Noam Chomsky, hinn ennnýi mandarín

Ég las bækur Noams Chomskys um Víetnamstriðið á unglingsárum og þótti góðar.

Eftirtektarverð þótti mér kenning hans um að stríðsreksturinn hafi markast að nokkru af trú áhrifamikilla menntamanna vestanhafs, hinna nýju mandarína,    á atferlisstefnuna (e. behaviorism) (mandarínar í Kína á fyrri öldum voru menntaðir skrifráðungar sem höfðu allmikil völd).

Samkvæmt þeirri stefnu er tómt mál að tala um viljafrelsi, athafnir manna séu skilyrtar af verðlaunum og refsingum. Þessir atferlistrúuðu mandarínar  hafi átt mikinn þátt í að marka stefnuna í Víetnamstríðinu.  

Þess vegna hafi Bandaríkjamenn reynt að skilyrða Víetnama en hunsað skoðanir þeirra, enda væru skoðanir ekkert annað en afurð skilyrðinga (Chomsky 1969).

Ekki skal dæmt um  ágæti þessarar greiningar en víst er um að hún er frumlegri en dólgamarxískur fúkyrðaflaumur Chomskys á síðustu áratugum.

Hvað sem því líður er Chomsky merkur málvisindamaður og hugfræðingur en eins og sjá má í þessari færslu er hann vægast sagt mistækur álitsgjafi og samfélagsrýnir.

Hann er hinn ennnýi mandarín vinstriöfgastefnu.

Hver er gagnrýnin? Hver vitnar mest í heimildir?

Chomsky á engan einkarétt á samfélagsgagnrýni vestanhafs, til eru mun betri og hógværari vinstrigagnrýnendur, t.d. Paul Krugman, Joseph Stiglitz, Robert Reich, George Lakoff, og jafnvel áróðursmaðurinn skemmtilegi, Michael Moore.

Gagnrýni er sumpart stofnanagerð þar vestra, Frank Church veitti rannsóknarnefnd um CIA forstöðu, nefndin gagnrýndi CIA harkalega og var tekið tillit til þeirrar gagnrýni. Sumir segja að Chufch hafi nánast vængstýft CIA.

William Fulbright, öldungardeildarþingmaður var fremur hægrisinnaður en gagnrýndi bandaríski utanríkisstefnu af nokkurri hind  í bókinni The Arrogance of Power.

Bandaríkin hafi tvær hliðar (sbr kenning mín um Janusinn ameríska), önnur frjálslynd og lýðræðisleg, hin einkennist af valdahroka og hann hafi haft slæm áhrif á utanríkisstefnuna (Fulbright 1967).

Reynslan hlýtur að skera úr hvor sé nærri sannleikanum, Fulbright eða Chomsky, nú eða þeir sem telja bandaríska utanríkisstefnu háheilaga.

Alla vega má spyrja hvort gagnrýni Fulbrights sé  nokkuð verri en stórkarlalegar yfirlýsingar Chomsky og fúkyrðaflaumur hans.

Sem dæmi um þennan leiða flaum má nefna  staðhæfingu hans um að Evrópuríki sem reyndu að fá Grikki til að borga skuldir hafi verið sadísk og að Ísrael pynti Gaza (Chomsky og Polychroniou 2017: 71). Einnig er hann kallar Bandaríkin „terroristaríki“ (Chomsky og Polychroniou 2017: 81)(Chomsky 2016: 198-201).

Hann á engan einkarétt á að vitna grimmt í heimildir, ekki vantar að gagnrýnendur hans í bókinni The Anti-Chomsky Reader geri slíkt (sjá t.d. neðamálsgreinar Anti-Chomsky 2004: 31-34 og miklu víðar).

Þeir bera á hann  „cherry picking“  á heimildum, einnig að tilvísanir hans í heimildir séu oft blekkjandi með þeim hætti að hann vitni í heimild hvers höfundur vitni í rit Chomskys sjálfs (Anti-Chomsky 2004:  48-49).

Ekki skal lagður dómur á síðarnefndu staðhæfinguna en sú fyrri um „cherry picking“ er sönn eins og síðar mun sjást.

Reyndar eru  And-Chomsky-höfundarnir næstum jafn drjúgir í fúkyrðaglamri og hann t.d. þegar þeir bera það á hann að hann sé „fifth-columnist of Islamic fascists“ (Anti-Chomsky 2004:  199).

Höfundar fara mikinn og lofsyngja bandaríska utanríkispóltík með sama ákafa og Chomsky fordæmir hana. Það er alla vega nóg af tilvísunum í heimildir í skrifum fræðilegra álitsgjafa til hægri, vinstri og í miðið.

Í bókinni The Empire vitnar hinn hægrisinnaði sagnfræðingur Niall Ferguson í allra handa  heimildir til að sanna þá staðhæfingu sína að Bretaveldi hafi fremur verið af hinu góða en hitt (Ferguson 2003).

Indverjinn Shashi Tharoor  vitnar í helling af heimildum til að sanna að Bretar hafi arðrænt og eyðilagt Indland (Tharoor 2017). Hvorum á að trúa?

C.J. Polychroniou,  sem tekur viðtalið við Chomsky í viðtalsbókinni Optimism over Despair,  segir að boðskapur hans sé ómótmælanlegur þar eð hann vitni í svo traustar heimildir (Chomsky og Poychroniou 2017: 1). Ó heilaga einfeldni!

Kórvillur Chomskys

Chomsky sagði 1977 að Rauðu khemarnir hefðu ekki framið þjóðarmorð (Chomsky og Herman 1977). Var það ómótmælanlega sönn staðhæfing,  byggð á traustum heilmildum? Þjóðarmorðið var afhjúpað af franska prestinum François Ponchaud eins fram kemur í bók hans Kambódía árið núll (Ponchaud 1978).

Nate nokkur Thayer segir að Chomsky þverskallist við að viðurkenna mistök sín, hann skuldi Kambódíumönnum afsökunarbeiðni (Thayer 2011).

Eins og nær má geta hella   höfundar Anti-Chomsky Reader úr skálum reiði sinnar yfir hann út af Kambódíuskrifunum  enda á hann ekkert annað skilið (Anti-Chomsky 2004: 16-28).

Chomsky segir  að Gorbasjov hafi verið lofað að NATÓ myndi ekki víkka út í austur (ekki nóg með það, útvíkkunin í austur hafi verið glæpur Clintons) (Chomsky og Polychroniou 2017: 16, einnig 36-37)(Chomsky 2016: 151).

Þetta er sannanlega röng staðhæfing, hafi Baker lofað Gorbasjov einhverju þá hefur hann lofað upp í ermina á sér. Hann hafði ekkert umboð til þess, slíkt umboð fæst bara ef öll aðildaríkin samþykkja það. Slík samþykkt um bann við útvíkkun NATÓs var ekki fyrir hendi og þar með ekkert umboð.

Chomsky talar eins og NATÓ sé tæki Kana og Evrópuríkin sitji og standi eins og þeir vilji. Af hverju gat þá Merkel komið í veg fyrir NATÓ aðild Úkraínu og Erdogan lengi hindrað aðild Svía?

Af hverju komast Erdogan og Orban upp með að neita að taka þátt í refsiaðgerðum gegn Rússum? Chomsky virðist ekki skilja það, hann segir að Clinton hafi stækkað NATÓ svo mikið að það hafi öðlast landamæri við Rússland (Chomsky 2016: 152).

En eins og sjá má er Bandaríkjaforseti ekki alvaldur í NATÓ þótt Chomsky og Pútín kunni að telja sér trú um það.

Meginvillur Chomsky varða annars vegar Kambódíu, hins vegar stækkun NATÓ og eðli þess þjóðþrifafélags (undirritaður kallar sig "NATÓ-krata").  Sen að sjálfssögðu er ekki hafið yfir gagnrýni. 

Chomsky og bandarísk utanríkisstefna 

Chomsky fordæmir að sjálfssögðu innrás Bandaríkjamannanna í Afganistan en nefnir ekki að hún leiddi til þess að staða kvenna batnaði mikið og lífskjör almennt bötnuðu.

Sameinuðu þjóðirnar hafa haldið því fram að 75% mannfalls í stríðinu hafi verið Talíban að kenna (heimild mín er frétt í BBC fyrir nokkrum árum).

Hann segir að nú fyrst séu ríki rómönsku Ameríku að losna undan ofurvaldi Kana (Chomsky og Polychroniou 2017: 80) En af hverju þjóðnýtti Mexikó-forseti amerísk olíufyrirtæki 1937 og leyfði Trotskí að setjast að í landinu í blóra við vilja Kana?

Peron var heldur ekki Könum vinsamlegur. Kannski áttu þeir þátt í að fella hann.

Chomsky  hamast gegn Marshallaðstoðinni á þeirri forsendu að hún hafi bara verið tæki hins illa ameríska heimsveldis. Kanar hafi gert sig seka um þá ósvinnu að gera veitingu aðstoðar háða því skilyrði að kommar fengu ekki að sitja í ríkisstjórnum.

Minnugur reynslu Tékka og Slóvaka  má segja að það hafi verið rétt af Könum að gera svo. Nefna má að Moskvukommar sátu í ríkisstjórn hins hernaðarlega mikilvæga Íslands 1944-7 og 1956-8 án þess að Bandaríkjamenn reyndu að hindra það. Voru hinir heimsvaldasinnuðu Kanar sofandi?

Chomsky nefnir ekki að Marshall-aðstoðin var Vestur-Evrópu mikil lyftistöng, einnig að hún var veitt m.a. af þeirri eigingjörnu ástæðu Kana að þeir vildu koma í veg fyrir samdrátt af því tagi sem varð vestanhafs eftir fyrri heimsstyrjöld. En aðstoðin þjónaði hagsmunum beggja aðila.

Hann halelújar um Kúbu Castros án þess að nefna þann mikla fjölda Kúbverja sem flúið hefur land (t.d. Chomsky 2015: 154-155). Í Svartbók kommúnismans segir (með réttu eða röngu) að Kúbukommar hafi stútað 30000 landa sinna (Courtois o.fl. 2009).

Ekki þýðir að segja að efnahagserfiðleikar þeirra stafi bara af hafnbanni Kana.  Rúmenía á dögum Ceausescus fékk stöðu jafna Vesturlöndum í viðskiptum við BNA, samt fór efnahagskerfið sömu leið og hið kúbverska.

Ekki eitt orð um þetta hjá Chomsky, ekki aukatekið  orð um það hvernig Sovét hélt Kúbu lengi gangandi með fjárhagsaðstoð. En það er  vissulega rétt hjá Chomsky að Kúba Castro hefur eitt og annað sér til afbötunar, t.d. gott heilbrigðiskerfi.

Samt má telja furðulegt að anarkistinn Chomsky skuli vera í því að bera blak af miðstýrðum kúgunarríkjum eins og Kúbu og Víetnam.

Hann segir að með utanríkisstefnu sinni grafi Kanar undan lýðræði hvarvetna. En komu þeir ekki á lýðræði í Þýskalandi, Japan og Írak? Af hverju þróuðust meint leppríki þeirra Tævan og Suður-Kórea í lýðræðisátt?

Skylt er að geta þess að Chomsky telur borgaralegt lýðræði ekki standa undir nafni enda vinstri-anarkisti (Chomsky og Polychroniou 2017: 25, 175-183).

Þótt margt ljótt megi segja um bandaríska utanríkisstefnu þá verður því vart móti mælt að þeir björguðu Suður-Kóreumönnum frá þeim ömurlegu örlögum að verða þrælar Kim-fjölskyldunnar í Pyongyang.

Einnig Bosníumúslimum og Kósovóalbönum frá serbneskum yfirgangi.

Og bjarga nú Úkraínumönnum frá þeirri skelfingu  að verða þrælar hins zarfasíska Moskvuvalds.

Væri lýðræði í Tævan núna ef Bandaríkjamenn hefðu ekki verndað landið gegn kínverskri ásælni? Án vopnasendinga frá Bandaríkjunum hefðu Sovétmenn tæpast sigrað innrásarher nasista (skv. Steinfeld 2022).

Heimildarfrömuðurinn mikli, Noam Chomsky, nefnir þetta ekki einu sinni í framhjáhlaupi.

Hins vegar er sannleikskjarni í gagnrýni hans á stuðning Bandaríkjamanna við valdarán í Íran 1953, Guatemala 1954, Indónesíu 1965 og Chíle 1973.

Og á  villimannlegan  stríðsrekstrar þeirra í Víetnam, refsiaðgerðirnar  gegn írökum og innrásina í land þeirra.

Samt fremur Chomsky þá meginvillu að alhæfa út frá þessum valdaráns-stuðningi, stríðsrekstri og öðru slíku  og hunsa aðrar staðreyndir um bandaríska utanríkispólitík. „Cherry-picking“ er hans líf og yndi.

Hann kennir Könum að sjálfsögðu um ISIS og fordæmir stríðið gegn hryðjuverkum (Chomsky og Polychroniou 2017: 18-24, 28-36). En athugar náttúrulega ekki að ráðist hefur verið inn í fjölda landa án þess að þar risi upp hreyfing eins og ISIS sem kom á þrælahaldi og trúarlegri ógnarstjórn.

Einhverjar rætur hlýtur þetta að hafa í menningu Miðausturlanda og vissum túlkunum á trúarbrögðum.

Chomsky gerir meira en að gefa í skyn að hin illa ameríska utanríkisstefna skilyrðist af hagsmunum auðvaldsins  (t.d. Chomsky 2016: 44-54).

En hvernig ber að skýra þá staðreynd að Bandaríkjamenn létu eiga sig að neyða Íraka til að einkavæða olíuiðnaðinn?

Amerísk fyrirtæki fengu vissulega rétt til að vinna olíu en gáfust flest hver upp á því vegna innanlandsástandsins (sem  var innrásinni að miklu leyti að kenna). Kínversk og rússnesk fyrirtæki fylltu í skarðið.

Reyndar segir Chomsky að Bush hafi ætlað Bandaríkjunum yfirráð yfir írösku olíunni en gefist upp á því vegna andstöðu Íraka (Chomsky 2016: 46).

Vandinn er sá að Chomsky virðist ekki skilja að Bandaríkjamenn hefðu brotið þá andstöðu á bak aftur ef sókn í olíu hefði verið aðalástæðan fyrir innrásinni. Þeir höfðu afl til þess arna.

Áður hefur komið fram að Kanar lyftu ekki litlafingri þegar Mexíkóar þjóðnýttu ameríska olíufyrirtæki. Hið alþjóðlega auðvald sætti sig líka við að Gaddafí þjóðnýtti olíuiðnaðinn sem ég held að hafa aðallega verið í höndum Breta.

Skylt er að geta þess sá ólíuiðnaður var ekki mjög þýðingarmikill. 

Hefðu olíuhagsmunir stjórnað utanríkisstefnu Bandaríkjann þá hefðu þeir stutt Araba gegn Ísrael. Ef landið hefði þau hreðjartök á Miðausturlöndum,  sem Chomsky telur það hafa, hefði olíubann Arabaríkjanna árið 1973 aldrei átt sér stað.

Ef heimsvaldasinnar og auðkýfingar réðu Bandaríkjunum algerlega og þar með þeirra utanríkisstefnu má spyrja hvers vegna Church komst upp með að vængstýfa CIA. Var auðvaldið í orlofi?

Chomsky virðist telja að Kanar séu arðræningjar í stríði fátækar þjóðir (skv. Anti-Chomsky 2004:  185)(Chomsky 2016: 153). Hvernig stendur þá á því að meint leppríki BNA Tævan og Suður-Kóreu eru ekki lengur vanþróuð heldur með ríkustu þjóðum? Af hverju er Katar ríkasta land heimsins?

Væri kenning Chomskys sönn  þá væru þessar þjóðir á heljarþröm.

Þýðir þetta að ég útiloki að efnahagshagsmunir geti haft áhrif á bandaríska utanríkisstefnu?

Nei, kannski ýtti  United Fruit Company undir valdaránsmenn  í Guatemala en bandarískir ráðamenn áttu þátt í því.

Kannski skiptu tengsl Dick Cheneys við Halliburton máli þegar Bandaríkjamenn réðust inn í Írak.

En af þessu má ekki draga þá ályktun að slíkir hagsmunir skipti jafnan máli þegar Bandaríkjamenn marka utanríkisstefnu. Ég held að efnahagsmunir séu fremur víkjandi en ríkjandi við þá stefnumörkun. 

Bandarískt samfélag 

Chomsky segir að í BNA sé fákeppni (e. oligopoly) (Chomsky og Polychroniou 2017: 81).  En honum láist að nefna að risafyrirtækin í Kísildal urðu til úr engu, skákuðu hressilega IBM sem hafði 50-80% markaðshlutdeild í tölvuiðnaðnum.

Reyndar er fyllsta ástæða til að vara við ofurveldi Kísildals og fákeppni í netbransanum, ég fæ ekki séð Chomsky geri það.

Kenning Chomskys um skapaðar sættir (e. manufactured consensus) er  ekki sannfærandi í ljósi hinna miklu flokkadrátta vestanhafs.  Hann telur að fjölmiðlar skapi þessar sættir enda sé þeim stjórnað af auðvaldinu.

En hvernig ætlar hann að skýra þá staðreynd að CNN og Fox News eru vart sammála um neitt? Vissi maður ekki betur gæti maður haldið að blaðamennirnir á þessum sjónvarpsstöðum lifðu í ólíkum heimum.

Bæta má við að Chomsky vitnar innfjálgur í skoðanakannanir í Araabaríkjum sem sýna andúð íbúanna á BNA og það án þess að spyrja hvort þær sættir séu skapaðar (e. manufactured)(Chomsky 2016). Án þess að spyrja hvort mikið sé að marka skoðanakannanir í einræðisríkjum.

Í Anti-Chomsky Reader segir að stóru  fjölmiðlafyrirtækin séu í eigu fjölda hlutabréfaeigenda, tæpast geti þeir allir verið millar (Anti-Chomsky 2004: 67-86).   

Hér mættu þessir gagnrýnendur íhuga hvort allur þessi fjöldi smá-hlutabréfaeiganda hafi mikið að segja, vel má vera að lítill hópur atvinnufjárfesta og forstjóra ráði mestu. Alla vega gagnrýnir Anti-Chomsky Reader þá kenningu hans að skemmtanaiðnaðurinn vestanhafs sé hliðhollur atvinnurekendum.

Einhver rannsókn sýni að yfirleitt sé viðskiptamönnum lýst með neikvæðum hætti í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum,  það sé þrisvar sinnum líklegra að þeir séu glæpamenn en venjulegt fólk (Anti-Chomsky 2004:  75).

Vandinn er sá að urmull er af rannsóknum um mannlegt atferli sem benda í mismunandi áttir, sjálfsagt má finna einhverja rannsókn sem bendir í öfuga átt.

Nýlega horfði ég á Simpsonþátt þar sem hæðst var að góðgerðarstarfsemi vestanhafs, henni lýst sem dulbúnu gróðabralli.

Í lok þáttarins segir hr. Burns að kominn sé tími til að skatta auðkýfinga almennilega og nota féð til að efla velferðarkerfið. Er þetta liður í sköpun hægrisátta?

Chuck Norris kann að hafa lagt henni lið. Í glæpaþáttum, sem hann "lék" í, notaði hann tækifærið til að boða trumpskar skoðanir löngu fyrir Trump.

Sýnir þetta ekki bara að allra handa viðhorf eru boðuð í bandarískri afþreyingu, kannski aðallega ekki-viðhorf?

Hvað sem því líður virðist kenning Chomskys undarleg í ljósi vinsælda hans eigin skrifa. Samkvæmt Anti-Chomsky Reader þá heldur aðalpersónan í Hollywoodmyndinni Good Will Hunting ræðu þar sem vitnar er grimmt í Chomsky.

Þess utan lesi rokksveitirnar Pearl Jam og Rage Against the Machine  les upp úr ritum hans á tónleikum (Anti-Chomsky 2004: vii-viii).

Ósköp er auðvaldið slappt að geta ekki komið í veg fyrir að bækur Chomskys komi út og verði vinsælar! Að gamni slepptu þá er  kenningin um skapaðar sættir  illa samþýðanleg kenningum hans um að maðurinn hafi frjálsan vilja.

Ekki sé hægt skýra þá staðreynd að menn geti búið til nýjar setningar,  sem ekki hafi orðið til áður, nema þeim sé gefin sköpunargáfa og viljafrelsi (sjá t.d. Chomsky 1973).

Tæpast er auðvelt að manípúlera viljafrjálsar verur, nánar um það hér að neðan.

Kosningar og auðvald

Hann segir annars vegar að úrslit bandaríska kosninga ráðist að miklu leyti af fjáraustri í frambjóðendur (t.d. Chomsky og Polychroiniou 2017: 6-7)(Chomsky 2016: 52).  

Hins vegar viðurkennir hann að auður sé alls ekki alltaf ávísun á pólitískan sigur, t.d. hafi Jeb Bush haft gífurlegt fjármagn til umráða. Samt beið hann háðulegan ósigur í forkosnningum (Chomsky og Polychroniou 2017:  107).

Polychroinou segir á sömu síðu  að margt bendi til að  Trump hafi notað minna fé í kosningabaráttu en keppinautar hans.

Samkvæmt frétt í Newsweek kemur 82% af því fé sem Trump hefur fengið í kosningabaráttusjóð sinn nú frá aðilum sem borgað hafa minna en 200 dollara í sjóðin. 

Við má bæta að  nýlega kom í ljós að á öðrum ársfjórðungi þessa árs kom 91% af fjárframlögum í kosningasjóð Bidens frá aðilum sem greiddu minna en 200 dollara í sjóðinn.

Ætla má að þessir aðilar séu einstaklingar án mikils fjármagns, jafnvel hreinlega fátækt fólk.

Þetta bendir gegn því að kosningar séu keyptar þótt auður skipti vafalaust töluverðu  máli. 

Newsweek segir í áðurnefndri frétt  að 71% af fénu í kosningasjóði Ron de Santis sé ættað frá aðilum sem borgi meira en 2000 dollara hver.

Kannski fá Trump og Biden meira fé frá auðmagninu en uppgefið er. En sönnunarbyrðin hvílir á þeim sem því trúa. 

Skylt er að geta þess að fræðimennirnir Martin Gilens og Benjamin Page komast að annarri niðurstöðu en þeir hafa gert skipulega úttekt á framlagi til kosninga.

Niðurstaða þeirra er að yfirgnæfandi meirihluti þess fjár sem fellur í skaut frambjóðanda  komi fram fokríkum aðilum. Vægi þess hafi aukist mjög mikið á síðustu áratugum. 

Samt viðurkenna þeir eins og Chomsky að auðurinn sé ekki orðinn alvaldur, Hilary hafi tapað fyrir Trump þótt hún hefði meira fé milli handanna.

Og Bernie Sanders hafi næstum orðið forsetaframbjóðandi Demókrata þótt hann þægi ekki fé frá ríkisbubbum og stórfyrirtækjum.

Gilens og Page telja að orsakir hins aukna valds auðsins sé að leita í aukinni misdrefingu fjár, því að kosningabarátta hafi orðið æ dýrari og dómsuppkvæðningu Hæstarétts sem leyfði ótakmarkaðan fjáraustur í pólitíkusa (Gilens og Page 2017).

Athugið að fréttir í Newsweek eru ekki ritrýndar, skrif Gilens og Page eru það.

Samt er það  konkreta við kosningar  hvernig atkvæði falla, það er síður konkret hvers vegna menn greiða atkvæði með þessum eða hinum hætti.

Það er engan veginn örugglega satt  að menn séu manipúleraðir af auglýsingum, mörg dæmi um auglýsingaherferðir sem mistókust, t.d. ein dýrasta auglýsingaherferð í sögu BNA fyrir Edsel bíl Fords, fyrirtækið fór næstum á hausinn vegna þess hve illa bíllinn seldist.

En athuga ber að tilvist misheppnaðra manipúlasjóna útilokar ekki tilvist velheppnaðra manipúlasjóna, Kannski má finna dæmi um slíkt í pólitískri sögu Bandaríkjanna.

Einhverjar rannsóknir sýna að rússnesku tröllafyrirtækin höfðu ekki teljandi áhrif á kosningarnar 2016, aðaláhrifin hafi verið að tröllastarf Rússanna styrkti þá þegar sannfærðu í trúnni á Trump.

Á móti kemur að ýmsar rannsóknir, sem Chomsky nefnir,  benda til fylgni milli fjárausturs í kosningunum og úrslitum (Chomsky og Polychroniou 2017: 88). 

Gegn því má benda á að  sumir segja að ekki sé byrjað að dæla fé í frambjóðendur fyrr en þeim er tekið að ganga vel í skoðanakönnunum og forkjörum, menn veðja á vinsæla hestinn.

Gilens og Page er á öndverðum meiði, þeir segja að þess séu mörg dæmi að fjársterkir aðilar hafi dælt fé í "tapara" sem töluðu máli þeirra.

Alla vega er tæpast tilviljun að mikið er rætt um aukið vald aursins (í báðum merkingum orðsins!) í bandarískum kosningum.

Trump sagðist vera eini frambjóðandinn sem ekki yrði að þiggja fé frá aðilum sem síðan gætu haft óviðurkvæmileg áhrif á forseta.

Sennilega eru menn stundum manipúleraðir, helst þó  í einræðisríkjum, Hitler og Pútín voru/eru  drjúgir manipúlatorar.

En vandinn er ávallt sá að sá sem heldur því fram að altæk manipúlasjon (t.d. manufactured consensus) eigi sér stað verður að geta sýnt fram á að hann sjálfur sé ekki manipúleraður. Kannski Chomsky sé manipúleraður af óþekktum öflum X.

Abraham Lincoln hitti naglann á höfuðið er hann sagði „you can fool some of the people all of the time, all of the people some of the time but not all of the people all of the time.“

Gervigreind framtíðarinnar gæti manipúlerað okkur með hætti sem gerði samfélagið í Brave New World að byrjanda í faginu.

Ekki er gefið að þeir sem fjármagna kosningar fái hreðjartök á forseta, mér vitanlega eru ekki til neinar sannanir fyrir því.

Þeir reyna sjálfsagt (oft með góðum árangri) að afla sér velvildar og áhrifa með fjármögnun en  velvild og áhrif eru ekki það sama og völd, þótt mikil  áhrif hljóti að vera ávísun á völd.

En talsverður fjöldi aðila fjármagnar sérhvern frambjóðandi, forseti kann að geta teflt þeim gegn hver öðrum. Forsetar eru valdsæknir menn og því ólíklegt að þeir leggist flatir fyrir peningamönnum. 

Þess utan er ekki tilviljun að frambjóðendur rembast við að fá venjulegt fólk til að láta af hendi rakna, verða þeir ekki að taka tillit til þess fólks?

Og þarf forseti á síðara kjörtímabili að þjóna hagsmunum þeirra sem lögðu fé í sjóðinn? Hvernig ætlar auðvaldið að sjá til þess að hann lúti þeim?

En það er tæpast tilviljun að Bandaríkjamenn tala mikið um óviðurkvæmileg áhrif þessara aðila á stjórnmálamenn. 

 Alla vega var stigið óheillaskref þegar Hæstiréttur BNA felldi þann dóm að ekki mætti takmarka fjáraustur manna og fyrirtækja í frambjóðendur enda væri slíkt skerðing á einstaklingsfrelsi.

Vandinn er sá að það að leyfa slíkan fjáraustur án takmarkanna getur bitnað á einstaklingsfrelsi frambjóðenda og kjósenda.

Sannleikskjarninn í boðskap Chomskys

Chomsky er miklu betri þegar hann segir um BNA að það sé við það að verða hreinræktað plútókratí, samt sé umtalsvert einstaklingsfrelsi í landinu (Chomsky og Polychroniou 2017: 109, 116-118).

Þetta tel ég hárrétt. Það er líka rétt hjá honum að misskipting auðs hefur aukist verulega mikið vestanhafs og raunlaun lítið hækkað, m.a. vegna þess að hægriöflin hafa vængstýft verkalýðshreyfinguna (Chomsky 2016: 75) (en þetta hafa aðrir rætt með engu lakara móti en Chomsky, t.d. Krugman 2007).

Þess utan er heilmikið til í þeirri staðhæfingu að auðmenn og stórfyrirtæki hafi of mikil áhrif á bandaríska pólitík. Og ekki er bandarísk utanríkisstefna hafin yfir gagnrýni þótt Chomsky gangi of langt í að fordæma hana.

Chomsky er ágætur líka þegar hann gagnrýnir bandaríska heilbrigðiskerfið en Krugman hefur gert það miklu betur (Chomsky og Polychroniou 2017: 159-166)(Krugman 2007: 214-243).

Chomsky segir líka með talsverðum rétti að stórfyrirtæki vestanhafs séu í reynd mjög háð ríkisvaldinu, gróðinn sé einkavæddur, tapið ríkisvætt (Chomsky og Polychroniou 2017: 67)(Chomsky 2016: 53). Þetta þekkjum við Íslendingar alltof vel.

Frjálshyggjumenn (t.d. Misesstofnunarmenn) munu hafa gagnrýnt þetta ríkishæði fyrirtækjanna en telja  að lausn vandans sé að ríki og markaður verði algerlega aðskilinn. Ég  efast um það sé hægt enda sammála Chomsky um að markaðurinn viti ekki alltaf best (Chomsky 2016: 56).

Lokaorð

Það er heilmikið til í því að Chomsky sé slæmur með að velja þær heimildir sem honum hæfa og hunsa aðrar. Og túlka með sínum hætti, oft notar hann heimildir eins og nagla í naglasúpu.

Alla vega er hann engan veginn meiri heimildarfrömuður en aðrir álitsgjafar, að höfundum Anti-Chomsky Reader meðtöldum.

Þó verður því ekki neitað að Chomsky á sín góðu augnablik sem álitsgjafi eins og reyndar sést af sumu sem hér hefur verið sagt um hann.

Chomsky er fínn þegar hann talar um tungumál og heimspeki. Kannski á hann að halda sig það, hann er ekki besti vinstri-álitsgjafi vestanhafs, öðru nær.

Hann slær næstum aldrei varnagla heldur staðhæfir og staðhæfir. Með fúkyrðaflaumi sínum og dólgamarxísku slagorðaglamri gæti hann afkristnað heilt sólkerfi.

Heimildir:

Chomsky, Noam 1969: American Power and the New Mandarins. New York: Pantheon Books.

Chomsky, Noam 1973: Mál og mannshugur (þýð. Halldór Halldórsson).  Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag. 

Chomsky, Noam og Herman, Edward S. 1977: “Distortions at Fourth Hand“. The Nation, 6 júní https://chomsky.info/19770625/

Chomsky, Noam 2016: Who Rules the World? New York: Metropolitan Books.

Chomsky, Noam og Polychroniou, C.J. 2017: Optimism over Despair. On Capitalism, Empire, and Social Change. Chicago, Ill: Haymarket Books.

Collier, Peter og Horowitz, David (ritstj.) 2004: The Anti-Chomsky Reader. San Franscisco: Encounter Books (þar eð margir höfundar skrifa mismunandi greinar en allar í sama anda verður til hægðarauka vísað til bókarinnar sem Anti-Chomsky).

Courtois, Stéphane o.fl. 2009. Svartbók kommúnismans (þýðandi Hannes H. Gissurarson). Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Ferguson, Niall 2003: Empire. How Britain Made the Modern World. Harmondsworth: Penguin.

Fulbright, William  1967: The Arrogance of Power. New York: Random House.

Gilens, Martin og Page, Benjamin I 2017: Democracy in America? What went wrong and what can we do about it? Chicago og London: The University of Chicago Press. 

Krugman, Paul   2007: The Conscience of a Liberal. London og New York: W.W. Norton & Co.

Ponchaud, François 1978: Cambodia, Year Zero (þýdd úr frönsku). New York: Holt, Rhinehart and Winston.

Steinfeld, Hans-Wilhelm 2022:  Russland kriger. Stamsund: Orkana.

Thayer, Nate 2011: “Khmer Rouge Apologist Noam Chomsky: Unrepentant“ https://natethayer.typepad.com/blog/2011/11/khmer-rouge-apologist-noam-chomsky-unrepentant-.html

Tharoor, Shashi   2017: Inglorious Empire.What the British did to India. Harmondsworth: Penguin.

Þjóðnýting Gaddafís https://countrystudies.us/libya/31.htm


BJÖRN JÓN OG VINSTRIHLIÐIN SEM VANTAR

Björn Jón Bragason skrifar betur en flestir aðrir álitsgjafar. Hann er sannmenntaður og kann að tengja tilvísanir í heimsmenninguna við atburði dagsins í dag með sérlega frumlegum hætti. Og rökstyður mál sitt vel.

Hann er blessunarlega evrópskur í hugsun, vitnar grimmt í þýskar og franskar bókmenntir og álitsgjafa. Laus við enskumennsku nútímans þar sem allt snýst í kringum ensku og enskumælandi heim.  

Ég segi: Fjöltyngi er fjölkynngi!

En hann er of hægrisinnaður fyrir minn smekk án þess þó að vera öfgamaður. Gallinn er sá að hann vantar vinstrihliðina.

Bresk saga

Þessu til sannindamerkis mætti nefna margt, t.d. pistil þar sem hann lofsyngur frjálslyndi Breta og þá meintu staðreynd að samfélagið hafi þróast vel án blóðugra byltinga, kannski gagnstætt Frakklandi (Björn Jón 2022: 287-288).

Eitt er fyrir sig að spyrja má hvort hin blóðuga uppreisn  þingsins undir forystu Oliver Cromwells hafi ekki verið bylting sem gerði síðari framfarir mögulegar.

Einnig hvort nýlenduarðrán hafi auðgað Breta (samskipti nýlendna og nýlenduherra voru reyndar flókin, sumt bendir til þess að báðir aðilar hafi tapað þegar til lengdar lét, nánar um það síðar).

Í þriðja lagi hafði hið meinta, frjálslynda Bretland um aldamótin 1800 einhverja grimmilegustu refsilöggjöf sem um getur.

Smábörn voru hengd fyrir smáþjófnað, allt var gert til að vernda hinn ginnhelga eignarrétt auðstéttarinnar.

Nefna má að heimspekingurinn Hegel snupraði  Breta fyrir þetta og fleira, ég ræði gagnrýni hans í grein minni „Hegel og hégiljan“ sem finna má í greinasafni mínu Ástarspekt.

Hvað um það, kannski var minni ríkiskúgun í Bretlandi en víða annars staðar  en meiri auðkúgun.

Móðurmálið, einkaframtakið, ríkið

Meinið er að Björn Jón einblínir á meint ríkisofbeldi en hunsar mögulega auðkúgun þegar hann ræðir íslensk málefni. Hann hefur meiri áhyggjur af Samfylkingunni en Samherja, meiri af ríkisafskiptum en mögulegum yfirgangi auðmanna.

Mér til óblandinnar ánægju  hann  skýtur skildi fyrir móðurmálið en átelur bara ríkisstjórn og verkalýðshreyfinguna fyrir sofandahátt varðandi það, einkaframtakið er stikkfrí.

Hann segir með rétti að ótrúlegt megi þykja að ríkisstjórnin skuli láta enskuvæðingu Leifsstöðvar viðgangast í blóra við lög um að íslenska sé ríkistunga vor. En ekki eitt orð um einkaaðilana sem reka stöðina og hafa látið enskuvæða hana.

Ekki stafkrókur  um stöðugar enskuvæðingartillögur viðskiptaráðs, ég minnist þess að þáverandi forstöðumaður þess, Bogi Pálsson, hvatti á sínum íslensk fyrirtæki til að gera ensku að ríkismáli. 

Hvað þá um enskuvæðinguna í Háskólanum í Reykjavík, stofnun sem (Ó)ráðið setti á laggirnar en Björn Jón mun kenna þar.   

Ekki stafur um að viðskiptamaðurinn og þáverandi Sjalli Benedikt Jóhannsson mælti með því þegar árið 1999 að íslenska yrði lögð niður og enska tekinn upp í staðinn (ég svaraði geipi hans víða á netinu, einnig í greininni „Úlfahjörð vinda“ sem finna má í Ástarspekt).

En hið opinbera er alls ekki saklaust af enskumennsku, á Hverfisgötu er ritað á malbikið „Bus only“, ekkert á íslensku (má sækja borgaryfirvöld til saka fyrir lögbrot?).

Ekkert auðvald? Sjallar heilagir menn?

Synd væri að segja að Björn Jón ofreyni sig á að gagnrýna Sjálfstæðismenn en segir þó í einum pistli að kannski sé komið nóg af stjórnarsetu þeirra. Þeir nái ekki því markmiði að draga úr opinberum útgjöldum, öðru nær.

En hefur Birni Jóni aldrei hugkvæmst að stjórnarseta Sjalla sé hagsmunagæslu-atriði, ekki hugsjóna-atriði? Mér finnst nóg komið af stjórnsetu þeirra en ekki af sömu ástæðum og Björn Jón. 

Hann vitnar fjálglega í skýrslur Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins um óstjórn í fjármálum rétt eins og hér væru á ferðinni skýrslur samdar af hlutlausum aðilum (við getum deilt um hvort hlutleysi sé mögulegt).

Datt honum ekki í hug að hagmunir ráðs og samtaka gætu litað skýrsluskrifin? Er einkaframtakið heilagt í hans augum? Hann bendir réttilega á að þess séu dæmi að fullfrískt fólk sé á opinberu framfæri.

Vandinn er sá að rannsóknir í Noregi, sem ég las um fyrir margt löngu, bendir til þess að fjöldi fólks, sem á undir högg að sækja, fái ekki þær greiðslur sem það á rétt á vegna þess að það þekki ekki löggjöfina (ég sel þetta ekki dýrara en ég keypti það).

Strangt tekið hefur Björn Jón líka á réttu að standa er hann segir að það sé til vansa að stjórnmálamenn og -flokkar séu nánast á framfæri skattgreiðenda (Björn Jón 2022: 147-150).

En hann nefnir hvergi að margt bendir þess að sumir þeirra séu líka á framfæri stórauðvaldsins, ekki síst kvótagreifa. Hér vantar vinstrihliðina, skilning á því að auðvald er vandamál.

Óeirðir í Frakklandi, rasismi

Annað dæmi um þennan skort á vinstrihlið er nýlegur pistill þar sem hann leggur út af gagnrýni franska heimspekingsins Pascal Bruckners á óeirðaseggi í Frakklandi.

Margt vel athugað í þeirri gagnrýni en Birni Jóni láist að nefna þann möguleika að óeirðirnar stafi að einhverju leyti af rasisma (það má teljast sérkennilegt í ljósi þess að Björn Jón hefur gagnrýnt slæma meðferð á innflytjendum hér á landi.) 

Í ofan á lag er franska lögreglan fræg að endemum fyrir hrottaskap (sjá t.d. Morgenbladet 7/7 2023). Á móti kemur að öfgaíslamistar, glæpagengi og ólátabelgir gera illt verra, stuðla að árásum á stjórnmálamenn, gripdeildum og skemmdarverkum. 

Einhvern tímann las ég um rannsókn sem gerð var í Frakklandi og fleiri löndum. Sendar voru umsóknir um vinnu til tiltekinna fyrirtækja og var umsækjendum skipt þannig í lið að nokkurn veginn sama ferilskrá var send í nafni tveggja umsækjanda, annar með evrópskt nafn, hinn hét nafni frá Miðausturlöndum.

Í ljós kom að þeir með evrópsku nöfnin fengu stöðurnar í mun ríkari mæli en þeir með austrænu nöfnin. Tekið skal fram að ég vitna í þetta eftir minni, minni okkar allra er brigðult. Og rannsóknir misvel framkvæmdar. 

Ögn um agaleysi og borgaralegar dyggðir

Björn Jón bendir réttilega á að agaleysi, tillitsleysi og ókurteisi Íslendinga valdi  samfélaginu stórtjóni. Hann segr með vissum rétti að þjóðina skorti borgaralegar dyggðir (Björn Jón 2022: 266-269.

Nefna má að norsk kona, sem búið hefur lengi á Íslandi og talar reiprennandi íslensku, sagði mér að Íslendingar tækju ekki tillit til annarra.

Því miður alltof satt. En lausnin er ekki bara efling borgaralegra  dyggða  heldur samstaða í anda jafnaðarstefnu. Slíka samstöðu má finna í Noregi og segja sumir hagfræðingar að hún sé lykillinn að velsæld þjóðarinnar.

Forsenda slíkrar samstöðu er m.a. tiltölulega mikill tekjujöfnuður. Þannig stuðlar vinstridyggðin jöfnuður að samstöðu og virkar gegn þeirri ofureinstaklingshyggju sem getur af sér tillitsleysi og yfirgang.

Best er að finna kjörvægi milli einstaklingshyggju og samhyggju. 

Lokaorð

Er ég að mæla með einhverri allsherjar vinstrivæðingu hugans? Öðru nær, ekki skortir álitsgjafa sem vantar hægri- og miðhliðina, ég er að andæfa kerfis- og formúluhugsun.

Björn Jón er góður fulltrúi mið-hægri-stefnu en mætti  hyggja betur að vinstrihlið málanna.

Heimildir:

Björn Jón Bragason 2022: Þjóðfélag í skuggsjá. Greinasafn. Reykjavík.

Stefán Snævarr 2004: Ástarspekt. Greinar um heimspeki. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag.

"Det er enten for lite eller mye intervensjon", Morgenbladet 7/7 2023. 


KJARNORKUVÁ FYRIR FJÖRUTÍU ÁRUM

Í umræðunni um kjarnorkuvá í kjölfari  Úkraínustríðsins er einatt talað eins og heimurinn hafi aðeins einu sinni áður  staðið á barmi kjarnorkustríðs, á tímum Kúbudeilunnar.

Fólk gleymir ástandinu fyrir fjörutíu árum þegar kalda stríðið var með kaldasta móti og margir óttuðust að heimsstyrjöld brytist út þá og þegar.

Í þýska tímaritinu Kursbuch skrifaði einhver hæðnislega að best hefði verið að kjarnorkustríðið hefði átt sér stað 1962, þá værum við búin með pakkann!

Vinsældalistar voru fullir af lögum um stríðshættu, nægir að nefna „Dancing With Tears In My Eyes“ með Ultravox, „I  Won‘t  Let The Sun Go Down On Me“ með Nik Kershaw og „Two Tribes“ með Frankie goes to Hollywood.

Einnig var gerð a.m.k. ein kjarnorkustríðsmynd í Hollywood, „The Day After“.

Hví kólnaði kalda stríðið svo mjög? Ein ástæðan var innrás Sovétmanna í Afganistan, önnur, því ekki ótengd ástæða, var sigur Ronalds Reagans í bandarísku forsetakosningunum.

Hann hóf mikla hervæðingu m.a. sem svar við auknum vígbúnaði austan tjalds. Einnig hamaðist hann gegn Sovétríkjunum, kallaði þau  „heimsveldi hins illa“ og boðaði nýja stefnu, „roll back“ í stað „containment“.

Nú var ekki lengur nóg að halda aftur að Sovétríkjunum („containment“) heldur yrði að  þrýsta þeim burt („roll back“).

Þá gerðist að rússneski njósnarinn Oleg Gordievskí, sem var á mála hjá Bretum, hafði samband við þá og varaði við.

Hamagangur Reagans (sem var sum part skiljanlegur) hefði hrætt Sovétleiðtogana svo mjög að þeir óttuðust að hann myndi láta her sinn ráðast á Sovétríkin.

Þeir hafi talið  líklegt að NATÓ-hernaðaræfingin Able Archer væri undirbúningur innrásar. Þeir hafi velt því fyrir sér hvort ekki væri best að verða fyrri til.

Bretar komu skilaboðum á framfæri við Reagan sem skildi að hann yrði að friðmælast við Sovétmenn.

Sé þetta satt kann Gordievskí að hafa bjargað mannkyninu frá tortímingu, hann kann að vera einn helsti velgjörðarmaður þess.

Á hann ekki skilið friðarverðlaun Nóbels?


1984: Frá Orwell til Bowies

Ég las Nineteeneightyfour  eftir George Orwell fjórum sinnum þegar ég var ellefu ára. Í íslenskri þýðingu. Um daginn tók ég mig til og hlustaði á hana á ensku, hafði ekki lesið hana á þvísa máli.

Gagnstætt sögu Orwells, Animal Farm, er Nineteeneightyfour   ekki bein ádeila á Sovétríkin.

Alræðisríkið bókarinnar hefur líka þætti úr Fögruborg Platóns, hugmynd hans um fyrirmyndaríkið. Í því átti valdastéttin að vera heimspekimenntuð en mátti ekkert eiga og ekki stofna fjölskyldu.

Hið sama gilti um næst æðstu stétt, sem átti að sjá um varnir og daglega stjórnun, en átti ekki að vera heimspekimenntuð.

En lægsta stétt mátti eiga eignir, stofna fjölskyldu og stunda viðskipti. Í 1984-ríkinu gildir þetta um prólana, lægstu stéttina. Í þeirra samfélag var meira að segja til frjáls markaður, gagnstætt Sovétríkjunum.

En ekki Þýskalandi nasismans, þar var bæði einkaeign og markaðskerfi þótt flokksbroddarnir réðu mestu og stunduðu takmarkaðan áætlunarbúskap (frjálshyggjumenn gera alltof mikið úr þætti þess búskapar í nasistaveldinu, nánar um það síðar).

Alla vega má hugsa sér að Orwell hafi líka haft nasista í huga þegar hann skrifaði bókina.  

Fleira bendir gegn því að Nineteeneightyfour   sé bein ádeila á Sovétið. O‘Brian, talsmaður kerfisins, talar um alræðisríki fortíðarinnar í útgáfu kommúnista og nasista.

Þeim hafi ekki tekist að heilaþvo fólk nógu rækilega, til að gera illt vera hafi þeir haft hugsjónir sem stjórnarfarið átti að raungera. En 1984-alræðið hefði engar hugsjónir, enga draumsjón, markmið þess væri vald valdsins vegna.

Þýðir þetta að 1984 sé alls ekki ádeila á Sovétkerfið? Auðvitað ekki, þættir í 1984-alræðinu minna  á Sovétríki Stalíns, t.d. andófsmaðurinn Emmanuel Goldstein sem minnir ekki eilítið á Trotskí sem upprunalega hét Bronstein.

1984-alræðisríkið Oceania er einn daginn í stríði við Austurasíu-alræðisríkið, þann næsta við Evrasíska alræðisríkið en alltaf er látið eins og ríkið hafi ávallt verið í stríði við annað þeirra.

Hið sama var upp á teningnum þegar allt í einu var hætt að kalla nasista „aðalóvini Sovétríkjanna“, upp úr þurru urðu þeir hálfgerðir bandamenn þess og Vesturveldunum lýst sem meginféndunum.

Nineteeneightyfour   hefur því víðari skírskotun en margir halda, hún fjallar m.a. um þörf alltof margra fyrir að beygja sig fyrir valdinu, valdagirni sumra o.s.frv.

Einnig mætti tengja hana við kenningar Karls Poppers um að nasismi og kommúnismi eigi sér sameiginlegar rætur í kenningu Platóns um fyrirmyndarsamfélagið (undirritaður hefur litla trú á þeirri kenningu, nánar um það síðar).

Víkur nú sögunni að David Bowie. The Guardian segir að hann hafi verið haldinn flughræðslu og fór þess vegna í lestarferð gegnum Sovétríkin á leiðinni  til Asíu.

Hann hafi orðið fyrir sjokki þegar hann sá sovéska hermenn marséra í takt, það  hafi minnt hann á bók Orwells.

Þá hafi hann tekið til óspilltra málanna að gera plötuna Diamond Dogs sem inniheldur mörg lög sem eru beinlínis innblásin af  Nineteeneightyfour: Lagið með sama heiti (1984), Big Brother, og We are the dead.

Hið síðastnefnda er setning sem andófsmaðurinn Winston Smith segir við ástkonu sína, hina andófssinnuðu Júlíu, hann veit að þau eru dauðadæmd, fyrr eða síðar mun kerfið afhjúpa þau og stúta þeim. Það gekk eftir.

Í dag lýtur lýðurinn stórum bræðrum eins og Pútín, Erdogan og Trump. Í Kína er verið að þróa hið fullkomna, rafræna  eftirlit með þegnunum, það gæti leitt til alræðis sem gerði Sovét og Þýskaland nasismans að frjálsræðisríkjum. 

Stóri bróðir framtíðarinnar gæti verið hann herra Algrím(ur). 


Gáfur og greindarpróf

Einhvern tímann var vinsælt að segja að greind væri einfaldlega það sem mælist á greindarprófum (köllum þetta „mælingarrökin“). En þessi rök eru meingölluð.

Í fyrsta lagi eru eru til alls konar greindarpróf og þau hafa breyst síðan á sokkabandsárum þeirra. Ef greindarpróf eru verulega ólík innbyrðis þá er ekkert vit í mælingarrökunum.

Skera verður úr um hvaða greindarpróf sé best fallið til mælinga en þá verða menn að gera a.m.k afstæðan greinarmun  á milli greindar sem slíkrar og árangurs á greindarprófum (með „afstæðum greinarmuni“ á ég við „greinarmunur sem gerður fyrir sakir raka“).

Í öðru lagi er vart  hægt að segja að greindarpróf mæli sköpunargáfu  enda er hún illmælanleg (skv Kaufman 2015: 55–72).

Sé svo þá standa þau ekki undir nafni því heilbrigð skynsemi segir að sköpunargáfu sé jafnmikilvæg og stærðfræði- og málgreind.

Í þriðja lagi kann bandaríski sálfræðingurinn Keith Stanovich  að hafa nokkuð til síns máls er hann segir að greindarpróf mæli ekki skynsemi (e. rationality).

Meintir  gáfumenn séu ekki endilega skynsamir. Hann kemur með ýmis dæmi um slíkt, trú ofurgáfaðra einstaklinga á fáránlegar kreddur. Einnig nefnir hann til sögunnar nóbelshafa í efnafræði, sem trúað hafi því að sér  hafi verið rænt af geimverum,  og að HIV veiran valdi ekki alnæmi.

Auk þess vísar hann til ýmissa tilrauna sem hann og samstarfsmenn hans hafa gert. Ástæðan fyrir þessu sé m.a. sú að flest okkar séum þekkingarlegir nískupúkar (e. cognitive misers).

Við hneigjumst til að gera okkur leikinn léttan, ekki hugsa málin niður í kjölinn. Auk þess trufli fordómar skynsemina. Niðurstaða hans er sú að   greind sé ekki það sama og skynsemi enda mældu greindarmælingar ekki hið síðastnefnda (Stanovich 2009: 35–39).

Í fjórða lagi telja sumir sálfræðingar að ekki sé til ein allsherjar greind heldur margar gerðir greindar sem séu ósammælanlegar.  

Einn þeirra, Howard Gardner að nafni,  segir að margs konar greind sé til og því ófrjótt að draga alla greind upp á sömu seil og mæla meinta vísitölu hennar. Til sé tilfinningagreind, félagsgrein o.s.frv.

Andstæðingar segja þetta rangt, til sé ákveðinn þáttur, g-þátturinn sem sé grundvöllur þess er  virðist margháttuð greind.

Þess utan sé hættan sú að allt milli himins og jarðar geti talist greind og þá glati hugtök um greind inntaki sínu (skv Marenus 2020). Ekki er auðvelt að skera úr um þennan ágreiningi.

Hvað sem því líður kann kenning Stanovich að vera vatn á myllu Gardners og félaga. Má ekki  segja að skynsemi sé sérstök tegund greindar sem tengist lítið öðrum greindargerðum?

Að minni hyggju er aðalvandi greindarprófa sá að þau mæla ekki sköpunargáfu. Það þýðir einfaldlega að mælingarrökin eru út í hött. 

Greindarpróf  mæla sjálfsagt einhverja andlega getu, t.d. skólaþroska.

En auðvitað er ekki hægt að útiloka að mönnum takist að mæla sköpunargáfu einhvern tímann í framtíðin, annað hvort sem lið í greindarmælingum eða sem mælingu á sérstökum hæfileika, óháðum greind. 

Kannski ber að greina milli greindar og gáfna, greindarpróf mæli hið fyrrnefnda en ekki gáfurnar. Ef til eru hvorki greind né gáfur mælanlegar. 

 

Heimildir

Kaufman, James C.  2015: „Why Creativity isn‘t  in IQ Tests, Why it Matters,  and Why it will not Change Anytime Soon Probably“, Journal of Intelligence, 3, bls. 55–72. Sótt 28/5 2022 á file:///C:/Users/700215/Downloads/jintelligence-03-00059.pdf

Marenus, Michele 2020: „Gardner‘s Theory of Multiple Intelligences“, Simply Psychology. Sótt 20/3 2022 á https://www.simplypsychology.org/multiple-intelligences.html

Stanovich, Keith E. 2009: „Rational and Irrational Thought: The Thinking that IQ Tests Miss“, Scientific American Mind, nóvember/desember, bls. 35–39.

 

 


KANAR GEGN RÚSSUM. Fjórði hluti: Kana-Janus á alþjóðavettvangi

Í þessari færslu verður bandarísk utanríkisstefna í brennidepli þó með hliðsjón af hinni rússnesku.

Skammarstrik Kana og bandaríska bremsan

Einhver kann að velta því fyrir sér hvort ég er að fegra utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Nei, ég neita því alls ekki að Kanar hafa framið ýmis skammarstrik. Í byrjun tuttugustu aldar óðu þeir yfir smáríki Mið-Ameríku og réðust hvað eftir annað inn í þau.

Ekki skal ég heldur verja sprengjuregnið yfir Víetnam varið, hvað þá beitingu eiturvopna í því stríði. Eða kjarnorkuárásirnar á Hiroshima og Nagasaki. Eða þátttaka þeirra í valdaránunum  í Íran 1953, Guatemala 1954, Indónesíu 1965, og Chile 1973.

Sýnir þetta ekki að Bandaríkin séu heimsveldisinnuð? Er ekki stefna þeirra skilyrt af efnahagslegum hagsmunum? Svarið við báðum spurningum er bæði já og nei, Bandaríkin eru líka Janus í utanríkismálum sem öðru, bandaríska bremsan virkar oft.

Eins og áður segir bremsaði öldungadeildarþingmaðurinn Frank Church CIA heldur hressilega, ekki hefur það eflt amerískan imperíalisma.

Hvað efnahags-hagsmuni varðar þá eru þess dæmi að þeir hafi haft áhrif á bandaríska utanríkispólitík, t.d. bendir margt til þess að óviðurkvæmileg tengsl Dulles-bræðra við United Fruit Company hafi valdið miklu um þátttöku Kana í valdaráninu í Guatemala 1954.

Einnig kann stuðningur við valdaránið í Íran að hafa skilyrst af olíuhagsmunum. Þess utan bendir sumt til þess að bandarísk  fyrirtæki á borð I.T.& T hafi haft hönd í bagga með valdaráninu í Chile.

En kenningin um áhrif slíkra hagsmuna getur ekki skýrt hvers vegna Bandaríkjamenn lyftu ekki litlafingri árið 1937 þegar Lazaro Cardenas, forseti Mexíkó, lét þjóðnýta bandarísk olíufyrirtæki.

Kannski var ástæðan sú að bandaríski herinn var vanmegnugur, álíka "öflugur" og sá belgíski, m.a. vegna áhrifa einangrunarsinna. Bandaríkin stofnuðu ekki leyniþjónustu fyrr en í síðari heimsstyrjöld. Dálítið erfitt fyrir  ríki með vanmáttugan her og enga leyniþjónustu að vera heimsveldissinnað!

Kenningin skýrir heldur ekki hvers vegna Bandaríkjamenn neyddu ekki Íraka til að einkavæða olíulindir og -fyrirtæki eftir hina svívirðilegu  innrás þeirra árið  2003. Bandarísk fyrirtæki fengu vissulega rétt til að vinna olíu þar en gáfust fljótlega upp vegna hins ótrygga ástands í landinu. Rússnesk og kínversk fyrirtæki komu í staðinn en olían er enn írösk ríkiseign.

Það er því einfaldlega ósatt að  hagsmunir stórfyrirtækja og auðmanna  ráði algerlega bandarískri utanríkisstefnu.Öðru nær, slíkt er líklega fremur undantekningin en reglan í bandarískri utanríkisstefnu. 

Hinn bandaríski Janus sýndi betra andlitið þegar hann lét fara fram frjálsar kosningar i Írak, kosningar sem leiddu til þess að vinir Írans unnu sigur og gerðu landið nánast að írönsku leppríki.

 

Af hverju kom hið illa ameríska heimsveldi ekki í veg fyrir það? Var Auðvaldur sjálfur í fríi? Kannski vegna þess að húmaníski þátturinn tempraði imperíalíska þáttinn, bandaríska bremsan lætur ekki að sér hæða.

Eitt fárra  dæma um slíkt í rússneskri sögu var þegar Gorbasjov lét eiga sig að beita valdi gegn frelsishreyfingum leppríkjanna (fátt fer meira í taugarnar á zar-fasistunum austur þar).

Nefna má að Prígósín sagði á dögunum að ástæðan fyrir innrásinni í Úkraníu hefði verið græðgi rússneskra ólígarka. Þeir vilji ólmir klófesta úkraínskir auðlindir. Hvort þetta er satt skal ósagt látið. 

Fleira bendir gegn því að amerísk utanríkispólitík stjórnist algerlega af annarlegum efnahagslegum hagsmunum. Ef svo væri þá hefðu BNA stutt hinn olíuauðugu arabaríki, ekki litla Ísrael. Meint leppríki Kana á borð við Sádí-Arabíu stóðu fyrir olíuhafnbanninu árið 1973 án þess að þeir fengu rönd við reist.

En einhliða stuðningur Bandaríkjanna við Ísrael er tvímælalaust ámælisverður. 

Þótt margt megi ljótt um bandaríska utanríkisstefnu segja þá er það fremur reglan en undantekninginn að Kanar  séu engu siðferðilega verri, jafnvel skárri, stundum mun betri en andstæðingar þeirra.

Vissulega voru þeir verri en lýðræðisstjórnirnar í Íran, Guatemala og Chile, stjórnir sem þeir áttu þátt í að steypa. En þeir voru siðferðilega  mun betri en nasistarnir, japönsku heimsveldissinnarnir,  ráðamenn í kommúnistaríkjunum, talíbanar, IS og Al Kaída.

Einnig voru þeir engu verri en andstæðingar þeirra í Víetnamstríðinu, Víet Minh lét drepa trotskíista sem unnu sigur í frjálsum kosningum syðst í Víetnam árið 1945. Víet Minh liðar  voru fljótir að koma grimmilegu einræði þegar þeir náðu völdum, fyrst í norðrinu svo í suðrinu.

Hin spillta einræðisstjórn í Saigon var sennilega skömminni skárri en stjórn kommúnista. Eða hvers flúðu hundruð þúsunda manna frá Suður-Víetnam eftir valdatöku kommanna? Engin slíkur flóttamannastraumur átti sér stað á stríðsárunum.

En þetta afsakar ekki sprengjuregn Bandaríkjamanna, morðin í My Lai o.s.frv. Eða staðhæfingu Eisenhowers um að Kanar vildu ekki frjálsar kosningar í Víetnam vegna þess að Víet Minh myndi örugglega vinna.

Honum til afsökunar skal sagt að hann hefur vitað að þetta yrðu síðustu frjálsu kosningarnar í landinu. Hann kann að hafa haft veður af „afrekum“ Víet Minh 1945. Einnig virkaði bandaríska bremsan á endanum í Víetnamstríðinu. Hávær mótmæli og afhjúpun Pentagonskjalanna urðu til þess að Bandaríkjamenn hættu þátttöku í stríðinu.

Í Kóreustríðinu áttu Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra í höggi við hina óhugnanlegu alræðisstjórn Kim-ættarinnar. Það er Könum til mikils sóma að þeir björguðu Suður-Kóreumönnum frá því að lenda í klóm hinna kóresku kommúnista.

En Bandaríkjamenn lögðu Norður-Kóreu algerlega í rúst með loftárásum, sagt er að margir íbúa landsins eigi erfitt með að fyrirgefa þeim það, lái þeim hver sem vill.

Janusinn sýndi bæði fésinn í Kóreu eins og víða annars staðar. 

Þeir eiga reyndar engan einkarétt á að leggja lönd í rúst, Rússar gjöreyðilögðu Tséténu í stríðinu við uppreisnarmenn þar. Blaðakonan Anna Pólitikovskaja ferðaðist um landið á stríðsárunum og lýsti sem helvíti á jörð. Rússnesku hermennirnir hefðu vaðið uppi drepandi, nauðgandi og stelandi (Politkovskaja 2001).

Fyrir þessi skrif og gagnrýni á Pútín galt hún með lífi sínu, þeir sem reynt hafa að bremsa Moskvuvaldið verða oftast að greiða það háu verði.

Bandaríkjumenn björguðu ekki bara Suður-Kóreumönnum heldur líka Bosníumönnum þegar bandaríski loftherinn tók að gera árásir á víghreiður Bosníuserba.

Nú bjarga þeir Úkraínumönnum, ef bandarískrar og vestrænnar aðstoðar hefði ekki notið væru Úkraínumenn nú þrælar hins zar-fasiska einræðisherra. 

Einnig björguðu Bandaríkjamenn konum í Afganistan frá villimannlegri kúgun Talibana. Undir handarjaðri Kana bötnuðu kjör kvenna mikið (skylt er að geta þess að slíkt hið sama gerðist á meðan Sovétríkin hernámu landið, þeim var ekki alls varnað). 

Kanar björguðu líka  heiminum frá nasistum, m.a. með því að dæla vopnum í Sovétherinn. Ekki er heldur útilokað að þeir hafi bjargað Vestur-Ebrópu frá kommmúnísku einræði. 

Einnig komu þeir og NATO í veg fyrir þjóðarbrotshreinsun í Kósovó en deila má ágæti loftárásar NATO. Þær voru vel mögulega brot á alþjóðalögum, þess utan var erfitt að sjá að Serbar ógnuðu varnarbandalaginu NATO. 

Getur verið að þessi uppákoma hafi hrætt Rússa svo mikið að þeir hafi lyft hinum harðdræga Pútín til valda? Hið sama gildir um hin vanhugsaða stuðning NATO  við uppreisnarmenn í Líbíu í mynd loftárása á Gaddafí-liða.

Þær loftárásir kunna  að hafa hrætt Pútín, innrásin í Írak líka, hrætt hann svo mikið að hann snerist gegn Vesturlöndum og hóf innrás í Úkraínu.

Áfram með smjörið: Eftir fyrri heimsstyrjöldina höfðu Bandaríkjamenn ráð Evrópu í hendi sér, til dæmis voru Frakkar og Bretar þeim stórskuldugir.

Samkvæmt formúlum Leníns hefðu þeir átt að leggja undir sig nýlendur þeirra, Lenín hélt að styrjöldin hefði verið uppskiptastríð um landsvæði og nýlendur, stríð sem orsakaðist af hagsmunum auðhringja.

En hvað gerist? Bandaríkin snerta ekki nýlendurnar og láta eiga sig að gera Frakkland, Bretland og Þýskaland að leppríkjum sínum.

Þeir leggja herinn nánast niður og einangra sig á alþjóðavettvangi, voru ekki einu sinni með í Þjóðabandalaginu. Þrátt fyrir allt þetta blómgaðist efnahagur þeirra, það átti ekki að geta gerst samkvæmt marxískum kreddum Leníns (Lenín 1961).

Sama var upp á teningnum eftir síðari heimsstyrjöld en Kanar drógu herlið sitt heim og gerðu þessi lönd ekki að leppríkjum. Þeir létu líka eiga sig að  herja á Sovétmenn  með kjarnorkuvopnum. Enn á ný virkaði bandaríska bremsan.

Nefna má að Íslendingar gerðu viðamikla viðskiptasamninga við Sovétríkin á árunum upp ur 1950, mjög í óþökk Bandaríkjamanna. Einnig var mynduð ríkisstjórn árið 1956 með þátttöku Sovétvina og ætlaði sú stjórn að leggja herstöðina niður.

Spurt er: Ef Bandaríkin eru hreinræktað heimsveldi, af hverju komu þeir ekki í veg fyrir þessar uppákomur í hinu hernaðarlega mikilvæga örríki Íslandi?

Hefðu Sovétmenn leyft fylgiríkjum sínum slíkt? Hvað myndi Pútín gera ef Lúkasenkó reyndi að reka rússneska herinn heim og gera mikla viðskiptasamninga við Bandaríkin?

Það er ekki tilviljun að sagnfræðingurinn Niall Ferguson kallar Bandaríkin „heimsveldið hikandi“ (e. the reluctant empire) (Ferguson 2004). Réttar væri að kalla það „hálfhikandi heimsveldi“, það hefur Janusarandlit eins og annað amerískt, önnur ásjónan húmanísk og hikandi, hin imperíalísk og laus við hik.

Arðrán?

Þá kann einhver að spyrja hvort Kanar lifi ekki á arðráni á þriðja heiminum. Vandinn er sá að sú kenning skýrir ekki hvers vegna lönd eins og Tævan og Suður-Kórea blómguðust undir verndarvæng Bandaríkjanna. Þau iðnvæddust með firnahraða og eru í dag meðal ríkustu þjóða heims, voru fyrir sjötíu árum örfátæk.

Kenningin skýrir heldur ekki hvers vegna olíuþjóðir á borð við Kúvæt og Katar búa við mjög góð kjör, það þótt ráðamenn þar taki til sín all drjúgan hluta af þjóðarauðnum (nefna má líka að ef vestrænir menn hefðu ekki fundið upp bensínknúnar vélar væri olían í þessum löndum lítils virði).

Væri kenningin um arðrán sönn þá væru allar þessar þjóðir örbjarga.

Ekki er víst að fjárfestingar vestrænna fyrirtækja í þriðja heiminum leiði af sér arðrán. Um 1968 fór 60% af bandarískum fjárfestingum til Kanada og Vestur-Evrópu án þess þau yrðu arðrænd fyrir vikið.

Hefðu bandarískar fjárfestingar í þriðja heiminum verið af arðránstagi þá hefði yfirgnæfandi meirihluti bandarísks fjármagns streymt þangað, ekki bara 40%. 

Í mörgum af fátækustu löndum jarðarinnar vill enginn fjárfesta þar eð ástandið er of ótryggt. Hverjir skyldu nú fjárfesta í Sómalíu? Varla nokkur, örbirgðin þar getur því ekki verið sök erlendra fjárfestinga.

Á móti kemur að Eduardo Galeano lagði fram staðtölur sem sýna eiga  að bandarísk fyrirtæki arðræni Suður-Ameríku. Á  tímabilinu 1950-1967 hafi bandarískar fjárfestingar í Suður-Ameríku numið  3921 milljónum dollurum en gróði þeirra numið 12839 milljónum dollara (Galeano 1979: 117–192).

Því er til að svara að staðtölur má túlka og toga. Og jafnvel þótt þetta væri satt (sem er alls ekki víst) þá kunna þessi ríki að græða enn meira á tæknilegum sköpunarmætti Kana. Skyldu þau tapa á uppfinningum á borð við ljósaperuna, einkatölvuna og flugvélina?

Hvers vegna hefur hundruð milljónir þriðjaheimsbúa  orðið bjargálna og vel það á síðustu áratugum? Hefði meint arðrán ekki átt að koma í veg fyrir það?

Hvers vegna urðu mestu hungursneyðir síðustu áratuga í heil- og hálfkommúnsitaríkjum? Ekki bera Kanar ábyrgð á mannfellinum mikla í Kína um 1960, hungursneyðinni í hinni Sovétvinsamlegu Eþíópíu um 1983 eða þeirri í Norður-Kóreu upp úr 1990.

 Bandaríkjamenn lifa fremur á vitinu en stritinu, á tækninýjungum ýmsum sem aðrar þjóðir njóta góðs. Eða hafa þeir kannski stolið hugmyndunum frá þriðja heiminum?

Þurfa þeir alltént  ekki ógnarmikið af hráefnum? Vissulega,  en þeir eru sjálfum sér að allnokkru leyti nógir um þau, nú er þeir aftur orðnir sjálfum sér nógir um olíu.

Ef þeir stunduðu arðrán í miklum mæli þá myndu þeir eiga  viðamikil viðskipti við önnur lönd en utanríkisviðskipti þeirra eru ekki mikil miðað við Vestur-Evrópu og Kína. Einna helst að þeir flytja þeir vörur frá Kína en mér vitanlega hefur engum dottið í hug að halda því fram að þeir arðræni Miðríkið.

En auðvitað má halda því fram að Bandaríki byggi á e.k. frum-arðráni. Þeir hafi rænt landi frá frumbyggjunum og arðrænt þræla í suðrinu. Vandinn er sá að þrælabúskapurinn var ekki arðvænlegri en svo að Suðurríkin stöðnuðu efnahagsega á meðan hin  þrælavana Norðurríki iðnvæddust með glæsibrag.

Annar möguleiki er sá að Kanar njóti arðs af hinni sterku stöðu dollarans. Hann er ekki venjulegur gjaldmiðill heldur grundvöllur heimsviðskipta. Franski fræðimaðurinn Emmanuel Todd segir að þessi staða hans færi Bandaríkjamönnum fé sem þeir hafi ekki unnið fyrir (Todd 2003).

En þetta líkist fremur happdrættisvinningi en arðráni, græðir ekki heimshagkerfið á því að hafa svo öflugan gjaldmiðil?

Velta má fyrir sér hvort Sovétríkin hafa arðrænt leppríki sín, alla vega tróðu þau upp á þessi ríki hinu liðónýta efnahagskerfi sínu.

Rússaher virðist stunda hreinan þjófnað í Úkraínu, bæði  stela einstakir hermenn öllu steini léttara, eins virðist zar-fasistastjórnin læsa klónum í úkraínskar auðlindir.

Sovétherinn fór líka ránshendi um Mið- og Austur-Evrópu í lok síðari heimsstyrjaldar. Ekki má heldur gleyma því að keisarastjórnin var nýlenduveldi sem hugsanlega hefur arðrænt nýlendur sínar.

Allt ber þetta að sama brunni, margt má ljótt um bandaríska utanríkispólitík segja en andstæðingar þeirra eru oft mun verri en þeir. Erfitt er að sjá að Kanar lifi á arðráni á þriðja heiminum, sönnunarbyrðin er þeirra sem því trúa.

Lokaorð

Bandaríkin eru sjaldan siðferðilega verri en andstæðingar þeirra, oft skárri. Hið gagnstæða gildir um Rússland. Ekki verður séð að utanríkisstefna Bandaríkjanna stjórnist fyrst og fremst af efnahagslegum hagsmunum, fremur hið gagnstæða.

Líka virðist ólíklegt að Kanar lifi á arðráni á þriðja heiminum þótt þeir hafi gert sig seka um ýmis skammarstrik. Margt bendir til að Moskvuveldið hafi löngum stundað þjófnað í öðrum löndum eða valdið vanþróun þeirra með því troða upp á þau misheppnuðu efnahagskerfi.

Þrátt fyrir sína mörgu og mikla galla hefur utanríkisstefna Bandaríkjanna að jafnaði verið skárri en stefna Rússlands enda samkeppnin ekki hörð.

Því veldur bandaríska bremsan og skárra andlit hins bandaríska Janusar.

 

Heimildir:

Ferguson, Niall 2004:  „The Reluctant Empire“, The Hoover Digest, https://www.hoover.org/research/reluctant-empire

Galeano, Eduardo  1979: Latinamerikas åpne årer (þýðandi Arne Hem). Ósló: Pax.

Lenín, Vladimír Iljits 1961: Heimsvaldastefnan. Hæsta stig auðvaldsins (þýðandi Eyjólfur R. Árnason). Reykjavík: Mál og menning/Heimskringla.

Politkovskaja, Anna 2001:   En reise i helvete. Rapport fra krigen i Tsjetjenia. Ósló: Pax forlag.

Todd, Emmanuel 2003: Weltmacht USA. Ein Nachruf (þýðendur Ursel Schäfer og Enrico Heinemann). München/Zürich:Piper.

Mexican Expropiration of Oil https://history.state.gov/milestones/1937-1945/mexican-oil

Um United Fruit company og Guatemala https://www.thenation.com/article/economy/united-fruit-guatemala/

Um valdaránið í Íran https://en.wikipedia.org/wiki/1953_Iranian_coup_d%27%C3%A9tat

Um valdaránið í Chile https://en.wikipedia.org/wiki/Military_dictatorship_of_Chile_(1973%E2%80%931990)

 

 

 

 

 


KANAR GEGN RÚSSUM. Þriðji hluti: Samskipti þeirra

Bæði Rússland og Bandaríkin eru fjölþjóðaríki og heimsveldi. Heimsveldisbrölt Rússa einkennist af hreinum yfirgangi og sum part skiljanlegu ofsóknarbrjálæði.

Brölt Bandaríkjamanna  einkennist að sumu leyti af  yfirgangi en sá yfirgangur er oft tempraður af húmanisma og einangrunarhyggju (bandaríska bremsan er ein útgáfa temprunarinnar).

Utanríkisstefna BNA er að nokkru leyti imperíalísk, húmanísk og einangrunarkennd. Þessi þrír þættir vefjast saman með ýmsum hætti.

Hvað um Rússa? Að leggja undir sig nágrannalönd og kúga þjóðir þar hefur löngum einkennt rússneska utanríkisstefnu. Þessi hneigð eflist vegna nojunnar, hún er að því leyti skiljanleg að Rússar hafa oft orðið fórnarlömb innrása. Heimsveldisstefna þeirra eru einatt bremsulaus.

Hér skulu samskipti ríkjanna rædd, í næstu færslu verður sjónum beint að alþjóðabrölti Kana með hliðsjón af því rússneska. 

Samskipti BNA og Rússlands

Áður hefur þáttur Bandaríkjamanna í íhlutunarstríðinu verið nefndur en hann var harla lítilfjörlegur. Spyrja má Vesturlönd hafi haft rétt til að skipta sér af rússneska borgarastríðinu. Því má svara með að benda á að bolsévíkar höfðu tekið völdin með valdaráni og hunsað úrslit lýðræðislegra kosninga. Í ofan á lag höfðu þeir haft í hótunum við vestræna ráðamenn, hvatt til uppreisna gegn þeim. Þeir höfðu rétt til að verja hendur sínar gegn ólögmætri bolsastjórn.

En ekki má gleyma því að andstæðingar bolsévíka, sem Vesturlönd því miður studdu, hvítliðarnir, voru engu skárri en þeir. Meðal annars frömdu þeir fjöldamorð  á Gyðingum, rauðliðarnir voru líka atgangsharðir í manndrápum og kúgun enda höfðu Marx og Engels hvatt til þess.

Í síðari heimsstyrjöldinni sendu Bretar og Bandaríkjamenn Sovétmönnum vopn í stórum stíl, ekki er víst að þeir hefðu staðist áhlaup nasistahersins án þess stuðnings (Steinfeld 2022). Sé varnarbarátta Úkraínumanna gegn zar-fasíska hernum staðgenglastríð þá gildir slíkt hið sama um vörn Sovétmanna gegn  þýska hernum. Engum dettur í hug að kalla hið síðastnefnda „staðgenglastríð“, því ætti enginn að kenna hið fyrrnefnda við slíkt stríð.

Sumir halda að í Jaltasamkomulaginu hafi verið kveðið á um skiptingu Evrópu í áhrifasvæði Vesturvelda og Sovétmanna. Því hafi kúgun þeirra síðastnefndu á fylgiríkjum sínum verið í samræmi við samkomulagið. Vandinn er sá að það stendur ekki stafkrókur í samkomulaginu um þess lags skiptingu (hér er samkomulagið). Þar á móti kemur að sagt er að halda skuli lýðræðislegar kosningar í Póllandi.

Stalín stóð ekki við það ákvæði. Reyndar segja sumir að óformlegt samkomulag hafi verið gert um að nágrannaþjóðir Sovétríkjanna skyldu hafa vinsamlega afstöðu til þeirra. Kannski túlkuðu Sovétmenn það mögulega ákvæði sem boð um skiptingu Evrópu en orðasambandið  „að hafa vinsamlega afstöðu“ merkir ekki það sama og „að verða leppríki“.

En þá má spyrja hvers vegna þeir reyndu að kúga Vestur-Berlín til hlýðni, borgin var á hernámssvæði Vesturveldanna. Vissulega drógu Sovétmenn heri sína út úr Norður-Noregi, Norður-Íran og Bornhólm. Það kann að vera merki þess að þeir hafi trúað á skiptinguna og talið þessi svæði á vestrænu áhrifasvæði. En kannski voru þeir einfaldlega hræddir við bandarísku kjarnorkusprengjuna.

Alla vega drógu Sovétmenn her sinn út úr Austurríki árið 1955 eftir að þeir urðu atómbombu-væddir. Einnig létu þeir hlutlaus Evrópuríki eins og Írland í friði, það bendir gegn því að þeir hafi haft illt í hyggju gagnvart Vestur-Evrópu. Einnig  kann það, sem hér segir, að benda til þess að þeir hafi trúað á skiptinguna.

Kannski héldu Sovétmenn sig á mottunni, ekki bara vegna hræðslu við Bandaríkin, heldur líka vegna trúar á sögulega nauðsyn. Leiðtogar þeirra kunna hafa haldið að fyrr eða síðar myndi sósíalisminn sigra, þess vegna þyrftu þeir ekki að leggja á sig að fara í hasar við Vesturveldin. 

Marxistinn Karl Kautsky andæfði byltingarstefnu á sömu forsendum, engin ástæða væri fyrir gera byltingu með tilheyrandi blóðsúthellingum. Sósíalisminn myndi sigra hvað sem tautaði og raulaði. 

Samt getum við ekki útilokað að Sovétríkin hafi viljað leggja Vestur-Evrópu undir sig. Ráðamenn þeirra trúðu á sigur sósíalismans og útilokuð ekki að Sovétherinn gæti stuðlað að honum.

Þess utan hlýtur auður Vestur-Evrópu að hafa verið freistandi fyir Sovétmenn með sitt misheppnaða efnahagskerfi.

Víkjum aftur að kenningunni um skiptingu álfurnnar. Velta má því  fyrir sér hvort  stórveldin hafi haft einhvern rétt  til að skipa málum í smærri ríkjum, hafi skiptingin átt sér stað sem er fremur ósennilegt.

Minnast má þess að Bandaríkjamenn drógu mestallan herafla sinn frá Evrópu eftir stríð, Sovétmenn ekki. Bandaríkjamenn hefðu mögulega getað beitt kjarnorkuvopnum  gegn Sovétríkjunum áður en þau eignuðustu slík tól, kannski virkaði bandaríska bremsan hér. Þessar staðreyndir benda gegn því að Kanar hafi haft illt í huga gagnvart Sovétríkjunum.

Hvað áhrærir viðveru stórra sovéskra hersveita í Mið- og Austur-Evrópu þá kann sá her að hafa haft það meginhlutverk að halda þessum þjóðum í skefjum. Ekki er gefið að hersveitirnar hafi verið ógn við Vestur-Evrópu.

Samt tel ég að það sem hér hefur verið sagt bendi til þess að Sovétmenn hafi borið meiri ábyrgð á kalda stríðinu en Vesturveldin. Innrás norður-kóreskra bandamanna þeirra í Suður-Kóreu árið 1950 bendir líka til þess.  

Þó má ekki gleyma skiljanlegri rússneskri paranoju, hvað eftir annað hafa stórir herir ráðist inn í Rússland, kannski vildu þeir bara fá stuðpúða milli sín og mögulegra innrásarherja (en vildi Stalín ekki heimsyfirráð kommúnista?).

Nasistar ætluðu sér að leggja landið undir sig, Napóleon ekki, hann  vildi bara neyða Rússakeisara til að halda að sér höndum. Og eins og áður segir frelsaði Napóleon ánauðuga bændur hvarvetna þar sem stórher hans fór um.

Nú virðist nýtt kalt stríð vera í uppsiglingu, enn ber Moskvuvaldið meiri ábyrgð á því en Vesturveldin. Zar-fasistarnir stunda hreinræktaða landvinningastefnu í Úkraínu, Pútín dregur ekki dul á að hann telji Moskvu eiga rétt á að ríkja hvarvetna þar sem keisararnir skvettu úr skinnsokknum (hér um mögulega innlimun Belarús í Moskvuríkið). Senditík hans, Dmitri Medvedvev, segir beinum orðum að Úkraína eigi  engan tilverurétt.

 Þá kann einhver að spyrja hvort innrásin er ekki bara skiljanleg viðbrögð við stækkun NATÓ. Því er til að svara að ekkert bendir til þess að stækkunin ógni Rússlandi. Eða hvers vegna hafa Bandaríkin dregið drjúgan hluta af herafla sínum úr Evrópu á síðustu áratugum? Sem kunnugt er var herstöðin á Keflavíkurflugvelli lögð niður árið 2006 og sjö árum síðar drógu Kanar skriðdrekasveitir sínar út úr Þýskalandi.

Þangað til innrásin hófst var ekki einn einasti bandaríski hermaður í Eystrasaltslöndunum og Póllandi, velflest NATÓ-ríki höfðu dregið stórlega úr útgjöldum til hermála, Þjóðverjar nánast lagt her sinn niður. Þessar staðreyndir benda gegn því að stækkunin hafi verið gerð til að þjarma að Rússum.  

Enda segir fyrrum forsætisráðherra Pútíns, Mikael Kasjanov, að einræðisherrann viti mætavel að NATÓ ógni ekki Rússum.

Ég bæti við: Fyrrum kommúnistaríki sóttu um inngöngu í NATÓ vegna ótta við Rússana, ráðamenn þar vissu að þeir  myndu  fyrr eða síðar fá heimsveldisgrillur á ný.

Fyrir þrjátíu árum sagði hinn pólski Lech Walesa að þegar Rússar undirrituðu samninga þá héldu þeir á penna í annarri hendi, á handsprengju í hinni. Eða hvers vegna drógu Finnar ekki úr vígbúnaði sínum? Kannski vegna þess að þeir höfðu góða og gilda ástæða til að vantreysta Rússum.

 Hefðu Bandaríkin viljað koma Rússlandi á kné má spyrja hvers vegna ráðamenn þeirra dekstruðu Úkraínumenn til að láta kjarnorkuvopn sín af hendi við Rússa. Eða hvers vegna George Bush eldri nánast grátbað Úkraínumenn um að segja sig ekki úr lögum við Sovétríkin. Eða hvers vegna Obama var lengi tregur til að senda þeim vopn.  Hvers vegna Trump lagðist flatur fyrir Pútín?

En því verður ekki neitað að Vesturlönd vanmátu paranoju Rússa. Mary Louise Sarotte hefur lög að mæla er hún segir að fara hefði mátt hægar í stækkun NATÓ og vinna betur úr „partnership for peace“ sem Rússar áttu aðild að. Réttar hefði verið að  leyfa nýjum ríkjum aðild að NATÓ í áföngum, veita þeim aukaaðild fyrst og taka Rússland jafnvel með. Til að gera illt verra  niðurlægðu Vesturlönd Rússa þegar þeim var ekki einu sinni sagt frá áætlunum NATÓ um að hefja loftárásir á Serbíu. Um leið segir Sarotte það hreina firru að NATÓ hafi lofað Rússum að færa ekki út kvíarnar (Sarotte 2021). Hún hafði aðgang að skjölum James Bakers, þáverandi utanríkisráðherra BNA, og segir að hann hafi ekki gefið neinn ádrátt um það.

Bæta má við að þótt  hann hefði kannski gefið slíkt í skyn þá hafði hann ekkert umboð til þess. Ekki er hægt að taka neina ákvörðun um nýja meðlimi NATÓ nema með skjalfestu samþykki allra aðildaríkja en engu slíku var til að dreifa. Þvættingurinn um loforðið  á sér rætur í bullinu um að Bandaríkin ráði öllu í NATÓ, nánar um það hér að neðan.

Margir Rússar trúa loforðaruglinu og halda líka að hrun Rússlands á Jeltsínsárunum hafi verið Vesturveldunum að kenna. En aðalorsök þessa hruns var hið ömurlega efnahagskerfi kommúnistaráranna og sú staðreynd að rússneskir valdaaðilar seldu sjálfum sér fyrirtæki á spottprís og rændu þjóðina.

Vestrænir ráðgjafar Rússa gerðu illt verra með kjánalegri kreddutrú, þeir mæltu með einkavæðingu strax í gær og lyftu ekki litlafingri til að kynna sér sögu og hefðir Rússa. Minnihluti ráðgjafasveitarinnar með nóbelshagfræðinginn Joseph Stiglitz í broddi fylkingar mælti með því að fyrst yrði landið gert að réttaríki en meirihlutinn fór sínu fram (skv Stiglitz 2002: 133-165).

Spyrja má hvers vegna einkavæðingin tókst miklu betur í Póllandi en í Rússlandi. Kann ástæðan að hafa verið sú að vísir að réttaríki hafi verið til í fyrrnefnda landinu, ekki því síðarnefnda?  Engin ástæða er til að trúa því að ráðgjafasveitin hafi verið á mála hjá Bandaríkjastjórn og haft það markmið að leggja Rússland í rúst. Sönnunarbyrðin er þeirra sem því trúa.

Hins vegar má velta því fyrir sér hvort Bandaríkin hefðu átt að veita Rússlandi Marshallaðstoð, Þorvaldur Gylfason heldur því fram að þeir látið það eiga sig til að koma Rússum á kné. En hefði slík aðstoð ekki bara horfið  í spillingarhítina  rússnesku?

Alla vega er ekki útilokað að ýmis mistök Vesturlanda hafi rekið Rússa í faðm Pútíns. Hvað sem því líður virðast margir Rússar trúa geipi hans um að NATÓ sé bara tæki Bandaríkjamanna. Það er sannanlega rangt, ef svo væri þá hefði Merkel ekki getað komið í veg fyrir að Úkraína gengi í NATÓ fyrir rúmum áratug en Bandaríkjamenn börðust fyrir því. Erdogan hefði heldur ekki getað seinkað inngöngu Svía og Finna í bandalagið ef það væri bara tæki Kana.

Hvað um Úkraínu? Sumir halda að Maidanuppreisnin hafi verið liður í valdaráni sem Bandaríkjamenn hafi stjórnað. Auðvitað reyndu Bandaríkjamenn að fiska í gruggugu  vatni uppreisnarinnar en það þýðir ekki að þeir hafi stjórnað henni. Eða mútaði CIA milljónum manna til að taka þátt í mótmælaaðgerðum viku eftir viku?

 Eðlilegasta skýringin er sú að flestir Úkraínumenn hafi fengið sig fullsadda á spillingu, yfirgangi og Rússaþjónkun Janúkevits, forseta. Meirihluti þingsins samþykkti að svipta hann völdum, reyndar var það ekki í samræmi við sjórnarskrá, samkvæmt henni hefði þurft tvo þriðju hluta til þess. En brýtur ekki nauðsyn stundum lög?

Það  hefur alltént orðið lýðræðisvæðing í Úkraínu á árunum eftir Maidan þótt landið sé enn spillt og ólígarkar of valdamiklir. Timothy Snyder telur að Pútín hafi ráðist inn í landið af ótta við að lýðræðisvæðingin smitaði Rússa. Fleira kann að  hafa komið  til, draumur Pútíns um að endurreisa Rússland sem risaveldi og hrein græðgi, löngun til að klófesta náttúruauðlindir Úkraínu. Eða rússneska ofsóknarbrjálæðið.

Lokaorð

Niðurstaðan er sú að Bandaríkin hafa að jafnaði verrið siðferðilega skárri en Rússland á alþjóðavettvangi. Moskvuvaldið bar meiri ábyrgð á kalda stríðinu en Kanar, líka á kalda stríðinu nýja, því sem nú er að hefjast.

Heimildir:

Sarotte, Mary Elise 2021: Not an Inch: The Making of the America Russia Post-Cold War Stalemate. Yale University Press.

Steinfeld, Hans-Wilhelm 2022:  Russland kriger. Stamsund: Orkana.

Stiglitz, Joseph 2002: Globalization and its Discontents. Harmondsworth: Penguin Books.

Texti Jaltasamkomulagsins:

https://digitalarchive.wilsoncenter.org/document/yalta-conference-agreement-declaration-liberated-europe

Um Jaltasamkomulagið: https://www.history.com/topics/world-war-ii/yalta-conference

Kasjanov, viðtal https://www.youtube.com/watch?v=GpWQWk1aWJw.

Snyder viðtal https://www.youtube.com/watch?v=um-SEQDQidM

Medvedev viðtal https://www.youtube.com/watch?v=kNTv4im_Cu8

BNA dró skriðdreka út úr Þýskalandi

https://www.stripes.com/theaters/us-army-s-last-tanks-depart-from-germany-1.214977

Fasismi Rússlands https://filternyheter.no/ett-ar-etter-24-februar-invasjonen-russlands-ferd-mot-fascismen/?fbclid=IwAR1tOiD0MbLpliPCIYvEIWMnKLLLIGGmFrckTWEzp8VZiMgU4ogDdHTLIIY

Borgarastyrjöldin rússneska https://en.wikipedia.org/wiki/Russian_Civil_War

Vilja innlima Belarús

https://www.yahoo.com/news/russia-belarus-strategy-document-230035184.html?guccounter=1

 


KANAR GEGN RÚSSUM. Annar hluti: Hinn bandaríski Janus

 

Bandaríkin eru „undarlegt sambland af frosti og funa“, sum  part ríki frjálslyndis og lýðræðis, sum part ríki rasisma og auðvalds, að nokkru marki  ríki húmanisma, að öðru leyti   imperíalisma. Bandarískt samfélag er eins og guðinn Janus, með tvö andlit, annað myrkt, hitt bjart.

Evrópskir innflytjendur á nítjándu öldinni öðluðust meira frelsi en þeir höfðu áður haft, Gyðingar sem fluttust frá rússneska keisaraveldinu voru frelsinu fegnir.

Þeir voru kúgaðir með villimannlegum hætti af keisaraveldinu, hvað eftir annað voru framinn  fjöldamorð á þeim með velþóknun Moskvuvaldsins. Þeir máttu heldur ekki versla annars staðar en á því takmarkaða svæði þar sem þeim var leyft að búa.

Í Bandaríkjunum  varð þeim kleift að stunda hnattræn viðskipti, það þrátt fyrir að steinar væru lagðir í götu þeirra þar vestra.

Sum staðar í Bandaríkjunum var þeim bannað að kaupa land og húsnæði, háskólar vildu lengi helst ekki hafa Gyðinga meðal kennara. En þá stofnuðu þeir sína eigin háskóla.

Þeir voru að því leyti til heppnir að hvítir  Kanar voru vanir að fyrirlíta og hata annan kynþátt, hina svörtu. Þrælahald var lengi við líði í Bandaríkjunum og þurfti heila borgarastyrjöld til að afnema það. Hannes Gissurarson neitar því og heldur því ranglega fram að Lincoln hafi árið 1860 ætlað sér að banna þrælahald (hann segir þetta á feisbók).

Nei og aftur nei, er hann var kosinn forseti þá vildi hann banna nýjum ríkjum Bandaríkjanna að leyfa þrælahald. Það þoldu þrælahaldararnir í suðrinu ekki og vöktu upp her og réðust á Suntervirkið, sögðu sig úr lögum við Bandaríkin. Þegar þrælahaldaraherinn réðist inn í Pennsylvaníu hóf hann veiðar á brotthlaupnum þrælum. Það er ekki fyrr en 1863  að Lincoln og þingið láta banna þrælahald.

Blessunarlega lauk stríðinu með sigri Norðanmanna en fljótlega fundu kynþáttahatararnir upp aðferðir til að halda blökkumönnum í skefjum. Þeir voru í reynd sviptir kosningarétti og 5000 hengdir án dóms og laga, oft í viðurvist venjulegra Suðurríkjahvítingja. Ekki gekk að fá morðingjana dæmda, alhvítir kviðdómendur sáu um það.

Bandaríkin voru sköpunarverk byltingar. Hún tókst að því leyti vel að komið var á kerfi þar sem vald var temprað með skýrri þrígreiningu valds og því  dreift á hin einstöku ríki.

En Janusinn ameríski sýndi sig að vanda, um þriðjungur þjóðarinnar voru mansmenn og frumbyggjar voru réttlausir á meðan hinir hvítu (alla vega karlmenn) nutu meira frelsis en fólk víðast annars staðar á jarðarkringlunni.

Samsæri auðvaldsins?

Það er til marks um hinar mikla andstæður í bandarísku samfélagi að á meðan blökkumenn og indíánar voru réttlausir þá var lýðræði allvíðfeðmt í Bandaríkjunum, enn þann dag í dag eru dómarar og jafnvel lögreglustjórar kosnir lýðræðislegum kosningum. 

 

Þá kann einhver að segja að þetta lýðræði sé mest á yfirborðinu, bak við tjöldin togi auðmenn og stórfyrirtæki í spottana. Bandaríkjamaðurinn haldi að hann sé frjáls en hann sé kúgaður af auðvaldinu.

 

Nú er út af fyrir sig rétt að auðurinn hefur of mikið að segja í bandarísku samfélagi en vandinn er sá að það handfasta við kosningaúrslit þar og annars staðar er það hvernig atkvæði féllu. Ekki það sem olli því að menn greiddu atkvæði með þessum eða hinum hættinum.

Við getum tæpast vitað með vissu hvort fokdýrt auglýsingaskrum ráði miklu um það hvernig menn kjósa, það handfasta er að þeir kusu.

Það er meira að segja alls ekki víst að rússnesku tölvu-tröllin hafi haft mikið að segja um úrslit kosninganna 2016. Fræðimaður nokkur segir í viðtali að áróður tölvu-tröllana hafi aðallega styrkt þá sannfærðu í sinni sannfæringu um ágæti Trumps en haft lítil áhrif á aðra.

Hér ber þó að nefna að tæpast er það tilviljun að mikið er rætt um aukin áhrif auðs á kosningar vestanhafs, það er sjaldan reykur án elds. Meira að segja Trump lagði áherslu á það og taldi lausnina vera að kjósa auðmenn eins og sig, þeir væru ekki háðir fjárgjöfum frá stórfyrirtækjum og peningamönnum. 

Hvað sem því líður held ég að Úkraína sé nær því að vera auðvaldsríki en BNA, einnig Rússland á dögum Jeltsíns (í dag er ríkiskapítalismi í Rússlandi, auði er meira misdreift þar í landi en í Bandaríkjunum).

Nýlega sagði Prígósin að hin eiginlega ástæða fyrir innrásinni í Úkraínu hafi verið löngum rússneskra óligarka að hremma auðlindir landsins. Ekki skal dæmt um það. 

En hin dólgamarxíska kenning  um hið falda vald stendur  á leirfótum. Ekki þýðir að vitna í bók Jóhannesar Björns um falið vald þar eð hún var nánast örugglega ekki ritrýnd, þess vegna vitum við ekkert um gæði þeirra heimilda sem hann vitnar í (Jóhannes Björn 1979).

Mistúlkaði hann þær? Voru þær tilbúningur?  Ef heiminum er stjórnað af samsærum eins og Jóhannes Björn virðist hafa haldið getum við ekki útilokað að hann hafi verið  fórnarlamb samsæris manna (t.d. KGB manna) sem búið hafi  „heimildirnar“ til. Auðvitað gæti hann hafa rambað á sannleikann en ég tel það ólíklegt vegna þess að ýmsar mikilvægar staðreyndir benda í aðra átt, alla vega hvað Bandaríkin varðar.

 

Um aldamótin 1900, á gylltu öldinni,  voru auðhringir orðnir feiknvaldamiklir vestanhafs. Standard Oil réði 90% olíumarkaðarins, US Steel sama hluta stálmarkaðarins. Nóbelshagfræðingurinn Paul Krugman segir að fyrirtækin hafi keypt dómara og stjórnmálamenn, jafnvel haft óviðurkvæmileg áhrif á kosningar.

Þá gerist að forsetinn, Theodore Roosevelt, tekur sig til og dregur stærstu vígtennurnar úr auðhringjunum, neyðir þá til að skipta sér í smærri félög. Hefði auðvaldið ráðið öllu þá hefði Roosevelt verið þjónn þeirra en það var hann ekki!

Paul Krugman segir reyndar að það hafi ekki að öllu leyti verið vel heppnað, sum fyrirtækin hafi skriðið saman bak við tjöldin. Gylltu öldinni hafi ekki lokið fyrr en með kreppunni 1929 (Krugman 2007).

Margt bendir til þess að drjúgur hluti bandarískra ríkisbubba hafi verið andsnúnir  Franklin Roosevelt, samt vann hann forsetakosningar fjórum sinnum.

 

Nefna má að hinn  ofurríki Henry Ford hamaðist gegn forsetanum. Og ríkisbubbar, með annan auðkýfing, J.P. Morgan, í broddi fylkingar, brugguðu launráð gegn honum. Veltu fyrir sér í fúlustur alvöru að fremja valdarán

Fleiri staðreyndir benda gegn hinni dólgamarxísku kenningu um hið falda vald vestanhafs. „Hvar er snjórinn sem féll í fyrra?“, aðeins eitt þeirra fyrirtækja sem voru meðal hinna tíu stærstu í BNA árið 1997 fyllir nú þann flokk. Ekkert þeirra fyrirtækja sem stærst voru árið 1960 kemst nú á topp tíu-listann.

Ef auðhringar og -menn hefðu stjórnað öllu bak við tjöldin þá hefðu þeir komið í veg fyrir að splunkuný stórfyrirtæki ryddu hefðgrónum stórfyrirtækjum úr vegi.

Kenning um hið falda vald skýrir heldur ekki hvers vegna mikil nýliðun hefur átt sér stað meðal hinna alríkustu, Jeff Bezos, Bill Gates, Elon Musk, Sergei Brijn o.fl. komu úr þjóðar- og alþjóðadjúpinu.

Gat hið falda vald ekki komið í veg fyrir að þeir veltu meintum ofurvaldamiklum auðkýfingum úr sessi sem ríkustu mönnum BNA? Af hverju fór stórfyrirtækið Enron á hausinn og af hverju var forstjóra þess stungið í fangelsi, manni sem var vinur forsetans?

Þess utan er drjúgur hluti af bandarískum milljónamæringum popparar, Hollywoodleikarar og ofdekruð afkvæmi milla af Kardashintaginu. Litlar líkur eru á því að þetta lið sé í því að toga í spotta valdsins eða skyldu Kim Kardashin og Bruce Springsteen  skipa Bandaríkjaforseta fyrir?

Auk þess eru rannsóknarblaðamenn og gagnrýnið fólk á hverri hundaþúfu í Bandaríkjunum. Rannsóknarblaðamenn afhjúpuðu fjöldamorðin í My Lai, Watergatehneykslið o.s.frv. Góð dæmi um það sem ég kalla „bandarísku bremsuna“, hún bremsar oft hneigðir valdhafa þar vestra til  yfirgangs (Rússa skortir slíka bremsu).

Bremsan virkaði líka  þegar  CIA var tekið á beinið af rannsóknarnefnd öldungadeildarinnar undir forystu þingmannsins Frank Church. Afleiðingin mun hafa verið sú að  CIA var í mörg ár að ná sér aftur.

Af hverju kom Auðvaldur sjálfur ekki í veg fyrir það? Var ekki CIA mikilvægt tæki í valdatafli hans? Er ekki líklegt að rannsóknarblaðamenn og nefndir hefðu fyrr eða síðar afhjúpað hið meinta falda vald?

Heimspekingurinn Karl Popper segir að samsæriskenningasmiðir trúi því að mannkynssagan  sé saga samsæra, Gyðingar eða yfirstéttir ráði gangi mála bak við tjöldin. En gallinn sé sá að veröldin er of flókinn til að líklegt sé að hægt sé að breyta gangi hennar róttækt með samsærum.

Nasistarnir hafi reynt það en þeim mistókst.  Í ofan á lag séu litlar líkur á að hægt sé halda stórfelldum samsærum leyndum í opnu, frjálsu og lýðræðislegu  samfélagi (Popper 1971: 94-96). 

Hvers vegna er erfitt að stjórna gangi sögu og samfélaga? Svar Poppers er að athafnir manna einatt óætlaðar afleiðingar, því víðfeðmari sem athafnirnar séu, því meiri líkur á óætluðum afleiðingum.

Napóleon ætlaði að verða herra Evrópu en óætluðu afleiðing gjörða hans var sú að með franska hernum fylgdu frelsishugmyndir byltingarinnar 1789. Hafandi uppgötvað ágæti frelsisins höfnuðu Evrópubúar forræði Napóleons (honum til afbötunar skal sagt að stórher hans leysti rússneska bændur úr ánauð, hefði Rússland skánað ef hann hefði borið sigurorð af zarnum?).

Bæta má við að óligarkar réðu miklu í Rússlandi um stutt skeið, þeir stóðu á bak við „kosningasigur“ Jeltsíns 1996. En misstu svo völdin þegar Pútín skóp nýja stétt ólígarka sem lutu honum, hann er aðalólígarkinn. Rússar fóru úr öskunni í eldinn.

Hvað sem því líður þá  hafa stjórnmálamenn og ríkisstarfsmenn  sinna hagsmuna að gæta og þeir ekki endilega þeir sömu og hagsmunir peningamanna.

Ríkið hefur sínar ástæður sem auðvaldið veit ekkert um, valdið kemur fremur upp úr byssuhlaupum en seðlaveskjunum. "Vald er þat, eigi fé" segir í Grágás að mig minnir.

Bandarískir forsetar eru venjulega mjög valdsæknir menn og því ólíklegt að þeir beygi sig umyrðalaust undir  auðmenn, þeir hljóta að reyna að efla eigið vald eins mikið og kostur er á. Þeir hafa jú byssurnar, auðmenn ekki. 

Ekki má heldur gleyma því að þeir eru líka háðir fjárgjöfum frá almenningi, ef tíu milljón Kanar með meðaltekjur  borga hver sinn 100 dollar í kosningasjóð stjórnmálamanns getur hann náð langt, Sanders þiggur ekki fé frá auðmönnum og -fyrirtækjum.

Eitthvert tillit verður forseti að taka til almúgans sem á þátt í að fjármagna kosningar hans. Þess utan eru forsetar lausir allra mála á öðru kjörtímabili, þá þurfa þeir ekki að hugsa um endurkjör og geta gefið auðmönnum og stórfyrirtækjum langt nef.

Mér vitanlega eru ekki til neinar sannanir fyrir því að Bandaríkjaforseti hafi látið auðmenn segja sér fyrir verkum.

Enda er ekki ósennilegt að auðmenn og -fyrirtæki kaupi sér fremur áhrif og velvild en völd þegar þeir dæla fé í frambjóðendur. Ekki síst vegna þess að ekki er hlaupið að því að kaupa sér völd, þó má alls ekki útiloka þann möguleika að mikil áhrif hverfist í völd.

Því má ekki gleyma að þessir aðilar eru áhættusæknir og reikna með því að nokkur hluti fjárfestinga þeirra tapist. Alls ekki er ósennilegt að slíkt gildi stundum um "fjárfestingar" þeirra í forsetum. Stundum tapist sú fjárfesting, forseti "svíki" þá í tryggðum. Játað skal að fyrir þessari staðhæfingu hef ég engar sannanir. 

Víkjum aftur að því sagt var um að ríkið ætti byssurnar, auðmenn ekki.

Þessu til sannindamerkis skal sögð sagan af þýska auðjöfrinum  Fritz Thyssen. Hann  hafði stutt nasista með ráðum og dáð en tók svo að gagnrýna kerfið og var stungið inn (Thyssen 1941).

Ekki þýðir að segja að auðmenn framleiði byssurnar því ríkið getur hæglega þjóðnýtt framleiðsluna. Ef auðmenn réðu öllu í kapítalískum samfélögum þá hefði Thyssen stungið Hitler inn, ekki öfugt.

 

Hvað um her-iðnaðar samsteypuna (e. the military industrial complex) sem Eisenhower varaði við? Vissulega er hún valdamikil vestanhafs en á móti kemur að fyrir hvern aur sem rennur til hennar tapa önnur, valdamikil stórfyrirtæki, t.d. kjörbúðakeðjur. 

Ekki er ósennilegt að slík fyrirtæki tempri að einhverju leyti vald samsteypunnar. Vald atkvæða líka,  einnig  gagnrýnir blaðamenn og aðrir bremsumenn. 

Allt þetta bendir gegn því að Bandaríkin séu hreinræktað auðvaldsríki og stjórnað af földu valdi. En þróunin þar á síðustu áratugum er uggvænlega, raunlaun á unna klukkustund staðið lengi í stað, misdreifing auðs hefur vaxið mikið og auðmenn og stórfyrirtæki orðið mjög valdamikil, svo virðist sem ný gyllt öld sé hafinn í Bandaríkjunum.

Bandaríkin er ekki lengur það land þar sem félagslegur hreyfanleiki er mestur, ameríski draumurinn er að hverfast í martröð (sjá t.d. Cawhill og Morton 2008). Á móti kemur að kjör blökkumanna hafa skánað talsvert. 

Athugið líka að sú staðreynd að félagslegur hreyfanleiki var mestur þar vestra mjög lengi mælir gegn kenningunni um alveldi auðsins.

Auðvaldið hlýtur að hafa hag af því að draga úr hreyfanleika svo ekki rísi ný fyrirtæki og auðmenn sem keppi við það. Það gerðist ekki um langt skeið, svo alla vega á því tímabili var auðurinn fjarri því að vera alvaldur vestanhafs. 

Skásta kenningin um vestræn samfélög  er hin svonefnda fjölelítu kenning. Samkvæmt henni er vissulega munur á Jóni og séra Jóni í þessum samfélögun,  valdi er misdreift í þeim. En það sé huggun harmi gegn að  til séu ýmsar elítur sem kljást um völd og áhrif, barátta þeirra kemur í veg fyrir að vald safnist í hendur einnar elítu (t.d. Schumpeter 1976).

Til dæmis ráða stjórnmálamenn, verkalýðsleiðtogar, jafnvel menntamenn  og ýmis fyrirtæki hvert sínum geira samfélagsins um leið og alþýða manna hefur umtalsverð völd bæði vegna kosningaréttar og eins „atkvæðisréttar“ sem neytendur (vilji þeir ekki tiltekna vöru geta þeir sett heilu stórfyrirtækin á hausinn).

Hin ýmsu stórfyrirtæki hafa ekki endilega sameiginlega hagsmuni, ef vopnaframleiðsla er aukin þá tapa fyrirtæki sem framleiða neysluvarning (og öfugt). Þetta veldur stöðugri togstreitu milli fyrirtækjanna, hún dregur mjög úr líkum þess að til verði auðvald allsherjar.

En eins og áður segir hefur vald auðsins aukist vestanhafs, bandarísku fræðimennirnir Martin Gilens og Benjamin I. Page gerðu empiríska úttekt á ýmsum kenningum um vald í amerísku samfélagi.

Sú kenning sem kom best út úr rannsókninni  var kenningin um hlutdrægt fjölmiðjukerfi (e. biased pluralism). Samkvæmt henni er bandarískt samfélag vissulega fjölmiðjusamfélag en kerfið sé  samt tekið að draga  taum ríkisbubba og stórfyrirtækja í mun ríkari mæli en almennings. Því valdi aukinn ójöfnuður síðustu áratuga  (Gilens og Page  2014: 564-581).

Sumir fræðimenn, t.d. Josef Schumpeter,  telja að tilvist úrvalshópa, sem keppa við hver aðra, komi í veg fyrir skrílræði. Ég held hins vegar að til séu fá dæmi um skrílræði og því vafasamt að staðhæfa mikið um hættur af því.

Það gæti verið  stjórnhugmynd lýðræðisríkja að valdi sé dreift eins mikið og kostur er, að tempra vald úrvalshópa eins mikið og mögulegt sé.

Ein meginveila Bandaríkjanna er hið fremur veikburða velferðarríki, önnur hið mikla ofbeldi. Á móti kemur hinn mikli sköpunarkraftur Kana, ekki síst í vísindum, heimspeki og á tæknisviðinu. Þeir fundu upp ljósaperuna, flugvélina  og einkatölvuna svo nokkuð sé nefnt.  

Hvaða tæknilegar nýjungar hafa komið frá Rússlandi? Gervihnettir? Kjarnorkuver? Tækni þeirra síðastnefndu var ættuð frá Bandaríkjunum, sovéskir  njósnarar stálu henni.

Lokaorð

Bandaríkin eru tvíbent, land mikilla öfga, annars vegar frjálslyndis og mannúðar, hins vegar rasisma, ofbeldis og auðræðis. Samt er landið alls ekki hreinræktað auðvaldsríki en hefur á síðustu árum vanþróast í áttina að hlutdrægu fjölmiðjukerfi.

Niðurstaðan í þessari færslu er sú að þrátt fyrir sína mörgu og miklu galla sé bandarískt samfélag  mun skárra en hið rússneska. Samkeppnin er ekki hörð.

Í þriðja og síðasta hluta mun ég bera saman utanríkisstefnu þeirra.

Heimildaskrá:

Cawhill,  Isabell og Morton, John E.  2008: Economic Mobility: Is the American Dream Alive and Well? http://www.economicmobility.org/ Sótt 10/9 2009.

Flake, Lincoln  2019: Nonsense from the beginning o.s.frv.“ The Journal of Slavic Military Studies, Vol. 32, Issue 4, bls. 549-552, https://www.tandfonline.com/doi/full/10.1080/13518046.2019.1690189

Gilens, Martin og Page, Benjamin I.   2014: “Testing Theories of American Politics: Elites, Interest Groups, and Average Citizens”, Perspectives on Politics, September Vol. 12, No. 3, bls. 564-581.

Popper, Karl  1971:  The Open Society and its Enemies. Volume II: Hegel and Marx. Princeton, New Jersey: Princeton University Press.

Schumpeter, Josef 1976: Capitalism, Socialism, and Democracy. London: Unwin.

Thyssen, Fritz  1941: I paid Hitler. (þýðandi César Saerchinger). London: Hodder and Stoughton Ltd.

Um Frank Church og CIA https://www.levin-center.org/frank-church-and-the-church-committee/

Um forsetakosningar 1936 https://about.proquest.com/en/blog/2016/That-Time-the-Literary-Digest-Poll-Got-1936-Election-Wrong/

Um stórfyrirtæki 1997-2023 https://en.wikipedia.org/wiki/List_of_public_corporations_by_market_capitalization

Um stórfyrirtæki 1960 https://money.cnn.com/magazines/fortune/fortune500_archive/full/1960/

 

 Um bandarísku borgarastyrjöldina https://en.wikipedia.org/wiki/American_Civil_War


KANAR GEGN RÚSSUM. Fyrsti hluti: Rússland, saga og samfélag.

Í lok síðustu aldar starfaði kona  nokkur í tengslum við rússnesk-bandarísk tónlistarsamstarf. Það gekk ekki nema miðlungi vel, konan tjáði mér að Rússar og Kanar væru eins og hundar og  kettir. Rússar væru algerir stigveldismenn og skildu ekkert annað, Kanar hið gagnstæða og botnuðu ekkert í rússneska stigveldinu.

Enda er sagan um tengsl þessara þjóða fremur saga um átök en samvinnu, nú síðast vegna Úkraínustríðsins. Skulu þessi tengsl rædd í  þarnæstu  færslu. Í þessari færslu  mun  ég ræða sögu og samfélag Rússa, í næstu færslu sögu og samfélag Bandaríkjamanna.   Í þarnæstu færslu beini ég sjónum mínum að utanríkisstefnu þeirra í tímans rás.

Hér að neðan mun ég fyrst ræða sögu hins rússneska kúgunarsamfélags frá Ívani grimma til Pútíns og zar-fasisma hans.

Þá beini ég sjónum mínum að Sovétríkjunum  og segi  Karl Marx ekki alsaklausan af hinni sovésku eymd og kúgun. Marxisminn hafi skorað sjálfsmark.

Hið rússneska kúgunarsamfélag

Moskvuríkið varð til í lok miðalda, á sextándu öld hefur Ívan grimmi mikla útþenslu og leggur m.a. undir sig hið fremur frjálslynda borgríki Hólmgarð (Novgorod) og lét fremja skelfileg fjöldamorð á íbúunum. Þar dó hinn mjói vísir að frjálslyndu Rússlandi.

Á sautjándu öld varð austurhluti Úkraínu  hluti af Moskvuveldinu þegar Kósakkaríkið þar kaus að beygja sig undir keisarann, í von um að hann verði það gegn pólsk-litáíska veldinu (Plokhy 2016).

Enn þenst ríkið á átjándu öld út fyrir atbeina Péturs mikla og Katrínar miklu, á þeirri nítjándu leggja Rússar undir sig Mið-Asíu og nokkurn hluta af Kínaveldi, t.d. svæðið þar sem nú er Vladivostok. Minnast má þess að þeir gleyptu stóran hluta af Póllandi, alla Georgíu og Finnland.  

Einnig má nefna að Rússakeisara tókst að útrýma Sirkasissaþjóðinni sem byggði lönd við  Svartahafið. Sirkasissar voru strádrepnir og restinni vísað úr landi, rússneskir bændur komu í staðinn. Einhver staðar las ég að enginn keisari hafi verið talinn standa sig í stykkinu nema hann yki yfirráðasvæði Rússlands.

Rússland varð til vegna útþenslustefnu og hið sama  gildir um Bandaríkin. Þau  þöndu sig yfir meginþorra Norður-Ameríku á kostnað indíánanna sem voru strádrepnir eða reknir inn á afmörkuð svæði. Einnig háðu Bandaríkjamenn stríð við Mexíkóana og lögðu undir sig mikið landflæmi sem áður var hluti af Mexíkó.

Til að skilja Moskvuríkið verða menn þekkja forsögu þess (um rússneska sögu, sjá t.d. Hoskins 2012). Rússland og drjúgur hluti Úkraínu voru lengi hluti af yfirráðasvæði Mongóla og þeirra tatörsku fylgiþjóðar. Þó með þeim hætti að furstar hinna ýmsu austur-slafnesku ríkja voru skattskyldir Mongólum en höfðu visst sjálfsstæði.

Alltént  minnkaði stjórnlyndi Rússa ekki fyrir vikið,  þess utan fór endurreisnin með sitt frjálsræði fram hjá Rússum. Í stað þess fengu furstar Moskvuríkisins þá grillu í höfuðið eftir fall Konstantínópels að Moskva væri hin þriðja Rómarborg, Moskvufursti einn hafði gifst frænku síðasta Býsanskeisara. Heimsfrelsunardella Rússa virðist eiga sér rætur í þessari grillu (Bandaríkjamenn hafa líka slíkar grillur).

Ekki frelsuðust ánauðugir bændur fyrir vikið, um 80% rússneskra bænda voru ánauðugir og mátti selja heilu þorpin eins og kvikfénað (napra og skemmtilega lýsingu á þeirri sölumennsku má finna í skáldsögu Gógols, Dauðar sálir).

Reyndar segir a.m.k. einn sagnfræðingur að innan ramma þorpanna hafi verið vísir að lýðræði og þau hafi notið vissrar sjálfsstjórnar (Hoskins 2012)(mig minnir að Marx segi eitthvað svipað).

Sami sagnfræðingur leggur áherslu á að aðallinn hafi haft umtalsverð völd á  meðan  Fiona Hill og Glifford Gaddy segja að hann hafi verið mun háðari keisaranum en aðallinn í Evrópu vestanverðri. Þau segja að kerfi Pútíns sé í samræmi við það, hann úthluti vildarvinum miklum gæðum, eins og keisararnir forðum (Gaddy og Hill 2015).

Rétttrúnaðarkirkjan rússneska flatmagar fyrir honum enda vön slíku atferli. Í löndum rétttrúnaðarins er hefð fyrir því að ríkið ríki yfir kirkjunni, þannig voru býsanskeisarar yfirmenn kirkjunnar á meðan kaþólikkar guldu páfanum það sem páfans var, keisaranum það sem hans var.

Þannig var kirkjulegt og veraldlegt vald aðskilið á Vesturlöndum, ekki í Rússlandi þar sem kirkjan var hluti af veldi keisaranna. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að frjálsræði hefur búið við betri kjör í Evrópu vestanverðri en í Rússlandi.

Norskur prófessor í rússnesku, Ingunn Lunde að nafni,  segir að menning hafi löngum verið tæki sem rússneska heimsveldið hafi notað til að efla vald sitt (Lunde 2023).

Þegar á átjándu öld höfðu Rússakeisarar hirðskáld sem lofuðu þá. Og gagnstætt sem margir halda hafi hinir miklu rithöfundar nítjándu aldarinnar verið fremur valdsins megin en hitt. Þjóðskáldið Alexander Púskín hafi vissulega oft verið gagnrýninn á samfélagið og þurft að berjast við ritskoðunina. En hann hafi ekki gagnrýnt  hið rússneska heimsveldi,  er Rússar lögðu undir Kákasus hafi þeir færst íbúunum siðmenningu (ég spyr: Í líki bændaánauðar?).

Lunde bætir við að  í  kvæði um orrustuna við Poltava lofi hann heimsveldið og fordæmi úkraínska kósakkahöfðingjann Ivan Mazepa sem barðist með Svíum gegn Pétri mikla, Rússajöfri. Til að gera illt verra hafi Púskín ort kvæði þar sem hann verji það hvernig Rússaher braut á bak aftur uppreisn Pólverja árið 1831 en þeir voru kúgaðir af  Moskvuvaldinu.

Hvað um Dostójevskí? Sat hann ekki í fangabúðum vegna andófsstarfsemi? Vissulega, svarar Lunde, en hann breytti um skoðun, tók að aðhyllast trúar-mýstík og rússneska þjóðrembu. Lunde segir að ekki sé óalgengt meðal rússneskra menntamanna að þeir berjist fyrir auknu einstaklingsfrelsi en verji um leið heimsveldið rússneska.

Gott dæmi sé nóbelshafinn Josef Brodskí sem lenti illa í Sovétvaldinu og flutti til Bandaríkjanna. Hann hafi ort níðkvæði um Úkraínu þegar landið öðlaðist sjálfsstæði. Eftir að hafa hellt svívirðingum yfir Úkraínumenn hafi hann lokið kvæðinu á að segja að á dauðastund muni Úkraínumaðurinn vitna í Púskín, ekki í „lygar“ Taras Sévstenkós, þjóðskálds Úkraínumanna. Pútín hefði ekki getað gert betur.

Lunde segir að ekki megi  gleyma því að Rússaher stundi menningarstríð á hernumdu svæðunum í Úkraínu. Úkraínskar bókum sé hent út úr bókasöfnum, samanber bókabrennur nasista. Einungis sé kennt á rússnesku í skólum, söfn eyðilögð og menningarverðmætum stolið.

Í Maríupol, sem rússnesku yfirgangsseggirnir eyðilögðu, sé komið stórum skiltum með myndum af rússneskum rithöfundum. Hún gefur í skyn að úkraínskuvæðing Kænugarðsstjórnar sé skiljanlegt viðbragð við rússneskri menningarheimsvaldastefnu.

Ég er ekki dómbær á boðskap Lundes en vil þó minna á að ýmsir andans menn rússneskir hafa andæft valdsmönnum og kerfi þar. Nefna má Lev Tolstoj,  anarkistann Mikael Bakúnín, og Andrei Sakharov. Alexandr Solsénitsin andæfði vissulega sovétvaldinu en hafði afturhaldssamar, stjórnlyndar, þjóðrembu- og réttrúnaðarskoðanir. 

Hvað um rússneskan almenning? Kunningi minn sem giftur er rússneskri konu og kann rússnesku, segir mér að æðimargir Rússar séu tilbúnir til að herða sultarólina ef það verður til þess að vald og dýrð Rússlands aukist.

Rússneski rithöfundurinn Ludmila Ulitskaja segir í viðtali við norskan fjölmiðil að hinn undirlægjusami homo sovieticus lifi enn góðu lífi í Rússland. Hafi Ulitskaja og kunningi minn á réttu að standa þá kunna þau að hafa skýringuna á því hve margir Rússar flatmaga fyrir Pútín og styðja heimsveldisbrölt hans (margt má ljótt um Bandaríkjamenn segja en undirlægjusemi er ekki meðal ókosta þeirra).

En því má ekki gleyma að fjöldi Rússa er á móti Pútín og stríðsrekstri hans, hundruð þúsunda hafa yfirgefið Rússland eftir að árásarstríð hans hófst.

Stuðningurinn við Pútín var skiljanlegur fyrstu árin sem hann var við völd. Hann kom á stöðugleika eftir umrót og hrun Jeltsínsáranna.

Vandinn er sá að spillingin er engu  minni í Rússlandi Pútíns en á Jeltsíntímanum og misdreifing auðs hefur ekki minnkað. Auk þess er Pútín orðinn einræðisherra án þess að það stuði meirihluta Rússa.

Þeir virðist margir hverjir hæstánægðir með hina kristilegu, heimsveldissinnuðu  zar-fasísku hugmyndafræði hins pútínska einræðis.  

Pútín vitnar stundum í Ivan Iljín sem var e.k. fasisti. Sá bjó í Þýskalandi um langt skeið og fagnaði valdatöku nasista í grein sem hann mun hafa skrifað 1933. Hann mun hafa haldið áfram að verja fasískar skoðanir eftir stríð en var um leið konungssinni.  Það fylgir sögunni að Pútín lét flytja jarðneskar leifar Iljíns til Rússlands  (Snyder 2018).

Maður sem jarmar um afnasistavæðingu er hliðhollur manni sem fagnaði valdatöku nasista! Annar „hugsuður“  sem tengist Pútín  er Alexander Dúgín en sá mun vera undir áhrifum frá illanum  Iljín.

Dólgurinn Dúgín boðar rússneskan fasisma segir í grein sem í enskri þýðingu heitir „Fascism-Borderless and Red“ (Dúgín 1997). Fasistinn elski hið brútala, ofurmannlega og englalega. Eðli fasismans sé nýtt stigveldi, nýr aðall. Um leið sé margt í stefnu hans sósíalískt, Hitler og Mússólíní hafi mistekist m.a. vegna þess að þeir voru of vinsamlegir auðhringjum og borgaralegum öflum. Rússneski fasisminn eigi að forðast þau mistök og aðlaga stjórnarfarið rússneskum aðstæðum.

Svo  segir í enskri þýðingu á grein hans: „In distinction  to rigid Marxist-Leninist dogmas, Russian national socialism proceeds from an understanding of social justice which is characteristic exactly for our nation, for our historical  traditions, our economic ethics“ (Dúgín 1997).

Pútín hefði ekki skrifað undir þetta þar eð hann varði markaðskerfið í rökræðum við kommúnista þegar hann var forsætisráðherra (skv Hill og Gaddy 2015). Hans zar-fasismi er hægriútgáfan með áherslu á andúð á kynhverfum, jákvæðri mynd af keisarastjórninni og rétttrúnaðarkirkjunni.

Rússneska „byltingin“ og  sjálfsmark marxismans

Á zar-fasisminn  sér einhverjar rætur í Sovétkommúnismanum?  Pútín var alltént KGB-maður.

Sovétkommúnismann má telja eina birtingarmynd  Moskvuríkisins. Hann var afurð byltingar, réttar sagt valdaráns atvinnubyltingarmanna.

En ekki náði hún þeim markmiðum sínum að gera menn frjálsa, færa alþýðunni völd og allsnægtir. Öðru nær, hún leiddi til villimannlegrar kúgunar og efnahagslegrar eymdar.

Karl Marx er ekki saklaus af þessu, hin sovéska kúgun var sjálfsmark marxismans. Hann og Engels segja í Kommúnistaávarpinu að í sósíalismanum yrði að stofna landbúnaðar- og iðnaðarheri, miðstýra hagkerfinu og koma á vinnuþvingun (þ. Arbeitszwang, rangþýtt á íslensku sem vinnuskylda) (Marx og Engels 2008, Marx 1969).

Spurt er: Hver á að sjá um heragann og vinnuþvingunina? Getur miðstýring ekki leitt til alveldis?

Í öðru riti segir Marx að í sósíalismanum eigi menn að fá kvittun fyrir vinnustundum, gegn framvísun hennar eigi þeir að fá úthlutað vörum sem kostað hefur álíka vinnustundir að framleiða (Marx 1968).

Spyrja má hvort kerfi þetta getur virkað án viðamikils skrifræðis (sjá miklu nánar Stefán Snævarr 2021: 186-235).

Af þessu má sjá að Karl Popper hafði á röngu standa er hann taldi að Marx hefði ekki haft tiltölulega skýrar hugmyndir um hvernig sósíalisminn myndi arta sig (Popper 1971).

Til að gera illt verra hvöttu þeir Marx og Engels  í öðru riti byltingarmenn til að stunda hryðjuverk (Marx og Engels 1850). Engels talaði innfjálgur um glæsiárið 1793 í frönsku byltingunni (…des glorreichen Jahres 1793“) (Engels 1959). Það var ár ógnarstjórnarinnar, er svo að skilja að hann hafi talið hana til fyrirmyndar? (sjá nánar Stefán Snævarr 2013: 39-49).

Marxískir byltingarmenn voru miklir bókstafstrúarmenn og virðast hreinlega hafa farið eftir bókstafnum í Kommúnistaávarpinu og Byltingarávarpinu. Í desember 1917 bönnuðu bolsévíkar verkföll, í janúar 1918 ráku þeir lýðræðislega kjörið þing heim.

Þá kann einhver að segja að Sovétríkin hafi verið fórnarlamb vestræns samsæris, eins og Steinn Steinarr orti  “Og þótt þú tapir, það gerir ekkert til/því það var nefnilega vitlaust gefið” (Steinn Steinarr 1991: 164).  

Þetta er ekki sennileg tilgáta, m.a. vegna þess að þátttaka Vesturveldanna í   borgarastyrjöldinni  (íhlutunarstríðið)  var fálmkennd og illa skipulögð. Hefði verið um samsæri ræða þá hefði þátttaka þeirra ekki verið svo fálmkennd.

Auk þess  bendir flest til að hinar fámennu vestrænu hersveitir hafi ekki ofreynt sig á þátttöku í átökunum  (samkvæmt t.d.  Flake 2019: 549-552). Í einu tilviki munu bolsévíkar í tiltekinni rússneskri borg hafa beðið bandamenn um aðstoð.

Í ofan á lag bárust Evrópuríkin á banaspjótum og gátu ekki aðstoðað andbyltingarmenn mikið þótt þau hefðu fegin viljað  (Þjóðverjarnir voru sennilega hæst ánægðir með Bolsévíkastjórnina þar eð hún  hafði dregið Rússland út úr stríðinu).

Þessi ríki voru örmagna eftir fyrri heimsstyrjöld og í Bandaríkjunum óx einangrunarsinnum ásmeginn. Kanar ofreyndu sig ekki á þátttöku í íhlutunarstríðinu  enda önnum kafnar við að fækka mjög í herliði sínu.

Bæta má við að marxistinn Rosa Lúxembúrg kvartaði yfir skorti á tjáningarfrelsi í Rússlandi þegar haustið 1918 og ári seinna fordæmdi annar marxisti, Karl Kautsky,  bolsévíka fyrir kúgun og yfirgang. Þeim láðist að nefna hið meinta vestræna samsæri, kannski af því að ekkert slíkt hafi verið framið  (Lúxembúrg 1967: 108–114)(Kautsky 1967: 118–123).

Nefna má að anarkistinn Mikael Bakúnín spáði því árið 1872 að marxísk bylting myndi leiða til valdatöku menntamanna og hrikalegrar kúgunar (Bakúnín 1872). Engu líkara er en að sagnarandi hafi komið yfir hann.

Auðvitað kom fleira til en sjálfsmark marxismans. Lenín taldi að verkamenn gætu aldrei öðlast meira en fagfélagsvitund, atvinnubyltingarmenn yrðu að hafa vit fyrir þeim og veita þeim forystu. Í byltingarflokknum skyldi ríkja stigveldi.

Þegar í byrjun tuttugustu aldar gagnrýndi Lev Trotskí flokksskipun Leníns harkalega (Trotskí 1967: 62–65). Fyrst myndi miðstjórnin taka völdin í flokknum, þá aðalritarinn völdin yfir henni og samfélaginu öllu. Hann reyndist sannspár.

Deila má um hvort flokkshugmyndir Leníns hafi verið marxískrar ættar. Voru þær kannski fremur í anda hins rússneska stjórnlyndis? En hafi Bakúnín á réttu að standa má ætla að Marx hafi sáð fræjum flokkshugmyndanna. Alltént hefur skortur Rússa á frjálslyndum hefðum gert illt verra í Sovétríkjunum sálugu.

Öll vötn féllu að sama firðinum. 

Lokaorð

Bændur voru enn kúgaðri í Rússlandi en víðast í Evrópu, landið miðstýrðara,  ósnortið af endurreisninni, heimsveldisþættir í hugsun margra andans manna  og valdsmenn haldnir heimsfrelsunardellu.

Slíkt og þvílíkt veit ekki á gott, það kann að hafa átt þátt í kúgun kommúnistaáranna þótt veilur marxismans og lenínismans hafi valdið miklu um hana.

Nýjasta birtingarmynd rússnesku kúgunarhefðarinnar  er hinn heimsveldissinnaði zar-fasismi Pútíns.

 

Heimildaskrá:

Bakúnín, Mikael 1872: „On the International Workingmen‘s Association and Karl Marx“, https://www.marxists.org/reference/archive/bakunin/works/1872/karl-marx.htm. Sótt 11/4 2023.

Dúgín, Alexander 1997: „Fascism-Borderless and Red“ https://www.linkedin.com/pulse/syrizas-moscow-connection-fascism-borderless-red-dugin-umland   Sótt 9/4 2022.

Engels, Friedrich 1959: “Der magyarische Kamp”, Neue rheinische Zeitung, Nr 194, 13/1 1849, í Karl Marx-Friedrich Engels: Werke. Band 6. Berlin/DDR: Dietz Verlag, bls. 165–173.

Flake, Lincoln  2019: Nonsense from the beginning o.s.frv.“ The Journal of Slavic Military Studies, Vol. 32, Issue 4, bls. 549-552, https://www.tandfonline.com/doi/full/10.1080/13518046.2019.1690189

Hill Fiona og Gaddy, Clifford 2015:  Mr. Putin: The Operative in the Kremlin. The Brooking Institution.

Hoskins, Geoffrey 2012: Russian History: A Very Short Introductionþ Oxford: Oxford University Press.

Jóhannes Björn Lúðvíksson 1979: Falið vald. Reykjavík: Örn og Örlygur.

Kautsky, Karl 1967: „Kommunisme og terror“ (þýð. óþekktur), Jens A. Christophersen (ritstj.) Bolsjevikrevolusjonen 1917. Ósló: Pax forlag, bls. 118–123.

Lunde, Ingunn 2023: „Imperiets diktere“, Morgenbladet, Nr. 1, 6-12 janúar.

Lúxembúrg, Rósa 1967: „Den russiske revolusjon“ (þýð. óþekktur), Jens A. Christophersen (ritstj.) Bolsjevikrevolusjonen 1917. Ósló: Pax forlag, bls. 108–114. ´

Marx, Karl og Engels, Friedrich 1850: “Address of the Central Commitee to the Communist League”, http//www.marxists.org/archive/marx/works/1847/communist–league/1850-ad 1.htm. Sótt 25/2 2011.

Marx, Karl 1968: “Athugasemdir við stefnuskrá þýzka verkamannflokksins”. Þýðandi Brynjólfur Bjarnason. Úrvalsrit.  2 bindi. Reykjavík: Heimskringla, bls. 314–331.

Marx, Karl  1969: Manifest der kommunistischen Partei. München Wilhelm Fink Verlag (af einhverjum ástæðum er þessi útgáfa eignuð Marx einum) (upprunalega gefin út 1850/1851).

Marx, Karl og Engels, Friedrich  2008: Kommúnistaávarpið (þýðandi Sverrir Kristjánsson) Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag (upprunalega gefin út 1948).

Plokhy, Serhii 2016: The Gates of Europe. A History of Ukraine. Harmondsworth: Penguin.

Popper, Karl  1971:  The Open Society and its Enemies. Volume II: Hegel and Marx. Princeton, New Jersey: Princeton University Press.

Snyder, Timothy 2018: The Road to Unfreedom. Russia. Europe. America. New York: Duggan Books. 

Stefán Snævarr 2013: ”Marx og Engels: Þjóðir og alþjóðaremba“, Þjóðmál  nr. 2, 9. árg., bls. 39-49.

Stefán Snævarr 2021: Bivrøst. Funderinger og grublerier. Oslo: Kolofonforlaget.

Steinn Steinarr 1991: Að sigra heiminn, í Ljóðasafni. Reykjavík: Vaka-Helgafell.

Trotskí, Lev 1967: „Klassens førstefødselsrett“ (þýð. óþekktur),  Jens A. Christophersen (ritstj.) Bolsjevikrevolusjonen 1917. Ósló: Pax forlag, bls. 62–65.

Um íhlutunarstríðið https://en.wikipedia.org/wiki/Allied_intervention_in_the_Russian_Civil_War

Um circassian þjóðina https://en.wikipedia.org/wiki/Circassian_genocide

Um Ivan Iljín https://en.wikipedia.org/wiki/Ivan_Ilyin

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Sný aftur!

Jæja, þá sný ég aftur á bloggsíðu Moggans eftir 14 ára hlé. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband