2017).

Athugið að fréttir í Newsweek eru ekki ritrýndar, skrif Gilens og Page eru það.

Samt er það  konkreta við kosningar  hvernig atkvæði falla, það er síður konkret hvers vegna menn greiða atkvæði með þessum eða hinum hætti.

Það er engan veginn örugglega satt  að menn séu manipúleraðir af auglýsingum, mörg dæmi um auglýsingaherferðir sem mistókust, t.d. ein dýrasta auglýsingaherferð í sögu BNA fyrir Edsel bíl Fords, fyrirtækið fór næstum á hausinn vegna þess hve illa bíllinn seldist.

En athuga ber að tilvist misheppnaðra manipúlasjóna útilokar ekki tilvist velheppnaðra manipúlasjóna, Kannski má finna dæmi um slíkt í pólitískri sögu Bandaríkjanna.

Einhverjar rannsóknir sýna að rússnesku tröllafyrirtækin höfðu ekki teljandi áhrif á kosningarnar 2016, aðaláhrifin hafi verið að tröllastarf Rússanna styrkti þá þegar sannfærðu í trúnni á Trump.

Á móti kemur að ýmsar rannsóknir, sem Chomsky nefnir,  benda til fylgni milli fjárausturs í kosningunum og úrslitum (Chomsky og Polychroniou 2017: 88). 

Gegn því má benda á að  sumir segja að ekki sé byrjað að dæla fé í frambjóðendur fyrr en þeim er tekið að ganga vel í skoðanakönnunum og forkjörum, menn veðja á vinsæla hestinn.

Gilens og Page er á öndverðum meiði, þeir segja að þess séu mörg dæmi að fjársterkir aðilar hafi dælt fé í "tapara" sem töluðu máli þeirra.

Alla vega er tæpast tilviljun að mikið er rætt um aukið vald aursins (í báðum merkingum orðsins!) í bandarískum kosningum.

Trump sagðist vera eini frambjóðandinn sem ekki yrði að þiggja fé frá aðilum sem síðan gætu haft óviðurkvæmileg áhrif á forseta.

Sennilega eru menn stundum manipúleraðir, helst þó  í einræðisríkjum, Hitler og Pútín voru/eru  drjúgir manipúlatorar.

En vandinn er ávallt sá að sá sem heldur því fram að altæk manipúlasjon (t.d. manufactured consensus) eigi sér stað verður að geta sýnt fram á að hann sjálfur sé ekki manipúleraður. Kannski Chomsky sé manipúleraður af óþekktum öflum X.

Abraham Lincoln hitti naglann á höfuðið er hann sagði „you can fool some of the people all of the time, all of the people some of the time but not all of the people all of the time.“

Gervigreind framtíðarinnar gæti manipúlerað okkur með hætti sem gerði samfélagið í Brave New World að byrjanda í faginu.

Ekki er gefið að þeir sem fjármagna kosningar fái hreðjartök á forseta, mér vitanlega eru ekki til neinar sannanir fyrir því.

Þeir reyna sjálfsagt (oft með góðum árangri) að afla sér velvildar og áhrifa með fjármögnun en  velvild og áhrif eru ekki það sama og völd, þótt mikil  áhrif hljóti að vera ávísun á völd.

En talsverður fjöldi aðila fjármagnar sérhvern frambjóðandi, forseti kann að geta teflt þeim gegn hver öðrum. Forsetar eru valdsæknir menn og því ólíklegt að þeir leggist flatir fyrir peningamönnum. 

Þess utan er ekki tilviljun að frambjóðendur rembast við að fá venjulegt fólk til að láta af hendi rakna, verða þeir ekki að taka tillit til þess fólks?

Og þarf forseti á síðara kjörtímabili að þjóna hagsmunum þeirra sem lögðu fé í sjóðinn? Hvernig ætlar auðvaldið að sjá til þess að hann lúti þeim?

En það er tæpast tilviljun að Bandaríkjamenn tala mikið um óviðurkvæmileg áhrif þessara aðila á stjórnmálamenn. 

 Alla vega var stigið óheillaskref þegar Hæstiréttur BNA felldi þann dóm að ekki mætti takmarka fjáraustur manna og fyrirtækja í frambjóðendur enda væri slíkt skerðing á einstaklingsfrelsi.

Vandinn er sá að það að leyfa slíkan fjáraustur án takmarkanna getur bitnað á einstaklingsfrelsi frambjóðenda og kjósenda.

Sannleikskjarninn í boðskap Chomskys

Chomsky er miklu betri þegar hann segir um BNA að það sé við það að verða hreinræktað plútókratí, samt sé umtalsvert einstaklingsfrelsi í landinu (Chomsky og Polychroniou 2017: 109, 116-118).

Þetta tel ég hárrétt. Það er líka rétt hjá honum að misskipting auðs hefur aukist verulega mikið vestanhafs og raunlaun lítið hækkað, m.a. vegna þess að hægriöflin hafa vængstýft verkalýðshreyfinguna (Chomsky 2016: 75) (en þetta hafa aðrir rætt með engu lakara móti en Chomsky, t.d. Krugman 2007).

Þess utan er heilmikið til í þeirri staðhæfingu að auðmenn og stórfyrirtæki hafi of mikil áhrif á bandaríska pólitík. Og ekki er bandarísk utanríkisstefna hafin yfir gagnrýni þótt Chomsky gangi of langt í að fordæma hana.

Chomsky er ágætur líka þegar hann gagnrýnir bandaríska heilbrigðiskerfið en Krugman hefur gert það miklu betur (Chomsky og Polychroniou 2017: 159-166)(Krugman 2007: 214-243).

Chomsky segir líka með talsverðum rétti að stórfyrirtæki vestanhafs séu í reynd mjög háð ríkisvaldinu, gróðinn sé einkavæddur, tapið ríkisvætt (Chomsky og Polychroniou 2017: 67)(Chomsky 2016: 53). Þetta þekkjum við Íslendingar alltof vel.

Frjálshyggjumenn (t.d. Misesstofnunarmenn) munu hafa gagnrýnt þetta ríkishæði fyrirtækjanna en telja  að lausn vandans sé að ríki og markaður verði algerlega aðskilinn. Ég  efast um það sé hægt enda sammála Chomsky um að markaðurinn viti ekki alltaf best (Chomsky 2016: 56).

Lokaorð

Það er heilmikið til í því að Chomsky sé slæmur með að velja þær heimildir sem honum hæfa og hunsa aðrar. Og túlka með sínum hætti, oft notar hann heimildir eins og nagla í naglasúpu.

Alla vega er hann engan veginn meiri heimildarfrömuður en aðrir álitsgjafar, að höfundum Anti-Chomsky Reader meðtöldum.

Þó verður því ekki neitað að Chomsky á sín góðu augnablik sem álitsgjafi eins og reyndar sést af sumu sem hér hefur verið sagt um hann.

Chomsky er fínn þegar hann talar um tungumál og heimspeki. Kannski á hann að halda sig það, hann er ekki besti vinstri-álitsgjafi vestanhafs, öðru nær.

Hann slær næstum aldrei varnagla heldur staðhæfir og staðhæfir. Með fúkyrðaflaumi sínum og dólgamarxísku slagorðaglamri gæti hann afkristnað heilt sólkerfi.

Heimildir:

Chomsky, Noam 1969: American Power and the New Mandarins. New York: Pantheon Books.

Chomsky, Noam 1973: Mál og mannshugur (þýð. Halldór Halldórsson).  Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag. 

Chomsky, Noam og Herman, Edward S. 1977: “Distortions at Fourth Hand“. The Nation, 6 júní https://chomsky.info/19770625/

Chomsky, Noam 2016: Who Rules the World? New York: Metropolitan Books.

Chomsky, Noam og Polychroniou, C.J. 2017: Optimism over Despair. On Capitalism, Empire, and Social Change. Chicago, Ill: Haymarket Books.

Collier, Peter og Horowitz, David (ritstj.) 2004: The Anti-Chomsky Reader. San Franscisco: Encounter Books (þar eð margir höfundar skrifa mismunandi greinar en allar í sama anda verður til hægðarauka vísað til bókarinnar sem Anti-Chomsky).

Courtois, Stéphane o.fl. 2009. Svartbók kommúnismans (þýðandi Hannes H. Gissurarson). Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Ferguson, Niall 2003: Empire. How Britain Made the Modern World. Harmondsworth: Penguin.

Fulbright, William  1967: The Arrogance of Power. New York: Random House.

Gilens, Martin og Page, Benjamin I 2017: Democracy in America? What went wrong and what can we do about it? Chicago og London: The University of Chicago Press. 

Krugman, Paul   2007: The Conscience of a Liberal. London og New York: W.W. Norton & Co.

Ponchaud, François 1978: Cambodia, Year Zero (þýdd úr frönsku). New York: Holt, Rhinehart and Winston.

Steinfeld, Hans-Wilhelm 2022:  Russland kriger. Stamsund: Orkana.

Thayer, Nate 2011: “Khmer Rouge Apologist Noam Chomsky: Unrepentant“ https://natethayer.typepad.com/blog/2011/11/khmer-rouge-apologist-noam-chomsky-unrepentant-.html

Tharoor, Shashi   2017: Inglorious Empire.What the British did to India. Harmondsworth: Penguin.

Þjóðnýting Gaddafís https://countrystudies.us/libya/31.htm


BJÖRN JÓN OG VINSTRIHLIÐIN SEM VANTAR

Björn Jón Bragason skrifar betur en flestir aðrir álitsgjafar. Hann er sannmenntaður og kann að tengja tilvísanir í heimsmenninguna við atburði dagsins í dag með sérlega frumlegum hætti. Og rökstyður mál sitt vel.

Hann er blessunarlega evrópskur í hugsun, vitnar grimmt í þýskar og franskar bókmenntir og álitsgjafa. Laus við enskumennsku nútímans þar sem allt snýst í kringum ensku og enskumælandi heim.  

Ég segi: Fjöltyngi er fjölkynngi!

En hann er of hægrisinnaður fyrir minn smekk án þess þó að vera öfgamaður. Gallinn er sá að hann vantar vinstrihliðina.

Bresk saga

Þessu til sannindamerkis mætti nefna margt, t.d. pistil þar sem hann lofsyngur frjálslyndi Breta og þá meintu staðreynd að samfélagið hafi þróast vel án blóðugra byltinga, kannski gagnstætt Frakklandi (Björn Jón 2022: 287-288).

Eitt er fyrir sig að spyrja má hvort hin blóðuga uppreisn  þingsins undir forystu Oliver Cromwells hafi ekki verið bylting sem gerði síðari framfarir mögulegar.

Einnig hvort nýlenduarðrán hafi auðgað Breta (samskipti nýlendna og nýlenduherra voru reyndar flókin, sumt bendir til þess að báðir aðilar hafi tapað þegar til lengdar lét, nánar um það síðar).

Í þriðja lagi hafði hið meinta, frjálslynda Bretland um aldamótin 1800 einhverja grimmilegustu refsilöggjöf sem um getur.

Smábörn voru hengd fyrir smáþjófnað, allt var gert til að vernda hinn ginnhelga eignarrétt auðstéttarinnar.

Nefna má að heimspekingurinn Hegel snupraði  Breta fyrir þetta og fleira, ég ræði gagnrýni hans í grein minni „Hegel og hégiljan“ sem finna má í greinasafni mínu Ástarspekt.

Hvað um það, kannski var minni ríkiskúgun í Bretlandi en víða annars staðar  en meiri auðkúgun.

Móðurmálið, einkaframtakið, ríkið

Meinið er að Björn Jón einblínir á meint ríkisofbeldi en hunsar mögulega auðkúgun þegar hann ræðir íslensk málefni. Hann hefur meiri áhyggjur af Samfylkingunni en Samherja, meiri af ríkisafskiptum en mögulegum yfirgangi auðmanna.

Mér til óblandinnar ánægju  hann  skýtur skildi fyrir móðurmálið en átelur bara ríkisstjórn og verkalýðshreyfinguna fyrir sofandahátt varðandi það, einkaframtakið er stikkfrí.

Hann segir með rétti að ótrúlegt megi þykja að ríkisstjórnin skuli láta enskuvæðingu Leifsstöðvar viðgangast í blóra við lög um að íslenska sé ríkistunga vor. En ekki eitt orð um einkaaðilana sem reka stöðina og hafa látið enskuvæða hana.

Ekki stafkrókur  um stöðugar enskuvæðingartillögur viðskiptaráðs, ég minnist þess að þáverandi forstöðumaður þess, Bogi Pálsson, hvatti á sínum íslensk fyrirtæki til að gera ensku að ríkismáli. 

Hvað þá um enskuvæðinguna í Háskólanum í Reykjavík, stofnun sem (Ó)ráðið setti á laggirnar en Björn Jón mun kenna þar.   

Ekki stafur um að viðskiptamaðurinn og þáverandi Sjalli Benedikt Jóhannsson mælti með því þegar árið 1999 að íslenska yrði lögð niður og enska tekinn upp í staðinn (ég svaraði geipi hans víða á netinu, einnig í greininni „Úlfahjörð vinda“ sem finna má í Ástarspekt).

En hið opinbera er alls ekki saklaust af enskumennsku, á Hverfisgötu er ritað á malbikið „Bus only“, ekkert á íslensku (má sækja borgaryfirvöld til saka fyrir lögbrot?).

Ekkert auðvald? Sjallar heilagir menn?

Synd væri að segja að Björn Jón ofreyni sig á að gagnrýna Sjálfstæðismenn en segir þó í einum pistli að kannski sé komið nóg af stjórnarsetu þeirra. Þeir nái ekki því markmiði að draga úr opinberum útgjöldum, öðru nær.

En hefur Birni Jóni aldrei hugkvæmst að stjórnarseta Sjalla sé hagsmunagæslu-atriði, ekki hugsjóna-atriði? Mér finnst nóg komið af stjórnsetu þeirra en ekki af sömu ástæðum og Björn Jón. 

Hann vitnar fjálglega í skýrslur Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins um óstjórn í fjármálum rétt eins og hér væru á ferðinni skýrslur samdar af hlutlausum aðilum (við getum deilt um hvort hlutleysi sé mögulegt).

Datt honum ekki í hug að hagmunir ráðs og samtaka gætu litað skýrsluskrifin? Er einkaframtakið heilagt í hans augum? Hann bendir réttilega á að þess séu dæmi að fullfrískt fólk sé á opinberu framfæri.

Vandinn er sá að rannsóknir í Noregi, sem ég las um fyrir margt löngu, bendir til þess að fjöldi fólks, sem á undir högg að sækja, fái ekki þær greiðslur sem það á rétt á vegna þess að það þekki ekki löggjöfina (ég sel þetta ekki dýrara en ég keypti það).

Strangt tekið hefur Björn Jón líka á réttu að standa er hann segir að það sé til vansa að stjórnmálamenn og -flokkar séu nánast á framfæri skattgreiðenda (Björn Jón 2022: 147-150).

En hann nefnir hvergi að margt bendir þess að sumir þeirra séu líka á framfæri stórauðvaldsins, ekki síst kvótagreifa. Hér vantar vinstrihliðina, skilning á því að auðvald er vandamál.

Óeirðir í Frakklandi, rasismi

Annað dæmi um þennan skort á vinstrihlið er nýlegur pistill þar sem hann leggur út af gagnrýni franska heimspekingsins Pascal Bruckners á óeirðaseggi í Frakklandi.

Margt vel athugað í þeirri gagnrýni en Birni Jóni láist að nefna þann möguleika að óeirðirnar stafi að einhverju leyti af rasisma (það má teljast sérkennilegt í ljósi þess að Björn Jón hefur gagnrýnt slæma meðferð á innflytjendum hér á landi.) 

Í ofan á lag er franska lögreglan fræg að endemum fyrir hrottaskap (sjá t.d. Morgenbladet 7/7 2023). Á móti kemur að öfgaíslamistar, glæpagengi og ólátabelgir gera illt verra, stuðla að árásum á stjórnmálamenn, gripdeildum og skemmdarverkum. 

Einhvern tímann las ég um rannsókn sem gerð var í Frakklandi og fleiri löndum. Sendar voru umsóknir um vinnu til tiltekinna fyrirtækja og var umsækjendum skipt þannig í lið að nokkurn veginn sama ferilskrá var send í nafni tveggja umsækjanda, annar með evrópskt nafn, hinn hét nafni frá Miðausturlöndum.

Í ljós kom að þeir með evrópsku nöfnin fengu stöðurnar í mun ríkari mæli en þeir með austrænu nöfnin. Tekið skal fram að ég vitna í þetta eftir minni, minni okkar allra er brigðult. Og rannsóknir misvel framkvæmdar. 

Ögn um agaleysi og borgaralegar dyggðir

Björn Jón bendir réttilega á að agaleysi, tillitsleysi og ókurteisi Íslendinga valdi  samfélaginu stórtjóni. Hann segr með vissum rétti að þjóðina skorti borgaralegar dyggðir (Björn Jón 2022: 266-269.

Nefna má að norsk kona, sem búið hefur lengi á Íslandi og talar reiprennandi íslensku, sagði mér að Íslendingar tækju ekki tillit til annarra.

Því miður alltof satt. En lausnin er ekki bara efling borgaralegra  dyggða  heldur samstaða í anda jafnaðarstefnu. Slíka samstöðu má finna í Noregi og segja sumir hagfræðingar að hún sé lykillinn að velsæld þjóðarinnar.

Forsenda slíkrar samstöðu er m.a. tiltölulega mikill tekjujöfnuður. Þannig stuðlar vinstridyggðin jöfnuður að samstöðu og virkar gegn þeirri ofureinstaklingshyggju sem getur af sér tillitsleysi og yfirgang.

Best er að finna kjörvægi milli einstaklingshyggju og samhyggju. 

Lokaorð

Er ég að mæla með einhverri allsherjar vinstrivæðingu hugans? Öðru nær, ekki skortir álitsgjafa sem vantar hægri- og miðhliðina, ég er að andæfa kerfis- og formúluhugsun.

Björn Jón er góður fulltrúi mið-hægri-stefnu en mætti  hyggja betur að vinstrihlið málanna.

Heimildir:

Björn Jón Bragason 2022: Þjóðfélag í skuggsjá. Greinasafn. Reykjavík.

Stefán Snævarr 2004: Ástarspekt. Greinar um heimspeki. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag.

"Det er enten for lite eller mye intervensjon", Morgenbladet 7/7 2023. 


KJARNORKUVÁ FYRIR FJÖRUTÍU ÁRUM

Í umræðunni um kjarnorkuvá í kjölfari  Úkraínustríðsins er einatt talað eins og heimurinn hafi aðeins einu sinni áður  staðið á barmi kjarnorkustríðs, á tímum Kúbudeilunnar.

Fólk gleymir ástandinu fyrir fjörutíu árum þegar kalda stríðið var með kaldasta móti og margir óttuðust að heimsstyrjöld brytist út þá og þegar.

Í þýska tímaritinu Kursbuch skrifaði einhver hæðnislega að best hefði verið að kjarnorkustríðið hefði átt sér stað 1962, þá værum við búin með pakkann!

Vinsældalistar voru fullir af lögum um stríðshættu, nægir að nefna „Dancing With Tears In My Eyes“ með Ultravox, „I  Won‘t  Let The Sun Go Down On Me“ með Nik Kershaw og „Two Tribes“ með Frankie goes to Hollywood.

Einnig var gerð a.m.k. ein kjarnorkustríðsmynd í Hollywood, „The Day After“.

Hví kólnaði kalda stríðið svo mjög? Ein ástæðan var innrás Sovétmanna í Afganistan, önnur, því ekki ótengd ástæða, var sigur Ronalds Reagans í bandarísku forsetakosningunum.

Hann hóf mikla hervæðingu m.a. sem svar við auknum vígbúnaði austan tjalds. Einnig hamaðist hann gegn Sovétríkjunum, kallaði þau  „heimsveldi hins illa“ og boðaði nýja stefnu, „roll back“ í stað „containment“.

Nú var ekki lengur nóg að halda aftur að Sovétríkjunum („containment“) heldur yrði að  þrýsta þeim burt („roll back“).

Þá gerðist að rússneski njósnarinn Oleg Gordievskí, sem var á mála hjá Bretum, hafði samband við þá og varaði við.

Hamagangur Reagans (sem var sum part skiljanlegur) hefði hrætt Sovétleiðtogana svo mjög að þeir óttuðust að hann myndi láta her sinn ráðast á Sovétríkin.

Þeir hafi talið  líklegt að NATÓ-hernaðaræfingin Able Archer væri undirbúningur innrásar. Þeir hafi velt því fyrir sér hvort ekki væri best að verða fyrri til.

Bretar komu skilaboðum á framfæri við Reagan sem skildi að hann yrði að friðmælast við Sovétmenn.

Sé þetta satt kann Gordievskí að hafa bjargað mannkyninu frá tortímingu, hann kann að vera einn helsti velgjörðarmaður þess.

Á hann ekki skilið friðarverðlaun Nóbels?


1984: Frá Orwell til Bowies

Ég las Nineteeneightyfour  eftir George Orwell fjórum sinnum þegar ég var ellefu ára. Í íslenskri þýðingu. Um daginn tók ég mig til og hlustaði á hana á ensku, hafði ekki lesið hana á þvísa máli.

Gagnstætt sögu Orwells, Animal Farm, er Nineteeneightyfour   ekki bein ádeila á Sovétríkin.

Alræðisríkið bókarinnar hefur líka þætti úr Fögruborg Platóns, hugmynd hans um fyrirmyndaríkið. Í því átti valdastéttin að vera heimspekimenntuð en mátti ekkert eiga og ekki stofna fjölskyldu.

Hið sama gilti um næst æðstu stétt, sem átti að sjá um varnir og daglega stjórnun, en átti ekki að vera heimspekimenntuð.

En lægsta stétt mátti eiga eignir, stofna fjölskyldu og stunda viðskipti. Í 1984-ríkinu gildir þetta um prólana, lægstu stéttina. Í þeirra samfélag var meira að segja til frjáls markaður, gagnstætt Sovétríkjunum.

En ekki Þýskalandi nasismans, þar var bæði einkaeign og markaðskerfi þótt flokksbroddarnir réðu mestu og stunduðu takmarkaðan áætlunarbúskap (frjálshyggjumenn gera alltof mikið úr þætti þess búskapar í nasistaveldinu, nánar um það síðar).

Alla vega má hugsa sér að Orwell hafi líka haft nasista í huga þegar hann skrifaði bókina.  

Fleira bendir gegn því að Nineteeneightyfour   sé bein ádeila á Sovétið. O‘Brian, talsmaður kerfisins, talar um alræðisríki fortíðarinnar í útgáfu kommúnista og nasista.

Þeim hafi ekki tekist að heilaþvo fólk nógu rækilega, til að gera illt vera hafi þeir haft hugsjónir sem stjórnarfarið átti að raungera. En 1984-alræðið hefði engar hugsjónir, enga draumsjón, markmið þess væri vald valdsins vegna.

Þýðir þetta að 1984 sé alls ekki ádeila á Sovétkerfið? Auðvitað ekki, þættir í 1984-alræðinu minna  á Sovétríki Stalíns, t.d. andófsmaðurinn Emmanuel Goldstein sem minnir ekki eilítið á Trotskí sem upprunalega hét Bronstein.

1984-alræðisríkið Oceania er einn daginn í stríði við Austurasíu-alræðisríkið, þann næsta við Evrasíska alræðisríkið en alltaf er látið eins og ríkið hafi ávallt verið í stríði við annað þeirra.

Hið sama var upp á teningnum þegar allt í einu var hætt að kalla nasista „aðalóvini Sovétríkjanna“, upp úr þurru urðu þeir hálfgerðir bandamenn þess og Vesturveldunum lýst sem meginféndunum.

Nineteeneightyfour   hefur því víðari skírskotun en margir halda, hún fjallar m.a. um þörf alltof margra fyrir að beygja sig fyrir valdinu, valdagirni sumra o.s.frv.

Einnig mætti tengja hana við kenningar Karls Poppers um að nasismi og kommúnismi eigi sér sameiginlegar rætur í kenningu Platóns um fyrirmyndarsamfélagið (undirritaður hefur litla trú á þeirri kenningu, nánar um það síðar).

Víkur nú sögunni að David Bowie. The Guardian segir að hann hafi verið haldinn flughræðslu og fór þess vegna í lestarferð gegnum Sovétríkin á leiðinni  til Asíu.

Hann hafi orðið fyrir sjokki þegar hann sá sovéska hermenn marséra í takt, það  hafi minnt hann á bók Orwells.

Þá hafi hann tekið til óspilltra málanna að gera plötuna Diamond Dogs sem inniheldur mörg lög sem eru beinlínis innblásin af  Nineteeneightyfour: Lagið með sama heiti (1984), Big Brother, og We are the dead.

Hið síðastnefnda er setning sem andófsmaðurinn Winston Smith segir við ástkonu sína, hina andófssinnuðu Júlíu, hann veit að þau eru dauðadæmd, fyrr eða síðar mun kerfið afhjúpa þau og stúta þeim. Það gekk eftir.

Í dag lýtur lýðurinn stórum bræðrum eins og Pútín, Erdogan og Trump. Í Kína er verið að þróa hið fullkomna, rafræna  eftirlit með þegnunum, það gæti leitt til alræðis sem gerði Sovét og Þýskaland nasismans að frjálsræðisríkjum. 

Stóri bróðir framtíðarinnar gæti verið hann herra Algrím(ur). 


Gáfur og greindarpróf

Einhvern tímann var vinsælt að segja að greind væri einfaldlega það sem mælist á greindarprófum (köllum þetta „mælingarrökin“). En þessi rök eru meingölluð.

Í fyrsta lagi eru eru til alls konar greindarpróf og þau hafa breyst síðan á sokkabandsárum þeirra. Ef greindarpróf eru verulega ólík innbyrðis þá er ekkert vit í mælingarrökunum.

Skera verður úr um hvaða greindarpróf sé best fallið til mælinga en þá verða menn að gera a.m.k afstæðan greinarmun  á milli greindar sem slíkrar og árangurs á greindarprófum (með „afstæðum greinarmuni“ á ég við „greinarmunur sem gerður fyrir sakir raka“).

Í öðru lagi er vart  hægt að segja að greindarpróf mæli sköpunargáfu  enda er hún illmælanleg (skv Kaufman 2015: 55–72).

Sé svo þá standa þau ekki undir nafni því heilbrigð skynsemi segir að sköpunargáfu sé jafnmikilvæg og stærðfræði- og málgreind.

Í þriðja lagi kann bandaríski sálfræðingurinn Keith Stanovich  að hafa nokkuð til síns máls er hann segir að greindarpróf mæli ekki skynsemi (e. rationality).

Meintir  gáfumenn séu ekki endilega skynsamir. Hann kemur með ýmis dæmi um slíkt, trú ofurgáfaðra einstaklinga á fáránlegar kreddur. Einnig nefnir hann til sögunnar nóbelshafa í efnafræði, sem trúað hafi því að sér  hafi verið rænt af geimverum,  og að HIV veiran valdi ekki alnæmi.

Auk þess vísar hann til ýmissa tilrauna sem hann og samstarfsmenn hans hafa gert. Ástæðan fyrir þessu sé m.a. sú að flest okkar séum þekkingarlegir nískupúkar (e. cognitive misers).

Við hneigjumst til að gera okkur leikinn léttan, ekki hugsa málin niður í kjölinn. Auk þess trufli fordómar skynsemina. Niðurstaða hans er sú að   greind sé ekki það sama og skynsemi enda mældu greindarmælingar ekki hið síðastnefnda (Stanovich 2009: 35–39).

Í fjórða lagi telja sumir sálfræðingar að ekki sé til ein allsherjar greind heldur margar gerðir greindar sem séu ósammælanlegar.  

Einn þeirra, Howard Gardner að nafni,  segir að margs konar greind sé til og því ófrjótt að draga alla greind upp á sömu seil og mæla meinta vísitölu hennar. Til sé tilfinningagreind, félagsgrein o.s.frv.

Andstæðingar segja þetta rangt, til sé ákveðinn þáttur, g-þátturinn sem sé grundvöllur þess er  virðist margháttuð greind.

Þess utan sé hættan sú að allt milli himins og jarðar geti talist greind og þá glati hugtök um greind inntaki sínu (skv Marenus 2020). Ekki er auðvelt að skera úr um þennan ágreiningi.

Hvað sem því líður kann kenning Stanovich að vera vatn á myllu Gardners og félaga. Má ekki  segja að skynsemi sé sérstök tegund greindar sem tengist lítið öðrum greindargerðum?

Að minni hyggju er aðalvandi greindarprófa sá að þau mæla ekki sköpunargáfu. Það þýðir einfaldlega að mælingarrökin eru út í hött. 

Greindarpróf  mæla sjálfsagt einhverja andlega getu, t.d. skólaþroska.

En auðvitað er ekki hægt að útiloka að mönnum takist að mæla sköpunargáfu einhvern tímann í framtíðin, annað hvort sem lið í greindarmælingum eða sem mælingu á sérstökum hæfileika, óháðum greind. 

Kannski ber að greina milli greindar og gáfna, greindarpróf mæli hið fyrrnefnda en ekki gáfurnar. Ef til eru hvorki greind né gáfur mælanlegar. 

 

Heimildir

Kaufman, James C.  2015: „Why Creativity isn‘t  in IQ Tests, Why it Matters,  and Why it will not Change Anytime Soon Probably“, Journal of Intelligence, 3, bls. 55–72. Sótt 28/5 2022 á file:///C:/Users/700215/Downloads/jintelligence-03-00059.pdf

Marenus, Michele 2020: „Gardner‘s Theory of Multiple Intelligences“, Simply Psychology. Sótt 20/3 2022 á https://www.simplypsychology.org/multiple-intelligences.html

Stanovich, Keith E. 2009: „Rational and Irrational Thought: The Thinking that IQ Tests Miss“, Scientific American Mind, nóvember/desember, bls. 35–39.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband